Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-171

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Þórði Juhasz (Sigurður Sigurjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 29. apríl 2019 leitar Þórður Juhasz eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í málinu nr. 368/2018: Ákæruvaldið gegn Þórði Juhasz, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur að ekki séu efni til að verða við beiðninni.

 Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella leyfisbeiðanda fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ekið með brotaþola, þegar hún var 14 ára, á afvikinn stað og þar kysst hana og látið hana hafa við sig munnmök. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði auk þess sem honum var gert að greiða brotaþola 1.600.000 krónur í miskabætur. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann til þess að ekki hafi verið sannað að hann hafi beitt brotaþola nauðung og því verði háttsemi hans ekki felld undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafi honum ekki verið kunnugt um aldur brotaþola þegar atvik áttu sér stað og því sé ekki um að ræða ásetningsbrot gegn 1. mgr. 202. gr. sömu laga. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé rangur að því er varðar ákvörðun refsingar og einkaréttarkröfu brotaþola.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni eða af öðrum ástæðum sé mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.