Hæstiréttur íslands
Mál nr. 306/2013
Lykilorð
- Kærumál
- EFTA-dómstóllinn
- Slit
- Kröfulýsingarfrestur
- Ráðgefandi álit
|
|
Föstudaginn 10. maí 2013. |
|
Nr. 306/2013.
|
Landesbank Baden-Württemberg (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) gegn Glitni hf. (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) |
Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Slit. Kröfulýsingarfrestur. Ráðgefandi álit.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni L um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. L hafði lýst kröfu við slit fjármálafyrirtækisins G hf. og var deilt um við hvaða dag skyldi miða upphaf slitameðferðarinnar. Talið var að ákvæði íslenskra laga væru skýr og afdráttarlaus um að upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja í stöðu G hf. skyldi miðast við tiltekinn dag. Spurningar þær sem L óskaði eftir að yrðu bornar undir EFTA-dómstólin snertu ekki vafa um túlkun laga heldur hvort íslensk lög samræmdust EES-rétti. Þar sem um væri að ræða mál milli tveggja lögaðila réðist niðurstaða þess af íslenskum réttarreglum. Í ljósi þessa varð ekki séð að svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum sem L vildi fá svarað gætu haft þýðingu við úrlausn málsins. Var kröfu L því hafnað
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2013 þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1991 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að leitað verði ráðgefandi álits og nánar tilteknar spurningar lagðar fyrir EFTA-dómstólinn. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Landesbank Baden-Württemberg, greiði varnaraðila, Glitni hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2013.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila til dómsins með bréfi sem barst héraðsdómi 16. mars 2012. Var um heimild til að leita úrlausnar dómsins vísað til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 11. apríl 2012.
Sóknaraðili er Landesbank Baden-Württemberg, Am Hauptbahnhof 2, Stuttgart, Þýskalandi, en varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.
Dómkrafa sóknaraðila er að kröfur hans, samtals að fjárhæð 5.891.668.581 kr., verði viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar. Varnaraðili krefst þess aðallega að sú afstaða slitastjórnar varnaraðila, að taka kröfu sóknaraðila ekki inn á kröfuskrá og hafna henni, verði staðfest. Til vara krefst varnaraðili þess að fjárkröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi en til þrautavara að kröfufjárhæð sóknaraðila verði lækkuð og dráttarvaxtakröfu hans alfarið hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
Í þinghaldi í máli þessu 19. febrúar sl. lagði lögmaður sóknaraðila fram beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á túlkun ákvæðis 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Orðrétt er þar farið fram á að leitað verði álits á eftirfarandi spurningum:
a. Samræmist það EES rétti, sérstaklega ákvæði 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, að setja ákvæði í lög EES ríkis, sem heimila að upphaf slitameðferðar verði ákveðið með lagasetningu, þ.e. án dóms eða stjórnvaldsákvörðunar?
b. Samræmist það EES rétti, sérstaklega ákvæði 9. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, að setja ákvæði í lög EES ríkis, sem heimila fjármálafyrirtækjum að óska afturvirks dómsúrskurðar um ákvörðun upphafs slitameðferðar, sem leiðir til þess að kröfulýsingarfrestur í viðkomandi þrotabú mun hafa liðið áður en slíkur úrskurður er kveðinn upp?
Aðilum var gefinn kostur á að tjá sig um fram komna beiðni þann 27. mars sl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans. Þá krefst hann málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins en til vara að ákvörðun um málskostnað bíði dóms í málinu. Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila verði hafnað. Hann gerir ekki kröfu um málskostnað vegna þessa þáttar málsins en óskar eftir því að tillit verði tekið til hans við efnismeðferð málsins.
Að loknum munnlegum málflutningi var málið tekið til úrskurðar um beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, ásamt kröfu hans um málskostnað af því tilefni.
Málsatvik
Beiðni sóknaraðila um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins snertir þann ágreining sem er milli aðila um upphaf slitameðferðar varnaraðila. Sóknaraðili telur að upphaf slitameðferðarinnar skuli miðast við 22. nóvember 2010 en varnaraðili miðar við 22. apríl 2009.
Þann 22. apríl 2009 tóku gildi lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í 5. gr. laganna, sem varð að 101. gr. laga nr. 161/2002, er fjallað um skilyrði og upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja. Í ákvæði til bráðabirgða II, sem varð að ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 161/2002, er mælt fyrir um sérreglur um fjármálafyrirtæki sem nutu heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laganna, en það átti við um varnaraðila, sem fékk heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2008. Í 2. tölul. ákvæðisins kemur fram að við greiðslustöðvun slíkra fyrirtækja skuli beitt nánar tilteknum ákvæðum laga nr. 161/2002 eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lögin öðlist gildi, en það gerðist sem fyrr segir hinn 22. apríl 2009. Í ákvæðinu segir síðan að slitameðferðin skuli allt að einu kennd við heimild til greiðslustöðvunar, svo lengi sem sú heimild standi, en þegar hún renni sitt skeið á enda skuli fyrirtækið án sérstaks dómsúrskurðar sjálfkrafa teljast vera til slitameðferðar eftir almennum reglum, sbr. þó 3. og 4. tölul. sama ákvæðis.
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn þann 12. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í fyrra sinni í Lögbirtingablaði þann 26. maí 2009, og var kröfulýsingarfrestur samkvæmt henni sex mánuðir. Hinn 19. maí 2010 lýsti sóknaraðili tveimur almennum kröfum, sem mál þetta lýtur að, samtals að fjárhæð 5.891.668.581 kr. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunum þar sem fresti til að lýsa kröfum hefði lokið 26. nóvember 2009. Kröfunum hefði því verið lýst of seint og væru þær niður fallnar samkvæmt 1. mgr. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Hinn 16. nóvember 2010 samþykkti Alþingi lög nr. 132/2010, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Með 2. gr. laganna var 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V í lögum nr. 161/2002 breytt og kveðið á um að áður en heimild til greiðslustöðvunar rynni út gætu skilanefnd og slitastjórn sameiginlega gert kröfu um að fyrirtækið yrði tekið til slitameðferðar eftir almennum reglum, sbr. þó 3. og 4. tölul. ákvæðisins, með dómsúrskurði, enda væru uppfyllt efnisskilyrði 3. tölul. 2. mgr. 101. gr. laganna. Í ákvæðinu segir jafnframt: „Fallist dómur á kröfuna skal það standa óraskað sem gert hefur verið í greiðslustöðvun fyrirtækisins eftir gildistöku laga nr. 44/2009. Að því leyti sem rétthæð krafna og önnur réttaráhrif ráðast almennt af þeim degi er úrskurður um slitameðferð gengur skal á sama hátt miða við gildistökudag þeirra laga.“
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 18. nóvember 2010, kröfðust skilanefnd og slitastjórn varnaraðila þess að varnaraðili yrði tekinn til slitameðferðar með þeim réttaráhrifum sem leiddu af 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V laga nr. 161/2002, sbr. 2. gr. laga nr. 132/2010. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 var fallist á kröfuna. Í forsendum úrskurðarins segir m.a.:
Lög nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002, tóku gildi 22. apríl 2009. Samkvæmt lögunum er það almenna reglan, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009, að slitameðferð fjármálafyrirtækis skal ákveðin með dómsúrskurði. Með bráðabirgðaákvæðum laga nr. 44/2009 var sett sérregla um upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja, sem hafði verið skipuð skilanefnd fyrir gildistöku laganna. Slitameðferð Glitnis hófst því 22. apríl 2009 og skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur bankanum slitastjórn með bréfi dags. 12. maí 2009.
Um 2. gr. laga nr. 132/2010 segir m.a. í úrskurðinum:
Skilja verður ákvæði þetta svo að úrskurður um slitameðferð sé nauðsynlegur til þess að slitameðferð verði haldið áfram eftir að greiðslustöðvun lýkur, en jafnframt er slíkur úrskurður þá staðfesting þess sem þegar hefur verið gert samkvæmt beinum fyrirmælum laga nr. 44/2009. Úrskurður þess efnis sem hér er gerð krafa um hefur réttaráhrif frá því að lög nr. 44/2009 tóku gildi.
Í úrskurðarorðum segir að varnaraðili sé „tekinn til slitameðferðar samkvæmt B hluta XII. kafla laga nr. 161/2002, sbr. 3. og 4. tl. ákvæðis V til bráðabirgða í sömu lögum, með þeim réttaráhrifum sem leiða af 2. tl. sama ákvæðis, sbr. 2. gr. laga nr. 132/2010“.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila í þessum þætti málsins
Sóknaraðili heldur því fram að upphaf slitameðferðar varnaraðila skuli miðast við úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. nóvember 2010, sbr. m.a. ákvæði 5. gr. laga nr. 44/2009 og 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Því hafi hinum umdeildu kröfum sóknaraðila verið lýst í tæka tíð, enda hafi lögmæt slitameðferð ekki verið hafin er þeim var lýst. Sóknaraðili telur nauðsynlegt, svo unnt verði að leysa úr ágreiningi aðila um lögmætan upphafsdag slitameðferðar og þar með ágreiningi um kröfur sóknaraðila, að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á túlkun EES-réttar, sérstaklega ákvæði 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB.
Sóknaraðili vísar til þess að með ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hafi ákvæði tilskipunar 2001/24/EB verið innleidd í íslenskan rétt, en tilskipunin setji fram meginreglur um einsleitt regluverk innan Evrópska efnahagssvæðisins hvað varði slitameðferðir fjármálafyrirtækja. Hinn 22. apríl 2009 hafi lög nr. 44/2009, um breytingar á lögum nr. 161/2002, tekið gildi og samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II skyldi líta svo á að varnaraðili væri tekinn til slitameðferðar frá þeim degi. Þar með hafi varnaraðili talið upphaf slitameðferðarinnar miðast við gildistökudag laga nr. 44/2009. Þetta leiði til þess að upphaf slitameðferðarinnar hafi verið ákvarðað með löggjöf, en ekki dómsúrskurði, líkt og gerð sé krafa um í 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Þar segi: „Stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaaðildarríkis, sem bera ábyrgð á slitum, skulu ein hafa vald til þess að ákveða að slitameðferð lánastofnunar skuli hefjast, þ.m.t. fyrir útibú með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.“ Sóknaraðili telur því að upphaf slitameðferðar varnaraðila gangi gegn ákvæði 5. gr. laga nr. 44/2009 og sérstaklega ákvæði 9. gr. tilskipunarinnar, þar sem upphaf slitameðferðarinnar hafi ekki verið ákvarðað með dómsúrskurði.
Sóknaraðili heldur því einnig fram að ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009 sé óbindandi og gangi gegn ákvæðum EES-réttar. Þá séu lög nr. 132/2010, sem breyttu lögum nr. 44/2009, sem og úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010, sem staðfesti að upphaf slitameðferðar varnaraðila væri 22. apríl 2009, ólögmæt og fari gegn ákvæðum EES-réttar. Af forsendum úrskurðarins sé ljóst að hann hafi falið í sér afturvirk áhrif sem leyfðu áframhald slitameðferðar sem hófst án dómsúrskurðar. Sóknaraðili telur einnig að skipun slitastjórnar þann 12. maí 2009 geti ekki talist marka upphaf slitameðferðar, m.a. í ljósi þess að slitastjórn var eingöngu skipuð með bréfi en ekki dómsúrskurði, en upphaf slitameðferðar skuli ákvarðað með dómsúrskurði samkvæmt íslenskum lögum.
Sóknaraðili vísar til þess að tilskipun 2001/24/EB geri greinarmun á ráðstöfunum vegna endurskipulagningar annars vegar og slitameðferðum hins vegar. Telur hann ljóst að greiðslustöðvun varnaraðila hafi falið í sér endurskipulagningarráðstöfun í skilningi tilskipunarinnar og vísar til þess að engar aðgerðir hafi átt sér stað fram að dómsúrskurðinum 22. nóvember 2010 sem leitt gátu til þess að varnaraðili væri tekinn til slitameðferðar. Af þeim sökum hafi allar aðgerðir fyrir umræddan dómsúrskurð í raun verið ráðstafanir vegna endurskipulagningar í skilningi tilskipunarinnar og geti því ekki talist til slitameðferðar. Fullyrðingar um upphaf slitameðferðar fyrir 22. nóvember 2010 eigi sér engan lagalegan grundvöll.
Sóknaraðili vísar til þess að dómsúrskurðurinn frá 22. nóvember 2010 geti ekki haft afturvirk áhrif enda sé óformleg slitameðferð ekki til. Þá geti kröfulýsingarfrestur ekki liðið áður en varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar. Framkvæmd varnaraðila fara í bága við meginreglur tilskipunar 2001/24/EB og hafi um leið svipt EES-borgara réttindum sínum samkvæmt EES-rétti.
Sóknaraðili vísar til þess að meginágreiningur aðila snúi að því hvernig og hvenær slitameðferð varnaraðila hófst. Íslenskri löggjöf um upphaf slitameðferðar sé ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar 2001/24/EB um sama efni. Svo unnt verði að leysa úr ágreiningi aðila sé þörf á því ráðgefandi áliti sem farið sé fram á. Sóknaraðili leggur áherslu á þá meginreglu að íslensk lög skuli túlkuð til samræmis við EES-rétt, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, og vísar einnig til bókunar 35 við EES-samninginn, 1. mgr. 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Kveður sóknaraðili að ráðgefandi álit geti verið afar mikilvægt í málinu, í ljósi þess að lagaleg óvissa ríki um túlkun EES-réttar hvað varði upphaf slitameðferðar varnaraðila og gildandi fordæmisréttur EFTA-dómstólsins og Evrópudómstólsins leysi ekki úr þeirri óvissu.
Málsástæður og lagarök varnaraðila í þessum þætti málsins
Varnaraðili mótmælir beiðni sóknaraðila. Telur hann þær spurningar sem sóknaraðili óskar álits á ómarkvissar og ekki hafa neina þýðingu fyrir mál þetta. Hvert sem svarið kunni að vera við spurningunum breyti það ekki þeirri staðreynd að þau lagaákvæði sem varnaraðili byggi afstöðutöku sína á séu skýr um upphafsdag slitameðferðar og réttaráhrif vanlýstra krafna.
Varnaraðili vísar til þess að tilskipanir sem teknar hafa verið upp í landsrétt hafi ekki bein réttaráhrif hér á landi. Ekki sé með neinum hætti hægt að túlka ákvæði 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB þannig að það hafi áhrif á þau ákvæði sem sett voru með lögum nr. 44/2009 og 132/2010. Sóknaraðili sé því beinlínis að fara fram á að dómstóll endursemji ákvæði íslenskra laga á grundvelli túlkunar á EES-rétti. Vísar sóknaraðili til 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og til dóms EFTA-dómstólsins 28. september 2012 í máli nr. E-18/11. Ákvæði 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB geti ekki gengið framar hinu skýra ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009. Spurningar sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, enda sé ráðgefandi álit ekki nauðsynlegt. Þá bendir varnaraðili á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-rétt, en hér geti áðurnefnd tilskipun engin áhrif haft á áðurnefnt ákvæði laga nr. 44/2009.
Varnaraðili bendir á að þegar landsreglur stangist á við efni tilskipana, sem öðlast hafa gildi að EES-rétti, geti stofnast skaðabótaskylda á hendur ríkinu. Beiðni sóknaraðila hafi hins vegar enga sjálfstæða þýðingu í því máli sem hér sé rekið. Málið ráðist af íslenskum lagareglum sem kveði skýrt á um upphaf slitameðferðar varnaraðila þann 22. apríl 2009. Varnaraðili vísar einnig til meginreglna gjaldþrotalaga um hraða málsmeðferð og jafnræði kröfuhafa. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins geti einungis tafið málareksturinn og þannig farið gegn meginreglunni um hraða málsmeðferð, auk þess sem það myndi fara gegn meginreglunni um jafnræði ef aðrar reglur ættu að gilda um kröfu sóknaraðila en aðrar kröfur.
Niðurstaða
Aðilar málsins deila um hvort tveimur kröfum sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila hafi verið lýst of seint og séu niður fallnar. Sóknaraðili, sem lýsti umræddum kröfum þann 19. maí 2010, byggir á því að upphaf slitameðferðarinnar skuli miðast við 22. nóvember 2010. Varnaraðili hefur hins vegar miðað við 22. apríl 2009 sem upphafsdag og byggir það á ákvæðum laga nr. 44/2009 og 132/2010, sbr. og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010. Sú beiðni sóknaraðila sem hér er tekin til úrskurðar er sett fram með vísan til framangreinds ágreinings aðila um upphafsdag slitameðferðar varnaraðila, en með beiðninni fer sóknaraðili fram á að óskað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á túlkun ákvæðis 9. gr. tilskipunar 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Þær spurningar sem sóknaraðili óskar álits á eru raktar að framan. Þær lúta að því hvort það samræmist EES-rétti, sérstaklega 9. gr. framangreindrar tilskipunar, að setja nánar tiltekin ákvæði í lög EES-ríkis, annars vegar ákvæði sem heimili að upphaf slitameðferðar verði ákveðið með lagasetningu en hins vegar ákvæði sem heimili fjármálafyrirtækjum að óska afturvirks dómsúrskurðar um ákvörðun upphafs slitameðferðar, sem leiði til þess að kröfulýsingarfrestur hafi liðið áður en úrskurðurinn er kveðinn upp.
Af 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er ljóst að ekki skal leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins nema þörf sé á því, við úrlausn á máli, að taka afstöðu til skýringar á EES-samningnum, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem þar er getið. Ber því aðeins að leita slíks álits ef ætla má að túlkun tiltekinna ákvæða EES-samningsins eða viðkomandi gerða Evrópusambandsins geti að einhverju eða öllu leyti breytt niðurstöðu í því ágreiningsmáli sem til meðferðar er. Þótt úrlausn um það hvort ráðgefandi álits skuli leitað feli ekki í sér niðurstöðu um efnisatriði máls leiðir af framangreindu að óhjákvæmilegt er að dómari taki í slíkri úrlausn að einhverju leyti afstöðu til þess hvaða þýðingu röksemdir aðila um beitingu EES-samningsins eigi að hafa í málinu, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar 16. febrúar 2012 í máli nr. 77/2012. Telji dómari að niðurstaða þess ágreinings sem um ræðir ráðist af réttarreglum landsréttar, sem séu svo afdráttarlausar að álit EFTA-dómstólsins um túlkun EES-réttar geti ekki haft áhrif á beitingu þeirra í málinu, er engin þörf á að slíks álits sé aflað. Hér vísast m.a. til dóms Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013, þar sem beiðni um ráðgefandi álit var hafnað, en þar er tekið fram, með vísan til dóms Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010, að þótt lögskýring samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast er unnt gefin merking sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu, geti slík lögskýring ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðum íslenskra laga.
Með lögum nr. 44/2009 voru gerðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í 5. gr. laganna, sem varð að 101. gr. laga nr. 161/2002, er fjallað um skilyrði og upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja. Í ákvæðinu felst að almenna reglan er sú að slitameðferð skal ákveðin með dómsúrskurði. Með ákvæði til bráðabirgða II, sem varð að ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 161/2002, voru hins vegar settar sérreglur um fjármálafyrirtæki sem nutu heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laganna. Þær sérreglur taka til varnaraðila, sem hafði fengið heimild til greiðslustöðvunar þann 24. nóvember 2008. Í 2. tölul. ákvæðisins kemur fram að við greiðslustöðvun slíkra fyrirtækja skuli beitt nánar tilteknum ákvæðum laga nr. 161/2002 eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lögin öðlist gildi. Lögin tóku gildi þann 22. apríl 2009.
Með lögum nr. 132/2010 voru gerðar breytingar á síðastgreindu ákvæði. Mælt var fyrir um möguleika skilanefndar og slitastjórnar til að krefjast þess sameiginlega að fyrirtækið yrði tekið til slitameðferðar með dómsúrskurði, svo sem nánar er lýst að framan. Í ákvæðinu segir einnig eftir umræddar breytingar: „Fallist dómur á kröfuna skal það standa óraskað sem gert hefur verið í greiðslustöðvun fyrirtækisins eftir gildistöku laga nr. 44/2009. Að því leyti sem rétthæð krafna og önnur réttaráhrif ráðast almennt af þeim degi er úrskurður um slitameðferð gengur skal á sama hátt miða við gildistökudag þeirra laga.“ Skilanefnd og slitastjórn varnaraðila fóru fram á slíkan dómsúrskurð, sem kveðinn var upp af Héraðsdómi Reykjavíkur þann 22. nóvember 2010, en forsendur úrskurðarins eru raktar að framan. Þar er m.a. vísað til þeirrar sérreglu um upphaf slitameðferðar, sem sett hafi verið með bráðabirgðaákvæðum laga nr. 44/2009, og að slitameðferð varnaraðila hafi því hafist 22. apríl 2009. Þá er tekið fram að úrskurður þess efnis sem krafa væri gerð um hefði réttaráhrif frá því að lög nr. 44/2009 tóku gildi, auk þess sem úrskurðarorðin vísa til þeirra réttaráhrifa sem leiða af 2. tölul ákvæðis V til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002, sbr. 2. gr. laga nr. 132/2010.
Telja verður fyrirmæli framangreindra lagaákvæða skýr og afdráttarlaus um að upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja í stöðu varnaraðila skuli miðast við gildistökudag laga nr. 44/2009, þ.e. 22. apríl 2009, hvað sem líður þeirri almennu reglu 5. gr. laganna sem gildir í öðrum tilvikum um upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja. Er áðurnefndur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 mjög afdráttarlaus um þetta atriði, auk þess sem byggt hefur verið á umræddum upphafsdegi í ýmsum síðari dómsúrlausnum er varða slitameðferð varnaraðila. Spurningarnar í beiðni sóknaraðila snerta í reynd ekki vafa um túlkun á efni framangreinds ákvæðis til bráðabirgða, heldur hvort lögfesting þess hafi samræmst EES-rétti. Mál þetta lýtur hins vegar ekki að þeirri bótakröfu á hendur íslenska ríkinu, sem sóknaraðili áskilur sér rétt til að hafa uppi, heldur er um að ræða mál sem rekið er á milli tveggja lögaðila samkvæmt 5. þætti laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og niðurstaða málsins um framangreint ágreiningsefni aðila ræðst af íslenskum réttarreglum.
Í ljósi framangreinds og með vísan til þess sem áður er rakið um 3. gr. laga nr. 2/1993 verður ekki séð hvernig svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum sem fram koma í beiðni sóknaraðila geti leitt til þess að þrátt fyrir hin skýru fyrirmæli 2. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V í lögum nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009 og 132/2010, verði miðað við annan upphafsdag í máli þessu en þar greinir og lagður hefur verið til grundvallar í fyrri dómsúrlausnum. Samkvæmt því verður ekki séð að svör EFTA-dómstólsins við þeim spurningum, sem sóknaraðili vill fá svarað, geti haft þýðingu við úrlausn máls þessa. Brestur því skilyrði samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1994 til að óska ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu á spurningunum.
Beiðni sóknaraðila um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er samkvæmt þessu hafnað. Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.
Úrskurð þennan kveður upp Eiríkur Jónsson, settur héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Beiðni sóknaraðila, Landesbank Baden-Württemberg, um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli þessu, er hafnað.
Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu málsins.