Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. maí 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. maí 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að varnaraðila verði gert að sæta farbanni.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. maí 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, fæddur [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 5. júní nk., kl. 16:00.
Varnaraðili hafnar kröfu lögreglustjóra. Hann krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að lögreglustjóri hafi haft, fyrir milligöngu alþjóðadeildar Ríkislögreglustjóra, beiðni hollenskra yfirvalda í gegnum Schengen upplýsingakerfið (SIS smellur) um handtöku X, með það fyrir augum að hann verði framseldur til Hollands. Þá hafi lögreglustjóra borist beiðni frá dómsmálaráðuneyti Hollands þar sem óskað sé eftir handtöku X og annarri réttaraðstoð. Jafnframt er tilkynnt í bréfinu að hollensk yfirvöld muni krefjast framsals í kjölfar handtöku. Þá hafi hollensk yfirvöld sent dómsmálaráðuneytinu réttarbeiðni þar sem óskað sé eftir réttaraðstoð við rannsókn málsins og hafi ríkissaksóknari sent lögreglu fyrirmæli um rannsókn til öflunar og haldlagningu sönnunargagna í málinu. Von sé á frekari réttarbeiðnum að utan vegna rannsóknar málsins, m.a. skýrslutöku af varnaraðila vegna brotsins og vitnum.
Samkvæmt gögnum málsins hafi neyðarkall borist frá skipinu [...] 5. maí sl., kl. 22:12 sem þá hafi verið statt undan ströndum Skotlands. Skipið sé skráð undir hollenskum fána. Samkvæmt neyðarkallinu, sem barst strandgæslu Skotlands, hafi verið óskað eftir læknisaðstoð þar sem [...] ára áhafnarmeðlimur hafi verið stunginn með hnífi af öðrum áhafnarmeðlimi eftir átök um borð. Hafi brotaþoli verið fluttur með þyrlu á sjúkrahús í Stornoway í Skotlandi. Skipið, sem hafi verið á leið frá [...] í Hollandi til Íslands, hélt óbreyttri stefnu og kom til Íslands í gærkvöld. Handtökubeiðni hollenskra yfirvalda hafi borist lögreglu 7. maí sl., og hafi varnaraðili handtekinn kl. 21:45 um borð í skipinu.
Samkvæmt framburði brotaþola, A, sem sé rússneskur ríkisborgari, hafi hann verið á vakt umrætt sinn. Í messanum hafi verið staddir fimm áhafnarmeðlimir af [...] uppruna, m.a. varnaraðili. Hafi brotaþoli gert athugasemdir við reykingar þeirra í messanum. Í framhaldinu hafi varnaraðili farið og sótt tvo hnífa í eldhúsið og gert atlögu að brotaþola í framhaldinu. Brotaþoli hafi reynt að komast undan en varnaraðili náð honum og stungið hann í vinstri handlegg og í brjóst. Mikið hafi blætt en enginn komið honum til aðstoðar fyrr en hann hafi komist upp í skipsbrú þar sem skipstjórinn hafi hlúð að honum.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi sakborningur skýrt svo frá að hann kannist við brotið en beri því við að ásetningur hans hafi ekki staðið til þess, átök hefðu orðið á undan og hann gripið hníf vegna þess. Aðspurður kvaðst hann mótmæla framsali.
Varnaraðili sé [...] ríkisborgari og til að tryggja nærveru hans á meðan framsalsmál hans og beiðni hollenskra yfirvalda um réttaraðstoð sé til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum þyki nauðsynlegt að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til framsalsmálið sé til lykta leitt, enda megi ætla að hann muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan sakamálarannsókn, og eftir atvikum ákæru og fullnustu refsingar, sem bíði hans í Hollandi. Þá sé að mati lögreglu kominn fram rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið brot sem geti varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu samkvæmt íslenskum lögum og allt að ævilangri fangelsisrefsingu samkvæmt hollenskum lögum. Rannsókn málsins sé skammt á veg komin og ljóst að mati lögreglu að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en meðal annars eigi eftir að yfirheyra sakborning um sakarefni málsins, taka skýrslur af sjónarvottum og öðrum vitnum, og rannsaka ætlaðan brotavettvang. Mál þetta er því enn á það viðkvæmu stigi að hætt er við því að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 19. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er þess beðist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn er varnaraðili undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er skammt á veg komin og því ljóst að varnaraðili geti, haldi hann óskertu frelsi sínu, torveldað rannsókn málsins með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Varnaraðili er erlendur ríkisborgari án nokkurra tengsla við landið. Er fallist á það að hætta sé á því að varnaraðili muni reyna komast úr landi á meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu hér á landi og hjá stjórnvöldum. Handtaka varnaraðila var byggð á beiðni um réttaraðstoð frá dómsmálaráðuneyti Hollands sem einnig hefur tilkynnt að von sé á beiðni um að varnaraðili verði framseldur til Hollands. Þá liggur fyrir að óskað hefur verið eftir aðstoð við rannsókn málsins og hefur ríkissaksóknari falið lögreglu rannsókn, öflun og haldlagningu sönnunargagna í málinu. Að mati dómsins er fullnægt skilyrðum 19. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum og a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að fallast á kröfu lögreglustjóra með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, X, fæddur 1. mars 1978, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. maí nk., kl. 16:00.