Print

Mál nr. 215/2014

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Sératkvæði

                                     

Fimmtudaginn 18. desember 2014.

Nr. 215/2014.

Egill Einarsson

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Sunnu Ben Guðrúnardóttur

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

og gagnsök

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Sératkvæði.

E höfðaði mál á hendur S vegna nánar tilgreindra ummæla hinnar síðarnefndu á samskiptamiðlinum Facebook. Krafðist E þess að S yrði dæmd til refsingar vegna ummælanna svo og að þau yrðu dæmd dauð og ómerk. Þá krafðist hann miskabóta úr hendi S og kostnaðar af birtingu dóms í málinu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að E nyti þeirrar persónuverndar sem lög stæðu til hvort sem hann kæmi undir eigin nafni eða öðrum tilbúnum nöfnum, en að hann yrði að sama skapi að axla ábyrgð á því efni sem hann léti frá sér fara. Áður en hin ætluðu ærumeiðandi ummæli voru viðhöfð hefði E sjálfur hrundið af stað þjóðfélagsumræðu og því hefði S notið rýmkaðs frelsis til að tjá sig um E og skoðanir hans. Á hinn bóginn hefði S með ummælum sínum sakað E um nauðgun, sem samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga varðaði allt að 16 ára fangelsi. Ummælin hefðu þannig ekki falið í sér gildisdóm heldur staðhæfingu um að E hefði framið refsiverðan verknað. Þar sem umræddar sakir væru ósannaðar og S verið meðvituð um það hefðu ummælin falið í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð hans í merkingu 235. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar var ekki talið sannað að S hefði haft aðdróttun í frammi gegn betri vitund samkvæmt 1. mgr. 236. gr. sömu laga. Var refsikröfu E hafnað svo og kröfu hans um miskabætur og greiðslu kostnaðar við birtingu dóms í málinu í dagblaði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 17. janúar 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 5. mars sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 26. sama mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðaláfrýjandi krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmd til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttun með því að hafa viðhaft og birt opinberlega og gegn betri vitund nánar tilgreind ummæli á samskiptamiðlinum Facebook 22. nóvember 2012, svo og að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummælanna. Einnig krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2012 til 18. janúar 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 150.000 krónur til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði, svo og að henni verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 4. júní 2014. Hún krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

I

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi þar sem meðal annars kemur fram að tvær konur höfðu borið aðaláfrýjanda sökum um kynferðisbrot. Að lokinni rannsókn lögreglu voru bæði málin felld niður af hálfu ákæruvaldsins 15. júní og 15. nóvember 2012 á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem það, sem fram hafi komið við rannsóknina, væri ekki líklegt eða nægilegt til sakfellis. Í framhaldi af því mun áfrýjandi hafa borið fram kæru gegn konunum vegna rangra sakargifta á hendur sér, en það mál einnig verið fellt niður.

Aðaláfrýjandi hefur staðfastlega neitað að hafa gerst sekur um áðurgreind kynferðisbrot, þar á meðal gagnvart A sem var átján ára að aldri þegar hún kærði hann fyrir slíkt brot í sinn garð. Hinn 22. nóvember 2012 birtist á forsíðu fylgirits Morgunblaðsins, Monitor, mynd af aðaláfrýjanda í tilefni af viðtali við hann í ritinu þar sem hann var kynntur undir eigin nafni og sem einkaþjálfarinn Gillz. Í þessu viðtali var aðaláfrýjandi meðal annars spurður hvort það hefði aldrei hvarflað að honum að draga sig úr sviðsljósinu. Því svaraði hann: „Af hverju ætti ég að draga mig úr sviðsljósinu til lengri tíma, ég er saklaus af þessum viðbjóði sem ég var sakaður um. Það kemur náttúrulega ekkert til greina að ég láti nokkra vitleysinga og rangar sakargiftir stjórna lífi mínu.“ Nokkru síðar var aðaláfrýjandi spurður: „Kvöldið örlagaríka ferðu heim með töluvert yngri konu ásamt kærustunni þinni þar sem, samkvæmt þinni frásögn, þið sofið saman öll þrjú með samþykki allra. Vissulega átti slíkt ekki að rata í fjölmiðla en er slíkt kynlíf orðið eðlilegur hlutur í dag?“ Í lok svars við spurningunni komst aðaláfrýjandi svo að orði: „En stúlkan var inni á stað þar sem var 20 ára aldurstakmark og ég komst að því seinna að hún hafi verið 18 ára og það var ákveðið áfall, ég viðurkenni það.“ Aðspurður í beinu framhaldi hvort hann myndi ráðleggja ungum drengjum að stunda slíkt kynlíf svaraði aðaláfrýjandi: „Ég ráðlegg öllum að stunda það kynlíf sem þeim bara sýnist en þó með þeim fyrirvara að þeir séu vissir um að bólfélagarnir séu í lagi.“

Sama dag og blaðaviðtalið birtist, 22. nóvember 2012, var stofnuð á samskiptamiðlinum Facebook sérstök síða með yfirskriftinni „Gillz af forsíðunni – krefjum Monitor um afsökunarbeiðni“. Á síðunni voru lesendur hvattir til þess að senda ritstjóra Monitor bréf, sem þar var birt, þar sem skorað var á hann að biðjast formlega afsökunar „á þessu forsíðuviðtali“ í næsta tölublaði ritsins. Í kjölfarið spunnust miklar umræður á síðunni og sýndist þar sitt hverjum. Gagnáfrýjandi tók þátt í umræðunum og birti klukkan 17.21 þennan dag færslu sem tekin er upp í heild sinni í héraðsdómi. Þar var meðal annars að finna eftirgreind ummæli: „Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku ... Það má allveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem er dreyft út um allan bæ“.

Meðal gagna málsins er viðtal við A sem birtist í tímaritinu Nýju lífi í ágúst 2013. Í viðtalinu kvaðst hún hafa upplifað það, sem varð til þess að hún kærði aðaláfrýjanda fyrir kynferðisbrot, sem nauðgun af hans hendi og unnustu hans. Í framhaldi af birtingu viðtalsins birtist grein eftir aðaláfrýjanda á vefsíðunni Pressunni þar sem hann sagði að nánast allt sem A hafi greint frá hefði verið „ýkt, afbakað eða beinlínis rangt“. Birti hann ýmsar upplýsingar, máli sínu til stuðnings, þar á meðal gögn úr rannsókn lögreglu í tilefni af kæru hennar á hendur honum.

II

Krafa gagnáfrýjanda um sýknu er í fyrsta lagi reist á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er þeirri málsástæðu hennar hafnað.

Í annan stað krefst gagnáfrýjandi sýknu á þeim grundvelli að þau ummæli hennar, sem kröfur aðaláfrýjanda beinast að, séu vernduð af viðeigandi ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Engar þær aðstæður séu fyrir hendi í málinu sem réttlæti takmarkanir á því frelsi.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir að aðaláfrýjandi hafi áður en hann var kærður fyrir kynferðisbrot þau, sem að framan greinir, verið þjóðþekkt persóna, ekki síst fyrir framgöngu sína á opinberum vettvangi undir nafninu Gillz eða Gillzenegger, en undir því heiti hélt hann úti skrifum á netinu, gaf út bækur og myndir og kom fram í fjölmiðlum. Skoðanir aðaláfrýjanda sem þar birtust vöktu athygli, en voru jafnframt umdeildar, þar á meðal viðhorf hans til kvenna og kynfrelsis þeirra. Á skjölum málsins sést að fyrir kom að gagnrýni hans beindist að nafngreindum einstaklingum, gjarnan konum, og í sumum tilvikum mátti skilja orð hans svo að hann hvetti beinlínis til kynferðislegs ofbeldis gagnvart þeim. Aðaláfrýjandi hefur gjarnan réttlætt slíkt framferði með því að umfjöllunin hafi verið grín og þeir sem gagnrýnt hafi hana skorti kímnigáfu. Fallist er á með héraðsdómi að aðaláfrýjandi njóti þeirrar persónuverndar sem lög standa til, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, hvort sem hann kemur fram undir eigin nafni eða öðrum tilbúnum nöfnum. Að sama skapi verður hann að axla ábyrgð á því efni sem hann lætur frá sér fara, óháð því hvaða nafni hann kýs að kalla sig.

Þegar aðaláfrýjandi kom fram í áðurgreindu blaðaviðtali og viðhafði þar ögrandi, ef ekki niðrandi ummæli um aðra, þar á meðal A, hratt hann af stað þjóðfélagsumræðu og mátti jafnframt gera sér ljóst að ummæli hans kynnu að kalla á hörð viðbrögð frá þeim sem höfðu andúð á áðurgreindum viðhorfum hans. Gagnáfrýjandi nýtur tjáningarfrelsis á grundvelli 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og er réttilega komist að þeirri niðurstöðu í héraðsdómi að við þessar aðstæður hafi hún notið rýmkaðs frelsis til að tjá sig um aðaláfrýjanda og skoðanir hans.

Við úrlausn um það hvort í ummælum sé fólgin refsiverð aðdróttun í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að teknu tilliti til þess hvernig ákvæði 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafa verið skýrð af mannréttindadómstóli Evrópu, verður að taka afstöðu til þess hvort í þeim hafi falist gildisdómur eða staðhæfing um tiltekna staðreynd. Í dómaframkvæmd hefur mannréttindadómstóllinn gengið langt í þá átt að telja ummæli fela í sér gildisdóm, enda þótt þau taki mið af staðreyndum, og jafnframt litið svo á að slík ummæli rúmist innan tjáningarfrelsis ef sá, sem þau hafa beinst að, hefur gefið tilefni til þeirra, sbr. til dæmis dóm 13. nóvember 2003 í máli Scharsach og News Verlagsgesellschaft mbH gegn Austurríki. Í samræmi við þetta viðhorf dómstólsins komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í dómi 20. nóvember 2014 í máli nr. 214/2014 að ummæli sem viðhöfð voru um aðaláfrýjanda í tilefni af áðurgreindu blaðaviðtali við hann, þar sem enska orðinu „rapist“ hafði verið tvinnað saman við blótsyrði á ensku, hafi talist gildisdómur um hann og því verið innan marka tjáningarfrelsis stefnda í því máli eins og atvikum var háttað.

Þau ummæli í færslu gagnáfrýjanda á samskiptamiðlinum Facebook 22. nóvember 2012, sem kröfur aðaláfrýjanda beinast að, voru annars vegar að ekki væri um að ræða „árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku“ og hins vegar að gagnrýna mætti að „nauðgarar“ prýddu forsíður rita sem dreift væri um allan bæ. Að því gættu hver ummælin voru og hvert var tilefni þeirra gat engum dulist að þeim var beint gegn aðaláfrýjanda. Þótt sögnin „að nauðga“ hafi tvíþætta merkingu í íslensku fer ekki á milli mála að sé tekið svo til orða að einhver hafi nauðgað stúlku er verið að fullyrða að sá hinn sami hafi haft samfarir eða önnur kynferðisleg mök við stúlkuna gegn vilja hennar. Því verður að líta svo á að gagnáfrýjandi hafi sakað aðaláfrýjanda um nauðgun, sem samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga getur varðað allt að 16 ára fangelsi, þegar hún lét svo um mælt að hann hefði nauðgað unglingsstúlku, að því viðbættu að kalla hann nauðgara. Allir sem textann lásu gátu gert sér eða máttu gera sér þetta ljóst, sbr. hins vegar dóm mannréttindadómstóls Evrópu 21. október 2014 í máli Erlu Hlynsdóttur gegn Íslandi þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að það hafi brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að líta á orðin „ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni við grunnskóla“ sem ólögmæta aðdróttun um refsivert athæfi. Í máli því sem hér er til úrlausnar var því um að ræða staðhæfingu um að aðaláfrýjandi hefði framið refsiverðan verknað, sem unnt er að færa sönnur á, en ekki einvörðungu gildisdóm um hann. Að því leyti eru atvik máls þessa önnur en í máli nr. 214/2014.

Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð fyrir dómi eða á annan lögmæltan hátt. Eins og áður greinir hafði mál aðaláfrýjanda vegna kæru A á hendur honum verið fellt niður þegar gagnáfrýjandi lét umrædd orð falla um hann þótt henni væri kunnugt um þau málalok. Þrátt fyrir að gagnáfrýjandi væri þannig meðvituð um að þær alvarlegu sakir sem hún bar á aðaláfrýjanda væru ósannaðar hafði hún þær engu að síður í frammi. Fólst því í ummælum gagnáfrýjanda ólögmæt aðdróttun í garð aðaláfrýjanda í merkingu 235. gr. almennra hegningarlaga og er þess vegna eins og í héraðsdómi fallist á kröfu hans um ómerkingu á ummælum hennar, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Aðaláfrýjandi heldur því ennfremur fram að gagnáfrýjandi hafi viðhaft ummælin um sig gegn betri vitund, sbr. 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga, en í því ákvæði eru gerðar strangari kröfur til ásetnings en leiðir af 18. gr. laganna. Samkvæmt því nægir ekki að ummæli séu ósönnuð til að þau falli undir ákvæðið, heldur verður sá sem þau lætur frá sér fara að vita eða að minnsta kosti að standa í þeirri trú að þau séu ósönn. Skilja verður málatilbúnað gagnáfrýjanda á þann veg að hún telji sig hafa haft ástæðu til að ætla, í ljósi þess hatursáróðurs sem hún kveður aðaláfrýjanda hafa staðið fyrir gegn ýmsum hópum, svo sem konum, að hann hafi gerst sekur um það brot gegn A sem hann hafði verið kærður fyrir, enda stóðu þar orð kærandans gegn orðum aðaláfrýjanda. Samkvæmt því verður ekki talið sannað í einkarefsimáli þessu að gagnáfrýjandi hafi haft hina ærumeiðandi aðdróttun í frammi gegn betri vitund í skilningi 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga.

Að virtri 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, með hliðsjón af sjónarmiðum um meðalhóf og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að hafna refsikröfu aðaláfrýjanda, svo og kröfum hans um miskabætur sér til handa og greiðslu kostnaðar við birtingu dóms í málinu í dagblaði. Samkvæmt því og öðru sem að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.  

Eftir þessum málsúrslitum er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður á sama hátt og í héraði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi og atkvæði meirihlutans eru tildrög máls þessa að 22. nóvember 2012 birtist í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins, viðtal við aðaláfrýjanda þar sem hann tjáði sig meðal annars um kærur tveggja kvenna sem borið höfðu hann sökum um kynferðisbrot. Málin höfðu verið felld niður af hálfu ákæruvaldsins 15. júní og 15. nóvember 2012 á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með vísan til þess að það sem fram hefði komið við rannsókn málanna væri ekki líklegt eða nægilegt til sakfellis. Í kjölfarið spruttu fram umræður um málefnið. Liður í þeim var stofnun sérstakrar síðu á samskiptamiðlinum Facebook með yfirskriftinni ,,Gillz af forsíðunni – krefjum Monitor um afsökunarbeiðni“ ásamt því sem birt var mynd af aðaláfrýjanda. Birti gagnáfrýjandi 22. nóvember 2012 færslu á umræðuþræðinum þar sem sagði meðal annars: „Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku ... Það má allveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíðu fjölrita sem dreyft er út um allan bæ“.

Ég er samþykkur þeirri niðurstöðu meirihluta dómenda að fyrrgreind ummæli hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttun í garð aðaláfrýjanda í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verða ummælin enda ekki skilin öðruvísi en svo að með þeim hafi gagnáfrýjandi borið aðaláfrýjanda á brýn að hafa nauðgað unglingsstúlku. Að virtum lyktum fyrrgreindra mála hjá ákæruvaldinu áttu ummælin sér enga stoð. Þá verður ekki séð að gagnáfrýjandi hafi allt að einu verið í góðri trú með framsetningu ummælanna, enda liggur fyrir að það var á almannavitorði að málin höfðu verið felld niður og voru ummælin raunar liður í umræðum á Facebook vegna þess. Á hinn bóginn verður ekki tekið undir með meirihluta dómsins að atvik þessa máls og þess sem um var að ræða í dómi Hæstaréttar 20. nóvember 2014 í máli nr. 214/2014 séu ósambærileg í verulegum atriðum. Líkt og í atkvæði mínu í því máli tel ég að ummæli gagnáfrýjanda varði við fyrrgreint ákvæði almennra hegningarlaga og verði ekki réttlætt með vísan til 73. gr. stjórnarskrárinnar eða 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framansögðu er ég sammála meirihluta dómenda um að ómerkja beri ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Ég tel jafnframt að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að taka til greina kröfu aðaláfrýjanda um miskabætur með 200.000 krónum og vöxtum eins og krafist er. Að virtri 73. gr. stjórnarskrárinnar verður á hinn bóginn ekki fallist á refsikröfu aðaláfrýjanda. Eins og atvikum máls er háttað tel ég heldur ekki rétt að fallast á fjárkröfu hans vegna birtingar dóms í dagblaði. Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 26. september sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Agli Einarssyni, Baugakór 9 í Kópavogi á hendur Sunnu Ben Guðrúnardóttur, Faxaskjóli 10, Reykjavík, með stefnu birtri 17. desember sl.

Stefnandi krefst þess að eftirfarandi ummæli sem stefnda viðhafði og birti um stefnanda á Facebook, 22. nóvember 2012, kl. 17:21 verði dæmd dauð og ómerk, sbr. 235. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. „Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku ... Það má allveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem er dreyft út um allan bæ ...“

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd refsing fyrir að hafa gegn betri vitund viðhaft og birt opinberlega ofangreind ummæli sem feli í sér ærumeiðandi aðdróttanir um stefnanda á Facebook, 22. nóvember 2012, kl. 17:21, en brot stefndu telst varða við 235. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tl. 1. mgr. 242. gr. sömu laga. Jafnframt krefst stefnandi miskabóta úr hendi stefndu að fjárhæð 1.000.000 króna með vöxtum skv. 1. ml. 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 22. nóvember 2012 til 18. janúar 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Enn fremur krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 150.000 kr. til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940.

Loks gerir stefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefndu og að við ákvörðun um málskostnað verði tekið tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefnda gerir aðallega kröfu um frávísun málsins en sýknu til vara. Í báðum tilvikum krefst hún greiðslu málskostnaðar og að við ákvörðun á fjárhæð hans verði tekið tillit til þess að stefnda er ekki virðisaukaskattskyld.

Frávísunarkröfu stefndu var hafnað með úrskurði dómsins þann 6. júní sl.

Atvik máls

Fimmtudaginn 22. nóvember 2012 birtist viðtal við stefnanda í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins. Í viðtalinu ræddi stefnandi opinskátt um sakamál þar sem hann var með réttarstöðu sakbornings vegna meintra kynferðisbrota. Upphaf rannsóknar mála á hendur stefnda hófst með því að stúlka lagði fram kæru á hendur honum um nauðgun sem sögð var hafa átt sér stað 25. nóvember 2011. Skömmu síðar lagði önnur kona fram aðra kæru á hendur stefnanda vegna sams konar brots. Bæði þessi mál voru felld niður með bréfum ríkisaksóknara, dags. 15. júní og 15. nóvember 2012. Í báðum tilvikum byggði ríkissaksóknari niðurstöðu sína um niðurfellingu á því að það sem fram hefði komið við rannsókn málanna væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Töluvert hörð viðbrögð urðu við þessu viðtali í samfélaginu. Sama dag og það birtist var stofnuð Facebook-síða (viðburður) með yfirskriftinni „Gillz af forsíðunni – krefjum Monitor um afsökunarbeiðni“ ásamt því sem birt var mynd af stefnanda. Á síðunni var birtingu viðtalsins við stefnanda mótmælt og skorað á ritstjóra Monitors að biðjast afsökunar á birtingu þess. Umfangsmiklar umræður spunnust á síðunni þennan dag. Stefnda tók þátt í þeim umræðum. Klukkan 17:21, 22. nóvember 2012, birti hún eftirfarandi færslu á umræðuþræðinum: „Feminisma gagnvart körlum? Feminismi þyðir jafnrétti félagi, langar þig ekki að upplifa jafnrétti? Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku, það er tvennt mjög ólíkt. Það má allveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem er dreyft út um allan bæ, það er ekki eðlilegt, það finnst mér líka mjög óeðlilegt að kjósa þessa síðu til að vorkenna sér fyrir að vera að „lenda í feminisma“. Verið bara góðir og sanngjarnir við konur og karla í kring um ykkur og þá þurfið þið ekki neinar áhyggjur að hafa af því að „lenda í femínistum“.“

Lögmaður stefnanda sendi stefndu bréf, dags 28. nóvember 2012 vegna þessara ummæla. Kemur þar fram að stefnandi telji skáletraða hluta færslunnar fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir sem varði við 235. gr. almennra hegningarlaga. Krafðist stefnandi þess að stefnda drægi ummælin til baka, viðurkenndi að þau væru tilhæfulaus og bæði stefnanda afsökunar á þeim í yfirlýsingu til fjölmiðla. Að auki gerði hann kröfu um greiðslu 500.000 kr. í miskabætur sem tekið var fram að yrði varið til góðgerðarmála. Stefndu var veittur frestur til kl. 14.00 þann 29. nóvember til að verða við framangreindum kröfum, að öðrum kosti mætti hún eiga von á málshöfðun vegna þessa. Lögmaður stefndu svaraði með bréfi dagsettu 29. nóvember. þar sem því er alfarið hafnað að framangreind færsla feli í sér ærumeiðandi ummæli í garð stefnanda. Jafnframt er upplýst í bréfinu að stefnda hafi fjarlægt ummælin af vefnum þótt hún telji að sér hafi ekki verið skylt að gera það.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að um sakarefnið gildi ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og skatabótareglur, þ. á m. 26. gr. laga nr. 50/1993 en þar sem Facebook sé ekki fjölmiðill falli viðfangsefnið utan sviðs fjölmiðlalaga nr. 38/2011 sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr. um gildissvið laganna og 13. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga þar sem skilgreiningu á fjölmiðli sé að finna. Heimild stefnanda til að höfða einkarefsimál sé í 3. tölul. 1. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefndu sem auðkennd hafi verið með ummælunum og hafi gengist við því að hafa skrifað þau sé réttilega stefnt í málinu. Hvað varðar málsaðild sóknarmegin þá hefur stefnda viðurkennt að ummælum hennar sé beint að stefnanda sbr. ofangreint bréf lögmanns hennar. Vettvangur og samhengi hlutanna styður þessa niðurstöðu, en ummælin voru birt á Facebook-síðu sem var stofnuð til höfuðs stefnanda með yfirskriftinni „Gillz af forsíðunni – krefjum Monitor um afsökunarbeiðni“ ásamt því sem birt var mynd af stefnanda. Stefnandi er því réttur aðili að málssókn þessari sóknarmegin.

Stefnandi byggir á því að stefnda hafi með alvarlegum hætti vegið að æru stefnanda með fyrrgreindum ummælum um hann á Facebook, en þar fullyrðir stefnda að stefnandi hafi nauðgað unglingsstúlku, þ.e. stúlku sem er ekki orðin fullveðja, og gagnrýnir það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem sé dreift út um allan bæ, en hér á stefnda við stefnanda og forsíðuviðtal sem birtist við hann í Monitor sama dag og ummælin voru látin falla. Hér sé um alvarlega ásökun að ræða þess efnis að stefnandi hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi og brotið gegn 1. mgr. 194. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 195. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en allt að 16 ára fangelsi liggur við brotinu. Þá liggur jafnframt aukin refsing við brotinu ef meintur brotaþoli er undir 18 ára aldri eins og stefnda heldur fram í ummælum sínum. Við mat á alvarleika ummælanna beri að hafa í huga að með þeim fullyrðir stefnda að stefnandi hafi nauðgað unglingsstúlku, en hvort tveggja sé rangt. Stefnandi hefur í fyrsta lagi engum nauðgað. Í öðru lagi hafi meintur brotaþoli ekki verið unglingur heldur fullveðja einstaklingur. Síðari hluti ummæla stefndu sé af sama meiði. Þar heldur stefnda fram þeirri skoðun sinni að það sé gagnrýnisvert að nauðgarar prýði forsíður blaða og tímarita. Stefndu er almennt frjálst að hafa þá skoðun, en í þessu samhengi felur hún í sér fullyrðingu, refsiverða ærumeiðandi aðdróttun, þess efnis að stefnandi sé nauðgari og því eigi hann ekki að prýða forsíðu Monitors eða annarra blaða og tímarita. Stefnda geri engan fyrirvara við ummæli sín þrátt fyrir vitneskju um niðurfellingu áðurgreindra sakamála. Aðalatriðið hjá stefndu sé því að úthrópa stefnanda opinberlega sem nauðgara. Sannleikurinn sé aukaatriði. Stefnandi er einfaldlega nauðgari sem nauðgaði unglingsstúlku. Hér birtist dómstóll götunnar í sinni verstu mynd. Stefnda telur sig þess umkomna að sakfella stefnanda fyrir nauðgun. Aftakan fer fram án dóms og laga.

Stefnandi byggir á því að ummæli stefndu séu ærumeiðandi aðdróttanir og brjóti gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

Auk ómerkingar krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til refsingar vegna ummælanna enda innihaldi þau ærumeiðandi aðdróttanir þar sem að stefnanda er gefið að sök refsiverð háttsemi sem ekki eigi við rök að styðjast. Þá voru ummælin viðhöfð, birt og borin út opinberlega gegn betri vitund, sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en ummæli á Facebook teljist opinber birting. Jafnframt sé hafið yfir skynsamlegan vafa að stefnda hafi vitað að ríkissaksóknari hafi verið búinn að fella niður áðurnefnd sakamál á hendur stefnanda. Stefnda hafi látið sér það í léttu rúmi liggja og viðhaft ummælin engu að síður. Brotið hafi því verið framið af ásetningi og brotavilji stefndu einbeittur. Það beri að virða stefndu til refsiþyngingar. Brot stefndu á 235. gr., sbr. 1. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hafi verið fullframið þegar stefnda viðhafði ummælin. Brot stefndu á 2. mgr. 236. gr. sömu laga hafi verið fullframið þegar stefnda birti ummælin á Facebook. Sú ákvörðun stefndu að fjarlægja ummælin af Facebook breyti því engu um refsinæmi verknaðarins, en megi eftir atvikum virða henni til refsilækkunar. Með því að fjarlægja ummælin af Facebook hafi stefnda þó hvorki viðurkennt né leitast við að bæta fyrir brot sitt svo sem tekið er fram í bréfi lögmanns hennar frá 29. nóvember 2012.

Auk ómerkingar ummæla og refsingar fyrir þau krefst stefnandi greiðslu miskabóta. Byggir hann þá kröfu á því að stefnda hafi vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda. Með því hafi hún framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem hún beri skaðabótaábyrgð á enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða sem bæði séu rangar og birtar og bornar út opinberlega gegn betri vitund stefndu. Fjárhæð miskabótakröfu stefnanda taki mið af alvarleika aðdróttana stefndu sem og því að aðdróttanirnar eru bornar út gegn betri vitund. Stefnda hafi meitt æru stefnanda af ásetningi. Miskabótakrafa stefnanda, að fjárhæð 1.000.000 kr. sé því hófleg. Ljóst sé að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, sem og æra hans og persóna. Réttur stefnanda til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 enda er um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttareglum, sem ætlað er að vernda æru stefnanda, s.s. 235. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Öll skilyrði séu fyrir hendi til að dæma stefnanda háar miskabætur

Þá er gerð krafa um að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 150.000 kr. til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940. Fyrir liggi að aðdróttanir stefndu í garð stefnanda eru alvarlegar og nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að rétta hlut sinn með því að tryggja víðtæka birtingu dóms í málinu með auglýsingu í fjölmiðli. Þá sé ljóst að öll lagaskilyrði til þess að dæma stefnanda birtingarkostnað eru uppfyllt.

Hvað varðar tjáningarfrelsi stefndu vísar stefnandi til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en það falli utan marka stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis að brjóta gegn réttindum eða mannorði annarra manna. Stefnanda sé ljóst að hann sé þekktur einstaklingur og einkum þá vegna persónunnar Gillz. Stefnanda sé einnig ljóst að vegna þessa þurfi hann að þola meiri og hvassari umfjöllun en aðrir. Hann eigi hins vegar stjórnarskrárvarinn rétt til æruverndar. Mörkin sem liggi milli tjáningarfrelsis þeirra sem tjá sig opinberlega um stefnanda og æruverndar hans séu skýr. Ummæli stefndu sem fela í sér ásakanir um alvarlega refsiverða háttsemi, sem jafnframt er svívirðileg að mati almennings, séu refsiverðar og ærumeiðandi aðdróttanir sem stefnandi þurfi ekki að þola. Þetta eigi enn frekar við ef ummælin eru birt og borin út opinberlega gegn betri vitund eins og raunin er hér.

Stefnandi fjallar að auki í stefnu um opinberan málflutning stefnanda í hlutverki Gillz. Sú persóna sé ólíkindatól og eigi það til að misbjóða fólki og valda hneykslan og fara út fyrir velsæmismörk. Það hafi gerst í nóvember 2007 þegar stefnandi, undir merkjum svonefndrar „fréttastofu Gillz“, birti umfjöllun á netinu undir yfirskriftinni „Þorir meðan aðrir þegja“. Þá hafi stefnandi sem í umrætt sinn hafi verið í hlutverki Gillz farið yfir strikið varðandi ummæli um nafngreinda aðila. Honum hafi strax orðið ljós mistök sín, beðist afsökunar á ummælunum og birtingu þeirra og fjarlægt þau af netinu. Þessi ummæli hafi hins vegar oft og iðulega verið rifjuð upp og haldið á lofti, þrátt fyrir afsökunarbeiðni og yfirbót stefnanda og þess látið ógetið að stefnandi hafi ítrekað beðist afsökunar á ummælunum, dregið þau tilbaka og fjarlægt þau af netinu. Nú síðast hafi hann ítrekað afsökunarbeiðni og eftirsjá sína í umræddu viðtali í Monitor, 22. nóvember 2012.

Af öllu framansögðu sé ljóst að réttur stefnanda til æruverndar gangi framar tjáningarfrelsi stefndu eins og hér háttar til og því beri að taka dómkröfur stefnanda til greina, ómerkja ummælin og dæma stefndu til refsingar og greiðslu miskabóta.

Viðvíkjandi kröfu um vexti og dráttarvexti á dómkröfur er vísað til IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en krafa um vexti byggist á 1. ml. 4. gr. laganna, sbr. 8. gr. sömu laga, þar sem segir að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik átti sér stað – í því tilviki sem hér um ræðir, frá birtingu ummæla stefndu á Facebook, 22. nóvember 2012. Hvað varðar kröfu um dráttarvexti er byggt á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, þar sem segir að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn er mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi lagði fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því tilviki sem hér um ræðir er miðað þingfestingardag stefnu, 18. desember 2012, og er því krafist dráttarvaxta frá 18. janúar 2013 til greiðsludags.

Þess er krafist að stefnda greiði stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi og er krafan byggð 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess er krafist að dæmdur málskostnaður beri 25,5% virðisaukaskatt.

Um lagarök, vísar stefnandi til 235. gr., 1. og 2. mgr. 236.gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. og 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig vísar stefnandi til 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna s.s. sakarreglunnar. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti á miskabótakröfu er byggð á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafa um málskostnað byggð á 130.gr. laga nr. 91/1991. Einnig er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, s.s. hvað varðar varnarþing, málsaðild, og málskostnað.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefnda byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti. Vettvangurinn þar sem umdeild ummæli voru viðhöfð, þ.e. Facebook-viðburður á slóðinni www.facebook.com/events/490658044311812, teljist vera fjölmiðill í skilningi fjölmiðlalaga nr. 38/2011 enda séu skilyrði 13. tl. 2. gr. laganna fyrir hendi. Á téðri vefslóð sé að finna miðil sem hafi miðlað efni til almennings með reglubundnum hætti. Þá hafi téður miðill lotið ritstjórn. Af ofangreindu eiga við nafngreiningarreglur IX. kafla laganna og þar sem nafngreining stefndu sé ófullnægjandi beri hún því ekki ábyrgð á efninu.

Verði ekki fallist á sýknu vegna aðildarskorts byggir stefnda á því að tjáningarfrelsi hennar sé það sama hvort sem ákvæði fjölmiðlalaga eigi ekki við eða ekki. Vernd tjáningarfrelsis sé ekki undirorpin því að tjáning falli undir fjölmiðlalög eða fari fram á vettvangi fjölmiðla. Ummælin, sem krafist er ómerkingar á, séu vernduð af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár, sbr. 73. gr. hennar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Engar þær kringumstæður séu til staðar í máli þessu sem réttlæti takmarkanir á tjáningarfrelsi stefndu. Þriðja mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eigi ekki við í máli þessu, enda skuli það ákvæði túlkað þröngt. Þá er á það bent að stefnda hafi, án skyldu, fjarlægt ummælin af vefsíðunni þar sem þau birtust. Ummælin brjóti í engu gegn neinum réttindum stefnanda. Stefnda hafi hvorki meitt æru stefnanda né greint frá nokkru því sem leynd skuli hvíla yfir enda hafi umrætt mál, þar sem stefnandi var ásakaður og kærður fyrir meintar nauðganir, verið á almannavitorði um langa hríð og margumrætt í þjóðfélaginu á ýmsum samskiptamiðlum og í fjölmiðlum. Þá hafi stefnandi ekki verið nafngreindur í ummælunum. Ákærð nauðgunarbrot, sem hlutfall af kærum vegna nauðgana, skuli einnig hafa áhrif við mat á ummælunum sem krafist sé ómerkingar á.

Umdeild ummæli hafi verið látin falla við athugasemd á umræddri Facebook-síðu og hafi því þurft að leita sérstaklega að þeim innan um þúsundir annarra ummæla á síðunni. Smella þurfi sérstaklega á þann umræðuþráð sem ummælin séu undir til að þau verði sýnileg. Eigi ofangreint að hafa áhrif við mat á dreifingu þeirra og miskabótakröfu stefnanda.

Þá byggir stefnda á því að óheimilt sé að túlka ummæli hennar með þeim hætti sem stefnandi geri. Ummælin séu víðtækari en svo að þau varði einvörðungu og alfarið staðhæfingar um staðreyndir hvað varðar meintar nauðganir sem stefnandi var sakaður um. Þegar ummælin séu skoðuð í samhengi blasir við að þau vísa ekki einangrað til umræddra nauðgunarkæra á hendur stefnanda heldur hafa þau víðtækari skírskotun. Fyrsta setning ómerkingarummælanna inniheldur til að mynda tilvísun í umræddan Facebook-viðburð, Monitor-mótmælin. Orðið „þetta“ er tilvísun í þau mótmæli en ekki í meinta nauðgun sem stefnandi var sakaður um. Það er vísun í að ummælin innihaldi mat stefndu á ástæðum fyrir umræddum mótmælum. Þá verður orðið „nauðgarar“ ekki túlkað með þeim hætti að einungis sé um að ræða tilvísun í meintar nauðganir, heldur hefur setningin víðtækari skírskotun til nauðgana almennt. Þá sé sérstaklega mótmælt fjarstæðukenndri umfjöllun í stefnu um að stefnda hafi með ummælum sínum vænt stefnanda sérstaklega um að hafa framið kynferðisbrot gegn ungmenni yngra en 18 ára.

Stefnda hafi lagt fram allan umræðuþráðinn sem ummælin voru hluti af. Samhengi ummælanna skal metið með hliðsjón af samhengi þeirra. Ummæli stefndu eru svar við athugasemd ungs manns sem telur sig vera hræddan við að tjá sig af ótta við viðbrögð femínista. Það innlegg hafi verið tilefni ummæla stefndu. Ummælin falla sem liður í mótmælum gegn ritstjórnarlegum ákvörðunum blaðsins Monitors. Byggt er á því að tjáningarfrelsi sé sérstaklega verndað þegar um mótmæli er að ræða.

Stefnda byggir á því að ummælin skuli skoðast í samhengi í margþættum skilningi. Í fyrsta lagi þurfi að meta ummælin í samhengi við þá heildarathugasemd sem þau voru hluti af. Í öðru lagi í samhengi við þá heildarumræðu sem átti sér stað á þeim tiltekna samtals- eða athugasemdaþræði sem athugasemdin var birt undir. Í þriðja lagi í samhengi við þá heildarumræðu sem átti sér stað á umræddri Facebook-síðu, þ.e. umræðu um m.a. réttmæti þess að stefnandi prýddi forsíðu tímaritsins Monitors. Í fjórða lagi í samhengi við blaðaviðtal stefnanda sem var tilefni mótmælanna á Facebook. Í fimmta lagi í samhengi við þá opinberu þjóðfélagsumræðu sem átt hefur sér stað um nauðgunarkærur á hendur stefnanda. Í þeirri umræðu hefur stefnandi sjálfur tekið þátt. Þá hefur stefnandi kært kærendur fyrir meintar rangar sakargiftir. Í sjötta lagi þarf að meta ummælin í samhengi við þá áralöngu opinberu þjóðfélagsumræðu um orðræðu stefnanda í gegnum tíðina um konur, kynfrelsi kvenna og minnihlutahópa í þjóðfélaginu.

Ummælin og heildarumræður á umræddri vefsíðu voru liður í langri opinberri umræðu, jafnt í fjölmiðlum, á vefmiðlum, í lærðum ritum og í almennri umræðu, m.a. um konur, jafnrétti, femínisma, orðræðu stefnanda, kynfrelsi kvenna, áhrif orðræðu stefnanda á ungt fólk og viðhorf þeirra til eigin kynferðislegrar sjálfsmyndar. Stefnda sé ekki upphafsmaður þeirrar umræðu, né heldur umræðunnar á vefsíðu Monitor-mótmælanna á Facebook. Með vísan til dómafordæma MDE verða engin ummæli í meiðyrðamálum metin án víðtækara samhengis. Þrátt fyrir það kjósi stefnandi að fjarlægja og einangra ummælin frá samhengi sínu með gagnaframlagningu sinni.

Stefnda byggir á því að ummælin og samhengið þar sem þau voru sett fram sé umræða um almannahagsmuni og þjóðfélagsleg málefni og njóti sérstakrar verndar. Ummælin eigi fullt erindi til almennings og óheimilt sé að takmarka slíka tjáningu. Vísað sé til þess að stefnandi byggi ekki á því í stefnu að ummælin varði viðkvæm einkalífsmálefni hans sem rétt sé að fari leynt, enda hefur hann tjáð sig opinberlega um bæði nauðgunarkærur þær sem lagðar voru fram gegn honum og í víðara samhengi um konur og kynfrelsi þeirra. Tilgangur og megininntak ummælanna og umræðunnar sem ummælin voru liður í hafi verið að vekja athygli á þeim þáttum í þjóðfélagsumræðunni sem fyrr eru nefndir í greinargerð þessari. Í ummælunum felst ekki bein staðhæfing um að stefnandi hafi nauðgað téðum unglingsstúlkum sem kærðu hann fyrir meinta nauðgun og hafi ummælin ekki verið orðuð með slíkum hætti. Þá hafi tilefni ummælanna verið viðtal stefnanda.

Stefnandi hafi um árabil kosið að tjá sig með tilteknum hætti um konur, kvenréttindi, kvenfrelsi, femínisma og kynfrelsi kvenna. Hann sé upphafsmaður að tiltekinni orðræðu, sem m.a. lærðar fræðigreinar hafa verið skrifaðar um, sem sé hatursfull, vanvirðandi og niðrandi í garð kvenna. Orðræðan sé hatursáróður. Sem dæmi skuli nefnt að í bókum stefnda er aftast að finna nokkurra blaðsíðna atriðisorðaskrá, eða orðalista, yfir nýyrði samin af stefnanda ásamt skilgreiningum. Þar er að finna hugtök og uppnefni sem eru niðrandi í garð kvenna þar sem kona er kölluð „ílát“ í kynferðislegri merkingu. Stefnandi gengst upp í því að kenna lesendum sínum slíka orðræðu og hvetja þá til að nota hana. Ekki sé á því byggt að slík orðræða sé stefnanda beinlínis óheimil, heldur að stefnandi sem kosið hefur um árabil að tjá sig með slíkum hætti, verði að þola harðari gagnrýni og að honum sé svarað í nákvæmlega sömu mynt. Stefnandi skóp sjálfur, notaði og hvatti til notkunar á orðræðu sem er óviðurkvæmileg, smekklaus og á köflum viðurstyggileg. Heimilt sé að svara honum í sömu mynt af þeirri ástæðu. Orðræða stefnanda er til þess fallin að sverta andlög orðræðunnar, jafnvel sum nafngreind. Velta má fyrir sér hvort slík nafngreining leggi þær konur beinlínis í hættu þar sem hvatt er til þess að framkvæmdar séu kynlífsathafnir á þeim án tillits til vilja þeirra.

Stefnda byggir á sjónarmiðum um orðhefnd, retorsio. Stefnda tilheyrir sjálf einum þeirra minnihlutahópa sem stefnandi hefur farið sérstaklega niðrandi og vanvirðandi orðum um en hún er bæði kona og einnig femínisti sem aðhyllist jafnrétti kynjanna og vernd kynfrelsis kvenna. Þá sé vísað til sjónarmiða um hatursáróður (e. hate speech), sbr. m.a. 27. gr. laga nr. 38/2011 og aukinnar verndar tjáningar sem svarar slíkri orðræðu og gagnrýnir hana. Byggt er á því að orðræða stefnanda, m.a. í framlögðum gögnum, teljist hatursáróður.

Sérstaklega sé mótmælt fullyrðingum stefnanda um að hann hafi beðist afsökunar á tilteknum ummælum sínum. Engin gögn hafi verið lögð fram en fyrir liggi í málinu yfirlýsing þriggja kvenna þess efnis að þær hafi aldrei fengið slíka afsökunarbeiðni. Þá skipti engu máli hvort talið yrði að stefnandi hefði beðist afsökunar eður ei. Ummælin hafi stefnandi ekki dregið til baka og þau séu þegar opinber, þekkt, umrædd, alræmd og hafa hlotið mikla dreifingu. Við mat á ummælunum sem stefnt er vegna skuli m.a. höfð hliðsjón af tjáningu stefnanda sjálfs sem þegar hefur verið rakin. Auk þess sé vísað til annarra ummæla stefnanda sem lögð hafa verið fram í dómi, m.a. ógeðfelldrar ráðgjafar, sem ítrekað hefur verið eignuð stefnanda, um hvernig eigi að binda konu við rúm til að láta hana framkvæma munnmök sem vilji konunnar virðist ekki hafa staðið til. Ráðgjöf þessi hafi verið fjarlægð af vef stefnanda en stefnda telji hana fyrst hafa verið birta á slóðinni www.kallarnir.is og gangi stefnda út frá því að stefnandi sé höfundur hennar. Vitnað er til umræddrar ráðgjafar sem birt er í heild sinni á umræðuvettvangi Monitor-mótmælanna á Facebook og skuli líta til þeirra sem hluta þeirrar umræðu sem þar féll og skoða ummæli stefndu í samhengi við þau., sbr. dskj. 27, en ummæli stefndu skulu metin m.a. í samhengi allrar umræðunnar á þeim vettvangi.

Stefnda byggir á því að í ummælum hennar felist ályktun, ádeila og gildisdómur. Slík tjáning sé sérstaklega vernduð. Við mat á ummælunum sem gildisdómi skulu þau skoðuð í sama samhengi við orðræðu stefnanda sjálfs um konur og kynfrelsi þeirra almennt auk þeirra ummæla hans sem sérstaklega hefur verið fjallað um að framan og verði þau tæplega skilin öðruvísi en svo að þau feli í sér hvatningu til kynferðislegs ofbeldis eða nauðgunar. Að kalla þann sem hvetur til slíks verknaðar nauðgara er gildisdómur um þau ummæli. Einnig sé vísað til sjónarmiða um ádeilu. Í þessu sambandi er rétt að minna á að aðili sem hvetur til þess að konur séu þvingaðar til kynlífsathafna og viðhefur um árabil þannig orðræðu verður að þola slíka ádeilu og þann gildisdóm að vera í kjölfarið kallaður nöfnum eins og þeim sem í ómerkingarkröfunni felast. Gagnvart þeim sem telja að stefnandi hafi ekki í raun verið með orðræðu sinni að hvetja beinlínis til þess að konur yrðu þvingaðar til kynlífsathafna, dæma orð stefndu sig sjálf, enda gildisdómur.

Stefnda byggir á því að mörk heimillar tjáningar í máli þessu séu víðtækari en almennt með vísan til hinnar opinberu þjóðfélagsumræðu, m.a. varðandi nauðgunarkærur, á hendur stefnanda. Stefnandi hafi sjálfur kosið að taka ítrekað þátt í þeirri opinberu umræðu. Að auki hafi stefnandi kosið að tjá sig opinberlega á afar sundurliðaðan og nákvæman máta um umrætt kvöld sem þau kynferðislegu samskipti áttu sér stað sem síðan leiddu til þess að stefnandi var kærður fyrir meinta nauðgun Allt frá meintum áverkum meints brotaþola, klæðaskipta hennar og „stemningarinnar“ umrætt kvöld. Með því að tjá sig með slíkum hætti opinberlega er lesendum slíkra ummæla stefnanda, m.a. stefndu, heimilt að mynda sér skoðun og tjá sig um ummæli stefnanda og trúverðugleika hans. Með því að tjá sig um ofangreint opinberlega stuðlar stefnandi að því að tjáningu sem telst til andsvara við ummælum hans skuli veitt aukin vernd. Með umfjöllun sinni um kærurnar leggur stefnandi orð sín á vogarskálar almannaálits. Við mat almennings á ummælum og trúverðugleika stefnanda hefur almenningur, þ.m.t. stefnda, hliðsjón af fyrri opinberri tjáningu stefnanda.

Stefnda byggir á sjónarmiðum og meginreglum um aukna vernd tjáningar sé hún endursögn úr fjölmiðlum. Í greinargerð er í því sambandi vísað til fréttar á Smugunni frá 2. desember 2011 þar sem sagt er frá kæru á hendur stefnanda. Þar komi m.a. fram að 18 ára stúlku hafi verið nauðgað. Stefnda kveðst hafa verið í góði trú um sannleiksgildi þeirrar staðhæfingar sem og sinna eigin ummæla og annarra í sömu veru á umræddri vefsíðu þar sem birtingu viðtalsins við stefnanda var mótmælt. Á henni hvíli engin sérstök rannsóknarskylda né sönnunarbyrði hvað varðar sannleiksgildi ummælanna. Að auki hafi stefnda slegið nægilega varnagla í ummælum sínum.

Loks vísar stefnda til meginreglna um tjáningu um og gagnrýni á opinberar persónur en stefnandi sé slík opinber persóna. Hann hafi lengi gengist upp í því að vekja á sjálfum sér athygli og hafa fjárhagslegan ávinning af margnefndri orðræðu sem sé niðrandi í garð kvenna og megi jafnvel líta á sem hvatningu til að framkvæma kynlífsathafnir á konum án tillits til vilja þeirra. Stefnandi hvetji sjálfur til notkunar þeirrar orðræðu, sbr. m.a. orðalista sem hann hafi gefið út. Þetta beri að hafa í huga varðandi miskabótakröfu stefnanda.

Þá mótmæli stefnda því sem fram komi í stefnu að stefnandi hafi brugðið sér í hlutverk persónunnar Gillz sem misbjóði fólki. Þannig sé látið í verði vaka að það sé á einhvern máta leikþáttur en ekki persóna stefnanda sjálfs sem slíkt geri. Þessu sé vísað á bug. Við blasi að í fjölda ára hefur stefnandi sjálfur engan greinarmun gert á sjálfum sér og því sem hann nú kýs að kalla persónuna Gillz. Jafnvel þótt litið yrði svo á að stefnandi hafi viðhaft orðræðuna í gervi annarrar persónu þá beri hann samt sem áður ábyrgð á þeirri tjáningu, enda höfundur hennar.

Krafa stefndu um sýknu af refsikröfu stefnanda er reist á sömu sjónarmiðum og að ofan eru rakin. Ummælin feli hvorki í sér ærumeiðandi móðgun né aðdróttun og stefnda hafði enga ástæðu til að ætla annað en að þau væru sannleikanum samkvæm og heimil, enda hafi hún verið í góðri trú um það. Skal stefnda því sýknuð af refsikröfu stefnanda.

Krafa stefndu um sýknu af miskabótakröfu er reist á sömu sjónarmiðum og að ofan eru rakin. Skilyrðum almennu skaðabótareglunnar eða 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé ekki fullnægt. Á því er byggt að stefnandi hafi þegar sjálfur gert eigin mannorði tjón m.a. með þeim opinbera talsmáta og hegðun sem hann hefur stundað um árabil, jafnvel til að hafa af því fjárhagslegan ávinning. Þá hafi enginn frekari skaði orðið á mannorði stefnanda en varð þegar  kærur tveggja stúlkna á hendur honum fyrir kynferðisbrot urðu opinberar og hann kaus að tjá sig um þær kærur sjálfur á opinberum vettvangi. Þá stuðlaði stefnandi sjálfur að dreifingu ummælanna með því að tjá sig ítrekað um málið í fjölmiðlum. Beri að hafa hliðsjón af því við mat á miskabótakröfu stefnanda. Fjárhæð miskabótakröfu stefnanda sé sérstaklega mótmælt, enda sé hún ekki í neinu samræmi við dómafordæmi. Þá sé vaxta- og dráttarvaxtakröfu einnig mótmælt sem og kröfu um kostnað til að standa straum af birtingu dóms. Umdeild ummæli, sem þegar hafi verið eytt, hafi aldrei birst í dagblöðum og dreifing þeirra verið afar takmörkuð enda einungis birt í stuttan tíma á óþekktri vefsíðu innan víðáttu Facebook. Þá sé óútskýrt hvernig stefnandi telji það „rétta hlut sinn“ að birta dóm í máli þessu í prentmiðli. Stefnandi sé opinber persóna sem höfðað hefur meiðyrðamál vegna atburða sem mikið hefur verið fjallað um opinberlega. Telja verði öruggt að fjölmiðlar muni greina frá niðurstöðu dómsmáls þessa án greiðslu frá stefnanda auk þess sem fjárhæð kröfunnar sé mótmælt sem of hárri.

Um lagarök vísar stefnda til 73. gr. stjórnarskrár, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu í C-deild stjórnartíðinda nr. 10/1979. Þá er vísað til 234.-236. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefnda til 1. mgr. 130. gr. og 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en vegna greiðslu virðisaukaskatts er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Niðurstaða

Í máli þessu er krafist ómerkingar ummæla, refsingar, greiðslu miskabóta og kostnaðar af birtingu dómsniðurstöðu vegna ummæla sem stefnda lét falla á Facebook-síðu sem stofnuð var til að mótmæla birtingu viðtals við stefnanda í tímaritinu Monitor sem er fylgirit Morgunblaðsins.

Viðtalið við stefnda, sem varð tilefni mótmælanna á Facebook, var tekið skömmu eftir að ríkissaksóknari lauk rannsókn mála sem byggðu á tveimur nauðgunarkærum á hendur stefnanda. Ríkissaksóknari felldi bæði málin niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008 þar sem ekki var talið að það sem fram kom við rannsókn málanna væri nægjanlegt eða líklegt til sakfellis. Ákvörðun um niðurfellingu málanna var tilkynnt stefnanda með bréfum dags. 15. júní og 15. nóvember 2012. Í viðtalinu tjáir stefnandi sig m.a. um lögreglurannsókn þessa og fjölmiðlaumfjöllun henni tengda og kæru hans sjálfs á hendur kærendum vegna rangra sakargifta. Kemur þar fram að fjölmiðlaumfjöllun um málið hafi verið mikil og jafnframt að stefnandi hafi löngum fyrir þann tíma verið umdeildur í samfélaginu. Þann 22. nóvember, daginn eftir að umrætt viðtal birtist í Monitor var efnt til undirskriftasöfnunar í mótmælaskyni við birtingu þess á Facebook-síðu sem hét „Gillz af forsíðunni – krefjum Monitor um afsökunarbeiðni“. Síðan hefst á bréfi með áskorun til ritstjóra Monitors um að biðjast formlega afsökunar á birtingu viðtalsins við stefnanda. Birtingin er gagnrýnd m.a. vegna skorts á nærgætni og skynsemi, vísað er til þess að blaðinu sé ætlað að höfða til framhaldsskólanema og annar kærenda stundi nám í slíkum skóla. Þá segir að stefnandi sé þekktur fyrir neikvæð ummæli um konur, upphafningu á klámi og staðalímyndum og nú nauðgunarkæru. Hann hafi ekki verið sýknaður í þeim málum heldur hafi þau verið felld niður þar sem saksóknari hafi ekki talið líkur á sakfellingu.

Miklar umræður spruttu um málið á umræddri Facebook-síðu, bæði um efni viðtalsins og réttmæti þess að birta það. Voru skoðanir manna mjög skiptar. Margir lýstu vanþóknun sinni á mótmælunum sem slíkum og lýstu almennt stuðningi við á stefnanda á meðan aðrir voru mjög fylgjandi mótmælunum og andsnúnir viðhorfum stefnanda. Í þessari umræðu var ítrekað vísað til verka stefnanda og gagnrýni femínista og annarra á verk hans. Ummæli stefndu, sem eru tilefni þessara málaferla, féllu á umræðuþræði sem hefst á ummælum Agnars Smára Jónssonar. Efni umræðnanna er fremur óskýrt en upphafsorð Agnars eru: „Hver ætlar að stoppa femínista gagnvart körlum, er orðinn hræddur að tjá sig ef maður segir eitthvað vitlaust er maður dæmdur femínisti hneysa.“. Sá sem næst leggur eitthvað til málanna annað en að líka við ummæli Agnars segir: „Maður er hræddur um að vera skotinn á kaf ...“ Skömmu síðar setur stefnda eftirfarandi ummæli inn á þráðinn: „Feminismi þyðir jafnrétti félagi, langar þig ekki að upplifa jafnrétti? Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku, það er tvennt mjög ólíkt. Það má allveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem er dreyft út um allan bæ, það er ekki eðlilegt, það finnst mér líka mjög óeðlilegt að kjósa þessa síðu til að vorkenna sér fyrir að vera að „lenda í feminisma“. Verið bara góðir og sanngjarnir við konur og karla í kring um ykkur og þá þurfið þið ekki neinar áhyggjur að hafa af því að „lenda í femínistum“.“ Stefnt er út af skáletraða hluta textans. Stefnandi telur framangreind ummæli varða við 235. sbr. 1. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þ.e. að um ærumeiðandi aðdróttun sé að ræða sem borin hafi verið út opinberlega og gegn betri vitund.

Sýknukrafa stefndu er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti þar sem ummæli hennar hafi fallið í fjölmiðli og hún beri ekki ábyrgð á efninu þar sem nafngreining hennar sé ófullnægjandi. Á þetta er ekki fallist. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að umrædd Facebook-síða hafi verið stofnuð til að halda úti umræðuvettvangi og safna undirskriftum vegna mótmæla við tilteknu viðtali. Ekkert er fram komið í málinu sem rennir stoðum undir þá staðhæfingu stefndu að síðan sé fjölmiðill í skilningi umræddra laga en það er skilgreiningaratriði að um sé að ræða vettvang sem lúti ritstjórn þar sem efni sé miðlað með reglubundnum hætti. Stefnda vísar til þess að stofnandi síðunnar hafi orðið við beiðni stefnanda um að fjarlægja ein ummæli af vefnum til stuðnings þeirri fullyrðingu að um ritstýrðan vettvang sé að ræða. Að mati dómsins þarf fleira að koma til svo að um eiginlega ritstjórn sé að ræða. Þá er nafngreining stefndu fullnægjandi og í málinu er ekki um það deilt að stefnda er höfundur umræddra ummæla og ber ábyrgð á efninu óháð því hvort það er birt í fölmiðli eða annar staðar. Er því hafnað kröfu stefndu um sýknu á grundvelli aðildarskorts.

Aðrar málsástæður stefndu byggja á því að hún hafi ekki farið út fyrir leyfileg mörk tjáningarfrelsis með ummælum sínum. Vegast þar á sjónamið um vernd tjáningarfrelsis stefndu og réttar stefnanda til æruverndar.

Tjáningarfrelsi stefndu er tryggt í 1. málslið 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar sbr. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Í þessu ákvæði stjórnarskrárinnar felst að refsing eða bætur verða því aðeins dæmdar ef slík úrræði teljast nauðsynleg og samrýmanleg lýðræðishefðum. Verður í því efni að skoða í hvaða samhengi tjáning stefndu var sett fram og hvort líta megi á ummæli hennar sem lið í almennri þjóðfélagsumræðu, hvort í þeim felist staðhæfing um staðreynd eða hvort líta megi á þau sem gildisdóm og loks verður að meta alvarleika ummælanna, bæði út frá efni þeirra og útbreiðslu.

Með samhengi er hér í annars vegar vísað til þeirrar umræðu sem fram fór á umræddri Facebook-síðu og efnis þess viðtals sem þau eru viðbragð við og hins vegar almennt til deilna og umfjöllunar um opinber skrif stefnanda sjálfs. Stefnda byggir á því að stefnandi sjálfur hafi tekið virkan þátt í opinberri umfjöllun um kærur á hendur sér fyrir nauðgun og þeim atburðum sem urðu tilefni annarrar kærunnar. Hann hafi með þeirri framgöngu sinni hvatt til opinberrar umræðu um efnið og jafnframt hvatt fólk til að taka afstöðu til sakarefnisins. Að mati dómsins er nokkuð til í þessu. Stefnandi sjálfur sendi frá sér nokkrar opinberar yfirlýsingar vegna lögreglurannsóknarinnar og ræddi málið ítarlega í umræddu viðtali í Monitor þegar rannsókn málanna var lokið. Auk þess að lýsa í viðtalinu því persónulega áfalli sem lögreglurannsóknin var honum lætur hann að því liggja að annar kæranda hafi verið undir þrýstingi frá áhrifafólki um að leggja fram kæru og hún hafi mögulega verið hluti af pólitískum hráskinnaleik. Kvað hann gögn málsins hrópa á meinsæri og upplýsti að hann hefði lagt fram kæru þessa efnis. Með framgöngu sinni efndi því stefnandi sjálfur til opinberrar umræðu um sakargiftir á hendur sér og skaut fast til baka, bæði gagnvart kærendum og almennt að þeim ótilgreinda hópi manna sem hann telur standa að herferð gegn sér. Með hliðsjón af þessu er það mat dómsins að umræðan um málefni stefnanda, þ. á m. um afdrif kæru á hendur honum, sé innlegg í almenna þjóðfélagsumræðu sem hafi átt erindi við almenning og tjáningarfrelsi stefndu sé af þeim sökum rýmra en ella.

Stefnda byggir á því að orðræða stefnanda feli í sér hatursáróður og það veiti stefndu rýmri rétt til tjáningar í sömu mynt gagnvart honum sjálfum. Um það hvort opinber skrif stefnanda sjálfs hafi áhrif á tjáningarfrelsi stefndu er þess að gæta að stefnandi er þjóðþekkt persóna og verður sem slíkur almennt að þola það að um hann sé fjallað opinberlega. Stefnandi er þekktastur vegna framgöngu sinnar á opinberum vettvangi undir nafninu Gillz eða Gillzenegger, sem hann kveður vera listamannsnafn sitt. Að mati dómsins hefur það enga þýðingu, hvorki hvað varðar ábyrgð stefnanda á skrifum sínum, né ábyrgð annarra á skrifum um stefnanda, hvaða nafni hann er kallaður, að því gefnu að hann kannist við að ganga undir því. Undir framangreindum heitum hefur stefnandi haldið úti skrifum á netinu, gefið út bækur og myndir og komið fram í sjónvarpi og víðar. Fyrir dóminn hefur verið lagt mikið magn þess efnis sem eignað er stefnanda og hann hefur ekki mótmælt því að vera höfundur þess. Um er að ræða afþreyingarefni sem í sumum tilvikum náði mikilli útbreiðslu hér á landi og ljóst að stefnandi naut, a.m.k til skamms tíma, velgengni og vinsælda. Á sama tíma misbauð framganga hans mörgum og vakti sterk reiðiviðbrögð. Umfjöllunarefni stefnanda hefur í miklu mæli snúist um karlmennsku, kynferði og samskipti kynjanna. Gagnrýni á verk hans hefur m.a. beinst að því að orðræða hans sé uppfull af óbeinu ofbeldi og vanvirðandi umfjöllun um konur og ýmsa aðra hópa fólks, s.s. blökkumenn, homma og almennt þá karlmenn sem stefnandi telur ekki vera „alvöru menn“. Stefnandi hefur tekið virkan þátt í umræðum og deilum um eigin skrif og verið ófeiminn við að gagnrýna þá sem hafa lýst vanþóknun sinni á þeim. Hefur hann skákað í því skjólinu að umfjöllun hans sé grín og gagnrýni á hann komi frá fólki sem skorti kímnigáfu. Má því segja að stór hluti af opinberri ímynd stefnanda og atvinnustarfsemi hans hafi tengst afar umdeildri afstöðu hans til samskipta kynjanna og kynfrelsis kvenna og er þá ótalin umdeilanleg ummæli hans um aðra hópa fólks. Stefnandi sjálfur hefur viðurkennt að hafa farið yfir strikið í einni grein sem birt var árið 2007 sem bar fyrirsögnina „Þorir meðan aðrir þegja“ þar sem hann lýsir því yfir að hann telji þörf á að þagga niður í nafngreindum gagnrýnendum sínum með því að tilgreindur maður hafi við þær kynmök, sem er síðan nánar lýst í greininni hvernig eigi að framkvæma. Stefnandi lætur að því liggja í stefnu að umrædd grein sé einangrað tilvik, sem hann hafi margfaldlega beðist afsökunar á, og eigi ekki að hafa áhrif á málatilbúnað hans í þessu máli. Að mati dómsins eru framangreind skrif stefnanda fjarri því að vera einangrað fyrirbæri þótt þau gangi lengra en flest annað, ekki síst vegna þess að þar er fjallað um nafngreinda einstaklinga. Fyrir dóminn hefur verið lagt mikið magn efnis sem stefnandi hefur gefið út undir nafni Gillz eða öðrum nöfnum sem hann notar opinberlega. Ekki er hægt að útiloka að ýmislegt af þessu efni geti talist hatursáróður í skilningi 27. gr. fjölmiðlaga nr. 38/2011, með síðari breytingum svo sem stefnda heldur fram. Í skýringum með nefndri grein fjölmiðlalaga er hatursáróður m.a. skilgreindur sem tal, texti, tjáning, hegðun eða framkoma þar sem hvatt er til ofbeldis, fordóma eða fordómafullrar hegðunar gegn einstaklingi eða hópi af fólki með því að vanvirða og smána viðkomandi einstaklinga eða hóp. Ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar og 233. gr. a í almennum hegningarlögum setja útbreiðslu hatursáróðurs jafnframt skorður. Hvað sem því líður er það mat dómsins að opinber skrif stefnanda hafi óhjákvæmilega áhrif á orðspor hans sjálfs og geti eftir atvikum haft áhrif á refsinæmi ærumeiðinga í hans garð og mat á þeim miska sem þau valda honum. Þá skipta skrif stefnanda máli hér þar sem mótmælin þar sem stefnda lét umdeild ummæli falla, beinast ekki síst að því hve umdeildur stefnandi sjálfur er einmitt vegna opinberra skrifa sinna. Ummæli hans sjálfs eru því hluti af því samhengi sem skoða þarf þegar ummæli stefndu er metin.

Að virtu ofangreindu kemur þá fyrst til skoðunar krafa stefnanda um ómerkingu ummæla stefndu. Því er að framan lýst á hvaða vettvangi og í hvaða samhengi þau voru sett fram. Sá hluti ummæla hennar sem krafist er ómerkingar á eru þessi: „Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku ... Það má allveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem er dreyft út um allan bæ ...“ Svo sem að framan er lýst eru ummælin látin falla á vettvangi mótmæla við birtingu viðtals við stefnanda sem tekið var í tilefni þess að kærur á hendur honum fyrir nauðgun höfðu verið felldar niður. Ummælin eiga því vafalaust við stefnanda. Stefnda heldur því fram að ummælin vísi ekki beinlínis til þeirra nauðgunarkæra sem til umfjöllunar voru. Að mati dómsins er erfitt eða útilokað að skilja þessi ummæli stefndu öðru vísi en svo, einmitt með vísan til þess að umræddar nauðgunarkærur og afdrif þeirra voru ofarlega í umræðunni, að þau vísi til atburða að baki þeim. Þá er ekki um það deilt að stefndu var kunnugt um afdrif kærumála á hendur stefnanda. Staðan var því sú þegar ummælin féllu að stefnandi sætti ekki rannsókn vegna gruns um nauðgun og hafði ekki verið ákærður fyrir slík brot og þaðan af síður dæmdur fyrir þau. Í ummælum stefndu er enginn fyrirvari við þá fullyrðingu að stefnandi hafi nauðgað unglingsstúlku og að mynd af honum á forsíðu blaðs sé mynd af nauðgara. Ekki er hald í þeirri málsástæðu stefndu að hér sé verið að vitna til eldri frétta af málinu, þar sem fullyrt er að stefnandi hafi framið umræddan verknað, þar sem fyrir lágu upplýsingar um afdrif rannsóknar málsins. Ekki er heldur á það fallist með stefndu að í ummælum hennar felist gildisdómur eða mat á staðreyndum, heldur felst í þeim býsna afdráttarlaus staðhæfing um að stefnandi hafi nauðgað. Þá er því haldið fram að meintir brotaþolar hafi verið á unglingsaldri en fyrir liggur að kærur á hendur stefnanda sem sættu rannsókn voru lagðar fram af konum sem voru orðnar 18 ára þegar atvik áttu sér stað. Börn verða fullveðja við 18 ára aldur, sbr. m.a. 1. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 og er ekki tilefni til að kalla þau unglinga eftir þann tíma. Það er ekki á færi annarra en dómstóla að kveða upp úr um sekt stefnanda og fyrir liggur að hann mun hvorki verða ákærður né dæmdur fyrir brot þau sem voru til rannsóknar. Verða hin afdráttarlausu ummæli stefndu, í ljósi afdrifa kæru á hendur stefnanda talin fela í sér ærumeiðandi aðdróttun. Á hinn bóginn verður ekki fullyrt að stefnda hafi látið ummælin falla gegn betri vitund. Miðað við þá miklu umfjöllun sem mál þetta hafði fengið og þau gögn sem opinberlega hafði verið fjallað um, verður því ekki slegið föstu að málið hafi horft þannig við stefndu að hún hafi tjáð sig gegn betri vitund. Þrátt fyrir það sem að framan er rakið um forsögu þess að umdeild ummæli féllu og það samhengi sem þau verða metin í er það niðurstaða dómsins að stefnda hafi með ummælum sínum farið út fyrir mörk leyfilegar tjáningar með því að drótta að stefnanda um refsivert athæfi. Brýtur háttsemi hennar í bága við 235. gr. almennra hegningarlaga en ekki verður talið að um brot á 1. og 2. mgr. 236. gr. laganna sé að ræða. Er því fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu ummæla stefndu með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga svo sem nánar greinir í dómsorði.

Kemur þá til skoðunar krafa stefnanda um að stefnda verði látin sæta refsingu vegna ummæla sinna. Samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga varðar brot á því ákvæði sektum eða fangelsi allt að einu ári. Í 239. gr. laganna segir að heimilt sé að láta refsingu samkvæmt nefndri grein falla niður ef tilefni ærumeiðingar var ótilhlýðilegt hátterni þess manns sem telur sér misboðið eða hann hefur goldið líku líkt. Að mati dómsins verður að fara afar varlega í að beita refsingum við ærumeiðandi ummælum. Tjáningarfrelsið er stjórnarskrárvarinn réttur manna og samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar verða takmarkanir á þeim rétti að helgast af nauðsyn og vera samrýmanlegar lýðræðishefðum. Því verður að gæta meðalhófs í viðbrögðum við ólögmætum ummælum. Það er til muna meira íþyngjandi að þola refsingu heldur en ómerkingu ummæla og mælir framangreint ákvæði stjórnarskrárinnar öllu jafna gegn því að slíku úrræði sé beitt. Við mat á aðstæðum í tilviki sem hér er til úrlausnar skiptir máli að hin umdeildu ummæli stefndu, sem ómerkt eru með þessum dómi, voru látin falla í mótmælum vegna viðtals við stefnanda. Svo sem ítarlega hefur verið rakið eru þau mótmæli hluti af hugmyndafræðilegum átökum sem valdið hafa tilfinningaheitum deilum þeirra sem aðhyllst hafa ólík sjónarmið og hafa skrif stefnanda sjálfs oft verið deiluefnið auk þess sem stefnandi sjálfur tók virkan þátt í opinberri umræðu um margnefnd kærumál. Mæla þessar aðstæður sterklega gegn refsingu jafnvel þótt óviðurkvæmileg orð hafi verið látin falla í hita leiksins.

Þá skiptir útbreiðsla ummælanna máli. Ummæli stefndu féllu á umræðuþræði á Facebook-síðu sem stofnuð var fyrir tiltekin mótmæli. Þótt ekki liggi fyrir hver raunveruleg dreifing ummælanna varð í gegnum þennan miðil virðist þeim ekki hafa verið dreift með víðtækari hætti, s.s. í gegnum fjölmiðla.

Að þessu virtu er það mat dómsins að ómerking umæla feli í sér eðlileg og fullnægjandi viðbrögð við óviðurkvæmilegum ummælum stefndu. Er því hafnað kröfu stefnanda um að stefndu verði refsað fyrir ummælin.

Þá kemur til skoðunar hvort skilyrði eru til að taka til greina kröfu um greiðslu miskabóta. Stefnandi krefst bóta að fjárhæð 1.000.000 króna og byggir kröfu sína á almennum reglum skaðabótaréttar og 26. gr. laga nr. 50/1993. Fyrir liggur samkvæmt framansögðu að stefnda viðhafði ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda. Á hinn bóginn verður að taka tillit til þess við mat á miska stefnanda með hvaða hætti stefnandi sjálfur hefur skapað sér orðspor með framgöngu sinni á opinberum vettvangi. Ekki verður séð, þátt fyrir miklar deilur um málflutning hans í nafni Gillz, að hann hafi skýrlega tekið afstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi fyrr en kærur gegn honum komu fram. Hafði stefnandi þó fullt tilefni til að gera hreint fyrir sínum dyrum hvað þetta atriði varðar þegar haft er í huga að efni frá honum er á köflum afar tvírætt og ögrandi og má auðveldlega skilja sem hvatningu til ofbeldis af þessu tagi.

Við mat á mögulegu tjóni stefnanda ber einnig  að horfa til útbreiðslu ummælanna sem, eins og áður er komið fram, takmarkaðist við þá dreifingu sem fólst í birtingu á umræddri Facebook-síðu, innan um hundruð eða þúsundir annarra athugasemda. Þá voru ummælin fjarlægð af vefnum þegar krafa stefnanda var sett fram.

Loks er til þess að líta að með ómerkingu ummælanna í niðurstöðu þessa dóms verður að telja að stefnandi hafi fengið hlut sinn réttan með fullnægjandi hætti.

Með hliðsjón af öllu framanröktu verður ekki talið að efni séu til að dæma stefndu til greiðslu miskabóta.

Þá verður heldur ekki fallist á kröfu stefnanda um að stefnda standi straum af kostnaði við birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í dagblaði. Hin ómerktu ummæli voru látin falla á Facebook-síðu og ekki er tilefni til að stofna til kostnaðar við að birta niðurstöðu dóms með öðrum hætti.

Eftir úrslitum málsins  og með hliðsjón af atvikum öllum er rétt að málskostnaður falli niður.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Eftirfarandi ummæli stefndu, sem birtust á Facebook, 22. nóvember 2012, kl. 17:21 eru dauð og ómerk: „Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku ... Það má allveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem er dreyft út um allan bæ ...“

Stefnda, Sunna Ben Guðrúnardóttir, skal vera sýkn af öðrum kröfum stefnanda, Egils Einarssonar. Málskostnaður fellur niður.