Hæstiréttur íslands

Mál nr. 216/2008


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof


                                     

Fimmtudaginn 30. október 2008.

Nr. 216/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Ægi Birni Ólafssyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Akstur sviptur ökurétti. Reynslulausn. Skilorðsrof.

Æ var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Með broti sínu rauf hann skilorð reynslulausnar sem honum hafði verið veitt á 105 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar og var honum því gerð refsing í einu lagi. Refsing Æ var ákveðin fangelsi í sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega að refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði milduð en til vara að refsiákvörðun héraðsdóms verði staðfest.   

Ákærða er gefið að sök að hafa ekið bifreið 1. september 2007, sviptur ökurétti. Farið var með málið í héraði samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sakarferill ákærða er nokkur. Hann hefur meðal annars oft hlotið refsingu vegna aksturs sviptur ökurétti. Fyrst hlaut hann refsingu fyrir slíkt brot með dómi í nóvember 2004, þá með dómi í janúar 2005 og var sú refsing hegningarauki við fyrrnefnda dóminn. Í október 2005 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun vegna sams konar brots og var enn á ný dæmdur fyrir sömu sakir í lok desember það ár. Í september 2006 gekkst hann svo undir lögreglustjórasátt og í sama mánuði hlaut hann að auki tvisvar sinnum dóm fyrir slík brot en þessi þrjú brot voru framin í febrúar og júní það ár og hefði því mátt dæma um þau í einu lagi. Fallist er á með héraðsdómi að ákærði hafi með broti sínu nú rofið skilorð reynslulausnar sem honum var veitt 17. apríl 2007 á 105 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann hafði hlotið meðal annars vegna aksturs sviptur ökurétti. Ber því að ákveða refsingu í einu lagi með hliðsjón af þeirri fangelsisrefsingu, sem óafplánuð er samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Að þessu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi sex mánuði.

Eftir þessum úrslitum skal áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ægir Björn Ólafsson, sæti fangelsi í sex mánuði.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 224.100 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 3. desember 2007 á hendur Ægi Birni Ólafssyni, kt. 170785-2159, Laugateig 30, Reykjavík fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni SU-894, að kvöldi laugardagsins 1. september 2007, sviptur ökuréttindum, vestur Miklubraut í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn við Fellsmúla í Reykjavík.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði hefur ítrekað verið fundinn sekur um akstur sviptur ökurétti eftir 18 ára aldur. Þá hefur hann með broti sínu rofið skilorð reynslulausnar sem honum var veitt 17. apríl 2007, skilorðsbundið í 1 ár, á 105 daga eftirstöðvum refsingar. Ber að dæma upp reynslulausnina og gera honum refsingu í einu lagi. Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 8 mánuði.

Engan kostnað leiddi af málinu.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð :

   Ákærði,  Ægir Björn Ólafsson, sæti fangelsi í 8 mánuði.