Mál nr. 594/2017
- Ráðningarsamningur
- Kjarasamningur
- Laun
Ágreiningur J og H hf. snérist um það hvort J hefði fengið laun sín greidd að fullu í samræmi við ráðningarsamning þeirra og kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands vegna starfa hans í hvalstöðinni í Hvalfirði á árinu 2015. J höfðaði mál og krafði H hf. um sérstaka greiðslu í samræmi við ráðningarsamning aðila, bónusgreiðslu í samræmi við samkomulag SA og SGS um kjaramál fiskvinnslufólks og frítökurétt og vikulegan frídag í samræmi við fyrrefndan kjarasamning. Var fallist á með J að uppsetning og orðalag ákvæðisins um hina sérstöku greiðslu í ráðningarsamningnum hafi verið með þeim hætti að J hafi mátt ætla að um hefði verið að ræða greiðslu sem innt yrði af hendi til viðbótar föstu vaktagreiðslunni. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að hvíldartími J hefði verið skertur um fimm daga og þó ekki væri gert ráð fyrir að umræddir frídagar væru launaðir hefði verið ljóst að H hf. hefði borið ábyrgð á að J fengi þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningi greindi. Þar sem H hf. hafði ekki gert það var honum gert að greiða J dagvinnulaun vegna þeirra daga. Var krafa J því tekin til greina að hluta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. september 2017 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 7. nóvember 2017. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 1.062.847 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. janúar 2016 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði skylda aðaláfrýjanda til að greiða sér eftirfarandi greiðslur vegna vinnu fyrir hann á árinu 2015: „(i) sérstaka greiðslu í samræmi við 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðila ... (ii) bónusígildi-lágmarksbónus í samræmi við samkomulag SA og SGS um kjaramál fiskvinnslufólks 28. maí 2015. (iii) frítökurétt í samræmi við grein 2.4. í aðalkjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem tók gildi 1. febrúar 2014, að teknu tilliti til breytinga og viðbóta 28. maí 2015. (iv) vikulegan frídag í samræmi við grein 2.4. í aðalkjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem tók gildi 1. febrúar 2014, að teknu tilliti til breytinga og viðbóta 28. maí 2015.“ Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi snýst ágreiningur aðila um það hvort gagnáfrýjandi hafi fengið laun sín greidd að fullu í samræmi við ráðningarsamning aðila og kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands vegna starfa hans í hvalstöðinni í Hvalfirði á árinu 2015. Krafa gagnáfrýjanda er sett fram í fjórum liðum. Fjórði liður kröfunnar varðar greiðslu vegna vikulegs frídags sem gagnáfrýjandi reisir á grein 2.4.3. fyrrnefnds kjarasamnings. Þar segir að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður hafa að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma og skuli við það miðað að vikan hefjist á mánudegi. Verður ákvæði þetta ekki skilið á þann veg að launþegi ávinni sér sér slíkan frídag á launum heldur að haga beri skipulagningu vinnunnar með þeim hætti að gætt sé að þessum vikulega hvíldartíma en vinnuveitandi ber ábyrgð á að svo sé. Verður fallist á það með aðaláfrýjanda að þegar gagnáfrýjandi fékk frí að minnsta kosti einn dag í viku hverri ýmist vegna eigin óska eða svokallaðra brælufría hafi framangreindu ákvæði kjarasamningsins verið fullnægt. Frídagur vegna veikinda telst hins vegar ekki frídagur í skilningi ákvæðisins.
Í málinu liggja fyrir gögn, sem stafa frá aðaláfrýjanda, um fjölda vakta sem gagnáfrýjandi vann á þeim tíma sem hér um ræðir, fjarvistir hans vegna fría að eigin ósk, fjölda veikindadaga og brælufrí. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra vikulegu tímabila þegar gagnáfrýjandi fékk frí að eigin ósk og þegar hann fékk frí vegna brælu, sem reyndar voru launuð, samræmast gögn þessi því að hvíldartími gagnáfrýjanda var skertur um fimm daga á öllu tímabilinu, um þrjá daga á tímabilinu 6. júlí til 26. sama mánaðar, um einn dag á tímabilinu 3. ágúst til 9. sama mánaðar og um einn dag á tímabilinu 14. september til 20. sama mánaðar. Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umræddir frídagar séu launaðir er ljóst að aðaláfrýjandi bar ábyrgð á að gagnáfrýjandi fengi þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningi greinir. Þar sem hann fór ekki að kjarasamningi að þessu leyti verður honum gert að greiða gagnáfrýjanda dagvinnulaun vegna þessara daga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 387/2017. Gagnáfrýjandi reiknar tímagjald dagvinnu með því að deila með dagafjölda í þá fjárhæð sem hann fékk greitt fyrir hverja vakt á virkum degi, en þá greiðslu fékk hann án tillits til þess hvenær sólarhringsins hann vann og bera gögn málsins með sér að inn í þeirri fjárhæð hafi verið vaktaálag. Verður því ekki unnt að styðjast við þá útreikninga en fyrir liggur að gagnáfrýjandi tók laun samkvæmt launaflokki 13 í kjarasamningi og voru dagvinnulaun á þessum tíma 1.447,27 krónur á tímann. Verður því tekin til greina krafa gagnáfrýjanda að þessu leyti að fjárhæð 57.891 króna. Um hina þrjá liði í kröfu gagnáfrýjanda verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Hvalur hf., greiði gagnáfrýjanda, Jökli Þór Jónssyni, 512.947 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. janúar 2016 til greiðsludags.
Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 28. júní 2017.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 10. maí sl., er höfðað af Jökli Þór Jónssyni, Stillholti 5, Akranesi, á hendur Hval hf., Miðsandi, 301 Akranesi, með stefnu birtri 5. janúar 2016.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi greiði honum 1.062.847 krónur, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 19. janúar 2016 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða stefnanda eftirfarandi greiðslur vegna vinnu fyrir stefnda á árinu 2015:
1) Sérstaka greiðslu í samræmi við 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðila, Jökuls og Hvals hf., 29. júní 2015.
2) Bónusígildi-lágmarksbónus í samræmi við samkomulag SA og SGS um kjaramál fiskvinnslufólks 28. maí 2015.
3) Frítökurétt í samræmi við grein 2.4 í aðalkjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem tók gildi 1. febrúar 2014, að teknu tilliti til breytinga og viðbóta 28. maí 2015.
4) Vikulegan frídag í samræmi við grein 2.4 í aðalkjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem tók gildi 1. febrúar 2014, að teknu tilliti til breytinga og viðbóta 28. maí 2015.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum málskostnað.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu, en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Stefndi krefst þess og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu.
II.
Stefnandi starfaði hjá Hval hf. á hvalvertíð árin 2014 og 2015. Fyrir vertíðina árið 2015 undirritaði hann ráðningarsamning við stefnda 29. júní 2015. Samkvæmt 2. gr. samningsins var stefnandi ráðinn til starfa í hvalstöðinni í Hvalfirði frá 29. júní 2015 til loka hvalvertíðar það ár. Miðað var við að vertíð lyki þegar vinnslu afurða úr síðasta hvalnum væri lokið og skyldi ráðningu þá ljúka án uppsagnar. Samkvæmt launaseðlum lauk vertíðinni 4. október 2015.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins var almennt vinnufyrirkomulag 12 tíma vaktir nema yfirmaður samþykkti sérstakar óskir starfsmanns eða meirihluta starfsmanna um annað vinnufyrirkomulag. Fyrir liggur í málinu að stefnandi, ásamt fjölmörgum öðrum starfsmönnum stefnda, ritaði hinn 29. júní 2015 undir yfirlýsingu þar sem fram kemur eftirfarandi: „Undirritaðir starfsmenn Hvals hf. í starfsstöð Hvals hf. í Hvalfirði sem munu í sumar ganga tvískiptar vaktir telja að átta klst. vaktir séu mun hagfelldari kostur með tilliti til hvíldartíma en tólf stunda vaktir. Við óskum eftir því að það vaktafyrirkomulag verði notað í sumar eins og gert hefur verið frá 1950 í Hvalfirði.“
Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. samningsins skyldi stefndi greiða stefnanda 33.142 krónur fyrir hverja 12 tíma í vaktavinnu, mánudaga til föstudaga, en 36.997 krónur fyrir hverja 12 tíma í vaktavinnu um helgar og á samningsbundnum frídögum. Þá var í 3. mgr. 3. gr. samningsins kveðið á um það að stefndi skyldi greiða stefnanda sérstaka greiðslu að fjárhæð 5.736 krónur fyrir hverja 12 tíma í vaktavinnu, en í henni væru innifaldar greiðslur fyrir ferðir til og frá vinnustað og greiðsla fyrir frítökurétt í þeim tilvikum þar sem hvíld væri styttri en 11 klukkustundir á sólarhring. Í greininni sagði svo að ef stefnandi yrði beðinn um að vinna þannig að hann næði ekki átta tíma hvíld milli vakta skyldi stefndi greiða honum aukalega 1,5 tíma í dagvinnu fyrir hvern unninn tíma.
Stefnandi leitaði til Verkalýðsfélags Akraness vegna þess að hann taldi að stefndi hefði brotið gegn samningsbundnum rétti sínum til launagreiðslna. Verkalýðsfélagið sendi stefnda bréf 15. september 2015 þar sem þess var krafist að laun yrðu leiðrétt afturvirkt. Bréfinu var svarað af Samtökum atvinnulífsins, f.h. stefnda, 22. október 2015 og kom þar m.a. fram að launagreiðslur stefnda væru í samræmi við ráðningar- og kjarasamning. Þar sem frekari bréfaskipti milli aðila högguðu ekki framangreindri afstöðu stefnda höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefnda með birtingu stefnu hinn 5. janúar 2016, eins og fyrr segir.
Við aðalmeðferð málsins voru skýrslur teknar af stefnanda, forsvarsmanni stefnda, Kristjáni Loftssyni, og vitnunum Vilhjálmi Birgissyni, Arnari Sigurmundssyni, Friðriki Friðrikssyni, Jökli Harðarsyni og Guðmundi Steinbach.
III.
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar til þess að laun hans eigi að vera í samræmi við ráðningarsamning hans við stefnda og þau lágmarksréttindi sem stefndi hafi skuldbundið sig til að hlíta samkvæmt kjarasamningi. Stefndi hafi hins vegar ekki greitt stefnanda svonefnda sérstaka greiðslu sem þó sé kveðið sérstaklega á um í ráðningarsamningi. Auk þess hafi stefndi hlunnfarið stefnanda um rétt til greiðslu bónusígildis-lágmarksbónuss, frítökuréttar og vikulegs frídags í samræmi við kjarasamning.
Stefnda sé óheimilt að skerða samningsbundin réttindi stefnanda. Ákvæði ráðningarsamnings séu ógild að svo miklu leyti sem þau fari í bága við kjarasamning, sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Jafnvel þótt stefndi greiði meira en lágmark samkvæmt kjarasamningi í einum lið geti hann ekki skert aðra liði niður fyrir lágmarksréttindi. Þannig geti stefndi t.d. ekki skert frítöku- og bónusrétt stefnanda með vísan til þess að tímagjald sé almennt hærra en kjarasamningur geri ráð fyrir.
Stefnandi kveðst aðallega gera fjárkröfu sem nemi þeim vangoldnu launum sem hann eigi inni hjá stefnda. Ef dómstólar telji af einhverjum ástæðum ómögulegt að fallast á fjárkröfuna sé til vara gerð krafa um að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða tilteknar tegundir launatekna. Á grundvelli slíks dóms sé svo hægt að reikna út réttar greiðslur. Stefnandi hafi því beina og lögvarða hagsmuni af því að sækja viðurkenningarkröfur sínar fyrir dómi.
Vinnu stefnanda á hvalvertíðinni 2015 hafi verið þannig háttað að stefnandi hafi að meginreglu til unnið allan sólarhringinn á 8 klst. vöktum með 8 klst. hléum á milli vakta. Í samræmi við 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings hafi stefnda borið að greiða stefnanda 33.142 krónur fyrir hverjar 12 klst. í vaktavinnu, mánudaga til föstudaga, en 36.997 krónur fyrir hverjar 12 klst. í vaktavinnu um helgar og á samningsbundnum frídögum. Miðað við 8 klst. í vaktavinnu, í stað 12 klst., hafi stefnda borið að greiða stefnanda 22.095 krónur fyrir hverja 8 klst. vakt, mánudaga til föstudaga (8/12 x 33.142 kr.), en 24.665 krónur fyrir hverja 8 klst. vakt um helgar og á samningsbundnum frídögum (8/12 x 36.997 kr.). Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings hafi stefnda jafnframt borið að greiða stefnanda sérstaka greiðslu að fjárhæð 5.736 krónur fyrir hverja 12 klst. vakt í vaktavinnu, en fyrir 8 klst. vakt nemi hún samtals 3.824 krónum (8/12 x 5.736 kr.). Stefndi hafi ekki greitt sérstakar greiðslur fyrir unnar vaktir.
Ekki standist sú fullyrðing stefnda að hin sérstaka greiðsla skuli vera innifalin í þeirri fjárhæð sem tilgreind sé í 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins fyrir vaktavinnu, enda hafi launakjörin verið kynnt fyrir stefnanda á þann veg að sérstaka greiðslan væri, eins og heitið beri með sér, sérstök og bættist við greiðslur fyrir hverja vakt. Í ráðningarsamningi séu þessi tvö atriði greinilega aðgreind. Stefnandi hafi með réttu mátt gera ráð fyrir að um væri að ræða tvo aðskilda launaliði, en ekki að annar liðurinn væri innifalinn í hinum. Í 2. mgr. 3. gr. samningsins sé gerð grein fyrir því hvað skuli greiða fyrir vaktavinnu en í 3. mgr. 3. gr. samningsins sé síðan gerð grein fyrir sérstakri greiðslu. Ákvæði 3. gr. ráðningarsamningsins verði því ekki skilið öðruvísi en svo að stefnandi eigi rétt á hvoru tveggja, greiðslu fyrir vaktavinnu og auk þess sérstakri greiðslu. Ekkert tilefni sé til að túlka ákvæði 3. gr. á þann veg að sérstök greiðsla skv. 2. mgr. sé hluti af greiðslu fyrir vaktavinnu skv. 3. mgr.
Við túlkun 3. gr. ráðningarsamningsins verði enn fremur að líta til þess að stefndi hafi einhliða samið umrætt ákvæði og samkvæmt andskýringarreglunni verði hann því að bera hallann af því ef orðalag ráðningarsamningsins taki ekki af tvímæli um tilætlan hans. Stefnda hafi borið að gera stefnanda sérstaklega grein fyrir því, væri það vilji hans að sérstök greiðsla væri innifalin í greiðslu fyrir vaktavinnu. Þar sem það hafi ekki verið gert verði að túlka ákvæði samningsins stefnanda í hag. Það hvíli á stefnda að sýna fram á að samið hafi verið um annað en orðalag samningsins beri með sér. Stefnandi eigi því rétt á sérstakri greiðslu úr hendi stefnda, sem bætist við hverja unna vakt stefnanda á hvalvertíð 2015.
Samkvæmt framangreindu ákvæði ráðningarsamningsins hafi sérstöku greiðslunni verið ætlað að greiða fyrir ferðir til og frá vinnustað og fyrir frítökurétt. Í ákvæðinu hafi þannig falist skuldbinding af hálfu stefnda um að greiða stefnanda fyrir frítökurétt og fyrir ferðir til og frá vinnustað. Slíkar greiðslur eigi raunar einnig stoð í kjarasamningi. Stefndi hafi ekki greitt þessar greiðslur og jafnvel þótt sérstakar greiðslur hefðu verið greiddar dugi þær ekki til að ná lágmarki samkvæmt kjarasamningi.
Á launaseðlum stefnanda sé vísað til þess að laun greiðist samkvæmt launataxta fyrir sérhæft fiskvinnslufólk. Einnig komi fram í tölvupósti frá stefnda til stefnanda 28. ágúst 2015 að stefndi greiði stefnanda laun samkvæmt launaflokki 13 og miðað sé við eins árs starfsreynslu. Sá launataxti sé í samræmi við sérstakt samkomulag, sem gert hafi verið 28. maí 2015 um kjaramál fiskvinnslufólks, og samkomulag um launaflokk fisktæknis, undirritað sama dag. Launakjör stefnanda skuli því að lágmarki vera í samræmi við launakjör samkvæmt framangreindu. Þrátt fyrir að stefndi hafi neitað að afhenda stefnanda nákvæmar og sundurliðaðar tímaskýrslur þá liggi fyrir unnar vinnustundir samkvæmt launaseðlum. Samkvæmt því hafi stefnandi unnið samtals 119 vaktir á hvalvertíðinni 2015. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings eigi hann rétt á sérstakri greiðslu fyrir hverja vakt að fjárhæð 3.824 krónur. Samtals eigi stefnandi því rétt á sérstökum greiðslum á hvalvertíðinni 2015 sem nemi alls 455.056 krónum (119 x 3.824 kr.).
Samkvæmt samkomulagi Samtaka atvinnulífsins (SA) og Starfsgreinasambands Íslands (SGS) 28. maí 2015 um kjaramál fiskvinnslufólks eigi stefnandi rétt á bónusígildi-lágmarksbónus, sem nemi 220 krónum fyrir hverja unna klukkustund, enda hafi stefndi ekki tekið upp afkastatengdar álagsgreiðslur. Þrátt fyrir að ekki hafi verið mælt fyrir um sérstaka bónusgreiðslu í ráðningarsamningi þá eigi stefnandi rétt á greiðslunni á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/1938 og 1. gr. laga nr. 55/1980. Kjarasamningsbundin réttindi verði ekki skert með ákvæðum ráðningarsamnings. Þar sem stefnandi hafi unnið 119 vaktir á hvalvertíðinni 2015 og hver vakt hafi verið 8 klst. þá hafi stefnandi samtals unnið 952 klst. (8 x 119). Af því leiði að fyrir hvalvertíðina 2015 eigi stefnandi rétt á greiðslu bónusígildis-lágmarksbónuss, sem nemi samtals 209.440 krónum (952 x 220 kr.).
Samkvæmt gr. 2.4.1 í áðurnefndum kjarasamningi eigi stefnandi rétt á að minnsta kosti 11 klst. hvíld á milli vakta. Þrátt fyrir að í ráðningarsamningi sé gert ráð fyrir styttri hvíldartíma en samkvæmt kjarasamningi verði frítökuréttur stefnanda að vera í samræmi við kjarasamning. Stefndi hafi ekki gert lögmæta samninga sem víki fyrrgreindum ákvæðum gr. 2.4.1 í kjarasamningi, um hvíldartíma og frítökurétt, til hliðar.
Þar sem stefnandi hafi að meginreglu til unnið allan sólarhringinn á 8 klst. vöktum með 8 klst. hvíld á milli vakta þá hafi verið gengið á framangreindan hvíldartíma stefnanda sem nemi 3 klst. á milli vakta. Vegna þessarar skerðingar á hvíldartíma eigi stefnandi rétt á greiðslu 1,5 klst. í dagvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldartími hans hafi verið skertur. Stefndi hafi neitað að veita upplýsingar um vinnu stefnanda á hvalvertíðinni 2015 og verði hann því að bera hallann af því. Stefnanda hafi því verið nauðugur einn kostur að áætla hvernig vinnutíminn skiptist samkvæmt launaseðlum. Frítökuréttur stefnanda sé ákveðinn þannig að gert sé ráð fyrir því að frá því að stefnandi hóf störf þá hafi hann unnið í 8 klst., eftir það tekið sér 8 klst. hlé og því næst hafið aftur vinnu og unnið í 8 klst. og svo koll af kolli þar til fjölda vakta samkvæmt launaseðli fyrir sérhvert launatímabil hafi verið náð. Þegar stefnandi hefji störf eftir einungis 8 klst. hvíld þá hafi réttur hans til hvíldar skerst um 3 klst. þann sólarhringinn. Miðað við framangreint vinnufyrirkomulag stefnanda hafi hvíld hans að jafnaði skerst um 3 klst. á sólarhring. Fjöldi skertra hvíldartíma stefnanda sé því næst lagður saman og sá tími margfaldaður með 1,5, sbr. gr. 2.4.1 í kjarasamningi. Samkvæmt endanlegum útreikningum stefnanda, á dskj. nr. 34, nemi frítökuréttur stefnanda samtals 261 klst.
Samkvæmt gr. 2.4.1 í kjarasamningi skuli miða greiðslu frítökuréttar við dagvinnukaup. Í ráðningarsamningi stefnanda sé launagreiðslum hans skipt í laun fyrir vaktir á virkum dögum og laun fyrir vaktir um helgar. Gera verði ráð fyrir því að laun fyrir vaktir á virkum dögum feli í sér samningsbundið dagvinnukaup stefnanda. Dagvinnukaup stefnanda fyrir hverja klst. reiknist því 2.762 krónur (1/12 x 33.142 kr.). Fyrir hvalvertíðina 2015 eigi stefnandi rétt á greiðslu frítökuréttar sem nemi samtals 720.839 krónum (261 x 2.762 kr.).
Samkvæmt gr. 2.4.3 í kjarasamningi eigi stefnandi rétt á að minnsta kosti einum vikulegum frídegi á hverju sjö daga tímabili. Samkvæmt fyrrgreindu vinnufyrirkomulagi stefnanda hafi hann að jafnaði ekki átt neinn vikulegan frídag. Stefnandi eigi rétt á greiðslu fyrir vikulega frídaga, sem nemi samtals 48 klst., eða samtals 132.568 krónum.
Sérstakri greiðslu sé samkvæmt ráðningarsamningi ætlað að greiða fyrir frítökurétt og ferðir til og frá vinnu. Ekki sé þó gerð sérstök krafa um akstur. Þá sé ekki gerð krafa um að greitt verði tvisvar fyrir frítökurétt. Í eftirfarandi sundurliðun sé gerð krafa um sérstöku greiðsluna að fullu þannig að hún leggist við hverja vakt. Sérstöku greiðslurnar dugi þó ekki til þess að greiða fyrir frítökurétt. Þannig standi eftir krafa fyrir frítökurétt að fjárhæð 265.783 krónur (720.839 kr. - 455.056 kr.).
Sérstök greiðsla skv. ráðningarsamningi 455.056 krónur.
Bónusgreiðsla skv. kjarasamningi 209.440 krónur.
Greiðsla frítökuréttar umfram sérst. greiðslu 265.783 krónur.
Greiðsla fyrir vikulegan frídag 132.568 krónur.
Samtals 1.062.847 krónur.
IV.
Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefndi hafi staðið í fullum skilum með allar greiðslur samkvæmt ráðningarkjörum og skuldi stefnanda ekki neitt. Stefnandi hafi þegar fengið greidd laun í samræmi við störf sín hjá stefnda samkvæmt ráðningarsamningi aðila og 20. kafla kjarasamnings SA og SGS um iðnverkafólk, sem gildi í matvælaiðnaði. Kröfugerð stefnanda byggist á röngum forsendum og útreikningum. Útreikningar stefnanda í greinargerð séu augljóslega rangir, enda hafi hann gefið sér að allar greiddar vaktir hans samkvæmt launaseðlum hafi verið raunverulegar vinnuvaktir þótt hluti vaktanna hafi verið greiddar veikindavaktir og bræluvaktir. Á dskj. nr. 21 sé að finna útreikning vaktalauna miðað við raunverulegan vinnutíma stefnanda og hann borinn saman við launaseðla, en stefnandi hafi fengið laun greidd hálfsmánaðarlega.
Fullyrðingar í stefnu um að sérstök greiðsla samkvæmt ráðningarsamningi sé ógreidd sé einfaldlega röng. Hún hafi verið reiknuð inn í vaktakaupið. Auðvelt sé að sjá þetta þegar fjárhæð vaktagreiðslna sé brotin niður. Ekki sé ágreiningur með aðilum um að stefndi hafi miðað laun starfsmanna við 13. launaflokk kjarasamnings SA og SGS fyrir tækjamenn/lyftaramenn, en stefndi hafi yfirborgað starfsmenn sína með því að nota þann launaflokk. Á dskj. nr. 22 sjáist að sérstakri greiðslu hafi verið bætt við tímakaup dagvinnu og yfirvinnu við útreikning á vaktakaupi fyrir 8 klst. vaktir. Þetta sjáist enn betur á dskj. nr. 26, yfirliti yfir vaktir, fjölda unninna tíma og fjölda greiddra tíma. Stefndi hafði þannig bætt sérstöku greiðslunni við fjárhæðir, sem birtist í ráðningasamningnum. Tilvísun í þá greiðslu í ráðningarsamningnum sé einvörðungu til að undirstrika að til hennar hafi verið tekið tillit í tölulegum útreikningi vaktagreiðslna. Ef taka eigi kröfu stefnanda um þetta til greina leiði það til þess að sú greiðsla sé tvígreidd. Um það hafi ekki verið samið í samningnum og því eigi stefnandi ekki rétt til þess.
Stefnandi hafi ekki unnið við fiskvinnslustörf, eins og haldið sé fram í stefnu, heldur hafi hann unnið í matvælaiðnaði, það er í kjötvinnslu, við hvalskurð. Vinnsla hvalafurða falli undir ákvæði 20. kafla kjarasamnings SA og SGS sem gildi almennt í matvælaiðnaði skv. grein 20.1, en undanþegnir séu starfsmenn sem starfi skv. 18. kafla um kauptryggingu fiskvinnslufólks. Langreyður, sem sé sú hvalategund sem stefndi veiði, sé næststærsta spendýr jarðar, en hvorki hún né hvalir almennt sé fiskur. Stefnandi hafi því ekki unnið við fiskvinnslustörf og því eigi ákvæði 18. kafla kjarasamnings SA og SGS um fiskvinnslufólk og samkomulag um kjaramál fiskvinnslufólks ekki við um störf hans.
Aldrei hafi verið unnið eftir bónuskerfi hjá stefnda í hvalstöðinni í Hvalfirði, eins og tíðkast hafi hjá fiskvinnslufólki við bolfiskvinnslu um áratugaskeið. Stefnandi hafi ekki verið ráðinn hjá stefnda sem fisktæknir eða til fiskvinnslu og falli hann því ekki undir kjör fiskvinnslufólks. Undir 13. launaflokk SA og SGS falli tækjamenn og lyftaramenn, svo dæmi sé tekið, en samkvæmt upplýsingum stefnanda sé hann með slík réttindi.
Launaseðlar sem stefnandi hafi fengið í heimabanka hafi ekki verið með réttu starfsheiti vegna mistaka sem gerð hafi verið í forritun NAVISION-kerfis stefnda árið 2009 og ekki orðið stefnda ljós fyrr en nú. Framsetning launaseðla sem birtist í heimabanka stefnanda gerist sjálfvirkt í launakerfi NAVISION og starfsmenn á skrifstofu stefnda sjái þá ekki, eins og þeir birtist í heimabanka stefnanda. Þess vegna hafi réttir launaseðlar, eins og þeir komi fram í launakerfi stefnda, einnig verið lagðir fram í málinu.
Atvinnurekandi hafi túlkunarréttinn um það hvaða kjarasamningsákvæði/kafli skuli gilda. Það sé á hans ábyrgð að framkvæma kjarasamninga. Ljóst sé að stefnandi hafi alltaf haldið fullum launum, óskertu vaktakaupi, í brælufríum, bæði á virkum dögum og um helgar, þegar ekkert hafi verið að gera vegna þess að hvalur hafi ekki borist á land.
Laun sem stefndi hafi greitt hafi verið umfram lágmarkslaunaákvæði 20. kafla, þar sem kveðið sé á um rétt stefnanda til 6. launaflokks fyrir sérhæft iðnverkafólk. Stefndi hafi þess í stað miðað launaútreikninga sína við 13. launaflokk og auk þess greitt stefnanda umfram lögbundið vaktaálag.
Stefnandi hafi engan rétt átt til vikulegs frídags eða frítökuréttar samkvæmt kjarasamningum eða lögum. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi greitt starfsmönnum sínum sérstaka greiðslu vegna ferðakostnaðar þeirra við að komast til og frá vinnu og einnig vegna hugsanlegs frítökuréttar.
Það hafi hvorki verið óhjákvæmilegt eða nauðsynlegt að hafa vaktakerfið eins og starfsmenn hafi beðið um, þ.e.a.s. 8 klst. vaktir í stað 12 klst. Vegna þeirrar ákvörðunar að hafa 8 klst. vaktir og 8 klst. vaktarfrí milli vakta þá hafi frítökuréttarákvæði alls ekki átt við um vinnu þeirra. Samkvæmt gr. 2.4.2 í kjarasamningnum megi ekki skipuleggja vaktir þannig að brotinn sé hvíldartími. Frítökuréttarákvæðin eigi alls ekki við þegar vaktakerfið samræmist ekki ákvæðum um 11 klst. hvíld.
Starfsmenn hafi ekki verið beðnir um að víkja frá 11 klst. reglunni. Þeir hafi ákveðið það sjálfir með því að óska eftir 8 klst. vöktum og staðfest það með undirskrift sinni. Réttur launþega hljóti að vera sá að þeir geti sjálfir tekið ákvarðanir um það hvernig þeir kjósi að vinna. Eitt sé að eiga réttinn og annað að nýta hann. Eins og yfirlitið um vinnu stefnanda á dskj. 20 beri með sér hafi allra reglna um frítöku verið gætt og vinna verið í fullu samráði við stefnanda. Samanlagður frítími á vinnutíma hans hjá stefnda hafi verið ríflegur og innan þeirra marka sem kjarasamningur geri ráð fyrir á tímabilinu. Raunar komi einnig skýrt fram í 4. mgr. gr. 2.4.2 að kjarasamningsákvæði um frítökurétt eigi ekki við á skipulögðum vaktaskiptum, en þá sé heimilt að stytta hvíldartíma í allt að 8 klst. í stað 11 klst. Starfsmenn stefnda hafi færst á milli vakta þannig að þeir hafi aldrei verið á sömu vaktinni á sama sólarhring. Hafi frítökuréttur hins vegar stofnast þá hafi hann að fullu verið greiddur með sérstöku greiðslunni. Loks sé vakin athygli á því að útreikningur stefnanda á frítökurétti sé augljóslega rangur, sem ætti að leiða til frávísunar málsins vegna vanreifunar.
Stefndi byggir og á því að krafa stefnanda um greiðslu svokallaðs vikulegs frídags verði hvorki reist á ákvæði kjarasamnings né lagaákvæðum. Vikulegur hvíldardagur skv. gr. 2.4.3 sé ekki launaður frídagur, launaður orlofsdagur né heldur safnist vikulegir frídagar, sem hafi ekki verið teknir vikulega, saman og skapi sjálfstæðan rétt til launagreiðslu eftir starfslok, eins og felist í kröfugerð stefnanda. Stefnandi eigi því ekki rétt til launaðra frídaga, eins og hann krefjist í málinu. Í lögum og kjarasamningum hafa um áratugaskeið verið ákvæði um lágmarkshvíld, m.a. ákvæði um vikulegan hvíldardag. Núgildandi lagaákvæði um vikulegan frídag sé að finna í 54. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar komi m.a. fram að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma skv. 53. gr. Ef sérstök þörf sé á vegna eðlis hlutaðeigandi starfa sé heimilt með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar og ávallt innan 14 daga. Þar sem sérstakar ástæður geri slík frávik nauðsynleg megi þó ákveða með samkomulagi á vinnustað að fresta vikulegum hvíldartíma þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á hverjum tveimur vikum. Í lögunum sé hins vegar ekki að finna ákvæði um það að vikulegur frídagur skuli vera launaður né heldur heimili lögin að viðbótarlaunagreiðslur megi koma í stað töku vikulegra frídaga eftir 14 daga. Viðurlög við broti á lögunum geti hins vegar varðað refsingu skv. 99. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. megi aðilar vinnumarkaðarins semja um nánari framkvæmd og útfærslu á vikulegum frídegi, þó þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíld síðar og ávallt innan 14 daga.
Í kjarasamningum einstakra stéttarfélaga innan ASÍ sé síðan að finna nánari ákvæði um hvíldartíma starfsmanna, sbr. gr. 2.4 um lágmarkshvíld í kjarasamningi SA og SGS. Samkvæmt gr. 2.4.3 í þeim kjarasamningi eigi starfsmaður rétt á a.m.k. einum vikulegum frídegi, en þessi vikulegi frídagur sé ekki launaður samkvæmt samningsákvæðinu. Uppsöfnun ólaunaðra frídaga og umbreyting þeirra í launaða frídaga eigi sér því enga stoð í samningsákvæðinu eða lögum og sé raunar í beinni andstöðu við tilgang lagaákvæðisins.
Loks sé á það bent að starfsmenn hafi fengið launuð frí í brælum þegar engin veiði hafi verið og lokið hafi verið vinnslu þess afla sem síðast kom á land. Starfsmenn stefnda hafi farið heim til sín í brælum á fullu vaktakaupi. Þetta hafi í tilfelli stefnanda verið 18 greiddar frívaktir, sem samsvari 12 dögum á hvalvertíðinni 2015.
Varðandi viðurkenningarkröfur stefnanda kveðst stefndi telja að þær séu efnislega ódómtækar. Því til stuðnings, og til stuðnings varakröfu sinni um lækkun stefnukröfunnar, vísar stefndi til sömu málsástæðna og að framan greinir. Auk þess mótmælir hann öllum kröfum um vexti eða dráttarvexti skv. lögum nr. 38/2001.
V.
Niðurstaða
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnandi hafi fengið fullt uppgjör í samræmi við þann ráðningarsamning sem aðilarnir gerðu með sér hinn 29. júní 2015 og þann kjarasamning sem um laun stefnanda gilti vegna starfa stefnanda hjá stefnda í hvalstöðinni í Hvalfirði til loka hvalvertíðar það ár.
Í 4. gr. ráðningarsamningsins er tiltekið að stéttarfélag sé Verkalýðsfélag Akraness og að þegar vitnað sé til kjarasamnings sé átt við kjarasamning Samtaka atvinnulífsins (SA) við Starfsgreinasamband Íslands (SGS). Segir og í 8. gr. að réttindi og skyldur starfsmanns og fyrirtækis fari að öðru leyti skv. lögum og/eða gildandi kjarasamningi. Ekkert er þar þó tiltekið nánar um það eftir hvaða kafla kjarasamningsins stefnandi taki laun. Heldur stefnandi því fram að um laun hans hafi átt að fara í samræmi við launataxta fyrir sérhæft fiskvinnslufólk á grundvelli 18. kafla kjarasamningsins, en það sé í samræmi við það sem tilgreint sé á launaseðlum, sem hann hafi haft aðgang að í heimabanka sínum. Þá komi fram í tölvupósti stefnda til stefnanda að hann hafi greitt stefnanda laun samkvæmt launaflokki 13 og að miðað hafi verið við eins árs starfsreynslu. Vísar stefnandi til samkomulags SA og SGS, dags. 28. maí 2015, um launaflokk fisktæknis, þar sem fram kemur að fisktæknar sem lokið hafi námi frá Fisktækniskóla Íslands skuli raðast í 13. launaflokk samnings þessara aðila, en nám í fisktækni sé nám á framhaldsskólastigi, tvær annir í bóklegu námi og tvær annir vinnustaðatengt nám. Laun hans eigi að vera í samræmi við kjarasamning SA og SGS fyrir fiskvinnslufólk, nánar tiltekið samkvæmt launaflokki fisktæknis. Stefndi hefur hins vegar alfarið neitað því að laun stefnanda eða annarra starfsmanna hans hafi grundvallast á þeim ákvæðum framangreinds kjarasamnings sem gildi um fiskvinnslufólk, enda hafi engin fiskvinnsla farið fram á hans vegum. Þá tilgreiningu á starfsheiti sem fram komi á þeim launaseðlum sem stefnandi hafi prentað út úr heimabanka sínum og lagt fram í málinu megi rekja til mistaka í forritun launaseðilsins, sem einungis hafi sést í heimabanka launþegans, en starfsmenn við útborgun launanna hafi ekki orðið hans varir fyrr en til málareksturs þessa kom. Hið rétta sé að stefnandi hafi starfað hjá stefnda við hvalkjötsvinnslu og þegið laun samkvæmt 20. kafla kjarasamningsins um iðnverkafólk, sem gildi almennt um laun þeirra sem starfi í matvælaiðnaði. Hann hafi þegið laun samkvæmt 13. launaflokki þess kafla samningsins er gildi fyrir tækjamenn/lyftaramenn, en stefndi hafi yfirborgað starfsmenn sína samkvæmt þeim flokki.
Í gr. 20.1, í 20. kafla samningsins sem gildir um iðnverkafólk, kemur fram að hann gildi um iðnverka- og verksmiðjufólk sem starfi í iðnaði, s.s. efna-, plast-, prent-, matvæla-, fata-, skinna-, hreinlætis-, lyfja-, málm- og drykkjarvöruiðnaði, en undanþegnir séu þó starfsmenn sem starfi skv. 18. kafla samningsins um kauptryggingu fiskvinnslufólks og gildandi samningum um sláturhús. Fyrir liggur að hvergi er í ráðningarsamningi stefnanda vikið að kauptryggingu eða tilgreint með öðrum hætti að um laun hans fari eftir umræddum 18. kafla samningsins. Þá verður ekki talið að áðurgreind tilgreining á launaseðli þeim sem stefnandi hafði aðgang að í heimabanka sínum, um að stefnandi fengi greitt sem „sérhæfður fiskvinnslumaður“, hafi afgerandi þýðingu í þessu tilliti, þótt óheppileg sé, enda fær hún engan stuðning að öðru leyti í gögnum málsins. Á sama hátt verður ekki talið að framangreind svör stefnda í tölvupósti, um að stefnandi hafi fengið greitt eftir 13. launaflokki, hafi neina sérstaka þýðingu í þessu tilliti, enda kveðst stefndi hafa skilgreint stefnanda sem tækja- eða lyftaramann, tækjastjórnanda II, skv. launaflokki 13.
Að öllu framangreindu virtu, og þar sem stefnandi hefur ekki á neinn hátt sýnt fram á að umrætt starf hans eða menntun eigi með einhverjum hætti að leiða til þeirrar niðurstöðu að hann eigi kröfu til launa sem fisktæknir samkvæmt framangreindum launaflokki í 18. kafla kjarasamnings SA og SGS, verður að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að um laun hans fari eftir þeim kafla kjarasamningsins.
Kröfuliður 1
Stefnandi krefst þess að stefndi greiði honum 455.056 krónur vegna svokallaðrar sérstakrar greiðslu sem stefnda hafi borið að greiða honum á grundvelli 3. mgr. 3. gr. í ráðningarsamningi aðilanna. Í 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins kemur fram að fyrir hverja 12 tíma vakt, frá mánudegi til föstudags, séu greiddar 33.142 krónur, en 36.997 krónur fyrir hverja vakt um helgar eða á samningsbundnum frídögum. Þá segir svo í 3. mgr. 3. gr.: „Í sérstakri greiðslu kr. 5.736 fyrir hverja 12 tíma í vaktavinnu eru innifaldar greiðslur fyrir ferðir til og frá vinnustað og greiðsla fyrir frítökurétt í þeim tilvikum að hvíld er styttri en 11 klst. á sólarhring. Ef starfsmaður er beðinn um að vinna þannig að hann nái ekki 8 stunda hvíld milli vakta skal greiða aukalega 1 ½ tíma í dagvinnu fyrir hvern unnin tíma.“ Þar sem fyrir liggur að stefnandi gekk átta tíma vaktir en ekki 12 tíma vaktir nemur framangreind fjárhæð 8/12 x 5.736 krónum, eða 3.824 krónum. Greinir aðilana á um það hvort stefnandi eigi, eins og stefnandi byggir á, rétt til hinnar sérstöku greiðslu skv. 3. mgr. 3. gr. til viðbótar við umsamdar vaktagreiðslur skv. 2. mgr. eða hvort hún hafi verið innifalin í hinum föstu greiðslum fyrir vaktavinnu, svo sem stefndi staðhæfir.
Lögmaður stefnda hélt því fram í málflutningsræðu sinni við aðalmeðferð málsins að stefnandi hefði firrt sig rétti til að hafa uppi framangreinda kröfu, um hina sérstöku greiðslu til viðbótar hinni föstu vaktagreiðslu, vegna þess hversu seint hann hefði gert athugasemdir vegna vangreiðslu hennar. Lögmaður stefnanda mótmælti þessari málsástæðu hins vegar sem of seint fram kominni. Með því að ekki verður séð að þessari málsástæðu stefnda hafi verið hreyft á fyrra stigi málsins verður henni hafnað, þegar af þeirri ástæðu, sem of seint fram kominni, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi hefur lagt fram yfirlit yfir það hvernig hin fasta greiðsla fyrir unnar vaktir skv. 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamningsins sé reiknuð út miðað við þær forsendur sem hann kveðst hafa gengið út frá, að laun stefnanda miðuðust við 13. launaflokk framangreinds kjarasamnings. Sýnist mega af því ráða að stefndi hafi reiknað með hinni sérstöku greiðslu inn í hina tilgreindu föstu vaktagreiðslu við útreikning og útgreiðslu launa til stefnanda. Eigi að síður verður á það fallist með stefnanda að uppsetning og orðalag ákvæðisins um hina sérstöku greiðslu í ráðningarsamningnum sé með þeim hætti að stefnandi hafi mátt ætla að um væri að ræða greiðslu sem innt yrði af hendi til viðbótar föstu vaktagreiðslunni. Með hliðsjón af eðli þess samnings sem hér um ræðir, sem saminn hefur verið einhliða af stefnda, og því að stefndi hefur ekki sýnt fram á að stefnanda hafi mátt vera kunnugt um að sérstaka greiðslan ætti að vera innifalin í hinni föstu vaktagreiðslu, verður lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu að stefnda hafi borið að greiða sérstöku greiðsluna til viðbótar við vaktagreiðsluna skv. 2. mgr. 3. tl. ráðningarsamningsins. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um vaktir stefnanda verður fallist á kröfu hans vegna þessa kröfuliðar, eins og hún er sett fram.
Kröfuliður 2
Stefnandi krefst þess í 2. lið kröfugerðar sinnar að stefndi greiði honum vangreidda bónusgreiðslu að fjárhæð 209.440 krónur, í samræmi við samkomulag um kjaramál fiskvinnslufólks, sem SA og SGS gerðu með sér hinn 28. maí 2015, til nánari útfærslu og viðbótar við 18. kafla kjarasamnings aðilanna um kjaramál fiskvinnslufólks. Með því að áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að fyrrgreindur 18. kafli hafi ekki gilt um kjör stefnanda, heldur 20. kaflinn, verður stefndi sýknaður af þessum kröfulið stefnanda.
Kröfuliður 3
Í 3. kröfulið gerir stefnandi kröfu um það að hann fái greiddar 209.440 krónur vegna ógreidds frítökuréttar skv. gr. 2.4.1 og gr. 2.4.2 í umræddum kjarasamningi SA og SGS, en hann eigi rétt á 1,5 klst. frítökurétti fyrir hverja klst. sem 11 klst. hvíld skerðist. Í nefndri gr. 2.4.1, sem hefur yfirskriftina „Daglegur hvíldartími“, er kveðið á um það í 1. mgr. að vinnutíma skuli haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld, og í gr. 2.4.2, sem ber yfirskriftina „Frávik og frítökuréttur“, er m.a. fjallað um framangreindan frítökurétt vegna skerðingar á hvíldartíma. Á hinn bóginn er svo eftirfarandi tiltekið í 5. mgr. gr. 2.4.2: „Framangreind ákvæði eiga þó ekki við á skipulegum vaktaskiptum en þá er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst.“
Í 2. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðilanna kemur fram að almennt vinnufyrirkomulag skuli vera 12 tíma vaktir nema yfirmaður samþykki sérstakar óskir starfsmanns eða meirihluta starfsmanna um annað vinnufyrirkomulag. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing, dags. 29. júní 2015, sem ýmsir starfsmenn stefnda, þar á meða stefnandi, rituðu undir, sem er svohljóðandi: „Undirritaðir starfsmenn Hvals hf. í starfsstöð Hvals hf. í Hvalfirði sem munu í sumar ganga tvískiptar vaktir telja að átta klst. vaktir séu mun hagfelldari kostur með tilliti til hvíldartíma en tólf stunda vaktir. Við óskum eftir því að það vaktafyrirkomulag verði notað í sumar eins og gert hefur verið frá 1950 í Hvalfirði.“
Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að umsamið vinnufyrirkomulag stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi aðilanna miðaðist við 12 klst. vaktir, en var stytt niður í 8 klst. vaktir á grundvelli fyrrgreindrar óskar hans og ýmissa annarra starfsmanna stefnda. Með hliðsjón af því, og þar sem ekki verður annað séð en að framangreind stytting hverrar vaktar, og þar með hvíldartíma milli þeirra, hafi með samþykki stefnanda verið stefnda heimil skv. 1. mgr. 3. gr. ráðningarsamnings aðilanna, verður að hafna því, með vísan til tilvitnaðs ákv. 4. mgr. í gr. 2.4.2 í kjarasamningi, að stefnandi hafi öðlast rétt til frítökugreiðslu vegna skerðingar á hvíldartíma. Verður stefndi því sýknaður af þessum kröfulið stefnanda.
Kröfuliður 4
Stefnandi krefst þess loks að stefndi greiði honum 132.568 krónur vegna vikulegra frídaga sem hann hafi átt rétt á að fá en ekki fengið í vinnu sinni hjá stefnda, sbr. gr. 2.4.3 í kjarasamningi. Í því ákvæði kemur fram að starfsmaður eigi rétt á a.m.k. einum vikulegum frídegi á hverju sjö daga tímabili. Byggist ákvæði þetta á því ákvæði, sem fram kemur í 54. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að á hverju sjö daga tímabili skuli starfsmaður fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag, en ef sérstök þörf sé á vegna eðlis hlutaðeigandi starfa sé heimilt með samningum samtaka aðila vinnumarkaðarins að fresta vikulegum frídegi þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíldartíma síðar og ávallt innan 14 daga. Hvorki í lögunum né kjarasamningnum er þó tiltekið að hinn vikulegi frídagur skuli launaður á einhvern hátt ef ekki er eftir þessu farið af hálfu vinnuveitandans. Með hliðsjón af því verður þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda. Verður stefndi því sýknaður af þessum kröfulið stefnanda.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 455.056 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi máls þessa hinn 19. janúar 2016 til greiðsludags.
Með hliðsjón af þessum málsúrslitum verður stefndi og dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Uppkvaðning dóms hefur dregist fram yfir frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en dómari og lögmenn töldu ekki þörf á endurflutningi.
Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Dómsorð:
Stefndi, Hvalur hf., greiði stefnanda, Jökli Þór Jónssyni, 455.056 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi máls þessa hinn 19. janúar 2016 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.