Hæstiréttur íslands

Mál nr. 605/2014


Lykilorð

  • Kaupleiga
  • Aðild
  • Kröfugerð
  • Málsástæða
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


                                     

Fimmtudaginn 30. apríl 2015.

Nr. 605/2014.

Sverrir Þór Skaftason

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf. og

(Árni Ármann Árnason hrl.)

Þórhalli M. Kristjánssyni

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

og

Þórhallur M. Kristjánsson gegn

Sverri Þór Skaftasyni

Kaupleiga. Aðild. Kröfugerð. Málsástæður. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.

S falaðist eftir kaupum á bifreið í eigu Þ og var útbúinn kaupsamningur og afsal þar sem Þ var tilgreindur seljandi, L hf. kaupandi og S umráðamaður bifreiðarinnar. Jafnhliða gerðu L hf. og S með sér kaupleigusamning um bifreiðina. Um tveimur mánuðum eftir að S fékk umráð bifreiðarinnar kom upp bilun í henni og á grundvelli kostnaðarmats vegna viðgerðar lýsti S yfir riftun á kaupleigusamningnum við L hf. sem L hf. hafnaði með vísan til þess að vanefndir teldust ekki slíkar að rifta skyldi samningnum. Þá hafnaði Þ því jafnframt að hann yrði gerður ábyrgur fyrir göllum á bifreiðinni. S höfðaði því mál á hendur L hf. og Þ og krafðist þess aðallega að viðurkennd yrði riftun sín á kaupleigusamningi við L hf. og að L hf. yrði gert að endurgreiða sér þá fjárhæð sem hann hafði greitt á grundvelli samningsins. Til vara krafðist hann þess að L hf. og Þ yrði óskipt gert að greiða sér afslátt af kaupverði bifreiðarinnar. Að auki krafðist hann þess að L hf. og Þ yrði óskipt gert að greiða sér skaðabætur að álitum. Héraðsdómur sýknaði L hf. af kröfu S, en dæmdi Þ til þess að greiða S tiltekna fjárhæð vegna gallans. Hæstiréttur taldi S ekki hafa í héraðsdómsstefnu gert nægjanlega grein fyrir því á hvaða grundvelli Þ hefði verið stefnt í málinu, en þar hefði verið staðhæft að ekki væri samningssamband milli S og Þ. Þá væri enga skýringu að finna á því við hvaða lagaheimild væri stuðst þegar L hf. og Þ væri stefnt sameiginlega til greiðslu afsláttar og skaðabóta. Væri aðild málsins, að því er varðaði Þ, því svo vanreifuð að vísa bæri kröfum S á hendur honum frá héraðsdómi. Þá var kröfum S á hendur L hf. vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum þar sem málatilbúnaður hans á hendur L hf. uppfyllti ekki kröfur d. og e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 7. júlí 2014. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. ágúst 2014 og áfrýjaði hann öðru sinni 15. september sama ár. Hann krefst þess aðallega að viðurkennd verði riftun sín 11. júlí 2011 á kaupleigusamningi við stefnda Lýsingu hf. 29. mars sama ár vegna bifreiðarinnar AT-631 og að stefnda verði gert að endurgreiða sér 985.053 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 29. mars 2011 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda og gagnáfrýjanda verði sameiginlega gert að greiða sér 1.236.229 krónur, en að því frágengnu 436.634 krónur. Verði ekki fallist á framangreindar kröfur krefst aðaláfrýjandi þess að héraðsdómur verði staðfestur og gagnáfrýjanda gert að greiða sér dráttarvexti af hinni dæmdu fjárhæð frá 30. október 2011 til greiðsludags. Að auki krefst aðaláfrýjandi þess að stefnda og gagnáfrýjanda verði sameiginlega gert að greiða sér 200.000 krónur með dráttarvöxtum frá 29. mars 2011 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 21. október 2014. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi að því er sig varðar, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvik eru þau að aðaláfrýjandi falaðist eftir kaupum á bifreiðinni Nissan Double Cab með fastanúmer AT-631 hjá Bílasölunni Ósi, Akureyri, og útbjó bifreiðasalan kaupsamning og afsal fyrir bifreiðinni 30. mars 2011. Gagnáfrýjandi var tilgreindur seljandi, stefndi kaupandi og aðaláfrýjandi umráðamaður hins selda, en allir undirrituðu þeir samninginn. Í honum kom fram að ökutækið væri selt í núverandi ástandi sem kaupandi hefði kynnt sér, en seljandi kynni að vera ábyrgur gagnvart kaupanda vegna galla samkvæmt almennum reglum. Þá var kaupverð tilgreint 1.600.000 krónur.

Jafnhliða var gerður samningur milli aðaláfrýjanda og stefnda 29. mars 2011, sem bar yfirskriftina ,,Bílasamningur Lýsingar“. Í samningnum var aðaláfrýjandi greindur leigutaki og stefndi leigusali og þeir sagðir gera með sér kaupleigusamning um hið leigða, sem var framangreind bifreið. Samkvæmt samningnum var gagnáfrýjandi seljandi bifreiðarinnar, en hann undirritaði hann ekki.

Í umræddum kaupleigusamningi var leigutími sagður vera frá 5. apríl 2011 til 5. júlí 2014, fjöldi greiðslna 38 og kaupverð bifreiðarinnar tilgreint 1.600.000 krónur. Í 5. gr. samningsins sem fjallaði um upphaf og lok leigutíma sagði meðal annars að væri leigumunur skráningarskylt ökutæki eða vinnuvél, veitti leigutaki með undirskrift sinni leigusala fullt umboð til þess að undirrita tilkynningu um eigendaskipti við lok samningstíma fyrir hönd leigutaka svo unnt væri að skrá ökutækið á hans nafn hjá Umferðarstofu. Jafnframt sagði þar að leigusali bæri enga eigandaábyrgð á leigumun gagnvart leigutaka, enda hefði leigutakinn haft leigumun til umráða frá upphafi samnings. Í 8. gr. samningsins kom fram að leigusali væri eigandi leigumunar og að leigutaka væri óheimilt að stofna til hvers konar löggerninga um leigumun. Við síðustu leigugreiðslu eða greiðslu eftirstöðva samnings á hverjum tíma gæfi leigusali út afsal til leigutaka fyrir leigumun, sbr. 5. gr. samningsins, enda væri samningurinn að öðru leyti í skilum. Þá var tekið fram í 9. gr. hans að leigutaki bæri áhættuna af því, færist leigumunur eða skemmdist, eftir að leigumunur hefði verið afhentur leigutaka. Leigutaki sæi um að velja leigumun og annast fyrir hönd leigusala skoðun hans svo sem kaupanda væri skylt samkvæmt lögum nr. 50/2002 um lausafjárkaup. Leigusali tæki enga ábyrgð á leigumun. Leigutaki staðfesti að hið leigða væri afhent honum og hann tæki við því án fyrirvara og hefði sannreynt með nauðsynlegri skoðun og prófun að hið leigða væri gallalaust og hefði umsamda eiginleika. Í 11. gr. samningsins, sem fjallaði um vanefndir seljanda, sagði að leigutaka bæri að tilkynna leigusala skriflega eða með öðrum jafn tryggilegum hætti, reyndist leigumunur gallaður, svo unnt væri að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir gagnvart seljanda munarins vegna vanefnda hans. Leigutaka bæri að greiða leigu þótt seljandi vanefndi samning sinn við leigusala eða leigutaka. Leigutaki gæti þó átt rétt til afsláttar, skaðabóta eða endurgreiðslu. Nánar var þar rakið að leiddu vanefndir seljanda til afsláttar af kaupverði eða til skaðabóta úr hans hendi skyldi það koma leigutaka að fullu til góða í formi innborgunar á samning. Jafnframt kom fram að væru vanefndir seljanda svo verulegar að rifta mætti kaupum skyldi leigusali taka þá ákvörðun og tilkynna seljanda hana. Greiddi leigutaki þá kostnað við kröfugerð á hendur seljanda vegna vanefnda þess síðarnefnda hvort sem sú kröfugerð væri gerð í nafni leigusala eða krafan framseld til leigutaka. Samkvæmt 12. gr. samningsins bar leigutaka að halda leigumun vel við og láta gera við allar skemmdir og bilanir, jafnframt því að fylgja reglum seljanda og framleiðanda við notkun hans. Í niðurlagi 28. gr. sagði að greiðsluáætlun sem var fylgiskjal samningsins skoðaðist sem hluti hans. Þar var gerð grein fyrir mánaðarlegum greiðslum samkvæmt samningnum og tilgreint að um væri að ræða lán nr. 70081521. Aðaláfrýjandi var þar sagður vera kaupandi bifreiðarinnar og gagnáfrýjandi seljandi hennar. Undir greiðsluáætlun var ritað af hálfu stefnda og aðaláfrýjanda.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi kom fram bilun í bifreiðinni um tveimur mánuðum eftir að aðaláfrýjandi fékk umráð hennar. Á grundvelli kostnaðarmats vegna viðgerðar á henni, sem nam 2.410.000 krónum, lýsti aðaláfrýjandi yfir riftun 11. júlí 2011 gagnvart stefnda á áðurgreindum kaupleigusamningi auk þess sem í bréfinu var óskað eftir afstöðu stefnda til kröfunnar. Vísaði aðaláfrýjandi meðal annars til ákvæða 11. gr. samningsins. Með bréfi stefnda  9. ágúst 2011 var því lýst yfir að hann teldi í ljósi 9. og 11. gr. samningsins ,,vanefndir ekki slíkar að rifta skuli samningnum“ og hafnaði því kröfu aðaláfrýjanda um riftun hans. Þá tilkynnti aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda um ætlaða galla með bréfi 30. september 2011, en með svarbréfi þess síðarnefnda 18. október sama ár var því hafnað að hann yrði gerður ábyrgur fyrir göllum á bifreiðinni.

Í niðurstöðu matsgerðar 10. maí 2012, sem unnin var að beiðni aðaláfrýjanda, kom fram að orsök bilunar bifreiðarinnar væri sú að sveifarás væri brotinn við fremstu stangarlegu og að gömul sprunga hafi leynst í sveifarásnum þar sem vélin hefði brætt úr sér hjá fyrri eiganda. Áætlaður kostnaður af viðgerð var annars vegar metinn 436.634 krónur, miðað við að skipta einungis um sveifarás og legur, og hins vegar 1.236.229 krónur, en í því tilviki yrði vélin nánast gerð upp. Þá sagði jafnframt í niðurstöðu matsmanns að gagnáfrýjandi hefði látið gera við vél bifreiðarinnar á verkstæði um áramótin 2010 til 2011. Vélin hafi verið úrbrædd á sveifarás, tekin úr og í sundur að hluta. Að viðgerð lokinni hafi vélin verið sett aftur í bifreiðina. Hafi aðaláfrýjandi getað ,,engan veginn komið í veg fyrir að sveifarás brotnaði.“

II

Eins og að framan er rakið afsalaði gagnáfrýjandi samkvæmt kaupsamningi framangreindri bifreið til stefnda 30. mars 2011 og var aðaláfrýjanda getið þar sem umráðamanns hennar. Samhliða þessu gerðu aðaláfrýjandi og stefndi með sér kaupleigusamning. Í 8. gr. hans var kveðið svo á um að stefndi væri eigandi bifreiðarinnar, enda var hann kaupandi hennar samkvæmt fyrrgreindum kaupsamningi. Af ákvæðum kaupleigusamningsins, sem rakin eru að framan, verður ráðið að samningurinn hafi verið lánssamningur. Komu aðilar samningsins þar fram sem leigusali og leigutaki, auk þess sem gert var ráð fyrir að aðaláfrýjandi eignaðist bifreiðina í lok leigutímans.

Í 5. gr. kaupleigusamningsins sagði að stefndi sem leigusali bæri enga eigandaábyrgð á hinu leigða gagnvart aðaláfrýjanda sem leigutaka og í 9. gr. var hnykkt á því að hann bæri enga ábyrgð á leigumun. Samkvæmt 11. gr. samningsins var leigusali einn bær um að taka ákvörðun um riftun samnings vegna vanefnda seljanda og átti leigutaki enga aðkomu að þeirri ákvörðun. Í samræmi við fortakslaust orðalag ákvæðisins var leigusala ekki skylt að hafast neitt að gagnvart seljanda, enda þótt leigutaki sýndi fram á verulegar vanefndir hans. Virtist leigutaka því ekki hafa verið fært eftir samningnum að krefjast riftunar vegna verulegra galla á bifreiðinni, hvorki gagnvart leigusala né seljanda. Fól þetta í sér víðtækt afsal á réttarvernd aðaláfrýjanda sem leigutaka.

III

Í héraðsdómsstefnu gerði aðaláfrýjandi þær dómkröfur aðallega á hendur stefnda að viðurkennd yrði riftun á kaupleigusamningi þeirra og að stefnda yrði gert að endurgreiða sér leigugjald sem hann hefði greitt að fjárhæð 985.053 krónur auk dráttarvaxta. Yrði ekki fallist á þá kröfu gerði aðaláfrýjandi til vara þá kröfu á hendur stefnda og gagnáfrýjanda að þeim yrði ,,in solidum“ gert að greiða sér 1.236.229 króna afslátt af kaupverði bifreiðarinnar og til þrautavara að þeim yrði gert ,, in solidum“ að greiða sér 436.634 króna afslátt af kaupverðinu. Þá var þess krafist að þeim yrði ,,in solidum gert að greiða ... skaðabætur að fjárhæð 200,000.- kr. að álitum auk dráttarvaxta“.

Í upphafi þess kafla stefnunnar þar sem er að finna málsástæður og lagarök aðaláfrýjanda sagði: ,,Stefnandi telur að um samskipti hans og stefnda Lýsingar hf. fari eftir ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003. Þó samningur milli aðila sé nefndur kaupleigusamningur, þá sé ljóst af ákvæðum hans að leigumunur átti að falla til stefnanda þegar skilyrði leigusamningsins höfðu verið uppfyllt. Kaupleigusamningurinn sé því í raun kaupsamningur með greiðsludreifingu og eignarréttarfyrirvara. Kröfum sínum um riftun og endurgreiðslu beinir stefnandi eingöngu að stefnda Lýsingu hf. enda er samningsréttarsamband vegna kaupa stefnanda á bifreiðinni ... eingöngu á milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Varakröfu og þrautavarakröfu er beint gegn stefndu in solidum, þar sem samningur um kaup stefndu Lýsingar á bifreiðinni er milli stefndu, en stefnandi ekki beinn aðili að þeim gerningi.“ Síðastnefndar kröfur studdi aðaláfrýjandi samkvæmt stefnunni við 31. gr. laga nr. 48/2003.

Í stefnunni er ekki gerð frekari grein fyrir því á hvaða grundvelli gagnáfrýjanda var stefnt, en eins og að framan er rakið var þar staðhæft að ekki væri samningssamband milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda. Þá er enga skýringu að finna á því við hvaða lagaheimild er stuðst þegar stefnda og gagnáfrýjanda er stefnt sameiginlega til greiðslu afsláttar og skaðabóta. Þegar af þessum ástæðum er aðild málsins, að því er gagnáfrýjanda varðar, svo vanreifuð að vísa ber kröfum aðaláfrýjanda á hendur honum frá héraðsdómi.

Í stefnunni ber aðaláfrýjandi því við að stefndi hafi neitað að verða við kröfu sinni um riftun og borið fyrir sig ákvæði 11. gr. samningsins um takmarkaðan rétt leigutaka til að grípa til vanefndaúrræða. Þrátt fyrir það byggir aðaláfrýjandi ekki á ógildingarreglum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, heldur reisir hann kröfur sínar á hendur stefnda á því að samningur aðila sé í raun kaupsamningur. Sá skilningur á sér hins vegar ekki stoð í efnisákvæðum samningsins og verður því hvorki lögum nr. 48/2003 né lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup beitt við túlkun hans. Þegar tilvísun aðaláfrýjanda til ákvæða þeirra laga sleppir, hefur hann ekki reifað hvar fundin verði stoð í samningnum fyrir riftunarkröfu sinni á hendur stefnda. Þá hefur aðaláfrýjandi ekki verið samkvæmur sjálfum sér um eðli samningsins, þar sem víða er til þess vísað í stefnunni að hann sé leigusamningur.

Samkvæmt d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má dómkröfur og málsástæður sem málsókn er byggð á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Samkvæmt framansögðu uppfyllir málatilbúnaður aðaláfrýjanda ekki þessar kröfur og eru því svo verulegir annmarkar á honum að ekki verður hjá því komist að vísa kröfum aðaláfrýjanda á hendur stefnda sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Eins og að framan var rakið eru samningar þeir, sem liggja að baki lögskiptum aðaláfrýjanda og stefnda og sá síðarnefndi hefur einhliða samið, að ýmsu leyti óljósir og misvísandi. Af þeim sökum eru uppi í málinu veruleg vafaatriði er snúa að samningssambandi þeirra og þykir því rétt að þeir beri hvor um sig sinn kostnað af málinu. Á hinn bóginn verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á báðum dómstigum eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi, Sverrir Þór Skaftason, greiði gagnáfrýjanda, Þórhalli M. Kristjánssyni, 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Málskostnaður fellur að öðru leyti niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2014.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 12. febrúar 2014, var höfðað með stefnu útgefinni 17. september 2012 af Sverri Þór Skaftasyni, Áshamri 75, Vestmannaeyjum, gegn Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík, og Þórhalli M. Kristjánssyni, Huldugili 39, Akureyri.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega á hendur stefnda Lýsingu hf.:

- Að viðurkennd verði riftun á kaupleigusamningi stefnanda og stefnda Lýsingar hf., sem gerður var 29. mars 2011 vegna bifreiðarinnar AT-631, og tilkynnt var stefnanda með bréfi þann 11. júlí 2011.

- Að stefnda Lýsingu hf. verði gert að endurgreiða stefnanda leigugjald sem hann hefur greitt stefnda Lýsingu hf. að upphæð 985.053 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 þannig: af 500.000 kr. frá 29. mars 2011 til 26. maí s.á. en af 547.488 kr. frá þeim degi til 27. júlí s.á., en af 616.437 kr. frá þeim degi til 29. nóvember s.á en af 726.376 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2012 en af 797.720 kr. frá þeim degi til 5. mars s.á. en af 869.108 kr. frá þeim degi til 1. júní s.á., en af stefnufjárhæðinni allri frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara á hendur báðum stefndu sameiginlega:

- Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda krefst hann þess til vara að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda afslátt af kaupverði bifreiðarinnar að fjárhæð 1.236.229 kr.

Til þrautavara:

- Að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda afslátt af kaupverði bifreiðarinnar að fjárhæð 436.634 kr.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 200.000 kr. að álitum auk dráttarvaxta eins og að framan var getið frá 29. mars 2011 til greiðsludags.

Að lokum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi lögum samkvæmt.

Af hálfu stefnda Lýsingar hf. er þess krafist að félagið verið sýknað af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt krefst stefndi Lýsing hf. þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda Lýsingu hf. málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Af hálfu stefnda Þórhalls er þess krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi Þórhallur þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati réttarins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Í upphaflegri kröfugerð stefnda Þórhalls M. Kristjánssonar var þess krafist að máli þessu yrði vísað frá dómi hvað hann varðar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann16. október 2013 var frávísunarkröfunni hafnað.

II.

Málsatvik

Stefnandi keypti með milligöngu stefnda Lýsingar hf. bifreiðina AT-631 sem er af gerðinni Nissan Double Cab, árgerð 2005. Viðskiptin fóru þannig fram að gerður var kaupsamningur sem dagsettur er 30. mars 2011, milli stefnda Lýsingar annars vegar og stefnda Þórhalls hins vegar, þar sem Lýsing hf. var skráður sem kaupandi og stefndi Þórhallur sem seljandi ofangreindrar bifreiðar. Á sama skjali var stefnanda getið sem umráðamanns bifreiðarinnar. Samhliða þessum kaupum var gengið frá kaupleigusamningi milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf., dags. 29. mars 2011, þar sem stefnandi var skráður leigutaki og umráðamaður bifreiðarinnar og tók að sér greiðslu á kaupleigusamningi við stefnda Lýsingu hf. Samkvæmt kaupleigusamningnum var kaupverð bifreiðarinnar 1.600.000 kr. og greiddi stefnandi við undirritun samningsins 500.000 kr. inn á samninginn. Eftirstöðvar bar að greiða með mánaðarlegum afborgunum á tímabilinu 5. júní 2011 til 5. júlí 2012. Stefnandi greiddi afborganir sem féllu á gjalddaga fram til 1. júní 2012. Í byrjun júní 2011 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að stefnandi fékk umráð bifreiðarinnar kom fram bilun í henni og lýsti hún sér í því að hljóð heyrðist frá vélinni sem skv. skoðun hjá Ingvari Helgasyni hf. var talið stafa frá stangarlegu og talið var nauðsynlegt að opna vélina. Samkvæmt grófu kostnaðarmati frá Ingvari Helgasyni hf. dags. 29. júní 2011 var talið að viðgerðarkostnaður gæti numið allt að 2.410.000 kr. 

Með bréfi til stefnda Lýsingar hf., dags. 11. júlí, krafðist stefnandi riftunar á kaupleigusamningi sínum við félagið auk þess sem hann óskaði eftir afstöðu félagsins til kröfu stefnanda og vísaði stefnandi m.a. til 11. gr. ofangreinds kaupleigusamnings.  Stefndi Lýsing hf. hafnaði riftun samningsins og vísaði m.a. til 9. gr. og 11. gr. kaupleigusamningsins og lýsti því yfir að í ljósi þeirra ákvæða væru vanefndir ekki slíkar að þær heimiluðu riftun. Með bréfi til stefnda Þórhalls, dags. 30. september 2011, óskaði stefnandi eftir afstöðu hans til framkominna galla og bréfs stefnda Lýsingar hf. Með bréfi dags. 18. október s.á. var af hálfu stefnda Þórhalls alfarið hafnað ábyrgð á ætluðum göllum á bifreiðinni.

Að fenginni afstöðu stefndu óskaði stefnandi, með beiðni dags. 28. nóvember 2011, eftir því að Héraðsdómur Reykjavíkur dómkveddi einn hæfan og sérfróðan mann til að skoða og meta bilun vélarinnar. Dómkvaddur matsmaður, Harald P. Hermanns bifvélavirki, skilaði mati sínu dags. 10. maí 2012 og í matsgerðinni kom fram að matsmaður teldi orsök bilunarinnar vera þá að sveifarás væri brotinn við fremstu stangarlegu og teldi hann að leynst hefði gömul sprunga í sveifarásnum. Viðgerðarkostnað áætlaði matsmaður vera frá 436.000 kr. til 1.236.000 kr. eftir því hve mikið þurfti að gera við í vélinni.

Þá kom fram í niðurstöðum matsmanns að í ljós hafi komið að fyrri eigandi, stefndi Þórhallur, hefði látið gera við vél bifreiðarinnar á verkstæðinu Vélvirkjanum ehf. um áramótin 2010-2011, en þá hafi vélin verið úrbrædd á sveifarási. Vélin hafi verið tekin úr og í sundur að hluta og blokk send í Vélaverkstæðið Kistufell ehf. þar sem sveifarás var renndur, „cylendrar hónaðir“, skipt um stimpilhringi, eina stimpilstöng og nýjar legur. Blokkin hafi síðan verið sett saman hjá Kistufelli og send á Vélvirkjann ehf. á Dalvík þar sem vélin var sett saman og sett í bifreiðina. Það var álit matsmanns að núverandi eigandi hefði á engan hátt getað komið í veg fyrir að sveifarás brotnaði. Bifreiðin mun hafa verið ónothæf frá því að umræddur galli kom upp í byrjun júní 2011. Stefnandi bauð síðan stefnda Lýsingu hf. sem leigusala bifreiðina til ráðstöfunar gegn endurgreiðslu á þegar greiddu leigugjaldi.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að um samskipti hans og stefnda Lýsingar hf. fari eftir ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003. Þó að samningur milli aðila sé nefndur kaupleigusamningur sé ljóst af ákvæðum hans að leigumunur hafi átt að falla til stefnanda þegar skilyrði leigusamnings væru uppfyllt og þannig hafi í raun verið um að ræða kaupsamning með eignarréttarfyrirvara. Kröfum sínum um riftun kveðst stefnandi eingöngu beina að stefnda Lýsingu hf. enda sé samningsréttarsamband vegna kaupa hans á bifreiðinni eingöngu milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Varakröfu og þrautavarakröfu beinir stefnandi gegn stefndu sameiginlega þar sem samningur um kaup stefnda Lýsingar hf. á bifreiðinni sé á milli stefndu en stefnandi sé ekki aðili að þeim gerningi.

Kröfu sína um riftun á hendur stefnda Lýsingu hf. byggir stefnandi á því að um verulegan og alvarlegan galla á bifreiðinni AT-631 sé að ræða í skilningi 16. gr. og 15. gr. 1, sbr. 2. mgr. stafliðum a) og b), í lögum nr. 48/2003 um neytendakaup. Umræddur galli sé með þeim hætti að útilokað sé að stefnandi geti borið ábyrgð á honum. Með öllu hafi verið útilokað að stefnandi yrði gallans var við eðlilega skoðun á bifreiðinni eins og leiða megi af niðurstöðum dómkvadds matsmanns.

Varðandi varakröfu og þrautavarakröfu um afslátt úr hendi stefndu sameiginlega af kaupverði bifreiðarinnar vísar stefnandi til 31. gr. neytendakaupalaga og 38. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og nemi afsláttur áætluðum kostnaði af viðgerð á öllum þeim göllum sem bifreiðin var haldin samkvæmt mati hins dómkvadda matsmanns, alls 1.236.229 kr., en til þrautavara krefst stefnandi afsláttar að upphæð 436.634 kr. sbr. mat hins dómkvadda matsmanns.

Kröfur sínar um skaðabætur að álitum á hendur stefndu sameiginlega vegna afnotamissis byggir stefnandi á því að hann hafi ekki getað notað umrædda bifreið frá því bilunin varð í henni í byrjun júní 2011.

Varðandi rökstuðning fyrir vara- og þrautavarakröfu er af hálfu stefnanda vísað til rökstuðnings með aðalkröfu að breyttu breytanda og 84. gr. laga um lausafjárkaup.  Stefnandi vísaði jafnframt í stefnu og við flutning um frávísunarkröfu til almennra reglna samninga- og kauparéttarins um efndir samninga og fjárskuldbindingar, svo og til ákvæða 15., 16., 18., 26., 31.-33. gr. og 35. gr. neytendakaupalaga.      

Um málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. gr., sbr. 130. gr. eml. og um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. s.l.

Málsástæður og lagarök stefnda Lýsingar hf.

Stefndi Lýsing hf. byggir sýknukröfu sína aðallega á því að félagið beri enga ábyrgð á meintum göllum umræddrar bifreiðar. Byggja kröfur stefnanda einkum á því að stefndi Lýsing hf. beri tilteknar skyldur gagnvart stefnanda á grundvelli laga um neytendakaup nr. 48/2003. Stefndi Lýsing hf. mótmælir því að umrædd lög eigi við um viðskipti stefnanda og stefnda Lýsingar hf., enda geti Lýsing hf. hvorki talist seljandi bifreiðarinnar í umræddum viðskiptum stefnanda né hafa haft atvinnu af sölu bifreiða, sbr. 1. gr. laga nr. 48/2003. Þar sem kröfur stefnanda grundvallist á ábyrgð stefnda Lýsingar hf. skv. umræddum lögum og umrædd lög eiga ekki við, beri að sýkna stefnda Lýsingu hf. af kröfum stefnanda. Stefndi Lýsing hf. byggir jafnframt sérstaklega á því að sýkna beri félagið á grundvelli aðildarskorts, þar sem stefndi Lýsing hf. hafi ekki verið seljandi bifreiðarinnar og að umræddur bílasamningur geti ekki undir neinum kringumstæðum talist kaupsamningur á milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Að endingu byggir stefndi Lýsing hf. sýknukröfu sína jafnframt á því að félagið geti aldrei talist bera ábyrgð á meintum göllum bifreiðarinnar á grundvelli bílasamnings aðila, enda sé sérstaklega kveðið á um það í samningnum að slík ábyrgð sé ekki til staðar. Jafnframt er dráttarvaxtakröfum stefnanda sérstaklega mótmælt, sem og kröfu hans um greiðslu skaðabóta.

Stefndi, Lýsing hf., byggir á því að lög nr. 48/2003 um neytendakaup eigi ekki við, stefnandi grundvalli málssókn sína gagnvart stefnda Lýsingu á þeim lögum. Kröfur stefnanda byggi á þröngum ákvæðum er gildi í þeim lögum varðandi gallahugtakið og úrræði kaupanda vegna vanefnda seljanda, þ.e. afsláttarkröfur og riftunarheimildir kaupanda. Stefndi Lýsing hf. mótmælir því harðlega að lög nr. 48/2003 um neytendakaup eigi við um lögskipti stefnda Lýsingar hf. og stefnanda. Byggir stefndi Lýsing hf. einkum á því að hann hafi ekki selt stefnanda umrædda bifreið og geti því ekki talist seljandi hennar, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003. Þá byggir stefndi, Lýsing hf., jafnframt á því að hann hafi ekki ,,atvinnu sína af sölu“, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Þar sem umrædd lög eigi ekki við og kröfur stefnanda á hendur stefnda Lýsingu hf. grundvallist að öllu leyti á því að umrædd viðskipti falli undir hugtakaskilgreiningu og skilyrði laga nr. 48/2003, beri að sýkna stefnda Lýsingu hf. af kröfum stefnanda.

Stefndi Lýsing hf. telur fráleitt að litið sé svo á að í viðskiptum stefnanda og Lýsingar hf. felist að Lýsing hf. sé að selja stefnanda bifreið, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003. Stefndi, Lýsing hf., sé fjármálafyrirtæki með gilt starfsleyfi og stefnandi hafi leitað til fyrirtækisins sem slíks. Þá hafi dómstólar almennt talið að hliðstæðir samningar feli í sér annaðhvort lánssamning eða leigusamning, ekki kaupsamning. Telur stefndi Lýsing hf. þannig ljóst að viðskiptin geti ekki fallið undir ákvæði laga nr. 48/2003.

Í I. kafla laga nr. 48/2003 er kveðið á um gildissvið laganna. Þar kemur eftirfarandi fram í 1. gr. laganna: Lög þessi gilda um neytendakaup að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg mælt fyrir í lögum. Með neytendakaupum sé átt við sölu hlutar til neytanda þegar seljandi eða umboðsmaður hans hefur atvinnu sína af sölu.

Stefndi hafnar því að í viðskiptum aðila hafi falist að stefndi selji stefnanda ofangreinda bifreið. Samkvæmt gögnum málsins virðist málsatvik vera á þá leið að stefndi, Þórhallur M. Kristjánsson, hafi sett ofangreinda bifreið í sölumeðferð hjá bílasölunni Ósi ehf., Akureyri. Þar hafi stefnandi séð bílinn, væntanlega skoðað hann og reynsluekið honum. Stefnandi hafi síðan væntanlega ákvarðað hvað hann væri tilbúinn að greiða fyrir bifreiðina og gert tilboð í hana. Eins og fram kemur í stefnu máls þessa, sem og greinargerð stefnda, Þórhalls M. Kristjánssonar, var seljandi bifreiðarinnar áðurnefndur Þórhallur M. Kristjánsson. Eftir að kauptilboði stefnanda hafði verið tekið hafi stefnandi leitað til stefnda Lýsingar hf. um fjármögnun kaupverðs. Stefndi, Lýsing hf., skilur ekki hvernig stefnandi á að geta haft réttmætar væntingar um að í þessu ferli fælist að Lýsing hf. tæki ábyrgð á ástandi bifreiðarinnar og þeim göllum sem hafi, eða hafi ekki, verið til staðar í bifreiðinni við kaup hennar. Stefndi Lýsing hf. lítur svo á að í þessum viðskiptum geti félagið ekki talist seljandi bifreiðarinnar.

Stefndi Lýsing hf. mótmælir því að í bílasamningi aðila dags. 29. mars 2011 felist að stefndi Lýsing hf. sé að selja stefnanda umrædda bifreið. Fjármálastofnanir bjóði upp á ýmsa valkosti til að fjármagna afnot viðskiptavina sinna af tækjum og lausafé. Þannig bjóði stefndi Lýsing hf. upp á fjármögnunarleigusamninga, kaupleigusamninga o.fl. Umrædd samningsform séu mjög mismunandi að efni. Í kjölfar gengishruns íslensku krónunnar á árunum 2007 og 2008 hafi komið upp ákveðin réttaróvissa um lögmæti þess að fjárhæðir lánssamninga tækju mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla. Á síðustu árum hafi reynt á þetta atriði fyrir dómstólum og hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að í sumum tilfellum feli samningur í sér leigu tækis frá fjármálastofnun til málsaðila, en í öðrum tilfellum sé talið að um sé að ræða lánssamning í búningi leigusamnings. Stefndi veit ekki til þess að í neinu tilfelli hafi verið talið að í slíkum samningi felist að fjármálastofnun sé að kaupa og selja aftur umrædda bíla eða tæki, og með þeim ábyrgðum og skyldum sem í því felist. Umræddir samningar teljist annaðhvort leigusamningar eða lánssamningar og geti ekki fallið undir ákvæði laga nr. 48/2003 um neytendakaup.

Stefndi, Lýsing hf., bendir á að aðili sem selur skráningarskyld ökutæki í eigu seljanda, og þegar slík viðskipti séu þáttur í atvinnustarfsemi seljanda, þurfi seljandi að hafa til þess leyfi sýslumanns, sbr. 12. gr. laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu, en stefndi, Lýsing hf., hafi ekki slíkt leyfi.

Með hliðsjón af ofangreindu telur stefndi, Lýsing hf., ljóst að umrædd viðskipti geti ekki falið í sér að Lýsing hf. teljist selja stefnanda umrædda bifreið og geti því lög nr. 48/2003 ekki átt við um viðskipti stefnanda og stefnda, Lýsingar hf., sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Þó svo að talið væri að stefndi Lýsing hf. hefði selt stefnanda umrædda bifreið, telur stefndi Lýsing hf. ljóst að félagið hafi ekki atvinnu af því að selja bifreiðar og falli því ekki undir gildissvið laga nr. 48/2003 um neytendakaup.

Eins og fram kemur á framlögðu yfirliti frá Ríkisskattstjóra felist atvinnustarfsemi stefnda, Lýsingar hf., einkum í tvenns konar starfsemi, þ.e. leigu atvinnuhúsnæðis (ÍSAT nr. 68.20.2) og fjármögnunarleigu (ÍSAT nr. 64.91.0).

Til viðbótar hinni ofangreindu opinberu skráningu stefnda, vísar stefndi, Lýsing hf., til ákvæða laga nr. 28/1998 um verslunaratvinnu. Í lögunum séu sérstakar reglur hvað varðar sölu notaðra, skráningarskyldra ökutækja. Um sé að ræða leyfisskylda starfsemi, sbr. 12. gr. laganna, og stefndi, Lýsing hf., hafi ekki leyfi til sölu bifreiða með þeim hætti. Því sé ljóst að félagið geti ekki talist hafa atvinnu af því að selja bifreiðar, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 48/2003. 

Stefnandi hafi grundvallað málatilbúnað sinn að öllu leyti á ákvæðum laga nr. 48/2003 og þeirri þröngu hugtakanotkun sem þar sé að finna. Hvergi í stefnu máls þessa sé reynt að undirbyggja kröfugerð stefnanda á neinn annan hátt og ekki t.d. tilgreint á hvaða grunni stefnandi gæti byggt kröfur sínar gagnvart stefnda Lýsingu hf. ef niðurstaðan yrði sú að umrædd lög nr. 48/2003 ættu ekki við um lögskipti aðila. Telur stefndi Lýsing hf. því ljóst að þar sem umrædd lög eigi ekki við um lögskipti aðila, og þar sem stefnandi reyni ekki að neinu leyti að byggja kröfur sínar á öðrum grunni, beri að sýkna stefnda Lýsingu hf. af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi Lýsing hf. telur rétt að halda því til haga að þó svo að byggt væri á ákvæðum annarra laga en laga um neytendakaup nr. 48/2003 bæri samt sem áður að sýkna stefnda Lýsingu hf. á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefndi Lýsing hf. seldi stefnanda ekki umrædda bifreið og ber enga ábyrgð á þeim göllum sem gætu hafa verið til staðar við kaup stefnanda á henni og vísar til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2938/2011, máli sínu til stuðnings.

Sé niðurstaðan sú, þrátt fyrir ofangreint, að stefndi Lýsing hf. teljist eiga aðild að þessu máli og kröfur stefnanda komi til skoðunar að einhverju leyti, þá sé á því byggt að stefndi Lýsing hf. hafi sérstaklega undanþegið sig ábyrgð á ástandi hins selda, sbr. ákvæði bílasamnings stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Stefndi, Lýsing hf., vísar til ákvæða bílasamnings aðila, einkum 5. og 9. gr. samningsins, en þar segir:

5. gr. Upphaf og lok leigutíma

... Þegar leigutaki hefur greitt allar leigugreiðslur skv. 4. gr. og samningurinn að öðru leyti í skilum... skal leigusali afsala leigumun til leigutaka. Umskráning ökutækis yfir á nafn leigutaka gildir sem afsal... Leigusali ber enga eigendaábyrgð á leigumun gagnvart leigutaka, enda hefur leigutakinn haft hann til umráða frá upphafi samnings...

9. gr. Afhending leigumunar og skoðunarskylda

Leigutaki velur leigumun og annast fyrir hönd leigusala skoðun hans svo sem kaupanda er skylt skv. lögum um lausafjárkaup nr. 50/2002 og/eða öðrum réttarreglum. Leigusali tekur enga ábyrgð á leigumun. Leigutaki staðfestir að hið leigða, sem greint er hér að framan, sé afhent honum og hann taki við því án fyrirvara og hafi sannreynt með nauðsynlegri skoðun og prófun að hið leigða sé gallalaust og hafi umsamda eiginleika. Leigugreiðslur skulu greiddar þó að leigutaki sé óánægður með leigumun eða í ljós komi að leigumunur hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki reiknaði með.

Stefndi telur ljóst af ofangreindum ákvæðum að viðskipti stefnanda og stefnda Lýsingar hf. taki ekki mið af ástandi bifreiðarinnar. Skyldur stefnda Lýsingar hf. hafi falist í fjármögnun á kaupunum. Kröfur stefnanda í máli þessu byggi á meintum galla á umræddri bifreið, en skýrt sé tekið fram í samningi aðila að stefndi, Lýsing hf., beri enga ábyrgð á ástandi leigumunarins. Beri því að sýkna stefnda Lýsingu hf. af kröfum stefnanda. 

Varðandi kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta og skaðabóta, þá mótmælir stefndi Lýsing hf. sérstaklega kröfum stefnanda hvað varðar greiðslu dráttarvaxta vegna endurgreiðslukröfu stefnanda að fjárhæð 985.053 kr., órökstutt sé af hverju stefndi Lýsing hf. ætti að greiða dráttarvexti á umræddar kröfur. Þá sé ekki rökstutt hvernig upphafsdagur dráttarvaxta sé fundinn út í hverju tilfelli fyrir sig. Því sé ekki hægt að sjá með hvaða hætti stefnda Lýsingu hf. verði gert að greiða dráttarvexti þó svo að félagið yrði dæmt til greiðslu kröfunnar. Beri því að sýkna stefnda Lýsingu hf. af öllum kröfum stefnanda um greiðslu dráttarvaxta.  

Á sama hátt mótmælir stefndi, Lýsing hf., kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 200.000 kr. vegna afnotamissis og greiðslu dráttarvaxta á þá kröfu frá 29. mars 2011. Skaðabótakrafan sé algjörlega órökstudd og telur stefndi Lýsing hf. að engar forsendur séu fyrir henni. Þá verði ekki séð hvernig hægt yrði að fallast á aðalkröfu stefnanda um riftun og endurgreiðslu, og jafnframt dæma stefnanda skaðabætur vegna afnotamissis bifreiðarinnar. Þá sé ekki rökstutt af hverju greiða ætti dráttarvexti á skaðabótakröfuna og hvers vegna 29. mars 2011 sé talinn upphafsdagur dráttarvaxta. Með hliðsjón af þessu ber að sýkna stefnda Lýsingu hf. af umræddum kröfum. 

Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi Lýsing hf. aðallega til ákvæða laga um neytendakaup nr. 48/2003, einkum 2. mgr. 1. gr. laganna, en einnig til ákvæða 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá vísar stefndi Lýsing hf. jafnframt til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar máli sínu til stuðnings.

Varðandi kröfu um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og ákvæða 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda Þórhalls M. Kristjánssonar

Stefndi Þórhallur M. Kristjánsson byggir á því að hann sé ekki réttur aðili að skyldu í því samningssambandi sem mál stefnanda fjallar um. Eins og stefnandi rökstyðji mál sitt snúist það um efndir á samningi milli stefnanda annars vegar og stefnda Lýsingar hf. hins vegar. Engar þær réttarreglur sem stefnandi vísi til máli sínu til stuðnings leiði til þess að einhverjar skyldur í því samningssambandi geti hvílt á stefnda Þórhalli. Verði sér því ekki gert að veita stefnanda afslátt sökum meints galla vegna kaupa stefnanda á lausafé af stefnda, Lýsingu hf., þ.e. viðskipta samkvæmt samningssambandi stefnanda og stefnda, Lýsingar hf. Hafi því ekkert réttarsamband stofnast milli stefnanda annars vegar og sín hins vegar. Verði þegar af þessari ástæðu að sýkna sig af öllum kröfum í máli þessu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991. Vísar stefndi Þórhallur varðandi þetta til dóma Hæstaréttar Íslands, sbr. t.d. dóm réttarins frá 25. október 2012 í máli nr. 96/2012.

Þá byggir stefndi Þórhallur á því að ekkert réttarsamband sé milli stefnanda og sín. Verði þrátt fyrir ofangreint talið að stefnandi geti hagað málatilbúnaði sínum með þeim hætti sem greini í stefnu og haldið kröfum sínum á hendur sér til streitu, sé á því byggt af sinni hálfu að með öllu sé ósannað að bilanir í bifreiðinni AT-631 megi rekja til fyrri viðgerðar á bifreiðinni. Þá sé í öllu falli ljóst að hann hvorki geti né eigi að bera nokkra ábyrgð á hinni meintu bilun sem slíkri eða tjóni sem af henni hafi hlotist.

Þá sé hann ekki aðili að samningssambandi stefnda, Lýsingar hf., og stefnanda í máli þessu. Tilgreiningu á sér í 2. gr. samnings þeirra sé sérstaklega mótmælt, enda hafi hann enga aðkomu haft að gerð eða undirskrift þess samnings og verði með engu móti bundinn við efni hans að neinu leyti og vísist um þetta atriði til almennra meginreglna íslensks samningaréttar, sbr. ákvæði laga nr. 7/1936. Samningur þessi sé saminn einhliða af starfsmanni stefnda, Lýsingar hf., og tilgreining á sér í 2. gr. samningsins sé efnislega röng þar sem hann hafi þá þegar undirritað og gengið frá afhendingu bifreiðarinnar AT-631 til stefnda, Lýsingar hf. Stefndi Lýsing hf. hafi því verið réttmætur eigandi bifreiðarinnar þegar félagið gerði samning sinn við stefnanda. Þá megi einnig sjá af undirskriftum samningsins að hann hafi ekki verið aðili að honum með neinum hætti.

Stefndi Þórhallur byggi á því að umráðum sínum yfir bifreiðinni AT-631 hafi lokið 30. mars 2011 með undirskrift fyrirliggjandi kaupsamnings og afsals bifreiðarinnar til stefnda, Lýsingar hf. Stefndi Þórhallur kveðst starfa sem grafískur hönnuður og hafði notað bifreið þessa til einkanota. Sala hans á bifreiðinni og samningssamband hans og viðsemjanda hans, stefnda Lýsingar hf., falli ekki undir gildissvið ákvæða laga nr. 48, 2003 um neytendakaup eins og ítrekað sé haldið fram í stefnu, heldur ákvæði laga nr. 50, 2000 um lausafjárkaup. Stefndi Þórhallur vísar til þess að síðari kaupandi söluhlutar geti ekki samkvæmt meginreglum íslensks kröfuréttar öðlast ríkari kröfuréttindi á hendur seljanda en fyrri kaupandi. Í þessu ljósi geti síðari kaupandi ekki haldið því fram að um fyrra réttarsambandið gildi ákvæði laga um neytendakaup sér til hagsbóta, enda ljóst af gildissviði laga nr. 48, 2003, sbr. 1. gr. laganna, að þau gilda ekki um samningssamband stefnda Þórhalls og stefnda Lýsingar hf. Þannig sé ljóst að allar málsástæður og lagatilvísanir í stefnu eiga ekki við um meint réttarsamband stefnanda og stefnda Þórhalls í málinu.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 13. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50, 2000 flytjist áhættan af söluhlut yfir á kaupanda við afhendingu hlutarins, en slík afhending hafi átt sér stað samhliða undirritun kaupsamnings og afsals til stefnda Lýsingar hf. 30. mars 2011. Af 1. mgr. 21. gr. sömu laga sé ljóst að við mat á því hvort söluhlutur sé gallaður skuli miða við þann tíma þegar áhættan flyst yfir til kaupanda, jafnvel þó svo að galli komi síðar fram. Þá sé ótvírætt af gögnum málsins, ástandsskoðun og öðru að bifreiðin AT-631 var ekki haldin galla þegar hann hafi afhent hana viðsemjanda sínum, stefnda Lýsingu hf., á Akureyri 30. mars. 2011.

Stefndi Þórhallur vísar til þess að hann hafi látið gera við bilun í bifreiðinni AT-631 árið 2010 á verkstæði Vélvirkjans ehf. Vélvirkinn ehf. hafi sent vélina áfram til vélaverkstæðisins Kistufells ehf., sem hafi séð um skoðun og viðgerð á vélinni sjálfri, en ísetning að nýju hafi farið fram hjá Vélvirkjanum ehf. Stefndi Þórhallur vísar til þess að hann sé ekki menntaður á sviði bifvélavirkjunar og hafi enga sérþekkingu á bifreiðaviðgerðum. Hann hafi því leitað til fagmanna um viðgerð á vél bifreiðar­innar og ekki komið með neinum hætti sjálfur að viðgerð á bifreiðinni. Hann hafi þannig keypt þjónustu tveggja viðurkenndra fagaðila á sviði vélaviðgerða og því verið í góðri trú um ágæti viðgerðarinnar.

Stefndi Þórhallur hafnar því með öllu að hann beri ábyrgð á meintri bilun í bifreiðinni rúmum átta mánuðum eftir framangreinda viðgerð enda hafi farið fram fullnaðarviðgerð á bifreiðinni í höndum fagaðila. Hann hafi selt bifreiðina stefnda Lýsingu hf., sem hafi kynnt sér ástand bifreiðarinnar sem var notuð og hafi stefndi Lýsing hf. haft vitneskju um það frá upphafi að gert hafi verið við vél bifreiðarinnar árið 2010.

Stefndi Þórhallur byggir á því að annað verði ekki ályktað en að bilanir í bifreiðinni síðar á árinu 2011 megi rekja til atvika sem gerðust eftir ástandsskoðunina í byrjun apríl 2011, þ.e. atvika sem gerðust eftir að stefnandi tók við vörslum og meðferð bifreiðarinnar og áhættuskipti höfðu átt sér stað milli sín og stefnda Lýsingar hf., sbr. 13. og 21. gr. laga nr. 50/2000.

Með vísan til gildandi réttarreglna sé ljóst að bifreiðin AT-631 hafi ekki verið  haldin galla 30. mars 2011 þegar stefndi Þórhallur seldi hana, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 50, 2000. Ber því að miða við ástand bifreiðarinnar á söludegi 30. mars 2011, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 50, 2000. Með ástandsskoðun bifreiðarinnar hjá viðurkenndum fagaðila á sviði bifreiðaskoðunar og athugasemdalausri viðtöku stefnda Lýsingar hf. og síðar stefnanda á bifreiðinni sé ljóst að bifreiðin var ekki haldin galla á þessum tíma.

Stefndi Þórhallur vísar jafnframt til þess að fyrir liggi að með engu móti verði sannað hvert ástand bifreiðarinnar og aflvélar hennar var 30. mars 2011 með skoðun vélarinnar mörgum mánuðum seinna eftir viðamikla notkun stefnanda á henni. Á stefnda Lýsingu hf., svo og stefnanda máls þessa, hvílir skoðunarskylda. Stefndi Þórhallur geti ekki borið ábyrgð á því ef báðum þessum aðilum hefur láðst að sinna skoðunarskyldu sinni. Hann hafi upplýst um ástand bifreiðarinnar í hvívetna og verið í góðri trú um ágæti hennar. Þá sé ósannað að bifreiðin hafi verið haldin einhverjum galla þegar stefndi Lýsing hf. keypti hana.

Samkvæmt öllu framansögðu megi vera ljóst að stefndi Þórhallur geti með engu móti borið ábyrgð á meintum bilunum í bifreiðinni AT-631 í júní 2012. Jafnframt sé útilokað að sá málatilbúnaður sem stefnandi haldi fram í stefnu sinni sé í samræmi við gildandi lagaákvæði á sviði samninga- og kröfuréttar, frekar en almennar meginreglur sömu réttarsviða. Stefndi Þórhallur mótmælti við aðalmeðferð vísan stefnanda til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 sem of seint fram kominni. Verður því að sýkna stefnda Þórhall af öllum kröfum stefnanda.

Máli sínu til stuðnings vísar stefndi Þórhallur til ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 16., 80. og 100. gr. laganna, svo og til almennra meginregla einkamálaréttarfars um skýra og glögga kröfugerð og málatilbúnað. Þá vísar stefndi Þórhallur til ákvæða laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 1., 13. og 21. gr., sem og til V. og XIV. kafla laganna. Jafnframt vísar stefndi Þórhallur til laga um neytendakaup nr. 48, 2003. Stefndi Þórhallur vísar enn fremur til almennra meginreglna íslensks kröfu-, samninga- og skaðabótaréttar sem og ákvæða laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7, 1936.

III

IV

Niðurstaða

Aðalkröfu sínu um riftun á kaupleigusamningi stefnanda og stefnda Lýsingar hf., dags. 29. mars 2011 vegna bifreiðarinnar AT-631 og endurgreiðslu leigugjalds sem hann hafi greitt stefnda, Lýsingu hf., byggir stefnandi á því að þótt samningur aðila sé nefndur kaupleigusamningur, sé ljóst af ákvæðum hans að leigumunur hafi átt að falla til stefnanda þegar skilyrði leigusamningsins hafi verið uppfyllt og samningurinn því í raun kaupsamningur með greiðsludreifingu og eignarréttarfyrirvara.

Kröfu sinni um riftun beinir stefnandi að Lýsingu hf. þar sem um verulegan og alvarlegan galla á bifreiðinni AT-631 hafi verið að ræða í skilningi neytendakaupalaga nr. 48/2003.

Af hálfu stefnda, Lýsingar hf., er krafist sýknu og byggist sýknukrafan aðallega á því að félagið beri enga ábyrgð á meintum göllum umræddrar bifreiðar, lög um neytendakaup nr. 48/2003 eigi ekki við um viðskipti stefnanda og stefnda, Lýsingar hf. Þá geti stefndi, Lýsing hf., hvorki talist seljandi bifreiðarinnar í umræddum viðskiptum við stefnanda né talist hafa atvinnu af sölu bifreiða, sbr. 1. gr. laga nr. 48/2003.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og af lýsingu hans á kaupum á bifreiðinni má ráða að hann hafi leitað til sölumanns á bílasölunni Ósi á Akureyri og falast eftir kaupum á bifreiðinni AT-631. Sölumaðurinn hafi síðan haft samband við stefnda, Lýsingu hf., og gengið frá fjármögnun kaupanna. Stefnandi hafi undirritað samning um fjármögnun hjá bílasalanum og yfirskrift samningsins verið Bílasamningur Lýsingar. Stefnandi kvaðst engin samskipti hafa átt við stefnda Lýsingu hf. í tengslum við kaupin. Stefnandi kvaðst aðspurður fyrir dómi hafa litið svo á að hann hefði keypt bifreiðina af stefnda Þórhalli M. Kristjánssyni. Vitnið Jón Hafþór Þórisson, bifreiðasali hjá Bílasölunni Ósi, gaf símaskýrslu fyrir dómi og lýsi með sama hætti og stefnandi sölu á bifreiðinni AT-631 í greint sinn.

Umræddur Bílasamningur Lýsingar hf. liggur fyrir í málinu og er undirritaður af stefnanda og stefnda Lýsingu hf. Í samningnum segir að Lýsing hf. sé leigusali og stefnandi leigutaki og að um sé að ræða kaupleigusamning. Hið leigða er Nissan Double Cab, fastanr. AT-631. Leigutími er frá 5. apríl 2011 til 5. júlí 2014. Í 4. gr. samningsins, sem ber heitið Leigugrunnur og leigugjald, er kaupverð bifreiðarinnar tilgreint 1.600.000 krónur, en til frádráttar kemur svokölluð leigugreiðsla við undirritun, 500.000 krónur. Við upphæðina bætist stofngjald, 8.296 krónur. og verður samningsfjárhæð þannig 1.108.296 krónur. Þá segir að mánaðarlegar leigugreiðslur fari fram á tímabilinu 5. júní 2011 til 5. júlí 2014, greiðslufjöldi sé 38 og upphæðin hverju sinni 33.803 krónur. Þá kemur þar fram að samningurinn sé óverðtryggður og vextir breytilegir.

Í 5. gr. samningsins segir að þegar leigutaki hefur greitt allar greiðslur verði bifreiðin umskráð á hans nafn og umskráningin gildi sem afsal. Tekið er fram að Lýsing hf. beri enga eigendaábyrgð á bifreiðinni gagnvart leigutaka, enda hafi hann hana til umráða. Þó er áréttað í 8. gr. samningsins að Lýsing hf. teljist eigandi leigumunar þangað til honum verður afsalað til leigutaka eftir greiðslu síðustu leigugreiðslu. Í 9. gr. samningsins segir að leigutaki beri áhættuna af því ef leigumunur ferst eða skemmist eftir að hann hefur verið afhentur leigutaka og hann teljist afhentur í síðasta lagi við undirritun samningsins.

Þá segir í 9. gr. að leigutaki velji leigumun og annist fyrir hönd leigusala skoðun hans svo sem kaupanda sé skylt samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 50/2002 eða öðrum réttarreglum. Leigusali beri enga ábyrgð á leigumun. Þá segir jafnframt að leigutaki staðfesti að hið leigða sé afhent honum, hann taki við því án fyrirvara og hafi sannreynt með nauðsynlegri skoðun og prófun að hið leigða sé gallalaust og hafi umsamda eiginleika. Leigugreiðslur skulu greiddar þó að leigutaki sé óánægður með leigumun eða í ljós komi að leigumunur hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki reiknaði með.

Í 11. gr. samningsins segir að leigutaka beri að tilkynna leigusala skriflega eða með öðrum jafn tryggilegum hætti reynist leigumunur gallaður svo unnt sé að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir gagnvart seljanda vegna vanefnda hans. Leigutaka ber að greiða leigu þó að seljandi vanefni samning sinn við leigusala og/eða leigutaka. Þó geti leigutaki átt rétt til afsláttar, skaðabóta eða endurgreiðslu, en fram kemur að leiði vanefnd til afsláttar á kaupverði eða til skaðabóta úr hendi seljanda skuli það koma leigutaka að fullu til góða í formi lækkaðrar leigu, en að hann eigi ekki frekari rétt á hendur leigusala

Í samningnum er síðan mælt fyrir um að leigutaki annist allt viðhald bifreiðarinnar á sinn kostnað. Við vanefnd leigutaka gagnvart Lýsingu hf., sem nánar er lýst í 21. gr. samningsins, hafi félagið heimild til að rifta samningnum án fyrirvara og ber leigutaka þá að skila bifreiðinni. Í kjölfarið fari fram uppgjör samkvæmt 23. gr. samningsins, þar sem leigutaka beri að greiða bæði gjaldfallna og ógjaldfallna leigu samkvæmt 4. gr. samningsins.

Eins og rakið hefur verið leitaði stefnandi eftir kaupum á bifreiðinni af stefnda Þórhalli og bílasalinn hafði samband við stefnda Lýsingu hf. fyrir stefnanda varðandi fjármögnun kaupanna en ekki til að leita samninga um leigu á bifreið í eigu stefnda Lýsingar hf. Stefnandi samdi um verð án þess að séð verði að stefndi Lýsing hf. kæmi þar nærri.

Bílasamningurinn ber einnig með sér fjölmörg einkenni lánssamnings. Þannig er í skilmálum samningsins mælt fyrir um að við leigugreiðslur bætist vextir, sem samkvæmt greiðsluyfirliti áttu að greiðast mánaðarlega samhliða afborgun af höfuðstól, en almennt eru ekki greiddir vextir af leigu. Þá var jafnframt gengið út frá því að við vanefnd samningsins gæti Lýsing hf. rift samningi, en allt að einu krafið leigutaka um fullar greiðslur út samningstímann, öndvert við það sem gildir um leigusamning, þar sem skylda leigutaka til greiðslu leigu fellur niður þegar honum er rift. Þá skyldi stefnandi verða eigandi bifreiðarinnar þegar hann hefði lokið við að greiða allar greiðslur samningsins. Auk þess voru í honum ákvæði sem komu í veg fyrir að Lýsing hf. þyrfti að bera ábyrgð sem eigandi bifreiðarinnar gagnvart stefnanda sem leigutaka.       

Að öllu þessu virtu telur dómurinn að líta verði svo á að stefnandi hafi keypt bifreiðina af stefnda Þórhalli, en fjármagnað kaupin með láni frá stefnda Lýsingu hf., sem stefndi Lýsing hf. kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 153/2010. Ekki verður því fallist á það sem stefnandi byggir á að kaupleigusamningurinn sé í raun kaupsamningur með greiðsludreifingu og eignarréttarfyrirvara. Samkvæmt þessari niðurstöðu eiga lög um neytendakaup nr. 48/2003 ekki við um viðskipti stefnanda og stefnda Lýsingar hf.

Í 5. gr. í umræddum samningi aðila eru skýr ákvæði um að leigusali beri enga ábyrgð á leigumun gagnvart leigutaka og í 9. gr. hans er mælt fyrir um skoðunarskyldu leigutaka og tekið fram að leigugreiðslur skuli greiddar þó að leigutaki sé óánægður með leigumun eða í ljós komi að hann hafi ekki þá eiginleika sem leigutaki reiknaði með.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið er ljóst að viðskipti stefnanda og stefnda Lýsingar hf. tóku ekki mið af ástandi umræddrar bifreiðar og skyldur stefnda Lýsingar hf. fólust í fjármögnun á kaupum stefnanda á bifreiðinni. Kröfur stefnanda byggja á meintum galla á bifreiðinni en skýrt er tekið fram í samningi aðila að stefndi Lýsing hf. beri enga ábyrgð á ástandi hins leigða. Ber því að sýkna stefnda Lýsingu hf. af aðalkröfu stefnanda og leiðir þessi niðurstaða jafnframt til þess að sýkna beri stefnda Lýsingu hf. af öllum kröfum stefnanda þar sem varakrafa, þrautavarakrafa og skaðabótakrafa byggja allar á ábyrgð stefnda Lýsingar á meintum galla.

Í framhaldi af því sem rakið hefur verið verður nú fjallað um aðrar kröfur stefnanda. Stefnandi sækir varakröfu, þrautavarakröfu og skaðabótakröfu á hendur þeim er hann telur bera ábyrgð gagnvart sér á meintum göllum á bifreiðinni AT-631, en skv. framangreindri niðurstöðu varðandi aðalkröfu geta þessar kröfur aðeins beinst að stefnda Þórhalli. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður litið svo á að stefndi Þórhallur hafi verið seljandi bifreiðarinnar AT-631 og stefnandi kaupandi og verður því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda Þórhalls að ekkert réttarsamband hafi stofnast milli sín og stefnanda sem leiða eigi til sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Ljóst er hins vegar samkvæmt gildissviði laga um neytendakaup nr. 48/2003 að þau eiga ekki við um viðskipti stefnanda og stefnda Þórhalls, sbr. 1. gr. laganna þar sem stefndi Þórhallur hefur ekki atvinnu sína af sölu.

Stefnandi byggir á því að um verulegan og alvarlegan galla á bifreiðinni AT-631 sé að ræða og hann hafi verið með þeim hætti að útilokað hafi verið að stefnandi gæti borið ábyrgð á biluninni. Stefnandi vísaði í stefnu varðandi kröfur sínar einkum til ákvæða laga um neytendakaup nr. 48/2003, en að öðru leyti um lagarök vísaði hann til almennra reglna samninga- og kauparéttarins um efndir samninga og fjárskuldbindinga. Varðandi varakröfu um afslátt og þrautavarakröfu byggði stefnandi á 38. gr. kaupalaga nr. 50/2000 og 1. mgr. 31. gr. neytendakaupalaga nr. 48/2003. Við aðalmeðferð mótmælti stefndi Þórhallur vísan stefnanda til laga um lausafjárkaup sem of seint fram kominni. Stefnandi vísaði í stefnu almennt til almennra reglna samningaréttarins og kröfuréttar og jafnframt til laga um lausafjárkaup við flutning um frávísunarkröfu. Þá er reglan í 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 bundin við málsástæður og mótmæli, en þar er tilvísunar til réttarreglna ekki getið. Vísan til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 á við þær málsástæður sem byggt er á af hálfu stefnanda í í stefnu.

Um viðskipti stefnanda og stefnda Þórhalls gilda ákvæði laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og tók stefndi Þórhallur til varna á grundvelli þeirra. Verður því ekki fallist á að þessi lagarök stefnanda séu of seint fram komin.

Samkvæmt 38. gr. laga um lausafjárkaup segir að ef hlutur sé gallaður geti kaupandi krafist afsláttar af kaupverði. Skuli afslátturinn reiknaður þannig að hlutfallið milli hins lækkaða verðs og samningsverðsins svari til hlutfallsins milli verðgildis hlutarins í gölluðu og umsömdu ástandi á afhendingartíma.

Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, Harald P. Hermanns vélvirkja, dags. 10. maí 2012. Samkvæmt niðurstöðu dómkvadds matsmanns var orsök bilunar sú að sveifarás var brotinn við fremstu stangarlegu og taldi hann að leynst hefði gömul sprunga í sveifarásnum þar sem vélin hefði brætt úr sér hjá fyrri eiganda.´

Matsmaður áætlaði kostnaðinn af viðgerð á þeirri bilun sem væri í bifreiðinni samkvæmt lausn I.

Sveifarás notaður renndur   

600.000 kr.

Stangarlegur

23.481 kr.

Höfuðlegur

19.887 kr.

Olía 5,5 lítrar           

7.124 kr.

Frostlögur 8 lítrar                      

5.524 kr.

Smursía

1.480 kr.

Hreinsun

2.850 kr.

Vinna 32 tímar

316.288 kr.

Samtals með vsk.

436.634 kr.

Lausn II.

Kjallari Nissan YD25               

650.000 kr.

Ákvæðisvinna túrbína

41.526 kr.

Alsett pakkningar           

31.430 kr.

Heddpakkningar

15.022 kr.

Olía 5,5 lítrar

7.124 kr.

Frostlögur 7 lítrar

4.834 kr.

Smursía

1.502 kr.

Loftsía

2.885 kr.

Renndir ventlar 16. stk.

4.197 kr.

Plana hedd

7.925 kr.

Þrýstiprófun á heddi

6.519 kr.

Tímakeðjusett

42.921 kr.

Rennd ventilsæti 16 stk.       

7.711 kr.

Olíudæla

32.191 kr.

Hreinsun

4.850 kr.

Samtals

985.043 kr.

25,5% virðisaukaskattur   

251.186 kr.

Samtals

1.236.229 kr.

Matsmaður kom fyrir dóm og staðfesti matsgerð sína. Matsmaður kvað leynda sprungu hafa verið í sveifarásnum og að ekki hefði verið mögulegt að sjá hana við venjulega skoðun. Litamunur í sári hafi bent til eldri sprungu og hún ótvírætt verið frá fyrra atburði. Varðandi mismun á kostnaðaráætlun skv. mati kvað hann skýringuna þá að ekki hefði verið hægt að kaupa stakan sveifarás, en fengist hafi notaður sveifarás og við það væri miðað í lausn 1, en í lausn 2 væri miðað við að kaupa þyrfti svokallaðan kjallara, þ.e. blokk með stimplum og sveifarás. Það var jafnframt mat matsmanns að stefnandi hefði ekki getað komið í veg fyrir að sveifarásinn brotnaði.

Stefnandi hafi tekið við bifreiðinni 29. mars 2011 og framangreind bilun í bifreiðinni komið fram í byrjun júní eða rúmum tveimur mánuðum eftir að stefnandi fékk umráð bifreiðarinnar.

Ljóst er því að hér var um leyndan galla að ræða og að sá galli var til staðar við áhættuskiptin og að með öllu var útilokað að stefnandi yrði gallans var við eðlilega skoðun á bifreiðinni. Fyrir liggur að dómkvaddur matsmaður telur að unnt sé að gera við vélina fyrir 436.634 kr., en nefnir jafnframt að hægt sé að endurnýja vélina fyrir 1.236.229 kr. Miðað við kaupverð bifreiðarinnar, aldur og ástand, er það mat dómsins að eðlilegt sé að miða við lægri fjárhæðina þar sem hin feli í sér gagngera endurnýjun á vélinni. Ekki verður því fallist á varakröfu stefnanda, en fallist er á þrautavarakröfu stefnanda á hendur stefnda Þórhalli. Stefnandi hefur ekki sett fram  dráttarvaxtakröfu vegna þrautavarakröfu.

Krafa stefnanda um skaðabætur vegna afnotamissis að fjárhæð 200.000 kr. auk dráttarvaxta frá kaupdegi bifreiðarinnar er órökstudd og er henni því hafnað.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi Þórhallur M. Kristjánsson dæmdur til að greiða stefnanda 436.634 kr. auk málskostnaðar með vísan til 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 eins og í dómsorði greinir.

Þá er stefndi Lýsing hf. sýkn af kröfum stefnanda sem áður er rakið. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 eins og atvikum málsins er háttað verður hvor aðilinn látinn bera sinn kostnað af rekstri málsins fyrir dómi.

Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Lögmenn eru sammála dómara um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

Dóm þennan kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari ásamt sérfróðu meðdómendunum Kristjáni Gr. Tryggvasyni bifvélavirkjameistara og Magnúsi Þór Jónssyni, dósent í vélhlutafræði við Háskóla Íslands.

Dómsorð:

Stefndi, Lýsing hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sverris Þórs Skaftasonar.

Málskostnaður fellur niður milli þessara aðila..

Stefndi Þórhallur M. Kristjánsson greiði stefnanda, Sverri Þór Skaftasyni, 436.634 kr.

Stefndi Þórhallur M. Kristjánsson greiði stefnanda 700.000 kr. í málskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2013.

I.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 18. september sl., var höfðað 17. september 2012 af Sverri Þór Skaftasyni, Áshamri 75, Vestmannaeyjum, gegn Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík, og Þórhalli M. Kristjánssyni, Huldugili 39, Akureyri.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega á hendur stefnda Lýsingu hf.:

- Að viðurkennd verði riftun á kaupleigusamningi stefnanda og stefnda Lýsingar hf., sem gerður var 29. mars 2011 vegna bifreiðarinnar AT-631, og tilkynnt var stefnanda með bréfi þann 11. júlí 2011.

- Að stefnda Lýsingu hf. verði gert að endurgreiða stefnanda leigugjald sem hann hefur greitt stefna Lýsingu hf. að upphæð 985.053 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 þannig: af 500.000 kr. frá 29. mars 2011 til 26. maí s.á. en af 547.488 kr. frá þeim degi til 27. júlí s.á., en af 616.437 kr. frá þeim degi til 29. nóvember s.á en af 726.376 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2012 en af 797.720 kr. frá þeim degi til 5. mars s.á. en af 869.108 kr. frá þeim degi til 1. júní s.á., en af stefnufjárhæðinni allri frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara á hendur báðum stefndu sameiginlega (in solidum):

- Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda krefst hann þess til vara að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnanda afslátt af kaupverði bifreiðarinnar að fjárhæð 1.236.229 kr.

Til þrautavara:

- Að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnanda afslátt af kaupverði bifreiðarinnar að fjárhæð 436.634 kr.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 200.000 kr. að álitum auk dráttarvaxta eins og að framan var getið frá 29. mars 2011 til greiðsludags.

Að lokum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi lögum samkvæmt.

Af hálfu stefnda Lýsingar hf. er þess krafist að félagið verið sýknað af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt krefst stefndi Lýsing hf. þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda Lýsingu hf. málskostnað skv. framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Af hálfu stefnda Þórhalls er þess krafist 1) aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi að því er stefnda Þórhall varðar. 2) Til vara að stefndi Þórhallur verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. 3) Í báðum tilvikum krefst stefndi Þórhallur þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda Þórhalli málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati réttarins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Í þessum þætti málsins er tekin til úrlausnar frávísunarkrafa stefnda Þórhalls.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfu stefnda Þórhalls verði hrundið og stefnda Þórhalli verði gert að greiða stefnanda málskostnað vegna frávísunarkröfunnar samkvæmt mati dómsins.

II.

Málatilbúnaður stefnanda

Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu að hann hafi með milligöngu stefnda Lýsingar hf. keypt bifreiðina AT-631 sem er af gerðinni Nissan Double Cab, árgerð 2005. Viðskiptin hafi verið framkvæmd þannig að gerður var kaupsamningur sem dagsettur er 30. mars 2011, milli stefnda Lýsingar annars vegar og stefnda Þórhalls hins vegar, þar sem Lýsing hf. er skráð sem kaupandi og stefndi Þórhallur sem seljandi ofangreindrar bifreiðar. Á sama skjali sé stefnanda getið sem umráðamanns bifreiðarinnar. Samhliða þessum kaupum hafi verið gengið frá kaupleigusamningi milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf., dags. 29. mars 2011, þar sem stefnandi var skráður leigutaki og umráðamaður bifreiðarinnar og tók jafnframt að sér greiðslu á kaupleigusamningi við stefndu Lýsingu hf. Samkvæmt kaupleigusamningnum var kaupverð bifreiðarinnar 1.600.000 kr. og greiddi stefnandi við undirritun samningsins 500.000 kr. inn á samninginn. Eftirstöðvar hafi síðan átt að greiða með mánaðarlegum afborgunum á tímabilinu 5. júní 2011 til 5. júlí 2012 og hafi hann greitt afborganir sem fallið hafi á gjalddaga fram til 1. júní 2012. Í byrjun júní 2011 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að stefnandi fékk umráð bifreiðarinnar hafi komið fram bilun í henni, sem lýsti sér í því að hljóð heyrðist frá vélinni sem skv. skoðun hjá Ingvari Helgasyni hf. var talið stafa frá stangarlegu og nauðsynlegt væri að opna vélina. Samkvæmt grófu kostnaðarmati hjá Ingvari Helgasyni hf. dags. 29. júní 2011 var talið að viðgerðarkostnaður gæti numið allt að 2.410.000 kr. 

Með bréfi til stefnda Lýsingar hf., dags. 11. júlí, krafðist stefnandi riftunar á kaupleigusamningi sínum við félagið auk þess sem óskað var eftir afstöðu félagsins til kröfu stefnanda og vísaði stefnandi m.a. til 11. gr. ofangreinds kaupleigusamnings.  Stefndi Lýsing hf. hafi síðan hafnað riftun samningsins og vísaði m.a. til 9. gr. og 11. gr. kaupleigusamningsins og í ljósi þeirra ákvæða væru vanefndir ekki slíkar að það heimilaði riftun. Með bréfi til stefnda Þórhalls, dags. 30. september 2011, hafi stefnandi óskað eftir afstöðu hans til framkominna galla og bréfs stefnda Lýsingar hf.  Með bréfi dags. 18. október s.á. hafi því af hálfu stefnda Þórhalls alfarið verið hafnað að hann yrði gerður ábyrgur fyrir ætluðum göllum á bifreiðinni.

Vegna afstöðu stefndu óskaði stefnandi, með beiðni dags. 28. nóvember 2011, eftir því að Héraðsdómur Reykjavíkur dómkveddi einn hæfan og sérfróðan mann til að skoða og meta bilun vélarinnar. Dómkvaddur matsmaður, Harald P. Hermanns bifvélavirki, skilaði mati sínu dags. 10. maí 2012 og í matsgerðinni kom fram að matsmaður taldi orsök bilunarinnar vera þá að sveifarás væri brotinn við fremstu stangarlegu og telur hann að leynst hafi gömul sprunga í sveifarásnum þar sem vélin hafi brætt úr sér hjá fyrri eiganda. Viðgerðarkostnað áætlar matsmaður vera frá 436.000 kr. til 1.236.000 kr. eftir því hve mikið þurfi að gera við í vélinni.

Þá hafi komið fram í niðurstöðum matsmanns að í ljós hafi komið að fyrri eigandi, stefndi Þórhallur, lét gera við vél bifreiðarinnar á verkstæðinu Vélvirki ehf. um áramótin 2010-2011, en þá var vélin úrbrædd á sveifarási. Var vélin tekin úr og í sundur að hluta og blokk send í Vélaverkstæðið Kistufell ehf. þar sem sveifarás var renndur, „cylendrar hónaðir“, skipt um stimpilhringi, eina stimpilstöng og nýjar legur.  Blokkin hafi síðan verið sett saman hjá Kistufelli og send á Vélvirki ehf. á Dalvík þar sem vélin var sett saman og sett í bifreiðina. Það var álit matsmanns að núverandi eigandi hafi á engan hátt getað komið í veg fyrir að sveifarás brotnaði. Bifreiðin hafi verið stefnanda algjörlega ónothæf frá því að umræddur galli kom upp í byrjun júní 2011. Síðan þá hafi hún staðið stefnda Lýsingu hf. sem leigusala til ráðstöfunar gegn endurgreiðslu á þegar greiddu leigugjaldi.

Stefnandi telur að um samskipti hans og stefnda Lýsingar hf. fari eftir ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003. Þó að samningur milli aðila sé nefndur kaupleigusamningur sé ljóst af ákvæðum hans að leigumunur átti að falla til stefnanda þegar skilyrði leigusamnings væru uppfyllt og þannig í raun kaupsamningur með eignarréttarfyrirvara. Kröfum sínum um riftun kveðst stefnandi eingöngu beina að stefnda Lýsingu hf. enda sé samningsréttarsamband vegna kaupa hans á bifreiðinni eingöngu milli stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Varakröfu og þrautavarakröfu beinir stefnandi gegn stefndu sameiginlega (in solidum) þar sem samningur um kaup stefndu Lýsingar hf. á bifreiðinni er á milli stefndu en stefnandi ekki aðili að þeim gerningi.

Kröfu sína um riftun á hendur stefnda Lýsingu hf. byggir stefnandi á því að um verulegan og alvarlegan galla á bifreiðinni AT-631 sé að ræða í skilningi 16. gr. og 15. gr. 1, sbr. 2. mgr. stl. a) og b), laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Umræddur galli sé með þeim hætti að útilokað sé að stefnandi geti borið ábyrgð á honum. Með öllu hafi verið útilokað að stefnandi yrði gallans var við eðlilega skoðun á bifreiðinni eins og leiða megi af niðurstöðum dómkvadds matsmanns.

Varðandi varakröfu um afslátt úr hendi stefndu sameiginlega (in solidum) af kaupverði bifreiðarinnar vísar stefnandi til 31. gr. nkpl. og nemi afsláttur áætluðum kostnaði af viðgerð á öllum þeim göllum sem bifreiðin var haldin samkvæmt mati hins dómkvadda matsmanns, alls 1.236.229 kr.

Til þrautavara krefst stefnandi afsláttar að upphæð 436.634 kr. sbr. mat hins dómkvadda matsmanns.

Varðandi rökstuðning fyrir vara- og þrautavarakröfu var af hálfu stefnanda vísað til rökstuðnings með aðalkröfu að breyttu breytanda og 84. gr. laga um lausafjárkaup.  Vísan til 84. gr. laga um lausafjárkaup var mótmælt af hálfu stefnda Þórhalls sem of seint fram kominni.

Kröfur sínar um skaðabætur að álitum vegna afnotamissis á hendur stefndu sameiginlega (in solidum) byggir stefnandi á því að hann hafi ekki getað notað umrædda bifreið frá því bilunin varð í henni í byrjun júní 2011.

Í stefnu vísar stefnandi varðandi lagarök jafnframt til almennra reglna samninga- og kauparéttarins um efndir samninga og fjárskuldbindinga, svo og ákvæða 15. gr., 16. gr., 18. gr., 26. gr., 27. gr., 31.- 33.gr., og 35. gr. nkpl. Um málskostnað vísar stefnandi til ákvæða 129. gr., sbr. 130. gr. eml. og um varnarþing vísar stefnandi til 33. gr. s.l.

III

Málatilbúnaður aðila varðandi frávísunarkröfu

Frávísunarkrafa stefnda Þórhalls er byggð á því að hann telur kröfugerð og málatilbúnað stefnanda á hendur honum vera í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um skýra og glögga kröfugerð, sbr. og d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Eigi þetta bæði við um varakröfu stefnanda og þrautavarakröfu og því verði ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi hvað stefnda Þórhall varði.

Af hálfu stefnda Þórhalls er bent á að í engu sé reifað í stefnu hvernig og með hvaða hætti stefnukröfur geti beinst að honum sem fyrri eiganda umræddrar bifreiðar.  Sú meginregla gildi í kröfurétti að síðari kaupandi geti ekki öðlast betri rétt á hendur fyrri seljanda en fyrri kaupandi sjálfur eigi á hendur viðkomandi seljanda. Þannig geti stefnandi ekki átt ríkari kröfur á hendur stefnda Þórhalli en stefndi Lýsing hf. kynni mögulega að eiga á hendur stefnda Þórhalli. Þá sé af hálfu stefnanda ítrekað tekið fram í stefnu, bæði í umfjöllun um aðalkröfu og varakröfu, að um réttarsambandið sé farið eftir ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003. Lög um lausafjárkaup nr. 50/2000 gildi hins vegar um réttarsamband stefnda Lýsingar hf. og stefnda Þórhalls.  Að þessu leyti sé stefnan röng, misvísandi og ófullkomin sem hafi í för með sér að stefnda Þórhalli sé ómögulegt að koma að fullnægjandi vörnum í málinu þar sem óljóst sé með öllu hver málsgrundvöllur sé gagnvart honum. Að þessu leyti verði því að vísa kröfum á hendur stefnda Þórhalli frá dómi vegna vanreifunar, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Við flutning um frávísunarkröfu var af hálfu stefnda Þórhalls mótmælt bókun Lýsingar hf., sbr. dskj. nr. 24., þar sem stefndi Lýsing hf. mótmælir þeirri fullyrðingu stefnda Þórhalls að félagið hafi frá upphafi haft vitneskju um viðgerð á bifreiðinni árið 2010. Stefndi Lýsing hf. hafi fyrst fengið vitneskju um viðgerð á aflvél umræddrar bifreiðar eftir að hin umþrættu kaup áttu sér stað í mars 2011 og skoraði stefndi Lýsing hf. jafnframt á stefnda Þórhall að leggja fram gögn til stuðnings þessari staðhæfingu sinni.

Jafnframt var því lýst yfir af hálfu stefnda Þórhalls að ekki sé reifað af hálfu stefnanda á hverju varakröfur gegn stefnda Þórhalli séu reistar, aðild stefnda sé þannig vanreifuð og vísar hann í því sambandi til e-liðar 80. gr. eml. nr. 91/1991. Af hálfu stefnanda var þessari tilvísun til 80. gr. e-liðar eml. mótmælt sem of seint fram kominni.

Þá byggir stefndi Þórhallur á því að í varakröfu og þrautavarakröfu í stefnu sé krafist afsláttar í tilteknu samningssambandi stefnanda og stefnda Lýsingar hf. og stefndi Þórhallur sé ekki aðili að þessu samningssambandi. Þannig beri hann hvorki réttindi né skyldur í réttarsambandinu. Ekkert liggi fyrir um aðkomu stefnda Þórhalls að samningssambandi stefnanda og stefnda Lýsingar hf. Afsláttur sé í eðli sínu vanefndaúrræði sem ekki sé hægt að hafa uppi á hendur fyrri samningsaðila, sbr. ákvæði XIV. kafla l. nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Þannig geti kröfuhafi farið fram á afslátt í tilteknu réttarsambandi og beint kröfu sinni að fyrri samningsaðila. Kröfuhafi yrði í slíku tilfelli að hafa uppi annars konar vanefndaúrræði, einkum þá skaðabótakröfu. Verði því að vísa varakröfu og þrautavarakröfu í málinu á hendur stefnda Þórhalli frá dómi, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst stefndi Þórhallur M. Kristjánsson þess að máli þessu verði vísað frá dómi að því er hann varðar á þeim grunni að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda á hendur honum sé í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um skýra og glögga kröfugerð, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d-lið og e-lið 1. mgr. Ekki verður séð að vafi leiki á því hvert sakarefnið í máli þessu er og eru málavextir ítarlega raktir í stefnu. Ljóst er að stefnandi sækir varakröfu, þrautavarakröfu og skaðabótakröfu á hendur þeim er hann telur bera ábyrgð gagnvart sér á meintum göllum á bifreiðinni AT-631. Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kauparéttarins um efndir samninga og fjárskuldbindinga, svo og til ákvæða 15. gr., 16. gr. 18. gr. 26. gr. 27. gr., 31-33. gr. og 35. gr. kaupalaga. Einnig vísar stefnandi til 84. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 við flutning um frávísunarkröfu og er ekki fallist á að sú vísan til lagaraka sé of seint fram komin. Verður því ekki fallist á það með stefnda Þórhalli að málið sé svo vanreifað að frávísun varði enda verður ekki annað séð en að honum hafi verið fært að færa fram efnislegar varnir við kröfunum og forsendum þeirra. Enn fremur verður að horfa til þess að stefnanda gefst færi á að skýra málatilbúnað sinn á síðari stigum málsins.

Rétt er að ákvörðun málskostnaðar bíði lokaniðurstöðu.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu stefnda, Þórhalls M. Kristjánssonar, um frávísun málsins að því er hann varðar.

Ákvörðun málskostnaðar bíður lokaniðurstöðu.