Hæstiréttur íslands
Mál nr. 472/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
|
|
Þriðjudaginn 14. desember 2004. |
|
Nr. 472/2004. |
Ingenico (UK) Ltd. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Nýherja hf. og Simdex ehf. (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Lögbann.
I Ltd. kafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumanns um að leggja ekki lögbann við því að N hf. og S ehf. notuðu, afrituðu og dreifðu, með eða án endurgjalds tilteknum tölvuforritum sem hann væri rétthafi að og taka ekki úr vörslum þeirra muni sem nýttir hefðu verið eða ætlaðir til þeirra nota sem lögbanns var krafist við. Við fyrirtöku sýslumanns hafði lögmaður N hf. og S ehf. lýst því yfir að ekki væri andmælt að I Ltd. væri rétthafi að umræddum tölvuforritum. Þá höfðu verið lagðar fram skriflegar yfirlýsingar um að félögin myndu ekki aðhafast það, sem lögbanns væri krafist við. Í Hæstarétti var tekið fram að I Ltd. hefði ekki fært neitt fram til að sanna eða gera sennilegt gagnstætt þessum yfirlýsingum að N hf. og S ehf. myndu nota umrædd tölvuforrit, afrita þau eða dreifa þeim eða að yfirvofandi væri að þeir myndu gera það. Væri því ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. til þess að verða við kröfum I Ltd. Var úrskurður héraðsdómara staðfestur um annað en málskostnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 19. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 5. október sama ár um að leggja ekki lögbann við því að varnaraðilar noti, afriti og dreifi, með eða án endurgjalds, tölvuforritunum GEMSlite, WINGLOAD og Active TMS, sem sóknaraðili sé rétthafi að, og taka ekki úr vörslum varnaraðila muni, sem nýttir hafi verið eða ætlaðir séu til nota við þær athafnir, sem lögbanns var krafist við. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og þeim var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að sýslumanni verði gert að leggja á umbeðið lögbann, svo og að taka úr vörslum varnaraðila þá muni, sem nýttir hafi verið eða bersýnilega séu ætlaðir til nota við þá athöfn, sem krafist sé lögbanns við. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Kemst krafa þeirra um málskostnað í héraði því ekki að fyrir Hæstarétti.
Varnaraðilar hafa ekki fært fram haldbær rök fyrir aðalkröfu sinni um frávísun málsins frá héraðsdómi. Verður þeirri kröfu því hafnað.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði tók sýslumaður fyrir 5. október 2004 beiðni sóknaraðila um lögbann við framangreindum athöfnum varnaraðila og að umræddir munir yrðu teknir úr vörslum þeirra. Við gerðina lýstu varnaraðilar því yfir að ekki væri andmælt að sóknaraðili væri rétthafi að áðurnefndum tölvuforritum. Að framkominni áskorun sýslumanns til varnaraðila um að láta af þeirri háttsemi, sem lögbanns var krafist við, voru lagðar fram skriflegar yfirlýsingar af þeirra hálfu um að þeir muni ekki nota eða afrita tölvuforrit þessi eða dreifa þeim, með eða án endurgjalds. Við svo búið lauk sýslumaður gerðinni án þess að lögbann væri lagt á.
Sú leið, sem sýslumaður fór, er í samræmi við ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga nr. 31/1990, enda fólst í efni framangreindra yfirlýsinga varnaraðila að þeir myndu ekki aðhafast það, sem lögbanns var krafist við. Í máli þessu hefur sóknaraðili ekki fært neitt fram til að sanna eða gera sennilegt, gagnstætt þessum yfirlýsingum, að varnaraðilar noti umrædd tölvuforrit, afriti þau eða dreifi þeim eða að yfirvofandi sé að þeir muni gera það. Er því ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 24. gr. áðurnefndra laga til þess að verða við kröfum sóknaraðila.
Samkvæmt framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2004.
Mál þetta barst dóminum 8. október 2004. Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 27. október sl. Sóknaraðili er Ingenico (UK) Limited, Ridge Way, Donibristle Industrial Estate, Dunfermline, Skotlandi. Varnaraðilar eru Nýherji hf., kt. 530292-2079, Borgartúni 37, Reykjavík, og Simdex ehf., kt. 610900-2590, sama stað.
Sóknaraðili gerir þær kröfur að ákvörðun sýslumanns um að synja framgangi lögbanns verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir hann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að synja framgangi lögbannsins verði staðfest og að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann. Til þrautavara krefst varnaraðili þess að kæra hans til æðra dóms fresti lögbanni og að sóknaraðila verði gert að leggja fram tryggingu er nemi a.m.k. 5.000.000 króna. Með aðal- og varakröfu krefst varnaraðili málskostnaðar, en annars krefst hann þess að málskostnaður falli niður.
Lögbannsbeiðni sóknaraðila er dagsett 29. september sl. Þar er þess krafist að lagt verði lögbann við því að varnaraðilar noti, afriti og dreifi, með eða án endurgjalds, tölvuforritunum GEMSlite, WINGLOAD og Active TMS, sem sóknaraðili sé rétthafi að. Þá var þess krafist að sýslumaður taki úr vörslum varnaraðila þá muni sem nýttir hafi verið eða bersýnilega séu ætlaðir til nota við þá athöfn sem lögbanns sé krafist við. Beiðnin var sett fram í nafni sóknaraðila „fyrir sína hönd og Ingenico SA, Quai De Dion, Bouton, Cedex, Frakklandi.”
Í kæru til dómsins er um röksemdir fyrir lögbanni vísað til beiðni er lögð var fram hjá sýslumanni. Þar er því lýst að varnaraðilinn Simdex ehf. sé dótturfyrirtæki varnaraðilans Nýherja hf. Sóknaraðili sé alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfi sig í rafrænum greiðslumiðlum. Hann selji vél- og hugbúnað til rafrænna viðskipta í yfir 80 löndum.
Aðilar máls þessa hafi á árinu 2002 samið um þróun hugbúnaðar. Smartkort hf. hafi einnig verið aðili að því samstarfi. Við þá vinnu hafi varnaraðila verið látið í té afrit af forritinu GEMSlite. Honum hafi ekki verið veitt nytjaleyfi, heldur hafi einungis verið leyfð þau nauðsynlegu afnot sem vörðuðu vinnu við þróun annars forrits. Aðilar hafi orðið ósáttir við framkvæmd þessa samnings og segir sóknaraðili að allri notkun varnaraðila á forritinu skyldi hætt í síðasta lagi í júlí 2003.
Sóknaraðili segir að varnaraðilar hafi byrjað að selja hugbúnað í Danmörku um mitt ár 2004
Sóknaraðili segir að í samtali starfsmanns hans og Harðar Þórðarsonar, fyrrverandi starfsmanns Smartkorta hf., hafi komið fram að varnaraðilar notuðu umrædd forrit við sölu posavéla frá Ingenico, einkum í Danmörku. Bendir sóknaraðili á að varnaraðilar hafi engar heimildar til að nýta þessi forrit. Þann 24. september 2004 hafi skoskir lögmenn sóknaraðila krafist þess bréflega að varnaraðilar hættu allri notkun forritanna, auk þess sem þeir kröfðust þess að eintökum af forritunum yrði eytt, varnaraðilar upplýstu hvernig forritin hefðu komist í þeirra hendur, að þeir samþykktu að greiða hæfilegar bætur o.fl. Hafi varnaraðilum verið veittur frestur til 28. september til að verða við kröfum þessum. Ekkert svar hafi borist.
Sóknaraðili segist eiga allan höfundarétt að umræddum forritum. Nánar er tekið svo til orða í lögbannsbeiðni að „[sóknaraðili] þ.m.t. móðurfélagið Ingenico, S.A. og systurfélagið Ingenico Transaction Systems” eigi allan höfundarétt að forritunum. Varnaraðilum sé óheimil notkun þeirra.
Það liggi fyrir ótvírætt samkvæmt yfirlýsingu Harðar Þórðarsonar að gerðarþolar noti umrædd forrit í starfsemi sinni. Nánar er því lýst að forritin séu notuð til að setja hugbúnað sem varnaraðilar framleiði inn á posavélar sem sóknaraðili framleiði, en varnaraðilar selji í samkeppni við sóknaraðila, að minnsta kosti í Danmörku.
Hagnýting forritanna sé skýrt brot á höfundarréttindum sóknaraðila. Þá geti dreifing eldri útgáfa af forritunum skaðað vörumerkjaréttindi hans, en posavélarnar séu seldar undir vörumerkin Ingenico.
Í beiðni er vísað til ýmissa ákvæða höfundalaga nr. 73/1972 með síðari breytingum. Telur sóknaraðili að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt. Þá krefst sóknaraðili þess að gerðarþoli verði sviptur öllum ólögmætum afritum af forritunum. Vísar sóknaraðili hér til þess að varnaraðili nýti hugbúnaðinn til að koma við ólögmætri dreifingu. Þá styður hann kröfuna við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 31/1990.
Í samræmi við óskir sóknaraðila tók sýslumaður beiðnina fyrir á starfsstöð varnaraðila án þess að tilkynna um það fyrirfram. Eftir að gerðinni hafði verið frestað í eina klukkustund var hún tekin fyrir á ný og var þá mættur lögmaður af hálfu varnaraðila. Er bókun svohljóðandi:
„Af hálfu sýslumanns er skorað á gerðarþola að láta af þeirri háttsemi sem krafist er lögbanns við þ.e. nota ekki, afrita eða dreifa ... Lögmaður gerðarþola leggur fram nr. 10 og 11 yfirlýsingu ... Lögmaður gerðarþola kveðst ekki mótmæla því að gerðarbeiðandi sé rétthafi að umræddum þremur tölvuforritum en kveðst jafnframt ekki vita til þess að umbjóðendur sínir hafi notað eða ætlað að nota forritin. Af þessu leiðir að gerðarþola er óheimilt að nota, afrita eða dreifa með eða án endurgjalds tölvuforritunum GEMSlite, WINGLOAD og Active TMS. Af hálfu lögmanns gerðarbeiðanda er þrátt fyrir þetta ítrekuð krafa um að lögbann verði lagt á umrædda háttsemi. Með vísun til framangreindrar yfirlýsingar lögmanns gerðarþola er eðli málsins samkvæmt ekki skilyrði til að leggja lögbann við umræddri athöfn þar sem gerðarþoli hefur fallist á að framkvæma hana ekki. Málinu er lokið með þessum hætti og af þeim sökum er trygging til bráðabirgða kr. 5.000.000 sem lögð var fram við upphaf gerðarinnar afhent lögmanni gerðarbeiðanda á ný. Lögmaður gerðarþola gerir ekki athugasemdir við að tryggingu sé skilað til gerðarbeiðanda.”
Í bréfi sóknaraðila til dómsins segir að hann telji afgreiðslu sýslumanns á lögbannsbeiðninni í andstöðu við lög nr. 31/1990 og að rök sýslumanns réttlæti ekki stöðvun á framgangi gerðarinnar. Síðan er fjallað í bréfinu um hvernig beri að túlka niðurstöðu sýslumanns. Vitnar sóknaraðili þá til tölvupóstsamskipta við sýslumann eftir að gerðinni lauk. Er ekki ástæða til að rekja þær tilvitnanir. Telur sóknaraðili ljóst að sýslumaður hafi synjað um lögbann vegna yfirlýsingar varnaraðila.
Sóknaraðili segir að ágreiningur málsins snúist fyrst og fremst um það hvort yfirlýsing varnaraðila skuli leiða til þess að gerðinni verði synjað. Telur hann að yfirlýsingin dugi ekki, enda skuldbindi hún ekki varnaraðila samkvæmt reglum laga nr. 31/1990 og veiti honum sjálfum heldur ekki þann rétt sem lögin veiti til að haldið verði uppi lögbanni. Bendir hann á að ekki sé einfalt að staðreyna hvort varnaraðili hafi látið af gerðum sínum. Telur hann að áskilja verði að gerðarbeiðandi samþykki að gerðin fái ekki frekari framgang til að ljúka megi máli eins og gert var.
Þá telur sóknaraðili að gera verði kröfu til þess að sýslumaður taki forritin úr vörslum varnaraðila.
Í greinargerð varnaraðila segir að samskipti Simdex og sóknaraðila megi rekja aftur til ársins 2001. Lýsir hann nokkrum samskiptum aðila. Simdex hafi sinnt ýmsum verkefnum fyrir sóknaraðila. Við þá vinnu hafi umrædd þrjú forrit verið í vörslum Simdex.
Varnaraðilar segja að í kjölfar bréfaskrifa sóknaraðila, einkum eftir að bréf hans frá 24. september sl. barst hafi öllum eintökum af hugbúnaðinum sem voru í vörslu Simdex verið eytt. Þeir neita því að þeir hafi hagnýtt sér með ólögmætum hætti hugbúnað sóknaraðila. Þeir þurfi ekki þennan hugbúnað og auk þess séu þær útgáfur sem þeir höfðu afrit af ófullkomnar og sennilega ónothæfar, eins og sóknaraðili haldi fram. Þeir taka fram að bréf sóknaraðila 24. september hafi einungis verið sent til Nýherja, en ekki til Simdex. Bréfinu hafi verið svarað 12. október sl.
Varnaraðilar segja að lögbannsbeiðni sóknaraðila sé liður í ófrægingarherferð. Varnaraðilar hafi stefnt sóknaraðila til greiðslu á viðskiptaskuld.
Varnaraðilar segja að lögmaður þeirra hafi lýst því yfir við fyrirtöku sýslumanns að varnaraðilar myndu ekki nota umrædd forrit. Ekki sé ástæða til að véfengja umboð lögmannsins, en til öryggis leggi þeir fram þessar yfirlýsingar að nýju, nú undirritaðar af forsvarsmönnum.
Varnaraðilar segja að yfirlýsing Harðar Þórðarsonar, sem sóknaraðili byggir á, sé óskýr um margt. Mótmæla þeir henni sem rangri og óstaðfestri.
Frávísunarkröfu byggja varnaraðilar á tvennu. Annars vegar á því að ákvörðun sýslumanns hafi lotið af framkvæmd gerðarinnar og því hafi borið að kæra þegar við gerðina, sbr. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 31/1990. Hins vegar hafi sóknaraðilar einungis krafist úrlausnar dómsins um synjun sýslumanns á framgangi lögbanns. Það standist ekki ef telja beri ákvörðun sýslumanns stöðvun gerðarinnar.
Varakrafa er studd því að skilyrði lögbanns séu ekki uppfyllt. Sú athöfn sem krafist sé lögbanns við hafi ekki verið og sé hvorki byrjuð né yfirvofandi. Varnaraðilar hafi ekki hafist handa við hana og muni ekki gera það. Þá hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að réttindi hans fari forgörðum eða spillist bíði hann dóms.
Varnaraðilar mótmæla því að umræddu hugbúnaður sé nauðsynlegur fyrir starfsemi þeirra. Þá séu staðhæfingar um að þeir hafi hagnýtt sér hugbúnaðinn með ólögmætum hætti rangar, í það minnsta ósannaðar.
Þrautavarakröfu skýra varnaraðilar því að þeir vilji með vörn í þessu máli fyrst og fremst verja orðspor sitt og traust viðskiptavina sinna. Lögbannskrafan sé fyrst og fremst lögð fram í áróðursskyni. Verði fallist á lögbannskröfu muni úrskurði verða skotið til æðra dóms. Hagsmunir sínir af því að fá úrlausn æðra dóms áður en lögbann verði lagt á séu mun meiri en hagsmunir sóknaraðila af lögbanni. Því sé þessi krafa sett fram og vísa varnaraðilar til 3. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 35. gr. laga nr. 31/1990.
Forsendur og niðurstaða.
Ákvörðun sýslumanns verður ekki skýrð á annan veg en þann að hann hafi synjað framgangi lögbanns. Hann vísar í bókun sinni skýrt til atvika sem leiða til þess að synja skuli um lögbann samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 31/1990. Tilvitnanir lögmanns sóknaraðila til samskipta sinna við sýslumann og ummæla hans eftir að gerðinni lauk eru máli þessu óviðkomandi.
Sóknaraðili staðhæfir að varnaraðilar nýti hugbúnað þann sem tilgreindur er án heimildar. Þessari staðhæfingu til stuðnings er bréf er fyrrverandi starfsmaður Smart-korta ritar, að því virðist til starfsmanns sóknaraðila. Bréf þetta er eins og varnaraðilar benda á óstaðfest og ber ekki með sér að bréfritari hafi vitað að það yrði lagt fram hjá sýslumanni eða fyrir dómi. Efni bréfsins andmæla varnaraðilar með yfirlýsingum hjá sýslumanni og fyrir dómi. Þá fullyrðir sóknaraðili að vélar sem hann segir að varnaraðilar selji í Danmörku séu ónothæfar nema hugbúnaður hans sé notaður. Þessa fullyrðingu skýrir hann ekki nánar og varnaraðilar segja hana ranga.
Frekari sönnunargögn færir sóknaraðili ekki fram. Gegn andmælum varnaraðila hefur hann hvorki sannað fullyrðingar sínar um notkun varnaraðila á forritunum né gert þær sennilegar. Er skilyrðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 því ekki fullnægt og verður synjað um lögbann. Þarf þá ekki að fjalla um hvernig aðild sóknarmegin er hagað.
Í samræmi við þessa niðurstöðu verður sóknaraðila gert að greiða málskostnað til varnaraðila. Ákveðst hann 100.000 krónur til hvors varnaraðila um sig.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kröfu sóknaraðila, Ingenico UK Ltd. um lögbann er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Nýherja hf. og Simdex ehf., hvorum um sig 100.000 krónur í málskostnað.