Hæstiréttur íslands
Mál nr. 396/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 17. september 2008. |
|
Nr. 396/2008. |
Plúsarkitektar ehf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Hótel Borg ehf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Í hönnunarsamningnum P og H vegna Hótel Borgar 15. maí 2006 var tekið fram að P tæki að sér að endurteikna aðaluppdrætti af gistihæðum hótelsins þegar hæðunum yrði fulllokið gegn ákveðinni þóknun. Þá sagði að annað sem þyrfti að sérhanna í hótelinu greiddi verkkaupi arkitektum í tímavinnu samkvæmt tímaskýrslum. Krafa P byggði á reikningum fyrir verkefni sem voru unnin í tímavinnu samkvæmt síðast nefnda ákvæði samningsins. Í dómi Hæstaréttar sagði að P hefði hvorki lagt fram né gert grein fyrir tímaskýrslum í stefnu þar sem fram kæmi hvaða verk voru unnin, sem krafist væri greiðslu á, og hvernig sá fjöldi tíma sem unnin var skiptist á verkþættina. Skorti þannig verulega á að P hefði gert grein fyrir þeim atvikum sem málsástæður hans byggðust á. Af þeim sökum yrði ekki hjá því komist að fallast á með H að vísa málinu frá héraðsdómi með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málavöxtum er lýst í hinum kærða úrskurði. Í endurskoðuðum hönnunarsamningi aðila vegna Hótel Borgar 15. maí 2006 er tekið fram að sóknaraðili taki að sér að endurteikna aðaluppdrætti af gistihæðum hótelsins þegar hæðunum verði fulllokið gegn ákveðinni þóknun. Þá segir þar svo: „Annað sem þarf að sérhanna í hótelinu greiðir verkkaupi arkitektum í tímavinnu samkvæmt tímaskýrslum ...“. Af samningnum verður ráðið að þeir verkþættir, sem sóknaraðili tók þannig að sér að vinna, voru þar ekki tæmandi taldir. Krafa sóknaraðila er byggð á reikningum fyrir verkefni sem unnin voru í tímavinnu samkvæmt síðast nefndu ákvæði samningsins. Sóknaraðili hefur hvorki lagt fram né gert grein fyrir tímaskýrslum í stefnu þar sem fram kemur hvaða verk voru unnin, sem krafist er greiðslu á, og hvernig sá fjöldi tíma sem unnin var skiptist á verkþættina. Skortir þannig verulega á að sóknaraðili hafi gert grein fyrir þeim atvikum sem málsástæður hans eru byggðar á. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að fallast á með varnaraðila að vísa málinu frá héraðsdómi með vísan til e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurðar staðfestur og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Plúsarkitektar ehf., greiði varnaraðila, Hótel Borg ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2008.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 5. júní sl., var höfðað 11. desember 2007 af Plúsarkitektum ehf., Laugavegi 59, Reykjavík, gegn Hótel Borg ehf., Suðurlandsbraut 12, Reykjavík.
Kröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda reikningsskuld að fjárhæð 9.217.109 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 7.042.218 krónum frá 20. apríl 2007 til 23. júní sama ár og af 9.217.109 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 5.000.000 króna, sem greiddar voru 14. maí s.á. og dragast frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Aðalkrafa stefnda er að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda 5. júní sl. og er úrskurðurinn kveðinn upp til úrlausnar á henni. Í þessum þætti málsins er þess krafist af hálfu stefnda að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hrundið og að málið verði tekið til efnismeðferðar. Ekki er gerð krafa um málskostnað en áskilinn réttur til að leggja fram málskostnaðarreikning fari málið til efnismeðferðar.
I.
Í stefnu kemur fram að krafa stefnanda sé byggð á hönnunarsamningi milli málsaðila um endurbætur á Hótel Borg í Pósthússtræti. Einnig er vísað til viðbótarsamnings frá 15. maí 2006.
Í stefnu er því lýst að samkvæmt viðbótarsamningnum skyldi stefndi greiða fyrir viðbótarverk, nánar skilgreind í viðbótarsamningnum, samkvæmt reikningi stefnanda. Stefnandi hafi unnið verkið á tímabilinu 15. maí 2005 til 23. maí 2007 samkvæmt fyrirmælum fulltrúa stefnda. Að verkinu hafi komið sex starfsmenn stefnanda með mismunandi vinnuframlagi sem nánar sé tilgreint í reikningum á hendur stefnda.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að vegna þessara aukaverka hafi stefnandi gefið út eftirgreinda reikninga: 20. mars 2007, gjalddagi 20. apríl s.á., að fjárhæð 7.042.218 krónur, og 23. maí s.á., gjalddagi 23. júní s.á., að fjárhæð 2.174.891 króna. Stefndi hafi greitt inná skuldina 14. maí s.á. 5.000.000 króna er dragast frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og hafi málið verið höfðað til greiðslu hennar.
II.
Frávísunarkrafa stefnda er studd þeim rökum að stefna málsins uppfylli ekki lágmarksskilyrði um lýsingu málsatvika og málsástæðna. Þá sé atvikum ranglega lýst þannig, að verk það sem kröfugerðin lúti að hafi verið unnið á tímabilinu 15. maí 2005 til 23. maí 2007 samkvæmt fyrirmælum stefnda. Í stefnu eða framlögðum reikningum sé í engu fjallað um í hverju sú vinna fólst sem krafist er greiðslu fyrir, engar tímaskýrslur lagðar fram og engin gögn um afrakstur vinnunnar, s.s. teikningar. Ekki sé fjallað um grundvöll gjaldtökunnar eða umrædd gögn lögð fram þrátt fyrir að stefnanda hafi verið fullkunnugt um að ágreiningur væri með aðilum um þann tímafjölda sem stefnandi krefji stefnda um greiðslu fyrir. Úr ágreiningnum verði ef til vill að leysa með því að fá mat á þessum verkþáttum sem stefnandi krefji um greiðslu fyrir. Slíkt mat sé þó ekki unnt að láta fara fram nema verkþáttunum sé lýst. Hvergi komi fram í málatilbúnaði stefnanda hve margir tímar hafi farið í hvert verk eða verkþátt. Úr þessu verði ekki bætt undir rekstri málsins.
Af hálfu stefnda sé á því byggt að vegna ágalla á stefnu málsins og þar sem ekki hafi verið lögð fram gögn til sönnunar sé málið svo vanreifað að ekki sé unnt að taka það til efnismeðferðar. Málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki skilyrði e liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.
III.
Af hálfu stefnanda er því mótmælt að sakarefninu sé ekki nægilega lýst í stefnu. Um sé að ræða einfalt innheimtumál en ágreiningur sé um fjárhæð reikninganna. Engin þörf sé á langri málavaxtalýsingu en greint sé frá öllum meginatriðunum í stefnu og gögnum málsins. Tímaskýrslur megi leggja fram síðar og auðvelt að bæta úr því að þær hafi ekki þegar komið fram í málinu. Rangar dagsetningar, sem fundið hafi verið að af hálfu stefnda, sé auðvelt að leiðrétta. Önnur atriði sem á kunni að vanta í málatilbúnaði stefnanda séu smávægileg og þau sé auðvelt að leiðrétta. Stefndi viti um allt sem skipti máli í sambandi við kröfu stefnanda en greinargerð hans beri vitni um það. Stefndi geti því ekki borið fyrir sig að eitthvað sé óljóst af hálfu stefnanda sem ekki verði úr bætt.
IV.
Eins og fram kemur í stefnu snúast lögskipti málsaðila um greiðslur vegna verksamnings sem gerður var þeirra í milli 15. maí 2006. Samkvæmt samningnum skyldi stefndi, sem var verkkaupi, greiða stefnanda ákveðna fjárhæð við undirritun samningsins gegn þeirri skuldbindingu stefnanda að leysa úr og fylgja eftir öllu því sem lúti að hönnun á gistihæðum. Innifalið í því skyldi vera að endurteikna aðaluppdrætti af gistihæðum hótelsins. Þeirri skuldbindingu ljúki þegar hæðunum verði fulllokið og þær komnar í útleigu. Fram hefur komið að þarna sé um viðbótargreiðslu við gildandi samning að ræða frá 27. júlí 2005. Samkvæmt þeim samningi náði hann yfir tiltekna verkþætti í tengslum við breytingar á og viðbyggingu við Hótel Borg. Samið var um fastar greiðslur fyrir verkið. Í samningnum frá 15. maí 2006 kemur fram að stefndi skyldi greiða stefnanda fyrir annað, sem þyrfti að sérhanna í hótelinu, í tímavinnu samkvæmt tímaskýrslum. Þar séu stærstu póstarnir nýtt skyggni, gólfefni á jarðhæð, nýtt innréttað anddyri, ný útidyrahurð, ofnagrindur í allt hótelið, frágangur á svölum á 4. hæð, gluggar og hurðir á jarðhæð, allur utanhússfrágangur á gamla húsinu og ný framhlið á Pósthússtræti 9. Einnig þurfi að leggja inn nýja aðaluppdrætti af húsinu, þar sé um að ræða teikningar af efri hæðum, sem séu innifaldar í samningi. Breytingar á 1. hæð væru utan þessa samnings.
Krafa stefnanda í málinu er samkvæmt því sem fram hefur komið byggð á reikningunum sem lýst er í stefnu. Þar er því enn fremur lýst að stefndi skyldi greiða stefnanda fyrir viðbótarverk samkvæmt viðbótarsamningnum samkvæmt reikningi stefnanda. Í stefnu kemur ekki fram hver þau verk voru. Á reikningunum, sem vísað er til í stefnu, koma fram nöfn starfsmanna, tímafjöldi, einingarverð og heildartölur. Þar er einnig talinn kostnaður vegna byggingarumsóknar. Í viðbótarsamningnum sem um ræðir segir að stefndi skyldi greiða stefnanda annað sem þurfi að sérhanna í tímavinnu samkvæmt tímaskýrslum. Ekki er gerð grein fyrir tímaskýrslum í stefnu en af hálfu stefnda er vísað til þess að heimilt sé að leggja tímaskýrslur fram síðar eins og þegar hefur verið rakið.
Að þessu virtu er ekki fallist á að um einfalt innheimtumál sé að ræða, eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála skulu málsástæður koma fram jafnskjótt og tilefni verður til en að öðrum kosti má ekki taka þær til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hafi þarfnast leiðbeiningar dómara en ekki fengið þær. Í frávísunarkröfu stefnda felst að stefndi hafni því að stefnandi geti lagt málið fyrir með þeim hætti sem hann hefur hér gert. Með vísan til þess sem að framan greinir verður að telja að í stefnu skorti að stefnandi hafi gert fullnægjandi grein fyrir málsástæðum sem kröfur hans í málinu eru byggðar á. Málatilbúnaður stefnanda er þar með ekki í samræmi við fyrirmæli í e lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála þar sem segir að í stefnu skuli greina með skýrum hætti frá málsástæðum, sem stefnandi byggi málssóknina á, svo og öðrum atvikum sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Ber því að vísa málinu frá dómi.
Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Úrskurðinn kveður upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Plúsarkitektar ehf., greiði stefnda, Hótel Borg ehf., 200.000 krónur í málskostnað.