Hæstiréttur íslands

Mál nr. 193/2013


Lykilorð

  • Verðbréfaviðskipti
  • Innherjaupplýsingar
  • Innherjasvik
  • Skilorð
  • Upptaka
  • Sératkvæði


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. desember 2013.

Nr. 193/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Friðfinni Ragnari Sigurðssyni

(Reimar Pétursson hrl.)

Verðbréfaviðskipti. Innherjaupplýsingar. Innherjasvik. Skilorð. Upptaka. Sératkvæði.

F var ákærður fyrir innherjasvik með því að hafa í fimm aðskilin skipti á árinu 2008 selt hlutabréf sín í G hf. þrátt fyrir að búa í öllum tilvikum yfir innherjaupplýsingum um lausafjárstöðu bankans sem hann varð áskynja um í starfi sínu sem forstöðumaður millibankamarkaðar í fjárstýringu bankans. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu F samkvæmt ákæru og var lagt til grundvallar að hann hefði verið í stöðu tímabundins innherja í skilningi 2. töluliðar 121. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Við ákvörðun refsingar vísaði Hæstiréttur til þess að brot F hefðu varðað verulega fjárhæð, falið í sér trúnaðarbrot og beinst gegn mikilvægum hagsmunum. Á hinn bóginn hefði F ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi og hefðu nærri fjögur ár liðið frá því að brotum F lauk þar til ákæra hefði verið gefin út, en ekki var talið að fram hefði komið haldbær skýring á þeim drætti. Var refsing F ákveðin fangelsi í níu mánuði, en frestað var fullnustu sex mánaða skilorðsbundið í tvö ár. Þá var F gert að sæta upptöku hagnaðar af brotum sínum, að því gættu að samkvæmt ákæru hefði F ekki verið talinn hafa gerst sekur um innherjasvik við sölu hlutabréfa í G hf. 14. maí 2008 og hefði hagnaður hans vegna þriggja brota sem framin voru fyrir þann tíma því ekki getað numið hærri fjárhæð en mismuninum á þeirri fjárhæð sem hann fékk í raun fyrir hlutina og þeirri sem hann hefði getað fengið fyrir þá í það sinn.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing verði milduð og fjárhæð kröfu um upptöku lækkuð.

Samkvæmt gögnum málsins tók ákærði 1. janúar 2006 við starfi forstöðumanns millibankamarkaðar Íslandsbanka hf., sem síðar fékk heitið Glitnir banki hf., en ákærði hafði starfað hjá félaginu og þar áður forvera þess frá árinu 1999. Í byrjun árs 2008 virðist ákærði hafa átt samtals 2.057.000 hluti í félaginu, sem hann hafði eignast á starfstíma sínum þar. Af þeim seldi hann 250.000 hluti fyrir 5.050.000 krónur 11. janúar 2008 og aðra 250.000 hluti fyrir 4.387.500 krónur 11. febrúar sama ár, en síðargreinda daginn eignaðist hann 3.408 hluti, að því er virðist vegna útborgunar á arði frá félaginu. Aftur seldi ákærði 250.000 hluti 12. mars 2008 fyrir 4.350.000 krónur, 250.000 hluti 3. apríl sama ár fyrir 4.437.500 krónur og 250.000 hluti 9. sama mánaðar fyrir 4.575.000 krónur. Þá seldi hann 300.000 hluti fyrir 5.085.000 krónur 14. maí 2008, 250.000 hluti fyrir 3.345.000 krónur 17. september sama ár og loks 260.408 hluti 18. sama mánaðar fyrir 3.471.239 krónur, en með þessu hafði hann selt alla hluti sína í félaginu. Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd. Óumdeilt er að hlutir í félaginu hafi þar með orðið verðlausir. Fjármálaeftirlitið beindi 18. janúar 2011 kæru til sérstaks saksóknara vegna gruns um að ákærði hafi á árinu 2008 gerst sekur um innherjasvik með sölu framangreindra hluta í Glitni banka hf., ef frá talin ráðstöfun á 300.000 hlutum 14. maí á því ári. Sérstakur saksóknari höfðaði síðan mál þetta með ákæru 11. maí 2012, þar sem ákærða var gefið að sök að hafa brotið gegn 1. tölulið 1. mgr. 123. gr., sbr. 3. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að hafa selt 1.260.408 hluti í Glitni banka hf. fyrir samtals 20.178.739 krónur 12. mars, 3. og 9. apríl, 17. og 18. september 2008 þrátt fyrir að hann hafi sökum fyrrgreinds starfs síns búið yfir innherjaupplýsingum um lausafjárstöðu Glitnis banka hf. vegna atvika, sem nánar greindi í þrettán liðum í ákærunni, en samkvæmt henni var lagt til grundvallar að ákærði hafi verið í stöðu tímabundins innherja í skilningi 2. töluliðar 121. gr. sömu laga. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi og gert að sæta fangelsi í tólf mánuði, auk þess að þola upptöku á hagnaði af sölu fyrrgreindra hluta, sem taldist nema 19.200.926 krónum að teknu tilliti til kostnaðar og skatta.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þá háttsemi, sem í ákæru greinir. Við ákvörðun refsingar ákærða verður að gæta að því að brot hans snerust um verulega fjárhæð, þau fólu í sér trúnaðarbrot og beindust að mikilvægum hagsmunum. Ákærði hefur á hinn bóginn ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Fram hjá því verður heldur ekki horft að nærri fjögur ár liðu frá því að brotum ákærða lauk þar til ákæra var gefin út, en ekki verður séð að nokkur haldbær skýring sé á því að sá dráttur hafi orðið á málinu. Að þessu öllu virtu er refsing ákærða ákveðin fangelsi í níu mánuði, en rétt er að binda sex mánuði af henni skilorði eins nánar greinir í dómsorði.

Samkvæmt 2. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007 er heimilt að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað, sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laganna sem varðar sektum eða fangelsi. Þegar ákveðinn er hagnaður ákærða af brotum sínum verður að gæta að því að í ákæru var hann ekki talinn hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 108/2007 með því að hafa selt 300.000 hluti í Glitni banka hf. 14. maí 2008. Af því leiðir að þann dag hefði ákærði sér að ósekju jafnframt getað selt þá 750.000 hluti í félaginu, sem hann hafði ráðstafað á refsiverðan hátt 12. mars og 3. og 9. apríl 2008. Hagnaður hans af brotunum, sem hann framdi þá daga, getur að þessu virtu ekki numið hærri fjárhæð en mismuninum á því, sem hann fékk í raun fyrir hlutina, og því, sem hann hefði getað fengið fyrir þá 14. maí 2008. Ákærði seldi hluti síðastgreindan dag á genginu 16,95, en gengið í viðskiptum hans 12. mars 2008 var 17,40, 3. apríl sama ár 17,75 og 9. sama mánaðar 18,30. Mismunurinn, sem hér um ræðir, var þannig alls 650.000 krónur, en til frádráttar honum kemur 0,5% sölukostnaður, 3.250 krónur, og 10% fjármagnstekjuskattur, 65.000 krónur. Hagnaður ákærða af brotum hans 12. mars, 3. apríl og 9. apríl 2008 telst samkvæmt þessu alls hafa orðið 581.750 krónur. Ákærði seldi síðan 510.408 hluti í Glitni banka hf. 17. og 18. september 2008 fyrir samtals 6.816.239 krónur, en leggja verður til grundvallar að eftir þann tíma og þar til hlutirnir urðu verðlausir 7. október sama ár hefði hann ekki getað selt þá án þess að brjóta gegn 1. tölulið 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007. Samkvæmt útreikningi sérstaks saksóknara, sem krafa um upptöku var reist á, var vegið kaupgengi hluta, sem ákærði seldi á árinu 2008 og ákæra tekur til, 8,9829325 og telst því stofnverð þeirra 510.408 hluta, sem hér um ræðir, vera 4.584.961 króna. Fjármagnstekjuskattur af verðinu, sem ákærði fékk við sölu hlutanna 17. og 18. september 2008, var samkvæmt þessu 223.128 krónur, en kostnaður af sölu nam 34.081 krónu. Hagnaður ákærða af þessum tveimur brotum varð því alls 6.559.030 krónur. Samkvæmt öllu framangreindu varð hagnaður ákærða af öllum brotunum fimm samtals 7.140.780 krónur og verður sú fjárhæð gerð upptæk eins og nánar segir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður látið standa óraskað. Eftir framangreindum úrslitum málsins er rétt að ákærði beri helming áfrýjunarkostnaðar, þar á meðal af málsvarnarlaunum verjanda síns, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærði, Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, sæti fangelsi í níu mánuði, en fresta skal fullnustu sex mánaða af þeirri refsingu og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði sæti upptöku á 7.140.780 krónum, sem teljast hluti af andvirði eignarhluta hans í fasteigninni Fjallalind 111 í Kópavogi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem er samtals 1.432.086 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns, 1.255.000 krónur, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara

Varnir ákærða eru rækilega tíundaðar í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu ákærða er niðurstaða héraðsdóms talin annmörkum háð sem lýsi sér í því að ákærði hafi ranglega verið talinn tímabundinn innherji þrátt fyrir að ekki hafi verið uppfyllt ófrávíkjanlegt skilyrði laga um formlega skráningu þar um. Þá hafi upplýsingar sem um ræðir í ákæru ekki verið innherjaupplýsingar. Loks hafi héraðsdómur látið hjá líða að taka afstöðu til varna ákærða um að hann hafi ekki notað upplýsingarnar við viðskiptin sem um ræðir.

Í 121. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti kemur fram að með tímabundnum innherja sé átt við aðila sem telst ekki fruminnherji en býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna. Töluverður greinarmunur er á mismunandi flokkum innherja. Til að mynda þurfa fruminnherjar ekki að búa yfir innherjaupplýsingum til að teljast slíkir innherjar heldur nægir að þeir hafi að jafnaði aðgang að þannig upplýsingum. Er staða þeirra þess eðlis að þeir búa ætíð yfir eða hafa aðgang að innherjaupplýsingum. Þá gerir löggjafinn greinarmun á hvort menn teljast tímabundnir innherjar eða aðrir innherjar en um hina síðari er sérstaklega tekið fram að nauðsynlegt sé að þeir hafi vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingar voru. Hefur tímabundinn innherji sérstakar trúnaðarskyldur gagnvart útgefanda fjármálagerninga.

Til þess að ákærði teljist tímabundinn innherji, eins og greinir í ákæru, þarf ákæruvaldið fyrst að sýna fram á að hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum í skilningi 120. gr. laga nr. 108/2007, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Ég er samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda um að upplýsingar þær sem um ræðir í þessu máli hafi verið af slíku tagi.

Útgefendum fjármálagerninga samkvæmt 128. gr. laga nr. 108/2007 er skylt, að viðlagðri ábyrgð samkvæmt 141. gr., að útbúa lista um alla fruminnherja, tímabundna innherja og aðila sem eru fjárhagslega tengdir þeim. Ber að senda listana til Fjármálaeftirlitsins og uppfæra þá reglulega. Jafnframt þarf að kynna innherjum þessa skráningu og ýmis atriði er hana varða, sbr. 129. gr. laganna. Eins greinir í héraðsdómi var regluvörslu í Glitni banka hf. ábótavant á þeim tíma er atvik gerðust. Af því sem fram er komið í málinu hefði verið rétt að tilkynna ákærða um stöðu hans sem tímabundins innherja samkvæmt síðastnefndu lagagreininni. Af framburði ákærða og regluvarðar bankans og tölvusamskiptum þeirra í milli verður þó ekki séð að ákærði hafi látið regluvörðinn vita um að upplýsingar þær sem hann hafði undir höndum gætu talist innherjaupplýsingar. Í þessu sambandi ber að líta til þágildandi reglna nr. 987/2006 um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja og einnig til reglna Glitnis banka hf. um eigin viðskipti, aðskilnað starfssviða og viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga og gjaldeyri. Samkvæmt gögnum málsins sendi regluvörður ákærða hinar síðargreindu reglur með tölvubréfi áður en fyrstu viðskipti sem ákært er vegna áttu sér stað. Í þeim reglum var meðal annars tiltekið að starfsmenn bankans bæru ábyrgð á eigin viðskiptum þrátt fyrir að regluvarsla hefði samþykkt þau og var í bréfi regluvarðar nefnt í dæmaskyni að þetta ætti við ef síðar kæmi í ljós að starfsmaður byggi yfir innherjaupplýsingum. Með þessari viðbót er ég samþykkur þeirri niðurstöðu meirihluta dómenda að þótt ákærði hafi ekki verið skráður á lista yfir tímabundna innherja verði talið að hann hafi verið í slíkri stöðu, líkt og saksókn á hendur honum tekur til, sbr.  1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður því ekki talið að óþarft hafi verið að geta í ákæru um stöðu ákærða, svo sem ákæruvaldið hefur haldið fram fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 123. gr. laga nr. 108/2007, sem háttsemi ákærða er heimfærð undir, var honum sem tímabundnum innherja óheimilt að afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti þar sem hann bjó yfir innherjaupplýsingum og skiptir þá ekki máli hvort hann nýtti sér upplýsingarnar í viðskiptunum. Að þessu öllu gættu er ég samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda um sakfellingu ákærða. Þá er ég einnig sammála þeim um ákvörðun refsingar hans, upptöku og sakarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. mars 2013.

             Mál þetta, sem var dómtekið 12. febrúar 2013, er höfðað með ákæru útgefinni af sérstökum saksóknara 11. maí 2012 á hendur Friðfinni Ragnari Sigurðssyni, kt. [...], [...], [...], „fyrir innherjasvik með því að hafa 12. mars 2008, 3. og 9. apríl 2008 og loks 17. og 18. september 2008 selt hlutabréf sín í Glitni banka hf., alls 1.260.408 hluti fyrir samtals 20.178.739 krónur, þrátt fyrir að búa í öllum tilvikum yfir innherjaupplýsingum um lausafjárstöðu bankans sem hann varð áskynja um í starfi sínu sem forstöðumaður millibankamarkaðar í fjárstýringu bankans og nánar er lýst í eftirfarandi ákæruliðum:

I.

Með því að hafa selt 250.000 nafnverðshluti í Glitni banka hf. 12. mars 2008 fyrir samtals 4.350.000 krónur, þrátt fyrir að búa yfir eftirfarandi innherjaupplýsingum sem bárust ákærða á tímabilinu frá 4. mars 2008 til 12. mars 2008 með tölvupóstum frá starfsmönnum Glitnis banka hf. og á fundi fjárstýringar og áhættustýringar bankans, þar sem lausafjárstaða bankans var rædd:

1)       Upplýsingar í tölvupóstsamskiptum 4. mars 2008 um versnandi lausafjárstöðu Glitnis banka hf. í erlendri mynt, erfiðleika bankans við að bæta þá stöðu og upplýsingar um þá óvissu sem ríkti í langtímafjármögnun bankans.

2)       Upplýsingar sem fram komu á fundi fjárstýringar og áhættustýringar Glitnis banka hf. 8. mars 2008 um að aðgengi bankans að óskuldbindandi peningamarkaðslánalínum hefði versnað umtalsvert. Á fundinum komu einnig fram upplýsingar um að innstæður í útibúi bankans hefðu dregist saman um 400 milljónir evra og að bankinn væri mjög háður fjármögnun með endurhverfum viðskiptum.

3)       Upplýsingar um versnandi lausafjárstöðu Glitnis banka hf. sem fram komu í tölvupóstsamskiptum 10. og 11. mars 2008.

II.

Með því að hafa annars vegar selt 250.000 nafnverðshluti í Glitni banka hf. 3. apríl 2008 fyrir samtals 4.437.500 krónur og hins vegar selt 250.000 nafnverðshluti í Glitni banka hf. 9. apríl 2008 fyrir samtals 4.575.000 krónur, þrátt fyrir að hafa búið yfir eftirfarandi innherjaupplýsingum sem bárust ákærða með tölvupóstum frá starfsmönnum Glitnis banka hf. á tímabilinu frá 12. mars 2008 til 31. mars 2008 og sýndu slæma lausafjárstöðu bankans:

1)       Upplýsingar í tölvupóstsamskiptum 12. mars 2008 um að fjármögnunarþörf Glitnis banka hf. til eins mánaðar hefði aukist um rúmlega 1600 milljónir evra, lánsskuldbindingar hefðu aukist og handbært fé bankans hefði dregist saman um 515 milljónir evra. 

2)       Upplýsingar í tölvupósti 14. mars 2008 um útstreymi fjármagns frá útibúi Glitnis banka hf. í London, en þennan dag drógust innlán útibúsins saman um 76 milljónir sterlingspunda. Í sama tölvupósti komu fram upplýsingar um að búist væri við því að Glitnir gæti ekki framlengt þau lán bankans sem voru að koma á gjalddaga (90 milljarðar króna næstu 30 daga) og að bankinn ætti í erfiðleikum með að útvega gjaldeyri til standa við skuldbindingar sínar.

3)       Upplýsingar í minnisblaði frá 15. mars 2008 um að reiðufjárstaða Glitnis banka hf. hefði versnað töluvert frá því í febrúar 2008 og að lánalína hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Citigroup, að fjárhæð 435 milljónir evra, stæði bankanum ekki lengur til boða. Í minnisblaðinu komu einnig fram upplýsingar um versnandi reiðufjárstöðu Glitnis banka hf. dagana á undan.

4)       Upplýsingar í tölvupóstsamskiptum 26. og 27. mars 2008 um slæma gjaldeyrisstöðu Glitnis banka hf.

5)       Í drögum að fundargerð efnahagsnefndar Glitnis banka hf., dags. 26. mars 2008, sem ákærði fékk send með tölvupósti dags. 29. mars 2008, komu fram upplýsingar um slæma reiðufjárstöðu Glitnis banka hf. og að eigið fé bankans myndi ekki standa undir fjárþörf bankans samkvæmt innri markmiðum bankans.

6)       Upplýsingar í tölvupósti 31. mars 2008 um að innistæður í útibúi Glitnis banka hf. í London hefðu dregist saman um 440 milljónir sterlingspunda frá janúar 2008 og búast mætti við því að innistæðurnar drægjust saman enn frekar eða mögulega um 350 milljónir sterlingspunda. Í tölvupóstinum komu jafnframt fram upplýsingar um að stærstur hluti þeirra trygginga sem bankinn hygðist nota í endurhverfum viðskiptum við Englandsbanka væri ekki lengur nothæfar í viðskiptunum.

III.

Með því að hafa annars vegar selt 250.000 nafnverðshluti í Glitni banka hf. 17. september 2008 fyrir samtals 3.345.000 krónur og hins vegar selt 260.408 hluti í Glitni banka hf. 18. september 2008 fyrir samtals 3.471.239 krónur, þrátt fyrir að hafa búið yfir eftirfarandi innherjaupplýsingum sem bárust ákærða með tölvupóstum frá starfsmönnum Glitnis banka hf. á tímabilinu 26. ágúst 2008 til 15. september 2008 og sýndu slæma lausafjárstöðu bankans:

1)       Upplýsingar í tölvupóstsamskiptum 26. og 27. ágúst 2008 um áhyggjur forstjóra Glitnis banka hf., A, af gjaldeyrisstöðu bankans, en útflæði gjaldeyris frá bankanum var 60 milljónir evra 26. ágúst 2008.

2)       Upplýsingar í tölvupóstsamskiptum 2. og 4. september 2008 um mikið útflæði erlends gjaldeyris frá Glitni banka hf. og erfiðleika bankans við að framlengja endurhverf viðskipti á sama tíma og tveir stórir gjalddagar vegna lánsskuldbindinga bankans nálguðust.

3)       Upplýsingar í tölvupóstsamskiptum 11. september 2008 um að Straumur Fjárfestingarbanki hf. hefði fært öll reikningsviðskipti sín frá Glitni banka hf. til erlendra banka, en innstæður Straums hjá bankanum námu þá um 172 milljónum evra, 30 milljónum bandaríkjadala og 90 milljónum sænskra króna.

4)       Upplýsingar í tölvupósti 15. september 2008 um erfiðleika Glitnis banka hf. við að fjármagna sig eftir fall bandaríska fjárfestingarbankans, Lehman Brothers Holdings Inc., sama dag. Í póstinum kom fram að Glitnir banki hf. gæti átt von á að þurfa að greiða 70 milljónir evra til breska fjármálafyrirtækisins Barclays PLC vegna yfirvofandi veðkalls. Jafnframt þyrfti Glitnir banki hf. að greiða 13 milljónir evra vegna veðkalla í endurhverfum samningsviðskiptum og 12 milljónir evra til sænska fjárfestingarbankans Carnegie þar sem bankinn tæki ekki lengur hlutabréf í Kaupþingi banka hf. sem tryggingu.

IV.

Brot ákærða samkvæmt ákæruliðum  I. – III. varða við 1. tölul. 1. mgr. 123. gr., sbr. 3. tölul. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

V.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist, með vísan til 2. mgr. 147. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að ákærða verði gert að sæta upptöku á 19.200.926 krónum af andvirði eftirfarandi eigna sem kyrrsettar voru 30. maí 2011:

1)       innstæðu á bankareikningi í Íslandsbanka nr. [...]-[...]-[...]14 allt að 1.348.221 krónum,

2)       ríkisskuldabréfum á vörslureikningi nr. [...]44 í Íslandsbanka að verðmæti 1.227.884 krónur 23. apríl 2012 (handveðsreikningur nr. [...]97),

3)       215.528 nafnverðshluti í Icelandair Group hf. á vörslureikningi nr. [...]44 í Íslandsbanka  að verðmæti 1.359.982 krónur 23. apríl 2012 (handveðsreikningur nr. [...]97),

4)       ríkisskuldabréfum á vörslureikningi nr. [...]44 í Íslandsbanka að verðmæti 8.880.721 krónur 23. apríl 2012 (handveðsreikningur nr. [...]97) og

5)       50% eignarhlut í fasteigninni [...], Kópavogi, fastanúmer [...].

Röksemdir sem málsóknin er byggð á, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

Ákærði var innherji þegar viðskiptin fóru fram

Ákærði hafði réttarstöðu innherja, þ.e. var tímabundinn innherji í skilningi 2. tölul. 121. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti (hér eftir vvl.) þar sem hann hafði vegna starfa sinna sem forstöðumaður millibankamarkaðar í fjárstýringu Glitnis banka hf. (hér eftir Glitnir) innherjaupplýsingar um bankann sem falla að hugtaksskilyrðum 120. gr. vvl. Réttarstaða innherja í skilningi 2. tölul. 121. gr. vvl. er ekki háð formlegri skráningu eða tilkynningu heldur tekur hún til efnislegrar vitneskju um innherjaupplýsingar.

Upplýsingar sem ákærði bjó yfir voru innherjaupplýsingar

Í ákæruliðum I.-III. er gerð grein fyrir þeim innherjaupplýsingum sem ákærði bjó yfir þegar hann seldi hlutabréf sín í Glitni. Þegar ákærði átti viðskipti 3. og 9. apríl 2008 bjó hann yfir sömu innherjaupplýsingum í báðum tilvikum. Sama á við um viðskipti ákærða 17. og 18. september 2008. Hins vegar er byggt á því að hver og ein hinna fimm viðskipta ákærða teljist vera sjálfstætt brot gegn 1. tölul. 1. mgr. 123. gr. vvl., sbr. 3. tölul. 146. gr. sömu laga.

Öllum hugtaksskilyrðum innherjaupplýsinga í skilningi 120. gr. vvl., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2007, er fullnægt:

1.       Upplýsingarnar vörðuðu Glitni beint, en brot ákærða fólust í sölu á hlutabréfum hans í bankanum.

2.       Upplýsingarnar eru nægjanlega tilgreindar. Þær sýndu með nákvæmum hætti slæma lausafjárstöðu Glitnis á tímabilinu og voru til þess fallnar að hafa verulega þýðingu fyrir rekstur og stöðu bankans og þar með hlutabréfaverð hans.

3.       Umræddar upplýsingar höfðu ekki verið gerðar opinberar í samræmi við 120. gr. vvl., sbr. reglugerð nr. 707/2008, þegar ákærði seldi hlutabréf sín í Glitni. Þvert á móti voru opinberar upplýsingar frá bankanum sjálfum mjög jákvæðar um lausafjárstöðu bankans á tímabilinu.

4.       Líklegt er að hlutabréf í Glitni hefðu lækkað marktækt í verði ef umræddar upplýsingar hefðu verið gerðar opinberar. Samkvæmt lausafjárstefnu Glitnis frá desember 2007 var litið á lausafjárstöðu bankans sem mikilvæga forsendu fyrir starfhæfi bankans og því talið nauðsynlegt að stjórn og helstu stjórnendur bankans væru meðvitaðir um stöðuna á hverjum tíma. Stjórnendur bankans höfðu miklar áhyggjur af lausafjárstöðu bankans á því tímabili sem ákærði seldi hlutabréf sín í bankanum. Dæmi um þetta eru áhyggjur forstjóra Glitnis, A, sem hann lét í ljós í tölvupóstsamskiptum um slæma lausafjárstöðu bankans og ákærða voru kunnar. Mikilvægi innherja­upplýsinganna kom einnig fram í viðbrögðum annarra stjórnenda og starfsmanna bankans við upplýsingum um lausafjárstöðu bankans. Í mars 2008 ritaði B, starfsmaður Glitnis, í tölvupósti til A, forstjóra Glitnis, að ef bankinn leitaði ekki aðstoðar Seðlabanka Íslands vegna lausafjárstöðu bankans yrðu „hlutabréf bankans svo gott sem verðlaus um páskana“. Afstaða ákærða sjálfs til upplýsinganna kom einnig fram í fjölmörgum tölvupóstum, en hann taldi stöðuna vera alvarlega.

Upptökukrafa

Þess er krafist að ákærði sæti upptöku á 19.200.926 krónum, sem er ávinningur ákærða eftir skatta af sölu hlutabréfa í Glitni banka hf., sbr. ákæruliðir I.-III, að frádregnum kostnaði við söluna. Söluandvirði hlutabréfanna að frádregnum kostnaði var 20.076.345 krónur. Skattur af því var 875.419 krónur.

Útreikningur á ávinningi miðast við þá staðreynd að hlutabréf í Glitni banka hf. urðu verðlaus við fall bankans í byrjun október 2008.

Þann 30. maí 2011 kyrrsetti sýslumaðurinn í Reykjavík eignir ákærða til tryggingar kröfum að fjárhæð 40.000.000 króna.“

             Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu og þess að allur sakarkostnaður málsins, þ.m.t. þóknun verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði. Þá mótmælir ákærði upptökukröfu ákæruvaldsins.

I. Málsatvik.

             Embætti sérstaks saksóknara móttók hinn 18. janúar 2011 kæru Fjármálaeftirlitsins á hendur ákærða fyrir innherjasvik með hlutabréf í Glitni banka hf. Í kærunni segir að við yfirferð á tölvupósti starfsmanna bankans hafi komið fram að ákveðnir starfsmenn hafi verið meðvitaðir um slæma lausafjárstöðu bankans snemma árs 2008. Í ljósi þeirrar vitneskju hafi verið athugað hvort þeir hafi átt viðskipti með hlutabréf á árinu 2008 og hafi ákærði, sem hafi verið forstöðumaður millibankaborðs bankans, selt hlutabréf í níu viðskiptum. Í kærunni er svo rakið hvert starfssvið ákærða hafi verið og einstök viðskipti.

             Með bréfi sérstaks saksóknara 2. maí 2011 var óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið tæki til nánari skoðunar og meðferðar nokkra annmarka sem hefðu komið í ljós á kærunni og að málið yrði svo endursent sérstökum saksóknara, eftir atvikum með leiðréttingum. Var í þessu sambandi jafnframt vísað til fundar með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins 28. apríl 2011, þar sem vikið hafi verið að þessum atriðum.

             Fjármálaeftirlitið sendi lagfæringar sínar með bréfi 5. maí 2011 og voru þær í sex liðum. Í bréfinu segir að í fyrsta lagi hafi dagsetning kærunnar misfarist, en árið hafi átt að vera 2011 en ekki 2010. Í öðru lagi hafi verið lagfærð „efnislína“ kærunnar og einnig verið vísað í innlausn á hlutdeildarskírteinum í Sjóði 9. Í þriðja lagi hafi verið lagfærð villa í útreikningum í tiltekinni töflu, en fenginn arður hafi fyrir mistök verið reiknaður sem sala. Í fjórða lagi hafi lengdinni á tímabili meintra brota verið breytt úr ellefu mánuðum í níu mánuði. Í fimmta lagi hafi verið bætt við áætluðum hagnaði vegna innlausnar á Sjóði 9 samkvæmt útreikningum Fjármálaeftirlitsins. Í sjötta lagi hafi rökstuðningur verið settur í kæruna, sem áður hafi verið vísað til í tengslum við rannsókn á Sjóði 9.   

             Ákærði var tvisvar yfirheyrður undir rannsókn málsins, hinn 30. maí 2011 og 1. nóvember 2011, og neitaði hann sök. Á tímabilinu frá lokum mars til nóvember 2011 voru yfirheyrð vitnin C, sem var deildarstjóri í áhættustýringu Glitnis banka, D, sem var sérfræðingur í áhættustýringu bankans, E, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar bankans, F, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, G sem var sérfræðingur á millibankamarkaði bankans, H, sem var regluvörður bankans, og I, en hann var forstöðumaður yfir alþjóðlegri fjármögnun Glitnis banka hjá útibúi bankans í London. Auk þess var undir rannsókn málsins aflað fjölmargra gagna og verður vísað til þeirra, sem og framburðar ákærða og vitna, síðar eftir því sem ástæða er til.

             Ákæra á hendur ákærða var gefin út 11. maí 2012 og var mál þetta þingfest 4. júní s.á. Ákærði neitaði sök og fékk frest til 25. september s.á. til að skila greinargerð og var stefnt að aðalmeðferð 5. nóvember s.á. Í þinghaldi 25. september lagði ákærði fram greinargerð sína og gerði hann kröfu um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á tilteknum atriðum. Kröfu ákærða var hafnað með úrskurði dómsins 2. nóvember 2012 og var hann staðfestur með dómi Hæstaréttar, frá 30. nóvember 2012, í máli nr. 669/2012. Aðalmeðferð í málinu fór svo fram 11. og 12. febrúar 2013.

II. Málsvörn ákærða.

             Skrifleg greinargerð ákærða, sem hann lagði fram á grundvelli 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er mjög ítarleg, 49 blaðsíður.

             Í greinargerð ákærða er lýst fjölskylduhögum hans og menntun og starfs­reynsla hans rakin. Þar kemur m.a. fram að hann hafi stundað nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og í upphafi hafi hann stefnt á fjögurra ára nám á endurskoðunarsviði, en vorið 1999 hafi honum boðist starf hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (FBA) og í stað þess að ljúka námi af endurskoðunarsviði hafi hann útskrifast haustið 1999 frá viðskiptafræðideild með B.S. gráðu í viðskiptafræði. Ákærði hafi byrjað í áhættu- og fjárstýringardeild bankans en hann hafi starfað sem sérfræðingur á peningamarkaði og við reiðufjárstýringu bankans. Við sameiningu FBA og Íslandsbanka hf. vorið 2000 hafi starfsumhverfi hans orðið flóknara og meira krefjandi vegna aukinna umsvifa. Í ársbyrjun 2006 hafi verið gerð breyting á skipuriti bankans og stofnuð hafi verið sérstök deild „millibankamarkaða“ og ákærða verið falið að veita henni forstöðu og ábyrgð hans hafi aukist því hann hafi verið yfirmaður hóps sem taldi að jafnaði um átta manns. Í maí 2008 hafi verið gerðar miklar breytingar á framkvæmdastjórn bankans og eftir að Glitnir var tekinn yfir af skilanefnd hafi ákærði tekið við starfi hjá Íslandsbanka, sem hafi tekið við innlendum rekstri Glitnis. Þar hafi ákærði starfað sem forstöðumaður millibankamarkaða. Sú deild hafi tilheyrt sviði sem bar heitið „markaðir“. Ákærði hafi síðan um tíma gegnt störfum sem staðgengill framkvæmdastjóra markaða. Hann hafi þá setið fundi framkvæmdastjórnar og áhættunefndar bankans, sem hann gerði ekki áður.

             Ákærði kveðst hafa unnið störf sín athugasemdalaust frá upphafi og hann hafi alla tíð ástundað þau af fullum heilindum og samviskusemi. Hann hafi aldrei verið ásakaður um að hafa misfarið með það traust sem honum hafi verið sýnt fyrr en í þessu máli. Sakirnar sem bornar séu á hann hafi því reynst honum einkar þungbærar og þær hafi m.a. leitt til þess að hann hætti störfum fyrir Íslandsbanka í árslok 2011. Í dag starfi ákærði á fjármálasviði hjá alþjóðlega lyfjafyrirtækinu Alvogen.

             Þá gerir ákærði í greinargerð sinni grein fyrir hlutafjáreign sinni allt frá því hann hóf störf í FBA á árinu 1999. M.a. hafi hann selt 300.000 hluti í Glitni 14. maí 2008 á 17,75 krónur á hlut, en honum séu engar sakir gerðar vegna þessara viðskipta. Ákærði hafi gjarnan selt hlutina í nokkrum viðskiptum yfir ákveðið tímabil eftir að kvaðir um eignarhaldstíma runnu út. Hann hafi haft þennan hátt á vegna þess að hann hafi alla tíð vegna starfa sinna hjá Glitni átt kauprétti og hluti, með kvöðum um eignarhaldstíma. Hann hafi því alla jafnan átt von um hagnað við gott gengi Glitnis. Þessi hagnaðarvon tengd kauprétti og kvaðabundnum hlutum hafi alla tíð verið nægjanlega mikil í hans huga. Af þeim sökum hafi hann talið skynsamlegt að selja hlutina sem voru lausir til ráðstöfunar. Slík sala hafi minnkað lítið hlutfallslega möguleika hans til að hagnast á hækkun hluta bankans og aukið mikið hlutfallslega við eign hans í öðru formi sparnaðar en hlutafé í Glitni. Þess utan hafi sala óbundnu hlutanna gert ákærða kleift að greiða niður lán sem höfðu verið tekin vegna kaupa á þeim auk annarra lána.

             Ákærði hafi samkvæmt þessu talið skynsamlegt að selja kvaðalausu hlutina jafnóðum. Hann hafi hins vegar ekki viljað selja þá alla á einum degi. Sölu á einum degi fylgi sú áhætta að hlutirnir seljist gegn óvenjulega lágu eða háu verði. Í stað þess að reyna að ramba á hagstæðasta daginn hafi ákærði því viljað selja hluti sína á ákveðnu tímabili. Með því hafi hann getað verið öruggur um að fá meðalverð sem endurspeglaði verð á lengra tímabili. Þetta hafi hann gert þar sem hann taldi sig ekki hafa forsendur í ljósi vitneskju sinnar eða reynslu til að tímasetja viðskiptin með betri hætti. Þessi aðferð hafi því minnkað líkur á að hann yrði ósáttur við söluverðið eftir á að hyggja. Þessi sjónarmið hafi ráðið ákvörðun hans í öllum þeim tilvikum sem hann er nú ákærður fyrir. Meintar efasemdir eða áhyggjur af stöðu Glitnis hafi þar engu máli skipt. Þvert á móti hafi ákærði talið stöðu bankans vera betri en viðhorf á markaði gáfu til kynna. Þannig hafi hann haft fulla trú á því að bankinn myndi komast í gegnum þann vanda sem hann glímdi við þótt viðhorf á markaði hafi e.t.v. gefið annað til kynna. Frásögn ákærða um þetta sé trúverðug og samrýmist fyrri viðskiptum hans og gögnum málsins. Tilgáta ákæruvaldsins um atvik málsins stangist hins vegar á við þessa trúverðugu frásögn ákærða. Tilgáta ákæruvaldsins sé í aðalatriðum sú að ákærði hafi búið yfir upplýsingum um „alvarlega“, slæma“ og „versnandi“ lausafjárstöðu Glitnis og að í stefndi að hlutabréf bankans „yrðu svo gott sem verðlaus“. Af þeim sökum hafi hann selt hluti sína í bankanum. Vandi þessarar tilgátu sé sá að ekkert í yfirvegaðri hegðun ákærða bendi til að hann hafi litið svo á. Væri tilgáta ákæruvaldsins rétt væri nær að ætla að ákærði hefði hlaupið til, selt alla hluti sína í einu lagi og innleyst þann hagnað sem honum stóð til ráðstöfunar samkvæmt kauprétti hans. Engu slíku hafi verið til að dreifa og sýni það glögglega veikleika tilgátu ákæruvaldsins.

             Ákærði telur það veikja mjög tilgátu ákæruvaldsins að viðurkennt sé að sala ákærða hinn 14. maí 2008 hafi verið talin honum heimil. Þá auki það enn á vanda tilgátunnar að einkahlutafélag ákærða hafi keypt hinn 19. maí 2008 10.000.000 hluti í Glitni. Vandséð sé af hverju ákærði hefði átt að taka þátt í slíkum viðskiptum hafi hann séð fyrir að hlutabréf bankans yrðu svo gott sem verðlaus. Í því samhengi tekur ákærði fram að þótt hann hafi aðeins lagt fram 500.000 krónur í hlutafé vegna viðskiptanna virðist fjarstæðukennt að hann hefði tekið þátt í þeim ef hann hefði ekki séð raunverulega hagnaðarvon í því. Tilgáta ákæruvaldsins skýri þannig með engum rökréttum hætti athafnir ákærða á því tímabili sem er til skoðunar. Af þeim sökum verði að gæta varúðar venju fremur þegar mat er lagt á þær sakargiftir sem eru bornar á ákærða.

             Annar vandi tilgátu ákæruvaldsins sé sá að hún byggist á þeirri forsendu að engar upplýsingar hafi verið á markaði um að Glitnir hafi átt við vanda að stríða. Þessi forsenda sé í beinni andstöðu við þau viðhorf sem birtust á markaði og unnt sé að mæla með álagi á skuldatryggingar bankans. Samkvæmt því hafi markaðurinn talið að líkur á greiðslufalli Glitnis hefðu verið 33,00% til 80,30% á þeim dögum sem um ræddi.

             Þessar verulegu líkur á greiðslufalli hafi reyndar ekki leitt til þess að hlutabréf bankans yrðu svo gott sem verðlaus. Reyndar kunni verðlagning hlutabréfa bankans á þessum tíma að virðast órökrétt nú í ljósi þess sem síðar gerðist. Ákærði hafi hins vegar ekki séð það fyrir og á því geti hann enga ábyrgð borið.

             Þá gangi ákæruvaldið svo langt í tilgátu sinni að halda því fram að jafnvel hafi upplýsingar Glitnis um lausafjárstöðu sína verið „mjög jákvæðar“ án þess að efni hafi staðið til. Þessu mótmælir ákærði og telur þessa tilgátu ákæruvaldsins fráleitt geta skipt máli hér. Fyrir því séu einkum fjórar ástæður: Í fyrsta lagi hafi Glitnir birt í reikningum sínum, sem voru ýmist endurskoðaðir eða kannaðir athugasemdalaust af löggiltum endurskoðendum, upplýsingar um lausafé sitt og endurgreiðslubyrði. Ekkert bendi til að þær upplýsingar hafi verið rangar. Í öðru lagi geti þetta mál, eins og málatilbúnaði ákæruvaldsins er háttað, ekki verið réttur vettvangur til að fjalla um sannleiksgildi upplýsinganna. Þannig væri ótækt með öllu að leysa úr slíku án þess að þeir sem útbjuggu upplýsingarnar standi til varnar í máli um réttmæti þeirra. Í þriðja lagi hafi ákærði engar forsendur haft til að efast um gildi þessara upplýsinga. Upplýsingar hans hafi ekki gefið honum tilefni til þess. Hann hafi starfað á takmörkuðu sviði og hann hafi enga möguleika haft til að framkvæma rannsóknir á sannleiksgildi þeirra. Slíkar rannsóknir hefðu óhjákvæmilega verið umfangsmiklar og nauðsynlegar upplýsingar með engum hætti verið aðgengilegar fyrir ákærða. Í fjórða lagi hafi upplýsingarnar verið metnar af markaðnum á hverjum tíma og viðhorf markaðarins til þeirra hafi ekki verið „mjög jákvætt“, þvert á móti hafi það verið neikvætt, reyndar að ósekju að mati ákærða, en það sé önnur saga. Samkvæmt þessu  megi sjá að ákæruvaldið byggi mál sitt á yfirborðskenndri og einfaldri tilgátu sem samrýmist ekki gögnum málsins.

             Ákærði átelur rannsókn málsins og segir að hún hafi dregist úr hófi, hún hafi verið byggð á gefnum forsendum og brotið í bága við sjónarmið um jafnræði og meðalhóf. Ákærði kveðst ekki gera frávísunarkröfu vegna þessa en telur mikilvægt að upplýsa dóminn um þetta.

             Samkvæmt 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti sæti brot gegn lögunum „aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins“. Með þessu sé Fjármálaeftirlitinu fengið vald til að ákveða hvort mál sé rekið sem stjórnsýslumál sem geti lokið með álagningu stjórnvaldssektar samkvæmt 141. gr. laganna eða hvort það verði rannsakað sem sakamál. Mikilvægt sé að ákvörðun af þessum toga sé tekin eins fljótt og kostur er. Stjórnvöldum beri skylda til að tryggja að svo sé og megi um það vísa til 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og meginreglu stjórnsýsluréttarins um málshraða í 9. gr. stjórnsýslulaga.

             Verulegur misbrestur hafi verið á rannsókn málsins að þessu leyti. Í kæru Fjármálaeftirlitsins komi ekki fram einu orði hvenær Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn sína. Enn síður komi fram í kærunni hvenær eftirlitið hafi fengið vitneskju um hinar mögulegu sakargiftir. Vegna kerfisbundins eftirlits með viðskiptum starfsmanna Glitnis hljóti slík vitneskja að hafa borist eftirlitinu fyrir löngu.

             Þó megi fullyrða að Fjármálaeftirlitið hafi hafið rannsókn málsins eigi síðar en 13. apríl 2010. Í raun megi ætla að það hafi verið löngu fyrr, en í öllu falli verði fullyrt að eigi síðar hafi eftirlitið búið yfir vitneskju um hin meintu brot. Fjármálaeftirlitið hafi hins vegar ekki sent kæru til lögreglu vegna málsins fyrr en 18. janúar 2011. Þá hafi verið liðnir meira en tíu mánuðir frá því eftirlitið hafði í síðasta lagi fengið vitneskju um hin meintu brot. Sérstakur saksóknari hafi hins vegar talið kæruna frá 18. janúar 2011 vera ófullnægjandi grundvöll rannsóknar málsins. Af þeirri ástæðu hafi sérstakur saksóknari endursent kæruna til Fjármálaeftirlitsins með bréfi 2. maí 2011. Af þessu tilefni hafi Fjármálaeftirlitið gert breytingar á kærunni og endursent hana 5. maí 2011. Þá hafi verið liðið meira en ár frá því að vitneskja um hin meintu brot lá fyrir hjá Fjármálaeftirlitinu.

             Þessir annmarkar á kærunni hafi þó ekki komið í veg fyrir að lögregla hæfi rannsókn málsins og það þótt brot á lögum um verðbréfaviðskipti sæti ekki rannsókn lögreglu nema samkvæmt kæru Fjármálaeftirlitsins. Þannig hafi lögregla hafist handa við skýrslutökur af sex fyrrverandi starfsmönnum Glitnis dagana 31. mars 2011 til 7. apríl 2011. Með hliðsjón af því að engin kæra lá fyrir lögreglu verði þessar skýrslur varla taldar annað en markleysa, enda skorti lögmætan grundvöll fyrir þessum rannsóknarathöfnum lögreglu á þessum tíma, sbr. 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti.

             Eftir að Fjármálaeftirlitið hafi tekið til skoðunar hina endursendu kæru og sent nýja hafi lögregla tekið skýrslu af ákærða þann 30. maí 2011. Eftir það virðist lítið markvert hafa gerst við rannsókn málsins fyrr en þremur mánuðum síðar að skýrsla hafi verið tekin af fyrrverandi regluverði Glitnis 19. ágúst 2011. Tveimur mánuðum síðar, eða dagana 27. október og 3. nóvember 2011, hafi svo aftur verið teknar skýrslur af tveimur fyrrverandi starfsmönnum Glitnis sem áður gáfu skýrslu. Um svipað leyti, eða 1. nóvember 2011, hafi aftur verið tekin skýrsla af ákærða. Eftir þetta virðist ekkert hafa gerst í málinu fyrr en hálfu ári síðar að tekið hafi verið símaviðtal við einn fyrrverandi starfsmann Glitnis, þann 17. apríl 2012, sem ekki hefði verið rætt við áður.

             Í kjölfarið, eða 11. maí 2012, hafi sérstakur saksóknari gefið út ákæru í málinu. Þá hafi verið liðin meira en tvö ár frá því að Fjármálaeftirlitið tók málið til skoðunar. Með hliðsjón af þessu verði að telja að rannsókn málsins, jafn rýr og hún sé, hafi öll dregist úr hömlu.

             Enn fremur vísar ákærði til þess að samkvæmt 3. mgr. 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti gildi ákvæði IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að kæra mál til lögreglu. Í þessari afstöðu löggjafans hljóti að felast að önnur ákvæði laganna gildi um ákvörðunina. Af því leiði að ákvörðunin teljist stjórnvaldsákvörðun samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna og um hana gildi m.a. reglur III. kafla laganna og almennar reglur stjórnsýsluréttarins.

             Samkvæmt þessu hafi Fjármálaeftirlitinu borið, áður en það sendi kæruna, að sjá til þess að málið væri „nægjanlega upplýst“ í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga. Verulegur brestur hafi verið á að þetta hafi verið gert. Það sé sérstaklega alvarlegt að eftirlitið hafi aldrei leitað eftir skýringum frá ákærða. Þannig hafi aldrei verið óskað eftir því að ákærði upplýsti um ástæður viðskiptanna. Þá hafi auk þess aldrei verið óskað eftir viðhorfi ákærða til þess hvort upplýsingarnar sem eftirlitið byggði málið á teldust innherjaupplýsingar. Ákærði hafi aldrei legið á skýringum um þetta. Þessi meðferð standist ekki almennar reglur stjórnsýsluréttarins og leiði til þess að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að kæra málið til lögreglu hafi verið ólögmæt. Rannsókn lögreglu byggist því á ólögmætum grundvelli.

             Ákærði telur að þessi verulegi annmarki á rannsókn Fjármálaeftirlitsins hafi síðar litað meðferð alls málsins gegn honum hjá lögreglu. Í kærunni hafi verið dregin upp röng mynd af atvikum. Þá hafi Fjármálaeftirlitið kynnt lögreglu skoðun sína, í formi órökstudds mats, að um innherjaupplýsingar hafi verið að ræða. Lögregla hafi svo ekki framkvæmt neina raunverulega sjálfstæða rannsókn á þessu. Það sjáist m.a. af því að sérstakur saksóknari hafi undir rannsókn málsins óskað eftir áliti Fjármálaeftirlitsins á því hvort tilteknar upplýsingar væru innherjaupplýsingar.

             Hér verði einnig að hafa í huga að svo virðist sem lögregla hafi með engu móti kynnt sér viðskipti með skuldatryggingar bankans við rannsókn málsins. Þetta hafi lögregla ekki gert þótt ákærði hefði bent sérstaklega á álög í slíkum viðskiptum þegar hann var spurður út í málið. Þessi skortur á rannsókn atriða sem leitt geti til sýknu feli í sér brot á ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála um að rannsakandi skuli gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.

             Um meint brot gegn jafnræði og meðalhófi segir ákærði að fyrir liggi að Fjármálaeftirlitið hafi um langt árabil leyst úr yfirgnæfandi meirihluta mála sem upp komi vegna brota á lögum og reglum um innherjaviðskipti með álagningu stjórnvaldssekta. Viðskipti sem slík mál hafa snúist um hafi oft og tíðum varðað milljarða króna. Þá hafi brotin sem hafa verið meðhöndluð með þessum hætti oft og tíðum verið augljós.

             Samkvæmt 141. gr. laga um verðbréfaviðskipti sé heimilt að ljúka málum vegna brota á 123. gr. laganna um innherjasvik með álagningu stjórnvaldssektar. Miðað við beitingu þessarar heimildar í fyrri málum telur ákærði að Fjármálaeftirlitinu hafi verið skylt að leiða málið til lykta sem stjórnsýslumál hjá eftirlitinu. Í því samhengi skuli reyndar tekið fram að ákærði hefði þar, sem hér, neitað öllum sökum og varið sig til hins ítrasta. Hann telur hins vegar að hann sé hér með rekstri sakamáls gegn honum látinn sæta til muna meir íþyngjandi málsmeðferð en efni stóðu nokkru sinni til.

             Þessu næst rekur ákærði í greinargerð sinni hvaða lög eigi við í máli þessu og álitamál um þau, sem leiða eigi til sýknu ákærða. Ákærði kveður að íslensk lög um innherjaviðskipti séu byggð á EES-reglum um sama efni og því verði að líta sérstaklega til efnis þeirra reglna við túlkun íslensku laganna. Sjónarmið ákærða um þetta eru rakin í úrskurði dómsins frá 2. nóvember 2012, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 669/2012, og verða því ekki endurtekin hér.

             Ákærði mótmælir því að hann hafi verið tímabundinn innherji. Hann rekur í greinargerð sinni starfsreglur og viðmið Glitnis sem stjórn bankans hafi sett hinn 3. ágúst 2007, í samræmi við 6. gr. reglugerðar nr. 987/2006 um hverja skyldi setja á fruminnherjalista bankans. Aldrei hafi verið talið að ákærði félli undir þessi viðmið og ágreiningslaust sé í málinu að hann taldist ekki fruminnherji. Jafnframt rekur ákærði í greinargerð sinni reglur Glitnis um eigin viðskipti, aðskilnað starfssviða og viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga og gjaldeyri, frá 4. september 2007, einkum 8. kafla þar sem hafi verið að finna sérstakar reglur um verðbréfaviðskipti starfsmanna og 10. kafla um regluvörð og hlutverk hans. Þá hafi Glitnir í starfsemi sinni gert sérstakar ráðstafanir til að tryggja öryggi í meðferð trúnaðarupplýsinga. Í því skyni hafi bankinn sett sérstakar reglur um aðskilnað starfssviða með svonefndum „kínamúrum“ auk þess sem sérstakt eftirlit hafi verið haft með eftirfylgni með þessum reglum, sbr. reglur Glitnis um eigin viðskipti, aðskilnað starfssviða og viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga og gjaldeyri frá 4. september 2007.

             Starfsemi millibankamarkaða og alþjóðlegrar fjármögnunar hafi öll farið fram á 3. hæð í höfuðstöðvum bankans á Kirkjusandi en önnur starfsemi fjármálasviðs hafi farið fram annars staðar í húsinu. Ákærði hafi engan aðgang haft að gögnum annarra deilda eða sviða, hvort heldur í gegnum tölvur eða með öðrum hætti. Af þessum sökum hafi öllum trúnaðar- og innherjaupplýsingum sem lágu utan deildar millibankamarkaða með kerfisbundnum og skipulögðum hætti verið haldið frá ákærða. Þær ráðstafanir sem bankinn hafi gert til að halda upplýsingum frá ákærða hafi ekki aðeins verið fólgnar í efnislegum ráðstöfunum, s.s. aðgangsheimildum ákærða í tölvukerfi bankans eða staðsetningu hans í húsnæði bankans, heldur einnig verið huglægar ráðstafanir sem hafi miðað að því að starfsmenn bankans væru á varðbergi yfir því að öryggis væri gætt um meðferð trúnaðarupplýsinga. Í því samhengi hafi verið í gildi hjá bankanum sérstakar öryggisreglur sem giltu um starfsmenn til að tryggja að meðferð innherjaupplýsinga væri sérstaklega örugg, leitað væri samþykkis yfirmanna við afhendingu þeirra yfir kínaveggi eða þegar starfsmenn störfuðu yfir kínaveggi.

             Ákærði telur mikilvægt að hafa í huga að málið gegn honum byggist á þeirri forsendu að hann hafi fengið aðgang að innherjaupplýsingum án þess að yfirmaður hans, samstarfsmenn eða regluvörður hafi talið ástæðu til að gera ráðstafanir í tilefni af því. Málið byggist því á þeirri forsendu að fjöldinn allur af starfsfólki bankans, sem ákærði hafi aldrei þekkt af öðru en heiðarleika og samviskusemi í störfum, hafi brotið gegn þeim öryggisreglum sem í gildi voru innan bankans um meðferð innherja­upplýsinga. Ákærði telur þetta fjarri öllu lagi.

             Ákærði telur sýnt að enginn hafi talið þær upplýsingar sem hann bjó yfir innherjaupplýsingar. Hefði svo verið telur ákærði óskiljanlegt að yfirmaður hans og regluvörður bankans hafi ekki gert ráðstafanir til að hann yrði skráður tímabundinn í bankanum. Hefði svo verið telur ákærði einnig óskiljanlegt að regluvörður bankans hafi veitt beina heimild fyrir viðskiptunum.

             Í þessu samhengi vill ákærði vekja athygli á því að hann bjó yfir tilteknum upplýsingum um skammtímastöðu Glitnis. Þessar upplýsingar hafi verið birtar í reikningum Glitnis með reglulegum hætti. Þeir liðir sem ákærði hafði bærilega sýn á hafi verið örfáir og allir hafi þeir birst í skýringum með reikningum bankans um lausafjáráhættu. Ákærði hafi hins vegar fjarri því haft upplýsingar um alla liði í þeirri skýringu. Enn síður hafi hann haft upplýsingar um efnahagsreikning bankans eða rekstur í heild sinni. Hann hafi því enga mynd haft af heildarstöðu bankans á hverjum tíma. Hann hafi ekki einu sinni haft mynd af heildarstöðu bankans í stýringu lausafjáráhættu hans.

              Í greinargerð ákærða segir þessu næst að hann telji engar innherjaupplýsingar hafa verið til staðar. Ákærði mótmælir því alfarið að gögn sem vitnað er til í ákærunni hafi falið í sér innherjaupplýsingar. Hann telur sig aldrei hafa búið yfir neinum upplýsingum sem geti fallið undir slíkt.

             Við mat á því hvort ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann átti viðskiptin 12. mars 2008, sbr. I. ákærulið, sé mikilvægt að líta fyrst til þess hvaða upplýsingar um lausafé Glitnis hafi verið opinberar á þeim degi. Opinberar upplýsingar geti undir engum kringumstæðum talist innherjaupplýsingar.

             Glitnir hafi birt ársreikning sinn fyrir árið 2007 þann 31. janúar 2008. Samkvæmt ársreikningnum hafi Glitnir átt í lok árs 2007 tafarlausan aðgang að lausu fé að fjárhæð 588 milljarðar króna. Þessi staða hafi batnað talsvert á árinu 2007. Þó verði að hafa í huga að hér hafi ekki í öllum tilvikum verið um að ræða beint lausafé. Þarna hafi einnig verið taldar með ónýttar eignir hæfar til endurhverfra viðskipta, lögbundinn varasjóður lausafjár og ódregnar fjármögnunarlínur. En það verði einnig að horfa á endurgreiðslubyrði bankans eins og hún birtist í reikningnum. Í reikningnum komi fram að endurgreiðslubyrði af skuldum bankans hafi verið þung á árinu 2008. Í skýrslunni hafi verið að finna greiningu á endurgreiðslum Glitnis á árinu. Sú skýring hafi sýnt hvernig endurgreiðslugat bankans til sex mánaða hefði aukist frá árslokum 2006 til ársloka 2007. Samkvæmt henni hafi bankinn fjarri því verið í aðstöðu til að endurgreiða alla fjármögnun á gjalddaga á fyrri helmingi ársins 2008. Gatið hefði rúmlega tvöfaldast að þessu leyti frá árinu 2006. Af þessu hafi leitt að ljóst hafi verið að mikil vinna hafi verið framundan hjá Glitni að velta áfram skammtíma­fjármögnun sinni og afla sér lausafjár. Slíkt þurfi reyndar ekki að teljast óeðlilegt. Getan til þess að velta fjármögnuninni ráðist hins vegar af markaðsaðstæðum hverju sinni.

             Fjárfestar hafi myndað sér skoðun á þeim upplýsingum sem lágu fyrir opinberar um lausafjárstöðu Glitnis og getu bankans til að velta á undan sér skammtímafjármögnun sinni. Unnt sé að lesa nákvæmt mat fjárfesta á getu Glitnis til þessa út frá skuldatryggingum bankans. Áhætta tengd lausafjárstöðu lýsi sér nefnilega einkum í greiðslufalli. Verð skuldatrygginga tengist með beinum hætti líkunum á greiðslufalli og endurspegli það því vel lausafjáráhættu. Þannig sé unnt að lesa viðhorf markaðarins til lausafjárstöðu Glitnis út frá verði skuldatrygginga bankans. Verð í viðskiptum með hlutafé komi hér síður að gagni.

             Hér verði því að horfa til skuldatryggingarálags Glitnis við mat á væntingum fjárfesta á markaði til gjaldfallsáhættu. Ákærði vísar í þessu sambandi til greinargerðar dr. Hersis Sigurgeirssonar, dags. 16. september 2012, en ákærði bað hann að reikna út væntingar fjárfesta til gjaldfallsáhættu. Samkvæmt útreikningi hans hafi líkur á greiðslufalli Glitnis þann 12. mars 2008 verið taldar á markaði 44,90% til 59,10%, eftir því hvaða forsendur sé miðað við um endurheimtu krafna á Glitni við gjaldþrot. Samkvæmt þessu megi sjá að staða Glitnis hafi verið talin tvísýn. Þessar líkur séu háar, ekki síst þar sem Glitnir hafi til skamms tíma verið háður aðgengi að lánsfjármagni á tiltölulega hagstæðum kjörum. Þessar líkur feli því í sér væntingar um að Glitnir muni eiga í erfiðleikum með laust fé.

             Af þessu leiði að upplýsingar um góðan árangur í fjármögnun bankans eða vandræðalausa fjárstýringu hans hefðu fremur komið markaðnum á óvart. Upplýsingar um erfiðleika á þessum sviðum hefðu hins vegar verið viðbúnar.

             Þegar mat sé lagt á hvort upplýsingar teljist innherjaupplýsingar sé mikilvægt að meta hvort þær séu þess eðlis að þær geti haft marktæk áhrif á markaðsverð. Við mat á því verði að horfa til þess hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að „upplýstur fjárfestir“ myndi nota þær „sem hluta af þeim grunni“ sem hann byggir ákvarðanir sínar á. Frumforsenda þess að upplýstur fjárfestir geti tekið ákvörðun um viðskipti sé sú að upplýsingar sem hann fær séu nægjanlegar til að breyta verði verðbréfa umfram það sem gengur og gerist á markaði. Í því samhengi verði að hafa í huga að verð á markaði sé ekki stöðugt og það hreyfist á hverjum degi án þess að nokkrar nýjar upplýsingar komi til. Til að fjárfestir taki fjárfestingarákvörðun þurfi hann því að telja að hinar nýju upplýsingar séu þess eðlis að þær muni breyta verði verðbréfa umfram það sem við mætti búast hvort sem væri dag frá degi.

             Af þessum sökum skipti máli að horfa til þess við hvaða hreyfingum í verði hafi mátt búast dag frá degi. Séu upplýsingar ekki líklegar til að hreyfa verð um meira en nemur daglegum sveiflum bréfanna verði tæpast talið að fjárfestir myndi byggja fjárfestingarákvörðun á slíkum upplýsingum. Í tilviki hluta í Glitni banka hafi átt sér stað miklar sveiflur í verði þeirra á markaði á degi hverjum. Á tímabilinu 11. janúar 2008 til 12. mars 2008 hafi verið mikill munur á hæsta og lægsta verði innan dags. Hreyfingar hafi jafnvel verið svo miklar að verð hafi getað hreyfst um meira en 6% innan dagsins. Af þessu megi sjá að upplýsingar hafi þurft að vera sérstaklega þýðingar­miklar svo unnt væri að byggja ákvörðun um fjárfestingu á þeim. Ef upplýsingarnar hefðu ekki haft sérstaklega mikla þýðingu hefðu áhrif þeirra á verð ekki verið marktæk í annars miklum dagsveiflum í verði á hlutum Glitnis.

             Í I. ákærulið sé því haldið fram að ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann átti viðskiptin 12. mars 2008, sem eru taldar upp í þremur töluliðum. Ákærði mótmælir því að þarna hafi verið um innherjaupplýsingar að ræða. Helst sé að nefna að þau gögn sem vitnað er til í ákæru feli í sér að miklu leyti almennar upplýsingar. Talað sé um „versnandi stöðu“, „erfiðleika“, „óvissu“, o.s.frv. Slíkar almennar upplýsingar geti ekki talist nægjanlega nákvæmar. Þá hafi þær ekki sýnt neina heildarmynd af lausafjár- og fjármögnunarstöðu bankans. Einnig beri að hafa í huga að þessar upplýsingar hafi legið fyrir á markaði. Ekki hafi aðeins legið fyrir að bankinn væri í krappri stöðu um fjármögnun, heldur hafi markaðsaðilar beinlínis gert ráð fyrir að 44,90% til 59,10% líkur væru á greiðslufalli bankans. Í því hafi falist að á markaði hafi verið augljós vitneskja um að innstæður bankans myndu síður framlengjast á gjalddaga og að bankinn myndi í auknum mæli þurfa að leita eftir fjármögnun í gegnum endurhverf viðskipti, með sölu eigna, o.s.frv.

             Af þeim sökum sé ómögulegt að líta á þau gögn sem vitnað er til í ákæru sem einhvers konar vísbendingar um að ástand Glitnis hafi verið annað en unnt hafi verið að lesa úr ársreikningi bankans. Þvert á móti séu gögnin sem vitnað er til í ákæru ekki annað en birtingarmynd þess ástands sem markaðurinn hafi talið ríkja í lausafjárstýringu Glitnis og fjármögnun bankans almennt.

             Þá fari því fjarri að einhver vísbending sé fyrir því að upplýsingarnar hefðu haft marktæk áhrif á verð. Þvert á móti verði að horfa til þess að á þeim tíma sem um ræddi hafi átt sér stað miklar dagsveiflur í verði hluta Glitnis. Af þeim sökum megi telja að upplýsingar sem þessar hefðu ekki haft nein marktæk áhrif á þær sveiflur. Upplýstur fjárfestir hefði því ekki notað þessar upplýsingar og tekið fjárfestingar­ákvörðun byggða á þeim. Samkvæmt þessu sé óhjákvæmilegt að sýkna ákærða af þeim sökum sem á hann eru bornar í I. ákærulið.

             Um II. ákærulið, viðskipti 3. og 9. apríl 2008, segir ákærði í greinargerð sinni að  nákvæmar upplýsingar um vanda lausafjárstýringar Glitnis hafi sem fyrr segir verið opinberar á þessum tíma. Því til viðbótar hafi Glitnir tilkynnt 1. apríl 2008 að Fitch hefði tekið lánshæfismat bankans, Landsbankans og Kaupþings „til skoðunar með möguleika á lækkun“. Sú ákvörðun hafi samkvæmt tilkynningu Fitch verið byggð á auknum takmörkuðum aðgangi að fjármögnun og möguleikum á auknum þrýstingi á lausafé í ljósi yfirstandandi neikvæðs viðhorfs á markaði. Þessar upplýsingar hafi hlotið að vera neikvæðar fyrir framtíðarhorfur Glitnis. Lækkun á lánshæfismati Glitnis hafi ekki getað leitt til annars en minnkaðs aðgangs bankans að fjármagni og samfara því aukinna vandkvæða í lausafjárstýringu bankans. Þrátt fyrir þetta hafi þessi tilkynning ekki leitt til neinna marktækra breytinga í verði hlutafjár eða skuldatrygginga bankans. Verð í viðskiptum með hluti bankans hafi þannig t.d. verið 17,20 krónur á hlut í lok dags. 1. apríl 2008 samanborið við 17,25 krónur á hlut í lok dags 31. mars 2008. Álag á skuldatryggingar bankans hafi þannig t.d. verið 1.024 punktar í lok dags 1. apríl 2008 samanborið við 1.043 punkta í lok dags 31. mars 2008. Þannig hafi verð milli daga hreyfst óverulega þrátt fyrir þessa tilkynningu. Þetta staðfesti að á markaði á þessum tíma hafi verið væntingar til þess að fjármögnun Glitnis og lausafjárstaða myndi halda áfram að versna. Atburðir sem staðfestu þá þróun hafi því haft takmörkuð áhrif á verð á þessum tíma.

             Aðrir og veigameiri þættir skipti hér meira máli. Þannig hafi verið orðið ljóst í mars 2008 að stór fjármálafyrirtæki um allan heim hafi staðið tæpt. Verð með skuldatryggingar banka hafi þróast mjög með hliðsjón af þessu og iTraxx vísitalan hafi náð hámarki sínu 17. mars 2008 og þá staðið í 160 stigum. Hún hafi síðan lækkað hratt til 25. mars en þá hafi hún staðið í 90 stigum. Síðan hafi hún legið á bilinu 95 til 105 stig fram til 2. apríl en þá hafi hún tekið að lækka skarpt niður í 73 stig. Hún hafi svo skotist yfir 100 stig 10. apríl en lækkað svo hratt í kjölfarið og náð jafnvægi í kringum 60 stig seinni part apríl.

             Væntingar til greiðslufærni Glitnis, eins og þær hafi mælst í viðskiptum með skuldatryggingar bankans, hafi þróast með svipuðum hætti og iTraxx vísitalan. Þó hafi gætt ákveðinna tafa þar til óróinn hafi farið að setjast almennt samkvæmt iTraxx vísitölunni og þar til hann hafi farið að setjast í viðskiptum með skuldatryggingar Glitnis. Af þróun álags í skuldatryggingum Glitnis á tímabilinu 1. jan. 2008 til 30. apríl 2008 megi sjá að væntingar til greiðslufalls Glitnis hafi aukist jafnt og þétt frá upphafi árs 2008 og álag á skuldatryggingar bankans náð hámarki 31. mars 2008 þegar það hafi staðið í 1.043 punktum. Skuldatryggingarálagið hafi síðan lækkað jafnt og þétt í kjölfarið og staðið í 898 punktum 3. apríl 2008 og í 809 punktum þann 9. apríl 2008. Álagið hafi svo haldið áfram að lækka og í lok apríl hafi það staðið í 422 punktum.

             Samkvæmt framansögðu, um þróun á markaði, megi sjá að viðskiptin sem ákærði átti 3. apríl og 9. apríl 2008 hafi farið fram eftir að sérstaklega mikils óróa hafi gætt á fjármagnsmarkaði um og upp úr miðjum mars. Viðskiptin hafi hins vegar ekki farið fram fyrr en eftir að það hafi dregið úr óróanum. Í þessu ljósi megi sjá að tímasetningin hafi verið sérstaklega óhentug frá þeim sjónarhóli að viðhorf á markaði til Glitnis hafi verið að batna á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað.

             Á markaði hafi hins vegar horfur Glitnis dagana 3. og 9. apríl engu síður verið enn taldar tvísýnar. Þannig sýni útreikningar dr. Hersis Sigurgeirssonar að líkur á greiðslufalli Glitnis á markaði 3. apríl hafi verið taldar 52,60% til 67,30% og 9. apríl hafi þær verið taldar 49,50% til 64,20%. Í þessu hafi falist að á markaði hafi verið miðað við að mikill þrýstingur væri á lausafjárstöðu Glitnis, þótt hann færi þó þarna eitthvað minnkandi. Þá verði að hafa í huga að á þessum tíma hafi gætt mikils óróa í verði hluta Glitnis á markaði. Af hreyfingum á tímabilinu 8. febrúar til 9. apríl 2008 megi sjá að munur á hæsta og lægsta verði innan dags gat verið afar breytilegur á þeim tíma sem um ræðir. Hreyfingar hafi jafnvel verið svo miklar að verð hafi getað hreyfst um næstum 6% innan dagsins og munur á hæsta og lægsta verði hafi getað verið mikill marga daga í röð. Sem fyrr sýni þetta hversu erfitt hefði verið að sjá fyrir hvort upplýsingar væru þess eðlis að hafa marktæk áhrif á þessar annars miklu sveiflur.

             Þær upplýsingar sem vitnað sé til í ákæru í liðum 1) til 6) séu upplýsingar um stöðu Glitnis þegar óróinn hafi verið að færast í aukana á tímabilinu 12. mars til 31. mars 2008 en þá hafi óróinn náð hámarki sínu. Þetta megi sjá t.d. af forspá í tölvupósti 14. mars 2008 (sem hafi aldrei verið sendur ákærða) um að hlutabréf bankans yrðu „svo gott sem verðlaus um páskana“. Páskadagur hafi verið 23. mars og þessi forspá hafi ekki ræst. Hún sýni hins vegar hversu væntingar á markaði hafi verið neikvæðar á tímabilinu og hversu óróinn hafi verið mikill.

             Viðskipti ákærða hafi hins vegar ekki átt sér stað fyrr en óróinn hafi verið farinn að minnka. Af hálfu ákærða sé því þannig mótmælt að upplýsingarnar hefðu getað skipt einhverju sérstöku máli þegar viðskiptin áttu sér stað. Þær hafi einfaldlega varðað ástand sem hafi verið gengið yfir. Því sé í sjálfu sér lýst ágætlega í tölvupósti ákærða til regluvarðar þar sem hann vísi til „hækkandi sólar“ þegar hann óski eftir heimild til viðskipta þann 2. apríl 2008. Eins verði að hafa í huga að allar upplýsingarnar, sem ákæran byggist á, verði taldar birtingarmynd ástands á fjármagnsmarkaði. Erfiðleikar við að velta innstæðum og framlengja lán  geti ekki hafa komið á óvart. Upplýsingar um versnandi lausafjárstöðu geti ekki hafa komið á óvart. Þá hafi þær fjarri því sýnt heildarmynd af lausafjár- og fjármögnunarstöðu Glitnis. Upplýsingarnar geti því ekki hafa talist innherjaupplýsingar. Í öllu falli geti þær ekki hafa talist nægjanlega nákvæmar og hvað þá að þær hefðu haft marktæk áhrif.

             Um stöðu Glitnis 31. mars 2008 og mat fjárfesta á henni vísar ákærði til þess að Glitnir gerði ársfjórðungsuppgjör fyrir fyrsta fjórðung 2008. Þar birtist efnahagur bankans eins og hann hafi verið 31. mars 2008. Uppgjörið hafi verið birt í kauphöll að morgni 7. maí 2008. Þar hafi verið að finna ítarlega skýringu nr. 36 um lausafjáráhættu bankans eins og henni hafi verið háttað 31. mars 2008. Ákærði hafi reyndar enga heildarsýn haft á þetta þegar hann átti viðskiptin 3. og 4. apríl. Engu að síður afhjúpi uppgjörið veilur í málatilbúnaði ákæruvaldsins. Í uppgjörinu komi fram sundurliðun á lausafjárstöðu bankans og hvernig hún hefði breyst frá 31. desember 2007, en lausafjárstaðan hefði í raun batnað nokkuð á fyrsta ársfjórðungi 2008. Reyndar hefði aukningin verið mest í þeim liðum sem hefðu verið háðir ákveðinni óvissu. En engu að síður hefði átt sér stað talsverð aukning á kjarnaliðnum reiðufé og ígildi þess. Sé horft á gat í fjármögnun Glitnis næstu sex mánuði, samanborið við stöðuna í árslok 2007, megi sjá að staðan hefði versnað nokkuð, en þó ekki með afgerandi hætti. Þá hefði dreifing vandans breyst aðeins. Vandinn til eins mánaðar hefði minnkað umtalsvert, en vandinn frá einum mánuði til sex mánaða hefði aukist nokkuð og vegið batann til mánaðar upp og rúmlega það.

             Af þessu megi sjá að endurgreiðslugat Glitnis 31. mars 2008 hafi ekki verið mikið síðra en síðustu opinberu upplýsingar gáfu til kynna. Þá megi einnig ætla að vegna hagstæðrar þróunar álags með skuldatryggingar frá byrjun apríl til birtingar uppgjörsins, hafi markaðurinn talið í byrjun apríl að staðan hafi verið verri en hún hafi verið í raun og veru. Þetta megi m.a. ráða af því að þegar uppgjörið fyrir 31. mars 2008 hafi verið gert opinbert að morgni 7. maí 2008 hafi það engin áhrif haft til hins verra fyrir fjármálagerninga Glitnis. Þannig hafi álag skuldatrygginga staðið í 400 punktum í dagslok 7. maí 2008, borið saman við 396 punkta þann 6. maí 2008. Sú hreyfing, sem svari til 1,10%, hafi reyndar verið óvenjulega lítil hreyfing í álagi skuldatrygginga bankans. Til samanburðar hafi staðalfrávik breytingar á álaginu næstu 10 viðskiptadaga á undan verið um 4,8% á dag. Þá hafi verð hluta bankans staðið í 16,95 krónum á hlut í dagslok 7. maí 2008 samanborið við 16,40 krónur á hlut þann 6. maí 2008. Sú hreyfing sem svari til um 3,4% hækkunar sé reyndar nokkuð markverð en þó í öfuga átt við það sem felist í málatilbúnaði ákæruvaldsins.

             Í þessu öllu felist því, ef eitthvað, að markaðurinn hafi í byrjun apríl talið lausafjárstöðu Glitnis 31. mars 2008 verri en hún reyndist síðar vera. Fráleitt sé við slíkar aðstæður að halda því fram að upplýsingar ákærða hafi falið í sér einhvers konar sérstaka vitneskju honum til handa um að skynsamlegt væri að selja hluti í Glitni. Við þennan augljósa annmarka bætist svo að ákærði hafi aldrei haft undir höndum allar þær upplýsingar sem fram komu í uppgjörinu. Komi því aldrei til álita annað en að sýkna ákærða af þeim sökum sem eru bornar á hann í þessum ákærulið.

             Hvað varðar III. ákærulið, um viðskipti 17. og 18. september 2008, segir í greinargerð ákærða að fyrir hafi legið sex mánaða uppgjör Glitnis sem birt hafi verið að morgni 1. ágúst 2008. Þar hafi í skýringu 33 verið að finna upplýsingar um lausafjárstöðu bankans. Séu þær upplýsingar bornar saman við þær upplýsingar sem hafi verið í uppgjörinu fyrir fyrsta ársfjórðung 2008 komi í ljós að lausafjárstaða Glitnis hafi versnað á öðrum ársfjórðungi. Þannig hefði reiðufé og ígildi þess lækkað um 113 milljarða króna á fjórðungnum. Þá hefðu ónýttar eignir hæfar til endurhverfra viðskipta lækkað um 90 milljarða króna. Slík lækkun sýni að reglur um töku eigna í endurhverf viðskipti hefðu þrengst eða bankinn hefði nýtt áður ónýttar eignir í slíkum viðskiptum. Ætla megi að þetta hafi verið þróun til hins verra. Endurgreiðslugat bankans hefði breyst talsvert á þessum sama tíma.

             Við nánari skoðun megi svo sjá að innstæður frá viðskiptavinum hefðu lækkað úr 815 milljörðum króna þann 31. mars 2008 í 710 milljarða króna þann 30. júní 2008. Fjárfestar hefðu ekki brugðist við birtingu þessara talna með afgerandi hætti. Álög á skuldatryggingar Glitnis hefðu enn verið há á þessum tíma sem hefði endurspeglað áframhaldandi vantraust á bankanum. Birting þessara upplýsinga hafi breytt litlu þar um. Verð á skuldatryggingum hafi þó þróast með heldur jákvæðum hætti. Þannig hafi lækkað álag frá 1. ágúst til föstudagsins 12. september 2008. Viðhorf til greiðslufalls Glitnis hafi lagast markvert og verð skuldatrygginga náð á þessu tímabili lágmarki 15. ágúst 2008 í verðinu 752 punktar. Í kjölfarið hafi álagið smám saman farið hækkandi og staðið í 884 punktum 12. september 2008. Verð hlutabréfa hafi þróast með svipuðum hætti.

             Á tímabilinu 21. júlí til 19. september 2008 hafi væntingar til góðs gengis Glitnis aukist talsvert í upphafi tímabilsins sem leiddi til hækkunar verðs. Verðið hefði síðan náð hámarki á tímabilinu í 15,75 krónum á hlut þann 18. ágúst 2008. Í kjölfarið hafi verðið síðan farið að leita niður á við og það staðið í 13,87 krónum í dagslok 12. september 2008.

             Samantekið megi því segja að álag á skuldatryggingar Glitnis hafi endurspeglað væntingar fjárfesta til þess að lausafjár- og fjármögnunarstaða bankans myndi halda áfram að versna, hvað sem leið mögulegri jákvæðri þróun endurgreiðslugats bankans. Viðhorfið hafi þó ekki verið jafn neikvætt og það hefði verið í upphafi ágúst.

             Um helgina 13.-14. september 2008 hafi verið ljóst að bandaríska fjárfestingarbankanum Lehman Brothers yrði ekki forðað frá falli. Afleiðingar þessa hafi verið ófyrirsjáanlegar og komið í ljós á næstu mánuðum. Auðvelt sé að rekja þá sögu í dag, en útilokað hafi verið að gera það þá.

             Strax í kjölfarið hafi þó álög á skuldatryggingar Glitnis tekið kipp upp á við. Þetta megi sjá af hreyfingum tímabilið 1. til 18. september 2008. Álag á skuldatryggingar hafi farið úr 884 punktum 12. september upp í 1.304 punkta 17. september 2008. Í þessu hafi falist breyting í viðhorfi fjárfesta til greiðslufalls Glitnis til hins verra. Líkur á greiðslufalli Glitnis hafi reyndar verið taldar miklar fyrir en samkvæmt útreikningi dr. Hersis Sigurgeirssonar hafi líkur á greiðslufalli 17. september 2008 verið metnar sem 66,00% til 80,30% eftir því hvernig horft væri á. Sömu líkur hafi verið taldar 65,90% til 80,10% þann 18. september 2008.

             Viðbrögð á hlutabréfamarkaði hafi reyndar ekki verið jafn afgerandi. Tengist það án efa margvíslegum tæknilegum ástæðum sem áður hafa verið raktar í VIII. kafla. Verð hluta hafi þó lækkað eitthvað. Verð hluta Glitnis hafi lækkað aðeins lítillega 15. september 2008. Verðið hafi náð lágmarki á tímabilinu í 13,27 krónum á hlut í dagslok 17. september 2008. Þetta séu þó ekki miklar breytingar frá dagslokaverðinu 12. september 2008, sem hafi verið 13,87 krónur á hlut. Þetta segi þó ekki alla söguna um verð hluta Glitnis. Verðsveiflur í viðskiptum með hlutina hafi nefnilega aukist talsvert á þessum tíma og munurinn á milli hæsta og lægsta verðs víkki mjög innan dags í viðskiptum með hluti Glitnis. Þessi munur hefði verið tiltölulega lítill í aðdraganda falls Lehman Brothers en í kjölfarið hafi hann skotist upp og farið yfir 3%.

             Í III. ákærulið sé vitnað til ýmissa tölvupóstsamskipta á tímabilinu 26. ágúst 2008 til 15. september 2008 og því haldið fram að þau hafi sýnt „slæma lausafjárstöðu bankans“. Af hálfu ákærða er þessu mótmælt þar sem þessi tölvupóstsamskipti varði einungis hluta af starfsemi Glitnis og gefi enga heildarmynd, sem væri unnt að byggja á ákvörðun um fjárfestingu. Þá séu upplýsingar í tölvupóstinum afar almenns eðlis.

             Varðandi gögnin verði einnig að hafa í huga að á markaði hafi allar væntingar verið á þann veg að lausafjárstaða Glitnis væri afar slæm og færi versnandi. Miklar líkur hafi verið taldar á greiðslufalli bankans. Í því hafi falist að á markaði hafi verið talið að fjármögnun yrði ekki framlengd, vandkvæðum yrði háð að afla lausafjár, greiða þyrfti út innstæður sem væru lausar til útborgunar o.s.frv.

             Ákærði telur að upplýsingar um útflæði gjaldeyris úr bankanum geti ekki hafa komið á óvart eða erfiðleikar við að framlengja endurhverf viðskipti. Þá hafi úttektir stórra aðila á innstæðum ekki komið á óvart, veðköll vegna endurhverfra viðskipta samfara lækkandi eignaverði eða auknir erfiðleikar við fjármögnun eftir fall Lehman Brothers.

             Síðan verði að hafa í huga að markaðurinn hafi verið afar sveiflukenndur á þessum tíma. Því hefði þurft meira en lítið til að upplýsingar hefðu haft marktæk áhrif. Samkvæmt þessu telur ákærði engin efni til að líta á upplýsingar í gögnum sem vitnað er til í III. lið ákærunnar sem innherjaupplýsingar. Þá tekur ákærði fram að hann hafi enga vitneskju haft um væntanlegt fall Glitnis og að allt stefndi í að hlutabréf Glitnis yrðu „svo gott sem verðlaus“. Fjölmörg fjármálafyrirtæki hefðu fallið á árinu 2008 án þess að það hefði slíkar afleiðingar. Þannig hefðu fjármálafyrirtækin Northern Rock, Bear Stearns, Catholic Building Society, Countrywide Financial, Alliance & Leicester, Roskilde Bank, Fannie Mae, Freddie Mac, Derbyshire Building Society og Chesire Building Society fallið án þess að slíkt leiddi til falls Glitnis.

             Ákærði hafi því engar forsendur haft til að draga jafn afgerandi ályktanir um stöðu Glitnis og ákæruvaldið heldur fram. Í því samhengi verði að taka tillit til þess að hann hafi engar upplýsingar haft um heildarstöðu Glitnis. Hann hafi einungis haft upplýsingar um þau verkefni sem hann kom að. Hann hafi ekki búist við öðru en að úr þeim myndi leysast án þess að Glitnir félli.

             Enn fremur byggir ákærði í greinargerð sinni á því að hann hafi hvorki vitað né átt að vita um eðli upplýsinganna og að það beri að sýkna hann í málinu þrátt fyrir að dómurinn hafni fyrstu varnarástæðu hans.

             Ákærði hafi ekki verið fruminnherji og af því leiði að bann við viðskiptum innherja hafi því aðeins getað átt við hann að því tilskildu að hann „hafi vitað eða átti vita“ hvert eðli upplýsinganna var. Í ákærunni sé því hins vegar hvergi haldið fram að ákærði hafi vitað eða átt að vita hvert eðli upplýsinganna var. Samkvæmt þessu sé því í raun hvergi haldið fram í ákærunni að til staðar hafi verið eitt hugtaksskilyrði þeirra brota sem ákærði er sakaður um. Þar sem engin slík ásökun sé í ákærunni beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af öllum sökum sem eru á hann bornar.

             Hvað sem því líði verði síðan ekki horft fram hjá því að mat þess hvort upplýsingarnar hafi verið innherjaupplýsingar sé afar flókið. Auðvelt sé að skrifa söguna en erfitt að spá um framtíðina. Ákærði hafi ekki vitað það sem síðar varð og hann hafi tekið ákvörðun út frá því sem hann hafi talið vera rétt á sínum tíma. Fyrir liggi að á markaði hafi verið taldar miklar líkur á greiðslufalli. Ákærði hafi alla tíð talið að þeir erfiðleikar sem hann hafi orðið var við í störfum sínum hefðu fyrst og fremst verið birtingarmynd þessa. Ákærði hefði talið stöðu Glitnis, ef eitthvað, vera betri en þær líkur gáfu til kynna. Honum hafi aldrei dottið til hugar að hann byggi yfir innherjaupplýsingum.

             Þetta álit ákærða á sinni stöðu virðist hafa verið talið fyllilega forsvaranlegt og réttmætt. A.m.k. hafi yfirmenn hans aldrei virst hafa talið ákærða búa yfir innherjaupplýsingum. Sama megi segja um regluvörð bankans sem hafi samþykkt öll viðskiptin. Vafalaust sé að regluvörðurinn hefði ekki gert það hefði hann talið líklegt að ákærði byggi yfir innherjaupplýsingum, en með því að benda á þetta sé ákærði ekki með nokkrum hætti að firra sig ábyrgð. Hann sé einfaldlega að benda á þetta sem atriði sem sé til þess fallið að styrkja hans góðu trú.         Samkvæmt þessu telur ákærði, hvað sem öðru líður, að engin sönnun geti verið komin fram í málinu um að hann hafi vitað eða átt að vita um hið meinta eðli upplýsinganna.

             Að lokum byggir ákærði á því í greinargerð sinni að hann hafi ekki notað upplýsingarnar sem vitnað er til í ákæru, þegar hann tók ákvarðanir sínar um þau viðskipti sem hann er ákærður fyrir, en samkvæmt Evrópudómstólnum sé „notkun“ hugtaksskilyrði í banni við viðskiptum innherja. Í ákæru sé því hins vegar hvergi haldið fram að ákærði hafi notað upplýsingarnar í þessum skilningi. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna ákærða.

             Þar sem ákærði teljist ekki fruminnherji geti ákæruvaldið ekki notið góðs af þeirri reglu sem Evrópudómstóllinn hefur slegið fastri, um að fruminnherji teljist almennt hafa notað upplýsingar sem hann bjó yfir þegar viðskipti áttu sér stað nema hann sýni fram á annað. Þess í stað verði ákæruvaldið að sýna fram á að ákærði hafi notað upplýsingarnar. Engin slík sönnun liggi fyrir í málinu. Þvert á móti liggi fyrir sönnun um hið gagnstæða.     

             Ákærði hafi selt frá upphafi starfa sinna hjá Glitni hluti í beinni eign sinni yfir ákveðin tímabil. Viðskiptin sem hann er nú ákærður fyrir hafi verið liður í þessu. Þetta hafi hann gert vegna almennra áhættusjónarmiða. Hann hafi þrátt fyrir sölurnar átt verulega hagsmuni af jákvæðri gengisþróun hluta Glitnis. Allar skýringar ákærða um þetta séu trúverðugar. Tilgáta ákæruvaldsins um að ákærði hafi vitað að í stefndi að hlutabréf bankans „yrðu svo gott sem verðlaus“ standist engan veginn. Af þeim sökum sé ómögulegt að leggja hana til grundvallar dómi. Af þessari ástæðu beri að sýkna ákærða af öllum kröfum í málinu.

             Um upptökukröfu ákæruvaldsins segir ákærði að hún sé fjarstæðukennd, jafnvel þótt svo ólíklega færi að öllum varnarástæðum ákærða yrði hafnað. Fyrir liggi að ákæruvaldið hafi engar athugasemdir gert við að ákærði hafi selt hluti í Glitni 14. maí 2008 á genginu 17,75 krónur. Af því leiði að ákærða hefði í síðasta lagi á þessum degi og á þessu verði verið heimilt að selja þá 750.000 hluti sem hann seldi dagana 12. mars, 3. apríl og 9. apríl 2008. Ákærði geti því aldrei talist hafa haft ávinning af sölunni 12. mars 2008 sem fór fram á genginu 17,40 krónur á hlut. Þá geti ákærði heldur aldrei talist hafa haft ávinning af sölunni 3. apríl 2008 sem fór fram á genginu 17,75 krónur á hlut.

             Eini ávinningurinn sem ákærði getur talist hafa haft af sölunni 9. apríl 2008, sem fór fram á genginu 18,30 krónur, sé munurinn á því verði og 17,75 krónum á hlut. Það samsvari 0,55 krónum á hvern seldan hlut en þeir hafi verið 250.000 krónur. Sá munur reiknist sem 237.500 krónur. Fjármagnstekjuskattur af því nemi 23.750 krónum og 0,5% þóknun nemi 688 krónum. Reiknaður ávinningur sé því 123.063 krónur.

             Þá verður einnig að hafa í huga að ákærði hafi tekið lán til kaupa á bréfunum sem hann seldi í hinum umdeildu sölum. Það lán hafi hann ekki greitt upp fyrr en við uppgjör viðskiptanna 14. maí 2008. Af því leiði að hagnaður hans af sölu hlutanna 12. mars og  3. og 9. apríl hefði alltaf þurft að taka mið af láninu, sem hafi staðið þann 14. febrúar 2008 í 17.179.570 krónum.

III. Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

             Ákærði skýrði frá því að hann hefði verið forstöðumaður deildar í Glitni banka sem hét millibankamarkaðir, en sú deild hefði fyrst og fremst séð um viðskipti milli banka, á gjaldeyrismarkaði, skuldabréfamarkaði, og peningamarkaði, ásamt daglegri lausafjárstýringu bankans á Íslandi. Aðspurður sagði ákærði að hann hefði einhvern tímann fengið fræðslu um innherjaviðskipti í störfum sínum fyrir Glitni banka. Fram kom hjá ákærða að hann hefði lokið prófi í verðbréfamiðlun.   

             Lagður var fyrir ákærða tölvupóstur sem hann sendi F, með afriti til E, hinn 4. mars 2008, með yfirskriftinni: „Lausafjárstaðan – hugleiðingar.“ Í honum segir ákærði m.a.: „Eins og ég met stöðuna þá erum við búnir að lána björgunarbátinn okkar nokkrum sinnum og flotti nýji björgunarbáturinn er hálfkláraður í slipp (Citi línan).“ Spurður hvað ákærði hefði átt við með þessu sagði ákærði að skilaboðin hefðu verið þau að staðan hjá þeim sem sæju um daglega lausafjárstýringu væri orðin þröng og engin úrræði til að vinna með. Deild ákærða hefði ekki séð um fjármögnun bankans og ekki haft tæki og tól til að sækja fjármögnun og ákærði hefði verið að miðla þeim upplýsingum að það þyrfti eitthvað að koma til. Líkingamálið sem hann notaði hefði vísað til þess að ýmislegt hefði gengið á á fjármálamörkuðum og menn hefðu haldið áfram að stækka lánabókina þótt ytri aðstæður væru ekkert sérstaklega hagfelldar og það hefði verið opinbert. Ákærði sagði að það hefðu verið einhver tæknileg vandamál með Citi-línuna og Citibank hefði ekki ætlað að efna sinn hlut, en það hefði ekki breytt því að undirliggjandi tryggingar hefðu verið hæfar sem veð í viðskiptum við Seðlabanka Íslands. Þau hafi bara ekki verið nothæf hjá Citibank. Inntur eftir því hvort litið hefði verið svo á að Citi-línan hefði verið mikilvægur þáttur í því að bæta lausafjárstöðu Glitnis banka á þessum tíma sagði ákærði að hún hefði verið einn af mörgum liðum sem unnið hefði verið í. 

             Um annan tölvupóst sem ákærði sendi sama dag, 4. mars, til E og F, þar sem segir að „við verðum bara að fara að velja hverjum við ætlum að hjálpa og hverjum ekki“, sagði ákærði að hann hefði verið þeirrar skoðunar að menn gætu ekki haldið áfram að stækka efnahagsreikning bankans og lána fyrirtækjum og viðskiptavinum þegar ytri aðstæður væru þannig að það væri ekki auðvelt að sækja fjármögnun, en það hefði verið þekkt lengi. Ákærði hefði ekkert haft með útlán og fjármögnun að gera en viljað koma þessari skoðun sinni á framfæri.  

             Ákærða var kynntur tölvupóstur frá C 13. mars 2008 til F, E og eins annars starfsmanns, þar sem hún sendir minnispunkta frá lausafjárfundi 8. mars 2008, sem ákærði hafði boðað til. Ákærði og D fengu sent afrit af þessum pósti. Í minnispunktunum segir að aðgengi að óskuldbindandi peningamarkaðslánalínum hafi versnað verulega og að innlánagrunnur í London hafi minnkað um u.þ.b. 400 milljónir evra frá hámarki og að Glitnir banki væri mjög háður fjármögnun með endurhverfum viðskiptum. Ákærði var spurður hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir lausafjárstöðu Glitnis banka að peningamarkaðslánalínur versnuðu verulega og innlán í London. Hann svaraði því til að þetta hefði haft þau áhrif að aðgengi að fjármagni hefði verið verra og dýrara. Þetta hafi hins vegar verið viðbúið og eðlilegt við þær aðstæður sem voru fyrir hendi, en CDS-gildi hefðu verið í hæstu hæðum og skuldabréfamarkaður hefði verið lokaður íslensku bönkunum og fleiri bönkum. Það hafi því alltaf verið reiknað með þessu í innanhússáætlunum.

             Ákærða var einnig kynntur tölvupóstur C frá 10. mars 2008 til tiltekins starfsmanns, sem ákærði fékk sent afrit af ásamt D, G og einum öðrum starfsmanni, þar sem segir að lausafjárstaðan væri töluvert betri í íslenskum krónum en í erlendri mynt og að heildarniðurstaðan yrði neikvæð 4. apríl að því gefnu að hægt væri að breyta íslenskum krónum í erlenda mynt. Í svari ákærða sama dag segir hann að færsla lausafjár úr íslenskum krónum í erlenda mynt væri mjög óhagstæð eins og á stæði og engin merki væru um að það myndi breytast fljótlega. Spurður af hverju það hefði verið óhagstætt sagði ákærði að það hefði verið vegna álags á gjaldeyrismarkaði. Krónan hafi verið búin að veikjast verulega á undangengnum vikum og verð á skiptasamningum, þ.e.a.s. þar sem menn gátu skipt krónum yfir í erlenda mynt og öfugt, hafi verið með þeim hætti að það var mjög óhagkvæmt. Jafnframt sagði ákærði að það hafi verið opinberar upplýsingar að mikið álag hefði verið á íslensku krónunni.

             Ákærði var spurður hvort hann hefði greint regluverði Glitnis banka, H, frá upplýsingum sem ákærði bjó yfir um stöðu bankans, þegar hann óskaði eftir heimild í tölvupósti 12. mars 2008 til að selja hlutabréf í bankanum sama dag, og kvaðst ákærði ekki hafa gert það.

             Þá var ákærði spurður um tölvupóst sem hann sendi C sama dag, 12. mars, vegna skýrslu um lausafjárstöðuna 11. mars 2008. Í tölvupóstinum segir ákærði að um hafi verið að ræða mjög flotta skýrslu og að hún myndi vonandi vekja viðbrögð. Jafnframt segir í tölvupóstinum að ástandið væri mjög slæmt og að grípa þyrfti í taumana hið fyrsta, jafnvel „draga á þessa DB línu fyrr en síðar … þar sem við erum að tala um 20 daga notice“. Ákærði kvaðst hafa verið að lýsa málum eins og þau hefðu horft við þeim sem sáu um daglega lausafjárstýringu, en teymi ákærða hefði ekki staðið að fjármögnum bankans, hvort sem það væri með því að selja eignir eða fá lán út á þær. Ákærði sagði að menn hefðu ekki tekið ytri vísbendingar á markaði nógu alvarlega. Það hefði verið tilhneiging til að bíða og vona að aðstæður löguðust og vindar hættu að blása. Ákærði hafi verið að koma því til skila að það yrði að grípa til aðgerða og mæta aðstæðum, vinna með eignirnar og leita fjármögnunarleiða í stað þess að bíða. Eðlilegt hafi verið að millibankamarkaður sæi þetta fyrst. Þetta hefði hins vegar ekki þýtt að horfur til meðallangs eða lengri tíma hefðu verið slæmar eða eitthvað verri en aðstæður hefðu gefið til kynna. Það hefði svo verið yfirstjórnar bankans að ákveða hvað skyldi gera. Ákærði staðfesti framburð sinn hjá lögreglu 30. maí 2011, í tengslum við umræddan tölvupóst, þar sem hann sagði að það væri þekkt að lausafjárstaðan ein og sér gæti fellt hvers konar fyrirtæki sem væri.

             Einnig var ákærða kynntur tölvupóstur E frá 15. mars 2008 til A og F, sem ákærði fékk afrit af, ásamt minnisblaði um „liquidity position“, en í minnisblaðinu kemur m.a. fram að reiðufjárstaða Glitnis banka hefði versnað töluvert frá því í febrúar 2008, að lánalína frá bandaríska fyrirtækinu Citigroup að fjárhæð 425 milljónir evra stæði bankanum ekki lengur til boða og að reiðufjárstaða Glitnis banka hefði versnað dagana á undan. Spurður hvaða afleiðingar það hefði haft fyrir Glitni banka að lánalínan frá Citigroup stæði bankanum ekki lengur til boða sagði ákærði að eitt og sér hefði það þýtt minna aðgengi að fjármagni en þegar minnisblaðið væri skoðað betur komi fram að lausafjárstaðan hafi verið bætt með eins milljarðs „committed línu“ frá Deutsche Bank og þessar tryggingar sem hefðu verið hugsaðar að veði í línunni til Citigroup væru nothæfar innanlands sem veð gagnvart Seðlabankanum. Ákærði sagði að nettó áhrifin á lausafjárstöðuna hefðu í sjálfu sér verið engin þó að þessi Citigroup-lína hefði ekki staðið til boða. Spurður hvort veðin hafi verið í íslenskum krónum og Citigroup-línan verið hugsuð í evrum sagði ákærði að svo hefði verið. Inntur eftir því hvaða áhrif þetta hafi þá haft á stöðuna í erlendri mynt og hvort þau hefðu verið slæm sagði ákærði að þau hefðu verið slæm, alveg eins og segja mætti að það hefðu verið góð áhrif af Deutsche bank línunni. Það hefðu verið plúsar og mínusar í þessu. Ákærða var kynnt að í minnisblaðinu kemur fram að nýja lánalínan frá Deutsche bank væri algjörlega það síðasta sem yrði notað af varasafninu vegna slæmra skilaboða sem það sendi og kvaðst ákærði ekki vita af hverju það hefði verið og hann hefði ekki komið nálægt því að semja um þessa línu. Það gæti hafa verið vegna þess að þetta hafi verið dýr fjármögnun.

             Lagður var fyrir ákærða tölvupóstur sem hann sendi 26. mars 2008 til A, F o.fl. með fyrirsögninni: „Strategía á fx borðinu.“ Í honum segir: „Þessi strategía sem við höfum verið að spila eftir á millibankaborðinu, þ.e. að hugsa eingöngu um að missa ekki gjaldeyri út, er mjög varasöm. Vissulega erum við að reyna að koma í veg fyrir útflæði á gjaldeyri, en þetta er mjög dýr leið til þess … Þegar þetta er skrifað erum við langir (sic) gjaldeyri upp á 15 milljarða og erum búnir að tapa 285 milljónum. Þetta er ekki málið, milli bankinn verður að hafa svigrúm til að fara með flæði út á markaðinn, annars endar þetta í tómu rugli … Við erum að þurrka út hagnað ársins á nokkrum klukkutímum með þessu.“ Ákærði kvaðst hafa verið að miðla upplýsingum frá þeim sem voru viðskiptavakar á íslensku krónunni fyrir hönd bankans. Það hefði verið gríðarlegt flökt á krónunni og veiking til lengri tíma og við slíkar aðstæður væri erfitt að vera viðskiptavaki. Það hafi verið að koma í veg fyrir að útflæði yrði allt of mikið.

             Þá var borinn undir ákærða tölvupóstur hans frá 28. mars 2008 til E og F, sem var svo framsendur A degi síðar, með yfirskriftinni „enn versnar það“. Ákærði segir í tölvupóstinum að hann hafi séð að það hafi þurft að gera nokkra „fx díla“ til að verja bankann milli mynta. Hann hefði hringt í Svenska Handels í New York og þeir hefðu neitað bankanum um viðskipti og sagt að þeir hefðu ekki línu. Síðan segir ákærði: „Það er fokið í flest þegar erlendir bankar neita að eiga spot viðskipti við okkur. Þá er ekki mikið traust eftir. Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei séð áður, en ég er svo sem búinn að sjá margt sem ég hef aldrei séð áður síðustu vikurnar.“ Ákærði sagði um þetta að neitun Svenska Handels hafi í sjálfu sér ekki haft nein áhrif og neitunin hefði ekkert verið óeðlileg með hliðsjón af umfjöllun um íslensku bankana og þróun skuldatryggingarálags.

             Ákærði var spurður hvort hann hefði greint regluverði Glitnis banka, H, frá þeim upplýsingum sem ákærði bjó yfir um stöðu bankans, þegar hann óskaði eftir heimild í tölvupósti 9. apríl 2008 til að selja hlutabréf í bankanum sama dag, og kvaðst ákærði ekki hafa gert það.

             Einnig var borinn undir ákærða tölvupóstur J frá 27. ágúst 2008, til ákærða og annars starfsmanns, um að A hefði áhyggjur af útflæði gjaldeyris og að þeir þyrftu að „strategíza og gefa honum svo comfort í hvernig við viljum keyra þetta show“. Spurður hvernig hefði verið brugðist við áhyggjum A kvaðst ákærði ekki muna það.

             Þá var ákærði inntur eftir því hvað hann hefði átt við í tölvupósti 3. september 2008, til C, J o.fl. aðila, þar sem ákærði segir m.a.: „Októbergjalddaginn nálgast óðfluga og ýmis teikn eru á lofti. Núna sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að við ræðum stöðuna og stillum okkur saman og ákveðum hvert planið okkar er.“ Ákærði kvaðst ekki muna hvaða fjárhæð hafi verið um að ræða á þessum gjalddaga sem vísað var til í tölvupóstinum, en það hafi ekki verið gríðarleg fjárhæð. Hún hafi verið í erlendri mynt. Ákærði kvaðst hafa verið að óska eftir því að menn stilltu saman strengi sína.

             Spurður um tilmæli J til ákærða í tölvupósti 4. september 2008, um að ákærði yrði að vinna með tveimur tilteknum starfsmönnum í að stoppa þetta útflæði, sagði ákærði að koma hefði þurft í veg fyrir sölu gjaldeyris, t.d. með verðlagningu, en það hefði verið gríðarlegt flökt í krónunni.

             Lögð voru fyrir ákærða tölvupóstsamskipti milli ýmissa aðila innan bankans 11. september 2008. Í einum tölvupósti sem ákærði sendi þann dag segir hann að í ljósi umræðna um Straum og annað verði að passa að fara ekki út í svona ítarlegar og viðkvæmar umræður í svona stórum hópi, eins og gert hafði verið fyrr um daginn. Ákærði sagði að það væri ekki það að öllu þessu fólki væri ekki treystandi heldur væri frekar sumt af því sem hefði komið fram óviðkomandi þeirra starfi og „svo veit maður aldrei hvernig fólk túlkar upplýsingar og hvað það gerir við þær“. Lagði ákærði svo til að umræðurnar um lausafjárstöðuna og annað því tengt væru takmarkaðar við fimm manna hóp. Í svari eins starfsmanns kveðst hann vera sammála, þetta mál væri nógu viðkvæmt fyrir og mikilvægt væri að halda „kúlinu“ út á við. Þá sagði annar starfsmaður að honum þætti hópurinn allt of stór bara fyrir upplýsingarnar sem felast í tölunum. Ákærði var spurður af hverju honum hefði þótt nauðsynlegt að fækka viðtakendum tölvupóstsins svaraði hann því til að tilmæli hans hefðu verið almenns eðlis og ef ræða ætti málefni einhvers tiltekins viðskiptamanns þá þyrfti að hafa í huga hvaða hópur ætti hlut að máli.    

             Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa greint regluverði Glitnis banka, H, frá þeim upplýsingum sem ákærði bjó yfir um stöðu bankans, þegar hann óskaði eftir heimild í tölvupósti 17. september 2008 til að selja hlutabréf í bankanum.

             Spurður af verjanda sínum um ársskýrslu Glitnis banka fyrir árið 2007, þar sem m.a. er greint frá lausafjárstöðu bankans í lok árs 2007, kvaðst ákærði ekki hafa haft heildarsýn yfir stöðu bankans og hvernig hún leit út á þeim dögum sem ákærði seldi hlutabréf sín, sbr. ákæru málsins. Það sama ætti við hvað varðar skýrslur um stöðu bankans 31. mars og 30. júní 2008, þ.e. ákærði hafi ekki haft heildarsýn yfir stöðu bankans. Ákærði kvaðst aldrei hafa heyrt umræður innan bankans um að lausafjárstaða hans hefði breyst svo verulega að hugsanlega þyrfti að tilkynna markaðinum það. Þá hefði það aldrei komið til tals að þær upplýsingar sem ákærði bjó yfir hefðu verið innherjaupplýsingar. Jafnframt sagði ákærði að honum hefði aldrei verið tilkynnt að hann hefði verið talinn innherji í bankanum. Enn fremur sagði ákærði að á árinu 2008 hafi hann ekki talið miklar líkur á greiðslufalli bankans þótt markaðurinn hefði reiknað með gríðarlega miklum líkum á því. Hann hefði haft trú á því að bankinn kæmist í gegnum þessa erfiðleika sem voru á fjármálamörkuðum. Þá sagði ákærði að lausafjárstaða bankans hefði ekki haft nein áhrif á ákvarðanir hans um að selja hlutabréf sín, á þeim tíma sem hann er ákærður fyrir, og hann hefði aldrei litið svo á að hann hefði búið yfir innherjaupplýsingum. Jafnframt sagði ákærði að hann sæi engan mun á sölunni á hlutabréfum í maí 2008, sem hann er ekki ákærður fyrir, og þeim sem hann er ákærður fyrir.

             Vitnið C greindi frá því að það hefði verið yfirdeild í Glitni banka innan áhættustýringar, sem hét eigna- og skuldastýring. Þá hefði vitnið verið ritari í efnahagsnefnd bankans. Aðspurt sagði vitnið að einhvern tímann hefði það verið skráð sem tímabundinn innherji. Spurt hversu stór hópur innan bankans hafi getað vitað um lausafjárstöðu bankans vegna aðgangs þeirra að upplýsingum sagði vitnið að ýmsir hefðu komið að því að meta stöðuna en vitnið gæti ekki sagt hversu margir hefðu getað metið hana í heild sinni. Þeir sem hefðu komið að því að meta stöðu bankans á umræddum tíma hafi verið starfsmenn áhættustýringar og fjárstýringar. Aðspurt sagði vitnið að upplýsingar um lausafjárstöðuna hefðu ekki verið almenn vitneskja innan bankans og mikill trúnaður ríkt um hana, eins og almennt er um upplýsingar í svona starfsemi.

             Borinn var undir vitnið tölvupóstur sem það sendi 13. mars 2008 til F, E og annars starfsmanns, ásamt minnisblaði um lausafjárfund 8. mars 2008. Eins og áður segir var afrit sent á ákærða og D. Vitnið var spurt hvaða þýðingu það hefði haft að aðgengi að óskuldbindandi peningamarkaðs­lánalínum hafði versnað verulega og að innistæður í London hefðu minnkað og að Glitnir banki væri mjög háður fjármögnun með endurhverfum viðskiptum. Vitnið svaraði því til að verra aðgengi að fjármögnun hefði almennt neikvæð áhrif. Þannig hefðu þessi tilteknu atriði í minnisblaðinu að öðru óbreyttu neikvæð áhrif. Þegar spurt var hvort þetta hafi verið viðkvæmar upplýsingar sagði vitnið að þær hefðu verið það, eins og almennt ætti við um upplýsingar sem fjallað væri um í efnahagsnefnd banka.

             Einnig var vitnið spurt um tölvupóst sem það sendi 10. mars 2008 til tiltekins starfsmanns, sem ákærði fékk afrit af ásamt D, G og einum öðrum starfsmanni, um að lausafjárstaðan væri betri í íslenskum krónum en í erlendri mynt og að heildarniðurstaðan yrði neikvæð 4. apríl, að því gefnu að hægt væri að breyta íslenskum krónum í erlenda mynt. Vitnið greindi frá því að á þessum tíma hafi verið tekin saman yfirlit á hverjum degi um þekkt inn- og útflæði, til að spá fyrir um stöðuna og grípa til aðgerða. Þarna hefði komið fram að bankinn væri ekki í góðri stöðu. Vitnið staðfesti framburð sinn hjá lögreglu 31. mars 2011 um að samkvæmt þessum upplýsingum eða forsendum sem þarna komu fram hafi bankinn getað mætt því sem væri á gjalddaga einn mánuð fram í tímann. Þá áréttaði vitnið að farið hafi verið með allar upplýsingar sem efnahagsnefnd fjallaði um sem trúnaðarupplýsingar. Vitnið staðfesti jafnframt framburð sinn í skýrslutöku hjá lögreglu um að upplýsingar sem komu fram í minnisblaðinu hefðu verið upplýsingar sem væru hvað viðkvæmastar í öllum bönkum og vandmeðfarnastar. Þær hafi ekki verið gerðar opinberar og þær hefðu aldrei verið gerðar opinberar nákvæmlega með þessum hætti sem fram kom í minnisblaðinu, þ.e. þær hefðu ekki verið jafn ítarlegar.   

             Þá var vitnið spurt af hverju það hefði framsent á ákærða tölvupóst 12. mars 2008 sem var frá D, um lausafjárstöðuna 11. mars 2008. Þar kemur fram að móðurfélagið hafi átt í endurhverfum viðskiptum með allt sem væri hægt að nýta til þeirra. Verið væri að kalla eftir lánsloforðum, fjármögnunargap til eins mánaðar hafi stækkað um meira en 1.600 milljónir evra og lánsskuldbindingar hafi aukist. Vitnið kvaðst hafa framsent þetta á ákærða þar sem vitnið hefði unnið með ákærða að þessum málum almennt og vitnið hefði verið í miklum samskiptum við fjárstýringuna um lausafjárstöðuna, eðli máls samkvæmt vegna hlutverks fjárstýringar.

             Enn fremur var borinn undir vitnið tölvupóstur sem það sendi ákærða 29. mars 2008. Þar segir eftirfarandi: „Í stuttu máli þá líta hlutföllin fyrir samstæðuna ekki svo illa út. Hins vegar þá er þar g.r.f DB línunni að fullu og að BN cov. bondið komi inn. Móðurfélagsstaðan er ekki góð og lykilatriði að þegar BN CB fer í gegn þá séu fundnar leiðir til að flytja laust fé frá BN til móðurfélags.“ Með tölvupóstinum fylgdu drög að fundargerð efnahagsnefndar Glitnis banka frá 26. mars 2008. Vitnið var spurt hvernig nefndarmenn í efnahagsnefnd hefðu litið á upplýsingar sem þarna komu fram og kvaðst vitnið ekki muna það. Um ástæðu þess að vitnið sendi þetta á ákærða gaf vitnið sömu skýringu og um framangreindan tölvupóst 12. mars. Vitninu var þá bent á að í fundargerðinni komi fram fleiri upplýsingar en um lausafjárstöðuna og var vitnið spurt hvort ákærði hafi átt að hafa aðgang að svona upplýsingum. Vitnið svaraði að í einhverjum tilvikum hafi það verið eðlilegt, t.d. ef yfirmaður hans hafi verið búinn að óska eftir því að ákærði fengi þær.  

             Vitnið var einnig spurt um fundarboð sem ákærði sendi vitninu o.fl. í tölvupósti 3. september 2008, varðandi „októbergjalddagann“ sem nálgaðist óðfluga. Í tölvupóstinum segir ákærði m.a.: „Það eru nokkrir verulega stórir áhættuþættir sem við verðum að átta okkur fullkomlega á og taka afstöðu til: Breyting á aðgengi að ECB. Tregða mótaðila okkar til að framlengja repóum þar sem bréf Lais og Kaup eru undirliggjandi. Útstreymi á innlánum eða öðrum skammtímapening frá kúnnum bankans, t.d. Straumi.“ Vitnið kvaðst ekki muna eftir þessum fundi sérstaklega þar sem langt væri um liðið, en vitnið hafi líklega setið fundinn. Vitnið kvaðst halda að umræddur „októbergjalddagi“ hafi verið stór skuldabréfagjalddagi og það hafi verið unnið að endurfjármögnun hans.

             Vitninu var kynntur tölvupóstur sem G sendi 15. september 2008 til ákærða, vitnisins, A, D og fleiri aðila, þar sem segir að þetta hafi verið „erfiður dagur, öll verð og spread eru út um allt, meira að segja í EURUSD, bæði í depo og FX-Swap og línumál virðast verða enn erfiðari í kjölfar Lehman málsins.“ Spurt um efni tölvupóstsins sagði vitnið að lausafjárstaðan hefði verið slæm. Innt eftir því hvort það hefði verið almenn vitneskja að lausafjárstaðan hefði verið slæm á þessum tíma sagði vitnið að það hafi verið almenn vitneskja að lausafjárstaða í kerfinu, á Íslandi og erlendis, hefði verið slæm á þessum tíma. Vitneskja í svona miklum smáatriðum hafi hins vegar ekki verið almenn. Flestir markaðsaðilar hafi vitað að það hafi verið þröngt á lausafjármögnunarmörkuðum alls staðar.     

             Fram kom hjá vitninu að það hefði komið fyrir að vitnið og aðrir starfsmenn hefðu óskað eftir því að vera sett á innherjalista, sem tímabundnir innherjar, þegar þau hefðu haft aðgang að upplýsingum frá fjárhagsbókhaldinu í tengslum við uppgjör. Þetta hafi verið gert til að vekja athygli á því að þau byggju yfir innherjaupplýsingum. Það hefði verið augljóst þegar um hafi verið að ræða uppgjör bankans.

             Vitnið var spurt af verjanda hvort vitnið hefði unnið að ársskýrslu Glitnis banka fyrir árið 2007, nánar tiltekið varðandi lausafjárstöðu bankans og yfirlit yfir binditímagreiningu, og kvaðst vitnið hafa gert það. Innt eftir því hvort ákærði hafi haft sama aðgang og vitnið að upplýsingum til að taka þessar tölur saman kvaðst vitnið halda að hann hafi haft það. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta sagt hvernig þessar tölur hafi litið út 12. mars, en þessar upplýsingar hafi verið unnar ársfjórðungslega og vitnið gæti ekki sagt til um stöðuna 12. mars nema kynna sér nauðsynleg gögn. Þá var vitnið spurt af verjanda um yfirlit yfir lausafjárstöðu bankans í skýrslu 31. mars 2008, þar sem fram komi að bæst hafi við að því er virðist rúmir 200 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi 2008, og hver þróunin hafi verið frá 30. desember til 31. mars 2008. Vitnið sagði að á þessum tíma hafi verið unnið meira að því að koma eignum sem ekki voru áður notaðar í lausafjárstýringu og reyna að koma þeim í söluhæft form og það virðist endurspeglast í skýrslunni 31. mars. Þegar vitnið var spurt af verjanda hvort það hafi verið einhver sérstök þróun hvað varðar lausafjárstöðuna 5. og 9. apríl 2008 eða 17. og 18. september, miðað við ársfjórðungsuppgjör, sagði vitnið að það gæti ekki sagt til um það nema kynna sér nauðsynleg gögn. Einnig var vitnið spurt hvort það hefði komið til tals innan bankans að það þyrfti að senda út tilkynningu vegna lausafjárstöðu bankans og kvaðst vitnið ekki minnast þess. Jafnframt kom fram hjá vitninu að það hafi aldrei komið fyrir að bankinn sendi út afkomuviðvörun. Þá kvaðst vitnið ekki geta svarað því hvaða líkur það hafi talið á greiðslufalli bankans og opinberlega hefðu verið í gangi almennar umræður um erfiðar markaðsaðstæður. Enn fremur kvaðst vitnið ekki treysta sér til að svara því hvort skuldatryggingarálag á bankann hafi gefið rétta mynd af stöðu hans eða ekki. Nánar um októbergjalddagann sagði vitnið að í venjulegu árferði hefði ekki verið neitt óvenjulegt varðandi hann. Hann hafi hins vegar verið stór og það hafi verið búnir að vera erfiðleikar á markaðinum í nokkuð langan tíma og að því leyti var hann erfiður. Það hafi verið unnið að því hörðum höndum að leita leiða til að endurfjármagna hann og vitnið hefði talið lengst af að það myndi takast. 

             Vitnið D skýrði frá því að það hefði verið starfsmaður í áhættustýringu Glitnis banka og það hefði aðallega unnið við mat á lausafjáráhættu. Einnig hefði vitnið gert skýrslur um lausafjáráhættu og gengisáhættu. Aðspurt sagði vitnið að það hefði ríkt trúnaður um slíkar upplýsingar og þær hefðu verið viðkvæmar, þar til þær hafi verið birtar opinberlega.  

             Vitnið var spurt um tölvupóstsamskipti 10. mars 2008, sem áður hafa verið rakin, og sagði vitnið að það væri langt um liðið og það muni ekki nákvæmlega hvernig sviptingarnar hafi verið þá. Borinn var undir vitnið framburður þess hjá lögreglu 4. apríl 2011, þar sem vitnið sagði að upplýsingar sem hefðu komið fram í tölvupóstsamskiptunum 10. mars 2008 hefðu verið mjög viðkvæmar upplýsingar, og kvaðst vitnið hafa litið á allar upplýsingar um lausafjárstöðu bankans sem mjög viðkvæmar upplýsingar.

             Þá var vitnið spurt um þýðingu þess sem fram kemur í tölvupósti vitnisins 12. mars 2008, sem C framsendi svo á ákærða, og áður er rakinn, m.a. um að fjármögnunargap til eins mánaðar hafi stækkað um meira en 1.600 milljónir evra. Vitnið kvaðst vera tölfræðingur en ekki viðskiptafræðingur. Vitnið gæti hins vegar ekki séð annað en að staðan hafi verið slæm. Jafnframt sagði vitnið að í téðum tölvupósti hafi vitnið verið að taka saman yfirlit yfir lausafjárstöðuna fyrir efnahagsnefnd bankans. Vitnið sagði, eins og gögn málsins bera með sér, að það hafi ekki sent þessar upplýsingar á ákærða, heldur hafi hann fengið þær framsendar frá öðrum aðila.

             Þá voru vitninu kynnt tölvupóstsamskipti 11. september 2008 og það spurt hvaða þýðingu eftirfarandi upplýsingar hefðu haft, sem komu fram í tölvupósti frá g til vitnisins, ákærða og fleiri aðila: „Straumur tók upp nostro reikninga á morgun og tæmdu IG reikninga sína hér. Þetta voru stórar tölur 172 mio EUR, 30 mio USD, 90 mio SEK og annað smærra og dettur þetta því út úr cashflowinu okkar. Þeir segjast þó ætla að placera þessu hér áfram, hvort sem það verði á dags basis eða lengra og settu reyndar 60 mio EUR af þessu í vikuinnlán strax. Þeir eiga hins vegar í smá byrjunar örðugleikum og við fáum þetta kannski inn aftur eftir helgi. Þannig hefur kannski ekki allt breyst hjá okkur þótt cashflowið sýni það, en það er ljóst að það er auðveldara fyrir Straum að fara með þetta eitthvað annað og með engum fyrirvara, nema eitthvað samkomulag ríki um þetta.“ Vitnið sagði sem fyrr að langt væri um liðið og að það gæti ekki tjáð sig um þetta nema með því að skoða nauðsynleg gögn. Var þá borinn undir vitnið framburður þess hjá lögreglu 4. apríl 2011, þar sem vitnið sagði að sér fyndist það ekki rétt ef einhver með þessar upplýsingar undir höndum seldi hlutabréf sín í bankanum og það myndi ekki vita hvað það ætti að gera ef það hefði komist að því, hvort það hefði farið til eftirlitsaðila eða hætt. Um þennan framburð sinn sagði vitnið að það hefði verið orðið mjög þreytt, skýrslutakan hafi verið löng, og vitnið hefði ekki skilið af hverju það hafi verið ítrekað spurt hvort það hefði farið að selja hlutabréf, með þessar upplýsingar í höndum, í ljósi þess að það átti aldrei hlutabréf. Þá kom fram hjá vitninu að tölurnar fyrir efnahagsnefnd hefðu yfirleitt verið svartsýnni en í uppgjöri bankans og tölurnar hefðu sveiflast mikið. 

             Vitnið E greindi frá því að hafa verið framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis banka í mars 2008 og starfað við það fram til maí 2008, en þá hafi vitnið farið í frí. Vitnið kvaðst hafa heyrt undir fjármálastjóra og hann hefði heyrt undir forstjóra. Fram kom að vitnið hafði stöðu fruminnherja í bankanum. Vitnið var spurt hvort markaðurinn hefði búið yfir  sömu upplýsingum og starfsmenn bankans sem unnu að fjármögnun bankans og höfðu eftirlit með áhættu hans. Vitnið svaraði því til að almennt væri reynt að tryggja að markaðurinn byggi yfir öllum nauðsynlegum upplýsingum, sem komi þá fram í uppgjöri bankans og séu birtar opinberlega, en starfsmenn geti eðli máls samkvæmt oft búið yfir meiri upplýsingum. 

             Vitninu var kynntur tölvupóstur ákærða 4. mars 2008 til vitnisins og fleiri aðila með fyrirsögninni „lausafjárstaðan – hugleiðingar“ þar sem ákærði segir m.a. að lausafjárstaðan í erlendri mynt sé orðin mjög döpur og F svari þessum tölvupósti sama dag og segi að ekki sé líklegt að bankinn sé að komast í annað umhverfi alveg strax. Vitnið hafi svo svarað að því miður væri lítið sem hægt væri að treysta á í langtímafjármögnun þótt það væri verið að vinna í nokkrum málum og að óvissan um „execution“ og tímasetningar væri mikil, auk þess væri hvergi verið að tala um háar fjárhæðir. Um þetta sagði vitnið að langt væri um liðið en vitnið hafi væntanlega verið að vísa til þess að farið hafi verið í skuldabréfaútgáfu í september 2007, sem hafi verið langtímafjármögnun, og markaðsaðstæður hefðu verið erfiðar fyrir nýjar skuldabréfaútgáfur.

             Þá var vitninu kynntur tölvupóstur B 14. mars 2008 með fyrirsögninni: „Að öðrum kosti verða hlutabréf bankans svo gott sem verðlaus um páskana.“ Þar segir B að það verði að fá aðstoð frá Seðlabankanum til þess að leysa þetta mál. Það megi ekki bíða fram á síðustu stund. Að öðrum kosti verði hlutabréf bankans svo gott sem verðlaus um páskana. Með þessum tölvupósti B var hann að framsenda á A, F, E og annan starfsmann tölvupóst frá G sama dag, sem hann sendi á ákærða, B, F, C, D o.fl., en þar sagði m.a. að staðan væri ekki glæsileg og þeim væri farið að líða nokkuð illa með lausafjárstöðuna. Vitnið var spurt hvernig hafi verið brugðist við tölvupóstinum frá G og sagði vitnið að Glitnir banki hefði alltaf staðist kröfur Seðlabankans um laust fé og álagspróf Fjármálaeftirlitsins, en þarna hafi staðan verið þrengri hvað varðar lausafjárstöðu í erlendri mynt. Vitnið kvaðst ekki muna hvað hefði gerst nákvæmlega í framhaldinu en alla vega hafi Seðlabankinn verið upplýstur um stöðu mála. Aðspurt sagði vitnið að ef frést hefði að það væri verið að upplýsa Seðlabankann sérstaklega um stöðu mála væri það viðkvæmt. Það hefðu verið afar fáir einstaklingar innan bankans sem hefðu vitað að það hefði verið gert og vitnið hefði ekki rætt það við ákærða. Vitnið staðfesti framburð sinn hjá lögreglu 5. apríl 2011 um að þessi tölvupóstur hefði lýst vel alvarlegri stöðu og að lausafjárstaðan hefði farið versnandi og breyst mjög hratt frá degi til dags. Jafnframt staðfesti vitnið að það hefði sagt hjá lögreglu að mars hefði verið mjög erfiður, sérstaklega fram að páskum, og ef bankinn gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar, þ.e. ekki greitt á réttum tíma, þá myndi það virkja svokallað cross default ákvæði í lánasamningum sem þýddi þá í raun að öll lán bankans myndu gjaldfalla samtímis og þá væru hlutabréf bankans svo gott sem verðlaus um páskana.

             Þá var borinn undir vitnið tölvupóstur sem það sendi 15. mars 2008 til A og F, með afriti til ákærða, þar sem hann biður þá um að lesa minnisblað um lausafjárstöðuna fyrir stjórnarfund þann dag. Vitnið var spurt um áhrif þess að lánalína hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Citigroup, að fjárhæð 425 milljónir evra, stæði bankanum ekki lengur til boða og sagði vitnið að í minnisblaðinu komi jafnframt fram að skuldabréf, þar sem væru undirliggjandi húsnæðislán bankans, hefðu verið fyrir hendi. Þetta hafi því í sjálfu sér ekki breytt lausafjárstöðunni þar sem það hafi verið hægt að nálgast laust fé hjá Seðlabankanum gegn þessum skuldabréfum, en þá hafi hins vegar verið um að ræða fjármögnun í krónum en ekki erlendri mynt eins og hjá Citigroup.

             Spurt um viðbrögðin við tölvupósti ákærða 28. mars 2008 til vitnisins og F, með fyrirsögninni „enn versnar það“, sem áður hefur verið rakinn, um synjun Svenska Handels, kvaðst vitnið ekki muna sérstaklega eftir þessu.  

             Vitnið var spurt af verjanda hvort því væri kunnugt um að upplýsingar um lausafjárstöðu í skýrslum Glitnis banka sem hafi verið birtar opinberlega hafi verið rangar og kvað vitnið sér ekki vera kunnugt um það. Þá kvaðst vitnið ekki geta sagt til um hver lausafjárstaðan hafi nákvæmlega verið á þeim dögum sem ákærði seldi hlutabréf sín. Vitnið tók hins vegar fram að staðan hafi verið orðin mun betri í maí 2008, þegar vitnið hefði hætt störfum. Spurt hvernig opinber umræða um bankann hefði verið á árinu 2008 kvaðst vitnið ekki muna það en almennt hafi fjármálamarkaðurinn á heimsvísu verið í krísu sem dýpkaði svo seinna á árinu 2008. Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að það hafi einhvern tímann komið til tals hjá Glitni banka að senda út aðkomuaðvörun.

             Vitnið F greindi frá því að það hefði verið  fjármálastjóri Glitnis banka frá júní 2007 til maí 2008. Næsti yfirmaður vitnisins hafi verið A. Fram kom hjá vitninu að það hafi örugglega haft stöðu innherja í bankanum og að vitnið hefði m.a. átt sæti í efnahagsnefnd bankans. Vitnið var spurt hvort litið hafi verið á allar upplýsingar innan efnahagsnefndar sem trúnaðarupplýsingar og sagði vitnið að öll skjöl innan bankans væru í eðli sínu trúnaðarupplýsingar. Innt eftir því hvort markaðurinn hafi búið yfir sömu upplýsingum um lausafjárstöðu bankans og starfsmenn innan bankans sem unnu við lausafjárstýringu sagði vitnið að frá degi til dags væri það ekki þannig þar sem markaðurinn búi aðeins yfir upplýsingum sem komi fram í ársreikningum og skýrslum sem væru birtar á þriggja mánaða fresti.

             Vitninu var kynntur tölvupóstur ákærða 4. mars 2008 til vitnisins o.fl. aðila þar sem hann segir m.a. eftirfarandi: „Sum sé það er ansi margt sem leggst á eitt í þessum efnum og sárafátt sem vinnur á móti þessu, það eina sem mér dettur í hug er ádráttur á revolvera bankans í síðustu viku og innlausn úr peningamarkaðssjóðum hjá K. Nú þarf að kortleggja alvarlega hvaða leiðir eru í stöðunni til að vinna á móti þessu og tíminn vinnur ekki með okkur.“ Vitnið svaraði ákærða, með afriti til E, með tölvupósti sama dag, og sagði að það væri rétt að staðan væri þröng en því miður væri ekki líklegt að þeir væru að komast í annað umhverfi alveg strax. Spurt hvað vitnið hefði átt við með svari sínu sagði vitnið að það væri erfitt að túlka það svona eftir á, en vitnið hafi helst haft það í huga að markaðsaðstæður væru væntanlega ekki að breytast og Glitnir banki hafi verið að glíma við mjög erfiðar markaðsaðstæður á lánsfjármörkuðum.

             Um tölvupóst G 14. mars 2008 til vitnisins, ákærða og fleiri aðila, sem áður hefur verið rakinn, um stöðu dagsins sem væri ekki glæsileg, sagði vitnið að lausafjárstaða bankans á þessum tíma hefði verið þröng og erfið og hún hefði á þessu tímabili þrengst mjög hratt. 

             Þá sagði vitnið um viðbrögð B í tölvupósti 14. mars 2008, við því sem kom fram í tölvupósti G, og rakinn var hér að framan, að það myndi ekki hvort það hafi verið gripið til einhverra tiltekinna aðgerða. Var þá borinn undir vitnið framburður þess hjá lögreglu 6. apríl 2011, um að það hafi verið brugðist við þessu með því að funda með A og stjórnarformanni bankans og í framhaldi hafi A átt fund með Seðlabankastjóra, og sagði vitnið að það væri rétt.   

             Enn fremur var borinn undir vitnið áðurnefndur tölvupóstur E 15. mars 2008 til A og vitnisins, sem ákærði fékk afrit af, ásamt lausafjárskýrslu, þar sem m.a. kemur fram að lánalínan frá Citigroup stæði Glitni banka ekki lengur til boða. Spurt hvaða afleiðingar það hefði haft að téð lánalína stóð bankanum ekki lengur til boða sagði vitnið að þetta hefði ekki verið skemmtileg staða fyrir bankann og vinna hafist við að meta hvaða kostir hafi verið í stöðunni.

             Jafnframt var borinn undir vitnið fyrrnefndur tölvupóstur ákærða 28. mars 2008, um synjun Svenska Handels, sem vitnið framsendi á A, og sagði vitnið að það sæi ekki að þeir hefðu meiri tíma en helgina til að leita leiða til sameiningar ella væri mjög líklegt að þeir væru að tala við Seðlabankann um lán í næstu viku. Um efni þessa tölvupósts sagði vitnið að miðað við hvað lausafjárstaðan hafði þrengst hafi þurft að leita annarra leiða en áður, en vitnið kvaðst hins vegar ekki muna hvort það hafi verið gripið til einhverra tiltekinna aðgerða. Spurt hvaða erfiðleikar hafi steðjað að bankanum á þessum tíma sagði vitnið að erlendir fjármálamarkaðir sem Glitnir banki og aðrir íslenskir bankar hefðu reitt sig mikið á hefðu verið fráhverfir því að kaupa skuldabréf, þ. á m. skuldabréf gefin út af íslensku bönkunum. Þar af leiðandi hafi lausafé bankanna minnkað mjög ört.    

             Þegar vitnið var spurt af verjanda hvort það vissi til þess að upplýsingar um lausafjárstöðuna í skýrslum Glitnis banka, sem hafi verið birtar opinberlega, hafi að einhverju leyti verið rangar kvaðst vitnið ekki telja að svo hafi verið. Þá sagði vitnið að skammtímahreyfingar inn og út í útgefnum skýrslum væri einn partur af myndinni af  lausafjárstöðu bankans, en ekki öll myndin. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta sagt nákvæmlega hver lausafjárstaðan hafi verið á þeim dögum sem ákærði seldi hlutabréfin sín. Auk þess hafi vitnið ekki starfað í bankanum lengur en til maí 2008. Vitnið kvaðst ekki hafa verið upplýst um það hverjir hefðu haft stöðu innherja í bankanum og hverjir ekki og að vitnið hefði ekki haft upplýsingar um hlutabréfaeign ákærða í bankanum. Vitnið sagði jafnframt að ákærði hefði ekki starfað beint undir sér, heldur hafi yfirmaður verið þar á milli sem hefði þá átt að fylgjast með stöðu ákærða í þessu sambandi. Spurt hvernig opinber umræða um bankann hafi verið á árinu 2008 sagði vitnið að það hafi mikið verið rætt af markaðsaðilum um ástand markaðar á þessum tíma og skuldatryggingarálagið hefði sent þau skilaboð að mikil áhætta væri fólgin í lánveitingum til íslensku bankanna. Þá sagði vitnið að það væri ómögulegt að svara því hvort staða Glitnis banka hafi verið betri eða verri en skuldatryggingarálag gaf til kynna, í ljósi þess hvernig fór fyrir bankanum, en skuldatryggingarálagið hefði gert bankanum erfitt um vik með fjármögnun. 

             Um ástæðu þess að vitnið hætti störfum í bankanum sagði vitnið að því hefði verið sagt upp. Vitnið staðfesti framburð sinn hjá lögreglu 6. apríl 2011 um að ástæða þess hafi verið sú að vitnið og A hafi ekki haft nægilega trú á hvor öðrum í þessum verkefnum og þeir hafi haft skiptar skoðanir um jafnvægið á milli upplýsinga frá fjármögnunarhliðinni og áhættuhliðinni og væntingar hluthafa og annarra um það hvernig hagnaðurinn yrði. 

             Vitnið G, fyrrverandi starfsmaður á millibankamarkaði í fjárstýringu Glitnis banka, sagði um tölvupóst sinn 14. mars 2008, sem áður hefur verið nefndur, að það hafi verið orðið erfiðara fyrir bankann að fá lán og aðgang að erlendum gjaldeyri og að vitnið hafi verið að miðla þeim upplýsingum til stjórnenda, þannig að hægt væri t.d. að selja út úr eignasafninu.

             Þá var borinn undir vitnið tölvupóstur þess frá 26. ágúst 2008 til ákærða og fleiri aðila, þar sem m.a. segir eftirfarandi: „Spot: Útflæði 60 mio EUR (vísitalan stendur nánast í stað í 158,60). L er að vinda aðeins ofan af stöðunni.“ Spurt hvað hafi verið átt við með síðustu setningunni kvaðst vitnið ekki geta skýrt það.  

             Einnig var vitnið spurt um tölvupóst þess 4. september 2008 til ákærða og fleiri aðila, um að spot útflæði næmi 43 milljónum evra og viðskipti síðustu daga valdi vitninu nokkrum áhyggjum og að L væri undir gríðarlegum þrýstingi frá MAR og hafi því selt mikið af evrum síðustu daga og vikur. Vitnið sagði að það hefði verið útstreymi á gjaldeyri og innstreymi á krónum og það hafi væntanlega verið einhliða í einhvern tíma sem hafi komið niður á erlendri stöðu.

             Borinn var undir vitnið tölvupóstur þess 11. september 2008 til ákærða og fleiri aðila um að Straumur hefði tæmt reikninga sína í bankanum, en tölvupósturinn hefur áður verið rakinn. Vitnið sagði að Straumur hafi verið í reikningsviðskiptum með gjaldeyri hjá Glitni banka og Straumur hafi unnið í því að opna sjálfur reikninga í erlendum bönkum. Þetta hafi þýtt það að í stað þess að vera með gjaldeyri inni á reikningi í Glitni banka hafi þeir ætlað að opna reikninga erlendis sjálfir. Vitnið var mjög hikandi þegar það var spurt hvort trúnaður hafi ríkt um þessar upplýsingar og hvort þær hafi mátt fara út fyrir bankann og kvaðst vitnið ekki vita það.

             Þegar vitnið var spurt af verjanda hvort upplýsingarnar sem fram koma í tölvupóstinum 11. september 2008 væru jákvæðar eða neikvæðar þegar á heildina væri litið sagði vitnið að sumt væri jákvætt og sumt neikvætt. Það hafi komið inn bundin innlán og það hafi fengist 50 milljónir af pólsku sloti í einn mánuð og 20 milljónir í þrjár vikur. Meirihlutinn af innlánum í London hafi rúllað, 25 milljónir breskra punda af 26, og 35 milljónir Bandaríkjadollara frá Investec einn dag í viðbót og spot innflæði upp á 50 milljónir evra. Um talnarunu sem fram kom í tölvupóstinum sagði vitnið að eignahliðin hafi ekki verið inni í þeim.

             Þá spurði verjandi vitnið hvaða yfirlit starfsmenn millibankamarkaðar í Glitni banka hafi haft yfir upplýsingar um lausafjárstöðu í skýrslum bankans sem voru birtar opinberlega, nánar tiltekið í ársskýrslu fyrir árið 2007, skýrslu 31. mars og 30. júní 2008. Vitnið svaraði því til að eignasöfn hafi ekki verið inni á borði millibankamarkaðar og þannig hafi þeir ekki haft heildarmyndina. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta sagt hver lausafjárstaðan hafi verið á þeim dögum sem ákærði seldi hlutabréf sín. Spurt hvaða líkur vitnið hafi talið á því að bankinn myndi gjaldfalla sagði vitnið að það hefði ekki haft gríðarlega miklar áhyggjur af því í mars og apríl 2008 og um miðjan september hafi vitnið ekki verið búið að gefast upp. Um opinbera umræðu um bankann á árinu 2008 sagði vitnið að hún hafi verið nokkuð neikvæð. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort staða bankans hafi verið betri eða verri en ráða mátti af opinberri umræðu. Spurt hvort vitnið vissi hvort það hefði verið skráð sem innherji í Glitni banka kvaðst vitnið ekki vita til þess.

             Vitnið B greindi frá því að það hefði verið framkvæmdastjóri deildar sem hét „total capital“ og var fjárfestingarverkefni í fyrirtækjum í einkaeigu í Bretlandi og Norðurlöndunum. Auk þess hafi vitnið um tíma setið í nokkrum nefndum sem fylgdu bankanum, s.s. áhættunefnd og efnahagsnefnd.  

             Borinn var undir vitnið tölvupóstur vitnisins 14. mars 2008 til A, F, E og eins annars starfsmanns, með yfirskriftinni „VERÐUM AÐ GRÍPA TIL AÐGERÐA“, sem áður hefur verið rakinn. Vitnið sagði að það hefði verið búin að vera lánakrísa á alþjóðamörkuðum frá sumri 2007 og það hafi verið þekkt. Áhrif þess á íslensku bankana, og banka erlendis, hafi verið þau að þeir bankar sem reiddu sig mikið á skuldabréfamarkaðinn gátu átt í erfiðleikum með að endurfjármagna sig á einhverjum tímapunkti ef þetta ástand myndi vara áfram. Þetta hafi verið opinberar upplýsingar. Snemma árs 2008 hafi verið litið á þetta sem langtímavandamál sem þyrfti að byrja að leysa, en það hafi ekki verið talið skammtímavandamál. Lausafjárstaðan hafi í sjálfu sér verið ágæt til skemmri tíma en það hafi þurft að finna lausn til lengri tíma. Vitnið kvaðst hafa tekið stórt upp í sig í umræddum tölvupósti 14. mars. Það hafi átt rót sína að rekja til þess að vitnið hefði starfað í London í tæpan áratug í bankaviðskiptum, m.a. á kreppuárunum 1990-1993, þegar fjöldi banka á Norðurlöndunum og Bretlandi hafi orðið gjaldþrota eða verið bjargað af ríkinu. Á þeim árum hafi skyndilega komið upp krísur þar sem bankar hafi átt í erfiðleikum með að nálgast fjármagn, tiltekinn gjaldmiðil, til að loka gjaldeyrissamningum eða öðru og oft hafi komið fréttir af því að seðlabankar hafi gripið inn í. Þá sagði vitnið að það hefði ekki verið hlutverk þess að stýra lausafjárstýringu bankans eða fjármögnun. Vitnið hefði hins vegar haft orð á því við A og aðra að þegar svona alþjóðleg krísa kæmi upp, eins og á umræddum tíma, sem hafi verið búin að vara í níu mánuði, væri mjög mikilvægt fyrir Glitni banka að halda Seðlabankanum mjög vel upplýstum, því ef svona krísuástand, eins og vitnið hafði áður upplifað, kæmi upp mætti ekki leita til Seðlabankans á síðustu stundu, ef það væri hætta á greiðslufalli. Því miður hefði A svarað vitninu á þann hátt að hann myndi seint fara í Seðlabankann því það myndi þýða að hlutabréf Glitnis banka myndu lækka mikið. Vitnið hefði sagt að það skipti engu máli því greiðslufall væri það sama og gjaldþrot fyrir banka, óháð því hvert eigið fé og önnur verðmæti væru. Þegar vitnið hefði séð framangreindan tölvupóst G 14. mars 2008 hafi vitninu verið brugðið því vitnið hefði skilið það svo að vandamál Glitnis banka væru til lengri tíma en ekki skemmri tíma, en það hafi mátt lesa úr pósti G að komin væri upp erfið staða og hún gæti leitt til þess að bankinn ætti í erfiðleikum með að framlengja gjalddaga og það gæti haft mjög slæm áhrif til skemmri tíma. Í ljósi þessa hafi vitnið orðað tölvupóst sinn með þeim hætti sem það gerði. Vitnið kvaðst hafa brugðist fljótt við tölvupósti G, eða fimm mínútum síðar, og svar vitnisins hafi því ekki verið vel ígrundað. Jafnframt sagðist vitnið vera almennt gætið í orðavali út á við og í starfi sínu en í viðræðum við þröngan hóp ætti vitnið til að taka dýpra í árinni. Vitnið kvaðst hafa rætt við G og aðra starfsmenn millibankamarkaðar í kjölfarið og þeir hafi viljað meina að staðan væri ekki jafn slæm og vitnið hefði lesið í stöðuna. Þá sagði vitnið að umræddan dag, 14. mars 2008, hafi tiltekinn banki lent í þroti og krísa myndast um eftirmiðdaginn þegar opnað hafi í New York að morgni til. Krísan hafi hjaðnað strax í vikunni á eftir þegar bandaríski seðlabankinn hafi gripið til aðgerða og dælt Bandaríkjadollurum inn á Evrópumarkað sem hafi losað um þennan tappa og spá vitnisins hafi reynst röng. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að ákærði hafi vitað af ráðleggingum vitnisins um að leita til Seðlabankans.          

             Spurt af verjanda hvernig opinber umræða hafi verið um stöðu Glitnis banka á árinu 2008 sagði vitnið að hún hafi verið neikvæð og af skuldatryggingarálagi hafi mátt ráða áhyggjur fjárfesta af því að það gæti verið hætta á greiðslufalli. 

             Vitnið J, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis banka, var spurt hvernig hafi verið brugðist við áhyggjum A af útflæði, sbr. tölvupóst vitnisins 27. ágúst 2008, sem áður hefur verið lýst. Vitnið kvaðst ekki vita hver viðbrögðin voru nákvæmlega í þetta skipti, en það hafi verið unnið að því alla daga að tryggja fjármuni bankans.

             Borið var undir vitnið fundarboð ákærða í tölvupósti 2. september 2008 til vitnisins og fleiri aðila um að októbergjalddaginn nálgaðist óðfluga, teikn væru á lofti og uppi væru áhættuþættir sem ákærði greindi sérstaklega frá í tölvupóstinum. Vitnið var spurt hvort þessi fundur hafi verið haldinn og kvaðst vitnið ekki muna það. Það hefði verið stór gjalddagi í október og það hafi verið róið að því öllum árum að tryggja fjármagn fyrir hann og kvaðst vitnið reka minni til þess að forstjóri Glitnis banka hafi minnst á þennan gjalddaga í afkomukynningu í sex mánaða uppgjöri, mánaðamótin júlí/ágúst eða í byrjun ágúst. 

             Beðið um að tjá sig um tölvupóst 11. september 2008, sem áður hefur verið rakinn, þ.e. um að Straumur hefði fært reikningsviðskipti sín úr Glitni banka, sagði vitnið að brugðist hafi verið við þessu með því að fylgjast betur með stöðunni og tryggja að Straumur myndi halda áfram að vera með eitthvað af peningunum áfram í Glitni banka, þótt það hafi kannski verið í ófyrirséðari tíma en áður. Vitnið kvaðst ekki geta sagt meira um þetta, enda væri langt um liðið. Þá sagði vitnið varðandi það að tölvupóstur þann dag hefði verið sendur á of stóran hóp að ástandið hafi verið nógu erfitt og fólk hafi þurft hvatningu. Það hafi því þurft að takmarka hópinn við þá sem þyrftu að hafa upplýsingarnar, en ekki þá sem voru upplýsingarnar óviðkomandi.  

             Vitnið var spurt af verjanda hvort upplýsingar um lausafjárstöðu í skýrslum bankans sem voru birtar opinberlega, nánar tiltekið í ársskýrslu fyrir árið 2007, skýrslu 31. mars og 30. júní 2008, væru að einhverju leyti rangar og kvaðst vitnið ekki vita til þess. Einnig sagði vitnið að ákærði hafi unnið við skuldahlið bankans, einkum  skammtímafjármögnun, og ekki haft innsýn í eignahliðina, sem væri hin hliðin á efnahagsreikningnum og hann hafi ekki vitað hvað væri að gerast þar. Þegar vitnið var spurt hverjar það hafi talið lífslíkur Glitnis banka um miðjan september 2008 sagði vitnið að það hafi talið að hægt væri að bjarga bankanum og komast í gegnum þennan skafl. Um þýðingu þess að skuldatryggingarálag væri hátt sagði vitnið að þá væru fjárfestar að lýsa þeirri skoðun að þeir hefðu efasemdir um viðkomandi fjármálastofnun.

             Vitnið A, sem var forstjóri Glitnis banka, var spurt hver staða bankans hefði verið 14. mars 2008 og sagði vitnið að það væri erfitt að meta það. Það hefði verið ákveðin óvissa hjá bankanum, eins og öðrum íslenskum bönkum, með lausafjárstöðu hvað varðar gjaldeyri, en staðan í íslenskum krónum hefði verið mjög góð. Jafnframt sagði vitnið að lausafjárstaðan hefði breyst mikið frá degi til dags og staðan verið orðin góð um sumarið 2008. Þá sagði vitnið að það hefðu verið útbúnar innanshússskýrslur eða sviðsmyndir til að gefa sér sem besta mynd af stöðunni hverju sinni en það væri óvarlegt að leggja of mikið upp úr þeim og þær hefðu breyst mikið frá degi til dags, eftir því hvaða forsendur menn gáfu sér við að áætla lausafjárstöðuna. Enn fremur sagði vitnið að Glitnir banki hefði verið í samskiptum við Seðlabankann frá janúar 2008 og farið hafi verið yfir stöðu Glitnis banka. Vitninu var kynnt að F hefði greint frá því hjá lögreglu, 6. apríl 2011, að vitnið hefði í vikunni á eftir farið á fund Seðlabankastjóra og kvaðst vitnið hafa átt marga fundi með honum, eins og allir íslensku bankarnir. Spurður hvort fundur þá hefði verið um lausafjárstöðuna svaraði vitnið að þær sviðsmyndir sem hefðu verið teiknaðar upp hefðu verið versta „ímyndunarmynd“. Í febrúar eða mars 2008 hefði verið haldinn framkvæmdastjórafundur og það hafi verið unnið með aðgerðarplan sem hefði falið í sér sölu eigna og það plan hefði litið vel út. Vitnið kvaðst hafa átt fund í Seðlabankanum í kringum páskana og á þeim tíma hafi krónan verið búin að veikjast. Seðlabankanum hefðu verið kynntar áætlanir varðandi fjármögnun Glitnis banka og áætlanir um að minnka bankann. Samstarfið við Seðlabankann hefði verið mjög gott. Árangurinn hefði verið góður og þetta hefði litið vel út sumarið 2008. 

             Vitnið var spurt um tölvupóst sem það fékk 15. mars 2008, ásamt ákærða, frá E, ásamt minnisblaði um lausafjárstöðuna, og kvaðst vitnið ekki muna sérstaklega eftir þessu. Vitninu var kynnt að í minnisblaðinu komi m.a. fram að reiðufjárstaða Glitnis banka hefði versnað töluvert frá því í febrúar 2008 og að lánalína frá bandaríska fyrirtækinu Citigroup að fjárhæð 425 milljónir evra stæði bankanum ekki lengur til boða og reiðufjárstaða Glitnis banka hefði versnað dagana á undan. Innt eftir því hvaða þýðingu það hafði að missa téða lánalínu sagði vitnið að skömmu áður hefði verið gengið frá fjármögnun hjá Deutsche bank sem hefði bætt stöðuna og heildarstaðan hefði ekki breyst neitt rosalega mikið við að lánalínan frá Citigroup stóð ekki lengur til boða, en augljóslega hafi stjórninni verið gerð grein fyrir þessu. Fjármögnun þessara 425 milljóna evra hefði verið endurnýjuð með hátt í þriggja milljarða fjármögnun sem hefði verið notuð með sambærilegum hætti, en hún hafi verið gerð í gegnum evrópska Seðlabankann. Þetta verkefni hafi verið komið í gang á þessum tíma. Menn hefðu verið að bregðast við breyttu umhverfi, eins og allir bankar hefðu þurft að gera, og staðan hafi ekki endilega verið að versna, heldur breytast.

             Borinn var undir vitnið tölvupóstur ákærða til vitnisins og fleiri aðila frá 26. mars 2008, um stöðuna á millibankaborðinu og að það væri verið að þurrka út hagnað ársins á nokkrum klukkutímum, og svar vitnisins daginn eftir, 27. mars, um að „í ljósi slakrar gjaldeyrisstöðu okkar sé ég ekki annað en að við neyðumst til að halda áfram að kaupa gjaldeyri á meðan unnið er hörðum höndum að langtímafjármögnun“. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir þessum tölvupósti, en á þessum tíma, í kringum páskana 2008, hefði verið umrót á gjaldeyrismarkaði og vitnið talið að það væri betra að halda áfram að kaupa gjaldeyri. Staðan hefði síðan batnað. 

             Þá var vitninu kynntur tölvupóstur I, fyrrverandi forstöðumanns yfir alþjóðlegri fjármögnun Glitnis banka hjá útibúi bankans í London, frá 31. mars 2008, til vitnisins, F og E, sem ákærði fékk afrit af. Í honum segir I að innistæður í útibúinu í London hafi dregist saman um 440 milljónir  sterlingspunda frá janúar 2008, úr 1,55 milljarði sterlingspunda í 1,11 milljarð, og að gera mætti ráð fyrir að innistæður myndu dragast enn frekar saman og gætu farið niður í 750 milljónir sterlingspunda. Vitnið var spurt hvort menn hefðu haft áhyggjur af þessari stöðu og sagði vitnið að það hefði tekist vel að vinna úr þessu og það hefði ekki þurft að breyta forsendum í skýrslum bankans vegna þessa.

             Jafnframt var borinn undir vitnið tölvupóstur 28. mars 2008 frá ákærða til E og F. Yfirskriftin var „enn versnar það“ og í honum segir m.a.: „Það er fokið í flest þegar erlendir bankar neita að eiga spot viðskipti við okkur. Þá er ekki mikið traust eftir. Þetta er eitthvað sem ég hef aldrei séð áður, en ég er svo sem búinn að sjá margt sem ég hef aldrei séð áður síðustu vikurnar.“ Umræddur tölvupóstur var áframsendur til vitnisins daginn eftir af F sem sagði við vitnið: „Ég sé ekki að við höfum meiri tíma en helgina til þess að leita leiða til sameiningar ella finnst mér mjög líklegt að við séum að tala við Seðlabanka/Landsbanka um lán í næstu viku.“ Vitnið var spurt hvað hefði gerst í framhaldi af þessum tölvupósti og kvaðst vitnið ekki muna eftir honum. Fyrir páskana hefði verið mikið umrót á gjaldeyrismarkaði og krónan veikst miðvikudag fyrir páska. Helgina þar áður hefðu menn haft áhyggjur af slæmri stöðu gjaldeyrismarkaðsins, en það hefði gengið yfir. Það hefði verið „turbulence“ miðvikudaginn fyrir páska en vitnið kvaðst ekki muna eftir því að eitthvað sérstakt hefði komið upp eftir páskana.

             Um tölvupóst vitnisins 27. ágúst 2008, þar sem vitnið segir að það sé farið að hafa miklar áhyggjur af útflæði gjaldeyris og hvaðan bankinn ætti að fá gjaldeyri, sagði vitnið að það myndi ekki sérstaklega eftir honum en menn hafi alltaf verið að hugsa um gjaldeyri og það hafi alltaf verið að vinna í fjármögnun bankans. Spurt um gjaldeyrisstöðuna eða lausafjárstöðuna á þessum tíma samanborið við það sem hafði verið fyrr um sumarið sagði vitnið að stóra sjokkið fyrir Glitni banka hafi komið vikuna eftir fall Lehmans. 

             Spurt um áhrif þess sem fram kemur í tölvupósti G 15. september 2008 til vitnisins, ákærða og fleiri, sem fyrr hefur verið rakinn, sagði vitnið að það hefði í sjálfu sér ekki breytt stöðunni mjög mikið fyrir Glitni banka. Rúmri viku eða 10 dögum eftir fall Lehman hefði vitnið fengið símtal frá Nordea bankanum þar sem tilkynnt hafi verið að staðan þar hefði breyst og ekki væri hægt að klára tiltekna sölu. Í kjölfarið hefði vitnið rætt við Seðlabankann.  

             Vitnið var spurt af verjanda hvort það vissi hver hefði verið lausafjárstaða Glitnis banka 3. og 9. apríl 2008 og kvaðst vitnið ekki geta gert það en það héldi að hún hefði verið mjög svipuð því sem fram hefði komið í skýrslu vegna uppgjörs 31. mars 2008, en staðan hefði þó batnað frá áramótum. Jafnframt sagði vitnið að í janúar 2008 hafi verið farið í ýmis verkefni til að bæta stöðuna og sú staða væri sýnd í uppgjörinu 31. mars 2008. Þetta hafi legið í því að bankinn hafi tryggt sér eignatryggða fjármögnun og það hafi bætt lausafjárstöðuna. Auk þess hafi verið gengið frá milljarðs evra fjármögnun í lok janúar 2008 við Deutsche Bank sem hafi líklega haft áhrif á uppgjörið 31. mars 2008. Aðspurt sagði vitnið að það hafi aldrei verið rætt um að senda út tilkynningar til markaðarins, t.d. þegar upp komu erfiðleikar með Citigroup lánalínuna. Innt eftir því hvernig lausafjárstaða Glitnis hefði verið 17. og 18. september, miðað við það sem fram kemur í skýrslu um lausafjárstöðu bankans 30. júní 2008, kvaðst vitnið ekki geta sagt það. Vitnið sagði að það hefði ekkert komið upp sem hefði hvatt það sem forstjóra bankans til að hringja í stjórnarformann bankans fyrr en 22. eða 23. september 2008, þegar vitnið hefði fengið símtalið frá Nordea bankanum. Þá fyrst hafi vitnið séð einhverjar alvarlegar breytingar, þ.e. aðrar breytingar en daglegar sveiflur. Nánar spurt um ástandið 14. mars 2008 sagði vitnið að í kringum páskana hefði verið eitthvert stress á gjaldeyrismörkuðum þar sem krónan hafi veikst töluvert og það væri það eina sem vitnið muni sérstaklega eftir. Einnig tók vitnið fram að það hafi verið til nægt lausafé í krónum. Aðspurt kvaðst vitnið ekki telja að í þeim tölvupósti sem um ræðir í máli þessu hafi eitthvað komið fram sem hafi sýnt að staða Glitnis banka hafi verið verri en talið var á markaði. Vitnið sagði að í bankanum hafi verið unnið eftir ákveðinni aðgerðaáætlun og vitnið hafi talið að bankinn kæmist í gegnum þetta. Brugðist hafi verið við því að skipun fjármögnunar var að breytast og það hafi verið ærið verkefni. Það hefði gengið nokkuð vel þar til staðan hefði svo breyst vikuna áður en vitnið ræddi við Seðlabankann um haustið.

             Vitnið I, sem var forstöðumaður yfir alþjóðlegri fjármögnun Glitnis banka í London, var beðið um að gera grein fyrir því hvernig innistæður þróuðust frá mars 2008 og þar til bankinn féll. Vitnið sagði að í framhaldi af orðrómi og fréttum af versnandi stöðu á Íslandi hefðu fjárfestar orðið órólegir og innistæður hefðu minnkað. Spurt af verjanda hvort þetta hafi verið fyrirsjáanlegt sagði vitnið að ástandið á Íslandi hafi verið vægast sagt mjög viðkvæmt á þessum tíma. Á átján mánaða tímabili hefðu verið sveiflur en staðan hafi ekki verið ýkja erfið vegna þess að matsfyrirtækin hefðu gefið Íslandi, þ. á m. Glitni, nokkuð góða einkunn, en svo hefðu hlutirnir orðið viðkvæmari. Í ársbyrjun 2008 hafi menn haft vaxandi áhyggjur af efnahagsástandinu á Íslandi og eftir því sem liðið hafi á árið hafi þeim fjölgað sem hefðu varað við ástandinu á Íslandi og töldu að það myndi versna til muna. Með minnkandi trúverðugleika Íslands hafi fleiri hjá Glitni banka gert sér grein fyrir því að ástandið yrði mjög erfitt og færi versnandi. Vitnið kvaðst hafa sent erindi í mars 2008 til æðstu stjórnenda bankans, fjármálastjórans og ákærða þar sem vitnið hefði varað við þessu versnandi ástandi. Þetta ástand hafi verið flestum álitsgjöfum á Íslandi sýnilegt. 

             Vitnið H sagði að það hefði verið forstöðumaður regluvörslu Glitnis banka, sem væri deild sem hefði heyrt undir lögfræðisvið. Um það hvernig fræðslu um innherjaviðskipti hefði verið háttað í bankanum sagði vitnið að innherjum hefði verið boðið upp á fræðslu og þeim hefði verið tilkynnt um stöðu sem innherjar og hvaða reglur giltu þá. Einnig hefði verið sendur almennur tölvupóstur á starfsmenn. Spurt hvaða aðferðir vitnið hefði haft til að kanna hvort innherjaupplýsingar lægju fyrir innan ákveðinna sviða bankans sagði vitnið að þær hefðu verið mjög takmarkaðar. Regluvarslan hafi verið háð því að stjórnendur veittu upplýsingarnar og t.d. ef fruminnherji hafi ætlað að eiga viðskipti hafi hann þurft að beita ákveðinni rannsóknarheimild og fá leyfi hjá regluverði. Þá hafi regluvörður þurft að kanna hvort innherjaupplýsingar væru til staðar. Það hafi að meginstefnu verið gert þannig að haft hafi verið samband við forstjóra, fjármálastjóra og ákveðna aðila og þeir hafi gefið til kynna hvort það hafi verið fyrir hendi innherjaupplýsingar eða ekki, en því miður hafi því ekki verið fylgt nægilega vel eftir að halda regluverði upplýstum. Aðspurt sagði vitnið að það hafi komið fyrir að þeir sem voru ekki skráðir innherjar hefðu upplýst regluvörð um að þeir byggju yfir upplýsingum sem væru í eðli sínu innherjaupplýsingar. Jafnframt sagði vitnið að á þeim tíma sem um ræðir í máli þessu, árið 2008, hafi menn ekki verið nægilega meðvitaðir um að það þyrfti að vera nægt upplýsingaflæði til regluvörslu.      

             Lögð voru fyrir vitnið tölvupóstsamskipti 12. mars 2008 milli ákærða og vitnisins, þar sem ákærði óskar eftir leyfi til að selja hlutabréf í Glitni banka og vitnið spyr ákærða hvort hann sé örugglega ekki innherji og ákærði svarar neitandi. Vitnið sagði að 1.800 manns hafi starfað innan bankans og vitninu hefði þótt vissara að spyrja hvort ákærði væri innherji. Ef ákærði hefði verið skráður innherji hefði vitnið framkvæmt ákveðna könnun og talað við stjórnendur og kannað hvort einhverjar innherjaupplýsingar hefðu verið fyrir hendi. Vitninu voru kynnt ýmis tölvuskeyti sem rakin hafa verið hér að framan og kvaðst hann ekki hafa haft upplýsingar um þau samskipti sem þar koma fram þegar hann veitti ákærða heimild til að selja hlutabréf í bankanum. Jafnframt sagði vitnið að samkvæmt reglum Fjármálaeftirlitsins og reglum bankans hafi viðskipti starfsmanna verið á þeirra ábyrgð. 

             Um beiðni ákærða 9. apríl 2008 um að selja hlutabréf sagði vitnið að það sama hefði gilt þá, þ.e. ef ákærði hefði verið skráður innherji hefði ferli farið í gang en svo hafi ekki verið og því hafi viðskiptin verið heimiluð. Enn fremur sagði vitnið að ákærði hefði ekki veitt regluverði sérstakar upplýsingar í þetta skiptið. Um atvik 17. september 2008 sagði vitnið að þau hefðu verið þau sömu, en vitnið tók fram að á þessum tíma hafi mjög margir verið að selja hlutabréf, eftir fall Lehman. Vitnið var spurt um viðskipti tiltekins aðila með hlutabréf í bankanum 7. apríl 2008 og sagði vitnið að þá hafi verið litið svo á að engar innherjaupplýsingar hafi legið fyrir í bankanum.

             Aðspurt af verjanda kvaðst vitnið ekki hafa heyrt umræður meðal yfirmanna ákærða um að flokka ætti hann sem fruminnherja eða tímabundinn innherja. 

             Þá kom fyrir dóm dr. Hersir Sigurgeirsson og staðfesti að hann hefði gert skýrslu að beiðni ákærða, sem fyrir liggur í málinu, um mat fjármálamarkaða á greiðslufallsáhættu Glitnis árið 2008, dags. 16. september 2012.

Niðurstaða.

Rannsókn málsins og meintir ágallar á ákæru.

             Ákærði telur ýmsa annmarka á rannsókn málsins. Hann heldur því fram að sérstakur saksóknari hafi „endursent“ kæru Fjármálaeftirlitsins frá 18. janúar 2011 þar sem hann hafi talið grundvöll rannsóknar málsins hjá Fjármálaeftirlitinu ófullnægjandi. Fjármálaeftirlitið hafi svo sent kæruna aftur til sérstaks saksóknara 5. maí 2011 og skýrslur sem lögregla hafi tekið fyrir þann tíma af sex starfsmönnum Glitnis banka séu því markleysa. Ekki er fallist á þessi sjónarmið ákærða, enda endursendi sérstakur saksóknari ekki kæruna heldur óskaði eftir því að nokkur tiltekin atriði væru tekin til nánari skoðunar og meðferðar og voru gerðar nokkrar leiðréttingar á augljósum villum. 

             Þá telur ákærði að rannsókn málsins hafi dregist úr hófi. Ekki liggur skýrt fyrir hvenær grunur vaknaði hjá Fjármálaeftirlitinu um brot ákærða. Kæra var eins og áður segir send sérstökum saksóknara 18. janúar 2011 og ákæra gefin út 11. maí 2012. Þegar litið er til umfangs rannsóknarinnar og fyrirliggjandi gagna verður ekki annað séð en að málið hafi verið rekið með eðlilegum hætti hjá sérstökum saksóknara. Hugsanlegur dráttur við meðferð málsins hjá Fjármálaeftirlitinu getur ekki leitt til frávísunar málsins eða sýknu heldur kemur til skoðunar við ákvörðun refsingar.

             Jafnframt heldur ákærði því fram að þess hafi ekki verið gætt hjá Fjármálaeftirlitinu að málið væri nægilega upplýst áður en það var sent sérstökum saksóknara, þ.e. að ekki hafi verið gætt rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og ekki hafi verið leitað skýringa frá ákærða. Ákærði telur að þetta leiði til þess að rannsókn lögreglu sé byggð á ólögmætum grunni. Dómurinn fellst ekki á þetta þar sem það leiðir af 3. mgr. 148. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, og athugasemdum við frumvarp sem varð að þeim lögum, að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu telst ekki stjórnvaldsákvörðun. Ákærði heldur því auk þess fram að ekki hafi farið fram sjálfstæð rannsókn hjá lögreglu á málinu, m.a. með hliðsjón af því að óskað hafi verið álits Fjármálaeftirlitsins á því hvort tilteknar upplýsingar í gögnum málsins væru innherjaupplýsingar. Í málflutningsræðu sækjanda var því mótmælt að ekki hefði farið fram sjálfstæð rannsókn og m.a. bent á að ekki hafi verið ákært fyrir öll tilvik sem greind voru í kæru Fjármálaeftirlitsins. Af þessu væri augljóst að fram hafi farið sjálfstæð rannsókn. Að þessu virtu er ekki fallist á að ekki hafi farið fram sjálfstæð rannsókn hjá lögreglu. Hvað varðar athugasemdir ákærða um að ekki hafi verið rannsökuð atriði sem geti leitt til sýknu, nánar tiltekið hvert hafi verið skulda­tryggingar­álag á Glitni banka, þá myndu þær leiða til þess að sakir væru ekki sannaðar, ef skuldatryggingarálagið skyldi á annað borð skipta máli, en gætu ekki leitt til frávísunar málsins.

             Hvað varðar staðhæfingar ákærða um að Fjármálaeftirlitinu hafi verið skylt að leiða málið til lykta sem stjórnsýslumál, með stjórnvaldssekt, verður að hafa í huga að það var ekki raunhæfur kostur í ljósi afstöðu ákærða. Þá verður ekki séð af gögnum sem hafa verið lögð fram um fjölda mála sem hafa verið kærð til lögreglu að ekki hafi verið gætt jafnræðis og meðalhófs. 

             Í málflutningsræðu verjanda við aðalmeðferð málsins var því haldið fram að ágallar væru á ákæru, t.d. væri óljóst hvað átt væri við með „versnandi“ stöðu og talað væri um framlengingu lána í 2. tölulið II. ákæruliðar en það rétta væri að um hafi verið að ræða skiptasamning. Að mati dómsins er ákæran skýr og engir annmarkar á henni sem hafa þýðingu við úrlausn málsins.  

Staða ákærða.           

Ákærði telur útilokað að hann hafi verið tímabundinn innherji, eins og byggt er á í ákæru málsins. Hann telur að þetta leiði óhjákvæmilega til sýknu.

Í 121. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti er að finna þrjá flokka innherja: fruminnherja, tímabundna innherja og aðra innherja. Fruminnherji er sá aðili sem hefur að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda fjármálagerninga. Tímabundinn innherji er sá aðili sem telst ekki fruminnherji en býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna. Annar innherji er aðili sem hvorki telst fruminnherji né tímabundinn innherji en hefur fengið vitneskju um innherjaupplýsingar, enda hafi viðkomandi vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.

Í 1. mgr. 128. gr. laga nr. 108/2007 er mælt fyrir um að útgefandi skuli senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um fruminnherja og tímabundna innherja og í 2. mgr. segir að Fjármálaeftirlitið skuli halda skrá yfir þá. Þá er kveðið á um það í 129. gr. að útgefandi, sem hefur tilgreint innherja til Fjármálaeftirlitsins, skuli tilkynna viðkomandi innherja um það skriflega og greina honum frá þeim réttarreglum sem gilda um innherja og meðferð innherjaupplýsinga. Óumdeilt er að ákærði var aldrei skráður sem tímabundinn innherji.

Fram kom hjá vitninu H, sem var regluvörður Glitnis banka, að regluvarsla í bankanum var mjög ófullkomin. Vitnið sagði að regluvarslan hefði verið háð því að stjórnendur veittu regluverði upplýsingar um það hvort innherjaupplýsingar hefðu legið fyrir. Jafnframt greindi vitnið frá því að það hefði komið fyrir að starfsmenn sem voru ekki skráðir sem innherjar hefðu haft frumkvæði að því að upplýsa regluvörð um að þeir byggju yfir innherjaupplýsingum. Kom þetta einnig fram í vitnisburði C fyrir dómi. Það skiptir engu máli um refsiábyrgð ákærða þótt hann hafi aldrei verið skráður á lista sem tímabundinn innherji og regluvörður hafi veitt heimild til sölu hlutabréfanna. Á endanum er það mat dómsins sem ræður því hvort ákærði hafi verið tímabundinn innherji, enda væri það ótækt að einstaklingur gæti komið sér undan refsiábyrgð með því að vanrækja að vekja athygli á því þegar hann telst vera tímabundinn innherji eða þegar regluvarsla fjármálafyrirtækis virkar ekki sem skyldi. Ákærði bjó yfir þeim upplýsingum sem vísað er til í ákæru málsins vegna stöðu sinnar sem forstöðumaður millibankamarkaðar í fjárstýringu Glitnis banka og telur dómurinn vafalaust að hann hafi verið tímabundinn innherji, sbr. 2. tölulið 121. gr. laga nr. 108/2007.

Hugtakið innherjaupplýsingar.

             Í 120. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti er hugtakið innherja­upplýsingar skilgreint. Með innherjaupplýsingum er átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru.

Nánari skilgreiningu er að finna í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Þar segir að líta skuli svo á að upplýsingar séu nægjanlega tilgreindar ef þær gefa til kynna aðstæður sem eru fyrir hendi eða sem ætla má að verði fyrir hendi eða atburð sem hefur átt sér stað eða sem ætla má að muni eiga sér stað. Upplýsingarnar verði þó að vera nægilega nákvæmar til að unnt sé að draga ályktun um möguleg áhrif þeirra aðstæðna eða atburðar á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga sem þeim tengjast. Í 3. mgr. 2. gr. segir að innherja­upplýsingar sem væru líklegar til að hafa marktæk áhrif á verð fjármálagerninga eða afleiddra fjármálagerninga, sem þeim tengjast, yrðu þær gerðar opinberar, séu þær upplýsingar sem líkur eru á að upplýstur fjárfestir noti sem hluta af þeim grunni sem hann byggir fjárfestingarákvarðanir sínar á.

Mun dómurinn því næst taka afstöðu til þess í hverjum ákærulið fyrir sig hvort um hafi verið að ræða innherjaupplýsingar, hvort þær hafi verið nægilega tilgreindar og nákvæmar, hvort þær hafi verið líklegar til að hafa marktæk áhrif og hvort upplýsingarnar hafi verið opinberar eða ekki.

I. ákæruliður. Sala 12. mars 2008.

             Ákæruvaldið byggir á því að ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum sem bárust honum á tímabilinu 4. mars til 12. mars 2008 með tölvupósti frá starfsmönnum Glitnis banka og á fundi fjárstýringar og áhættustýringar bankans þar sem lausafjár­staða bankans var rædd.

             Í fyrsta lagi er vísað til upplýsinga í tölvupóstsamskiptum 4. mars 2008 um versnandi lausafjárstöðu Glitnis banka hf. í erlendri mynt, erfiðleika bankans við að bæta þá stöðu og upplýsingar um þá óvissu sem ríkti í langtímafjármögnun bankans. Ákærði segir m.a. í tölvupósti að lausafjárstaðan í erlendri mynt væri orðin mjög döpur og bankinn væri farinn að reiða sig allt of mikið á „swap“ markaðinn hérlendis og verðlagningin á honum væri komin út úr öllu korti og að öðru óbreyttu myndi það hafa neikvæð áhrif á afkomu bankans. Ákærði veltir svo upp hugsanlegum skýringum á ástandinu: engin erlend langtímafjármögnun, samdráttur í erlendri skammtíma­fjármögnun, ádrættir á veltilánalínum sem bankinn hafi veitt o.fl. Ákærði segir jafnframt að þannig væri ansi margt sem legðist á eitt í þessum efnum og sárafátt sem ynni á móti þessu. Ákærði segir svo í öðrum tölvupósti þann dag að það þyrfti að fara að velja hverjum ætti að hjálpa og hverjum ekki og t.d. minnka hvað bankinn væri tilbúinn að lána hverjum, trappa þá niður og beina þeim annað. Þá segir ákærði í öðrum tölvupósti að hann mæti stöðuna þannig að búið væri að lána björgunarbát bankans nokkrum sinnum og „flotti nýji björgunarbáturinn er hálfkláraður í slipp (Citi línan)“.  

             Í öðru lagi vísar ákæruvaldið til upplýsinga sem komu fram á fundi fjárstýringar og áhættustýringar Glitnis banka 8. mars 2008. Þar segir að aðgengi bankans að óskuldbindandi peningamarkaðslánalínum hefði versnað umtalsvert, innstæður í útibúi bankans í London hefðu dregist saman um 400 milljónir evra og að bankinn væri mjög háður fjármögnun með endurhverfum viðskiptum.

             Í þriðja lagi er vísað til upplýsinga í tölvupóstsamskiptum 10. og 11. mars 2008 um versnandi lausafjárstöðu Glitnis banka. Í tölvupósti sem C sendi 10. mars segir að lausafjárstaðan væri töluvert betri í íslenskum krónum en í erlendri mynt og að heildarniðurstaðan yrði neikvæð 4. apríl að því gefnu að hægt væri að breyta íslenskum krónum í erlenda mynt. Með tölvupóstinum fylgdu tölulegar upplýsingar. Í tölvupósti D frá 11. mars segir að hún hafi endurmetið tiltækt lausafé og bætt upplýsingum á excel-skjal. Svo segir hún: „Þetta er ekki mjög uppörvandi.“ Um væri að ræða hlutafé hæft til hlutafjárskipta (master swap agreement), u.þ.b. 168 milljónir evra * 364 daga lína, 4 virkra daga ádráttartímabil: 100 milljón evrur. Ný lína, 20 virkra daga ádráttartímabil: 1000 milljón evrur. Það þyrfti að reyna að draga á Citi línuna en ekki væri ljóst hvað það tæki langan tíma: 450 milljónir, en það ætti ekki að treysta á að fá þetta fé fljótlega. Um lausafjársafn sagði að ekki væri ljóst hversu mikið væri hægt að selja eða eiga í endurhverfum viðskiptum með, né hversu langan tíma það tæki eða hversu mikilli skerðingu búast mætti við. Bankinn ætti í eins miklum endurhverfum viðskiptum við SÍ og hann gæti (20 milljarðar króna). Að lokum segir í tölvupóstinum að forsenda talna um lausafjárstöðu væri sú að hægt væri að auka endurhverf viðskipti við ECB úr 250 milljónum evra í 300 milljónir.

             Samkvæmt framansögðu bjó ákærði, vegna stöðu sinnar innan bankans, yfir upplýsingum um yfirvofandi lausafjárvanda bankans. Eins og fram kemur í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 2/2010, um bestu framkvæmd við lausafjár­stýringu fjármálafyrirtækja, er laust fé grundvallaratriði fyrir rekstrarhæfi sérhvers fjármálafyrirtækis. Stýring á lausafé sé þess vegna meðal þýðingarmestu starfsþátta í starfsemi fjármálafyrirtækis. Kemur þetta einnig fram í ársskýrslu Glitnis banka fyrir árið 2007, en þar segir varðandi áhættuáætlun að lausafjárstaðan skipti sköpum fyrir áframhaldandi rekstrarhæfi nokkurs banka og að markmið bankans væri að hafa á öllum tíma fulla stjórn á lausafjárstöðu sinni. Ákærði bar sjálfur hjá lögreglu um mikilvægi lausafjár, en hann sagði að það væri þekkt að lausafjárstaðan ein og sér gæti fellt hvers konar fyrirtæki sem væri. Þá sagði vitnið C fyrir dómi að innan bankans hefði ríkt mikill trúnaður um upplýsingar varðandi lausafjárstöðuna og þetta væru upplýsingar sem væru hvað viðkvæmastar og vandmeðfarnastar í öllum bönkum. Vitnið sagði jafnframt að í tölvupóstinum frá 10. mars hefði komið fram að bankinn hefði ekki verið í góðri stöðu og að hann hafi aðeins getað mætt því sem væri á gjalddaga einn mánuð fram í tímann. Einnig sagði vitnið að þessar upplýsingar hefðu ekki verið gerðar opinberar og þær hefðu aldrei verið opinberaðar með þessum hætti, þ.e. þær hefðu ekki verið jafn ítarlegar. Einnig sagði vitnið D fyrir dómi að upplýsingarnar í tölvupóstinum frá 10. mars hefðu verið viðkvæmar og trúnaður ríkt um þær.  

             Ákærði byggir á því að þetta ástand, sem hafi verið fyrir hendi í mars 2008, hafi mátt lesa úr ársskýrslu bankans fyrir árið 2007, en dómurinn fellst ekki á það. Markaðurinn bjó ekki yfir þeim nákvæmu upplýsingum sem ákærði hafði undir höndum, enda upplýsingar í ársreikningi um lausafé ekki settar fram á jafn nákvæman og ítarlegan hátt líkt og þær upplýsingar sem notast var við mat á lausafjárstöðu innan bankans. Þvert á móti var gefin jákvæð mynd af stöðu bankans í ársskýrslunni fyrir árið 2007. Þannig sagði í skýrslunni um horfur fyrir 2008 að þær örðugu aðstæður sem hefðu verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafi verið áfram til staðar í upphafi árs 2008, en Glitnir banki stæði vel að vígi til að standa af sér storminn, með hágæða eignagrunn og sterk eiginfjárhlutföll og lausafjárstöðu. Jafnframt sagði í skýrslunni: „Trúverðugleikakreppan sem Ísland og íslenskir bankar standi frammi fyrir þessa stundina endurspeglast í háu skuldatryggingarálagi og á að okkar mati ekki rétt á sér þegar tillit er tekið til áhættu landsins og fyrirtækja. Þetta lítur frekar út fyrir að vera þekkingarskortur sem er mikilvægt fyrir stjórnvöld og fjármálastofnanir bæti úr.“ Þá kom fram í ársskýrslunni að innlánsgrunnur í London væri meiri en 2 milljarðar evra en ákærða var í mars 2008 kunnugt að hann hefði dregist saman um 20%.

             Ákærði heldur því jafnframt fram að skuldatryggingarálag á bankann hafi sýnt slæma stöðu hans og hann hafi ekki búið yfir meiri upplýsingum en hafi endurspeglast í skuldatryggingarálagi. Þessu er hafnað enda er skuldatryggingarálag byggt á almennum viðhorfum (getgátum markaðarins) og endurspeglar væntingar og mat fjárfesta, en ákærði bjó hins vegar yfir viðkvæmum upplýsingum um lausafjárstöðu bankans, sem markaðurinn hafði ekki. Skuldatryggingarálag á Glitni banka, eins og það hefur verið á hverjum tíma, verður á engan hátt lagt að jöfnu við þær upplýsingar sem ákærði bjó yfir.

             Ákærði ber því einnig við að hann hafi hvorki vitað né átt að vita um eðli upplýsinganna og þetta hugtaksskilyrði komi ekki fram í ákærunni. Það beri því að sýkna hann. Ákvæði 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála áskilja ekki að í ákæru sé lýst huglægri afstöðu ákærða til þess verknaðar sem ákært er fyrir. Málatilbúnaður ákæruvaldsins miðast við að ásetningur hafi verið fyrir hendi og hefur vörn ákærða á engan hátt verið áfátt í þessu sambandi, en vörn hans hefur tekið mið af því að verjast sakargiftum um ásetningsbrot og gáleysisbrot. Með hliðsjón af stöðu ákærða, sem var forstöðumaður millibankamarkaðar í fjárstýringu Glitnis banka, menntun hans og reynslu telur dómurinn að ákærða hafi verið fullljóst eðli umræddra upplýsinga.

             Þá getur ákærði ekki borið því við að hann hafi ekki haft heildarsýn á stöðu bankans, þar sem hann hafi ekki haft yfirsýn yfir eignastöðuna, enda þykir dóminum sýnt á gögnum málsins að ákærði hafði innsýn inn í áætlanir bankans til að bæta lausafjárstöðu, s.s. með aðgerðum sem snúa að eignum bankans eða langtímafjármögnun. Þannig hvetur ákærði til samræmdra aðgerða stjórnenda innan bankans. Ákærði heldur því enn fremur fram að það veiki málatilbúnað ákæruvaldsins að sala á hlutabréfum í Glitni banka 14. maí 2008 hafi verið honum heimil og að einkahlutafélag hans hafi keypt hluti í bankanum 19. maí s.á., hafi hann talið að hlutabréf bankans yrðu svo gott sem verðlaus. Ekki er fallist á að þetta geti leitt til sýknu ákærða, enda var þarna um annan tíma að ræða, rannsókn leiddi ekki í ljós að ákærði hefði þá búið yfir innherjaupplýsingum, staða bankans var önnur og betri og ákærði bar ekki persónulega ábyrgð nema að óverulegu leyti vegna kaupanna 19. maí. Þá hefur það heldur enga þýðingu í máli þessu þótt ákærði hafi í gegnum árin selt hluti í nokkrum viðskiptum. Það skiptir heldur ekki máli hvort Glitnir banki hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni eða ekki, í samræmi við 122. gr. laga nr. 108/2007, enda verður upplýsingaskylda ekki virk um leið og innherjaupplýsingar myndast og heimilt er undir vissum kringumstæðum að fresta upplýsingaskyldu. Þá kunna atvik að valda því að upplýsingar sem teljast innherjaupplýsingar verða ekki birtar, s.s. vegna þess að aðstæður breytast og gera það ekki lengur nauðsynlegt að lögum að þær verði birtar.      

             Að mati dómsins höfðu framangreindar upplýsingar, sem ákæruvaldið vísar til, mikla þýðingu fyrir stöðu bankans og framtíðarhorfur. Þær voru nægilega tilgreindar og nákvæmar til að teljast innherjaupplýsingar, þær höfðu ekki verið gerðar opinberar og þær voru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa í Glitni banka ef opinberar væru. Með því að ákærði seldi hluti í Glitni banka 12. mars 2008, þrátt fyrir að búa yfir innherjaupplýsingum, hefur hann gerst sekur um innherjasvik og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

II. ákæruliður. Sala 3. og 9. apríl 2008.

             Ákæruvaldið byggir hér á því að ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum sem bárust honum með tölvupósti frá starfsmönnum Glitnis banka á tímabilinu 12. mars til 31. mars 2008 og sýndu slæma lausafjárstöðu bankans. Í ákæru eru þessar upplýsingar raktar í sex töluliðum.

             Í fyrsta lagi er vísað til tölvupóstsamskipta 12. mars um að fjármögnunarþörf Glitnis banka til eins mánaðar hefði aukist um rúmlega 1600 milljónir evra, lánsskuldbindingar hefðu aukist og handbært fé bankans hefði dregist saman um 515 milljónir evra. Í öðru lagi er vísað til upplýsinga í tölvupósti frá 14. mars um útstreymi fjármagns frá útibúi bankans í London, en þennan dag hafi innlán útibúsins dregist saman um 76 milljónir sterlingspunda. Í sama tölvupósti komi fram upplýsingar um að búist væri við því að Glitnir banki gæti ekki framlengt þau lán bankans sem voru að koma á gjalddaga (90 milljarðar króna næstu 30 daga) og að bankinn ætti í erfiðleikum með að útvega gjaldeyri til að standa við skuldbindingar sínar. Í þriðja lagi er um að ræða upplýsingar í minnisblaði frá 15. mars um að reiðufjárstaða bankans hefði versnað töluvert frá því í febrúar 2008 og að lánalína hjá bandaríska fjármálafyrirtækinu Citigroup, að fjárhæð 435 milljónir evra, stæði bankanum ekki lengur til boða. Í minnisblaðinu komi einnig fram upplýsingar um versnandi reiðufjárstöðu Glitnis banka dagana á undan. Í fjórða lagi er vísað til upplýsinga í tölvupóstsamskiptum 26. og 27. mars um slæma gjaldeyrisstöðu Glitnis banka. Í tölvupósti 26. mars segir ákærði m.a. að þessi strategía sem hafi verið spiluð á millibankaborðinu, þ.e. að  hugsa eingöngu um að missa ekki gjaldeyri út, væri mjög varasöm og dýr leið. Umræddan dag væru „langir gjaldeyri upp á 15 milljarða og við erum búnir að tapa 285 milljónum“ og það væri verið að þurrka út hagnað ársins á nokkrum klukkutímum með þessu. Forstjóri Glitnis banka brást við þessum tölvupósti með því að segja að í ljósi slakrar gjaldeyrisstöðu sæi hann ekki annað en að þeir neyddust til að halda áfram að kaupa gjaldeyri meðan unnið væri hörðum höndum að langtímafjármögnun. Í fimmta lagi er vísað til draga að fundargerð efnahagsnefndar bankans, dags. 26. mars, sem ákærði fékk send með tölvupósti 29. mars, en þar komi fram upplýsingar um slæma reiðufjárstöðu bankans og að eigið fé hans myndi ekki standa undir fjárþörf bankans samkvæmt innri markmiðum bankans. Að lokum er vísað til upplýsinga í tölvupósti frá 31. mars um að innistæður í útibúi Glitnis banka í London hefðu dregist saman um 440 milljónir sterlingspunda frá janúar 2008 og búast mætti við því að innistæðurnar drægjust saman enn frekar eða mögulega um 350 milljónir sterlingspunda. Í tölvupóstinum komi jafnframt fram upplýsingar um að stærstur hluti þeirra trygginga sem bankinn hygðist nota í endurhverfum viðskiptum við Englandsbanka væri ekki lengur nothæfar í viðskiptunum.

             Ákærði heldur því fram að á þessum tíma hafi legið fyrir nákvæmar upplýsingar um vanda Glitnis banka með lausafé, sem hafi verið opinberar. Ákærði vísar í þessu sambandi til þess að Glitnir banki hafi tilkynnt 1. apríl 2008 að Fitch hafi tekið lánshæfismat bankans til skoðunar með möguleika á lækkun. Þrátt fyrir það hafi ekki orðið neinar breytingar í verði hlutafjár og skuldatryggingarálagi bankans. Ákærði byggir einnig á því að í mars 2008 hafi stór fjármálafyrirtæki um allan heim staðið tæpt og skuldatryggingarálag á Glitni banka hafi þróast með svipuðum hætti og iTraxx vísitalan, sem mæli verð á skuldatryggingum fjármálafyrirtækja. Af þeirri þróun megi sjá að væntingar til greiðslufalls Glitnis banka hafi aukist jafnt og þétt og náð hámarki 31. mars 2008, en svo farið lækkandi. Þá hafi verð á hlutum í Glitni banka sveiflast mikið á umræddu tímabili, en það sýni að erfitt sé að segja til um hvort upplýsingarnar hefðu haft marktæk áhrif. Ákærði telur að upplýsingarnar sem ákæruvaldið vísar til hefðu ekki skipt neinu máli og þær hafi varðað ástand sem hafi verið gengið yfir. Þá byggir ákærði á því að samkvæmt uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung 2008 hafi lausafjárstaða Glitnis banka batnað nokkuð og þannig hafi markaðurinn í byrjun apríl talið lausafjárstöðu bankans verri en hún hafi reynst vera. Umrætt uppgjör var birt 7. maí 2008, um mánuði eftir viðskipti ákærða í umræddum tölulið, og hefur því enga þýðingu við mat á því hvort ákærði hafi búið yfir innherjaupplýsingum þegar viðskiptin fóru fram.

             Þau atriði sem ákærði teflir hér fram verða engan veginn lögð að jöfnu við þær upplýsingar sem fram komu í umræddum tölvupósti og ákærði bjó yfir vegna stöðu hans í bankanum. Upplýsingarnar komu frá yfirstjórn bankans og sérfræðingum hans og sýndu minnkandi innlán og slæma lausafjárstöðu Glitnis banka, en eins og áður segir er sá þáttur afar þýðingarmikill í rekstri fjármálafyrirtækis. Þetta slæma ástand var ekki yfirstaðið er ákærði átti umrædd viðskipti. Viðbrögð yfirstjórnar bankans við þessum upplýsingum sýna vel hvað staða Glitnis banka var alvarleg, en fram hefur komið að forstjóri bankans átti um þetta leyti fund í Seðlabanka Íslands um stöðu Glitnis banka. Ekki er fallist á með ákærða að afturköllun á lánalínunni frá Citigroup hafi ekki haft marktæk áhrif þar sem lausafjárstaðan hafi verið bætt í janúar 2008 með nýrri lánalínu frá Deutsche Bank upp á 1 milljarð evra, enda kemur fram í minnisblaðinu frá 15. mars 2008 að hún hafi átt að vera „algjörlega það síðasta sem yrði notað vegna slæmra skilaboða sem þetta sendir.“ Eins og vitnið F orðaði það fyrir dómi þá var þetta ekki skemmtileg staða fyrir Glitni banka og fram kom hjá vitninu A að það þótti ástæða til að skýra stjórn bankans frá því að lánalínan frá Citigroup væri ekki lengur fyrir hendi. Þá skiptir það ekki heldur máli að Glitnir banki hafi getað notað veðin sem voru að baki lánalínunni frá Citigroup í viðskiptum við Seðlabanka Íslands þar sem þá hefði verið um að ræða fjármögnun í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldeyri, en lausafjárstaðan í erlendri mynt var Akkilesarhæll bankans.

             Ákærða hlaut að vera ljóst að upplýsingarnar, sem ákæruvaldið vísar til, voru viðkvæmar, að um þær ríkti trúnaður og hann taldi stöðuna greinilega alvarlega, en áhyggjur ákærða koma skýrt fram m.a. í tölvupósti 31. mars 2008 þar sem hann greinir frá synjun Svenska Handels um viðskipti og segir að fokið væri í flest skjól og ekki væri mikið traust eftir.

             Dómurinn telur ótvírætt að framangreindar upplýsingar hafi verið nægilega tilgreindar og nákvæmar til að teljast innherjaupplýsingar. Þær höfðu ekki verið gerðar opinberar og þær voru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa í Glitni banka ef opinberar væru. Að þessu virtu og með vísan til þess sem áður segir í niðurstöðu um I. ákærulið, eftir því sem við á, er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í II. ákærulið og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

III. ákæruliður. Sala 17. og 18. september 2008.

             Í þessum ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa selt hluti í Glitni banka þrátt fyrir að hafa búið yfir innherjaupplýsingum sem bárust honum með tölvupósti á tímabilinu 26. ágúst til 15. september 2008 og sýndu slæma lausafjárstöðu bankans, sbr. töluliði 1-4 í III. ákærulið. 

             Í fyrsta lagi er vísað til tölvupóstsamskipta 26. og 27. ágúst um áhyggjur forstjóra Glitnis banka af gjaldeyrisstöðu bankans, en útflæði gjaldeyris frá bankanum var 60 milljónir evra þann 26. ágúst. Í öðru lagi er um að ræða upplýsingar í tölvupóstsamskiptum 2. og 4. september um mikið útflæði erlends gjaldeyris frá Glitni banka og erfiðleika bankans við að framlengja endurhverf viðskipti á sama tíma og tveir stórir gjalddagar vegna lánsskuldbindinga bankans nálguðust. Í þriðja lagi er vísað til upplýsinga í tölvupóstsamskiptum 11. september um að Straumur Fjárfestingar­banki hf. hefði fært öll reikningsviðskipti sín frá Glitni banka til erlendra banka, en innistæður Straums hjá Glitni banka námu þá um 172 milljónum evra, 30 milljónum Bandaríkjadala og 90 milljónum sænskra króna. Í fjórða og síðasta lagi er vísað til upplýsinga í tölvupósti frá 15. september um erfiðleika Glitnis banka við að fjármagna sig eftir fall bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers Holdings Inc. sama dag. Í póstinum komi fram að Glitnir banki gæti átt von á að þurfa að greiða 70 milljónir evra til breska fjármálafyrirtækisins Barclays PLC vegna yfirvofandi veðkalls. Jafnframt þyrfti Glitnir banki að greiða 13 milljónir evra vegna veðkalla í endurhverfum samningsviðskiptum og 12 milljónir evra til sænska fjárfestingar­bankans Carnegie þar sem bankinn tæki ekki lengur hlutabréf í Kaupþingi banka hf. sem tryggingu.

             Ákærði mótmælir því að um innherjaupplýsingar hafi verið að ræða og hann heldur því fram að upplýsingar um erfiðleika Glitnis banka, s.s. útflæði gjaldeyris í bankanum og erfiðleikar við að framlengja endurhverf viðskipti, geti ekki hafa komið markaðinum á óvart. Einnig heldur ákærði því fram að umræddar upplýsingar hefðu ekki haft marktæk áhrif. Máli sínu til stuðnings vísar ákærði til uppgjörs Glitnis banka 30. júní 2008 þar sem fram komi að lausafjárstaða bankans hefði versnað á öðrum ársfjórðungi, hæfar eignir til endurhverfra viðskipta hefðu lækkað, endurgreiðslugat bankans hefði breyst talsvert og innistæður frá viðskiptavinum lækkað. Þrátt fyrir þetta hefðu fjárfestar ekki brugðist við með afgerandi hætti og skuldatryggingarálag á Glitni banka enn verið hátt. Umrætt uppgjör var birt 1. ágúst 2008, um einum og hálfum mánuði áður en ákærði átti þau viðskipti er um ræðir í III. ákærulið og varðar þannig annað tímabil. Einnig ber að líta til þess að forstjóri bankans sagði opinberlega í tengslum við þetta uppgjör að „lausafjárstaða bankans er góð“ en það er allt önnur mynd en blasti við ákærða í þeim upplýsingum sem hann bjó yfir er hann átti umrædd viðskipti. Með vísan til þess sem áður segir um skuldatryggingarálag, í niðurstöðu um I. ákærulið, er heldur ekki fallist á það með ákærða að upplýsingar þær sem ákæruvaldið vísar til verði ekki taldar innherjaupplýsingar vegna þess að skuldatryggingarálag á Glitni banka hafi verið hátt. Þá getur ákærði líkt og áður ekki byggt á því að hann hafi ekki haft heildarmynd af stöðu bankans.

             Dómurinn telur að þær upplýsingar sem ákæruvaldið vísar til í 1. tölulið umrædds ákæruliðar séu einar og sér ekki nægilega nákvæmar eða líklegar til að hafa marktæk áhrif þannig að þær teljist innherjaupplýsingar. Það sama má segja um upplýsingar sem komu fram í tölvupóstsamskiptum í byrjun september. Þegar horft er á þessar upplýsingar í samhengi við upplýsingarnar frá 11. og 15. september verður hins vegar að telja að þær hefðu, til viðbótar við þær upplýsingar, haft marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa í Glitni banka, þ.e.a.s. haft svokölluð mósaík-áhrif. Upplýsingarnar teljast því innherjaupplýsingar, enda voru þær ekki opinberar. Upplýsingar um að Straumur Fjárfestingarbanki hf. hefði fært umfangsmikil reikningsviðskipti sín frá Glitni banka voru nægilega tilgreindar og nákvæmar til að teljast innherjaupplýsingar. Um var að ræða viðkvæmar upplýsingar og var ákærða það ljóst, eins og fram kemur í tölvupósti hans frá 11. september þar sem hann vildi að umræðurnar um Straum væru ræddar í þrengri hóp þar sem aldrei væri að vita „hvernig fólk túlkar upplýsingarnar og hvað það gerir við þær“. Tölvupóstur eins starfsmanns sama dag styður þetta enn fremur, en hann segir að þetta mál væri nógu viðkvæmt fyrir og mikilvægt væri að „halda kúlinu út á við“. Að mati dómsins voru þessar upplýsingar til þess fallnar að hafa marktæk áhrif, enda var hætta á því að aðrir viðskiptavinir tækju út innistæður sínar í bankanum ef þessar upplýsingar hefðu verið opinberar. Hvað varðar upplýsingar í tölvupósti 15. september þá hafði fall Lehman Brothers Holdings Inc. sama dag vissulega neikvæð áhrif á fjármálamarkaði. Ákærði bjó hins vegar yfir tilgreindum og nákvæmum upplýsingum um yfirvofandi veðköll, sem markaðurinn hafði ekki og hefðu án efa haft marktæk áhrif á hlutabréf í Glitni banka. Vitnisburður C styður þetta, en vitnið sagði um tölvupóst G frá 15. september 2008 að það hefði verið almenn vitneskja að lausafjárstaða á fjármálamörkuðum hafi verið slæm, en vitneskja í jafn miklum smáatriðum og fram kom í tölvupóstinum hefði ekki verið almenn. Samkvæmt öllu framansögðu bjó ákærði yfir innherjaupplýsingum er hann átti þau viðskipti er um ræðir í III. ákærulið og hefur hann gerst sekur um brot gegn 1. tölulið 1. mgr. 123. gr., sbr. 3. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Refsing, upptaka og sakarkostnaður.

             Ákærði er fæddur í nóvember 1976. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að refsiákvæðum vegna innherjasvika er ætlað að vernda mikilvæga hagsmuni, virkni fjármálamarkaða og tiltrú fjárfesta á þeim. Einnig ber að líta til þeirrar fjárhæðar sem um ræðir, en ákærði seldi hlutabréf fyrir rúmar 20 milljónir króna. Ákærði heldur því fram að rannsókn málsins hafi dregist úr hófi. Eins og áður hefur komið fram verður ekki ráðið af gögnum málsins hvort dráttur hafi orðið á málinu hjá Fjármálaeftirlitinu, en málið hefur verið rekið með eðlilegum hraða hjá sérstökum saksóknara. Að þessu virtu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 279/2011 eru ekki efni til að lækka refsingu vegna dráttar á málsmeðferð. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði. Með hliðsjón af nauðsyn varnaðaráhrifa í málum sem þessum kemur ekki til álita að skilorðsbinda refsingu ákærða.

             Ákæruvaldið krefst þess að ákærði sæti upptöku á 19.200.926 krónum, þ.e. ávinningi hans eftir skatta af sölu hlutabréfa í Glitni banka, að frádregnum kostnaði við söluna. Söluandvirði hlutabréfanna að frádregnum kostnaði hafi verið 20.076.345 krónur og skattur af því hafi numið 875.419 krónum. Undir rekstri málsins voru lögð fram gögn frá sýslumanni, dags. 5. október 2012, um endurupptöku á kyrrsetningu sem fór fram 30. maí 2011 í tilteknum eignum ákærða og lýst er í ákæru málsins. Samkvæmt endurriti úr gerðabók sýslumanns voru hinn 5. október 2012 felld niður öll réttindi samkvæmt kyrrsetningu sem gerð var 30. maí 2011, en eignarhlutur ákærða í fasteigninni [...], Kópavogi, skyldi áfram kyrrsettur til tryggingar kröfu að fjárhæð 21.000.000 króna. Með vísan til 2. mgr. 147. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður fallist á upptökukröfu ákæruvaldsins, eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.

             Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað málsins, en um er að ræða þóknun verjanda. Ekki liggur fyrir tímaskýrsla verjanda. Með hliðsjón af umfangi málsins og tilkynningu dómstólaráðs nr. 1/2010 um viðmiðunarreglur fyrir héraðsdómstólana í sakamálum þykir þóknun verjanda hæfilega ákveðin 2.000.000 króna, að meðtöldum virðisaukaskatti.

             Dóm þennan kveða upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari, Jón Höskuldsson héraðsdómari og J. Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi.

D ó m s o r ð:

             Ákærði, Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, sæti fangelsi í tólf mánuði.

             Ákærði sæti upptöku á 19.200.926 krónum sem er hluti af andvirði eignarhluta hans í fasteigninni [...], Kópavogi, fastanúmer [...], sem kyrrsettur var 5. október 2012.

             Ákærði greiði í sakarkostnað þóknun verjanda síns, Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 2.000.000 króna.