Hæstiréttur íslands
Mál nr. 227/2013
Lykilorð
- Samkeppni
- Skaðabætur
- Fyrning
|
|
Fimmtudaginn 24. október 2013. |
|
Nr. 227/2013.
|
Íslenska ríkið (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Olíuverzlun Íslands hf. og (Eyvindur Sólnes hrl.) Skeljungi hf. (Hörður F. Harðarson hrl.) |
Samkeppni. Skaðabætur. Fyrning.
Í krafðist skaðabóta vegna tjóns sem það taldi sig hafa orðið fyrir vegna ólögmæts samráðs O hf. og S hf. um verð sem félögin buðu í útboðum á árunum 1994 til 2001. Taldi Í að samráðið hefði komið í veg fyrir fjárhagslegt hagræði af samkeppnisútboðunum, en búast hefði mátt við að þau leiddu til lægra verðs en Í hefði áður greitt. O hf. og S hf. töldu kröfu Í vegna viðskiptanna vera fyrnda, en töldu allt að einu að Í hefði ekki sýnt fram á tjón sitt. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti með vísan til forsendna, kom m.a. fram að fyrningu kröfunnar hefði verið slitið við málshöfðun 29. desember 2011. Líta yrði svo á að skaðabótakrafan hefði orðið gjaldkræf samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda þegar einstök viðskipti hefðu átt sér stað, en ekki þegar Í fékk upplýsingar um hið ólögmæta samráð. Yrði því að líta svo á að allar kröfur Í, sem ættu rætur að rekja til viðskipta sem áttu sér stað fyrir 29. desember 2001, eða tíu árum fyrir höfðun málsins, væru fyrndar. Þá þótti ósannað að tvær færslur úr bókhaldi S hf. um viðskipti eftir framangreint tímamark væru til marks um að V hefði átt viðskipti við S hf. eftir þann tíma þannig að Í gæti krafist skaðabóta á grundvelli þeirra viðskipta. Voru O hf. og S hf. því sýknuð af kröfu Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. apríl 2013. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 39.923.703 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. janúar 2008 til 2. september 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda Olíuverzlun Íslands hf. verði gert að greiða sér 13.706.809 krónur og stefnda Skeljungi hf. gert að greiða sér 26.216.894 krónur með vöxtum eins og áður greinir, en að því frágengnu að stefndu verði óskipt dæmdir til að greiða sér aðra lægri fjárhæð með sömu vöxtum. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi Olíuverzlun Íslands hf. krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi Skeljungur hf. krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Olíuverzlun Íslands hf. og Skeljungi hf., hvorum fyrir sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2013.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 27. nóvember sl., er höfðað 29. desember 2011 af fjármálaráðherra og innanríkisráðherra vegna íslenska ríkisins, Arnarhvoli í Reykjavík, gegn Olíuverslun Íslands hf., Höfðatúni 2 í Reykjavík, og Skeljungi hf., Borgartúni 26 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu greiði sér óskipt 39.923.703 krónur að viðbættum vöxtum af stefnufjárhæð samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. janúar 2008 til 2. september 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. september 2011 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi, Olíuverslun Íslands hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 13.706.809 krónur og stefndi, Skeljungur hf., verði dæmdur til að greiða stefnanda 26.216.894 krónur. Til þrautavara krefst stefnandi bóta að álitum úr hendi stefndu óskipt með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. janúar 2008 til 2. september 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. september 2011 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati réttarins.
Stefndi, Olíuverslun Íslands hf., krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar á dómkröfum hans. Þá krefst félagið málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Stefndi, Skeljungur hf., krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara krefst félagið lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
II.
Málavextir eru þeir að á árunum 1994 til 2001 óskaði Vegagerðin árlega eftir tilboðum frá stefndu í leysiefnið White Spirit sem hún notar sem íblöndunarefni í asfalt. Fór Vegagerðin fram á að efnið yrði afhent á geyma stofnunarinnar á Ísafirði, Reyðarfirði og Akureyri. Árið 1999 bættist síðan Sauðárkrókur við. Farið var fram á verðtilboð í White Spirit, komið í geyma á hverjum stað fyrir sig. Gögn málsins bera með sér að stefndi, Olíuverslun Íslands hf., hafi boðið lægsta verðið á Akureyri árin 1994 til 1996 og árin 1998 til 2001. Stefndi Skeljungur bauð hins vegar lægst verð á Ísafirði og Reyðarfirði árin 1994 til 1996 og á sömu stöðum árin 1998 til 2001 sem og á Sauðarkróki 1999 til 2001. Árið 1997 var þessu öfugt farið. Þá bauð stefndi Skeljungur lægsta verð á vörinni á Akureyri, en stefndi Olíuverslun Íslands hf. á Ísafirði og Reyðarfirði.
Hinn 18. desember 2001 hóf Samkeppnisstofnun rannsókn á því hvort stefndu og önnur olíufélög hefðu haft með sér ólögmætt samráð í viðskiptum og með því brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga nr. 8/1993. Rannsókninni lauk með ávörðun 28. október 2004, nr. 21/2004. Í ákvörðuninni er meðal annars fjallað um sölutilboð stefndu í White Spirit til Vegagerðarinnar á árunum 1994 til 2001. Þar er enn fremur gerð grein fyrir tilteknum gögnum sem tengjast þessum viðskiptum sem aflað hafði verið hjá stefnda, Olíuverslun Íslands. Þá er þar vísað til skýrslu fyrrum framkvæmdastjóra fjármálasviðs Olíuverslunar Íslands hf., sem hann gaf hjá Samkeppnisstofnun, þar sem hann kvað félögin hafa ákveðið saman söluverð á vörunni og haft með sér samráð um tilboðsgerðina. Í ákvörðun Samkeppnisstofnunar er síðan dregin eftirfarandi ályktun: „Samkeppnisráð telur að framangreind niðurstaða útboðanna, virt með öðrum gögnum málsins, sýni að Skeljungur og Olís hafi skipt með sér þessum viðskiptum þannig að Skeljungur fengi þá staði þar sem yfirleitt voru meiri viðskipti. Þetta hefur væntanlega helgast m.a. af því að Skeljungur var umsvifameiri í WS viðskiptum. Þegar svo bar við árið 1997 að mun meira magn var boðið út á Akureyri hafi Skeljungur fengið þau viðskipti í samræmi við samkomulag félaganna. / Samkeppnisráð telur að þessu samstarfi Skeljungs og Olís hafi lokið seinni hluta árs 2001. Á þeim tíma snéri Olís sér til annars birgja og samstarfi félaganna um innflutning og birgðahald lauk. Afleiðing þessa birtist í útboði Vegagerðarinnar 2002. Þá bauð Olís mun lægra verð og tókst að ná öllum viðskiptum með WS við Vegagerðina. Þessi grundvallarbreyting sem varð við lok samstarfs Skeljungs og Olís um innkaup á WS styður enn frekar að félögin hafi í útboðunum þar á undan haft með sér samráð.“ Þá var talið að þessar aðgerðir stefndu, Olíufélags Íslands hf. (Olís) og Skeljungs, varðandi útboð Vegagerðarinnar hefðu verið hluti af samfelldu samráði olíufélaganna. Með ákvörðun Samkeppnisráðs var þeim, ásamt öðrum olíufélögum, gert að greiða stjórnvaldssektir í ríkissjóð.
Stefndu kærðu framangreinda ákvörðun til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Hún kvað upp úrskurð í málinu 29. janúar 2005. Í úrskurðinum er meðal annars vikið að þessum viðskiptum. Þar er fjallað um tölvugögn sem lágu fyrir í málinu frá stefndu og talið að þau væru þess eðlis að óhætt væri að fullyrða að þeir hefðu haft með sér ólöglegt samráð um tilboðsgerð á árunum 1995 til 2001 í tengslum við útboð Vegagerðarinnar á White Spirit. Þær skýringar stefnda Skeljungs sem hefðu komið fram þættu ekki breyta þessari niðurstöðu. Hins vegar skorti gögn um samráð á árinu 1994 og því voru stefndu ekki fundnir sekir um ólögmætt samráð á því ári.
Stefndu ásamt Keri hf. höfðuðu mál gegn samkeppnisráði 29. júní 2005 og kröfðust meðal annars ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2012 var úrskurðurinn felldur úr gildi. Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Með bréfum 18. ágúst 2006 var af hálfu stefnanda farið fram á að stefndu viðurkenndu skaðabótaskyldu sína gagnvart stefnanda vegna þessa og annarra brota á samkeppnislögum. Jafnframt var þess krafist að félögin afhentu gögn um innkaupsverð þeirra vöruflokka sem umrædd útboð náðu til. Stefndu höfnuðu bótaskyldu og urðu ekki við beiðni um afhendingu umbeðinna upplýsinga.
Hinn 27. mars 2009 óskaði stefnandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta tjón stefnanda vegna samráðs stefndu í framangreindum útboðum Vegagerðarinnar. Þann 22. maí 2009 voru dómkvaddir þeir Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, og Sveinn Agnarsson, sérfræðingur við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, til að framkvæma umbeðið mat.
Með matsgerð 5. desember 2010 komust dómkvaddir matsmenn að þeirri niðurstöðu að fjárhagslegt tjón stefnanda er hlotist hefði af samráði stefndu í framangreindum útboðum vegna kaupa Vegagerðarinnar á White Spirit næmi samtals 39.923.703 krónur á verðlagi hvers árs, árin 1995-2001.
Þann 2. ágúst 2011 sendi stefnandi stefndu kröfubréf samkvæmt niðurstöðum dómkvaddra matsmanna. Stefndi Skeljungur svaraði kröfubréfinu og hafnaði því að greiða stefnanda skaðabætur.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að stefndu hafi brotið gegn 10. gr. þágildandi samkeppnislaga við fyrrnefnd útboð Vegagerðarinnar. Til sönnunar á því og bótagrundvelli stefnanda vísar hann til ákvörðunar samkeppnisráðs og úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Stefnandi telur að ólögmætt samráð stefndu hafi komið í veg fyrir fjárhagslegt hagræði af samkeppnisútboðum vegna kaupa á White Spirit á árunum 1995 til 2001. Búast hefði mátt við að samkeppni um viðskiptin leiddi til lægra verðs en stefnandi hafði áður greitt. Vegna hins ólögmæta samráðs hafi stefnandi því ekki haft neinn ávinning af þessum útboðum. Af þessum sökum telur stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni. Til sönnunar á skaðlegum áhrifum samráðsins á útboð Vegagerðarinnar vísar stefnandi til matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna. Þá liggi fyrir að eftir að hinu ólögmæta samráði lauk árið 2002 hafi stefndu boðið mun lægra verð en áður. Það sýni að hið ólögmæta samráð hafi leitt til þess að stefnandi hafi þurft að greiða mun hærra verð fyrir vöruna á árunum 1995 til 2001.
Stefnandi kveður aðild sína að þessari fjárkröfu á hendur stefndu byggjast á því að Vegagerðin sé rekin sem stofnun á fjárlögum íslenska ríkisins. Hærri rekstrarkostnaður hennar leiði óhjákvæmilega til aukins fjárframlags úr ríkissjóði og samsvarandi fjártjóns stefnanda.
Stefnandi kveður skaðabótakröfu sína byggjast á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Stefndu og starfsmenn stefndu hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að hafa samráð sín á milli við gerð tilboða í útboðum Vegagerðarinnar árin 1995-2001. Þá sé ljóst að verð á White Spirit til stefnanda hafi ekki lækkað eftir útboðin eins og gerst hefði í raunverulegu samkeppnisútboði. Stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna samráðs stefndu og telur hann fjártjónið afleiðingu samráðsins. Öll skilyrði skaðabótaábyrgðar stefndu séu því uppfyllt.
Í ljósi þess að stefndu hafi viðhaft samráð og brotið gegn samkeppnislögum og eðlilegum viðskiptaháttum telur stefnandi að félögin beri sameiginlega og óskipta skaðabótaábyrgð á því tjóni er samráð þeirra hafi valdið stefnanda. Þau hafi bæði tekið þátt í samráðinu og samráð þeirra beggja við tilboðsgerð hafi þurft til að útboð stefnanda nýttist ekki. Á þessu er aðalkrafa stefnanda reist. Stefnandi telur framangreinda reglu samkeppnisréttar og skaðabótaréttar um samfelld brot vera í samræmi við þá viðteknu og óumdeildu meginreglu skaðabótaréttar að þegar fleiri en einn beri skaðabótaábyrgð á tilteknu tjóni þá beri þeir óskipta (þ.e. solidariska) ábyrgð gagnvart tjónþola. Gagnvart tjónþola skipti hlutdeild hvors tjónvalds í brotinu engu máli. Ekki þjóni neinum tilgangi að sundurgreina þátt hvors tjónvalds þegar brotið er afmarkað, heldur beri að líta á hina ólögmætu háttsemi stefndu sem samfellda háttsemi sem stefndu beri báðir óskipta bótaábyrgð á gagnvart stefnanda.
Stefnandi kveður kröfu sína ekki fyrnda. Hann bendir á að skaðabótakrafa hans fyrnist á 10 árum, sbr. þágildandi 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Hann byggir á því að upphaf fyrningarfrests skaðabótakrafna utan samninga miðist við þann dag er tjónþoli hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt og þá aðila sem ábyrgir séu fyrir því. Upphafstími fyrningar skaðabótakröfu stefnanda hefjist ekki þegar brot stefndu á samkeppnislögum hafi átt sér stað enda hafi stefnandi þá ekki haft neina vitneskju um samráð stefndu og brot þeirra á samkeppnislögum og eðlilegum viðskiptaháttum, hvað þá um tjón sitt af þessum aðgerðum. Upphafstími fyrningar hefjist heldur ekki þegar brot stefndu hafi verið tekin til rannsóknar árið 2001, enda hafi niðurstaða rannsóknar þá ekki legið fyrir hjá samkeppnisyfirvöldum eða annars staðar.
Stefnandi vísar og til þess að skaðabótakrafa sín á hendur stefndu sé reist á stórfelldum ásetningsbrotum forsvarsmanna stefndu gagnvart stefnanda, brotum sem stefndu hafi lagt mikið á sig til að halda leyndum. Einungis æðstu fyrirsvarsmenn stefndu hafi vitað og mátt vita um þessi brot. Leyndin hafi verið slík að ekki einu sinni aðrir stjórnendur stefndu, hvað þá almennir starfsmenn, hafi vitað eða getað vitað um brotin. Því sé eðlilegt að fyrningarfrestur hefjist ekki við brotin sjálf. Brot stefndu á samkeppnislögum stóðu yfir í langan tíma og hafi þeim ekki linnt fyrr en með rannsókn samkeppnisyfirvalda. Vegna þessa aðdraganda og eðlis brotanna hefjist fyrningarfrestur ekki fyrr en stefnandi hafi haft vitneskju um hugsanlegt tjón sitt, þ.e. með ákvörðun samkeppnisráðs 28. október 2004. Fyrr hafi stefnandi enga vitneskju haft um brot stefndu og heldur ekki neina möguleika á að afla gagna um tjón sitt eða reikna það út. Samráð stefndu og umfang tjóns stefnanda hafi þannig ekki orðið ljóst fyrr en með ákvörðun samkeppnisráðs nr. 21/2004 28. október 2004. Krafa stefnanda sé því ekki fyrnd.
Stefnandi kveðst byggja á almennum reglum skaðabótaréttar utan samninga, einkum sakarreglunni og reglum um óskipta ábyrgð tjónvalda. Þá byggir stefnandi á sjónarmiðum skaðabótaréttar um sönnun við aðstæður líkar þeim sem hér séu uppi, einkum að því er varði vægari kröfur um sönnun á orsakatengslum og sennilegri afleiðingu. Í ljósi hinna grófu og ólögmætu ásetningsbrota stefndu, sem hafi sérstaklega verið beint að stefnanda í þeim tilgangi að valda honum tjóni, sé sanngjarnt og eðlilegt að sönnunarbyrðin um þau atriði, sem og fjárhæð tjóns stefnanda, hvíli á stefndu, verði yfirleitt einhver vafi talinn leika á um þau.
Stefnandi kveður stefnufjárhæðina reista á matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra Gylfa Zoëga og Sveins Agnarssonar, dags. 5. desember 2010. Vísað sé til forsendna og niðurstöðu matsmanna við útreikning á tjóni stefnanda. Dómkvaddir matsmenn telji að stefnandi hafi greitt mun hærra verð fyrir hvern lítra af White Spirit vegna samráðs stefndu árin 1995-2001. Fjárhagslegt tjón stefnanda vegna samráðs stefndu í framangreindum útboðum vegna kaupa Vegagerðarinnar á vörunni sé metið samtals 39.923.703 krónur á verðlagi hvers árs. Það sé stefnukrafan auk vaxta.
Varakrafa stefnanda tekur mið af því að skaðabótaábyrgð stefndu sé skipt, en hún er að öðru leyti reist á fyrrgreindri matsgerð og þeim sjónarmiðum sem aðalkrafan byggist á.
Þrautavarakröfu sína kveður stefnandi vera reista á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa um samráð stefndu, en hún sé höfð uppi verði ekki fallist á forsendur dómkvaddra matsmanna fyrir fjárhæð aðalkröfunnar. Í skaðabótamálum, þar sem erfitt sé að staðreyna nákvæmlega tjón þeirra sem samkeppnisbrot beinist að, hafi dómstólar dæmt bætur að álitum. Dómstólar hafi talið tjón sannað og dæmt bætur þrátt fyrir óvissu um hver fjárhæð bóta skuli nákvæmlega vera. Stefnandi hafi því uppi varakröfu verði ekki fallist á aðalkröfuna. Stefndu hafi hagnast á samráði sínu og hafi með því valdið stefnanda tjóni. Fallist dómurinn ekki á að tjónið hafi numið þeirri fjárhæð sem greini í aðalkröfu, krefst stefnandi þess að dómurinn leggi mat á fjárhæð skaðabóta og ákvarði bætur að álitum.
Vaxtakrafa stefnanda er reist á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Almennra vaxta á skaðbótakröfur sé krafist frá 12. janúar 2008 til 2. september 2011, þ.e. fjórum árum fyrir þingfestingu málsins, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 þegar mánuður var liðinn frá kröfubréfi stefnanda til stefndu. Þá hafi legið fyrir öll gögn sem stefndu hafi þurft til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.
Málskostnaðarkröfu sína kveður stefnandi byggjast á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
2. Málsástæður og lagarök stefnda, Olíuverslunar Íslands hf.
Stefndi, Olíuverslun Íslands hf., kveður stefnanda einungis byggja kröfugerð sína á ákvörðun samkeppnisráðs nr. 21/2004 og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 3/2004. Héraðsdómur hafi með dómi 22. mars 2012 fellt úr gildi umræddan úrskurð áfrýjunarnefndar vegna verulegra annmarka á málsmeðferð samkeppnisyfirvalda. Stefndi telur að sönnun um háttsemi hans verði ekki byggð á rannsókn eða hugmyndum samkeppnisyfirvalda, sem dæmdar hafa verið verulegum annmörkum háðar. Sú fortakslausa skylda hvíli á stefnanda að sanna að stefndi hafi gerst sekur um brot gagnvart stefnanda sem leitt hafi til tjóns fyrir hann. Sönnunarfærsla um að stefndu hafi gerst brotlegir sé engin í málatilbúnaði stefnanda. Einungis sé vísað til skýrslu samkeppnisyfirvalda. Málið sé því vanreifað.
Stefndi byggir á því að kröfur stefnanda á hendur stefndu vegna einstakra viðskipta málsaðila fram til 29. desember 2001 séu fyrndar. Þessu til stuðnings vísar stefndi til þess að Hæstiréttur hafi fjallað um kröfu Vestmannaeyjabæjar á hendur stefndu í máli nr. 244/2009 vegna meints samráðs. Þar hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að krafa bæjarfélagsins væri fyrnd að því leyti sem liðin voru við höfðun málsins 10 ár eða lengri tími frá því að einstök viðskipti aðilanna um eldsneyti voru gerð. Stefndi kveður Hæstarétt hafa með þessu markað skýra afstöðu til fyrningar bæði hvað varði upphafstíma og að rof fyrningar yrði ekki fyrr en við málshöfðun. Þetta fordæmi Hæstaréttar taki af öll tvímæli um að allar kröfur, hafi þær á annað borð verið réttlætanlegar, vegna viðskipta fyrir 29. desember 2001, séu fyrndar.
Enn fremur er á því byggt af hálfu stefnda að tómlæti stefnanda eigi að leiða til þess að kröfur stefnanda nái ekki fram að ganga. Dráttur á málarekstri þessum sé með þeim ólíkindum að kröfur stefnanda á hendur stefnda vegna viðskipta málsaðila, verði talið að til þeirra hafi stofnast, hljóti að vera niður fallnar fyrir tómlætis sakir.
Stefnandi áréttar að ekki hafi verið lögð fram önnur gögn til sönnunar á bótaskyldri háttsemi stefndu en ákvörðun Samkeppnisráðs og úrskurður úrskurðarnefndar samkeppnismála. Hann tekur fram að sundurlaus gögn frá stefnda sýni að samskipti hafi verið um viðskiptin með White Spirit, enda hafi stefndi, Skeljungur hf., annast innflutning og geymslu á vörunni, en stefndi, Olíuverslun Íslands hf., hafi keypt þá þjónustu af stefnda Skeljungi. Því hafi verið óhjákvæmilegt að talsverð samskipti væru milli félaganna vegna þessara viðskipta. Hugmyndum Samkeppnisstofnunar um að ólöglegt samráð hafi verið milli félaganna vegna þessara viðskipta hafi verið hafnað af öllum sem hlut hafi átt að máli. Ein undantekning sé þar á, en það sé framburður Kristjáns B. Ólafssonar, fyrrverandi fjármálastjóra Olíuverslunar Íslands hf. Þann framburð telur stefndi að skoða verði í því ljósi að nokkru áður hafi Kristján verið rekinn úr starfi og beri öll hans framganga hjá Samkeppnisstofnun þess vott að hann hafi talið sig eiga harma að hefna. Framburður hans sé því á engan hátt marktækur, enda hafi hann ekkert haft með þau viðskipti að gera sem um sé fjallað í máli þessu.
Stefndi telur að stefnanda hafi ekki tekist að sýna fram á tjón sitt eins og áskilið sé samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar. Hugleiðingar um að slaka eigi á sönnunarkröfum vegna þess að um brot gegn samkeppnislögum sé að ræða, eigi sér enga fótfestu í lögum eða lagaframkvæmd en hafi þó talsvert verið í umræðunni um starfsemi Samkeppniseftirlitsins. Slíkar hugmyndir hafi fyrst og fremst gengið út á að slaka eigi á sönnunarkröfum þegar verið sé að meta hvort um brot hafi verið að ræða á samkeppnislögum. Hugmyndirnar hafi ekki náð til þess að slaka eigi á sönnunarkröfum þegar um mat á skaðabótaskyldu sé að ræða.
Stefndi byggir á því að ekkert samráð hafi átt sér stað, hvorki fyrir né eftir útboð Vegagerðarinnar. Forsvarsmenn stefndu hafi unnið að því að upplýsa meint samráðsbrot félaganna með Samkeppnisstofnun. Þar hafi ekkert verið dregið undan. Hins vegar hafi starfsmenn samkeppnisyfirvalda gerst stórtækir í ályktunum og m.a. talið að við gerð tilboða vegna útboða 1995 og 1997 hafi stefndu gerst sekir um samráð. Byggt sé á gögnum er varði einvörðungu samskipti félaganna á þessum árum. Engin gögn liggi fyrir frá árunum 1998 til 2001. Hugmynd samkeppnisyfirvalda um að samráð hafi verið um þessi viðskipti sé m.a. reist á munnlegum upplýsingum frá Vegagerðinni. Þær upplýsingar séu ekki réttar og verði ekki á þeim byggt fyrir dómi gegn neitun stefnda. Slíkur munnlegur framburður aðila máls sé ekki sönnun. Stefnandi eigi því enga fjárkröfu á hendur stefndu vegna þeirra viðskipta sem krafa hans í máli þessu byggist á.
Verði niðurstaða dómsins engu að síður sú að kröfur stefnanda séu ekki fyrndar, þær séu ekki niður fallnar vegna stórfellds tómlætis og að fyrir liggi lögfull sönnun um brotlegt athæfi stefndu, sem gæti verið til þess fallið að valda stefnanda tjóni, verði stefnandi að sýna fram á meint tjón sitt með þeim hætti að dómur verði grundaður á þeirri sönnun. Í því sambandi mótmælir stefndi öllum hugmyndum stefnanda um að snúa eigi sönnunarbyrði við. Slíkar hugmyndir gangi þvert gegn viðurkenndum grundvallarreglum í skaðabótarétti.
Stefndi tekur fram að í stefnu sé engin grein gerð fyrir því tjóni sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir, heldur sé einungis vísað í forsendur og niðurstöður matsmanna. Stefndi tekur fram að hæfi matsmanna hafi verið mjög dregið í efa er þeir voru skipaðir og sé um það vísað til rökstuddra mótmæla sem lögð voru fyrir dómi. Þá telur stefndi að matsgerð þeirra sé haldin alvarlegum ágöllum bæði er lýtur að formi og efni. Stefndi telur að matsferlið hafi ekki verið í neinu samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einungis einn matsfundur hafi verið haldinn með stefnda og honum hafi ekki verið gefið færi á að kynna sér gögn sem matsmenn hafi aflað frá matsbeiðanda og öðrum matsþolum. Ljóst sé að gagna hafi verið aflað hjá Vegagerðinni. Fundað hafi verið með fulltrúum Vegagerðarinnar, en matsþolum hafi ekki verið gefinn kostur á því að vera viðstaddir þann fund eða kynna sér gögn sem á fundinum voru skoðuð. Stefnda sé ókunnugt um hvort haldnir hafi verið fleiri fundir vegna matsmálsins. Ekki hafi verið haldinn fundur með matsþolum áður en matsniðurstöður voru kunngerðar, en það höfðu matsmenn fallist á að gera þegar fundað hafi verið um hvernig gagnaöflun skyldi fara fram. Ástæða þessa hafi verið sú að fallist hafi verið á það af hálfu lögmanna matsþola að tilnefna sérstaka tengiliði í fyrirtækjunum, sem matsmenn gætu sótt upplýsingar til, í stað þess að lögmenn stefndu hefðu þar milligöngu. Þannig yrði flýtt fyrir gagnaöflun, en í stað þess að lögmenn kæmu að útvegun gagna gætu þeir kynnt sér þau við lok matsferlisins og gert athugasemdir ef þurfa þætti. Matsmenn hafi að því er virðist lokið matsstörfum í byrjun desember 2010. Matsþolum hafi ekki verið tilkynnt um að fyrir lægi matsgerð fyrr en 9 mánuðum seinna. Þá fyrst hafi borist kröfubréf frá stefnanda, dagsett 2. ágúst 2011, fimm árum eftir að sjónarmið stefnanda um meinta bótaskylda háttsemi stefnda hafi verið viðruð í bréfi.
Stefndi heldur því enn fremur fram að forsendur og aðferðir matsmanna séu meingallaðar. Sem dæmi megi nefna að stuðst sé við meðaltalsálagningu allra vara olíufélaganna auk þess sem lagt sé til grundvallar að álagningin hafi verið hlutfall af söluverði á hverjum tíma. Álagning hafi alla tíð verið mæld í krónum en ekki sem hlutfall af söluverði.
Stefndi mótmælir þrautavarakröfu stefnanda um að dæmdar verði bætur að álitum. Skilyrði til að kveða upp dóm um bætur að álitum séu ekki fyrir hendi. Stefnandi hafi ekki lagt fram sönnun þess að stefndi hafi átt aðild að ólögmætu samráði um ákvörðun verðs í viðskiptum stefnanda um kaup á White Spirit á umræddu tímabili. Stefnandi hafi ekki lagt fram haldbæra sönnun þess, né gert líklegt, að hann hafi orðið fyrir tjóni. Hugmyndir matsmanna, sem fram komi í matsgerð, hljóti að teljast léttvægar. Matsferlið hafi ekki verið í samræmi við ákvæði einkamálalaga og tímaviðmið í matsgerðinni séu vægast sagt úr takti við ítarlega rannsókn samkeppnisyfirvalda, þar sem ekkert hafi fundist um þessi viðskipti eftir 1997. Dómur verði ekki ákvarðaður með vísan til þeirra forsendna sem stefnandi byggi mál sitt á. Það hljóti að leiða til sýknu.
Um rökstuðning fyrir varakröfu stefnda um að bætur vegna tjóns verði ákvarðaðar lægri en dómkröfur kveði á um er vísað til þess er fram komi hér að framan. Verði talið sannað að stefndu hafi stundað ólögmætt samráð við sölu á White Spirit til Vegagerðarinnar sé með öllu ótækt að miða við að samráð hafi staðið lengur en skjallegar vísbendingar séu um. Því ætti í mesta lagi að kveða á um bætur vegna tjóns á gildistíma þeirra samninga sem gerðir hafi verið 1995 og 1997.
Að öðru leyti vísar stefndi til þeirra varna sem meðstefndi tefli fram.
3. Málsástæður og lagarök stefnda, Skeljungs hf.
Af hálfu stefnda Skeljungs er því mótmælt að samráð hafi átt sér stað vegna útboðanna, hvað þá að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna slíks meints samráðs. Hvað sem framangreindu líði og án nokkurrar viðurkenningar á lögmæti kröfu stefnanda byggir stefndi á því að meintar kröfur stefnanda á hendur stefnda vegna einstakra viðskipta málsaðila, verði talið að til þeirra hafi stofnast, séu fallnar niður á grundvelli tómlætis.
Stefndi bendir á að húsleit hafi verið gerð hjá olíufélögunum í desember 2001 og henni gerð skil í fjölmiðlum. Ákvörðun samkeppnisráðs hafi legið fyrir síðla árs 2004 og úrskurður áfrýjunarnefndar í byrjun árs 2005. Sjónarmið stefnanda um meinta bótaskylda háttsemi stefnda vegna framangreindra viðskipta hafi fyrst verið sett fram í bréfi, dags. 18. ágúst 2006. Engar fjárkröfur hafi verið gerðar á þeim tíma. Stefndi mótmælti sjónarmiðum stefnanda með bréfi, dags. 4. september 2006, og áskildi sér rétt til að færa síðar fram nánari gögn og upplýsingar um tilgreind viðskipti. Bréfi ríkisins var í engu fylgt eftir fyrr en tæpum þremur árum síðar er matsbeiðni, dags. 24. mars 2009, var send Héraðsdómi Reykjavíkur. Í kjölfarið hafi verið dómkvaddir matsmenn og virðist sem þeir hafi skilað niðurstöðum sínum 5. desember 2010. Athygli veki að tæpir 9 mánuðir hafi liðið frá því að matsgerð lá fyrir þar til stefnda var gerð grein fyrir niðurstöðum og kröfur settar fram. Með vísan til ofangreinds telur stefndi ljóst að tómlæti stefnanda eigi eitt og sér að gera það að verkum að framangreindar kröfur nái ekki fram að ganga.
Þá byggir stefndi á því að ætlaðar kröfur stefnanda á hendur stefnda vegna einstakra viðskipta málsaðila til 29. desember 2001 séu fyrndar, sbr. 2. tölul. 4. gr. þágildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og dóm Hæstaréttar í máli nr. 244/2009. Samkvæmt framlögðu yfirliti eigi stefnandi að hafa keypt 2.800 lítra af White Spirit þann 31. desember 2001 af stefnda Olíuverslun Íslands hf. fyrir samtals 31.584 krónur. Það hafi verið einu kaup stefnanda á White Spirit af stefndu sem séu innan fyrrgreinds tímabils, þ.e. frá 29. desember til 31. desember 2001. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, þvert á væntingar stefnda, að stefndu beri bótaábyrgð gagnvart stefnanda, sé ljóst að kröfur stefnanda á hendur stefnda séu fyrndar, að undanskilinni kröfu vegna viðskiptanna sem fram fóru 31. desember 2001. Áréttað skal þó að stefndi telur stefnanda ekki eiga neina fjárkröfu á hendur sér vegna viðskiptanna.
Án tillits til þess hvort kröfur stefnanda á hendur stefnda séu fallnar niður á grundvelli tómlætis og/eða fyrningar samkvæmt framansögðu krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda á þeim grundvelli að ekkert samráð hafi átt sér stað milli stefndu. Ósannað sé að stefndu hafi sýnt af sér saknæma og bótaskylda háttsemi. Sönnunarbyrði um þetta efni hvíli alfarið á stefnanda samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins og reglum réttarfars um sönnun.
Til sönnunar á því að bótaskyld háttsemi hafi átt sér stað vísi stefnandi til ákvörðunar samkeppnisráðs nr. 21/2004, bls. 130-138, og úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2004, bls. 95-96, þar sem settar hafi verið fram ályktanir um að stefndu hefðu haft með sér ólöglegt samráð um tilboðsgerð á árunum 1995-2001 í tengslum við útboð Vegagerðarinnar á White Spirit. Stefndi kveðst hafa allt frá upphafi rannsóknar samkeppnisyfirvalda hafnað því að samráð hafi verið um umrædd viðskipti.
Að ofangreindum gögnum frátöldum hafi engin gögn verið lögð fram af hálfu stefnanda því til sönnunar að bótaskyld háttsemi hafi átt sér stað. Stefnandi hafi til að mynda ekki lagt fram þau gögn sem niðurstöður samkeppnisráðs og áfrýjunarnefndar hafi verið reistar á. Stefndi byggi á því að stefnandi geti ekki fært sönnur á meint brot stefndu með framangreindum hætti. Slík gagnaframlagning leysi stefnanda ekki undan því að þurfa að færa fram fullnægjandi sönnun fyrir staðhæfingum sínum eftir þeim leiðum sem lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála bjóði. Stefndi bendir jafnframt á að niðurstaða samkeppnisyfirvalda hafi verið m.a. rökstudd með vísan til munnlegra upplýsinga frá Vegagerðinni. Slíkar upplýsingar verði á sama hátt og munnlegur framburður aðila máls, gegn neitun stefnda, ekki lagðar til grundvallar við úrlausn um dómkröfu stefnanda í máli þessu. Málið sé að þessu leyti vanreifað.
Stefndi byggir á því að þau gögn sem vísað sé til í ákvörðun samkeppnisráðs og úrskurði áfrýjunarnefndar feli ekki í sér neina sönnun á því að hann og meðstefndi hafi haft með sér ólögmætt samráð í tengslum við útboð Vegagerðarinnar 1995-2001. Þeim ályktunum sem samkeppnisyfirvöld dragi af gögnunum er mótmælt sem röngum og órökstuddum. Fyrir það fyrsta stafi öll gögnin frá stefnda, Olíuverslun Íslands, en ekki stefnda Skeljungi. Þá séu gögnin frá árunum 1995-1997. Engin gögn frá árunum 1998-2001 liggi fyrir í málinu þrátt fyrir að rannsókn samkeppnisyfirvalda á starfsemi stefnda hafi verið gríðarlega umfangsmikil og tekið til flestra ef ekki allra þátta í starfsemi félagsins. Þrátt fyrir það hafi samkeppnisyfirvöld komist að þeirri niðurstöðu að samráð hafi staðið yfir allt til ársins 2001 og krefst stefnandi einnig bóta fyrir sama tímabil.
Stefndi tekur fram að það sé rétt að stefndu hafi átt í samstarfi um innflutning og geymslu á White Spirit og hafi átt í samskiptum vegna þess. Vegna þessa samstarfs hafi verðlagning vörunnar verið mjög gagnsæ, enda hafi félögin yfir að ráða nákvæmlega sömu kostnaðarupplýsingum. Í ákvörðunum samkeppnisyfirvalda sé alveg litið fram hjá þessari staðreynd og afmarkaðir þættir þeirra örfáu sönnunargagna sem vísað sé til að ofan teknir úr samhengi og því haldið fram að þeir sýni fram á að félögin hafi haft milli sín ólögmætt samráð.
Auk framangreinds sé eitt helsta sönnunargagn samkeppnisyfirvalda tölvupóstur frá fjármálastjóra stefnda, Olíuverslunar Íslands, til forstjóra félagsins og fleiri starfsmanna þess, dags. 15. maí 1995. Efni skjalsins varði hins vegar einungis sameiginlegan innflutning stefndu á White Spirit. Skjalið feli ekki í sér neina vísbendingu um að félögin hafi haft með sér ólögmætt samráð.
Í ákvörðun samkeppnisráðs sé jafnframt vísað til skjala sem stafi frá stefnda, Olíuverslun Íslands. Þau innihaldi annars vegar tilboðsverð þess félags vegna útboðanna 1995 og 1996 og hins vegar tilboðsverð stefnda Skeljungs. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að, stefndi Olíuverslun Íslands, hafi fengið upplýsingar um tilboð stefnda Skeljungs áður en útboðsfrestur rann út. Eftir að útboðum ljúki séu tilboðsupplýsingar ekki lengur viðkvæmar trúnaðarupplýsingar. Eins og áður greini verði ekki byggt á símbréfi frá þáverandi forstöðumanni rekstrardeildar Vegagerðarinnar til Samkeppnisstofnunar, dags. 28. nóvember 2002, um að tilboðsgjöfum hafi einungis verið tilkynnt um hver hafi verið lægstbjóðandi hverju sinni en ekki hvaða upphæð hver og einn hafi boðið. Því sé ósannað að stefndi, Olíuverslun Íslands, hafi ekki fengið upplýsingarnar frá Vegagerðinni eftir að útboðunum lauk.
Í ákvörðun samkeppnisráðs sé mikið lagt upp úr því að á fyrrgreindum tilboðsskjölum séu dregnir hringir utan um orðin „Ísafjörður“ og „Reyðarfjörður“ en við orðið „Akureyri“ sé handskrifað „Olís“. Engar sönnur hafi verið færðar fyrir því af hverju merkt hafi verið við orðin með þessum hætti. Þrátt fyrir það sé fullyrt í ákvörðun samkeppnisráðs að skjölin veiti mikilsverða vísbendingu um markaðsskiptingu stefndu. Stefndi mótmælir því alfarið sem órökstuddu og ósönnuðu.
Stefndi telur að skjalið „Yfirlit yfir helstu aðgerðir“, sem vísað sé til í ákvörðun samkeppnisráðs, hafi að sama skapi ekkert sönnunargildi, enda hafi skjalið enga tengingu við útboð Vegagerðarinnar.
Í ákvörðun samkeppnisráðs sé einnig vísað til tölvupósts frá starfsmanni stefnda, Olíuverslunar Íslands, til framkvæmdastjóra fjármálasviðs og markaðssviðs smásölu hjá félaginu, dags. 9. apríl 1997. Af þessum innanhússtölvupósti hjá stefnda, Olíuverslun Íslands, dregur samkeppnisráð þá ályktun að hann sýni ljóslega samráð stefndu að þessu leyti. Stefndi telur ljóst að slíkur innanhússtölvupóstur hafi ekkert sönnunargildi gagnvart stefnda Skeljungi enda hafi efni hans ekki verið borið undir starfsmenn félagsins. Í póstinum sé hvergi minnst á samráð við stefnda Skeljung. Þvert gegn ályktunum samkeppnisráðs megi skilja póstinn á þá leið að stefndi, Olíuverslun Íslands, hafi ætlað sér að halda sínu og bjóða vel á Akureyri en síður á aðra staði vegna kostnaðar við flutninga.
Stefndi hafni í einu og öllu ályktunum samkeppnisráðs og áfrýjunarnefndar samkeppnismála um meint ólögmætt samráð við gerð tilboða í útboðum Vegagerðarinnar. Þær ályktanir sem samkeppnisyfirvöld hafi dregið af fyrirliggjandi gögnum standist ekki skoðun að mati stefnda. Niðurstaða um sök stefndu verði ekki reist á þeim ályktunum einum saman. Stefndu hafi átt í samstarfi vegna innflutnings og geymslu vörunnar. Forstöðumaður hráefnissviðs stefnda Skeljungs, sem hafi haft umsjón með sölu á vörunni, hafi ekki kannast við það í yfirheyrslum hjá Samkeppnisstofnun, að um nokkurt samráð hefði verið að ræða í útboðsmálum. Sama hafi komið fram við yfirheyrslur yfir forstjóra stefnda, Olíuverslunar Íslands. Ekki verði byggt á framburði Kristjáns B. Ólafssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármálasviðs stefnda, Olíuverslunar Íslands, enda hafi komið fram í yfirheyrslum hjá Samkeppnisstofnun að þessi mál hefðu ekki heyrt undir hann.
Jafnvel þótt talið yrði, þvert á væntingar stefnda Skeljungs, að stefndu hafi á einhverjum tímapunkti haft með sér samráð vegna útboðanna, þá sé í öllu falli ljóst að sú ályktun samkeppnisyfirvalda að samráðið hafi átt sér stað allt til ársins 2001 eigi sér ekki nokkra stoð í þeim gögnum sem hafi legið til grundvallar niðurstöðunni. Því sé algjörlega ósannað að ólögmætt samráð hafi átt sér stað vegna viðskiptanna 31. desember 2001.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, þvert á væntingar stefnda, að stefndu hafi átt í ólögmætu samráði og að kröfur stefnanda séu ekki fyrndar, krefst stefndi sýknu á þeim grundvelli að ósannað sé að háttsemin hafi valdið stefnanda tjóni. Stefndi mótmælir öllum ályktunum í stefnu um að sönnunarbyrði beri að snúa við með þeim hætti að stefnda beri að afsanna fullyrðingar stefnanda um tjón. Þessi framsetning fari þvert gegn grundvallarreglum í skaðabótarétti og reglum réttarfars um sönnun. Stefndi telur ljóst að á stefnanda hvíli sönnunarbyrði um alla þá þætti sem séu forsenda þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu bóta í málinu. Sönnunarbyrði verði ekki velt yfir á stefnda með fullyrðingum stefnanda einum saman. Þótt það sé vissulega rétt að stefnandi hafi ekki óheftan aðgang að bókhaldsgögnum stefnda þá eigi stefnandi úrræði lögum samkvæmt til þess að fá mat á hverjum þeim þáttum sem nauðsynlegt kunni að vera að meta við útreikning á meintu fjártjóni.
Stefndi kveður enga grein gerða í stefnu fyrir því tjóni sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir og þeim forsendum sem liggi til grundvallar útreikningi á umfangi tjónsins. Af hálfu stefnanda sé aðeins vísað með almennum hætti til forsendna og niðurstaðna matsmanna. Stefndi telur að ekki verði byggt á umræddri matsgerð vegna alvarlegra form- og efnisgalla.
Stefndi bendir á að matsþolar hafi skilað skriflegum andmælum til héraðsdóms við því að umræddir matsmenn yrðu dómkvaddir til verksins, þar sem þeir gætu ekki talist óvilhallir. Þá tekur hann fram að umboðsmenn stefndu hafi verið boðaðir á einn matsfund þar sem matsmenn gerðu grein fyrri gögnum sem þeir töldu þörf á að fá frá aðilum matsmálsins. Þá hafi verið samþykkt að tilnefndur yrði tengiliður fyrir hvern aðila málsins, annar en lögmenn aðila, sem hefði milligöngu um að afla umræddra gagna. Vegna þessa fyrirkomulags hafi einnig verið bókað, að kröfu stefndu, að niðurstöður yrðu bornar undir þá á matsfundi áður en gengið yrði frá endanlegri matsgerð. Í kjölfarið hafi starfsmenn stefnda haft samskipti við matsmenn þar sem leitast var við að veita allar upplýsingar og gögn sem matsmenn óskuðu. Stefnda sé hins vegar ekki kunnugt um að boðað hafi verið til fleiri matsfunda. Þrátt fyrir það megi ráða af fyrirliggjandi matsgerð að haldinn hafi verið fundur með fulltrúum Vegagerðarinnar og aflað gagna frá þeim án þess að stefndu hafi verið gefinn kostur á að vera viðstaddir þann fund eða kynna sér þau gögn sem aflað var með þessum hætti. Þá hafi stefndu ekki verið tilkynnt um lok vinnu matsmanna. Fram til 5. desember 2010, þegar kröfubréf hafi borist stefnda, hafi hann staðið í þeirri trú að matsmenn væru enn að störfum og að boðað yrði til matsfundar til að kynna þau gögn sem aflað hefði verið og eftir atvikum drög að niðurstöðu.
Stefndi telur að framangreint matsferli sé ekki í nokkru samræmi við ákvæði 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda hafi ekki verið gefið tækifæri til að kynna sér gögn sem matsmenn hafi aflað frá matsbeiðanda og öðrum matsþolum. Þá hafi ekki verið boðað til matsfundar áður en matsgerðum hafi verið skilað, svo sem áskilið hafi verið af hálfu matsþola þegar fyrirkomulag við gagnaöflun hafi verið ákveðið. Telur stefndi að annmarkar af þessum toga geri það að verkum að ekki verði byggt á matsgerðinni.
Stefndi heldur því fram að víða megi sjá í matsgerðinni afleiðingar þess að stefnda var ekki gefinn kostur á að kynna sér gögn sem matsmenn öfluðu. Bendir hann meðal annars á að magntölur og verð í viðskiptum við stefnda, sem lögð séu til grundvallar í matsgerðinni, fari ekki að öllu leyti saman við tölur úr bókhaldi félagsins. Skeiki þar oft talsverðu. Þá megi sjá að inn í forsendur matsmanna vegna viðskipta með White Spirit vanti flutningskostnað. Sá liður einn og sér geri það að verkum að „reiknað verð“ matsmanna, að viðbættum flutningskostnaði, verði með réttu hærra en söluverð frá stefnda á umræddum tíma. Því telur stefndi að forsendur fyrir útreikningum á meintu fjártjóni vegna þeirra viðskipta séu brostnar þegar af þessari ástæðu.
Stefndi tekur fram að í forsendum matsmanna sé stuðst við meðaltalsálagningu (hlutfallslega) allra vara olíufélaganna. Álagning hafi án nokkurs vafa verið mismunandi milli olíufélaganna. Þá sé ljóst að álagning hafi verið mjög mismunandi milli vörutegunda. Þessi aðferðafræði sé því illskiljanleg og ljóst að hún geti aldrei skilað réttum niðurstöðum. Þá leggi matsmenn til grundvallar að álagningin hafi verið hlutfall af söluverði á hverjum tíma. Þessi aðferðafræði sé alröng enda liggi fyrir að álagning olíufélaganna hafi ávallt verið mæld í krónum en ekki prósentum. Ástæðuna sé að rekja til mikilla verðsveiflna á heimsmarkaðsverði eldsneytis. Þetta séu staðreyndir sem liggi fyrir í gögnum stefnda og án nokkurs vafa hinna olíufélaganna einnig. Af hálfu matsmanna sé því jafnframt haldið fram að ársreikningar Skeljungs fyrir árin 2002 til 2006 hafi ekki verið aðgengilegir og því verði við matið að styðjast við álagningu Olíuverslunar Íslands og Kers á tímabilinu sem um ræði. Þetta sé rangt, enda um opinber gögn að ræða.
Stefndi telur matsgerðina ranga að efni til um fjölda annarra þátta. Lúti það jafnt að þeim tölum og gögnum sem byggt sé á sem og útreikningum, forsendum og ályktunum matsmanna.
Stefndi mótmælir því að skilyrði séu til að dæma bætur að álitum eins og mál þetta sé vaxið. Stefnanda beri að sanna að hann hafi orðið fyrir fjártjóni af samráði stefndu. Að mati stefnda hafi stefnandi hvorki sannað né gert líklegt að tjón hafi hlotist af háttsemi stefndu. Af þeim fjölmörgu ástæðum sem raktar hafi verið sé ljóst að ekki verði byggt á þeim forsendum sem stefnandi leggi til grundvallar bótakröfum sínum í málinu. Af því leiði að engin leið sé að áætla hvort tjón hafi hlotist af háttsemi stefndu, hvað þá hverrar fjárhæðar það eigi að hafa verið. Takist stefnanda ekki sönnun um þessa þætti beri að sýkna stefnda af öllum kröfum.
Fari svo, gegn væntingum stefnda, að sannað teljist að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna samráðs stefndu í útboðum Vegagerðarinnar krefst hann verulegrar lækkunar bóta frá því sem krafist sé af hálfu stefnanda. Stefndi telur að jafnvel þótt komist verði að þeirri niðurstöðu að málsástæður hans leiði ekki til sýknu þá beri að taka mið af þeim við mat á hugsanlegu tjóni stefnda. Þá sé því sérstaklega mótmælt að það tímabil sem litið sé til taki til lengri tíma en þriggja ára, þ.e. áranna 1995-1997. Í öllu falli sé ljóst að tímabilið geti ekki verið lengra en til desember 2001 þegar húsleit fór fram.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta og krefst þess að hann miðist við dómsuppsögu í héraði eða eftir atvikum í Hæstarétti enda hafi stefnandi fram til þessa ekki sannað eða gert líklegt að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna háttsemi stefndu.
Stefndi kveður málskostnaðarkröfu sína reista á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Eins og rakið hefur verið krefst stefnandi skaðabóta úr hendi stefndu til að bæta tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir í viðskiptum Vegagerðarinnar við stefndu um kaup stofnunarinnar á White Spirit á árunum 1995 til 2001. Um hina saknæmu háttsemi stefndu vísar stefnandi til niðurstöðu samkeppnisyfirvalda sem rakin hefur verið, en um tjónið vísar hann til fyrirliggjandi matsgerðar. Stefndu mótmæla kröfunni með ýmsum rökum meðal annars á þeim grundvelli að krafan sé fyrnd.
Um fyrningu ætlaðrar skaðabótakröfu stefnanda fer eftir lögum nr. 14/1905 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um sama efni. Samkvæmt fyrrgreindu lögunum fyrnast skaðabótakröfur á tíu árum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Enginn ágreiningur er um að stefnukrafan lýtur þeirri reglu og að fyrningarfresti hafi fyrst verið slitið við málshöfðunina 29. desember 2011. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna hófst fyrning kröfunnar er hin ætlaða skaðabótakrafa varð „gjaldkræf“, eins og segir í ákvæðinu. Stefnandi telur að krafan hafi ekki orðið gjaldkræf í þessum skilningi fyrr en hann fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt og þá aðila sem bæru ábyrgð á því. Það hafi ekki gerst fyrr en í fyrsta lagi eftir að ákvörðun samkeppnisráðs lá fyrir 28. október 2004. Þessu mótmæla stefndu.
Í íslenskri löggjöf eru dæmi þess að fyrning skaðabótakröfu hefjist þegar nauðsynlegar upplýsingar liggja fyrir um tjónið eða hina saknæmu háttsemi. Í þeim tilvikum er fyrningarfrestur hins vegar ávallt mun styttri en tíu ár. Má hér vísa til 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þar sem fyrningarfrestur er fjögur ár frá lokum þess almanaksárs er kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Einnig skal hér bent á 14. gr. laga nr. 25/1991 um skaðsemisábyrgð, þar sem kveðið er á um að bætur fyrir skaðsemistjón fyrnist þegar þrjú ár eru liðin frá þeim degi er tjónþoli fékk eða mátti fá vitneskju um tjón sitt, ágalla vörunnar og nafn og dvalarstað framleiðanda þess sem í hlut á. Þá má hér vísa til 1. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, þar sem krafa um bætur fyrnist á fjórum árum og hefst fresturinn við lok þess almanaksárs er vátryggður fékk nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans. Í öllum þessum ákvæðum er einnig við það miðað að skaðabótakrafa falli niður að liðnum tíu árum frá tjónsatviki sé hún þá ekki fyrnd eftir fyrrgreindum reglum. Að auki má geta þess að samkvæmt núgildandi 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
Ef fallist verður á að stefnandi eigi skaðabótakröfu á þeim grundvelli sem hann byggir á verður að líta svo á að hún hafi stofnast er tjón hlaust af þeirri saknæmu háttsemi sem hann telur stefndu hafa sýnt með því að hafa haft samráð um gerð sölutilboða í vöruna White Spirit. Tjónið á að hafa falist í því að Vegagerðin keypti vöruna á hærra verði en ef samkeppni hefði ríkt milli félaganna um gerð tilboða. Er þá gengið út frá því að tjónið komi fram við einstök viðskipti sem reist eru á þeim tilboðum er félögin höfðu samráð um. Líta verður svo á að skaðabótakröfur vegna þessara viðskipta, sem eins og áður segir fyrnast á 10 árum, hafi orðið gjaldkræfar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 þegar þau áttu sér stað, en ekki þegar stefnandi fékk upplýsingar um hið ólögmæta samráð. Sú niðurstaða er í góðu samræmi við það sem að framan greinir um reglur um fyrningu skaðabótakrafna sem og niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 6. maí 2010 í máli nr. 244/2009. Þessi skilningur fær enn fremur stoð í niðurstöðu Hæstaréttar frá 14. desember 2000 í máli nr. 241/2000. Af þessum sökum verður að líta svo á að allar kröfur stefnanda, sem eiga rætur að rekja til viðskipta, sem áttu sér stað fyrir 29. desember 2001, eða tíu árum fyrir höfðun málsins, séu fyrndar.
Í málinu liggja fyrir upplýsingar úr bókhaldi Vegagerðarinnar um viðskipti í tengslum við kaup á White Spirit frá 1995 til 2001. Allar færslurnar í tengslum við kaup stofnunarinnar á efninu af stefnda, Olíuverslun Íslands, eru dagsettar fyrir 29. desember 2001. Verður því að ætlað að þau viðskipti hafi átt sér stað fyrir þann tíma. Kröfur um skaðabætur á grundvelli þeirra teljast því fyrndar. Nær allar færslur vegna viðskipta Vegagerðarinnar við stefnda Skeljung eru einnig dagsettar fyrir 29. desember 2001. Ætluð skaðabótakrafa vegna þeirra er því fyrnd. Tvær færslur, sem tengjast slíkum viðskiptum, eru dagsettar eftir þann tíma eða 31. desember 2001, önnur að fjárhæð 8.000 krónur en hin að fjárhæð 22.784 krónur. Engin önnur gögn liggja fyrir um þessi viðskipti. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort dagsetningin sýni tímasetningu viðskiptanna eða þann dag er viðskiptin voru færð til bókar í bókhaldi Vegagerðarinnar í lok reikningsárs. Að þessu leyti er málið vanreifað af hálfu stefnanda. Því er ósannað að færslurnar séu til marks um að Vegagerðin hafi fest kaup á White Spirit fyrir samtals 30.784 krónur af stefnda Skeljungi eftir 29. desember 2001 þannig að stefnandi geti í máli þessu krafist skaðabóta á grundvelli þeirra viðskipta.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verða stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda á grundvelli fyrningar. Í ljósi þeirrar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefndu hvorum um sig málskostnað. Í ljósi umfangs málsins og reksturs þess fyrir dómi þykir hæfilegt að stefnandi greiði stefndu hvorum um sig 800.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. Af hálfu stefnda, Olíufélags Íslands hf., flutti málið Gísli Baldur Garðarsson hrl. Af hálfu stefnda Skeljungs hf., flutti málið Ólafur Freyr Frímannsson hdl. fyrir hönd Harðar Felix Harðarsonar hrl.
Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en dómari og aðilar töldu óþarft að flytja málið að nýju.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Olíuverslun Íslands hf. og Skeljungur hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, íslenska ríkisins.
Stefnandi greiði stefndu hvorum um sig 800.000 krónur í málskostnað.