Hæstiréttur íslands
Mál nr. 402/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Ábúð
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 27. september 2005. |
|
Nr. 402/2005. |
Hafsteinn Jóhannsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Sigurði Ingva Björnssyni og (Már Pétursson hrl.) dánarbúi Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar (Árni Pálsson hrl.) |
Kærumál. Ábúð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
D, dánarbú J, fór fram á við sýslumann að jörðin B yrði seld eftir reglum laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu samkvæmt heimild í 1. mgr. 8. gr. laganna, en Hæstiréttur hafði komist að þeirri niðurstöðu í dómi að D væri eini eigandi jarðarinnar. Sýslumaður varð við beiðni D og var jörðin seld á uppboði þar sem S varð hæstbjóðandi. H krafðist ógildingar á sölumeðferðinni meðal annars á þeim forsendum að hún færi í bága við ábúðarrétt hans. Héraðsdómur taldi H ekki eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, þar sem umrædd sala raskaði ekki þeim réttindum sem hann kvæðist eiga til jarðarinnar, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991, og vísaði málinu því frá dómi. Talið var að þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar niðurstöðu héraðsdóms gætu ekki að réttu leitt til frávísunar málsins og var hinn kærði úrskurður því ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. september 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 17. ágúst 2005 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að uppboðssala sýslumannsins á Blönduósi á jörðinni Bálkastöðum ytri í Húnaþingi vestra, sem fram fór 12. apríl 2005, verði felld úr gildi. Kæruheimild er í 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og héraðsdómara gert að taka kröfu hans til efnismeðferðar, en til vara að dómkrafa hans fyrir héraðsdómi verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Sigurður Ingvi Björnsson krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar en til vara að kröfu sóknaraðila í héraði verði hafnað og varnaraðila dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila.
Varnaraðilinn dánarbú Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var jörðin Bálkastaðir ytri, eign varnaraðila dánarbús Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar, boðin til sölu eftir ákvæðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991. Varnaraðilinn Sigurður Ingvi Björnsson var 12. apríl 2005 hæstbjóðandi í jörðina. Sóknaraðili, sem er einn erfingja Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar, kveðst eiga ábúðarrétt til lífstíðar að jörðinni. Eins og nánar er rakið í úrskurði héraðsdóms krefst sóknaraðili ógildingar á uppboðinu á þeim grunni að það fari í bága við ábúðarrétt hans, en hann hafi ekki veitt samþykki fyrir uppboðinu.
Í hinum kærða úrskurði er komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðila dánarbúi Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar hafi, sem eina eiganda jarðarinnar sbr. dóm Hæstaréttar 16. júní 2003 í máli nr. 216/2003, verið heimilt að óska eftir sölu hennar samkvæmt ákvæðum 8. gr. laga nr. 90/1991 og að ætlaður ábúðarréttur sóknaraðila standi því ekki í vegi fyrir að unnt sé að grípa til slíkrar ráðstöfunar, enda hafi ráðstöfun eignar á grundvelli 1. mgr. 8. gr. laganna ekki áhrif á þau ábúðarréttindi sem sóknaraðli kveðst eiga yfir jörðinni, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
Framangreind afstaða héraðsdómara getur ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að hafna beri kröfu sóknaraðila um ógildingu á sölu jarðarinnar samkvæmt 2. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991. Eru því ekki skilyrði til að vísa málinu frá dómi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að málskostnaður í héraði bíði efnisúrlausnar í málinu.
Aðilar skulu hver bera sinn kostnað af þessum þætti málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 17. ágúst 2005.
I
Sóknaraðili málsins er Hafsteinn Jóhannsson, með lögheimili að Bálkastöðum ytri Húnaþingi vestra.
Varnaraðilar eru db. Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar, Strandgötu 29, Akureyri og Sigurður Ingvi Björnsson, Bjargi, Húnaþingi vestra.
Málið barst dóminum með bréfi lögmanns sóknaraðila 20. apríl sl. og var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 22. júní sl.
Dómkröfur
Sóknaraðili krefst þess að uppboðssala sýslumannsins á Blönduósi á jörðinni Bálkastöðum ytri, sem fram fór þann 12. apríl sl. sem og öll uppboðsmeðferð sýslumannsins á jörðinni frá 25. janúar 2005 til 12. apríl sama ár, verði felld úr gildi og nái ekki fram að ganga. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu.
Af hálfu beggja varnaraðila er þess aðallega krafist að málinu verið vísað frá dómi. Til vara að kröfum sóknaraðila um að uppboð sem fram fór á Bálkastöðum yrti 12. apríl 2005 12. apríl sl. verði fellt úr gildi verði hafnað. Í báðum tilvikum er krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
II
Málavextir
Með úrskurði dómsins þann 21. júní 2001 var dánarbú Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar tekið til opinberra skipta og var Árni Pálsson hæstaréttarlögmaður skipaður skiptastjóri búsins. Ágreiningur kom upp á milli erfingja um eignarrétt að jörðinni Bálkastöðum ytri. Með dómi hæstaréttar Íslands í málinu nr. 216/2003 var því slegið föstu að jörðin væri eigna dánarbúsins og kröfum sóknaraðila um að hann ætti jörðina alla eða að hluta hafnað. Skiptastjóri auglýsti jörðina til sölu á liðnu sumri og bárust nokkur tilboð í eignina en ekki varð af sölu. Á skiptafundi 12. nóvember sl. samþykktu meirihluti erfingja að selja jörðina á uppboði samkvæmt ákvæðum 8. gr. laga nr. 90/1991. Sýslumaðurinn á Blönduósi annaðist uppboðsmeðferðina sem lauk með því að jörðin var seld á uppboði þann 12. apríl sl. Sóknaraðili sætti sig ekki við söluna og skaut ágreiningsmáli þessu til dómsins.
Sóknaraðili heldur því fram að með dómi Hæstaréttar Íslands hafi verið viðurkennt að hann hafi fengið jörðina Bálkastaði ytri til ábúðar fyrir lífstíð. Hann sitji jörðina enn í dag og sé þar með nokkurn fjölda hrossa og nytji jörðina þó hann hafi þurft að vera nokkuð fjarverandi vegna annarra vinnu. Jörðin hafi enn greiðslumark í sauðfé sem tilheyri atvinnuréttindum hans. Hann ætli sér að nýta jörðina framvegis til ferðaþjónustu og hugsanlega einnig til sauðfjárræktar. Ágreiningur sá sem uppi hefur verið um eignarhald jarðarinnar hafi komið í veg fyrir að hann byggði jörðina upp eins og nauðsynlegt sé enda sé til lítils að byggja upp á jörðinni ef þær framkvæmdir yrðu hirtar af honum bótalaust en það telur sóknaraðili vaka fyrir skiptastjóra og Guðrúnu Magnúsdóttur, ekkju Jóhanns Matthíasar, sem sé helsti erfingi dánarbúsins.
III
Málsástæður og lagarök
Sóknaraðili heldur því fram að réttindi hans yfir jörðinni séu eignarréttindi og því hafi verið óheimilt að selja jörðina samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 8. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 án hans samþykkis. Þar sem slíks samþykkis hafi ekki verið aflað og þar sem uppboðsbeiðnin stafaði ekki frá sóknaraðila hafi uppboðið verið nauðungaruppboð gagnvart honum sem brjóti í bága við efni nefndrar 1. mgr. 8. gr. og því beri að ógilda uppboðið.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að hvorki skiptastjóri né nefnd Guðrún Magnúsdóttir viðurkenni ábúðarréttindi hans á jörðinni þó svo byggt hafi verið á þeirri málsástæðu í dómsmáli því sem áður er getið. Með þessu sé verið að reyna að komast hjá því að greiða sóknaraðila fyrir framkvæmdir hans og viðhald á jörðinni og til að losna undan að greiða honum fyrir lífstíðarábúðarréttindi sem hann eigi á jörðinni sbr. 6. gr. þágildandi ábúðarlaga. Byggir sóknaraðili á því að skiptastjóri dragi taum Guðrúnar í þessu efni.
Sóknaraðili byggir á því að þar sem skiptum á dánarbúi Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar sé ekki lokið hafi skiptastjóra verið óheimilt að fara þá leið sem valin var til að koma fram skiptum. Skiptastjóri komi sér hjá því að taka kröfur sóknaraðila til jarðarinnar til úrlausnar samkvæmt skiptalögum og þannig komi hann í veg fyrir að sóknaraðili geti borið ágreininginn undir dómstóla. Heldur sóknaraðili því fram að skiptastjóra hafi verið óheimilt að biðja um uppboð skv. 8. gr. laga um nauðungarsölu fyrr en hann var búinn að taka á kröfum sóknaraðila í búið. Þá heldur sóknaraðili því fram að skiptastjóri sé að koma sér undan frekari erfiðleikum við skipti á búinu þar sem uppboðskaupandi sæti uppi með sóknaraðila og kröfur hans til eiganda jarðarinnar vegna ábúðarréttarins. Af síðustu málsgrein 8. gr. nauðungarsölulaga sé ljóst að kaupandi á uppboðinu yrði að glíma við ábúðarrétt sóknaraðila en sá réttur leiði aftur til þess að sóknaraðili hafi heimild til að búa áfram á jörðinni og þar með minnki verðmæti jarðarinnar verulega.
Sóknaraðili heldur því fram að skiptaráðandi geri ekki ráð fyrir ábúðarréttindum sóknaraðila í uppboðskröfu sinni. Krafan sé sett fram í þeim eina tilgangi að þvinga sóknaraðila og í raun beinist krafan að honum sem lífstíðarábúanda jarðarinnar. Uppboðsbeiðnin sé í raun sett fram til að flæma sóknaraðila af jörðinni og því verði að skoða söluna sem nauðungarsölu. Sóknaraðili telur að bjóðendur á uppboðinu hafi ekki reiknað með lífstíðarábúð sóknaraðila á jörðinni og það hafi örugglega verið forsenda fyrir kaupum á jörðinni að þeir fengju hana afhenta strax til afnota.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að uppboðshaldara hafi verið skylt að kveða uppúr með það í uppboðsskilmálum hvort eignin væri háð lífstíðarábúðarrétti sóknaraðila en ekki hafi nægt að bóka að svo gæti verið. Þessu hafi verið haldið fram af hálfu lögmanns sóknaraðila en mótmælt af uppboðsbeiðanda Í þessu sambandi vísar Sóknaraðili til meginefnis 31. gr. nefndra laga um nauðungarsölu sbr. 9. gr. uppboðsskilmála.
Af hálfu varnaraðilans db. Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar er á því byggt að sala jarðarinnar sem um er deilt í máli þessu hafi ekki nein áhrif á þann rétt sem sóknaraðili telji sig eiga. Í 4. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991 segið að sala með þeim hætti sem hér um ræðir hafi ekki sömu áhrif og nauðungarsölur hafi almennt sbr. 2. mgr. 56. gr. laga 90/1991. Í því ákvæði segi að umráðaréttur og önnur réttindi yfir eign falli niður við sölu á nauðungaruppboði. Hér hátti aftur á móti svo til að sala jarðarinnar hafi ekki áhrif umfram það sem almennt gerist, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga 90/1991. Salan hafi því ekki önnur áhrif en að hæstbjóðandi verður eigandi jarðarinnar en þau réttindi sem sóknaraðili telur sig eiga skerðist ekki.
Af hálfu dánarbúsins er ennfremur á því byggt að í 1. mgr. 80. gr. títtnefndra laga um nauðungarsölu komi fram að hver sá sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta geti borið gildi nauðungarsölu undir héraðsdóm. Í 3. mgr. 82. gr. laganna sé síðan nánar skilgreint hverjir geti átt aðild að máli sem þessu. Þeir sem þar um ræðir séu kaupandi, eigendur og svo þeir sem dómari telji að hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum. Þeir sem haldi því fram að þeir eigi lögvarinna hagsmuna að gæta verið að sýna fram á að þeir hagsmunir séu fyrir hendi. Ef það takist ekki beri að vísa máli frá dómi ef um er að ræða sækjanda máls. Í þessu tilviki hafi sóknaraðili enga hagsmuni af því að skjóta málinu til dómsins á þeim grunni sem hann gerir. Eigi hann ábúðarrétt þá standi sá réttur eftir sem áður og því beri að vísa málinu frá dómi.
Þá er því haldið fram af hálfu dánarbúsins að sóknaraðili eigi alls ekki ábúðarrétt á jörðinni. Af 2. gr. laga nr. 80/2004 verði ráðið að ábúð í þeirri merkingu sem um ræðir sé afnotaréttur að jörð eða hluta jarðar til búreksturs á henni. Sóknaraðili hafi hins vegar ekki stundað búrekstur á jörðinni í fjölda ára og því hafi hann fyrirgert þeim rétti sem hann kunni að hafa haft til ábúðar sbr. 12. gr. laga nr. 80/2004. Sóknaraðili hafi ekki haft fasta búsetu á jörðinni undanfarin ár en hann hafi verið búsettur í Reykjavík. Þá hafi sóknaraðili ekki greitt leigu fyrir afnot af jörðinni og því hljóti að vera ljóst að hugsanlegur ábúðarréttur hans sé niður fallinn sbr. 37. gr. laga nr. 80/2004.
Af hálfu dánarbúsins var þess krafist, með bréfi dagsettu 10. júní 2004, að sóknaraðili færi af jörðinni en miðað við kröfugerð í þessu máli sé ljóst að hann muni ekki rýma jörðina á fardögum eins og honum bar. Sóknaraðili hafi ekki byggingarbréf fyrir jörðinni og því komi ekki til greina að hann hafi þar lífstíðarábúð eins og hann heldur fram sbr. 9. gr. laga 80/2004 en þar komi fram að ef ekki er gert byggingabréf fyrir jörð teljist ábúðarréttur tímabundinn. Hugsanlegum ábúðarrétti sóknaraðila hafi verið sagt upp með nefndu bréfi frá 10. júní 2004 og bar sóknaraðila að fara af jörðinni með það sem honum kunni að tilheyra á síðustu fardögum sbr. 35. gr. laga nr. 80/2004. Af þessu verði ráðið að sóknaraðili eigi engin lögvarin réttindi yfir jörðinni og því skuli vísa málinu frá dómi.
Sem rök fyrir varakröfu sinni er á það bent af hálfu dánarbúsins að sóknaraðili haldi því fram að salan sem fram fór á jörðinni 22. apríl s.l. hafi í raun beinst að sóknaraðila og því hafi átt að líta á hann sem gerðarþola og þar af leiðandi eigi ákvæði 8. gr. laga 90/1991 ekki við. Ekki sé ljóst á hverju þessi málsástæða sé byggð en ætla megi að hún sé fram sett vegna þess að sóknaraðili telur sig eiga lífstíðarábúðarrétt á jörðinni. Þegar hefur því verið haldið fram að þessi réttur sóknaraðila sé ekki fyrir hendi og þegar af þeirri ástæðu eigi þessi málsástæða sóknaraðila ekki við. Af hálfu dánarbúsins er því jafnframt haldið fram að þó svo sóknaraðili ætti slíkan ábúðarrétt þá geti sá réttur ekki orðið til þess að hann sé gerðarþoli í þessu máli og sala jarðarinnar þar með nauðungarsala. Ábúðarréttur sé ekki annað en afnotaréttur eða leiguréttur og slíkur réttur geri hann ekki að gerðarþola við áðurnefnda sölu jarðarinnar sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 90/1991. Þá er því haldið fram af hálfu dánarbúsins að sala jarðarinnar verði talin nauðungarsala við það eitt að sóknaraðili telji sig eiga aðild að málum sem þessu. Halda megi fram að aðilar geti verið gerðarbeiðandi, kaupandi og aðrir sem hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfum sínum. Sóknaraðili verði tæplega gerðarþoli í þessu tilviki og því eigi hann ekki lögvarinn rétt að verja við nauðungarsöluna.
Varnaraðilinn Sigurður Ingvi Björnsson byggir frávísunarkröfu sína á því að eigandi og uppboðsbeiðandi jarðarinnar hafi verið dánarbú Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar sem sæti opinberri skiptameðferð. Ákvörðun um nauðungarsöluna hafi verið tekin af dánarbúinu og ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að sú ákvörðun hafi ekki verið tekin á lögmætan hátt. Ef einstakir erfingjar vilji rengja þá ákvörðun þá væri um ágreiningsmál á sviði skiptaréttar að ræða. Það eigi ekki við að reka ágreiningsmál um meðferð dánarbús fyrir héraðsdómi í nauðungarsölumáli. Slíku máli beri að vísa frá dómi.
Af hálfu Sigurðar Ingva er ennfremur á því byggt að ágreining um eignarrétt beri að leiða til lykta í almenni einkamáli en ekki í ágreiningsmáli um nauðungarsölu. Ábúðarréttur sé afnotaréttur og því eignaréttarlegs eðlis. Ef deilt sé um eignarrétt í nauðungarsölumáli beri að vísa því máli frá héraðsdómi.
Krafa Sigurðar Ingva um sýknu er á því byggð að sóknaraðili eigi ekki þá réttarlegu hagsmuni varðandi sakarefnið í máli þessu að hann geti verið sóknaraðili að því. Almennt leiði aðildarskortur sóknarmegin í máli til sýknu og heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann eigi ábúðarrétt á jörðinni og því beri að sýkna. Því er haldið fram af Sigurði Ingva að ágreiningur um eignarrétt að jörðinni hafi verið leiddur til lykta með dómi Hæstaréttar í máli nr. 216/2003 en þar hafi því verið slegið föstu að jörðin Bálkastaðir ásamt því sem henni fylgir og fylgja ber sé eign dánarbús Jóhanns Matthíasar. Þá er á það bent að dómsorð hafi bindandi réttarverkanir en hugleiðingar dómara í forsendum dóma hafi það ekki. Því séu hugleiðingar í dómi héraðsdóms í ofangreindu máli um ábúðarrétt sóknaraðila ekki bindandi. Þá heldur Sigurðir Ingvi því fram að þó svo sóknaraðili kunni að hafa haft ábúðarrétt á jörðinni þegar dómur var upp kveðinn fyrir tveimur árum síðan þá sé hann úr gildi fallinn. Vísar Sigurðir Ingvi til raka dánarbúsins um að sóknaraðili eigi ekki ábúðarrétt að jörðinni sem rakin eru hér að framan hvað þetta varðar.
IV
Niðurstaða
Í þessum þætti málsins er eingöngu til úrlausnar hvort vísa skuli málinu frá dómi en krafa um slíkt kom fram af hálfu beggja varnaraðila eins og rakið er að framan og snérist flutningur málsins um þá kröfu.
Í máli þessu hefur ekkert komið fram sem bendir til annars en að staðið hafi verið rétt að ákvörðun og beiðni um að jörðin Bálkastaðir yrði seld nauðungarsölu en dánarbú Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar er óumdeilanlega eini eigandi jarðarinnar sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 216/2003. Í skjóli eignarhalds síns var dánarbúinu heimilt að óska eftir því að jörðin yrði seld nauðungarsölu eftir ákvæðum 8. gr. laga nr. 90/1991. Ábúðarréttur sá sem sóknaraðili telur sig eiga telst ekki til eignarréttar að jörðinni. Því stendur hugsanlegur ábúðarréttur hans ekki í vegi fyrir því að jarðarinnar geti látið selja hana eftir ákvæðum nefndrar 8. gr. Í þessu sambandi verður að horfa til þess að þegar eign er seld eftir ákvæðum nefndrar 8. gr. þá hefur sú ráðstöfun ekki áhrif á réttindi yfir eigninni umfram það sem mundi almennt gæta við sölu hennar sbr. 4. mgr. 8. gr. Samkvæmt þessu hefur sala jarðarinnar á umþrættu uppboði ekki áhrif á réttindi sem sóknaraðili kann að eiga yfir jörðinni. Þar sem sóknaraðili telst ekki eigandi jarðarinnar umfram arfshlut sinn og þar sem ekkert bendir til þess að ranglega hafi verið staðið að ósk um sölu jarðarinnar á hann ekki þeirra lögvörðu hagsmuna að gæta sem hann reisir kröfu sína á og verður málinu þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins þykir rétt að sóknaraðili greiði hvorum varnaraðila um sig 120.000 krónur í málskostnað.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning úrskurðarins hefur tafist vegna anna og orlofs dómarans en aðilar hafa skriflega lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins vegna þessa dráttar.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Hafsteinn Jóhannsson, greiði varnaraðilunum dánarbúi Jóhanns Matthíasar Jóhannssonar og Sigurði Ingva Björnssyni hvorum um sig 120.000 krónur í málskostnað.