Hæstiréttur íslands

Mál nr. 369/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 11

 

Þriðjudaginn 11. júlí 2006.

Nr. 369/2006.

Sýslumaðurinn á Seyðisfirði

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Hjördís Hákonardóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 7. júlí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. ágúst 2006 kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 7. júlí 2006.

Lögreglustjórinn á Seyðisfirði hefur með beiðni dagsettri í dag krafist þess, með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að X, f. [..], litháískur ríkisborgari, til heimilis að [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til 4. ágúst 2006 kl. 15.00.

Í kröfu sýslumanns segir að um kl. 10.00 í gærmorgun, fimmtudaginn 6. júlí 2006, er afgreiðsla farþegaferjunnar Norrænu hafi staðið yfir á Seyðisfirði, hafi komið til afgreiðslu á “grænt tollhlið” kærði og A, báðir litháískir ríkisborgarar, á skutbifreið með skráningarnúmerinu [...] og af gerðinni [...]. Við leit í bifreið þeirra hafi fundist 12.400 grömm af hvítu dufti, vigtað með umbúðum, sem pakkað hafi verið í 8 plastflöskur, og hafi efnið gefið jákvæða svörun sem óþynnt amfetamín. Efnið hafi verið sent til tæknideildar í Reykjavík til nákvæmari rannsóknar og mælingar.

Þá segir jafnframt í kröfu lögreglustjóra að kærði hafi neitað því að hafa haft vitneskju um að fíkniefnin væru falin í bifreiðinni, en að ferðafélagi hans, A, hafi játað að hafa vitað um efnin, en borið því við að hann hafi talið að um steralyf væri að ræða. Því sé ljóst að ferðafélagi kærða hafi vitað að umrædd fíkniefni voru falin í bifreiðinni og að á þessu stigi telji lögregla að kærði X hafi einnig vitað eða mátt vita um að þau væru falin í bifreiðinni.

Af hálfu lögreglu er byggt á a- og b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þar sem ætla megi að kærði muni reyna að hafa áhrif á möguleg vitni eða samseka og þannig spilla fyrir rannsókn málsins, svo til að tryggja það að kærði fari ekki úr landi og komi sér þannig eða með öðrum hætti undan málsókn og fullnustu refsingar.

Skýr dómvenja Hæstaréttar sé um það að innflutningur mikils magns af amfetamíni, eins og um ræðir í máli þessu, sé talinn varða við 173. gr. a., laga 19/1940, sbr. t.d. Hrd. 1997.337, þar sem innflutningur á 955 grömm af amfetamíni hafi verið heimfærður undir 173. gr. a almennra hegningarlaga.

Niðurstaða:

Mikið magn hættulegra fíkniefna fannst í bifreið þeirri sem kærði og ferðafélagi hans, A, komu á hingað til lands með farþegaferjunni Norrænu í gær. Ferðafélagi kærða hefur viðurkennt að hafa vitað af því að einhvers konar efni væru falin í bifreiðinni en hefur borið því við að hann hafi talið að um steralyf fyrir hesta væri að ræða. Þá hefur hann viðurkennt að hafa tekið að sér að flytja þetta efni hingað til lands gegn gjaldi fyrir nafngreinda vinkonu sína frá Litháen og kærasta hennar. Kærði hefur hins vegar neitað því að hafa haft vitneskju um að fíkniefni væru falin í bifreiðinni. Hefur hann borið um það að vinur hans, A, hafi boðið honum með sér í umrædda ferð með mjög stuttum fyrirvara á bifreið sem sé skráð eign nafngreinds kunningja þeirra. Fram hefur komið að kærði og A hófu ferðalagið í Bretlandi. Þá hefur hann borið um það að á leiðinni hafi þeir stoppað á bensínstöð í Hamborg þar sem ónafngreindir kunningjar A, sem kærði þekki ekki, hafi afhent þeim farmiða með ferjunni. Allt þykir þetta benda til þess að kærða hafi vitað eða hlotið að vera ljóst að umrædd ferð var farin í ólögmætum tilgangi. Með vísan til framangreinds þykir kærði vera undir rökstuddum grun um brot gegn fíkniefnalöggjöfinni.

Brot kærða getur varðað hann fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi. Hætta þykir á því að kærði geti torveldað rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna, t.d. með því að hafa áhrif á vitni eða samseka. Vegna rannsóknarhagsmuna þykir því rétt með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála að fallast á kröfu lögreglustjórans á Seyðisfirði um það að kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 4. ágúst 2006, kl. 15.00.

Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til föstudagsins 4. ágúst 2006 kl. 15.00.