Hæstiréttur íslands
Mál nr. 298/2004
Lykilorð
- Verksamningur
- Skaðabætur
- Galli
- Matsgerð
|
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2005. |
|
Nr. 298/2004. |
Gísli Antonsson(Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Hala hf. (Viðar Lúðvíksson hrl.) |
Verksamningur. Skaðabætur. Gallar. Matsgerð.
H hf. gekk að tilboði G í vinnu við að slá upp einbýlishúsi, setja á það þak, setja í glugga og glerja þá. Þegar húsið hafði verið steypt og mót rifin af því kom í ljós að byggingu þess var verulega áfátt. Ágreiningslaust var að ágallar hefðu verið á verki G en hins vegar var deilt um hvort við mat á kostnaði við úrbætur ætti að leggja til grundvallar mat dómkvadds manns eða yfirmat tveggja dómkvaddra manna en fyrrnefnda matið var töluvert hærra en það síðargreinda. Hafði héraðsdómur reist niðurstöðu sína á undirmatinu. Fyrir lá að báðar matsgerðirnar fjölluðu um sömu matsatriði. Í Hæstarétti var talið að ekkert væri komið fram um að ekki hefði verið gætt réttra aðferða við mat hinn dómkvöddu yfirmatsmanna eða að niðurstaða þeirra hefði verið reist á röngum forsendum. Bent var á að í forsendum héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, væru engin efnisleg rök færð fyrir því hvers vegna ekki væri fallist á þær aðferðir sem yfirmatsmenn töldu rétt að beita við úrbætur á umræddum göllum. Var það niðurstaða Hæstaréttar að yfirmatsgerðin yrði lögð til grundvallar í málinu við ákvörðun skaðabóta til handa H hf. Þá var með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um að G hefði ekki átt rétt á að bæta úr göllunum, bætur vegna tafa og sýknu H hf. af kröfu G um skuldajöfnuð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2004. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi gerði áfrýjandi, sem er húsasmíðameistari, stefnda tilboð 5. júní 2000 í vinnu við að slá upp einbýlishúsi að Skildinganesi 50 í Reykjavík, setja á það þak, setja í glugga og glerja þá. Í tilboðinu voru gefin upp einingarverð í nánar tilgreindum liðum sem voru bindandi, en magntölur voru áætlaðar og skyldu reiknaðar á vinnustað eftir áföngum verksins. Var heildarverð tilboðsins 9.021.843 krónur. Stefndi gekk að tilboðinu og hóf áfrýjandi skömmu síðar vinnu við húsið. Tók hann einnig að sér byggingarstjórn verksins. Þegar húsið hafði verið steypt og mót rifin af því haustið 2001 kom í ljós að byggingu þess var verulega áfátt. Fékk stefndi þá byggingafræðing til að gera úttekt á helstu göllum. Skoðaði hann húsið og mældi það upp 20. september 2001 og bar saman við fyrirliggjandi teikningar. Kom í ljós að steypumót virtust hafa gefið eftir á mörgum stöðum í húsinu, halli var á ýmsum steyptum veggjum og súlum og stallar. Innsteyptir spýtuklossar voru á nokkrum stöðum í steyptum veggjum. Þá komu í ljós málskekkjur á nokkrum stöðum. Þegar úttekt þessi lá fyrir mun stefndi hafa krafist viðurkenningar Sjóvá-Almennra trygginga hf. á greiðsluskyldu félagsins á grundvelli lögboðinnar starfsábyrgðartryggingar áfrýjanda hjá félaginu vegna vanrækslu hans sem byggingarstjóra. Félagið hafnaði 23. október 2001 greiðsluskyldu sinni vegna annars en tveggja atriða sem talin voru í misræmi við samþykktar teikningar. Að beiðni stefnda var 9. nóvember 2001 dómkvaddur maður til að meta gallana og kostnað við úrbætur á þeim. Matsgerðinni var lokið 14. janúar 2002 og var niðurstaða matsmanns sú að kostnaður við að lagfæra gallana næmi 5.860.593 krónum að teknu tilliti til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á verkstað. Var annars vegar um að ræða kostnað vegna klæðningar utanhúss, pússningar á lofti og veggjum að innan auk kostnaðar við að fjarlægja aðskotahluti úr steypu. Hins vegar laut matið að kostnaði við úrbætur á nánar tilgreindum atriðum sem upp voru talin í 27 liðum. Hinn 16. janúar 2002 krafðist stefndi skaðabóta í fimm liðum úr hendi áfrýjanda. Byggðist krafan meðal annars á niðurstöðu matsmannsins. Áfrýjandi sætti sig ekki við matið og að beiðni hans 25. febrúar 2002 voru dómkvaddir tveir menn sem meta skyldu öll þau sömu atriði og fyrrgreint mat tók til. Niðurstaða yfirmatsins lá fyrir í júlí 2002. Samkvæmt því nam heildarkostnaður við að lagfæra gallana 3.456.724 krónum að teknu tilliti til endurgreidds virðisaukaskatts. Hinn 14. október 2002 lagði stefndi fram beiðni um að dómkvaddur yrði maður til að meta tjón sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna tafa á verkinu. Samkvæmt niðurstöðu matsmanns 22. desember sama árs var tjón stefnda vegna tafa á verkinu, út frá þremur mismunandi aðferðum við útreikning tjónsins, talið nema krónum 2.100.000, 2.500.000 eða 4.500.000.
Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjanda 14. febrúar 2003 og gerði kröfu um greiðslu skaðabóta samtals að fjárhæð 10.360.593 krónur, þar af 5.860.593 krónur vegna gallanna á verkinu og 4.500.000 krónur vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna tafa á því. Í héraði gerði áfrýjandi gagnkröfu til skuldajafnaðar að fjárhæð 5.954.861 krónur, en fyrir Hæstarétti hefur hann lækkað þá kröfu í 4.816.864 krónur. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á skaðabótakröfu stefnda vegna gallanna en auk þess var krafa hans um tafabætur tekin til greina með 2.500.000 krónum. Voru honum því samtals dæmdar bætur að fjárhæð 8.360.593 krónur, að frádregnum 1.770.005 krónum, sem stefndi hefur viðurkennt að skulda áfrýjanda á grundvelli útgefinna reikninga hans.
II.
Í málinu er ekki um það deilt að ágallar hafi verið á verki áfrýjanda. Lýtur ágreiningurinn aðallega að því hvort við mat á kostnaði við úrbætur eigi að leggja til grundvallar mat hins dómkvadda manns 14. janúar 2002 eða yfirmat tveggja dómkvaddra manna frá júlí 2002 og hvort stefndi eigi rétt til tafabóta. Þá deila aðilarnir einnig um hvort áfrýjandi eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar umfram það sem héraðsdómur komst að vegna þess að leggja eigi virðisaukaskatt ofan á fjárhæð útgefinna reikninga.
Áfrýjandi byggir sýknukröfu sína meðal annars á því að stefndi hafi með því að ráða sig sem byggingastjóra að verkinu girt fyrir að hann geti sótt sig til ábyrgðar sem húsasmíðameistara eða verktaka vegna gallanna á verkinu, eins og stefndi geri í málinu. Áfrýjandi gerði sem fyrr segir stefnda verktilboð 5. júní 2000. Tók hann að sér að annast verkið og ritaði undir tilboðið sem húsasmíðameistari. Í kjölfarið komst á verksamningur milli aðila, sem áfrýjandi varð bundinn af. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi reyndist verk áfrýjanda haldið verulegum göllum. Verða þeir raktir til vanrækslu hans og ber hann því skaðabótaábyrgð á tjóni sem af því hlaust. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður ekki fallist á þessa sýknuástæðu áfrýjanda. Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms heldur ekki fallist á að stefndi hafi þurft að sæta því að áfrýjandi bætti úr göllunum.
Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti byggði áfrýjandi meðal annars á þeirri málsástæðu að stefndi ætti sem verkkaupi nokkra sök á tjóni sínu þar sem hann hafi lítið sem ekkert eftirlit haft með verkinu. Þessi málsástæða var ekki sett fram í héraði. Gegn mótmælum stefnda kemst hún ekki að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum.
Fram kemur í áðurnefndum matsgerðum að gallar á umræddri fasteign reyndust mjög umfangsmiklir. Matsgerðunum ber ekki að öllu leyti saman um hvaða aðferðum rétt sé að beita við úrbætur á göllunum. Þannig telur undirmatsmaður að brjóta þurfi niður nokkra nánar tiltekna steypta byggingarhluta og steypa þá upp á ný. Yfirmatsmenn telja hins vega ekki þörf á svo miklum viðgerðum heldur telja þeir vel ásættanlegt að rétta sumar af þessum skekkjur með múrákasti.
Eins og fyrr segir fjalla báðar matsgerðirnar um sömu matsatriði, sem eru nánar upp talin. Er kostnaður vegna hvers liðar um sig sundurliðaður í báðum matsgerðunum með tíðkanlegum hætti. Fram kemur í forsendum héraðsdóms að hann reisir niðurstöðu sína á undirmatinu. Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 metur dómari sönnunargildi matsgerða. Að öllu jöfnu hlýtur sönnunargildi yfirmatsgerðar tveggja matsmanna, sem ekki hefur verið hnekkt með öðrum gögnum, að vega þyngra við mat á sönnun en undirmatsgerð eins matsmanns, að því tilskildu að ekki hafi verið sýnt fram á ágalla á henni. Í málinu er ekkert fram komið um að ekki hafi verið gætt réttra aðferða við mat hinna dómkvöddu yfirmatsmanna eða að niðurstaða þeirra hafi verið reist á röngum forsendum, hvorki að því er varðar mat þeirra á aðferðum við úrbætur né kostnað af þeim. Stefndi hefur heldur ekki lagt fram nein gögn sem hnekkt geta þessu mati. Í forsendum héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, eru engin efnisleg rök færð fyrir því hvers vegna ekki sé fallist á þær aðferðir sem yfirmatsmenn telja rétt að beita við úrbætur á umræddum göllum. Er þar eingöngu fjallað um með almennum hætti að umrædd möt byggi ekki á sömu forsendum og útskýringar matsmanna séu ekki sambærilegar. Að öllu framansögðu virtu verður yfirmatsgerðin lögð til grundvallar í málinu við ákvörðun skaðabóta til handa stefnda, en fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá þeim athugasemdum, sem hann gerði við tiltekna liði yfirmatsgerðarinnar í héraði.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um bætur vegna tafa.
III.
Áfrýjandi reisir kröfu sína um skuldajöfnuð á nánar tilgreindum reikningum, sem hann gerði stefnda. Ekki er ágreiningur um fjárhæð þeirra, en áfrýjandi heldur því fram að hann eigi rétt á greiðslu virðisaukaskatts, samtals 3.006.351 krónu, af fjárhæð allra reikninganna úr hendi stefnda. Hefur stefndi mótmælt þessari kröfu áfrýjanda. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að sýkna beri stefnda af þessari kröfu áfrýjanda. Stefndi hefur hins vegar sem fyrr segir fallist á að til skuldajafnaðar kröfu hans komi 1.770.005 krónur, sem nemur eftirstöðvum tveggja reikninga, samtals að fjárhæð 2.770.005 krónur, að frádreginni 1.000.000 króna innborgun hans.
Samkvæmt framangreindu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 4.186.719 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Gísli Antonsson, greiði stefnda, Hala hf., 4.186.719 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.686.719 krónum frá 16. febrúar 2002 til 3. febrúar 2003, en af 4.186.719 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. apríl sl., er höfðað 14. febrúar 2003 af Hala hf., kt. [...], Bárugötu 2, Reykjavík, á hendur Gísla Antonssyni, kt. [...], Reyrengi 27, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 10.360.593 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.860.593 krónum frá 16. febrúar 2002 til 3. febrúar 2003, en af allri stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnda verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu að mati réttarins.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Í tilboði stefnda til stefnanda 5. júní 2000 er boðin vinna við að slá upp húsi að Skildinganesi 50, setja á það þak, setja í glugga og glerja. Verð einstakra vinnuliða kemur fram í tilboðinu, ýmist með eða án efnis. Tilgreind eru einingaverð, sem eru bindandi, en magntölur verði reiknaðar á vinnustað eftir áföngum og leiðréttar jafnóðum.
Hús sem áður hafði staðið á lóðinni hafði verið rifið þegar vinna hófst í ágúst 2000 við byggingu hússins sem stefndi tók að sér að reisa. Haustið 2001 komst fyrirsvarsmaður stefnanda að því að missmíðar voru á húsinu. Hann lét stefnda samstundis hætta störfum og kom stefndi því ekki frekar að verkinu. Kallaður var til byggingafræðingur, sem gerði úttekt á hinum meintu göllum á verkinu, en þeim er lýst í skýrslu hans um uppmælingu og skoðun frá 20. september 2001. Stefnandi óskaði dómkvaðningar matsmanns 25. október sama ár til að skoða og meta umrædda galla og var hann dómkvaddur 9. nóvember sama ár, en matsgerð hans er dagsett 14. janúar 2002. Stefndi óskaði yfirmats 25. febrúar sama ár, en yfirmatsgerð er dagsett í júlí sama ár.
Stefnandi krefst bóta vegna galla sem hann telur vera á verki stefnda og vegna tafa á framkvæmdum við byggingu hússins sem urðu vegna matsgerðanna. Í málinu er meðal annars deilt um það hvort leggja beri undirmat til grundvallar við úrlausn málsins, sem stefnandi byggir bótakröfur í málinu á, eða yfirmat sem stefndi telur að hafi hnekkt undirmatinu. Stefndi telur stefnanda engan rétt eiga til bóta vegna tafanna, en stefnda verði ekki alfarið um þær kennt. Stefndi krefst enn fremur skuldajöfnunar á kröfum sem hann kveðst eiga á stefnanda vegna reikninga og virðisaukaskatts sem stefnandi hafi ekki greitt vegna verksins. Stefndi gerði reikninga vegna verksins, en óumdeilt er að stefnandi hefur greitt þá alla að frátöldum tveimur síðustu reikningunum sem stefnandi hefur greitt inn á og fallist á að honum beri að greiða. Hins vegar er deilt um það hvort virðisaukaskattur hafi verið innifalinn í tilboðinu frá 5. júní 2000 og er skuldajöfnunarkrafa stefnda því hærri en eftirstöðvar framantaldra tveggja reikninga. Reikningar stefnda eru þó þannig fram lagðir eins og virðisaukaskattur sé innifalinn í einingarverðum í tilboðinu.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að stefndi sé húsasmíðameistari og hafi hann gert stefnanda tilboð í vinnu við byggingu fasteignar stefnanda að Skildinganesi 50. Samkvæmt tilboðinu skyldi innifalin vinna við "að slá upp húsinu, setja á það þak, setja í það glugga og glerja þá" auk annars. Þá séu í tilboðinu taldir upp ýmsir verkliðir og þar sé kostnaður vegna hvers og eins tilgreindur, en heildarverð verksins hafi verið 9.021.843 krónur. Stefnandi hafi gengið að tilboðinu og hafi stefndi hafið vinnu við byggingu fasteignarinnar skömmu síðar. Auk þess að vera húsasmíðameistari hafi stefndi jafnframt verið byggingarstjóri vegna verksins, sbr. m.a. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Þegar mót hafi verið rifin af húsinu haustið 2001 hafi komið í ljós alvarlegir og umfangsmiklir gallar á því. Ýmist hafi illa verið gengið frá mótum, þau hefðu sprungið út, veggir hafi ýmist hallað eða bungað út, festingar hafi vantað á gluggaumbúnað og svo rangt hefði verið lesið á teikningar við verkið að mál hafi verið fjarri því að standast. Fyrirsvarsmaður stefnanda hafi þegar haft samband við Trausta Leósson byggingafræðing og fengið hann til að gera úttekt á helstu missmíðum og göllum. Hann hafi skoðað fasteignina 20. september 2001 og gert lista með 31 atriði þar sem illa hafi verið staðið að byggingu hússins eða teikningum ekki fylgt, en sá listi hafi ekki verið tæmandi. Af hálfu stefnanda hafi stefnda verið þegar tilkynnt að þess væri óskað að hann léti af störfum sem byggingarstjóri og verktaki sökum þessara galla.
Stefndi hafi haft ábyrgðartryggingu vegna starfa sinna sem byggingarstjóri hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og því hafi félaginu einnig verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna í málinu. Fasteignin hafi verið skoðuð af lögfræðingi og verkfræðingi tryggingafélagsins ásamt Trausta 3. október 2001. Óskað hafi verið eftir viðurkenningu félagsins á bótaskyldu þess á grundvelli ábyrgðartryggingarinnar vegna gallanna með bréfi lögmanns stefnanda 5. október 2001, enda bæri stefndi sjálfstæða ábyrgð á göllunum sem byggingarstjóri við verkið auk hefðbundinnar ábyrgðar á verkinu sem verktaki þess. Með bréfi 23. október sama ár hafi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. viðurkennt bótaskyldu vegna lítils hluta þeirra galla sem hafi verið á verkinu.
Lögmaður stefnanda hafi óskað eftir dómkvaðningu matsmanns 25. október sama ár til að meta umrædda galla og kostnað við úrbætur og viðgerðir á þeim. Matsgerð dómkvadds matsmanns, Helga S. Gunnarssonar byggingaverkfræðings, hafi legið fyrir 14. janúar 2002, en hún sé ítarleg og vönduð og þar sé staðfest að verk stefnda við mót og uppsteypu fasteignarinnar hafi verið haldið verulegum og alvarlegum göllum. Í matsgerðinni segi að allur frágangur og vinna við mót og uppsteypu húss sé algerlega óásættanleg sem eðlileg verkskil. Gallar séu það umfangsmiklir og víðtækir að ógerningur sé að kortleggja þá alla þannig að tæmandi sé. Ljóst sé að fagmennska við undirbúning og uppslátt móta, afstífingu og afréttingu þeirra og ísetningu glugga hafi að stórum hluta ekki verið í samræmi við gildandi reglugerðir, fyrirliggjandi teikningar né hefðir og venjur, en það eigi við um alla uppsteypuáfanga hússins, þ.e. frá undirstöðum og upp í þak. Gallarnir séu gríðarlega umfangsmiklir og víðtækir. Ekki sé gerlegt að lagfæra stóran hluta þeirra án þess að valda meiri skaða á húsinu en þegar sé orðinn. Ekki sé t.d. ráðlegt að brjóta eða fleyga utan af veggjum til að rétta þá. Ef sú leið yrði valin yrði að gera það í svo miklum mæli að fjarlægð inn að járngrind yrði í sumum tilfellum ónóg eða jafnvel engin á ákveðnum stöðum. Niðurstaða matsmanns sé sú að kostnaður við nauðsynlegar lagfæringar, úrbætur og viðgerðir á göllum á verkinu nemi 6.324.327 krónum, eða 5.860.593 krónum að teknu tilliti til möguleika stefnanda á endurgreiðslu virðisaukaskatts. Ítarlegir útreikningar og sundurliðun á fjárhæðum sé í II. hluta matsgerðarinnar.
Þegar matsgerðin lá fyrir hafi lögmaður stefnanda sent lögmanni stefnda kröfubréf 16. janúar 2002, þar sem krafist hafi verið greiðslu á framangreindri fjárhæð, 5.860.593 króna, auk 1.600.000 króna vegna tjóns sem stefnandi hefði orðið fyrir vegna tafa á verkinu af völdum stefnda, 94.620 króna vegna vinnu Trausta Leóssonar, 374.700 króna vegna matsgerðar dómkvadds matsmanns og 397.588 króna í innheimtuþóknun. Í bréfinu hafi jafnframt verið óskað eftir afstöðu stefnda til þess hvort hann gerði athugasemdir við að stefnandi héldi áfram byggingu fasteignarinnar. Með bréfum lögmanns stefnda 24. og 28. sama mánaðar hafi verið óskað eftir fresti til að svara bréfi lögmanns stefnanda. Með bréfi lögmanns stefnanda 29. janúar sama ár hafi verið skorað á stefnda að upplýsa sem fyrst hvort hann hefði í hyggju að óska eftir yfirmati, svo stefnandi gæti ella haldið áfram framkvæmdum. Um miðjan febrúar s.á. hafi lögmaður stefnda upplýst að stefndi hygðist óska eftir yfirmati og hafi hann gert það. Yfirmatsfundur hafi verið haldinn 8. maí s.á. og hafi yfirmatsgerð legið fyrir í lok júlí sem stefnandi hafi ekki fengið vitneskju um fyrr en seint í ágúst.
Í yfirmatsgerðinni sé á sama hátt og í undirmatsgerð komist að þeirri niðurstöðu að vinnubrögð stefnda við byggingu fasteignarinnar hafi verið algjörlega óásættanleg. Yfirmatsmenn telji hins vegar að kostnaður við úrbætur sé nokkru lægri en kostnaður samkvæmt undirmati, eða samtals 3.456.724 krónur. Stefnandi hafi ekki fellt sig við forsendur kostnaðaráætlunar í yfirmatsgerð, enda sé þar gert ráð fyrir að mörgum alvarlegum göllum verði bjargað fyrir horn með því einu að notast við ákast á veggi eftir að þeir hafi verið fleygaðir, skornir og fræstir til. Reyndar hafi nú verið ákveðið að klæða húsið að innan með einangrun, sem ekki hafi verið ætlunin, til þess að rétta af veggi, en þær úrbætur kosti mun meira en úrræðin sem matsgerðir geri ráð fyrir að gripið verði til.
Stefnandi hafi óskað eftir dómkvaðningu matsmanns 14. október 2002 til að leggja mat á fjártjón stefnanda vegna tafa sem hefðu orðið á framkvæmdum við byggingu fasteignarinnar af völdum stefnda, þ.e. frá 20. september 2001, þegar galla varð vart og Trausti Leósson hafi verið fenginn til að skoða fasteignina, til 4. september 2002, þegar stefnanda hafi borist yfirmatsgerð í hendur og honum hafi verið unnt að halda framkvæmdum áfram. Matsgerð hafi legið fyrir 22. desember sama ár, en í henni sé tjón stefnanda vegna tafanna metið á 2,1 til 4,5 milljónir króna eftir aðferðinni sem notuð sé við tjónsútreikning. Með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda 3. janúar 2003 hafi verið krafist greiðslu á 4.500.000 krónum vegna síðastgreinds þáttar auk kostnaðar. Stefnandi hafi síðan höfðað málið til heimtu skaðabóta eða afsláttar vegna þeirra umfangsmiklu galla sem hafi verið á verki stefnda, auk skaðabóta vegna fjártjóns af völdum tafa sem hafi orðið á verkinu við að staðreyna gallana.
Um bótagrundvöllinn vísi stefnandi til tjónsins, sem hann hafi orðið fyrir vegna galla á verki stefnda, en gallarnir hafi verið verulegir og alvarlegir sem teljist veruleg vanefnd af hálfu stefnda á verksamningi aðila frá 5. júní 2000. Stefnandi eigi rétt til greiðslu skaðabóta eða afsláttar vegna þeirra úr hendi stefnda á grundvelli almennra reglna kröfuréttar og verktakaréttar um beitingu vanefndaúrræða.
Í undirmatsgerð dómkvadds matsmanns frá 14. janúar 2002 sé staðfest að stefnandi hafi sýnt af sér alvarlega vanrækslu og handvömm við bygginguna þar sem verkið hafi ekki verið unnið í samræmi við gildandi reglugerðir, fyrirliggjandi teikningar, hefðir eða venjur. Afleiðing þessa sé sú að gæði verksins hafi verið víðs fjarri þeim faglegu kröfum sem gera megi til slíkra verka þegar litið sé til ábyrgðar stefnda sem húsasmíðameistara og verktaka við verkið. Þannig telji matsmaður að allur frágangur stefnda og vinna hans við mót og uppsteypu sé algerlega óásættanleg sem eðlileg verkskil og að gallar séu það umfangsmiklir og víðtækir að ógerningur sé að kortleggja þá alla þannig að tæmandi sé. Þá segi í matsgerðinni að gallarnir séu allir vegna vinnu á fagsviði húsasmíðameistara. Gallarnir felist í eftirfarandi meginþáttum: Víðtækum málskekkjum, sem hafi áhrif á stærð hússins, legu veggja, glugga- og hurðaopa. Ónógum styrk og afstífingum móta, sem hafi gert það að verkum að mót hafi svignað óeðlilega mikið og sums staðar gefið sig þegar steypt var í þau. Mót hafi verið ranglega staðsett, hallandi, undin og skökk sem þýði að uppsteyptir veggir séu haldnir sömu ágöllum. Í mótum hafi verið rangt efnisval, en blandað hafi verið saman á óeðlilegan hátt mótaefni á borð við borðaklæðningu, mótakrossviði, hefðbundnum krossviði og blikki. Því sé mikið um stalla í veggjum og lofti vegna misþykktar í mótaefni svo og tréflísum í steypuyfirborði. Hreinsun móta fyrir steypu hafi verið ófullnægjandi sem sjá megi á innsteyptum fjarlægðarklossum, sagi og öðru rusli í steypuskilum. Gluggaísetning sé ófullnægjandi með tilliti til ókominnar klæðningar, gluggar hafi ekki verið rétt stilltir í göt, þ.e. snúraðir út, með tilliti til heildarflatar eins og nauðsynlegt hafi verið að gera. Loft í bílskúr og svefnherbergjum séu óslétt og mislanda.
Staðfesting á þessu sé í yfirmatsgerð frá júlí 2002. Þar segi m.a. að verulegar skekkjur og misfellur séu í veggjum og súlum þannig að algerlega óásættanlegt sé og ljóst að fagmennsku við mótasmíði hafi verið verulega ábótavant. Mót hafi sprungið út, veggir séu undnir og snúnir, þeir halli og séu mislanda mjög víða. Þá hafi tréklossar sums staðar orðið eftir í mótum og rusl í steypuskilum. Ekki hafi verið farið að teikningum við uppsteypu veggja við garðhurð á 2. hæð, sem valdi því að op í vegg sé of lítið fyrir hurðina og hún á röngum stað, og ekki verði nægjanlegt rými fyrir einangrun og klæðningu vinstra megin við hurðina, séð utanfrá.
Við verkið hafi stefndi brotið gróflega gegn þeim reglum og venjum sem gildi á sviði húsasmíða og þeim ströngu kröfum sem gerðar verði til hans sem sérfræðings á því sviði. Stefnandi vísi til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 52. gr., að því er varðar ábyrgð stefnda á verki sínu, og ákvæða byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um sama efni, einkum 38. gr. Við ráðningu stefnda sem verktaka og byggingarstjóra fasteignarinnar hafi honum sem öðrum sem að verkinu komu verið gert ljóst að til byggingar hússins skyldi ekkert sparað til þess að það yrði sem vandaðast að allri gerð.
Eins og sjá megi af undir- og yfirmatsgerðum dómkvaddra matsmanna hafi vinnubrögðum stefnda verið svo áfátt að telja verði stórkostlega handvömm af hans hálfu. Þar sem stefndi hafi ekki gætt lágmarkskrafna, sem gera verði til húsasmíðameistara við byggingu húsa, svo sem um rétt steypta veggi, stífingu móta, rétt efnisval í mótum, fullnægjandi hreinsun móta, rétta stillingu glugga í göt og fleira, verði hinni stórkostlegu handvömm hans jafnað til sakar í skilningi kröfuréttar og verktakaréttar. Stefnandi eigi af þeim sökum rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem af handvömm hans hafi leitt samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Stefnandi geri kröfu um greiðslu á skaðabótum úr hendi stefnda sem nemi kostnaði við nauðsynlegar úrbætur og lagfæringar á göllunum sem verið hafi á verki stefnda við bygginguna samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns. Stefnandi styðji kröfur sínar einnig við sjónarmið kröfuréttar og verktakaréttar um afslátt vegna vanefnda stefnda.
Stefndi hafi haldið því fram að honum beri réttur til að bæta úr göllunum á verkinu, eins og fram komi í bréfi lögmanns stefnda 4. september 2002. Það sé alrangt hjá stefnda. Eins og staðfest sé í matsgerðum dómkvaddra matsmanna, bæði undir- og yfirmatsgerðum, hafi allur frágangur stefnda og vinna hans við mót og uppsteypu hússins verið algerlega óásættanlegur sem eðlileg verkskil. Undirmatsmaður komist þannig að orði að gallar á verkinu séu svo umfangsmiklir og víðtækir að ógerningur sé að kortleggja þá alla þannig að tæmandi sé. Hann telji að kostnaður við úrbætur nemi 6.324.327 krónum með virðisaukaskatti. Sú upphæð nemi um 70% af heildarkostnaði við verkið samkvæmt tilboði stefnda. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að stefndi hafi verið alls ófær um að vinna það verk sem hann hafi tekið að sér. Því sé fráleitt að telja að stefnanda beri að sæta því að stefnda verði veitt tækifæri til að reyna sig á ný við verkið, auk þess sem hugmyndir stefnda þess efnis hafi komið allt of seint fram.
Stefnandi hafi einnig orðið fyrir miklu fjártjóni vegna tafa á byggingunni af völdum stefnda. Þegar galla á verkinu hafi orðið vart 20. september 2001 hafi framkvæmdir við verkið verið stöðvaðar. Þá þegar hafi stefnandi fengið Trausta Leósson byggingafræðing til að taka út verkið og meta gallana. Því næst hafi verið óskað eftir dómkvaðningu matsmanns með beiðni 25. október 2001. Matsgerð dómkvadds matsmanns, Sturlaugs Þorsteinssonar verkfræðings og viðskiptafræðings, hafi legið fyrir 14. janúar 2002. Lögmaður stefnanda hafi sent lögmanni stefnda kröfubréf á grundvelli matsgerðarinnar 16. janúar 2002. Málið hafi því verið rekið eins hratt og unnt hafi verið í því skyni að takmarka tjón stefnanda eftir megni. Stefnandi hafi að sama skapi áréttað margsinnis við stefnda nauðsyn þess að málið yrði rekið hratt, enda yrði haldið uppi kröfum á hendur stefnda vegna fjártjóns stefnanda af völdum tafanna, sbr. m.a. bréf lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda 16. janúar, 29. janúar, 19. febrúar og 20. ágúst 2002.
Stefndi hafi óskað eftir yfirmati dómkvaddra matsmanna 25. febrúar 2002. Yfirmatsgerð hafi ekki borist stefnanda í hendur fyrr en með bréfi lögmanns stefnda 4. september 2002 og þá fyrst hafi stefnanda verið unnt að halda framkvæmdum við byggingu hússins áfram. Tafirnar væru eingöngu til komnar vegna stefnda og handvammar hans við verkið sem sé svo ámælisverð og fjarri eðlilegum og faglegum kröfum á sviði húsasmíði að hún sé saknæm af hans hálfu. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar og skaðabótaréttar innan sem utan samninga beri stefndi skaðabótaábyrgð á fjártjóni stefnandi vegna tafanna á verkinu sem hafi komið til vegna galla sem stefndi beri ábyrgð á. Stefndi beri einnig hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda að þessu leyti, enda hafi verkskil ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi verksamning, hvorki að því er varðar gæði verksins né þann tíma er verkið hafi tekið.
Um bótafjárhæðir vísi stefnandi til þess að þær væru byggðar á almennum reglum kröfuréttar og verktakaréttar, og svari til fyrirsjáanlegs kostnaðar við að bæta úr göllum á verki stefnda. Leiði það til sömu niðurstöðu hvort sem talið verði að stefnanda beri skaðabætur eða afsláttur vegna verksins úr hendi stefnda. Stefnandi byggi á niðurstöðum matsgerðar dómkvadds matsmanns og geri því kröfur um greiðslu á 5.860.593 krónum vegna þessa þáttar. Í yfirmatsgerð sé mat á kostnaði við úrbætur allt of lágt. Yfirmatsmenn séu þó sammála undirmatsmanni um tilvist gallanna sem slíkra. Yfirmatsmenn geri hins vegar ráð fyrir því að flestum hinna stórkostlegu galla verði nánast bjargað fyrir horn með því einu að setja múrákast á þá fleti í húsinu sem séu skakkir, snúnir eða illa steyptir að öðru leyti. Á það geti stefnandi alls ekki fallist, enda væri fyrirhuguðum frágangi, gæðum og endingu hússins með því einfaldlega varpað fyrir róða og notagildi þess í mörgum tilvikum skert með því að hverfa frá þeim faglegu lausnum sem undirmatsmaður leggi til. Ákast hafi allt aðra eiginleika en steypa og styttri líftíma, sér í lagi þegar ákastið sé orðið allt að 100 mm þykkt svo sem óhjákvæmilegt yrði samkvæmt yfirmatsgerð. Ljóst sé að aukaákast á útitröppur hafi veruleg áhrif til hins verra á endingu við breytilegt hitastig og dreifingu hita frá hitalögnum í þeim. Kostnaður við viðgerðir sé allt of lágt metinn í yfirmatsgerð, en kostnaðarmat undirmatsgerðar sé hins vegar nær lagi. Umfjöllun yfirmatsmanna um glugga í lið b-xxv sé röng. Stefndi hafi t.d. eyðilagt alla möguleika á því að koma gluggum rétt fyrir með því að saga úr þeim til að koma þeim fyrir í of litlu gati. Þá sé mismunur í mælingum undir- og yfirmatsmanna á skekkjum. Undirmatsmaður hafi mælt mestu skekkju á veggjum, en svo virtist sem yfirmatsmenn hafi tekið prufur með 1 -1,5 m millibili, sbr. t.d. umfjöllun þeirra um liði b-i og b-v.
Um bætur vegna tafa á verki vísi stefnendur til þess að leitað hafi verið matsgerðar dómkvadds matsmanns um fjártjón stefnanda vegna tafanna. Í matsgerð hans komi fram nokkrir möguleikar við mat á fjártjóni stefnanda vegna þessa. Raunhæfasta leiðin sé að meta fjártjónið vegna tafanna út frá fjármagnskostnaði og töpuðum vöxtum af fjármagni, líkt og gert sé í matsgerðinni, en þar sé niðurstaða matsmanns sú að fjártjón stefnanda vegna þessa sé 4.500.000 krónur og sé það krafa stefnanda vegna þessa þáttar. Heildarfjárhæð stefnukrafna stefnanda sé samkvæmt framansögðu 5.860.593 krónur +4.500.000 krónur = 10.360.593 krónur, en um kostnað vegna vinnu byggingafræðings og öflunar matsgerðar verði krafið sem hluta af málskostnaðarkröfu.
Ekki sé deilt um reikninga sem stefnandi hafi fallist á að greiða og megi sá hluti þeirra sem ekki hafi verið greiddur koma til frádráttar á kröfum stefnanda.
Stefnandi byggi á meginreglum kröfuréttar og verktakaréttar um vanefndir og vanefndaúrræði. Dráttarvaxtakrafa stefnanda sé byggð á ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafist sé dráttarvaxta frá 16. febrúar 2002 af 5.860.593 krónum er liðinn hafi verið einn mánuður frá því að stefnandi krafði stefnda um greiðslu skaðabóta eða afsláttar, sem stefnandi hafi sett fram með kröfubréfi 16. janúar 2002. Krafist sé dráttarvaxta af allri stefnufjárhæðinni frá 3. febrúar 2003 með vísan til sömu lagaákvæða og kröfubréfs sem sent hafi verið lögmanni stefnda 3. janúar s.á. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í l. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi krefst þess að stefnandi greiði honum það sem hann skuldi enn samkvæmt reikningum sem hann hafi krafið stefnanda um greiðslu á vegna verksins. Í tilboði stefnda sé gert ráð fyrir því að magntölur verði reiknaðar á vinnustað eftir áföngum og leiðréttar jafnóðum. Í tilboðinu hafi ekki verið reiknað með virðisaukaskatti og sé hann því allur ógreiddur. Því bætist 2.210.351 króna við tilboðsfjárhæðina vegna virðisaukaskattsins og sé heildartilboðsfjárhæðin með virðisaukaskatti því 11.232.192 krónur.
Hvorki sé kveðið á um það í tilboðinu hvenær verkið skyldi hefjast né hve langan tíma það skyldi taka. Stefndi hafi gert stefnanda tilboð í verkið á grundvelli ósamþykktra teikninga, en aðalteikningar hússins hafi verið samþykktar hjá byggingarfulltrúa 9. ágúst 2000, eða röskum tveimur mánuðum eftir að tilboð í smíðavinnu hafi verið gert, en teikningar hefðu tekið breytingum frá því að tilboðið var gert og húsið stækkað.
Stefndi sé húsasmíðameistari og hafi hann tekið að sér byggingu verksins og að vera byggingarstjóri þess. Stefndi hafi haft sérstaka starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., samkvæmt 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, jafnframt því að vera með svokallaða iðnaðarmannatryggingu. Allt frá byrjun þessa máls hafi fulltrúi Sjóvár-Almennra trygginga hf. fylgst með málinu og félagið verið upplýst um stöðu málsins á hverjum tíma.
Stefndi hafi hafist handa við verkið skömmu eftir að teikningar að húsinu hefðu verið samþykktar af byggingarfulltrúa 9. ágúst 2000. Stefnda hafi verið ljóst að ágallar voru á verki hans og hafi hann ítrekað leitað eftir því við forsvarsmann stefnanda að fá tækifæri til þess að bæta úr þeim, en því hafi verið hafnað. Það hafi verið afdráttarlaus krafa forsvarsmanns stefnanda að stefndi kæmi ekki meir að verkinu og hafi stefndi því ekki fengið tækifæri til að bæta sjálfur úr ágöllunum.
Af hálfu stefnanda hafi verið lögð fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns 25. október 2001, en langur tími hafi liðið frá því að hafist var handa við verkið og þar til forsvarsmaður stefnanda hafi orðið áskynja um ágalla verksins. "Úttektir" Trausta Leóssonar byggingafræðings hafi enga þýðingu við úrlausn málsins og sé þeim mótmælt sem slíkum og þýðingarlausum fyrir málið. Ekki hafi farið fram lögboðin úttekt á verkinu, sem stefnandi verði að bera hallann af, en athugasemdir Trausta verði ekki skoðaðar sem úttekt í þessu sambandi. Á verktímanum hafi verið viðvarandi vandamál fyrir stefnda að fá verkfræðiteikningar til þess að smíða eftir, en í mörgum tilvikum hafi þær ekki skilað sér fyrr en við hvern steypuáfanga fyrir sig. Á undirmatsfundi 11. janúar 2002 hafi verið bókað að ósk stefnda að honum hafi ekki verið gefin kostur á því að lagfæra framkomna ágalla á verkinu á sinn kostnað, jafnframt því að áréttað hafi verið sérstaklega að tiltekin atriði, sem óskað hafi verið mats á, verði stefnda með engu móti kennt um. Eftir að undirmatsgerðin lá fyrir í janúar 2002 hafi lögmaður stefnda leitað eftir afstöðu Sjóvár-Almennra trygginga til málsins, en stefnda hafi borið nauðsyn til þess að fá afstöðu vátryggingafélagsins til þess að geta sjálfur tekið afstöðu.
Stefndi hafi eigi viljað una undirmatinu þar sem hann hafi verið ósáttur við niðurstöðu þess í grundvallaratriðum, bæði hvað varðaði umfang ágalla og leiðir til að bæta úr þeim, svo og í ljósi afstöðu Sjóvár-Almennra trygginga hf. Niðurstaða stefnda hafi verið sú að biðja um yfirmat. Í yfirmatsbeiðninni sé rakið að stefndi hafi m.a. ekki getað fallist á þær grundvallarforsendur sem undirmatið byggði á, þ.e. að ekki væri ráðlegt að brjóta eða fleyga utan af veggjum til þess að rétta þá og að rétta misfellur á stoðveggjum og tröppum utanhúss með múr. Yfirmatið hnekki undirmatinu í veigamiklum atriðum, bæði hvað varði aðferðir við að bæta úr ágöllum á verkinu svo og mati á kostnaði við að bæta úr þeim. Stefndi sé þó ekki allskostar sáttur við yfirmatið og telji það of hátt.
Á því sé byggt af hálfu stefnanda að allt frá því að ágalla á verkinu hafi orðið vart 20. september 2001 þar til yfirmatsgerð lá fyrir 4. september 2002 sé um að ræða tafir á verkinu sem stefnda sé um að kenna og hann beri fulla fébótaábyrgð á. Þessar tafir hafi ekki verið alfarið honum að kenna.
Stefndi hafi gert stefnanda tilboð í smíðavinnu 5. júní 2000, en aðalteikningar hússins hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa 9. ágúst sama ár. Ekki sé ljóst hvaða gögn eða teikningar stefndi hafi upphaflega fengið frá stefnanda eða hvaða gögn eða teikningar hafi legið til grundvallar tilboðsgerð stefnda. Um umfang verksins sé vísað til matsgerðar Sturlaugs Þorsteinssonar en þar segi að húsið sé á tveimur hæðum ásamt þakrými, 420,8 fermetrar að stærð. Í húsinu sé stórt lagnarými og óuppfylltur kjallari. Heildarflötur byggingarinnar með þeim rýmum sé u.þ.b. 540 fermetrar. Útveggir séu einangraðir að utan og klæddir með granítplötum. Húsið sé stórt og vandað til þess í hönnun og útfærslu. Þegar byggingarframkvæmdir stöðvuðust 4. september 2001 hafi bókfærður kostnaður verið 60.448.964 krónur. Af þeirri upphæð hafi kostnaður við að kaupa lóð og fasteign, sem á henni var, verið 19.854.680 krónur, en kostnaður við rif sé 840.000 krónur. Lóðarkostnaður sé því 20.694.680 krónur. Bókfærður kostnaður byggingarframkvæmdanna ásamt hönnun, opinberum gjöldum o.fl. hafi því verið 40.594.284 krónur, sem svari til um 75 þúsund króna á byggðan fermetra. Af þessari upphæð hafi verktakanum verið greiddar 10.476.161 krónur, en um 1,7 milljón króna séu ógreiddar. Heildarverkþáttur stefnda fyrir efni og vinnu sé því tæplega 12,2 milljónir króna með virðisaukaskatti. Upphaflegt tilboð hafi verið 9.021.843 krónur. Það hafi verið án virðisaukaskatts og sé því 9.021.843 krónur + virðisaukaskattur 2.210.351 krónur, eða samtals 11.232.192 krónur.
Tilboðsfjárhæðin hafi hækkað meðal annars vegna þess að magntölur hafi orðið hærri vegna stækkunar hússins frá því að stefndi bauð í það og þar til teikningar hafi verið samþykktar og byggingarleyfi fékkst en um það hafi verið gerður fyrirvari í tilboðinu. Hækkun tilboðsfjárhæðar vegna magnaukningar sé þannig:
Veggir: tilboð m.v. 1.350 m². Aukning um 329 m² x 3.300 krónur 1.085.700 krónur
Plata: tilboð m.v. 200 m². Aukning 241 m² x 2.119 krónur 510.679 “
Járnav. plata: tilb. m.v. 5.000 kg. Aukning 5.000 kg x 75 krónur 375.000 “
Járnav. veggir: tilb. m.v. 3000 kg. Aukning 5.900 kg. x 111 krónur 654.900 “
Samtals 2.626.279 krónur
Virðisaukaskattur sé 643.438 krónur, en samtals hækkun tilboðsfjárhæðar með virðisaukaskatti sé 3.269.717 krónur.
Stefndi hafi ekki gert sérstaka reikninga vegna verkliða sem fallið hafi utan tilboðs en eftirgreindir reikningar séu vegna verksins með virðisaukaskatti:
Reikn. nr. 125, dags. 30. ágúst 2000, sbr. dskj. nr. 25 804.425 krónur
Reikn. nr. 126, dags. 26. okt. 2000, sbr. dskj. nr. 26 379.725 “
Reikn. nr. 127, dags. 31. okt. 2000, sbr. dskj. nr. 27 1.496.861 “
Reikn. nr. 129, dags. 24. nóv. 2000, sbr. dskj. nr. 28 963.290 “
Reikn. nr. 001, dags. 26. jan. 2001, sbr. dskj. nr. 29 1.114.364 “
Reikn. nr. 002, dags. 26. jan. 2001, sbr. dskj. nr. 30 1.644.393 “
Reikn. nr. 005, dags. 5. mars 2001, sbr. dskj. nr. 31 1.017.576 “
Reikn. nr. 006, dags. 25. maí 2001, sbr. dskj. nr. 32 1.278.593 “
Reikn. nr. 008, dags. 24. júlí 2001, sbr. dskj. nr. 33 831.168 “
Reikn. nr. 009, dags. 10. ágúst 2001, sbr. dskj. nr. 34 1.938.837 “
Reikningar vegna tilboðs og aukaverka séu samtals 11.469.232 krónur auk reiknings að fjárhæð 761.080 krónur sem stefnandi hafi greitt 20. apríl 2001. Hann hafi einnig greitt reikninga 1-8, samtals að fjárhæð 8.699.227 krónur og inn á reikninga 9 og 10, samtals 1.000.000 krónur, 500.000 krónur 10. ágúst 2001 og 500.000 krónur 28. sama mánaðar. Samtals hafi stefnandi því greitt stefnda inn á verkið 10.460.307 krónur.
Eftirgreindir liðir falli utan tilboðs en þeir séu samkvæmt eftirtöldum reikningum:
|
Reikningur nr. 125, sbr. dskj. 25, |
93.200 krónur |
|
Reikningur nr. 126, sbr. dskj. 26, |
213.500 “ |
|
Reikningur nr. 127, sbr. dskj. 27, |
41.900 “ |
|
Reikningur nr. 129, sbr. dskj. 28, |
45.800 “ |
|
Reikningur nr. 001, sbr. dskj. 29, |
108.300 “ |
|
Reikningur nr. 002, sbr. dskj. 30, |
60.800 “ |
|
Reikningur nr. 005, sbr. dskj. 31, |
62.288 “ |
|
Reikningur nr. 006, sbr. dskj. 32, |
36.400 “ |
|
Reikningur nr. 008, sbr. dskj. 33, |
122.600 “ |
|
Reikningur nr. 009, sbr. dskj. 34, |
257.000 “ |
|
Samtals |
1.041.788 “ |
|
Virðisaukaskattur 24,5% |
255.238 “ |
|
Samtals verkliðir utan tilboðs |
1.297.026 krónur |
Samantekt til viðmiðunar við fjárhagslegt uppgjör vegna verksins:
|
Tilboðsfjárhæð |
11.232.192 krónur |
|
Hækkun tilboðsfjárhæðar v. magnaukningar |
3.269.717 “ |
|
Verkliðir utan tilboðs |
1.297.026 “ |
|
Samtals til uppgjörs |
15.798.893 krónur. |
|
Samtals innborganir skv. framansögðu |
- 10.460.307 “ |
|
Ógreiddur mismunur |
5.338.586 krónur. |
Ógreiddur mismunur til skuldajöfnuðar við kröfur stefnanda vegna galla á verki samkvæmt framansögðu sé því 5.338.586 krónur auk kostnaðar við yfirmat 616.275 krónur, samtals til skuldajöfnunar 5.954.861 krónur, en um heimild til skuldajöfnunar vísist m.a. til 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að stefnandi hafi með ráðningu stefnda sem byggingarstjóra að verkinu sjálfur girt fyrir það að geta sótt stefnda til ábyrgðar sem húsasmíðameistara þar sem byggingarstjóri hafi verið framkvæmdastjóri verksins. Stefnandi hafi ekkert með ráðningu stefnda sem húsasmíðameistara að verkinu að gera, en hann hafi veitt fullt samþykki sitt fyrir þeirri tilhögun, jafnframt því að sækja í tryggingu stefnda sem byggingarstjóra. Með því að höfða mál þetta á hendur stefnda sem húsasmíðameistara hafi stefnandi jafnframt girt fyrir það að vátryggingafélag stefnda sem byggingarmeistara geti orðið aðili að málinu.
Verði ekki á það fallist sé á því byggt af hálfu stefnda að yfirmatið hnekki í öllum atriðum niðurstöðu undirmatsins. Því sé ekki unnt að styðjast við undirmatið við úrlausn málsins heldur verði þess í stað að líta til yfirmatsins með eftirgreindum athugasemdum og fyrirvörum stefnda. Vinna við múrverk sé ofmetin. Ekki sé fallist á með yfirmatsmönnum að taka þurfi glugga úr til þess að fjölga festingum, sbr. liður xxv., og að brjóta tröppur og endursteypa, sbr. liður xxvi. Liður c), þ.e. annar kostnaður vegna liða a) og b), sé stórlega ofmetinn og í engu samræmi við umfang viðgerða. Stefnandi fái allan virðisaukaskatt endurgreiddan af byggingunni, ekki einungis hluta virðisaukaskatts af vinnu á verkstað. Niðurstaða yfirmats sé því 3.725.270 krónur að frádregnum virðisaukaskatti, 733.133 krónum, eða samtals 2.992.137 krónur. Við úrlausn málsins beri að taka tillit til þess að stefnandi hafi allt frá því að málið kom upp meinað stefnda að lagfæra ágallana á verkinu. Með hliðsjón af framansögðu eigi stefndi lögvarða kröfu á hendur stefnanda um hærri fjárhæð en sem nemi því tjóni sem stefnandi hafi sannanlega orðið fyrir af völdum stefnda vegna ágalla á verki stefnda. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Um meint tjón stefnanda af völdum tafa á verkinu árétti stefndi að í tilboði stefnda sé ekki kveðið á um verktíma eða verklok. Mati Sturlaugs Þorsteinssonar sé mótmælt, en hann leggi ekki mat á eðlileg verklok, hverjar bætur ættu að vera miðað við umfang verkþátta matsþola, gæði verks, hvort matsbeiðandi eigi yfir höfuð rétt á bótum, eða hvort leiða megi af lögum, reglum eða venjum hverjar hugsanlegar bætur gætu orðið. Matsmaðurinn leggi einungis mat á fórnarkostnað matsþola í fræðilegum skilningi. Kröfur stefnanda um bætur vegna tafa á verkinu miðist við tímabilið 20. september 2001 til 20. september 2002. Á því tímabili hafi verið unnið að gerð undirmats frá 25. október 2001 til 14. janúar 2002, eða í tvo og hálfan mánuð, og frá 25. febrúar 2002 til byrjun ágúst 2002 hafi verið unnið við gerð yfirmats, eða í rösklega fimm mánuði. Ekki verði stefnda um kennt að það taki sjö og hálfan mánuð að vinna matsgerðir eða rúmlega helming verktímans sem hann hafi unnið við verkið. Í ljósi þess að stefnda hafi allt frá upphafi verið meinað að lagfæra ágallana á verkinu, tilboð stefnda hafi verið án tímamarka um verktímann og verklok og því að mestur hluti "tafatímans" hafi farið í gerð matsgerða, sem stefndi beri enga ábyrgð á, verði ekki séð að stefnandi hafi lögvarða kröfu um meintar tafabætur úr hendi stefnda.
Um lagarök vísi stefndi m.a. til meginreglna samninga og kröfuréttar, auk laga um lausafjárkaup fyrir lögjöfnun. Jafnframt vísist til skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, einkum 51. gr., svo og byggingarreglugerðar nr. 441/1998, einkum 31. og 32. gr. Um skuldajöfnuð vísist m.a. til 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til sömu laga um réttarfar og málskostnað.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ber stefndi ábyrgð gagnvart stefnanda á að verkið, sem hann tók að sér að vinna fyrir stefnanda við byggingu hússins að Skildinganesi 50, væri unnið í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti og lög og reglugerðir. Stefndi ber enn fremur sem húsasmíðameistari ábyrgð á allri trésmíðavinnu við bygginguna, steypumótum, svo og öllum stokkum og götum sem í þau koma, sbr. 38. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Eins og fram kemur í gögnum málsins var verki stefnda ábótavant án þess að sýnt hafi verið fram á að vöntun á teikningum verði þar um kennt, enda lágu fyrir vandaðar smíðateikningar, dagsettar 2. janúar 1999 og 20. mars 2000, sem lagðar hafa verið fram í málinu. Fagmennska við undirbúning og uppslátt móta var ekki í samræmi við byggingarteikningar. Víðtækar málskekkjur, röng staðsetning móta, hallandi og sprungin mót og röng staðsetning glugga- og hurðaopa, sem eru víðs vegar um húsið, eins og fram kemur í gögnum málsins og dómurinn staðreyndi við vettvangsgöngu, er nægileg sönnun þess að verk stefnda var haldið verulegum göllum sem hann ber ábyrgð á samkvæmt framangreindum ákvæðum í skipulags- og byggingarlögum og í byggingarreglugerð. Gallarnir sem um ræðir eru þess eðlis að umfangsmikillar aðgerðir þarf til að bæta úr þeim. Með vísan til þess verður að telja að stefnanda beri engin skylda til þess að sæta því að stefndi lagfæri þá eins og hann hefur boðist til að gera. Umræddir gallar verði raktir til vanrækslu stefnda við byggingu hússins og á stefnandi því rétt á skaðabótum úr hendi stefnda vegna hinnar gölluðu vinnu samkvæmt 2. mgr. 42. gr. þágildandi laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Stefnanda var því rétt að höfða málið á hendur stefnda og leiðir málshöfðun stefnanda gegn honum sem húsasmíðameistara því ekki til sýknu eins og stefndi heldur fram í málatilbúnaði sínum.
Í mati Helga S. Gunnarssonar byggingaverkfræðings frá 14. janúar 2002 er gerð nákvæm grein fyrir forsendum útreikninga á kostnaði við úrbætur á göllunum sem um ræðir á byggingu hússins. Kostnaðarliðir eru útskýrðir og nákvæmlega sundurliðaðir og þar eru tilgreind magn- og einingaverð. Í yfirmatsgerð frá júlí sama ár eru ekki notaðar sömu forsendur og gert er í undirmatinu. Þar kemur ekki fram hvernig verð eru reiknuð og útskýringar í yfirmati eru ekki sambærilegar þeim sem fram koma í undirmati. Engin rökstuðningur kemur fram í yfirmatinu á því að forsendur eða útreikningar undirmatsins séu rangar enda hafa yfirmatsmenn samþykkt að lagfæra þurfi alla þá fleti á byggingunni sem undirmatið gengur út frá að þurfi að laga. Verður því ekki fallist á að undirmatinu hafi verið hnekkt með yfirmatsgerðinni. Matsgerð Helga S. Gunnarssonar er vel rökstudd, ítarleg og skilmerkileg. Dómurinn telur kostnað þar réttilega metinn. Með vísan til alls þessa ber að leggja matsgerðina til grundvallar við úrlausn málsins og telja tjón stefnanda vegna gallanna, sem þar er lýst, sömu fjárhæðar og talið er í matinu að kosti að bæta úr þeim. Stefnda ber því að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.860.593 krónur.
Ljóst er að framkvæmdum við byggingu hússins þurfti að fresta, fyrst þegar stefnandi þurfti að afla matsgerðar til að staðreyna gallana og síðar þegar stefndi óskaði yfirmats. Engu breytir í þessu sambandi þótt ekki hafi verið kveðið á um verktíma eða verklok í tilboði stefnda. Dómurinn telur að stefnandi eigi rétt á bótum úr hendi stefnda vegna tjónsins, sem hann varð fyrir vegna tafanna, enda skilyrði bótaskyldu fyrir hendi. Í niðurstöðu matsgerðar Sturlaugs Þorsteinssonar frá 14. janúar 2002 er tjón stefnanda nálgað á þrennan hátt. Í fyrsta lagi er tjónið metið út frá leigugjaldi og rekstri eignar á tímabilinu, í öðru lagi út frá leigugjaldinu eingöngu og í þriðja lagi út frá töpuðum vöxtum á fjármagni því sem lagt hefur verið í byggingarframkvæmdina. Dómurinn getur ekki fallist á mat tjóns samkvæmt þriðja og síðasta liðnum vegna sérstöðu kostnaðar við framkvæmdina, en eins og fram hefur komið keypti stefndi hús sem var staðsett á lóðinni og reif það, en það getur ekki talist til hefðbundins byggingarkostnaðar við mat á tjóninu sem hér um ræðir. Réttara er því að miða við tapaða leigu og rekstrarkostnað sem stefnandi hefur lagt út við að búa annars staðar á meðan. Þykir því rétt að stefndi greiði stefnanda bætur vegna þessa sem þykja hæfilega metnar með hliðsjón af fyrsta lið í niðurstöðum ofangreindrar matsgerðar 2.500.000 krónur.
Stefnandi hefur fallist á að honum beri að greiða eftirstöðvar tveggja síðustu reikninga stefnda, reiknings 24. júlí 2001, að fjárhæð 831.168 krónur, og reiknings 10. ágúst sama ár, að fjárhæð 1.938.837 krónur. Stefnandi hefur greitt inn á þessa reikninga 1.000.000 krónur og eru eftirstöðvar þeirra því 1.770.005 krónur sem koma til frádráttar kröfum stefnanda á hendur stefnda. Stefndi hefur hins vegar ekki fært næg rök fyrir því að stefnanda beri enn að greiða virðisaukaskatt af öllum fjárhæðum reikninganna enda verður að líta svo á að verð í tilboðinu hafi verið með virðisaukaskatti. Skýringar stefnda á því að svo hafi ekki verið eru ótrúverðugar, en á öllum reikningum stefnda er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur hafi þegar verið reiknaður á einingarverð í tilboðinu. Kröfu stefnda um viðbótargreiðslur vegna þessa, sem byggjast á því að stefnandi hafi ekki greitt virðisaukaskatt, er því hafnað. Þetta gildir bæði um greiðslur samkvæmt tilboðinu og umframmagn, sem er samkvæmt reikningum og því sem að framan greinir samtals 2.626.279 krónur, en ekki um aukaverk utan tilboðs, sem eru samtals 1.297.026 krónur með virðisaukaskatti, eins og þegar hefur komið fram. Því kemur ekki til þess að fjárhæð með virðisaukaskatti, 3.269.717 krónur, verði lögð til grundvallar við úrlausn málsins vegna magnaukningar eins og stefndi fer fram á með skuldajöfnunarkröfunni.
Í greinargerð stefnda er gerð sú krafa að stefndi fái greidda alla tilboðsfjárhæðina eins og hún er sett fram í tilboði stefnda frá 5. júní 2000 og vegna magnaukningar og aukaverk utan tilboðsins. Ekki er ágreiningur um magnaukninguna og aukaverkin en stefnandi hefur samþykkt að greiða alla reikninga stefnda án athugasemda fyrir þau og önnur verk stefnda. Fram kemur í greinargerð stefnda að aukaverk utan tilboðs hafa þegar verið reikningsfærð. Þá kemur fram á yfirliti Trausta Leóssonar byggingafræðings að fjárhæðir vegna magnaukningar hafa einnig verið reikningsfærðar. Í samanburði Trausta eru liðir nr. 1, 2, 14 og 15 þeir sömu og fram koma í greinargerð stefnda varðandi magnaukningu. Þó vantar járnamagn í liði 14 og 15 samkvæmt reikningi á dskj. nr. 39, en sá reikningur var gefinn út eftir að Trausti gerði samanburðinn. Ef reikningar á dskj. nr. 25 til 34 og á nr. 39 eru hins vegar bornir saman við tilboðið kemur í ljós að stefndi hefur ekki reikningsfært að fullu allt sem fram kemur í upphaflega tilboðinu. Dómurinn telur að það sé vegna þess að stefndi lauk ekki við alla þætti verksins sem tilboðið tekur til. Niðurstaða dómsins er því sú að upphaflega tilboðið verði ekki lagt til grundvallar við útreikninga á gagnkröfu stefnda á hendur stefnanda heldur beri stefnanda að greiða stefnda samkvæmt framlögðum reikningum sem lýst er hér að framan í kaflanum um málsástæður og lagarök stefnda. Reikningarnir fyrir verkið, að meðtöldu umframmagni og aukaverkum, eru samtals að fjárhæð 12.230.312 krónur, þ.e. 11.469.232 + 761.080 krónur, en stefnandi hefur þegar greitt vegna þeirra 10.460.307 krónur. Samkvæmt því er skuld stefnanda við stefnda samtals 1.770.005 krónur, sem stefnandi hefur viðurkennt að enn standi eftir sem skuld vegna síðustu reikninga stefnda eins og að framan greinir. Með því hefur stefnandi fengið að fullu greitt fyrir allt verkið, þar með talið fyrir umframmagn og aukaverk utan tilboðs. Stefndi á því ekki rétt á að til frádráttar kröfum stefnanda á hendur honum komi frekari liðir til frádráttar en þessi síðastgreinda fjárhæð eins og þegar hefur verið fallist á hér að framan.
Samkvæmt framangreindu ber stefnda að greiða stefnanda 6.590.588 krónur, þ.e. 5.860.593 + 2.500.000 1.770.005 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 4.090.588 krónum frá 16. febrúar 2002 til 3. febrúar 2003 en af 6.590.588 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að stefndi greiði stefnanda 1.800.000 krónur í málskostnað, þar með talinn virðisaukaskattur á málflutningsþóknun.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Kristni Eiríkssyni verkfræðingi og Magnúsi Guðjónssyni húsasmíðameistara.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Gísli Antonsson, greiði stefnanda, Hala hf., 6.590.588 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 4.090.588 krónum frá 16. febrúar 2002 til 3. febrúar 2003 en af 6.590.588 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 1.800.000 krónur í málskostnað.