Hæstiréttur íslands
Mál nr. 556/2008
Lykilorð
- Lax- og silungsveiði
- Veiðiréttur
- Sameign
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 30. apríl 2009. |
|
Nr. 556/2008. |
Ragnar Valur Björgvinsson og Sigríður Harðardóttir (Karl Axelsson hrl.) gegn Hreggviði Hermannssyni (Stefán Geir Þórisson hrl. Ingimar Ingimarsson hdl.) |
Lax- og silungsveiði. Veiðiréttur. Sameign. Skaðabætur.
R, S og H áttu þrjár jarðir í samfelldri röð að Hvítá og fylgdu jörðunum veiðiréttindi. Ríkti lengst af samkomulag á milli þeirra um að skipta þessum heimildum á þann hátt að þær tækju til veiða fyrir landi þeirra allra í senn. Frá veiðitímabilinu 2006 leit H hins vegar svo á að sér væri frjálst að ráðstafa veiði fyrir sínu landi án samstarfs við R og S. Töldu R og S að H hafi með þessu meinað þeim að nýta veiðiréttindi sín, meðal annars með því að ráðstafa veiði sem þau hafi átt að ráða yfir. Kröfðu þau H um skaðabætur sem svöruðu til missis tekna af sölu veiðileyfa árin 2006 og 2007. Talið var að hver maður ætti rétt til veiða fyrir landi sínu, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um lax- og silungsveiði. Sameiginlegt skipulag á veiðum væri háð samkomulagi. Tækist það ekki væri hverjum og einum frjálst að ráðstafa veiði fyrir sínu landi án afskipta hinna. Þá var það fyrirkomulag að veiðifélagið hafi um árabil úthlutað jörðunum þremur í einu lagi veiðiheimildum ekki talið hafa myndað með því einu sameign um þessi veiðiréttindi og ekki lægi fyrir að önnur stoð gæti verið fyrir slíkri skipan. Væri samstarf eigenda jarðanna ekki óhjákvæmilegt til að koma við nýtingu veiðiréttindanna. Var í málinu talið ósannað að H hafi á árunum 2006 og 2007 fénýtt sér veiðiréttindi sem að réttu lagi tilheyrðu R og S. Var H því sýknaður af kröfum R og S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 19. ágúst 2008. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 1. október 2008 og var áfrýjað öðru sinni 13. sama mánaðar. Þau krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjandanum Ragnari Vali Björgvinssyni 1.867.500 krónur og Sigríði Harðardóttur 1.732.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilteknum fjárhæðum frá 24. ágúst 2006 til greiðsludags. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar og málskostnaður á báðum dómstigum felldur niður.
Áfrýjendur hafa stefnt Veiðifélagi Árnesinga til réttargæslu fyrir Hæstarétti. Félagið hefur ekki látið málið til sín taka.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi eru málsaðilar eigendur þriggja jarða í Flóahreppi, sem liggja í samfelldri röð að Hvítá, en áfrýjandanum Ragnari Vali tilheyrir jörðin Langholt II, áfrýjandanum Sigríði jörðin Hallandi og stefnda jörðin Langholt I, sem er á milli hinna tveggja. Samkvæmt arðskrá fyrir Veiðifélag Árnesinga, sem ákveðin var með yfirmati 5. september 1963, fylgja jörð hvors áfrýjenda veiðiréttindi í Hvítá, sem metin eru til 20 eininga af samtals 2.900 einingum, sem veiði á öllu vatnasvæði árinnar er talin nema, en réttindi jarðar stefnda eru metin til 40 eininga. Fyrir liggur að samkvæmt ákvörðun veiðifélagsins hefur félagsmönnum á vatnasvæðinu verið hverjum fyrir sínu landi frjálst að stunda þar laxveiðar og ráðstafa leyfum til slíkra veiða á stöng. Þá liggur einnig fyrir að félagið hafi um árabil úthlutað í einu lagi til þessara jarða málsaðilanna heimildum til veiða á þremur stöngum. Samkvæmt gögnum málsins mun fram til ársins 2006 hafa verið samkomulag milli eigenda jarðanna um að ráðstafa þessum heimildum á þann hátt að þær tækju til veiða fyrir landi þeirra allra í senn. Hver landeigandi hafi þá ráðið yfir slíkum heimildum eða fengið arð af sameiginlegri útleigu þeirra í hlutfalli við fyrrgreindar einingar, sem hafi fylgt hverri jörð samkvæmt arðskrá, eða að fjórðungi vegna jarðar hvors áfrýjenda og að helmingi vegna jarðar stefnda. Frá og með veiðitímabilinu 2006 hafi stefndi á hinn bóginn hafnað þessari skipan og litið svo á að sér væri frjálst að ráðstafa veiði fyrir sínu landi án samstarfs við áfrýjendur. Þau telja stefnda hafa með þessu meinað þeim að nýta veiðiréttindi sín, meðal annars með því að ráðstafa veiði, sem þau hefðu átt að ráða yfir. Í málinu krefja áfrýjendur stefnda um skaðabætur, sem þau kveða svara til missis tekna af sölu veiðileyfa árin 2006 og 2007.
Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, mun Langholt áður hafa verið ein jörð, en á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið lokið að skipta henni í þær þrjár jarðir, sem nú tilheyra málsaðilum. Ekki liggja fyrir gögn um hvernig þessi skipting lands eða hlunninda upphaflegu jarðarinnar fór fram, en við það verður að miða að veiðiréttindum í Hvítá hafi verið skipt milli jarðanna þriggja að minnsta kosti áður en fyrrnefnd arðskrá var gerð fyrir Veiðifélag Árnesinga á árinu 1963, þar sem hverri þeirra voru ákveðin sjálfstæð réttindi. Þótt félagið hafi sem fyrr segir um árabil úthlutað jörðunum þremur í einu lagi heimildum til veiða með tilteknum fjölda stanga fyrir landi þeirra í Hvítá hefur ekki myndast með því einu sameign um þessi veiðiréttindi og liggur ekki fyrir að önnur stoð geti verið fyrir slíkri skipan. Að lögum hefur ekki verið á valdi félagsins að binda með þessu hendur eigenda jarðanna þannig að þeir yrðu knúnir til samstarfs af þeim toga, sem þeir höfðu fram til ársins 2006. Ekki eru efni til að fallast á með áfrýjendum að slíkt samstarf sé óhjákvæmilegt til að koma við nýtingu veiðiréttinda þeirra, enda eru þeim tæk úrræði til að fá notkun þessara réttinda skipulagða svo að hver eigandi geti fyrir sitt leyti nýtt þau fyrir eigin landi. Í málinu er ósannað að stefndi hafi á árunum 2006 eða 2007 fénýtt sér veiðiréttindi, sem að réttu lagi tilheyrðu áfrýjendum. Að þessu öllu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjendur, Ragnar Valur Björgvinsson og Sigríður Harðardóttir, greiði stefnda, Hreggviði Hermannssyni, samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 11. júlí 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. júní sl., höfðuðu Ragnar Björgvinsson, Langholti II, Flóahreppi, og Sigríður Harðardóttir, Hallanda, Flóahreppi, á hendur Hreggviði Hermannssyni, Langholti I, Flóahreppi, með stefnu birtri 12. apríl 2007. Kröfðust stefnendur þess aðallega að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnendum eftirgreindar skaðabætur:
Ragnari Björgvinssyni 945.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 450.000 krónum frá 24. ágúst 2006 til þingfestingardags, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Sigríði Harðardóttur 810.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 450.000 krónum frá 24. ágúst 2006 til þingfestingardags, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga, en af stefnufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi krafðist þess aðallega að máli þessu yrði vísað frá dómi en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 16. janúar sl. Þegar sú niðurstaða lá fyrir gáfu stefnendur út framhaldsstefnu á hendur stefnda þar sem þess var krafist að stefndi yrði til viðbótar dæmdur til að greiða stefndu eftirgreindar skaðabætur:
Ragnari Björgvinssyni 922.500 krónur með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi stefnunnar, 12. febrúar 2008, til greiðsludags.
Sigríði Harðardóttur 922.500 krónur með dráttarvöxtum frá 12. febrúar 2008 til greiðsludags.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda sem ákvarðaður verði að teknu tilliti til skyldu stefnenda til greiðslu virðisaukaskatts og með hliðsjón af málskostnaðaryfirliti.
Veiðifélagi Árnesinga var og stefnt til réttargæslu í málinu án þess að gerðar hafi verið kröfur á hendur því. Hefur réttargæslustefndi ekki látið málið til sín taka.
Stefndi krefst þess, bæði í aðalsök og framhaldssök, að hann verði aðallega sýknaður af kröfum stefnenda en til vara að kröfur þeirra verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann þess að stefnendur verði dæmdir til að greiða stefnda málskostnað ásamt virðisaukaskatti í samræmi við málskostnaðarreikning.
Málsatvik.
Jarðirnar Langholt II, í eigu stefnanda Ragnars, og Hallandi, í eigu stefnanda Sigríðar, báðar í Flóahreppi í Árnessýslu, liggja sitt hvorum megin við jörð stefnda, Langholt I. Eiga stefnendur og stefndi veiðiréttindi í Hvítá og liggur veiðisvæði jarðanna þriggja á milli jarðanna Stóru-Ármóta og Oddgeirshóla. Samkvæmt arðskrá Veiðifélags Árnesinga frá árinu 1963 tilheyra 40 einingar jörðinni Langholti I en jörðinni Langholti II og Hallanda tilheyra sitthvorar 20 einingarnar. Sýnast eigendur þessara jarða frá öndverðu hafa ráðstafað veiði sinni án afskipta veiðifélagsins. Hefur lengst af ríkt samkomulag um það milli þeirra að veiðidögum væri skipt eftir tilteknu kerfi, í réttu hlutfalli við rétt þeirra samkvæmt framangreindri arðskrá. Í kring um 1970 mun áin hafa verið leigð einum manni og eigendur þá skipt leigutekjunum á milli sín í samræmi við arðskrána eða 50%, 25% og 25%. Upp úr 1970 munu landeigendur svo hafa farið að skipta upp veiðinni með þeim hætti í megindráttum að hver jörð fengi tvo daga í senn. Fékk Langholt I þannig tvo daga, Hallandi tvo daga, Langholt I aftur tvo daga, Langholt II tvo daga, Langholt I tvo daga, Hallandi tvo daga o.s.frv.
Á árinu 2003 ákváðu stefnendur og stefndi hins vegar að gera breytingu á þessu fyrirkomulagi veiðanna og leigðu saman alla veiði fyrir jörðunum þremur til Lax-ár ehf. til fimm ára. Skyldi helmingur endurgjaldsins ganga til stefnda en hinn helmingurinn skiptast á milli stefnenda. Samningi þessum var hins vegar sagt upp af hálfu leigusala eftir veiðitímabilið 2005 án þess að samkomulag næðist um það milli stefnenda og stefnda hvaða fyrirkomulag yrði á veiðunum í framhaldi. Halda stefnendur því fram að stefndi hafi á veiðitímabilinu 2006 tekið upp á því að úthluta veiðidögum sem ekki tilheyrðu hans jörð heldur jörðum stefnenda samkvæmt því fyrirkomulagi sem gilti fyrir 2003. Hafi stefndi meinað stefnendum og veiðimönnum á þeirra vegum að nýta veiðirétt sinn og hafi meðal annars komið til árekstra á milli veiðimanna á vegum stefnanda, Ragnars, og veiðimanna á vegum stefnda í júlíbyrjun 2006. Hafi stefnendur þá fyrir löngu verið búnir að ráðstafa veiðidögum sínum í samræmi við framangreint veiðifyrirkomulag.
Veiðitímabilið hefur á tímabilinu frá 1996 til 2006 verið frá 14. júní til 28. september ár hvert. Hins vegar var veiðitímabilinu breytt á árinu 2007 og hófst það þá 24. júní og lauk hinn 24. september og telst því nú 92 dagar. Á þessu tímabili hefur Veiðifélag Árnesinga tekið 10 daga af veiðitímabilinu árlega, frá og með 10. ágúst og til og með 19. ágúst, sem greiðslu fyrir félagsgjöld. Hefur landeigendum hins vegar gefist kostur á að leysa til sín stangveiði fyrir landi sínu þessa daga. Kveða stefnendur framkvæmdina hafa verið þannig í gegnum árin að eigendur Langholts I hafi átt rétt á að leysa til sín 5 daga en eigendur Langholts II og Hallanda hafi sameiginlega átt rétt á að leysa til sín 5 daga.
Málsástæður stefnenda.
Stefnendur vísa til þess að fyrir liggi að eftir veiðitímabilið 2005 hafi stefndi einhliða sagt upp samningi sem eigendur jarðanna þriggja hefðu gert við veiðifélagið Lax-á ehf. um veiði jarðanna í Hvítá til ársins 2008. Veiðifyrirkomulagið, eins og það hafi verið áður en samningurinn við Lax-á ehf. tók gildi, hafi því gilt fyrir árið 2006, enda hefðu stefnendur og stefndi ekki komist að samkomulagi um annað. Byggist kröfugerð þeirra á því að þau eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda þar sem hann hafi með ólögmætum hætti meinað þeim að nýta sér veiðirétt sinn í Hvítá veiðitímabilin 2006 og með því jafnframt valdið því að sölumöguleikar stefnenda fyrir veiðitímabilið 2007 hafi eyðilagst. Þá liggi einnig fyrir að stefndi hafi haldið uppteknum hætti veiðitímabilið 2007 og selt daga sem stefnendur hafi átt samkvæmt umræddu veiðifyrirkomulagi.
Með þessari háttsemi hafi stefndi valdið hvorum stefnanda fyrir sig tjóni. Nemi tjón stefnanda Ragnars 945.000 krónum vegna ársins 2006, en tjón stefnanda Sigríðar vegna sama tímabils nemi 810.000 krónum. Vísi stefnendur um fjárhæð skaðabóta meðal annars til yfirlýsinga frá aðilum sem hafi ætlað að kaupa veiðidaga af stefnendum veiðitímabilið 2006. Hafi umsamið kaupverð fyrir hverja stöng á dag verið 15.000 krónur en miðað hefði verið við þrjár stangir á dag á veiðitímabilinu á sameiginlegu veiðisvæði jarðanna þriggja.
Stefnendur kveða tjón hvors þeirra fyrir sig vegna ársins 2007 nema 922.500 krónum. Miðað við framangreint veiðifyrirkomulag, sem gilt hafi á hinu sameiginlega veiðisvæði stefnenda og stefnda, hefði stefndi haft 41 dag til ráðstöfunar veiðitímabilið 2007 og stefnendur sitthvora 20,5 dagana. Veiðidögunum hafi þó ekki verið raðað niður samkvæmt greindu veiðifyrirkomulagi fyrir árið 2007 eins og gert hefði verið árið 2006. Hefði það verið gert hefði það leitt til þess að annaðhvort eigandi Hallanda eða eigandi Langholts II hefði fengið 21 dag á meðan hinn hefði fengið 20 daga. Með tilliti til þessa, og þar sem breyting hafi orðið á fjölda veiðidaga á milli ára, sé í kröfugerðinni miðað við að einum degi sé skipt til helminga á milli stefnenda þannig að hvor þeirra um sig fái 20,5 daga. Miðað við að stefnendur hafi getað selt veiðistöngina á 15.000 krónur sumarið 2006 sé miðað við að þau hefðu getað selt stöngina á sama verði sumarið 2007. Þrjár stangir á dag í 20,5 daga, miðað við að hver stöng sé seld á 15.000 krónur, geri samtals 922.500 krónur, sem sé sú fjárhæð sem stefnendur krefjist hvor fyrir sig vegna ársins 2007.
Kveðast stefnendur um lagarök einkum vísa til meginreglna eignarréttarins og skaðabótaréttarins. Um samlagsaðild til sóknar vísi þau til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísi þau til 1. mgr. 34. gr. sömu laga.
Málsástæður stefnda.
Til stuðnings kröfu sinni um sýknu kveðst stefndi vísa til þess að það sé forn og ný réttarregla að landeigandi eigi veiðirétt í vatni á eða fyrir landi sínu, sbr. nú 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/2006, nema lög eða samningsskuldbindingar, sem löglega hafi verið stofnað til, áskilji annað. Sé á því byggt að samvinna eigenda jarðanna Langholts I, Langholts II og Hallanda um veiði í Hvítá fyrir löndum jarðanna allra geti ekki myndað óskipta sameign allra eigenda jarðanna til veiði á því svæði, enda aðeins verið um að ræða samstarf jarðanna þriggja til veiði á þessu svæði. Það samstarf sé að rekja til þess að allt svæðið hafi áður verið í eigu sömu fjölskyldunnar. Vísi stefndi til þess að honum sé þannig einum heimil veiði í vatni fyrir landi sínu. Ekki hafi myndast sameign um veiðina og beri honum engin skylda til samstarfs við stefnendur. Sé honum því frjálst að ráðstafa veiði fyrir sínu landi. Komi þetta fram í staðfestingu frá Guðmundi Þorvaldssyni, formanni Veiðifélags Árnesinga, í tölvupósti sem liggi fyrir í málinu. Sé þar tekið fram að félagsmönnum Veiðifélags Árnesinga á vatnasvæði Ölfusár-Hvítár sé frjálst, hverjum fyrir landi sinnar jarðar, að veiða lax frá og með 24. júní til og með 9. ágúst og frá og með 20. ágúst til og með 24. september 2006.
Verði það niðurstaða dómsins að veiðiréttur jarðanna Langholts I, Langholts II og Hallanda sé óskiptur fyrir löndum allra jarðanna sé á það bent að hverjum sameiganda sé veiði jafnheimil í ánni. Rétt sé, sem fram komi í stefnu, að eigendur jarðanna Langholts I, Langholts II og Hallanda hafi í nokkra áratugi haft samvinnu um skiptingu veiði í Hvítá fyrir landi jarðanna, m.a. með því fyrirkomulagi að eigandi hverrar jarðar nýtti tvo daga í senn eftir ákveðnu kerfi út veiðitímabilið. Skiptingu veiði hafi þó einnig verið hagað með öðrum hætti. Það fyrirkomulag að skipta veiðidögum hafi fallið niður þegar ákveðið hafi verið að leigja Lax-á ehf. allan rétt til veiði í ánni á árinu 2003 næstu fjögur sumur. Hafi þá verið horfið frá fyrri skiptingu veiðidaga innbyrðis milli jarðanna og tekið upp það form að leigja út alla veiðidagana og skipta leigutekjunum í hlutföllunum 50% til stefnda og 25% til hvors stefnenda um sig. Þar sem útleiga til Lax-ár ehf. hafi reynst illa og fyrirséð að það myndi leiða til tjóns fyrir stefnendur og stefnda til lengri tíma hafi verið horfið frá því fyrirkomulagi. Eftir uppsögn samningsins á árinu 2005 hafi ekki legið fyrir neitt samkomulag um skiptingu veiði milli aðila heldur þvert á móti hafi verið ágreiningur um hvernig málum skyldi hagað þá um sumarið og í framtíðinni. Sé því mótmælt að fyrra samkomulag hefði þá átt að rakna við. Stefndi hafi eftirleiðis viljað hafa það fyrirkomulag að eigandi hverrar jarðar veiddi fyrir sinni jörð en stefnendur hafi viljað annað fyrirkomulag á veiðinni sem tæki mið af skiptingu miðað við tiltekinn dagafjölda. Í málinu liggi ekkert fyrir um að sú skipting sem stefndi vilji að gildi framvegis sé með einhverjum hætti ósanngjörn eða að stefndi gangi á rétt stefnenda með því, enda honum jafnheimilt og þeim að veiða í ánni. Á því sé byggt að á þessu tímamarki hafi veiðirétturinn verið óskiptur og ekkert samkomulag til um hvernig honum skyldi skipta. Verði að benda á í þessu sambandi að fyrir gildistöku núverandi laga um lax- og silungsveiði hafi verið gert ráð fyrir að samkomulag milli sameigenda um veiðirétt í óskiptri sameign gilti ekki í lengri tíma en til fimm ára í senn. Fyrirkomulag um skiptingu veiðiréttar með tilteknum hætti geti ekki bundið eiganda hans um aldur og ævi. Slíkt bryti gegn ráðstöfunarrétti og þar með stjórnarskrárvörðum eignarrétti eiganda veiðiréttar hverju sinni. Eftir uppsögn á leigusamningi við Lax-á ehf. hafi ekki náðst samkomulag um nýja skipan á skiptingu veiðiréttarins og því hafi enginn gildur samningur verið til staðar sem stefndi hafi vanefnt og með því bakað sér bótaábyrgð. Þegar veiðiréttur sé óskiptur þá sé öllum sameigendum hans veiði jafn heimil. Þar sem ekki liggi fyrir vanefnd stefnda á gildum samningi eða samkomulagi beri að sýkna hann af kröfum stefnenda.
Verði á það fallist að stefnendur eigi fjárkröfu á hendur stefnda sé þess krafist að kröfur þeirra verði lækkaðar verulega. Því til stuðnings kveðst stefndi vísa til þess sem áður hefur verið rakið til rökstuðnings aðalkröfu. Skaðabótakrafa stefnenda byggist á því að þeim hefði tekist að fullnýta alla þá veiðidaga fyrir landi allra jarðanna sem þau telji sig eiga tilkall til. Eins og áður sé rakið hafi aðsókn í ána hrunið eftir að sagt hafi verið upp samningnum við Lax-á ehf. um veiði sumrin 2004 og 2005 og hafi stefnendum reynst erfitt að finna aðila til að veiða í ánni sumarið 2006. Lítil veiði hafi svo verið í ánni sumarið 2007.
Stefndi, sem hafi áratuga reynslu af veiði fyrir landi sínu, hafi selt veiðileyfi á stöng mest á 10.000 krónur, enda hafi ekki verið markaður fyrir hærra verð. Stefnendur hafi ekki lagt fram neinar staðfestingar á því að markaður sé fyrir sölu einstakra veiðistanga á þessu svæði fyrir það verð sem þeir miði við. Krafa stefnenda byggist á því að þau hefðu getað leigt út þrjár stangir á dag alla þá veiðidaga sem þau telji sig eiga tilkall til fyrir landi allra jarðanna. Sé ósannað að það hafi þeim verið mögulegt. Þá verði ekki séð að stefnendur hafi með nokkru móti reynt að takmarka tjón sitt, t.d. með því að selja veiðileyfi í Hvítá fyrir sinni jörð, enda sé þeim veiði í ánni jafnheimil og stefnda fyrir landi jarða þeirra og liggi ekkert fyrir um að það fyrirkomulag sé óhagstætt fyrir stefnendur.
Stefndi kveðst sérstaklega mótmæla upphafstíma dráttarvaxta.
Um lagarök kveðst stefndi vísa til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir þeirra. Jafnframt vísi hann til meginreglna eignarréttar, m.a. um stofnun sameignar og um óskipta sameign. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, aðallega 2. gr., 5. gr., 8. gr. og 37. gr. laganna. Loks sé vísað til 129. gr. sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað. Krafan um virðisaukaskatt á málskostnað styðjist við lög nr. 50/1988 en stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnenda.
Niðurstaða.
Eins og rakið hefur verið telja stefnendur að þegar samningurinn um útleigu veiðisvæðisins í Hvítá fyrir jörðunum þremur féll niður á árinu 2005 hafi það fyrirkomulag um skiptingu veiðinnar raknað við sem áður hafði verið samkomulag um milli eigenda jarðanna að gilti og hafði þá gilt frá því upp úr 1970.
Af gögnum málsins verður ráðið að jarðirnar þrjár sem hér um ræðir, Langholt I, Langholt II og Hallandi, eru sérgreindar jarðir og á þeim forsendum voru ákvarðaðar arðseiningar vegna hverrar þeirra fyrir sig í gildandi arðskrá frá árinu 1963. Teljast eigendur jarðanna hver fyrir sig félagar í Veiðifélagi Árnesinga og hafa þar sjálfstæðan atkvæðisrétt. Samkvæmt þessu og með vísan til þeirrar fornu reglu í íslenskum rétti sem síðan hefur verið lögfest í lögum um lax- og silungsveiði, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 76/1970 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/2006, að hver maður eigi veiði fyrir landi sínu, verður að telja að hver jarðareigendanna þriggja hafi forræði á töku ákvarðana um ráðstöfun veiði fyrir landi viðkomandi jarðar innan þeirra marka sem gildandi lög um lax- og silungsveiði setja slíkri ákvarðanatöku. Hljóta slíkar ráðstafanir þannig ávallt að takmarkast af þeim ákvörðunum sem teknar eru á vettvangi viðkomandi veiðifélags.
Fyrir liggja í málinu gögn er staðfesta það, sem sýnist reyndar óumdeilt, að félagsmönnum veiðifélagsins hefur um nokkurt skeið verið frjálst gagnvart veiðifélaginu, hverjum fyrir landi sinnar jarðar, að veiða á tilgreindu tímabili yfir sumarið og þá að ráðstafa stangveiði til annarra kjósi þeir það.
Eins og fyrr greinir hafa aðilar máls þessa, og fyrri eigendur jarðanna, um alllangt skeið komið sér saman um að standa sameiginlega að ráðstöfun veiðinnar ár hvert. Hefur það aðallega verið gert á grundvelli tiltekins skipulags um það hvernig veiðidagarnir skiptust á milli jarðanna, í hlutfalli við skiptingu arðseininga samkvæmt arðskrá, en þó einnig með útleigu veiðinnar í heild til annars aðila og þá skiptingar á leigutekjunum milli eigendanna í sömu hlutföllum. Verður ekki fallist á það með stefnendum að með niðurfellingu samningsins við Lax-á ehf. um útleigu veiðisvæðisins hafi fyrra veiðifyrirkomulag raknað við, enda engin sönnun komin fram um að um slíkt hafi verið samið. Þvert á móti verður að telja að slíkt sameiginlegt skipulag veiðanna, annaðhvort fyrir tiltekið veiðitímabil eða til lengri tíma í senn, sé háð því að samkomulag takist milli aðilanna þar um. Takist slíkt samkomulag ekki er hverjum og einum þeirra frjálst að ráðstafa veiði fyrir sínu landi án afskipta hinna.
Þar sem fyrir lá í upphafi veiðitímabilsins 2006 að samkomulag hefði ekki tekist milli stefnenda og stefnda um fyrirkomulag veiðinnar það sumar var stefnda rétt að meina veiðimönnum á vegum stefnenda að veiða fyrir sínu landi. Verður því ekki fallist á að hann hafi með aðgerðum sínum að þessu leyti stofnað til skaðabótaskyldu gagnvart stefnendum vegna tapaðra veiðitekna fyrir veiðitímabilin 2006 og 2007. Verður stefndi því sýknaður af dómkröfum stefnenda.
Að fengnum þessum málsúrslitum verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda 871.500 krónur í málskostnað.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Hreggviður Hermannsson, er sýknaður af dómkröfum stefnenda, Ragnars Vals Björgvinssonar og Sigríðar Harðardóttur.
Stefnendur greiði stefnda 871.500 krónur í málskostnað.