Hæstiréttur íslands
Mál nr. 379/2012
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Uppsögn
- Laun
- Skuldajöfnuður
|
|
Miðvikudaginn 19. desember 2012. |
|
Nr. 379/2012.
|
Guðmundur Andri Skúlason (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Borgarahreyfingunni (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Vinnusamningur. Uppsögn. Laun. Skuldajöfnuður.
B sagði upp tímabundnum ráðningarsamningi við G sem krafðist í kjölfarið launa út umsaminn ráðningartíma auk orlofs og annarra nánar tiltekinna launaliða. B krafðist aðallaga sýknu af kröfum G en til vara lækkunar þeirra, með vísan til þess að B ætti gagnkröfu til skuldajafnaðar á hendur G, sem hefði brotið gegn trúnaðarskyldum sínum með óheimilli meðferð fjármuna B. Talið var að G ætti kröfu á hendur B vegna launa út umsaminn ráðningartíma auk orlofs- og desemberuppbóta, að frádreginni innborgun B, en öðrum kröfuliðum hafnað. Á hinn bóginn var fallist á með B að G hefði verið óheimilt að greiða nánar tiltekna fjárhæð af reikningi B. Samkvæmt því ætti B gagnkröfu á hendur G sem væri tæk til skuldajafnaðar. Var B dæmd til að greiða G mismun krafna þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Benedikt Bogason.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.186.164 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. ágúst 2011 til 1. október sama ár, en af fyrrgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 23. ágúst 2011 að fjárhæð 472.968 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hans hendi.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi var ráðinn til starfa fyrir stefnda 31. janúar 2011 með samningi þar sem sagði í upphafi að málsaðilar gerðu með sér svofelldan „verk- og starfssamning.“ Þar sagði jafnframt að áfrýjandi væri ráðinn sem verkefnastjóri. Föst laun hans skyldu taka mið af „lægsta taxta ríkisstarfsmanna hverju sinni og vera þrefalt margfeldi þeirra, sem við undirritun samnings þessa eru kr. 472.968,- fyrir hvern unninn mánuð.“ Í samningnum var jafnframt kveðið á um greiðslu iðgjalds og mótframlags í lífeyrissjóð og að um orlof, veikindarétt, tryggingar og fleira skyldi fara samkvæmt kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins.
Á stjórnarfundi stefnda 20. júlí 2011 var svofelld bókun færð í fundargerð: „Lagt var til að ráðningarsamningi við GAS, talsmann BH, yrði sagt upp hið fyrsta. Samningurinn mun verða efndur af hálfu stjórnar og greiddur að fullu. Tillagan var samþykkt með meirihluta atkvæða.“ Einn stjórnamanna lét færa til bókar að ástæða uppsagnar væri samstarfsörðugleikar en ekki ásakanir um óheiðarleika. Lögmaður stefnda sendi síðan bréf til áfrýjanda 28. júlí 2011 þar sem honum var tilkynnt um uppsögn úr starfi sem tímabundinn verkefnastjóri stefnda, en um ástæðu uppsagnar var vísað til fundargerðar stjórnarfundar 20. sama mánaðar. Áfrýjandi krefst launa út umsaminn ráðningartíma, sem hann telur hafa lokið síðasta dag september 2011, en laun auk orlofs og nokkurra fleiri launaliða nemur stefnufjárhæð að frádreginni innborgun stefnda 23. ágúst 2011. Stefndi mótmælir greiðsluskyldu.
Stefndi telur sig eiga gagnkröfu á áfrýjanda, en hann hafi brugðist trúnaðarskyldum sínum með óheimilli meðferð á fjármunum stefnda. Þar skipti mestu að áfrýjandi hafi 2. júní 2011 millifært af bankareikningi stefnda 1.593.711 krónur yfir á reikning Samtaka lánþega, en hann hafi sjálfur verið í fyrirsvari fyrir það félag og starfað fyrir það. Greiðslan hafi að mestu leyti verið í þágu síðastnefnds félags en ekki stefnda og þetta hafi áfrýjandi gert án vitundar stjórnar stefnda eða samþykkis. Það hafi að auki brotið gegn samþykktum stefnda þess efnist að öll fjárútlát, umfram upphæð sem miðist við mánaðarlega húsaleigu stefnda, þurfi undirskrift framkvæmdastjóra hans og gjaldkera. Áfrýjandi hafi einnig í öðrum tilvikum brotið starfsskyldur sínar, meðal annars við meðferð fjármuna, ráðningu starfsmanna og með því að veita ekki skýringar og afhenda nauðsynleg fylgiskjöl með reikningum. Jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi ætti inni einhver vangreidd laun bæri að sýkna stefnda vegna skuldajafnaðar, enda ljóst að krafa hans sé hærri en krafa áfrýjanda.
II
Áðurnefndur samningur aðila 31. janúar 2011 ber rík einkenni þess að vera vinnusamningur en ekki verksamningur og var tímabundinn fram til næsta aðalfundar stefnda, sem var haldinn 29. september 2011. Rúmlega tveir mánuðir voru því eftir af ráðningartímanum þegar áfrýjanda var sagt upp starfi. Stefndi ber því við að hann hafi rift samningnum og því hafi greiðsluskylda hans fallið niður þegar við uppsögn. Yfirlýsing eða ráðagerð þessa efnis kemur þó hvorki fyrir í uppsagnarbréfinu né fundargerð, sem þar var vísað til, heldur var beinlínis sagt að áfrýjanda væri sagt upp starfi og að samningurinn yrði efndur og greiddur að fullu af hálfu stefnda. Í lok ágúst 2011 fékk áfrýjandi greidda fjárhæð, sem stefndi taldi svara til launa hans fyrir júlí á sama ári, en um frekari greiðslur var ekki að ræða. Samkvæmt því hefur ekki verið réttilega gert upp við áfrýjanda í tilefni af starfslokum hans.
Launakrafa áfrýjanda er sett fram í sjö liðum, en af þeim eru þrír fyrstu um laun fyrir júlí, ágúst og september 2011 eða 536.178 krónur fyrir hvern mánuð. Stefndi telur mánaðarlaun ofáætluð, en þau ættu með réttu að vera 508.968 krónur þegar miðað sé við þann launaflokk sem lagður var til grundvallar við ráðningu hans. Áður er komið fram að samkvæmt ráðningarsamningi skyldu laun nema þreföldu margfeldi „lægsta taxta ríkisstarfsmanna hverju sinni“, en með þeirri aðferð urðu mánaðarlaun í upphafi 472.968 krónur og var þar ekki tekið tillit til hækkunar í þrepum vegna aldurs eða starfsreynslu. Meðal málskjala er fylgiskjal með kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu 29. maí 2011, en það skjal er launatafla sem tók gildi 1. júní 2011. Lægsti mánaðarlaunataxti samkvæmt þessu var 169.656 krónur, en hann á hér við samkvæmt skýru orðalagi ráðningarsamningsins. Þrefalt margfeldi þeirrar fjárhæðar er 508.968 krónur og verður krafa um þá fjárhæð tekin til greina fyrir hvern mánuð tímabilið júlí til september 2011 að báðum mánuðum meðtöldum.
Fjórði liðurinn í kröfu áfrýjanda er fyrir orlof í 18 daga, samtals 445.372 krónur. Stefndi mótmælir kröfunni og telur áfrýjanda hafa tekið sér frí frá störfum í maí, júní og júlí 2011 og eigi því ekki kröfu þessa efnis á stefnda. Þannig hafi hann farið til Brussel í maí og tvær ferðir til Spánar í júní og júlí, í öllum tilvikum í erindum fyrir Samtök lánþega en ekki stefnda. Sá tími sem fór í ferðirnar dragist frá orlofsrétti hans. Þá hafi áfrýjandi dvalið í orlofi um skeið í júlí á Vestfjörðum. Stefndi mótmælir þessu og kveður allar ferðirnar hafa verið farnar í þágu stefnda og dvölin á Vestfjörðum hafi ekki nýst til töku orlofs vegna brýnna verkefna, sem upp hafi komið, og hann þurft að sinna. Hér er þess að gæta að fyrir liggur tölvubréf áfrýjanda til stjórnarmanna stefnda 15. júlí 2011 þar sem segir meðal annars að hann hafi dvalið á Vestfjörðum í fríi í eina viku. Annað tölvubréf áfrýjanda til þeirra sömu er meðal málskjala þar sem segir að hann sé að fara „með boðskap Samtaka lánþega til Barcelona á Human Rights Film Festival.“ Ekkert er fram komið um að þessar ferðir hafi tengst störfum áfrýjanda fyrir stefnda, sbr. nánar síðar um ferð til Brussel. Verður ekki fallist á að áfrýjandi hafi sýnt fram á réttmæti þessa kröfuliðar og verður honum hafnað.
Fimmti kröfuliður áfrýjanda er fyrir orlofsuppbót, 21.245 krónur, og sá sjötti fyrir desemberuppbót, 61.013 krónur. Stefndi hefur ekki mótmæltu þessum liðum sérstaklega og er nægjanlega sýnt fram á réttmæti þeirra. Verða þeir teknir til greina. Sjöundi liðurinn er í stefnu sagður vera eingreiðsla samkvæmt kjarasamningi að fjárhæð 50.000 krónur. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti samþykkti áfrýjandi að stefndi hefði þegar greitt þessa fjárhæð og féll frá þessum lið kröfunnar.
Samkvæmt öllu framanröktu á áfrýjandi kröfu á stefnda að fjárhæð 1.609.162 krónur, en frá dregst áðurnefnd innborgun stefnda 23. ágúst 2011 með 472.968 krónum. Endanleg krafa áfrýjanda nemur því 1.136.194 krónum.
III
Áðurnefnd millifærsla áfrýjanda af reikningi stefnda 2. júní 2011 styðst við reikning frá Samtökum lánþega 1. sama mánaðar, samtals 1.593.711 krónur. Reikningurinn er í fimm liðum, þar sem sá fyrsti er fyrir húsaleigu, annar fyrir gistingu í ferð til Brussel í maí 2011, sá þriðji fyrir fargjöld í sömu ferð, sjá fjórði fyrir uppihald í ferðinni og sá fimmti fyrir þátttöku í kostnaði við auglýsingu vegna svonefnds Icesave-máls. Stefndi viðurkennir þennan reikning að hluta, en að meirihluta sé kostnaður, sem þar komi fram, honum óviðkomandi og áfrýjanda því verið alls óheimilt að greiða hann af bankareikningi stefnda. Verður vikið að einstökum liðum reiknings Samtaka lánþega hér á eftir.
Fyrsti liðurinn er fyrir húsaleigu og nemur 200.000 krónum og mun vera fyrir hlut stefnda í sameiginlegu leiguhúsnæði fyrir fjóra mánuði. Stefndi viðurkennir reikninginn að hluta, en vísar í fundargerð stjórnar sinnar þar sem samþykkt var greiðsla á 25.000 krónum á mánuði vegna þátttöku í húsaleigu. Engu að síður samþykkir hann þennan lið reikningsins með 150.000 krónum. Áfrýjandi hefur ekki útskýrt réttmæti þessa liðar reikningsins að öðru leyti og teljast 50.000 krónur af honum vera stefnda óviðkomandi.
Annar, þriðji og fjórði liður nefnds reikning er vegna ferðar til Brussel í maí 2011. Fyrir liggur að Samtök lánþega lögðu út fyrir gisti- og ferðakostnaði fimm manna hóps, sbr. annan og þriðja lið, og eru fjárhæðir samkvæmt þeim óumdeildar, en þær eru 73.499 krónur og 581.987 krónur. Stefndi samþykkir að greiða fimmtung þessara fjárhæða, en það sé fyrir formann stefnda, sem samþykkt hafi verið fyrirfram að færi með í ferðina á kostnað stefnda, en hún hafi verið farin á vegum Samtaka lánþega. Þessir liðir reikningsins séu stefnda að öðru leyti óviðkomandi, sem og fjórði liðurinn sem er fyrir uppihald í ferðinni. Engin fylgiskjöl hafi borist til skýringar á þessu og því sé réttmæti þessara liða mótmælt.
Í málinu er útprentun af Facebook-síðu Samtaka lánþega á netinu þar sem segir: „Einnig stóðu samtökin að kvörtun til ESA og fylgdu henni úr hlaði með því að fjármagna sendinefnd til Brussel sem átti í viðræðum við fulltrúa frá ESA, Evrópuþinginu og stækkunardeild ESB.“ Stefndi kveðst ekki hafa átt neinn hlut að þessari kvörtun eða haft önnur afskipti af málinu en þau sem áður var getið. Áfrýjandi hefur engum stoðum skotið undir réttmæti þess að færa fé af bankareikningi stefnda til Samtaka lánþega fyrir fjórum fimmtu hlutum fjárhæða í öðrum og þriðja lið áðurnefnds reiknings 1. júní 2011, samtals 524.389 krónum.
Fjórði liðurinn er fyrir uppihald í ferðinni og nemur 349.175 krónum. Ekkert er upplýst um hverjum sá kostnaður tengist eða hvort einhver hluti hans hafi verið í þágu fulltrúa stefnda í ferðinni. Áfrýjanda var því óheimilt að færa fé samkvæmt þessum lið af bankareikningi stefnda.
Fimmti liðurinn í reikningi Samtaka lánþega, sem áfrýjandi greiddi af bankareikningi stefnda, er fyrir auglýsingu og nemur 389.050 krónum. Fyrir Hæstarétti lýsti stefndi yfir að fullnægjandi skýringar hafi nú verið gefnar og féll frá andmælum vegna hans.
Auk umræddrar milliræslu krefst stefndi þess að úttektir áfrýjanda af debetkorti stefnda í þessari sömu ferð til Brussel að fjárhæð 139.705 krónur verði skuldajafnað gegn launakröfu áfrýjanda. Eins og áður er fram komið var þessi ferð farin á vegum Samtaka lánþega og hefur áfrýjandi með engu móti sýnt fram á að stefndi eigi að bera þessi útgjöld.
Niðurstaðan af framanröktu er sú að áfrýjanda var óheimilt að greiða samtals 1.063.269 krónur af reikningi stefnda og á sá síðastnefndi kröfu á áfrýjanda sem því nemur.
IV
Stefndi krefst þess að gagnkröfu verði skuldajafnað við kröfu áfrýjanda, en sú krafa telst nægilega skýrt fram borin til að verða tekin til efnismeðferðar. Áfrýjandi mótmælir að skilyrði skuldajafnaðar séu uppfyllt og ber einkum fyrir sig ákvæði laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra skal verkkaup greitt með gjaldgengum peningum og má eigi greiða það með skuldajöfnuði nema svo hafi áður verið sérstaklega um samið.
Lög nr. 28/1930 hafa að geyma ákvæði um tiltekin starfskjör launamanna í störfum, sem nánar eru talin upp í lögunum. Starf áfrýjanda í þágu stefnda fellur utan skilgreinds gildissviðs þeirra og áfrýjandi hefur ekki vísað til annarra heimilda sem girða fyrir skuldajöfnuð. Kröfur málsaðila eiga í báðum tilvikum rót sína að rekja til þeirrar aðstöðu að áfrýjandi gegndi starfi fyrir stefnda, en krafa þess síðarnefnda hefur þau tengsl við vinnuréttarsamband aðila að sameiginlegt uppgjör hennar og launakröfu áfrýjanda er eðlilegt, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 157/1977 í dómasafni réttarins 1978, bls. 1247. Verður samkvæmt því fallist á kröfu stefnda um skuldajöfnuð. Krafa áfrýjanda er hærri en krafa stefnda og nemur mismunurinn 72.925 krónum. Verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda þá fjárhæð með dráttarvöxtum eins og nánar segir í dómsorði og er þess þá gætt að skuldajöfnuður samrættra krafna hefur afturvirk áhrif.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, Borgarahreyfingin, greiði áfrýjanda, Guðmundi Andra Skúlasyni, 72.925 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2011 til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. april 2012.
Mál þetta höfðaði Guðmundur Andri Skúlason, kt. 190471-4629, Ásakór 12, Kópavogi, með stefnu birtri 5. október 2011, á hendur Borgarahreyfingunni, kt. 670209-1050. Málið var dómtekið 27. febrúar sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 2.186.164 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 536.178 krónum frá 1. ágúst 2011 til 1. september sama ár, af 1.072.356 krónum frá þeim degi til 1. október sama ár, en af 2.186.164 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun þann 23. ágúst 2011 að fjárhæð 472.968 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Verði hann ekki sýknaður krefst hann þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar með hliðsjón af því sem fram kemur í kafla um málsástæður í greinargerð hans.
Þá krefst hann þess, auk lækkunar á dómkröfum, að tekið verði tillit til þess að stefnandi hafði forgöngu um ólögmæta millifærslu á fjárhæðum af reikningi stefnanda yfir á félag í forsvari hans, Samtök lánþega.
Loks krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefnandi var ráðinn verkefnastjóri hjá stefnda Borgarahreyfingunni með samningi dags. 31. janúar 2011. Samningurinn skyldi gilda frá 1. janúar 2011 fram að næsta aðalfundi hreyfingarinnar, sem eins og segir í samningnum: „halda skal í samræmi við ákvæði samþykkta “
Um verkefni stefnanda segir í samningnum: „ ábyrgur fyrir uppbyggingu Borgarahreyfingarinnar, sjá um áætlanagerð, samskipti við fjölmiðla sem og undirbúning fyrir komandi kosningar, komi til þeirra. Jafnframt því skal Guðmundur Andri sjá um öll dagleg málefni, kynningarmál, umsjón með vefsíðu og vinna að því að koma á samstarfi við öflugt og áhugasamt fólk í landsbyggðarkjördæmum og koma fram fyrir, og vera talsmaður Borgarahreyfingarinnar á umsömdu tímabili.“
Laun stefnanda áttu að „taka mið af lægsta taxta ríkisstarfsmanna hverju sinni og vera þrefalt margfeldi þeirra, sem við undirritun samnings þessa eru kr. 472.968,- fyrir hvern mánuð. Greiðsla fyrir vinnu utan reglulegs vinnutíma er innifalin “.
Þá skyldi greiða tiltekið framlag til lífeyrissjóðs, en um orlof, veikindi, tryggingar o.fl. skyldi fara eftir kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins.
Stefnandi sat í stjórn stefnanda, en hann var ekki gjaldkeri. Þann 4. janúar 2011 samdi hann við Arion banka sem prókúruhafi stefnda um aðgang að netbanka. Síðar sótti hann síðan um debetkort á reikning stefnda. Guðmundur Karl Þorleifsson sem sat í stjórn stefnda bar fyrir dómi að ekki hefði verið samþykkt að veita stefnanda prókúruumboð. Í júní sótti stefnandi auk þess um kort fyrir Gunnar Sigurðsson, sem ráðinn hafði verið til að vinna að kynningum fyrir stefnda. Fyrir dómi var stefnandi ekki spurður beint um prókúruumboð sitt, en hann sagði að hann hefði sótt um kort fyrir Gunnar í skjóli sinnar eigin heimildar. Þórdís Sigurþórsdóttir, sem er formaður stefnda, sagði fyrir dómi að stefnandi hafi ekki haft neina heimild til að láta Gunnar fá kort. Stjórnarmennirnir Guðmundur Karl Þorleifsson og Þorsteinn Guðmundsson kváðust ekki vita til þess að stefnanda hafi verið þetta heimilt.
Stefndi hefur bent á að stefnandi hafi á sama tíma og hann starfaði hjá stefnda, verið að vinna fyrir eigin samtök, Samtök lánþega. Hann hafi m.a. farið til Spánar á vegum þeirra samtaka. Hafi hann raunar farið tvívegis til Spánar um sumarið. Fyrir síðari ferðina hafi hann óskað eftir fjárstuðningi stefnda, sem stjórnin hafi neitað.
Í maí 2011 var farið í ferð til Brussel. Tilgangur ferðarinnar var að fylgja eftir erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA. Auk stefnanda fóru Þórdís Björk Sigurþórsdóttir, formaður stefnda, Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður, Gunnar Sigurðsson og Herbert Sveinbjörnsson. Stefnandi sagði að þau hefðu öll verið á vegum stefnda. Útgjöld vegna ferðarinnar hefðu verið samþykkt fyrir fram. Kæran til Eftirlitsstofnunarinnar hefði verið í nafni stefnda, auk Samtaka lánþega og Hagsmunasamtaka heimilanna.
Þórdís Björk Sigurþórsdóttir sagði fyrir dómi að hún hefði ein farið á vegum stefnda til Brussel. Stefnandi og Björn Þorri Viktorsson hefðu farið á vegum Samtaka lánþega. Þá hefði stefnandi ákveðið að Gunnar Sigurðsson og Herbert Sveinbjörnsson færu þessa ferð, en þeir hefðu ekki verið á vegum stefnda.
Björn Þorri Viktorsson kvaðst hafa farið til Brussel á vegum Samtaka lánþega. Stefnandi hefði beðið sig að fara. Hann kvaðst ekki hafa fengið greiðslu fyrir ferðina.
Samtök lánþega gerðu stefnda reikning, dags. 1. júní 2011. Þar er krafist greiðslu vegna húsaleigu (200.000 krónur), kostnaðar við auglýsingu NEI Icesave (389.050 krónur) og kostnaðar við ferðina til Brussel. Er það sundurgreint í fargjöld (581.987 krónur), gistingu (73.499 krónur) og uppihald (349.175 krónur). Stefnandi greiddi alla liði þessa reiknings 23. og 27. júní. Ekki liggja frammi gögn um að þessi greiðsla hafi verið samþykkt í stjórn og stjórnarmenn vissu ekki til þess. Eins og áður er lýst segir stefnandi að útgjöld vegna ferðarinnar hafi verið samþykkt fyrir fram, en skýrði þessa fullyrðingu sína ekki nánar. Þau Þórdís Sigurþórsdóttir, Ingifríður Ragna Skúladóttir og Guðmundur Karl Þorleifsson báru öll fyrir dómi að samþykkt hefði verið í stjórninni að Þórdís færi á vegum stefnda í ferðina, en að ekki hefði verið samþykkt að senda fleiri.
Þá kemur fram í gögnum málsins að stefnandi hafi í ferðinni greitt með debetkorti því sem hann hafði á reikning stefnda. Er það skýrt í minnisblaði frá Þórdísi Sigurþórsdóttur, dags. 8. september 2011. Þar kemur fram að það vanti kvittun fyrir úttekt á reiðufé úr banka, 200 evrur. Þá séu kvittanir til fyrir samtals 197.454 krónum af úttektarliðnum uppihald, sem hafi numið 349.175 krónum. Til viðbótar er getið um úttekt sem nam 151.721 krónu. Er það skýrt sem úttekt í verslun, sem ekki hafi tekið við kortum. Segir stefndi að stefnandi hafi afhent ljósrit af ómerktum kassastrimli.
Stefnandi sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að allar debetkortafærslur hefðu verið skýrðar.
Á árinu réð stefnandi þá Gunnar Sigurðsson og Herbert Sveinbjörnsson til að starfa við kynningu samtakanna. Á stjórnarfundi 12. júlí 2011 var samþykkt að segja þeim upp störfum. Bókun í fundargerð hljóðar svo: „Ákveðið að rifta ráðningarsamningum sem tóku gildi 1. maí annars vegar og 1. júní hins vegar við kynningarstjóra Borgarahreyfingarinnar frá og með 1. ágúst n.k. og greiða þar eftir verktakagreiðslur fyrir unnin kynningarmyndbönd skv.nánara samkomulagi við stjórnarmenn, eins og ...“ Stefnandi var ekki á fundinum. Hann sendi þeim Gunnari og Herbert hins vegar bréf þar sem hann sagði þeim upp störfum. Afrit af bréfi hans til Gunnars var lagt fram í málinu, en í því er tilkynnt um uppsögnina og vísað til ákvörðunar stjórnar, sem segir að fylgi bréfinu.
Fram kom í skýrslum Þórdísar Sigurþórsdóttur, Guðmundar Karls Þorleifssonar og Þorsteins Guðmundssonar fyrir dómi að stefnandi hefði sagt þeim upp heimildarlaust og að eigin frumkvæði. Það hafi verið ætlunin að fá samningum þeirra breytt, ekki að láta þá hætta störfum. Stefnandi kvað hafa verið samþykkt í stjórn að segja þeim upp störfum og að hann hefði tilkynnt þeim það.
Fram kemur í greinargerð stefnda að þeir Gunnar og Herbert hafi höfðað mál á hendur honum vegna starfslokanna.
Meðal málsástæðna stefnda til lækkunar á kröfum stefnanda er notkun hans á netlykli, sem stefndi greiddi fyrir. Hefur stefndi lagt fram reikning frá Símanum vegna umframnotkunar í júlí 2011. Er reikningurinn að fjárhæð 41.861 króna.
Á fundi í stjórn stefnda, sem haldinn var 20. júlí 2011, var samþykkt tillaga um að stefnanda yrði sagt upp hið fyrsta. Samningurinn myndi verða efndur af hálfu stefnda og greiddur að fullu. Stefnandi lagði þá til að fenginn yrði óháður aðili til að fara yfir mál hans. Á móti kom fram frá einum stjórnarmanni að hann teldi ekki ástæðu til að leggja í kostnað við athugun á störfums stefnanda, þar sem ástæða uppsagnar væri samstarfsörðugleikar, en ekki ásakanir um óheiðarleika. Lauk með því bókun um þetta málefni á fundinum.
Með bréfi, dags. 28. júlí 2011, var stefnanda tilkynnt að honum væri sagt upp störfum frá og með þeim degi.
Stefnandi svaraði bréfi stefnda með bréfi lögmanns síns, dags. 8. ágúst. Þar eru gerðar athugsemdir um heimild til uppsagnarinnar og krafist greiðslu launa til loka september.
Þórdís Sigurþórsdóttir sagði ástæða þess að stefnanda var sagt upp hefði verið grunur um fjárdrátt, en þau hefðu ekki haft neitt ákveðið í höndunum og því ekki getað vísað til þess. Þorsteinn Guðmundsson bar á sama veg. Guðmundur Karl Þorleifsson sagði hins vegar að stefnanda hefði verið sagt upp vegna samstarfsörðugleika, en síðar hefði komið í ljós hvernig hann hefði farið með fé.
Mánudaginn 22. ágúst 2011 var haldinn fundur með aðilum á skrifstofu lögmanns stefnda. Stefnandi vék fljótlega af fundi vegna ósættis, en þáverandi lögmaður hans, Björn Þorri Viktorsson, sat fundinn til enda. Á fundinum voru einnig Þórdís Sigurþórsdóttir, Guðmundur Karl Þorleifsson og Lárus Ómarsson.
Í stefnu segir að í lok fundar hafi verið handsalað samkomulag um að stefnanda yrðu greidd laun fyrir júlímánuð og að hann myndi endurgreiða það sem greitt hafði verið til Samtaka lánþega vegna ferðarinnar til Brussel. Þórdís Sigurþórsdóttir bar á þennan veg fyrir dómi. Björn Þorri Viktorsson taldi hins vegar að ekki hefði verið gengið frá samkomulagi um neitt annað laun stefnanda fyrir júlímánuð. Lárus Ómarsson taldi heldur ekki að gengið hefði verið frá samkomulagi um endurgreiðslu.
Stefndi greiddi laun stefnanda fyrir júlí daginn eftir. Sama dag sóttu forsvarsmenn stefnda ýmis gögn til stefnanda, m.a. kvittanir og ýmis bókhaldsgögn. Ekki er ástæða til að rekja frekar samskipti aðila fram til þess að mál þetta var höfðað.
Loks verður að nefna að ágreiningur er uppi um hvort stefnandi hafi haft heimild til að láta vinna bókhald stefnda hjá bókhaldsþjónustunni Virtus. Þá er fjallað um greiðslu húsaleigu, en á tímabili virðist sem stefndi og Samtök lánþega hafi haft sömu skrifstofuaðstöðu. Segir stefndi að engin fylgigögn liggi fyrir um greiðslu til Samtaka lánþega að fjárhæð 200.000, sem sögð sé vera vegna húsaleigu í fjóra mánuði. Sömuleiðis vanti kvittun vegna auglýsingar í Fréttablaðinu, sem kostað hafi 389.050 krónur.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið skilyrði til fyrirvaralausrar uppsagnar eða brottrekstrar, þegar honum var vikið úr starfi. Stefndi hafi ekki áminnt sig eða sýnt fram á að til staðar væru skilyrði fyrirvaralausrar uppsagnar né sannað þær við uppsögn stefnanda 28. júlí
Stefnandi segir að laun sín við undirritun ráðningarsamnings hafi numið 472.968 krónum á mánuði og átt að taka mið af lægsta taxta ríkisstarfsmanna hverju sinni og vera þrefalt hærri. Launin hafi hækkað með kjarasamningi SFR frá 29. maí 2011, sem gilt hafi frá 1. maí 2011. Frá þeim degi hafi launin átt að vera 536.178 krónur á mánuði (178.726 x 3).
Stefnandi kveðst ekki hafa fengið greidd laun fyrir mánuðina júlí, ágúst og september 2011.
Stefnandi segir að gjalddagi launa sé fyrsti dagur eftir að launatímabili lýkur. Vísar hann hér til kjarasamnings VR og Samtaka atvinnulífsins. Þá skuli greiða áunnið orlof við lok ráðningar samkvæmt 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Þá skuli og greiða hlutfall af orlofs- og desemberuppbót, sbr. áðurnefndan kjarasamning. Samkvæmt sama kjarasamningi skuli og greiða 50.000 króna eingreiðslu.
Stefnandi sundurliðar kröfu sína svo:
|
Laun v/ júlí 2011 |
kr |
536.178 |
|
Laun v/ ágúst 2011 |
- |
536.178 |
|
Laun v/ september 2011 |
- |
536.178 |
|
18 daga orlof X 24.742 |
- |
445.372 |
|
Orlofsuppbót (17 X 673,3) + (21 X 466,6) |
- |
21.245 |
|
Desemberuppbót (39 X 1.1564,4) |
- |
61.013 |
|
Eingreiðsla skv. kjarasamningi |
- |
50.000 |
|
Innborgun 23.08.2011 |
- |
(472.968) |
|
Samtals |
kr. |
1.713.196 |
Stefnandi vísar til laga nr. 28/1930, laga nr. 55/1980, laga nr. 30/1987, meginreglna kröfuréttar og vinnuréttar, kjarasamninga VR og vinnuveitanda og bókana sem teljast hluti kjarasamninga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að honum hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum vegna verulegra og alvarlegra brota hans. Nefnir hann bókhaldsóreiðu, veitingu debetkorta til annarra án heimildar stjórnar stefnda, óheimilar millifærslur af reikningi stefnda og greiðslu kostnaðar út af reikningi stefnda yfir á reikning Samtaka lánþega, sem stefnandi sé í fyrirsvari fyrir. Í störfum sínum hafi stefnandi farið út fyrir starfssvið sitt og brotið alvarlega gegn trúnaðarskyldum sínum.
Stefndi segir að stefnandi hafi greitt reikning dags. 1. júní 2011 að fjárhæð 1.593.711 krónur, frá Samtökum lánþega, án heimildar stjórnar. Stefnandi hafi ekki getað skýrt þessa greiðslu. Hér sé um að ræða kostnað við ferð til Brussel á vegum félags stefnanda, Samtaka lánþega, en m.a. hafi verið greiddur ferðakostnaður stefnanda sjálfs og Björns Þorra Viktorssonar hæstaréttarlögmanns. Þessi ferð hafi ekki verið farin á vegum stefnda.
Stefndi segir að við nánari athugun hafi komið í ljós að stefnandi hafi látið stefnda greiða fyrir 5 einstaklinga til Brussel, en þar af hafi tveir verið á vegum Samtaka lánþega. Síðar hafi verið fullyrt á opinberum vettvangi að Samtök lánþega hafi greitt ferðakostnað þessara aðila.
Stefndi segir að þetta brot stefnanda gegn starfsskyldum réttlæti fyrirvaralausa uppsögn.
Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum með því að veita vini sínum og samstarfsmanni, Gunnari Sigurðssyni, debetkort í nafni stefnda. Stefnandi hafi ritað einn undir umsókn um kortið, án heimildar stjórnar. Þá hafi stefnandi tekið sér úttektarheimild á bankareikninga stefnda, einnig án heimildar stjórnar. Þetta hafi gert honum kleift að millifæra af bankareikningi stefnda á reikning Samtaka lánþega, sbr. það er áður greinir. Með þessu hafi stefnandi brotið gegn lögum stefnda, gr. 13.1.
Stefndi telur að hann hafi staðið rétt að uppsögn stefnanda. Hann hafi áminnt hann sérstaklega og margoft tjáð honum að hann væri að brjóta gegn starfsskyldum sínum. Á aukafundi stjórnar 14. mars 2011 hafi stjórnarmenn lýst óánægju með störf stefnanda og ljóst hafi verið að stefnandi yrði að bæta sig.
Stefndi bendir á að áminningar séu ekki formbundnar. Þar sem uppsögn hafi verið lögmæt verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ítrekað brotið trúnaðarskyldur sínar gagnvart stefnda. Stefndi vísar til hæstaréttardóms 1977-1328 og hæstaréttardóms í máli nr. 374/2004.
Þá vitnar stefndi til samskipta stjórnarmanna sinna þar sem fram koma sjónarmið um að stefnandi sinni ekki starfi sínu og auglýsi Samtök lánþega með síma sem stefndi greiði fyrir.
Stefndi segir að stefnandi hafi neitað að afhenda bókhaldsgögn félagsins og félagaskrá í rafrænu formi, en hvort tveggja hafi hann undir höndum. Þá hafi hann rofið trúnað með því að dreifa trúnaðargögnum félagsins til óviðkomandi aðila. Hafi hann sent frá sér afrit af tölvupóstum stjórnarmanna. Stefndi vísar hér til 6. gr. ráðningarsamnings aðila um trúnað.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi farið út fyrir valdsvið sitt þegar hann hafi sagt þeim Gunnari Sigurðssyni og Herberti Sveinbjörnssyni upp störfum, en þeir hafi verið ráðnir tímabundið til stefnda. Þetta hafi hann gert með bréfi dags. 15. júlí 2011, án þess að hafa fengið til þess fyrirmæli eða samþykki stjórnar. Raunar hafi hann ekki byrjað að skrifa þessi bréf fyrr en 21. júlí, daginn eftir að honum er tilkynnt á stjórnarfundi að það ætti að segja honum upp störfum hið fyrsta. Þessar uppsagnir hafi ekki verið á verkssviði stefnanda. Með þessu hafi hann valdið stefnda verulegu tjóni, en um uppsagnir þessar séu nú rekin mál fyrir héraðsdómi.
Kröfu um lækkun dómkrafna byggir stefndi á því að þær séu ofreiknaðar. Stefnandi miði við of há mánaðarlaun. Miða hafi átt launin við „lægsta taxta ríkisstarfsmanna hverju sinni “ Í byrjun hafi verið miðað við samning 648, flokk 01, þrep 0. Samkvæmt því þrepi ættu launin fyrir umrædda mánuði að nema 508.968 krónum. Stefnukrafan sé því ofreiknuð um 81.630 krónur.
Stefndi tekur fram að stefnandi hafi látið bókhaldsþjónustuna Virtus reikna laun sín fyrir maí og júní sem 472.968 krónur, og tekið sér greiðslu út af reikningi félagsins, án heimildar. Ekki hafi verið greidd laun fyrir maímánuð, en stefnandi hafi tekið sér 250.000 króna fyrirframgreiðslu út af reikningi félagsins 3. júní vegna launa fyrir maí. Bókhaldsþjónustan Virtus hafi þann 1. júlí reiknað laun stefnanda fyrir júní og hálfan maímánuð og dregið frá helming fyrirframgreiðslunnar, 125.000 krónur. Ef laun stefnanda hefðu átt að hækka frá og með 1. maí hefðu launin átt að vera 536.178 krónur í maí og júní, en ekki 472.968 krónur, eins og stefnandi hafi sjálfur látið bókhaldsþjónustuna reikna fyrir sig. Að beiðni formanns félagsins hafi bókhaldsþjónustan Endurskoðun og ráðgjöf reiknað laun stefnanda fyrir júlí. Þau hafi reiknast 472.968 krónur. Þá hafi verið dreginn frá síðari helmingur fyrirframgreiðslunnar frá 3. júní, 125.000 krónur. Hvorki stefnandi né lögmaður hans hafi gert athugasemd við þessa útreikninga.
Stefndi segir að eingreiðslan, 50.000 krónur, sem stefnandi gerir kröfu um, hafi verið greidd með launum 1.júlí.
Stefndi mótmælir kröfu um orlofsgreiðslur þar sem stefnandi hafi tekið sér orlof frá störfum í maí, júní og júlí. Hann hafi verið í Brussel á vegum Samtaka lánþega þrjá daga í maí, en á Spáni níu daga í júní og júlí. Þá hafi hann verið í orlofi á Vestfjörðum í fimm daga í júlí. Samtals hafi hann því verið í orlofi í sautján daga. Ráðning stefnanda hafi verið ákveðin á stjórnarfundi 16. janúar 2011 en hann fengið greitt frá 1. janúar 2011. Fram til 16. janúar hafi hann því verið í orlofi eða ekki við störf hjá stefnda.
Samkvæmt framansögðu telur stefndi að dómkröfur stefnanda séu ofreiknaðar um 577.002 krónur. Verði að lækka kröfurnar sem því nemi.
Þá byggir stefndi á því að draga verði óheimilar úttektir stefnanda af reikningum stefnda frá stefnufjárhæðinni. Stefnandi hafi millifært af reikningi stefnda 1.593.711 krónur inn á reikning Samtaka lánþega, án heimildar. Með þessu hafi stefndi verið látinn greiða fyrir ferðir fulltrúa þessara samtaka til Brussel.
Stefndi tekur fram að til frádráttar reikningi þessum geti komið kostnaður vegna auglýsingar að fjárhæð 389.050, gegn framvísun reiknings frá Fréttablaðinu, sem stefndi segir að hann þurfi að hafa í bókhaldi sínu.
Þá sé hluti af ofangreindum reikningi húsaleiga að fjárhæð 200.000 krónur, fyrir fjóra mánuði (4 x 50.000). Leigan hafi átt að vera 25.000 krónur fyrir hvorn mánuð í apríl og maí. Því hafi ekki átt að greiða Samtökum lánþega nema 150.000 krónur, en ekki 200.000 krónur, eins og stefnandi hafi gert.
Stefndi tekur fram að til frádráttar ferðakostnaði geti komið kostnaður vegna ferðar Þórdísar Sigurþórsdóttur, enda verði framvísað kvittunum. Þá verði að leggja fram leigusamninga Samtaka lánþega við Virtus, en reikningar fyrir leigugreiðslum hafi verið gefnir út eftir á. Verði þessi gögn ekki lögð fram verði að draga 1.593.711 krónur frá kröfum stefnanda, auk 139.705 króna úttekta af debetkorti.
Þá krefst stefndi einnig lækkunar vegna óheimillar notkunar stefnanda á 3G netlykli í júlí 2011, þegar stefnandi hafi verið í fríi. Netaðgangur hafi verið á skrifstofu stefnda og notkun á netlykli því í eigin þágu.
Stefndi vísar til laga nr. 28/1930, laga nr. 55/1980, laga nr. 30/1987, meginreglna kröfuréttar og vinnuréttar og til kjarasamninga VR og starfsmanna ríkisins.
Niðurstaða
Stefnandi var ráðinn tímabundið til starfa hjá stefnda. Af atvikum má ráða að hann hafi talið sig ráðinn til fjölþættari verkefna en beint verður ráðið af ráðningarsamningi aðila. Er t.a.m. óljóst hvort stjórnin hafi samþykkt að veita stefnanda prókúruumboð eða fela honum önnur verkefni varðandi bókhald og reikningsskil.
Tímabundnum ráðningarsamningum verður ekki sagt upp nema sérstaklega sé um það samið. Heimilt er að rifta slíkum samningum ef skilyrðum riftunar er fullnægt.
Sannað er með framburðum stjórnarmanna stefnda að samþykkt var að senda einn fulltrúa í áðurnefnda ferð til Brussel. Stefnandi greiddi hins vegar úr sjóði stefnda, til eigin samtaka, kostnað vegna allra þeirra sem fóru í ferðina, fimm að tölu. Hann hafði ekki heimild til að inna þessa greiðslu af hendi og þá skiptir ekki máli hvort hann hafi með réttu haft prókúruumboð. Þá er sú fullyrðing stefnanda að útgjöld vegna ferðarinnar hafi verið samþykkt með fjárhagsáætlun haldlaus með öllu.
Með þessari greiðslu hefur stefnandi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stefnda, sem hafði kosið hann til trúnaðarstarfa. Þegar stefnda varð ljóst að stefnandi hafði innt umrædda greiðslu af hendi var honum heimilt að rifta þegar ráðningu stefnanda. Stefnanda hafði þá þegar verið sagt upp störfum gegn greiðslu launa til loka ráðningartímans, en þegar framangreindar upplýsingar komust til vitundar stjórnarmanna var heimilt að rifta samningnum og hætta frekari greiðslum samkvæmt honum. Þarf ekki að fjalla um önnur atriði sem stefndi ber fyrir sig til stuðnings fyrirvaralausum slitum ráðningarsamningsins.
Stefnanda voru greidd laun fyrir júlí, sem stefnandi telur að séu 53.210 krónum of lág. Skýrist sá munur af því að stefnandi telur að taka eigi mið af lágmarkslaunum þeirra sem náð hafa tilteknum aldri. Á þessa málsástæðu hans verður ekki fallist. Samið var um að launin næmu þreföldum lágmarkstaxta ríkisstarfsmanna og þarf þá ekki að skoða hvernig reikna ætti laun stefnanda ef hann tæki laun beint samkvæmt taxta SFR. Stefndi viðurkennir að laun fyrir júlímánuð hafi átt að nema 508.968 krónum og verður því að fallast á að ógreiddar séu 36.000 krónur. Hafna verður launakröfu fyrir ágúst og september samkvæmt framansögðu.
Fram kemur víða í gögnum málsins, m.a. í skeytum stefnanda sjálfs, að hann tók sér frí um sumarið 2011. Hann hefur ekki skýrt þessa orlofstöku sína í stefnu og verður að hafna kröfu hans um greiðslu orlofs.
Krafa um orlofs- og desemberuppbót byggist á greinum 1.3.1 og 1.3.2 í kjarasamningi VR sem hér ber að miða við samkvæmt ráðningarsamningi aðila. Stefndi mótmælir ekki sérstaklega fjárhæðum í þessum liðum kröfugerðarinnar og verður hér því viðurkennd krafa að fjárhæð samtals 82.258 krónur.
Eingreiðsla samkvæmt kjarasamningi að fjárhæð 50.000 krónur var greidd stefnanda 23. ágúst og getur hann ekki krafið um þá greiðslu aftur.
Samkvæmt þessu verða viðurkenndar kröfur stefnanda að fjárhæð 118.258 krónur. Hann greiddi án heimildar 1.593.711 krónur úr sjóðum stefnda. Stefnda bar með réttu að greiða einhvern hluta þessarar fjárhæðar, en ekki nema lítinn hluta. Sá hluti sem stefnandi lét stefnda greiða án heimildar nemur hærri fjárhæð en þær kröfur stefnanda sem viðurkenndar eru hér að framan. Verður því fallist á kröfu stefnda um skuldajöfnuð og verður hann sýknaður af kröfum stefnanda.
Þar sem kröfum stefnanda er hafnað í meginatriðum verður að dæma hann til að greiða stefnda málskostnað. Ákveðst hann 400.000 krónur er tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur tafist vegna anna dómara. Lögmenn beggja aðila lýstu því yfir að þeir teldu óþarft að flytja málið á ný.
D ó m s o r ð
Stefndi, Borgarahreyfingin, er sýknaður af kröfum stefnanda, Guðmundar Andra Skúlasonar.
Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.