Hæstiréttur íslands

Mál nr. 69/2010


Lykilorð

  • Endurkrafa
  • Bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995
  • Málsástæða
  • Fyrning


Fimmtudaginn 14. október 2010.

Nr. 69/2010.

Bjarni Ragnar Guðmundsson

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skúli Bjarnason hrl.)

Endurkrafa. Bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995. Málsástæða. Fyrning.

Með ákvörðun bótanefndar var Í gert að greiða tjónþolanum A bætur vegna líkamsárásar að fjárhæð 601.609 krónur. Í höfðaði mál á hendur B og X og krafði þá um greiðslu þessarar fjárhæðar auk vaxta að fjárhæð 86.234 krónur. Málið var fellt niður gegn X í héraðsdómi. Fyrir Hæstarétti bar B því við að hann hafi ekki notið andmælaréttar áður en bótanefndin tók ákvörðun sína. Talið var að þessi málsástæða, sem mótmælt var af hálfu Í, væri of seint fram komin og kæmist hún ekki að í málinu, sbr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Þá var ekki fallist á með B að krafa Í væri fjárkrafa sem fyrndist á fjórum árum, heldur væri um að ræða skaðabótakröfu með tíu ára fyrningarfrest. Í þessu sambandi var vísað til þess að ákvæði 19. gr. laga nr. 96/1995 yrði ekki skýrt á annan veg en svo að þegar ríkissjóður greiddi bætur til handa tjónþola í samræmi við ákvæðið gengi hann þar með inn í rétt tjónþola sem hann ætti gagnvart tjónvaldi. Var B gert að greiða umkrafðar skaðabætur að fjárhæð 601.609 krónur, en talið var að Í hefði ekki verið heimilt að færa fyrrgreinda  vexti við höfuðstól á annan veg en mælt væri fyrir um í 12. gr. laga nr. 38/2001.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. febrúar 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2003 var áfrýjandi ásamt öðrum manni sakfelldur fyrir að hafa 17. júní 2001 ráðist í félagi á A með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut nánar tilgreinda áverka. Bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota ákvað 19. desember 2003 að ríkissjóður skyldi greiða brotaþola skaðabætur vegna árásarinnar að fjárhæð 601.609 krónur, þar af 178.180 krónur í þjáningabætur, 275.925 krónur vegna varanlegs miska, eða samtals 454.109 krónur, auk 107.500 króna vegna kostnaðar vegna meðferðar hjá sálfræðingi og 40.000 króna í þóknun til lögmanns að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Vextir voru ákveðnir samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 454.109 krónum frá 17. júní 2001 til greiðsludags. Bæturnar munu hafa verið greiddar brotaþola 16. eða 18. janúar 2004. Ríkissjóður endurkrafði áfrýjanda 22. janúar sama ár á grundvelli 19. gr. laganna um greiðslu þessa auk vaxta, 86.234 krónur, sem reiknaðir voru af þeim hluta fjárhæðarinnar sem tók til þjáningabóta og miska. Nam krafan þannig samtals 687.843 krónum, sem er stefnufjárhæðin í máli þessu. Ekki er tölulegur ágreiningur í málinu að öðru leyti en því að áfrýjandi mótmælir því að greiða vexti þá, sem stefndi lagði við höfuðstól kröfu sinnar. Málsatvikum og málsástæðum aðila er nánar lýst í héraðsdómi.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi borið því við að hann hafi ekki fengið nein gögn í hendur um kröfu brotaþola fyrr en við höfðun þessa máls og hann hafi því ekki notið andmælaréttar áður en nefndin tók áðurgreinda ákvörðun 19. desember 2003. Þessari málsástæðu var ekki haldið fram í héraði og hefur stefndi mótmælt að hún fái komist að fyrir Hæstarétti, en auk þess andmælir hann henni efnislega. Áfrýjanda var í lófa lagið að halda málsástæðunni fram fyrir héraðsdómi og er hún of seint fram komin. Að þessu gættu kemst hún ekki að í málinu, sbr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, eins og henni var breytt með 17. gr. laga nr. 38/1994.

Áfrýjandi reisir kröfu sýna um sýknu meðal annars á því að krafan sé fyrnd, enda sé ekki um skaðabótakröfu að tefla heldur fjárkröfu, sem fyrnist á fjórum árum samkvæmt þágildandi 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. nú lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995 eignast ríkissjóður rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi sem nemur fjárhæð bótanna greiði ríkissjóður bætur eftir lögunum. Verður ákvæðið ekki skýrt á annan veg en þann að greiði ríkissjóður bæturnar gangi hann inn í rétt tjónþola til skaðabóta, sem sá síðarnefndi átti á hendur tjónvaldi. Krafan fyrnist því á 10 árum eftir 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905, sbr. nú 1. mgr. 9. gr. og 28. gr. laga nr. 150/2007.

Þegar framangreint er virt og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að áfrýjanda verði gert að greiða stefnda umkrafðar skaðabætur að fjárhæð 601.609 krónur. Þar sem ríkissjóður gengur inn í rétt tjónþola til skaðabóta, eins og fyrr segir, er stefnda ekki heimilt að færa vexti við höfuðstól á annan veg en mælt er fyrir um í 12. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi hefur ekki gert grein fyrir því hvernig þessi krafa hans samræmist ákvæðinu og verður því ekki á hana fallist. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefnda 601.609 krónur með vöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

          Áfrýjandi, Bjarni Ragnar Guðmundsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 601.609 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 454.109 krónum frá 17. júní 2001 til 22. febrúar 2004, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna af 601.609 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

          Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er óraskað.

          Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. nóvember 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. september sl., var höfðað 30. október 2008.

Stefnandi er Ríkissjóður Íslands, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.

Stefndi er Bjarni Ragnar Guðmundsson, Sigtúni 43, Patreksfirði.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð,  687.843 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 687.843 krónum frá 22.01.2004 til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi Bjarni Ragnar Guðmundsson krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Upphaflega krafðist stefndi aðallega frávísunar málsins en hann féll frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.

Upphaflega var X einnig stefnt í máli þessu og þess krafist að hann og stefndi Bjarni Ragnar yrðu dæmdir in solidum til að greiða stefnukröfurnar. Við þingfestingu málsins 12. nóvember sl. féll stefnandi frá kröfum á hendur stefnda X.

I.

Í stefnu er atvikum lýst svo, að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-3671/2002, sem kveðinn var upp 7. mars 2003, hafi stefndu verið dæmdir til refsingar fyrir líkamsárás, með því að hafa í félagi ráðist á A og slegið hann hnefahögg og síðan ráðist á hann liggjandi í götunni með spörkum og hnefahöggum í líkama og höfuð, allt með þeim afleiðingum að A missti meðvitund, hlaut heilahristing og skurð á hægri augabrún, glóðarauga vinstra megin og blæðingu inn í augnhvítuna, tönn í efra gómi hans vinstra megin brotnaði, hann hlaut áverka á hné og bólgnaði á vinstra þumalfingri. Háttsemin hafi verið talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

II.

Í málavaxtalýsingu stefnda er atvikum lýst svo, að í Héraðsdómi Reykjavikur hafi verið kveðinn upp dómur málinu S-3671/2002 hinn 7. mars 2003 samkvæmt ákæru á hendur X og Bjarna Ragnari Guðmundssyni vegna slagsmála í miðbæ Reykjavikur. Þannig hafi C kært ákærða, X, fyrir að hafa skallað sig í andlit og hafi það í niðurstöðu dómsins þótt fullsannað. Jafnframt hafi verið fjallað um kæru A vegna afleiðinga slagsmála og líkamsmeiðinga og tjóns, er hann varð fyrir í átökum í miðbæ Reykjavikur. Upplýst sé og sannað, að Bjarni Ragnar Guðmundsson hafi ásamt allmörgum öðrum verið staddur á vettvangi þá er atburðir gerðust og kveðst hann hafa tekið þátt í slagsmálum en upphaf slagsmála og átaka hafi stafað frá A. Kveðst hann sjálfur hafa verið sleginn og blandað sér í átökin í kjölfar þess. Ákærðu hafi tekið afstöðu til ákæru og sakarefnis og hafi legið fyrir játning X um að hafa veitt A áverka. Hins vegar hafi Bjarni Ragnar Guðmundsson neitað sök og því að hafa valdið A líkamstjóni eins og í ákæru greinir. Í dómi segi svo: „Enginn hefur með vissu getað borið um upptök átakanna..." og síðar segi í niðurstöðu dómara: „Af myndböndum má ráða að árás ákærðu á A var á köflum hrottafengin en af myndbandinu verður ekkert ráðið um upptök átakanna, sem þarna urðu og vitni gátu ekkert borið um það með vissu. Upphafið er því óupplýst." Í málinu hafi bótakröfu A verið vísað frá dómi en X dæmdur til að greiða C skaðabætur vegna brots síns gagnvart honum.

Í máli þessu sé af hálfu stefnanda byggt á því að fyrir liggi umræddur dómur og dómurinn þyki næg sönnun um skaðabótaskyldu stefndu in solidum í máli þessu og hann því lagður til grundvallar um sök stefnda og afleiðingar árásarinnar. Hin meinta skuld komi til af því, að bótanefnd hafi úrskurðað skaðabætur til handa A að fjárhæð kr. 601.609,- ásamt vöxtum. Í forsendum í stefnu sé vísað til umræddrar ákvörðunar bótanefndar, sem sé endanleg niðurstaða máls á stjórnsýslustigi. Af hálfu stefnanda hafi lögmanni verið falið að hafa uppi kröfur á hendur báðum stefndu og liggja fyrir bréfasamskipti lögmanna stefnanda og stefndu í málinu.

III.

Af hálfu stefnanda er byggt á því að í hinum tilvitnaða dómi segi á bls. 6 í niðurstöðu ákæruliðar II að það þyki nægilega sannað að ákærðu hafi framið þá háttsemi sem í ákæru greinir og hafi honum ekki verið áfrýjað. Dómurinn teljist því næg sönnun um skaðabótaskyldu stefndu in solidum í máli þessu og sé hann því lagður til grundalla um sök stefndu og afleiðinga árásarinnar.

Brotaþolinn hafi krafist þess í kjölfarið að ríkissjóður greiddi sér bætur á grundvelli laga nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Þann 19. desember 2003 hafi bótanefnd ákvarðað brotaþolanum skaðabætur, 601.609 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vesti og verðtryggingu af 454.109 frá 17. júní 2001 til greiðsludags. Ákvörðun nefndarinnar sé endanleg niðurstaða máls á stjórnsýslustigi. Að beiðni Dómsmálaráðuneytisins hafi ríkisfjárhirsla greitt bæturnar út þann 18. janúar 2004 og um leið hafi ríkissjóður eignast rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi sem nemi fjárhæð greiddra bóta samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995. Stefndi hafi ekki greitt stefnanda umrædda fjárhæð. Í málinu liggi fyrir kröfugerð brotaþola þar sem farið var fram á 664.403 krónur og ákvörðun bótanefndar varðandi upphæð bóta.  Þar segi orðrétt í kafla II: „Með framangreindum dómi er sannað að umsækjandi varð fyrir tjóni vegna brots gegn 1. mgr. 218. gr. alm. hgl. nr. 19/1940. Fullnægt er skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 og um er að ræða tjón sem II. kafli laganna tekur til.“  Bótanefnd hafi ákvarðað að tjónþoli ætti rétt á bótum og lagt matsgerð Atla Þórs Ólasonar dr. med. og Ragnars Jónssonar læknis til grundvallar. Ákvörðunarorð nefndarinnar séu orðrétt svohljóðandi: „Ríkissjóður greiði A [ ......], skaðabætur að fjárhæð kr. 601.609.- ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af kr. 454.109.- frá 17. júní 2001 til greiðsludags.“ Í samræmi við þetta hafi verið reiknaðir vextir á fjárhæðina kr. 454.109.- og hafi þeir verið kr. 86.234. Samtals geri þetta kr. 687.843.- og sé það höfuðstóll stefnufjárhæðar málsins.

Varðandi sök sé byggt á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. Sö3671/2002. Þá hafi stefndu ekki hnekkt niðurstöðu bótanefndar og sé byggt á rökstuðningi hennar um ákvörðun bótafjárhæðar.

Um lagarök er vísað til laga nr. 69/1995, einkum 19. gr. laganna. Þá er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum, almennra reglna skaðabótaréttarins og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

IV.

Sýknukrafa stefnda Bjarna Ragnars er reist á því, að krafa stefnanda sé fyrnd. Hinn 19. des. 2003 hafi bótanefnd tekið ákvörðun um að greiða út bætur. Þá hafi ríkissjóður eignast kröfuna og eignast þannig endurkröfu á bótum skv. úrskurði bótanefndar 601.609 krónur. Ríkissjóður, stefnandi máls þessa, hafi þannig öðlast rétt til að krefjast endurgreiðslu og ef ákvörðun um slíkt yrði tekin,  með kröfugerð á hendur þeim, sem tjóni höfðu valdið. Fyrningarfrestur sé fjögur ár frá því að til kröfu er stofnað. Stefndi, Bjarni Ragnar, telji þannig ljóst, að krafan hafi fyrnst hinn 19. des. 2007 en í síðasta lagi hinn 18. jan. 2008 við útborgun fjárhæðar. Í 19. gr. laga nr. 69/1995 sé kveðið á um að ríkissjóður eignist rétt tjónbola gagnvart tjónvaldi, sem nemi fjárhæð bótanna. Um sé að ræða fjárkröfu en ekki skaðabótakröfu. Talað sé um bótakröfuna sjálfa en ekki vexti, sem bótanefnd ákveði að greiða tjónþola. Í ljósi þess, sem hér greinir, sé ljóst að um sé að ræða skuld, sem verið sé að krefja og slík skuld fyrnist á fjórum árum eins og áður greinir. Vísast til laga um fyrningu.

Stefndi, Bjarni Ragnar, krefjist enn fremur sýknu á þeim forsendum, að hann hafi ekki valdið því tjóni, sem A varð fyrir umrætt sinn. Fyrir liggi að X hafi játað sök en ákærði Bjarni Ragnar ekki. Þá sé ljóst af frásögn Bjarna, að A hafi sjálfur átt upptök að átökum og veist að Bjarna Ragnari og öðrum með þeim afleiðingum, sem um ræðir. Þá telji stefndi Bjarni Ragnar ljóst, að kröfum verði aldrei beint að stefndu in solidum eins og málið sé búið og áður er rakið og ennfremur að ákvörðun stjórnvalds sem sé bótanefnd í þessu tilviki sé ekki skuldbindandi fyrir stefnda, Bjarna Ragnar, án undangengins dóms um bótaskyldu og fjárhæð bóta. Í málinu sé því haldið fram sem málsástæðu, að stefndu hafi eigi hnekkt niðurstöðu bótanefndar. Eigi sé ljóst með hvaða hætti Bjarni Ragnar hefði átt að geta hnekkt niðurstöðu bótanefndar með öðrum hætti en fram er komið bréfum til dómsmálaráðuneytisins og þeirri staðreynd að fyrir liggur að hann neitaði sök, þ.e.a.s. að vera valdur að líkamstjóni A.

Telji dómurinn að um greiðsluskyldu sé að tefla hjá stefnda, Bjarna Ragnari, verði að telja ljóst að skipta beri greiðslum og ábyrgð með þeim hætti að greiðsluskylda verði eigi lögð að öllu leyti á stefnda Bjarna Ragnar, heldur verði talið að X beri meginsök og ábyrgð á því tjóni, sem A varð fyrir, en fyrir liggi játning X á því að hafa valdið honum því tjóni. Þegar af þeirri ástæðu verði ekki sök eða greiðsluskylda lögð á Bjarna Ragnar Guðmundsson.

Lagarök:

Af hálfu stefnda er vísað til laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, laga um greiðslu ríkisins um bætur til þolenda afbrota nr. 69/1995 einkum 19. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála einkum 80. og 100. gr. og 130. gr. varðandi málskostnað og lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995 greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laganna, enda hafi brotið verið framið innann íslenska ríkisins. Greiða skal bætur vegna líkamstjóns samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna og einnig bætur vegna miska samkvæmt 3. gr. þeirra. Samkvæmt 9. gr. laganna skal greiða bætur samkvæmt lögunum þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur er, hann sé óskahæfur eða finnist ekki.

Samkvæmt 6. gr. fyrrgreindra laga nr. 96/1995 er það skilyrði greiðslu bóta að brot sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Þá skuli umsókn um bætur hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið.

Samkvæmt gögnum málsins var öllum skilyrðum 6. gr. laga nr. 96/1995 um bótaskyldu  fullnægt.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað. Fyrningarfrestur kröfunnar sé fjögur ár frá því að til kröfu var stofnað. Krafan hafi þannig fyrnst þann 19. desember 2007 en í síðasta lagi þann 18. janúar 2008 við útborgun kröfunnar. Um sé að ræða fjárkröfu en ekki skaðabótakröfu. Á þetta er ekki fallist. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995 eignast ríkissjóður rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi sem nemur fjárhæð bóta, er ríkissjóður hefur greitt.  Krafa stefnanda er því krafa á hendur tjónvaldi um greiðslu skaðabóta sem ríkissjóður hefur greitt tjónþola. Krafan er því skaðabótakrafa og fyrnist hún á 10 árum. Krafa stefnanda var því ekki fyrnd þegar mál þetta var höfðað 30. október 2008. Er sýknukröfu á grundvelli fyrningar því hafnað.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram og sýknukrafa einnig á því byggð, að stefndi hafi ekki valdið því tjóni, sem A varð fyrir umrætt sinn. Fyrir liggi að X hafi játað sök en ákærði Bjarni Ragnar ekki. Þá sé ljóst af frásögn Bjarna, að A hafi sjálfur átt upptök að átökum og veist að Bjarna Ragnari og öðrum með þeim afleiðingum, sem um ræðir. 

Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars voru X og stefndi Bjarni Ragnar dæmdir sakfelldir og dæmdir til refsingar fyrir líkamsárás, með því að hafa í félagi ráðist á A og slegið hann hnefahögg og síðan ráðist á hann liggjandi í götunni með spörkum og hnefahöggum í líkama og höfuð, allt með þeim afleiðingum að A missti meðvitund, hlaut heilahristing og skurð á hægri augabrún, glóðarauga vinstra megin og blæðingu inn í augnhvítuna, tönn í efra gómi hans vinstra megin brotnaði, hann hlaut áverka á hné og bólgnaði á vinstra þumalfingri. Taldi dómurinn háttsemina varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998. Dóminum var ekki áfrýjað. Þar með er ótvírætt að tjón A varð vegna brota á almennum hegningarlögum og að skilyrðum 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 sé fullnægt til greiðslu bóta úr ríkissjóði.

Samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur var því slegið föstu að um samverknað stefnda og  X hafi verið að ræða í árásinni á A og óskipta sök þeirra. Sú niðurstaða stendur því óhögguð og sætir ekki endurskoðun í máli þessu. Verður hún því lögð til grundvallar í máli þessu, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda hefur annað ekki verið sannað við meðferð málsins hér fyrir dómi. Er sakarábyrgð þeirra á tjóni því sem A varð fyrir vegna árásarinnar því óskipt. Er kröfu um sýknu á þeim grundvelli að stefndi hafi ekki valdið því tjóni sem árásarþoli varð fyrir því hafnað.

Með vísan til framanritaðs er kröfu um sýknu af þeirri ástæðu að ekki hafi mátt beina kröfum að stefnda og X in solidum hafnað.  Þá er þeirri málsástæðu hafnað að ákvörðun bótanefndar sé ekki skuldbindandi fyrir stefnda án undangengins dóms um bótaskyldu og fjárhæð bóta. Horfa verður til þess að hvorki lög nr. 69/1995 né réttarfarslög verða túlkuð þannig að skilyrði fyrir því að þolandi afbrots fái greiddar bætur samkvæmt lögunum sé að áfellisdómur liggi fyrir um hverja þá háttsemi sem ákært er fyrir hverju sinni, enda segir í 9. gr. laga nr. 69/1995 að greiða skuli tjónþola bætur samkvæmt lögunum þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur sé.

Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið er því sýknukröfu stefnda hafnað og verður hann því dæmdur greiðsluskyldur. Í málinu er ekki ágreiningur um að A varð fyrir tjóni og ekki sætir útreikningur á tjóni hans eða þau læknisfræðilegu gögn sem útreikningurinn er studdur við ágreiningi. Stefndi telur hins vegar að skipta beri greiðslum og ábyrgð með þeim hætti að greiðsluskylda verði eigi lögð að öllu leyti á stefnda Bjarna Ragnar, heldur verði talið að X beri meginsök og ábyrgð á því tjóni, sem A varð fyrir, en fyrir liggi játning X á því að hafa valdið honum því tjóni. Stefndi og X voru taldir bera óskipta sakarábyrgð gagnvart árásarþola. Sú óskipta ábyrgð tekur jafnframt til afleiðinga árásarinnar. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til álita að skipta bótaábyrgð og dæma stefnda eingöngu til að dæma kröfu stefnanda að hluta. Engu skiptir fyrir úrslit málsins að fallið var frá kröfum á hendur X þar sem ekki tókst að birta honum stefnu í málinu.

Þegar allt framangreint er virt, er fallist á kröfu stefnanda, íslenska ríkisins á hendur stefnda og verður hann dæmdur til greiðslu að fjárhæð 687.843 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. janúar 2004 til greiðsludags.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefndi stefnanda 250.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Stefndi Bjarni Ragnar Guðmundsson, greiði stefnanda, ríkissjóði Íslands, 687.843 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. janúar 2004 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað að fjárhæð 250.000 krónur.