Hæstiréttur íslands
Mál nr. 400/2010
Lykilorð
- Skaðabætur
- Einkahlutafélag
- Ábyrgð stjórnarmanna
|
Fimmtudaginn 27. janúar 2011. |
|
|
Nr. 400/2010. |
Bræðurnir Ormsson ehf. (Sigurbjörn Magnússon hrl.) gegn Gunnari Erni Kristjánssyni og Sigurði Sigfússyni (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Skaðabætur. Einkahlutafélag. Ábyrgð stjórnarmanna.
G og S gegndu störfum framkvæmdastjóra og stjórnarformanns í B ehf. Á starfstíma sínum höfðu þeir frumkvæði að stofnun dótturfélags B ehf. í Slóvakíu. Fyrir tilstuðlan G og S voru greiðslur vegna stofnunar félagsins og ýmiss annars kostnaðar inntar af hendi fyrir reikning B ehf. Samkvæmt samþykktum dótturfélagsins átti B ehf. 68% hlut í félaginu en G og S 16%, hvor um sig. B ehf. höfðaði mál þetta gegn G og S, eftir að þeir höfðu lokið störfum hjá félaginu, til heimtu þeirra fjármuna sem samkvæmt framansögðu var ráðstafað til stofnunar dótturfélagsins, með vísan til 73. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, á þeim grundvelli að félagið væri í reynd að fullu í eigu G og S. G og S mótmæltu því að um heimildalausa ráðstöfun hefði verið að ræða og héldu því fram að fénu hefði verið ráðstafað til stofnframlags dótturfélagsins, að hluta í þágu B ehf., lögum samkvæmt, og að hluta sem viðskiptalán til handa G og S, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að samkvæmt bókum B ehf., sem G og S báru ábyrgð að væru rétt færðar, var hlutafjáreign í dótturfélaginu skráð sem eign G og S, greidd með fjármunum B ehf. og án þess að endurgjald hefði komið fyrir úr hendi tvímenninganna. Hæstiréttur taldi að fallast yrði á með B ehf. að G og S hefðu gengið svo frá reikningsskilum B ehf. að telja bæri að dótturfélagið væri í þeirra eigu og yrði því að líta svo á að þeir hefði nýtt fjármuni B ehf. í eigin þágu við stofnun dótturfélagsins. Þessi ráðstöfun hefði ekki verið heimil tvímenningunum á grundvelli XII. kafla laga nr. 138/1994 og hefðu þeir því bakað B ehf. tjón sem þeir bæru skaðabótaskyldu á, sbr. 1. mgr. 108. gr. sömu laga. Málsástæðu G og S fyrir Hæstarétti þess efnis að B ehf. væri ekki heimilt að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur þeim þar sem ákvörðun um það hefði ekki verið tekin á hluthafafundi B ehf., sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994, var of seint fram komin. sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2010. Hann krefst þess aðallega að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 6.040.849 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.799.705 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 6.040.849 krónur frá þeim degi til greiðsludags. Til vara að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 1.933.072 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 1.535.906 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.933.072 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og að áfrýjanda verði gert að greiða hvorum þeirra málskostnað fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins barst stefnda Gunnari Erni Kristjánssyni, þáverandi framkvæmdastjóri áfrýjanda, tölvupóstur frá lögmanninum Radovan Hrádek í Slóvakíu 8. október 2007 varðandi stofnun félagsins Ormsson Slovakia s.r.o. Þar kom fram að öll skjöl væru tilbúin fyrir stofnun félagsins en lögmanninum hefði ekki borist fé til að mæta kostnaði við stofnun þess að fjárhæð 11.399 evrur og greiðslu hlutafjár í félaginu að fjárhæð 1.500.000 slóvakískar krónur, sem jafngiltu þá 44.431 evru, eða samtals 55.830 evrur. Samkvæmt greiðsluseðli um gjaldeyriskaup frá Landsbanka Íslands hf. sama dag keypti áfrýjandi 55.830 evrur fyrir 4.799.705 íslenskar krónur og millifærði bankinn fjármunina inn á reikning lögmannsins í viðskiptabanka í Bratislava í Slóvakíu. Á greiðsluseðilinn var skráð skýringin: „Ormsson Slovakia s.r.o.“ Í beinu framhaldi var gengið frá stofnun Ormsson Slovakia s.r.o. Samkvæmt samþykktum félagsins 16. október 2007 átti áfrýjandi 68% í því og stefndu hvor um sig 16%, en hlutafé var 1.500.000 slóvakískar krónur. Til viðbótar þessu létu stefndu áfrýjanda greiða ýmsan kostnað vegna Ormsson Slovakia s.r.o., meðal annars vegna þjónustu lögmanns, og var reikningur nr. 114285 í bókum áfrýjanda þannig auðkenndur sem „verk í vinnslu í Slovakíu“, en lokastaða hans var 1.241.144,19 krónur.
Krafa áfrýjanda á hendur stefndu nemur samtölu af lokastöðu þessa reiknings og þeirri fjárhæð sem samkvæmt framansögðu var greidd til lögmannsins Radovan Hrádek. Áfrýjandi byggir á því að þessum fjármunum úr sjóðum hans hafi verið varið til að stofna félag sem í reynd hafi verið í eigu stefndu þótt 68% hlutafjár hafi verið skráð sem eign áfrýjanda. Í þessu sambandi vísar áfrýjandi til þess að óheimilt sé að ráðstafa fjármunum úr sjóðum félags nema í þágu starfsemi þess eða í öðrum lögbundnum tilvikum, sbr. 73. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Hvergi sjáist merki þess í skjallegum gögnum áfrýjanda, hvorki ársreikningi né annars staðar, að hlutafjáreign í Ormsson Slovakia s.r.o. hafi verið eign hans.
Stefndu mótmæla því að um heimildarlausa ráðstöfun fjármuna hafi verið að ræða. Hafi þessu fé verið ráðstafað í þágu áfrýjanda af þeim, sem til þess voru bærir, enda ljóst að það hafi farið til að greiða stofnfé áfrýjanda í Ormsson Slovakia s.r.o. og að hluta hafi verið um að ræða viðskiptalán til handa stefndu fyrir þeirra 32% stofnframlagi svo sem heimilt sé í lokamálslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.
II
AB 173 ehf. keypti alla hluti í áfrýjanda 2. október 2008 af Opal Seafood Investments Ltd. en stefndu voru fyrirsvarsmenn síðarnefnda félagsins og undirrituðu kaupsamning fyrir þess hönd. Í 2. gr. samningsins kemur fram að forsendur kaupanda fyrir gerð hans væri einkum að finna í tveimur skjölum, sem væru fylgiskjöl með honum. Annars vegar var þar um að ræða ársreikning fyrir áfrýjanda og dótturfélög fyrir árið 2007 og hins vegar óformlegt uppgjör þeirra sömu fyrir janúar til og með júní 2008. Í 8. gr. kaupsamningsins staðfesti seljandi og lofaði með undirritun sinni á samninginn að allar þær upplýsingar sem hann hefði gefið varðandi félagið væru réttar og að kaupandi hefði verði upplýstur um öll þau atriði sem máli skiptu.
Í skýringu nr. 7 í ársreikningi áfrýjanda fyrir árið 2007 kemur fram að eignarhlutir í hlutdeildarfélögum séu eignfærðir á nafnverði en ekki sem svarar til hlutdeildar félagsins í bókfærðu eigin fé þeirra. Í skýringu nr. 18 eru taldir upp eignarhlutir í öðrum félögum og er þar ekki að finna neinar upplýsingar um eignarhlut í Ormsson Slovakia s.r.o. Ársreikningurinn var staðfestur af stjórn áfrýjanda og framkvæmdastjóra og undirritaður af stefndu. Þá var hann áritaður af þáverandi endurskoðanda félagsins án athugasemda.
Áfrýjandi hefur lagt fram nýtt skjal fyrir Hæstarétt sem nefnist „Lokafærslur 2007“, en þáverandi endurskoðandi hans sendi það til fjármálastjóra félagsins 22. september 2008. Þar kemur fram færsla að fjárhæð 4.799.705 krónur frá „hlutabréfaeign“ áfrýjanda yfir á „aðrar skammtímakröfur“ og er skýring við hana „Mlf á Gunnar og Sigurð“. Samkvæmt bókum áfrýjanda, sem stefndu báru ábyrgð á að væru rétt færðar, var hlutafjáreign í Ormsson Slovakia s.r.o. þannig skráð sem eign stefndu, greidd með fjármunum áfrýjanda og án þess að endurgjald hefði komið fyrir úr hendi stefndu. Stefndu hafa borið fyrir sig að um viðskiptalán hafi verið að ræða fyrir 32% eignarhluta þeirra í Ormsson Slovakia s.r.o. Engin gögn hafa þó fundist um það í bókum áfrýjanda og er sú fullyrðing stefndu því ósönnuð gegn andmælum hans.
Í tölvupósti, sem þáverandi endurskoðandi áfrýjanda sendi 26. september 2008 í tilefni af áreiðanleikakönnun á áfrýjanda í tengslum við sölu á félaginu, svaraði hann fyrirspurn um framangreindar bókhaldsfærslur. Þar kemur fram að hlutabréfaeign að fjárhæð 4.799.705 krónur hafi verið færð til eigenda einhvern tíma á árinu 2007. Þá segir svo: „Þegar ég fór yfir þetta með Gunnari og Sigurði komu fram afdráttarlaus fyrirmæli um að þetta væri þeirra eign en ekki BO. Þetta er sem sagt fært svona að fyrirmælum allra eigenda. Meira veit ég ekki og annað skipti mig ekki máli en báðir [eru] borgunarmenn fyrir þessari skuld.“ Áfrýjandi hefur lagt fram nýtt skjal, tölvupóst frá sama degi frá endurskoðandanum til þess, er sá um framkvæmd áreiðanleikakönnunarinnar. Þar kemur fram að endurskoðandinn hafi ekki fundið hvaða hlutbréf þetta séu að fjárhæð 4.799.705 krónur en það ætti að vera aukaatriði þar sem stjórn félagsins hafi ákveðið að þetta væri ekki eign þess. Í bréfinu segir síðan: „Þetta er gert svona í lokafærslum hjá mér að beiðni eigenda sem töldu þetta ranglega bókað. Á móti er eignfærð krafa á eigendur sem þeir eiga að sjálfsögðu að standa skil á eða enn betra að draga þetta frá við uppgjör. Þetta er hluti af öðrum skammtímakröfum sem eru 29.895.286.“
Þar sem framangreindar skýringar þáverandi endurskoðanda áfrýjanda voru gefnar aðeins fjórum dögum eftir að gengið var frá lokafærslum áfrýjanda fyrir árið 2007 og þær samrýmast færslum í bókum félagsins, verða þær lagðar til grundvallar við úrlausn málsins.
Af hálfu stefndu hefur komið fram í málinu að öll hlutabréf í Ormsson Slovakia s.r.o. hafi verið seld í september 2008 fyrir samtals eina krónu. Þeir hafa á hinn bóginn ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings. Áfrýjandi hefur lagt fram ný gögn fyrir Hæstarétt sem sýna að Ormsson Slovakia s.r.o. eigi 33,4% í félaginu Home Studio a.s., sem sagt er í rekstri á heimilistækjamarkaði og er sá hlutur að nafnvirði 1.500.000 slóvakískar krónur. Ekki liggur fyrir hvenær Ormsson Slovakia s.r.o. eignaðist þennan hlut, en fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram gögn er sýna að stefndi Sigurður tók sæti í stjórn Home Studio a.s. 16. janúar 2008.
Að því virtu sem að framan greinir verður fallist á með áfrýjanda að stefndu hafi sjálfir gengið svo frá reikningsskilum hans fyrir árið 2007 að telja beri að Ormsson Slovakia s.r.o. sé í þeirra eigu, en af þeim sökum verður að líta svo á að þeir hafi nýtt fjármuni áfrýjanda í eigin þágu við stofnun félagsins. Stefndu, sem þáverandi stjórnarformanni og framkvæmdastjóra áfrýjanda, var þessi ráðstöfun ekki heimil á grundvelli neins af ákvæðum XII. kafla laga nr. 138/1994 og hafa þeir því bakað áfrýjanda tjón sem þeir bera skaðabótaskyldu á samkvæmt 1. mgr. 108. gr. sömu laga.
Fyrir Hæstarétti hafa stefndu haft uppi þá málsástæðu að áfrýjanda sé ekki heimilt að hafa uppi skaðabótakröfu á hendur þeim þar sem ákvörðun um það hafi ekki verið tekin á hluthafafundi í áfrýjanda, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994. Ekki verður séð að á þessu hafi verið byggt í héraði og er því um nýja málsástæðu að ræða sem er of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kemur hún því ekki til álita við úrlausn málsins.
Stefndu byggja loks á því að fram hafi farið fullnaðaruppgjör á milli stefndu og áfrýjanda í tengslum við sölu á áfrýjanda 2. október 2008, en í 5. gr. kaupsamningsins segi að stefndu greiði upp skuldir samkvæmt viðskiptareikningum sínum síðar sama dag. Geti áfrýjandi því ekki haft uppi þessa kröfu á hendur þeim. Upplýst var við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að stefndu greiddu upp skuldir á viðskiptareikningum sínum eftir að kaupsamningurinn hafði verið gerður. Kröfur þær, sem mál þetta varðar, voru ekki færðar á viðskiptareikninga þeirra í bókum áfrýjanda og tók uppgjörið því þegar af þeirri ástæðu ekki til þeirra.
Samkvæmt framangreindu verður aðalkrafa áfrýjanda því tekin til greina með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Eftir þessum úrslitum málsins verða stefndu dæmdir óskipt til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndu, Gunnar Örn Kristjánsson og Sigurður Sigfússon, greiði óskipt áfrýjanda, Bræðrunum Ormsson ehf., 6.040.849 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.799.705 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 6.040.849 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars sl., var höfðað 6. apríl 2009 af Bræðrunum Ormson ehf., Síðumúla 9, Reykjavík, gegn Gunnari Erni Kristjánssyni, Krossalind 11, Kópavogi, og Sigurði Sigfússyni, Árlandi 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 6.040.849 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 4.799.705 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum af 6.040.849 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 1.933.072 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. sömu laga af 1.535.906 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum af 1.933.072 krónum frá þeim degi til greiðsludag. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum að mati dómsins.
Af hálfu stefndu er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Hvor stefndu krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Með kaupsamningi 2. október 2008 seldi Opal Seafood Investments Ltd. alla hluti í stefnanda, en kaupandi var AB 173 ehf., Lágmúla 7 í Reykjavík. Framkvæmdastjóri var þá stefndi Gunnar en stjórnarformaður stefndi Sigurður. Sama dag viku stefndu úr stjórn stefnanda og hættu þar störfum.
Krafa stefnanda í málinu er byggð á því að stefnandi hafi orði fyrir tjóni sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á vegna þess að greitt hafi verið úr sjóðum stefnanda samkvæmt ákvörðun stefndu fyrir hlutafé í Ormson Slóvakíu. Kostnaður hafi einnig verið færður vegna þess félags sem leitt hafi til tjóns fyrir stefnanda. Skaðabótakrafan er samtals að fjárhæð 6.040.849 krónur. Af hálfu stefndu er skaðabótaskyldu mótmælt svo og því að nokkurt tjón hafi orðið sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á.
Í gögnum málsins kemur fram að greitt var af hálfu stefnanda fyrir hlutafé í Ormson Slóvakíu 4.799.705 íslenskar krónur 8. október 2007. Einnig hefur verið lagt fram skjal sem er færsla að fjárhæð 1.241.144 krónur vegna verks í vinnslu í Slóvakíu samkvæmt lokastöðu 27. október 2008. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að stefndu hafi sjálfir keypt umrædd hlutabréf en látið stefnanda greiða fyrir þau og annan kostnað vegna þessa sem hafi verið ólögmætt og óheimilt af þeirra hálfu. Stefnandi vísar til þess að í gögnum komi ekki fram að stefnandi hafi verið kaupandi hlutfjárins og kaupin því verið stefnanda óviðkomandi. Þessu er mótmælt af hálfu stefndu en þeir vísa til þess að stefnandi hafi hvorki fært viðhlítandi rök fyrir því né lagt fram sönnunargögn um að stefndu beri óskipta bótaábyrgð á hinu meinta tjóni stefnanda.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar til þess að á árinu 2007 hafi verið millifærðir fjármunir úr sjóðum stefnanda. Þetta komi fram í heimabanka og tölvubréfi 8. október það ár þegar millifærðar voru 4.799.705 krónur á slóvenska lögfræðistofu vegna stofnunar félagsins Ormson Slóvakíu. Stefnanda sé hvorki ljóst í hvaða tilgangi millifærslan átti sér stað né á hvaða heimildum hún byggðist. Stefndu séu persónulega ábyrgir gagnvart stefnanda vegna millifærslunnar. Stefnandi mótmæli því að hann hafi sjálfur staðið að stofnun félagsins Ormson Slóvakíu. Endurskoðandi hefði farið yfir málið og hafi afdráttarlaust komið fram að félagið væri eign stefndu en ekki stefnanda. Þessu fé hafi því verið ráðstafað í þágu stefndu.
Til viðbótar framangreindri fjárhæð virtist sem stefndu hefðu látið stefnanda greiða ýmsan kostnað vegna Ormson Slóvakíu. Viðskiptareikningur nr. 114285, auðkenndur sem „verk í vinnslu í Slóvakíu“, að fjárhæð 1.241.244 krónur, hafi verið skuldfærður til samræmis í bókum stefnanda. Stefnandi hafi enga aðkomu átt að þessu félagi og því fráleitt að hann beri þennan kostnað sem hljóti að vera á ábyrgð stefndu.
Með kaupsamningi 2. október 2008 hafi stefndu selt alla hluti í stefnanda fyrir hönd Opal Seafoods Investments Ltd., AB 173 ehf. Í tengslum við þau kaup hafi stefndu gert upp kröfur samkvæmt viðskiptareikningi sínum við stefnanda. Stefnufjárhæð þessa máls hafi hins vegar ekki verið hluti af því uppgjöri, enda ekki skuldfærð á viðskiptareikning stefndu hjá stefnanda á þeim tíma, auk þess sem krafa stefnanda byggðist á almennum skaðabótareglum. Stefndu séu persónulega ábyrgir fyrir greiðslunni sem stefnandi krefji þá um í málinu.
Framangreindri fjárhæð hafi verið ráðstafað úr sjóðum stefnanda án heimildar og í andstöðu við lög. Fjármunum verði almennt ekki ráðstafað úr sjóðum félags nema í þágu starfsemi viðkomandi félags, sem arðgreiðslum, við lækkun hlutafjár eða sem láni. Engu þessara skilyrða sé fullnægt. Því hafi verið um óheimila og ólögmæta meðferð fjármuna að ræða.
Stefndu séu skaðabótaskyldir gagnvart stefnanda, stefndi Gunnar sem framkvæmdastjóri og stefndi Sigurður sem stjórnarformaður, samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar, þar með talið reglum um húsbóndaábyrgð, og meginreglum félagaréttar um skyldur stjórnenda félaga samkvæmt lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Stefndu hafi stöðu sinnar vegna borið að tryggja meðferð fjármuna félagsins lögum samkvæmt. Þeirri skyldu hafi augljóslega ekki verið fullnægt og hafi það valdið stefnanda tjóni. Stefndu beri óskipta ábyrgð í samræmi við almennar skaðabótareglur. Tjón stefnanda svari til höfuðstóls þeirra fjármuna sem ráðstafað hafi verið úr sjóðum stefnanda án heimildar og í andstöðu við lög sem nemi stefnufjárhæð málsins, 4.799.705 krónur + 1.241.244 krónur, samtals 6.040.949 krónur.
Umræddum fjármunum virtist hafa verið ráðstafað í þágu fjárfestinga stefndu sjálfra. Þeir verði því aðeins lausir undan ábyrgð að þeir geti sýnt fram á að meðferð fjármunanna á þeim tíma er þeir voru í fyrirsvari fyrir stefnanda hafi byggst á fullnægjandi heimildum og verið lögum samkvæm. Þeir verði að sýna fram á hvort og með hvaða hætti félagið í Slóvakíu tengdist stefnanda. Stefndu geti ekki borið því við að engin skjalleg gögn liggi fyrir um þessa ráðstöfun úr sjóðum stefnanda, þar með talið hver hafi verið rétthafi þeirra. Hvers konar brotalamir í þessum efnum séu á ábyrgð stefndu sjálfra. Sama niðurstaða leiði af því að engar upplýsingar um Ormson Slóvakíu sé að finna í bókum stefnanda frá þeim tíma er stefndu báru sjálfir ábyrgð á bókhaldi félagsins.
Varakrafa stefnanda miðist við að tjónið sem um ræði nái aðeins til þess hluta sem stefnandi hafi greitt fyrir stefndu verði litið svo á að stefnandi hafi átt 68% hlutafjár í Ormson Slóvakíu en stefndu samtals 32%. Stefndu verði að endurgreiða stefnanda þann hluta fjárhæðarinnar sem stefnandi hafi lagt út fyrir þá. Varakrafan sé því aðeins 32% af aðalkröfunni.
Stefnandi krefjist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 4.799.705 krónum frá 8. október 2007 til 22. nóvember 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 3. mgr. 5. gr. sömu laga af 6.040.949 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Varðandi síðari höfuðstólsfjárhæðina sé krafist dráttarvaxta af henni frá 22. nóvember 2008, enda þótt stefnandi eigi rétt á vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna frá ýmsum tímum fyrr á árinu 2008. Stefnandi hafi fyrst krafið stefndu um greiðslu með tölvubréfi 22. október 2008 og sé dráttarvaxta krafist þegar mánuður var liðinn frá því að stefndu voru krafðir um greiðslu.
Málsástæður og lagarök stefndu
Af hálfu stefndu er vísað til þess að skaðabótakrafa stefnanda eigi sér enga stoð og byggi á röngum og eða ósönnuðum fullyrðingum um málsatvik. Fjárhæðirnar sem stefnandi krefjist bóta fyrir séu greiðslur frá stefnanda til slóvensks lögmanns, Radovan Hrádek, sem hafi séð um stofnun Ormson Slóvakíu og sé útlagður kostnaður vegna félagsins og starfsemi þess. Stefnandi hafi stofnað félagið 16. október 2007 og hafi átt 68% hlutafé en stefndu hvor um sig 16%. Greiðsla til Radovan Hrádek 8. október 2007, að fjárhæð 4.799.705 krónur, sé vegna stofnunar Ormson Slóvakíu eins og handskrifað sé á skjalið. Stofnun félagsins og ráðstöfun fjármuna stefnanda til þess hafi á allan hátt verið lögmæt og innan þeirra heimilda sem stefndu hafi á þeim tíma haft sem stjórnendur. Fullyrðingum um að fjármunir þessir hafi verið greiddir í þágu stefndu persónulega sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Félagið hafi verið rekið með tapi árið 2007 og hafi stefndu talið hlutina verðlausa í lok þess árs og hlutafjárframlagið þar með tapað. Stefndu hafi ákveðið að afskrifa umrædda eign og talið að afskrift hefði verið færð í bækur stefnanda með viðeigandi gjaldfærslu. Í ljós hafi komið að þess í stað hafi afskriftin verið færð á biðreikning þar sem endurskoðanda hafi vantað gögn til staðfestingar.
Á árinu 2008 hafi rekstur Ormson Slóvakíu að mestu verið fjármagnaður af félagi í þeirra eigu, Obsidan Properties Slóvakía, m.a. með víkjandi lánum. Það félag hafi keypt alla hluti í Ormson Slóvakíu 8. september 2008, þar á meðal 68% hlut stefnanda.
Allar ákvarðanir um stofnun Ormson Slóvakíu, fjárútlát stefnanda í tengslum við félagið og ráðstöfun hlutafjáreignar hafi verið lögmætar og innan þeirra formlegu heimilda sem stefndu hefðu haft sem stjórnendur stefnanda. Ákvarðanir um greiðslu kostnaðar hafi verið lögmætar og geti á engan hátt skapað stefndu bótaskyldu gagnvart stefnanda.
Stefndu vísi til áreiðanleikakönnunar, sem kaupandi hafi látið framkvæma áður en kaupsamningur hafi verið gerður 2. október 2008, en í 9. tl. samningsins segi að áreiðanleikakönnun hafi farið fram á rekstri og efnahag stefnanda. Hún hafi bæði náð til lögfræðilegra og fjárhagslegra atriða og verið unnin á vegum kaupanda á hans kostnað. Seljandi hafi hvorki komið að þeirri könnun né séð hana. Stefndu hafi hvorki komið að áreiðanleikakönnuninni né fengið tækifæri til að tjá sig um hana hafi. Það sem stefnandi hafi eftir endurskoðanda hljóti að byggjast á misskilningi og frásögn hans í tölvupósti sé ekki í samræmi við fyrirmæli stefndu eða viðskiptin sem um ræði. Tölvupósturinn sé svar endurskoðandans við fyrirspurn þess sem gert hafi áreiðanleikakönnunina fyrir væntanlega kaupendur hlutafjár í stefnanda. Stefndu hafi ekki komið að þessu og því ekki getað komið að leiðréttingum á því sem kynni að vera rangt. Upplýsingar sem þar komi fram hafi því enga þýðingu fyrir úrlausn málsins.
Samið hafi verið um að stefndu gerðu upp skuldir sínar á viðskiptareikningum sínum hjá stefnanda síðar þann dag, þ.e. eftir undirritun kaupsamningsins. Báðir stefndu hafi gert það. Með greiðslum stefndu samkvæmt uppgjörinu hafi báðir talið sig skuldlausa við stefnanda. Stefnandi hafi haft upplýsingar vegna áreiðanleikakönnunarinnar um hina meintu skuld, sem ekki hafi verið tilgreind á viðskiptamannareikningum stefndu, en þrátt fyrir það hafi stefnandi engan fyrirvara gert við kaupin um frekari kröfur á hendur stefndu.
Verði ekki fallist á þessar málsástæður stefndu sé byggt á því að stefnandi hafi glatað rétti til að hafa uppi kröfur á stefndu með því að ekki hafi verið gerður fyrirvari í kaupsamningnum þrátt fyrir fullyrðingar endurskoðandans.
Sýknukrafan sé byggð á því að rangt og ósannað sé að uppfyllt séu skilyrði til þess að stefndu geti borið skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna greiðslna úr sjóðum félagsins sem bótakrafan lúti að. Þá sé vaxtakröfu stefnanda mótmælt og sérstaklega byggt á því að krafa um almenna vexti eigi sér ekki lagastoð. Varakröfu stefnanda sé mótmælt með vísan til þess að engin sönnun hafi verið færð fyrir henni.
Stefndu vísi til laga nr. 138/1994 varðandi heimildir til ráðstöfunar fjármuna stefnanda í þágu Ormsson Slóvakíu. Skilyrðum bótaskyldu samkvæmt almennu skaðabótareglunni sé ekki fullnægt, enda hvorki um saknæma né ólögmæta háttsemi að ræða. Um sýknu af vaxtakröfu sé vísað til laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafan sé byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt sé vísað til laga nr. 50/1988 en stefndu séu ekki virðisaukaskattskyldir.
Niðurstaða
Krafa stefnanda í málinu er byggð á því að greitt hafi verið á árinu 2007 úr sjóðum stefnanda samkvæmt ákvörðun stefndu fyrir hlutafé í Ormson Slóvakíu og kostnaður vegna þess félags, samtals að fjárhæð 6.040.849 krónur, án þess að stefnanda hafi borið nokkur skylda til þess. Stefndu hafi látið stefnanda greiða kaupverð hlutafjárins ásamt kostnaði en það hafi þeir gert í eigin þágu og hafi það verið bæði óheimilt og ólögmætt. Stefnandi hafi vegna þessa orði fyrir tjóni sem stefndu beri skaðabótaábyrgð á gagnvart stefnanda. Sýknukrafa stefndu er byggð á því að stefnandi hafi verið kaupandi hlutafjárins í Ormson Slóvakíu en ekki stefndu. Þeim hafi því verið heimilt að ráðstafa fjármunum stefnanda á þann hátt sem gert var og hér að framan hefur verið lýst.
Í málinu hefur verið lagt fram greiðsluskjal þar sem fram kemur að 8. október 2007 hafi stefnandi greitt 4.799.705 íslenskar krónur til viðtakanda í Bratislava. Viðtakandinn er Radovan Hrádek en fram hefur komið að hann hafi sem lögmaður gengið frá stofnun hlutafélagsins Ormson Slóvakíu. Á skjalinu kemur fram sú skýring til viðtakanda greiðslunnar að hún sé vegna Ormson Slóvakíu s.r.o. Í úttekt úr viðskiptaskrá Héraðsdómstól í Bratislava, sem lögð hefur verið fram í málinu, kemur fram að Ormson Slóvakíu s.r.o. hafi verið skráð 17. nóvember 2007. Í samþykktum félagsins, sem skráðar voru í Slóvakíu, kemur fram að stofnfé sé 1.500.000 SSK. Fram kemur einnig að það hafi verið lagt fram í þessum hlutföllum af hluthöfum: Stefnanda 68%, stefnda Gunnari 16% og stefnda Sigurði 16%.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að í ársreikningi stefnanda fyrir árið 2007 komi ekki fram að Ormson Slóvakíu sé talið meðal hlutafélaga í eigu stefnanda. Sú skýring hefur komið fram á því að reikningurinn sem um ræðir hafi fyrst verið færður sem hlutafjáreign, eins og þáverandi endurskoðandi stefnanda lýsti fyrir dóminum. Síðar hefði færslan, að beiðni stefnda Gunnars, verið tekin út af þeim lið og sett yfir á reikning sem heiti Aðrar skammtímakröfur. Í raun hafi krafan verið sett á biðreikning sem ekki hafi verið með neinu nafni. Þetta hafi ekki verið fært á viðskiptareikning stefndu. Fram kom einnig hjá endurskoðandanum í vitnisburði hans fyrir dóminum að ætlunin hafi verið að bíða eftir gögnum um að þessi eign væri töpuð en ekki hafi mátt gjaldfæra það þannig í skattskilum nema öruggt væri að hlutaféð væri tapað. Færslan hafi því endað uppi á biðreikningi og hafi átt eftir að afgreiða hana en það hafi síðan gleymst. PricewaterhouseCoopers hafi spurst fyrir um þessa færslu vegna áreiðanleikakönnunar, en vitnið kvaðst í fljótræði hafa gefið það svar að þetta væri krafa á stefndu. Þetta sé ekki rétt og ekki í samræmi við gögn málsins enda hafi færslan aldrei verið eyrnamerkt stefndu. Kostnaður vegna verks í vinnslu í Slóvakíu hafi einnig verið settur á biðreikning og staðið þar sem birgðastaða. Þetta hafi í raun verið óafgreitt mál fyrir árið 2007, en biði afgreiðslu til næsta árs þar sem ekki hafi verið búið að ákveða hvernig það skyldi fært. Vitnið kvaðst ekkert vita um sölu á hlutafénu í Ormson Slóvakíu.
Af hálfu stefnanda er sérstaklega vísað til þess að þáverandi endurskoðandi stefnanda hafi staðfest að umrædd hlutabréfaeign hafi verið færð til stefndu á árinu 2007. Stefndu hafi gefið fyrirmæli um að hlutabréfin væru þeirra eign en ekki stefnanda. Þetta kemur fram í áðurnefndu svarbréfi endurskoðandans í september 2008 við fyrirspurn PricewaterhouseCoopers um það hvenær hlutafjáreign í Ormson Slóvakíu hafi verið flutt á stefndu. Staðhæfingum, sem fram koma í þessum bréfaskiptum, er mótmælt af hálfu stefndu, þær hafa verið leiðréttar með framburði þáverandi endurskoðanda stefnanda fyrir dóminum, eins og hér að framan er lýst, og þær fá hvergi stuðning í öðrum gögnum málsins. Með vísan til þess verður að telja að ekki hafi komið fram fullnægjandi sönnun fyrir því að hlutabréfin í Ormson Slóvakíu hafi verið eign stefndu. Við úrlausn málsins verður jafnframt að líta til þess að á þeim tíma sem viðskiptin um hlutaféð í stefnanda fóru fram lágu fyrir í málinu upplýsingar um færslurnar sem hér er deilt um. Engar athugsemdir komu fram af þessu tilefni af hálfu kaupenda.
Þegar þetta er virt verður að líta svo á að stefnandi hafi greitt hlutaféð vegna stofnunar hlutafélagsins Ormson Slóvakíu vegna þess að hann var einn af stofnendum félagsins enda hefur því ekki verið hnekkt af hálfu stefnanda með viðhlítandi gögnum. Þá verður einnig að telja að ekki sé fram komin nægileg sönnun fyrir því að stefndu hafi átt hlutabréf í Ormson Slóvakíu sem stefnandi hafi greitt fyrir með ólögmætum hætti þannig að til skaðabótaskyldu hafi stofnast af hálfu stefndu gagnvart stefnanda. Gildir það jafnt um aðalkröfu stefnanda og um varakröfuna. Með vísan til þess ber að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, Gunnar Örn Kristjánsson og Sigurður Sigfússon, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Bræðranna Ormson ehf., í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.