Hæstiréttur íslands

Mál nr. 122/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. mars 2000.

Nr. 122/2000.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Hreinn Pálsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. mars 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. mars nk. kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til þess, sem greinir í hinum kærða úrskurði, verður fallist á með héraðsdómara að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir varnaraðila. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. mars 2000.

Mál þetta barst dóminum í dag með bréfi sýslumannsins á Akureyri, dagsettu í dag og var að lokinni skýrslutöku af kærða tekið til úrskurðar.

Krefst sýslumaður þess að X, [...], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 29. mars n.k.

[...]

Kveðst sýslumaður byggja kröfu sína að 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.

Kærði hefur mótmælt kröfu sýslumanns í málinu og neitað sök þeirri er á hann er borinn.

Í málinu eru lagðar fram lögregluskýrslur, þ.á.m. endurrit af símtali er kærði átti við Y þann 14. mars s.l., en Y hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna sama máls.  Skjóta gögn þessi verulegum stoðum undir grun lögreglunnar, þess efnis að kærði hafi brotið fíkniefnalöggjöfina með því að útvega og dreifa fíkniefnum til Akureyrar.

Þykja skilyrði framangreindrar lagagreinar vera fyrir hendi til að krafa sýslumanns nái fram að ganga og ber því að úrskurða kærða í gæsluvarðhald til miðvikudags 29. mars n.k. kl. 15:00.

Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

Á l y k t a r o r ð :

Kærði, X, [...],, sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 29. mars 2000 kl. 15:00