Hæstiréttur íslands

Mál nr. 208/2002


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Húsbrot
  • Nytjastuldur
  • Eignaspjöll
  • Skilorðsrof
  • Skilorð
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. október 2002.

Nr. 208/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Ómari Vali Erlingssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Þjófnaður. Húsbrot. Nytjastuldur. Eignaspjöll. Skilorðsrof. Skilorð. Hegningarauki.

Ó var gefið að sök að hafa framið fjölmörg þjófnaðarbrot og önnur brot á tímabilinu frá september 2001 til febrúar 2002. Játaði hann öll brotin. Við ákvörðun refsingar dæmdi héraðsdómari með 75 daga skilorðsbundna fangelsisrefsingu Ó samkvæmt eldri dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Var niðurstaða héraðsdóms um sex mánaða fangelsi Ó staðfest. Til stuðnings kröfu sinni um að refsingin yrði skilorðsbundin vísaði Ó einkum til ungs aldurs, en hann var aðeins 17 ára gamall þegar brotin voru framin, svo og þess að hann hafi játað þau greiðlega. Við úrlausn um þetta varð jafnframt að líta til þess að með hluta af þeim brotum sem ákæra í þessu máli laut að rauf Ó í annað sinn á skömmum tíma skilorð dóms. Þóttu ekki vera efni til að skilorðsbinda refsingu Ó.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.

 Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa framið fjölmörg þjófnaðarbrot og önnur brot á tímabilinu frá september 2001 til febrúar 2002, svo sem nánar er rakið í héraðsdómi. Játaði hann öll brotin, en ákærði var aðeins 17 ára gamall þegar þau voru framin. Við ákvörðun refsingar dæmdi héraðsdómari með 75 daga skilorðsbundna fangelsisrefsingu ákærða samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. janúar 2002. Verður niðurstaða héraðsdóms um sex mánaða fangelsi ákærða staðfest.

Til stuðnings kröfu um að refsingin verði skilorðsbundin vísar ákærði einkum til ungs aldurs, er brotin voru framin, svo og þess að hann hafi játað þau greiðlega. Við úrlausn um þetta verður jafnframt að líta til þess að með hluta af brotum sínum nú rauf ákærði í annað sinn á skömmum tíma skilorð dóms, en með dómi 29. nóvember 2001 var hann fyrst dæmdur til að sæta fangelsisrefsingu, sem bundin var skilorði, og var hún dæmd með við ákvörðun refsingar í áðurnefndum dómi 29. janúar 2002. Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 26. mars 2002 var ákærði látinn laus úr gæsluvarðhaldi, sem hann hafði sætt frá 12. febrúar sama árs. Hélt hann þá áfram afbrotum og með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2002 var hann sakfelldur fyrir þjófnað, fjársvik og rán, sem hann framdi í apríl og maí sama árs, auk nokkurra annarra brota frá árinu 2001. Refsingin, sem að hluta var hegningarauki við fyrri dóma, var ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Að virtu öllu framanröktu þykja ekki vera efni til að skilorðsbinda refsingu ákærða.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ómar Valur Erlingsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2002.

Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 22. þessa mánaðar, “á hendur Ómari Val Erlingssyni, kt. 140584-3399, Grundarhúsum 24, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2002, nema annað sé tekið fram:

1.  Eignaspjöll, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 9. september 2001 við Engihjalla 1 í Kópavogi, lamið í aftari vinstri hliðarrúðu bifreiðarinnar KN-357 með þeim afleiðingum að hún brotnaði.

2.  Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 5. október 2001 við Sundlaugarveg brotist inn í bifreiðina YH-516, með því að brjóta hliðarrúðu, og stolið 3 hátölurum, samtals að verðmæti um kr. 32.000.

3.  Þjófnað, með því að hafa síðar sömu nótt við Hellisgötu við Siggubæ í Hafnarfirði brotist inn í bifreiðina XI-624, með því að brjóta hliðarrúðu, og stolið 2 bassahátölurum og magnara, samtals að verðmæti um kr. 30.000.

4.  Húsbrot og nytjastuld, með því að hafa að kvöldi miðvikudagsins 10. október 2001 í félagi við 6 tilgreinda menn ruðst í heimildarleysi inn í geymslu Golfklúbbs Reykjavíkur að Korpúlfsstöðum og í félagi við sömu menn tekið þar í heimildarleysi 3 golfbíla og ekið þeim þaðan og um Korpúlfsstaðaveg og norður og vestur um göngstíg meðfram Strandvegi áleiðis að Geldinganesi.

5.  Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 16. desember 2001 við Frostafold 2 brotist inn í bifreiðina VI-625, með því að brjóta hliðarrúðu, og stolið hleðslutæki fyrir GSM síma, radarvara og 20 geislaplötum, samtals að verðmæti um kr. 42.000, og seðlaveski sem í voru um kr. 10.000 í peningum auk greiðslukorta og skilríkja.

6.  Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 10. janúar í félagi við tvo tilgreinda menn farið inn í húsnæði Húsaskóla, Dalhúsum 41, með því að skrúfa lausa tréplötu sem var fyrir glugga, og stolið myndskanna, myndvarpa og tölvu ásamt tölvuskjá, samtals að verðmæti um kr. 400.000.

7.  Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 13. janúar í félagi við tilgreindan mann brotist inn í húsnæði Húsaskóla, Dalhúsum 41, með því að spenna upp tréplötu sem var fyrir glugga, og stolið tölvu, að óvissu verðmæti.

8.  Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 25. janúar í félagi við tilgreindan mann brotist inn í húsnæði Hvassaleitisskóla við Stóragerði, með því að brjóta gler í glugga, og stolið hljóðblandara og magnara með sambyggðum geislaspilara, samtals að verðmæti um kr. 150.000.

9.  Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 28. janúar í félagi við tilgreindan mann brotist inn í söluturninn Staldrið, Stekkjarbakka 2, með því að brjóta gler í glugga, og stolið 6 pökkum með smokkum og 14 Talfrelsiskortum, samtals að verðmæti um kr. 10.000.

10.  Þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 10. febrúar í félagi við tilgreindan mann brotist inn í verslun ÁTVR, verslunarkjarnanum Spönginni, með því að brjóta gler í glugga, og stolið í 2 ferðum samtals 2 rauðvínsflöskum og 144 dósum af bjór, samtals að verðmæti um kr. 30.000.

11.  Þjófnað, með því að hafa síðar sömu nótt, í félagi við tilgreindan mann brotist inn í verslunina Rangá, Skipasundi 56, með því að brjóta rúðu í útidyrahurð, og stolið 4 tóbaksbréfum og um 40 vindlingapökkum, samtals að verðmæti um kr. 19.000.

Framangreind brot teljast varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en brotið í lið 1 við 1. mgr. 257. gr. sömu laga og brotin í lið 4 við 231. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 20, 1956 og 137. gr. laga nr. 82, 1998. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu gera eftirtaldir kröfur um skaðabætur: 

1.  Helena Sif Kristinsdóttir, kt. 011073-3529, að fjárhæð kr. 16.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi 09.09.2001 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.  (Ákæruliður 1)

2.  Jónatan Jónsson, kt. 200279-5739, að fjárhæð kr. 55.409.  (Ákæruliður 3)

3.  Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, að fjárhæð 139.763 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var 10.10.2001 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  (Ákæruliður 4)

4.  Golfklúbbur Reykjavíkur, kt. 580169-7409, að fjárhæð kr. 368.648 að frádregnum kr. 174.005 og kr. 45.643.  (Ákæruliður 4)

5.  Sigurbjörn Guðni Sigurgeirsson, kt. 011281-3389, að fjárhæð kr. 14.120.  (Ákæruliður 5)

6.  Húsaskóli, kt. 630891-1089, að fjárhæð kr. 689.651 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var þann 10. janúar 2002 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  (Ákæruliður 6)

7.  Húsaskóli, kt. 630891-1089, að fjárhæð kr. 527.623 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var þann 10. janúar 2002 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  (Ákæruliður 7)

8.  Vínbúðin Spönginni, kt. 410169-4369, að fjárhæð kr. 28.825.  (Ákæruliður 10)

9.  Agnar Árnason, kt. 080137-3119, að frjáhæð kr. 28.876 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi sem var þann 10. febrúar 2002 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.  (Ákæruliður 11)

Ákærði játaði öll framangreind brot við þingfestingu málsins fyrr í dag.  Þau eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. 

Ákærði hefur játað brot sín greiðlega og lýst yfir vilja til að hætta neyslu vímuefna. 

Ákærði hefur tvisvar í vetur verið sakfelldur fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar.  Hann var dæmdur til að sæta fangelsi í 30 daga, skilorðsbundið, með dómi 29. nóvember 2001, vegna tilraunar til þjófnaðar.  Þá var hann dæmdur til að sæta fangelsi í 75 daga, skilorðsbundið, með dómi 29. janúar sl., vegna þjófnaðar.  Hann hefur með brotum samkvæmt ákæruliðum 10 og 11 rofið skilorð síðastgreinds dóms.  Refsing hans verður ákveðin eftir reglum 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 60. gr. sömu laga.  Er hún hæfileg fangelsi í sex mánuði. 

Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 12. febrúar 2002.

Við þingfestingu málsins var lögráðamaður ákærða ekki viðstaddur og gat því ekki komið til umræðu um framangreindar bótakröfur.  Var af hálfu ákæruvalds lögð á það áhersla að refsiþætti málsins yrði lokið sem fyrst og féllst dómurinn á þá ósk.  Verður því að vísa bótakröfunum frá dómi. 

Þá verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað.  Þóknun verjanda hans er ákveðin 30.000 krónur. 

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Ákærði, Ómar Valur Erlingsson, sæti fangelsi í sex mánuði.  Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhaldsvist hans frá 12. febrúar 2002. 

Framangreindum bótakröfum er vísað frá dómi. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun verjanda síns, Rúnu Geirsdóttur, héraðsdómslögmanns, 30.000 krónur.