Hæstiréttur íslands
Mál nr. 386/2012
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 17. janúar 2013. |
|
Nr. 386/2012.
|
Íslandsbanki hf. (Stefán A. Svensson hrl.) gegn Umbúðamiðlun ehf. (Ólafur Örn Svansson hrl. Helgi Bragason hdl.) |
Lánssamningur. Gengistrygging.
U ehf. höfðaði mál gegn Í hf. og krafðist viðurkenningar á því að skuldbinding U ehf. við Í hf. á grundvelli lánssamnings væri í íslenskum krónum og bundin við gengi erlendra mynta með ólögmætum hætti. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að með dómum réttarins 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hefði því verið slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Frá þeim tíma hefði rétturinn kveðið upp marga dóma þar sem reynt hefði á hvort lán væru í íslenskum krónum og bundin gengi erlendra mynta með ólögmætum hætti eða í erlendum myntum. Vísaði Hæstiréttur til nánar tilgreindra dóma þar sem litið hefði verið svo á að orðalag í tiltekinni tegund samninga um slíka skuldbindingu dygði ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu heldur yrði jafnframt að líta einkum til þess hvernig aðilar samnings hefðu í raun efnt hann hvor fyrir sitt leyti. Hæstiréttur taldi að enginn vafi væri á að lánssamningurinn sem um ræddi í málinu hefði verið íslenskum krónum og vísaði í því samhengi til tilgreiningar lánsfjárhæðarinnar. Var því fallist á kröfu U ehf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu stefndi og Glitnir banki hf. samning 22. maí 2006 um „lán í erlendum gjaldmiðlum og ísl. krónum, verðtryggt“, svo sem sagði í fyrirsögn hans, og var hann af hálfu stefnda undirritaður af öllum, sem áttu sæti í stjórn hans. Í meginmáli samningsins var tiltekið að hann væri „um lán til 8 ára að fjárhæð jafnvirði allt að ISK 120.000.000,00“ og yrði því skipt í tvo hluta eftir vali stefnda sem lántaka, í „lánshluta A, sem er lán í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum og lánshluta B, sem er verðtryggt lán í íslenskum krónum“, en „lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur er út samkvæmt samningi þessum“ yrði 120.000.000 krónur „eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum.“ Átti stefndi að senda bankanum með minnst tveggja virkra bankadaga fyrirvara beiðni um útborgun lánsins, þar sem greint yrði frá reikningi, sem leggja ætti lánsféð inn á, en „form að útborgunarbeiðni“ væri fylgiskjal með samningnum. Í þeirri beiðni skyldi „lántaki tilkynna lánveitanda, sé lán í erlendri mynt, í hvaða erlendu gjaldmiðla hann muni umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum.“ Fjárhæð hvers gjaldmiðils yrði þó ekki ákveðin fyrr en tveimur bankadögum fyrir útborgun lánsins og yrðu á því tímamarki „fjárhæðirnar endanlegar og munu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kunni að breytast á lánstímanum.“ Yrði þá lánið „eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða íslenskum krónum“ samkvæmt nánari fyrirmælum í ákvæði samningsins um myntbreytingar. Tekið var fram að stefndi hygðist „nýta lánið til greiðslu á núverandi erl. rekstrarlánasamningi og sem innborgun á yfirdráttarheimild“ á tilteknum bankareikningi. Um endurgreiðslu var mælt svo fyrir að stefnda bæri að standa skil á 1/96 hluta lánsins hverju sinni á 60 mánaðarlegum gjalddögum, í fyrsta sinn 20. júlí 2006, og síðan 36/96 hlutum þann dag á árinu 2011, en heimilt væri þó að því leyti að framlengja lánssamninginn til allt að fimm ára með sams konar endurgreiðslum. Engin sérstök fyrirmæli voru um endurgreiðslu svonefnds lánshluta A, en um lánshluta B voru ákvæði um að hann yrði bundinn vísitölu neysluverðs með tiltekinni grunntölu og yrði höfuðstóll hans og síðan afborgun af honum reiknuð út á hverjum gjalddaga því til samræmis. Tekið var fram að lánið bæri „að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af“, svo og að bankanum væri heimilt að skuldfæra nánar tiltekinn tékkareikning stefnda fyrir greiðslum samkvæmt samningnum, en óumdeilt er að sá reikningur hafi verið í íslenskum krónum. Mælt var fyrir um að vextir af lánshluta í evrum yrðu svonefndir EURIBOR vextir með 2,25% álagi, en af öðrum erlendum gjaldmiðlum LIBOR vextir með sama álagi. Að því leyti, sem lánshluti A kynni að verða í íslenskum krónum, bæri hann svonefnda REIBOR vexti með 2,25% álagi, en af fjárhæð í þeim gjaldmiðli samkvæmt lánshluta B skyldu vextir ráðast af vaxtagrunni bankans „fyrir skuldir til sambærilegs lánstíma í íslenskum krónum á hverjum tíma að viðbættu vaxtaálagi 1,25%“. Kveðið var á um heimild stefnda til að óska eftir myntbreytingu á skuld samkvæmt lánshluta A með tilkynningu til bankans að minnsta kosti tíu dögum fyrir gjalddaga, enda væri lánið í skilum. Mætti þá stefndi velja úr sex tilgreindum erlendum gjaldmiðlum auk íslenskra króna, en við umreikning á skuldinni vegna myntbreytingar ætti að styðjast við sölugengi þess gjaldmiðils, sem hætt yrði að „miða við“, og kaupgengi þess „sem framvegis skal miða við“. Þá voru ákvæði í samningnum um 1% lántökugjald til bankans, sem yrði dregið frá við „útborgun lánshluta“, svo og um að stefndi myndi veita bankanum allsherjarveð í nánar tilteknum lausafjármunum til tryggingar skuldinni. Loks er þess að geta að meðal atvika, sem sögð voru teljast til vanefnda á skyldum stefnda samkvæmt samningnum, voru þau að hann myndi ekki greiða afborgun „á réttum gjalddaga eða í réttum gjaldmiðli“.
Óumdeilt er að stefndi fyllti ekki út áðurnefnt eyðublað fyrir beiðni um útborgun lánsins, en á hinn bóginn undirritaði framkvæmdastjóri hans sama dag og lánssamningurinn var gerður skjal með fyrirsögninni „lánsumsókn“. Þar kom fram að stefndi óskaði eftir að fá að láni hjá Glitni banka hf. „upphæð í íslenskum krónum“, sem væri 80.000.000. Yrði „skipting í erlenda mynt“ með þeim hætti að 25% þessarar fjárhæðar yrðu 278.940 bandaríkjadalir, sem væru 20.000.000 krónur, 20% hennar 271.370 svissneskir frankar, sem væru 16.000.000 krónur, 15% hennar 18.832.392 japönsk jen, sem væru 12.000.000 krónur, og 40% fjárhæðarinnar 349.918 evrur, sem væru 32.000.000 krónur. Sama dag gerði bankinn kvittanir vegna lánveitingar til stefnda, eina fyrir hverja fjárhæð í erlendum gjaldmiðlum sem að framan greinir. Samkvæmt kvittununum komu til frádráttar þóknanir bankans ásamt lántökugjaldi og voru síðan að teknu tilliti til þeirra liða tilgreindar fjárhæðirnar í erlendu gjaldmiðlunum, sem kæmu „til útborgunar“. Neðan við þetta var getið um gengi gjaldmiðlanna og á grundvelli þess tiltekið hvert væri „andvirði“ erlendu fjárhæðanna í íslenskum krónum, sem yrði lagt inn á tékkareikning stefnda við bankann sama dag. Samkvæmt framlögðu yfirliti um þann reikning barst þetta andvirði, samtals 79.195.000 krónur, inn á hann í fernu lagi með þeirri skýringu að um væri að ræða „erlent lán“. Degi síðar voru að auki greiddar inn á reikninginn 39.608.100 krónur vegna skuldabréfs og liggur fyrir að þetta hafi verið fjárhæðin, sem féll undir áðurnefndan lánshluta B samkvæmt samningi stefnda við Glitni banka hf. að frádregnum kostnaði og lántökugjaldi.
Í málinu hafa verið lagðar fram kvittanir frá Glitni banka hf. til stefnda fyrir greiðslu afborgana af láninu frá fyrsta gjalddaga 20. júlí 2006 til og með gjalddaga 20. september 2008, en þó aðeins af lánshluta A samkvæmt samningi þeirra. Vegna hvers gjalddaga voru gerðar fjórar kvittanir, ein vegna svissneskra franka, önnur vegna japanskra jena, sú þriðja vegna bandaríkjadala og sú fjórða vegna evra. Í hverri kvittun var greint frá fjárhæð afborgunar af höfuðstól, vaxta og þóknunar í viðkomandi gjaldmiðli og samtalan af því dregin saman, en því næst var tiltekið gengi gjaldmiðilsins og samkvæmt því „andvirði“ greiðslu í íslenskum krónum, sem skuldfærð var af fyrrnefndum tékkareikningi stefnda. Jafnframt var getið um höfuðstól skuldar í gjaldmiðlinum, sem við átti, að afstaðinni greiðslu. Óumdeilt er að stefndi hafi jafnframt þessu staðið réttilega skil á afborgunum af skuld vegna lánshluta B samkvæmt samningi hans við bankann.
Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en í framhaldi af því var settur á stofn Nýi Glitnir banki hf., sem nú ber heiti áfrýjanda. Óumdeilt er að meðal eigna eldri bankans, sem færðar voru til áfrýjanda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, hafi verið réttindi þess fyrstnefnda samkvæmt lánssamningnum við stefnda. Eftir þessi aðilaskipti stóð stefndi á sama hátt og áður greinir í skilum á skuld sinni og gaf áfrýjandi út kvittanir fyrir afborgunum með sama efni og áður var lýst frá gjalddaga 20. október 2008 til 20. febrúar 2009. Samkvæmt gögnum málsins gerði áfrýjandi upp frá því og til og með gjalddaga 20. júní 2011 greiðsluseðla vegna afborgana af láninu og voru þeir hverju sinni fjórir vegna skuldar samkvæmt lánshluta A, einn fyrir svissneska franka, annar fyrir japönsk jen, sá þriðji fyrir bandaríkjadali og sá fjórði fyrir evrur. Á hverjum greiðsluseðli var meðal annars greint frá upphaflegri fjárhæð skuldar í viðkomandi gjaldmiðli og íslenskum krónum ásamt því, sem nefnt var „reiknað grunngengi“, heildarfjárhæð greiðslu og sundurliðun hennar í afborgun, vexti og kostnað, svo og eftirstöðvum fyrir og eftir greiðslu, en bæði fjárhæðir til greiðslu og eftirstöðvar voru tilgreindar í viðkomandi erlendum gjaldmiðli. Fram kom á seðlunum að margfalda yrði heildarfjárhæð greiðslu með sölugengi erlenda gjaldmiðilsins til að finna fjárhæðina, sem greiða þyrfti í íslenskum krónum, en greiðsla stefnda yrði skuldfærð. Í framlögðum gögnum virðist vanta greiðsluseðla vegna átta gjalddaga á þessu tímabili og hafa í stað þeirra verið lögð fram skjöl frá áfrýjanda, sem ýmist bera fyrirsögnina „greiðsluyfirlit“ eða „greiðsluyfirlit í ISK“. Á þessum yfirlitum er hverju sinni greint frá greiðslu stefnda í fimm liðum, sem greinilega eru fjórir hlutar skuldar samkvæmt lánshluta A og skuld samkvæmt lánshluta B í lánssamningnum. Í hverjum lið er greiðsla sundurliðuð í afborgun, vexti og kostnað ásamt þætti, sem ýmist er nefndur „verðbætur“ eða „verðb./gengism.“ Hvergi er þar greint frá fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum, heldur eingöngu íslenskum krónum.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi höfðaði stefndi mál þetta 14. apríl 2011 og sneri endanleg dómkrafa hans í héraði að því einu að viðurkennt yrði að lán samkvæmt lánshluta A í samningi hans við Glitni banka hf. 22. maí 2006 væri bundið gengistryggingu, sem óheimil væri samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
II
Í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var því slegið föstu að ófrávíkjanleg ákvæði 14. gr. laga nr. 38/2001 stæðu því í vegi að lántaki væri skuldbundinn af ákvæði í samningi um að fjárhæð láns í íslenskum krónum tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Frá þeim tíma hefur rétturinn kveðið upp marga dóma, þar sem á það hefur reynt hvort skuldbinding samkvæmt lánssamningi teljist vera um fjárhæð í íslenskum krónum, sem á þennan óheimila hátt hafi verið gengistryggð, eða fjárhæð í erlendum gjaldmiðli, einum eða fleiri, sem fyrrnefnt lagaákvæði tekur ekki til. Af þeim meiði eru meðal annarra dómar Hæstaréttar 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012 og 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012, en í þeim öllum var í þessu tilliti deilt um samninga um lán, sem tilgreind voru sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í tilteknum erlendum gjaldmiðlum, og var þess þá einnig getið hvert hlutfall hvers erlenda gjaldmiðils ætti að vera af fjárhæð lánsins. Í þessum tilvikum var litið svo á að orðalag í samningi um skuldbindingu í þessari mynd dygði ekki eitt og sér til að komast að niðurstöðu, heldur yrði jafnframt í því sambandi að líta einkum til þess hvernig aðilar samnings hafi í raun efnt hann hvor fyrir sitt leyti. Að því gættu var í fyrstnefnda dóminum litið svo á að samningur hafi í reynd verið um lán í íslenskum krónum, sem bundið væri ólögmætu ákvæði um gengistryggingu, en í hinum dómunum tveimur að samningar hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum, sem væru skuldbindandi fyrir lántaka.
Í fyrrnefndum samningi 22. maí 2006 var fjárhæð lánsins, sem stefndi tók hjá Glitni banka hf. og deilt er um í málinu, tilgreind með því einu að hún væri að „jafnvirði allt að ISK 120.000.000,00“. Þótt komið hafi fram í fyrirsögn samningsins að hann væri um „lán í erlendum gjaldmiðlum og ísl. krónum, verðtryggt“ var hvergi í honum sagt til um hvort það kæmi til með að verða í einhverjum erlendum gjaldmiðlum fremur en íslenskum krónum, hverjir þeir gjaldmiðlar þá yrðu og með hvaða fjárhæð í þeim eða hlutfalli af fjárhæðinni í íslenskum krónum. Áfrýjanda er í þessu sambandi haldlaust að bera fyrir sig efni fyrrnefndrar umsóknar stefnda um lánið, sem hvergi var vísað til í samningnum, en hún sneri að auki eftir orðanna hljóðan eingöngu að hluta lánsins eða 80.000.000 krónum. Með því að eina fjárhæðin, sem beint eða óbeint var tilgreind í lánssamningnum, var í íslenskum krónum getur engum vafa verið háð að hann tók eingöngu til skuldbindingar í þeim gjaldmiðli, sem óheimilt var samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 að binda við gengi erlendra gjaldmiðla. Þarf þá ekki að líta til þess hvernig stefndi og Glitnir banki hf. efndu skuldbindingar sínar í raun, en þau atriði gætu að auki að engu leyti hnigið að annarri niðurstöðu. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Íslandsbanki hf., greiði stefnda, Umbúðamiðlun ehf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2012.
Mál þetta var höfðað 14. apríl 2011 og dómtekið 30. apríl 2012. Stefnandi er Umbúðamiðlun ehf. kt., 540896-2249, Fornubúðum 3, Hafnarfirði. Stefndi er Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru að viðurkennt verði með dómi að A hluti lánasamnings aðila málsins, nr. 545-101960 (lánshlutar auðkenndir 852491, 852492, 852589, 852601 áður 12CU516653, 12CU516655, 12CU516656, 12CU516657), dags. 22. maí 2006, upphaflega milli stefnanda og Glitnis banka hf., sé bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.
Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
I.
Þann 22. maí 2006 undirrituðu stefnandi og Glitnir banki hf. „lánssamning um lán til 8 ára að fjárhæð jafnvirði allt að ISK 120.000.000,00 eitthundraðog tuttugumilljónir 00/100 íslenskar krónur-“. Samkvæmt samningnum er stefndi lánveitandi og stefnandi lántaki. Óumdeilt er að lánasamningurinn var við hrun Glitnis banka hf. í október 2008 færður í nýjan banka, þ.e. til stefnda, sem og réttindi og skyldur samkvæmt honum.
Samkvæmt samningi aðila frá 22. maí 2006 skiptist lánið „í tvo lánshluta, allt eftir vali lántaka, þ.e. lánshluta A, sem lán í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum og lánshluta B, sem er verðtryggt lán í íslenskum krónum, með þeim skilmálum sem greinir í samningi þessum“. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. samningsins var lánið laust til útborgunar frá undirritun samningsins til 1. júní 2006. Lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur yrði út samkvæmt samningnum var ISK 120.000.000,00 eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum, eins og segir í 2. mgr. 1. gr. samningsins.
Þá var kveðið á um það í 3. mgr. 1. gr. samningsins að stefnandi skyldi senda bankanum beiðni um útborgun með a.m.k. tveggja virkra bankadaga fyrirvara, þar sem tiltekinn yrði sá reikningur sem leggja skyldi lánið eða lánshlutann inn á. Form að útborgunarbeiðni sé fest við samninginn sem viðauki 1 og í henni skuli lántaki tilkynna lánveitanda, sé lán í erlendri mynt, í hvaða erlendu gjaldmiðla hann myndi umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum.
Stefnandi segir að þessi beiðni hafi aldrei verið útfyllt heldur hafi það verið ákveðið munnlega í símtölum milli aðila að lánið skyldi skiptast þannig að B hluti lánsins yrði 40.000.000 króna en A hluti yrði að jafnvirði 80.000.000 króna, sem yrði reiknað í myntkörfu. Lánið hafi í kjölfarið verið greitt út og stefnanda afhentar 120.000.000 króna inn á íslenskan krónureikning sinn í bankanum nr. 545-26-2249 að frádregnum kostnaði bankans eins og lántökugjöldum.
Stefnandi segir að fjárhæðin í viðskiptum aðila hafi ekki tekið neinum breytingum, heldur hafi upphæð gjaldmiðla á lánveitinganótum verið stillt af þannig að svokallaður erlendur hluti samningsins væri jafnvirði 80.000.000 á útborgundardegi lánsins. Þá hafi allar greiðslur inná lánið farið fram í íslenskum krónum og allar afborganir verið rukkaðar og innheimtar á þann hátt.
Stefndi segir það hins vegar ákveðna einföldun hjá stefnanda að kveða útgreiðslu og innborganir lánsins hafa verið í íslenskum krónum. Varðandi þá staðhæfingu stefnanda að það hafi verið ákveðið „munnlega í símtölum“ að A-hluti lánsins yrði að jafnvirði 80.000.000 króna bendir stefndi á að af „Lánsumsókn“, dags. 22. maí 2006, þ.e. sama dag og lánasamningsskjalið hafi verið undirritað, megi glögglega sjá að stefnandi hafi óskað eftir því að 25,00% lánsfjárhæðarinnar yrði í USD, 20,00% í CHF, 15,00% í JPY og 40,00% í EUR. Höfuðstóll hinnar erlendu lánsfjárhæðar sé þar sérstaklega tiltekinn og jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Nánar tiltekið hafi lánsfjárhæðin verið: USD 278.940, CHF 271.370, JPY 18.832.392, og EUR 349.918. Þá bendir stefndi sérstaklega á að á greiðsluseðlum/-kvittunum, sbr. sýnishorn sem hann hefur lagt fram, sé höfuðstóll hinnar erlendu lánsfjárhæðar sérstaklega tiltekinn.
II. Rök stefnanda
Stefnandi bendir á að tilgangur stefnanda sé rekstur umbúðamiðlunar þ.e.a.s útleiga fiskikara og ýmis þjónusta við fiskmarkaði, fiskkaupendur, fiskseljendur og aðra aðila. Áður en lánasamningurinn sem mál þetta snýst um hafi verið undirritaður hafi stefnandi verið með bankaviðskipti sín hjá Íslandsbanka hf., forvera stefnda, sem starfaði áður undir því nafni og nafninu Glitnir banki hf. Stefnandi hafi tekið fjölda lána hjá bankanum. Fram til ársins 2006 hafi stefnandi tekið lán hjá bankanum í íslenskum krónum enda allar tekjur stefnanda í krónum segir stefnandi. Í maí 2006 hafi verið komið að því að endurfjármagna rekstrarlán félagsins vegna mikilla fjárfestinga í fiskikörum undanfarin ár. Í þessum tilgangi hafi stefnandi þurft að taka lán að fjárhæð 120.000.000 króna en að hluta líka sem innborgun á yfirdráttarheimild félagsins.
Stefnandi heldur því fram að þegar hinn umdeildi lánasamningur hafi verið gerður hafi starfsmenn bankans lagt til við fyrirsvarsmenn stefnanda að tekið yrði svokallað myntkörfulán. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til tölvupósts frá 4. maí 2006 frá Viðari Þorsteinssyni en skeytið hljóðar svo:
Sæll Ólafur. Í framhaldi af samtali okkar í dag vil ég staðfesta eftirfarandi um fyrirhugaða lántöku hjá Glitni hf. Beiðni félagsins um nýjan lánasamning til skuldbreytingar á núverandi rekstrarláni og greiðslu á hluta yfirdráttarheimildar samtals að fjárhæð allt að 120 mkr. yrði mætt með eftirfarandi tillögu sem niðurstöðu af okkar viðræðum. Erlendi hlutinn, þ.e. um 70 mkr. LIBOR vextir + 2,25% álag. Útibúið mælir með myntkröfu sem endurspegar að verulegu leiti gengisvog ÍKR. Lán í ÍKR um 50 mkr. REIBOR vextir + 2,25% álag. Einnig gæti verið valkvætt að ÍKR hlutinn væri verðtryggður þ.e. kjörvextir bankans + 1,50% álag. Lántökugjald er 1% en ekkert stimpilgjald er af samningnum. Lánstími 8 ár. Verðlagning að framan endurspeglar þá breytingar sem hafa orðið á mörkðum að undanförnu sem þýðir hækkun um 0,25% punkta á álagi frá fyrra samningi. fyrirvari er gerður um endanlegt samþykki lánanefndar glitnir hf. á samningnum. Kveðja Viðar.
Stefnandi segir að á þessum tíma hafi öllum aðilum verið ljóst að stefnandi hefði enga þörf fyrir erlenda gjaldmiðla heldur einungis íslenskar krónur til að nota í starfsemi sinni. Tilgangurinn með því að veita stefnanda myntkörfulán virðist því einungis hafa verið í verðtryggingarskyni fyrir lánveitanda, þ.e. að láta höfuðstólinn sem greiddur var út í íslenskum krónum fylgja gengi hinna erlendu gjaldmiðla. Þessu er harðlega mótmælt af hálfu stefnda sem röngu og ósönnuðu, þ.e. að tilgangurinn með lánveitingunni hafi verið í „verðtryggingarskyni fyrir lánveitanda“. Þá telur hann það einföldun hjá stefnanda að halda því fram að útgreiðsla og innborganir lánsins hafi verið í íslenskum krónum
Þá lýsir stefnandi því að hann hafi ávallt staðið í skilum með afborganir í samræmi við útreikninga stefnda sem hafi verið miðaðir við gengi hinna erlendu gjaldmiðla. Eftir hrun íslensku bankanna í október 2008 hafi gengi íslensku krónunnar hrunið, eins og kunnugt sé og greiðslubyrði A hluta láns stefnanda hækkað gríðarlega af þeim sökum. Engu að síður hafi stefnandi haldið áfram að greiða af láninu.
Stefnandi segir að í kjölfar almennra umræðna og deilna um lögmæti gengistryggingar og hinna sk. myntkörfulána og sérstaklega eftir að Hæstiréttur staðfesti að erlend gengistrygging bryti í bága við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. dóma Hrd. frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, hafi aðilar rætt um lögmæti framangreinds samnings. Þessar viðræður hafi síðan strandað í janúar 2011 og málshöfðun þessi nauðsynleg fyrir stefnanda til að ná fram rétti sínum.
Stefnandi byggir kröfu sína um viðurkenningu á ólögmæti gengistryggingar lánasamnings aðila á þeirri málsástæðu að lánshluti A í hinu umdeilda láni sé lán í íslenskum krónum með gengistryggingu í nánar tilgreindum gjaldmiðlum. Í dómum Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að lán sem bundin séu við gengi erlendra gjaldmiðla fari í bága við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í forsendum dómanna segi m.a. orðrétt:
Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum.
Stefnandi telur ljóst að lánshluti A sé gengistryggður í þessum skilningi. Í fyrsta lagi sé lánsfjárhæðin strax í upphafi lánasamningsins tilgreind með þessum hætti, þ.e.: um lán til 8 ára að fjárhæð jafnvirði allt að ISK 120.000.000,00 eitthundraðogtuttugumilljónir 00/100 íslenskar krónur.
Í samræmi við þetta hafi stefnanda verið greiddar 120.000.000 króna, að frádregnum lántökukostnaði, inn á íslenskan krónureikning sinn í bankanum nr. 545-26-2249. Engir erlendir gjaldmiðlar hafi nokkru sinni verið afhentir stefnanda eða lagðir inn á gjaldeyrisreikninga. Þá liggi jafnframt fyrir að stefnandi hafi frá upphafi greitt af láninu með íslenskum krónum. Stefnandi hafi aldrei greitt af láninu með erlendum gjaldmiðlum. Þá liggi einnig fyrir að fjárhæðir gjaldmiðla hafi á útborgunardegi verið stilltar af sem jafnvirði 80.000.000 króna en ekki var ákveðið lán í erlendri mynd og sú fjárhæð greidd.
Stefnandi byggir á því að horfa beri til raunverulegrar framkvæmdar samnings við túlkun á hugtakinu gengistrygging en ekki sé nægilegt að horfa einungis til orðalags samnings eða forms samnings aðila. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til gengisdómanna en þar hafi raunverulegt efni og framkvæmd samninga ráðið úrslitum um gengistrygginguna frekar en sá búningur sem gerningarnir höfðu verið klæddir í af lánveitendum.
Í samningi aðila sé í nokkrum tilvikum talað um lán í erlendri mynt, auk þess sem þar segi að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstendur af, sbr. 3. mgr. 2. gr. Þá segi meira að segja í 10. gr. (liðum i og ii) að það teljist vanefnd lántaka á samningnum ef hann greiðir ekki á réttum gjalddaga eða í réttum gjaldmiðli. Stefnandi byggir á því að þessi ákvæði samningsins sem hafi verið samin einhliða af bankanum, séu til málamynda og sett til að klæða löggerninginn í þann búning að um erlent lán sé að ræða.
Þessu til stuðnings áréttar stefnandi að hann hafi aldrei greitt af A hluta lánsins í þeim gjaldmiðlum sem það samanstóð af heldur alltaf í íslenskum krónum og hann hafi enn fremur einnig verið rukkaður í íslenskum krónum. Hefði stefndi staðið í þeirri trú að lánið væri erlent lán hefði hann átt að gera athugasemdir við þessa framkvæmd enda strangt til tekið þá um vanefnd af hálfu stefnanda að ræða að greiða í íslenskri mynt. Þótt litið yrði fram hjá öðru verði að telja að stefndi hafi með athafnaleysi sínu einu og sér fallist á þessa túlkun samningsins, þ.e. að greiða bæri afborganir af honum með íslenskum krónum en fjárhæðin hverju sinni reiknuð eftir gengi viðmiðunargjaldmiðla lánshluta A.
Þegar hafi verið staðfest í dómum Hæstaréttar að það hafi ekki áhrif á niðurstöðu um það hvort lánasamningur teljist gengistryggður eða ekki, hvernig vextir hafi verið ákvarðaðir í samningi. Stefnandi vísar til dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Í báðum málunum hafi verið um að ræða lánasamninga gengistryggða í erlendri mynt þar sem greiðsla lántaka tók mið af breytingum á gengi og LIBOR-vöxtum. Þetta atriði hafi þó ekki orðið til þess að talið hafi verið að um væri ræða samning í erlendri mynt heldur þvert á móti að um væri að ræða lánasamning í íslenskum krónum með gengistryggingu í erlendri mynt.
Þá verði að telja að sk. kaupnótur sem stefndi hafi sent stefnanda í tengslum við málið hafi enga þýðingu um niðurstöðuna hvað gengistryggingu varðar. Umræddar kaupnótur séu óundirritaðar og útbúnar einhliða af bankanum án nokkurrar aðkomu stefnanda. Þá hafi stefnanda ekki verið afhentar umræddar kaupnótur á þeim tíma sem því sé haldið fram að gjaldeyrisviðskiptin hafi átt sér stað. Stefnandi telur því liggja í augum uppi að umræddar kaupnótur séu í besta falli málamyndagerningar sem ætlað sé að breiða yfir þá staðreynd að engin lántaka hafi farið fram í erlendri mynt. Þessi gögn hafi því ekkert sönnunargildi í málinu. Þetta hafi verið staðfest í dómaframkvæmd, sbr. t.d. dóm héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. febrúar 2011 í máli nr. X-559/2010.
Krafa stefnanda byggir á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, einkum 13. og 14. gr. laganna. Þá er vísað til samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr. og 36. gr. a-d. Krafa stefnanda um málskostnað styðst við 21. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. gr. og 130. gr. laganna.
III. Rök stefnda
Af hálfu stefnda er öllum málsástæðum stefnanda, þar að lútandi að lánshluti A í hinu umþrætta láni sé lán í íslenskum krónum með gengistryggingu í nánar tilgreindum gjaldmiðlum og brjóti því í bága við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, hafnað.
Stefndi hafnar því líka alfarið þegar af þeim ástæðum að lánið sé sagt vera að jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum sé lánsskuldbindingin í íslenskum krónum í stað erlendrar myntar. Þegar stofnað hafi verið til lánsskuldbindingarinnar hafi ekki verið lagðar hömlur við lánaviðskiptum í erlendri mynt. Engu breyti þótt höfuðstóll hinnar erlendu myntar hafi ekki verið tiltekinn í lánasamningsskjalinu heldur eingöngu jafnvirði hennar í íslenskum krónum. Með tilvísuðu orðalagi lánasamningsskjalsins sé samkvæmt orðanna hljóðan verið að vísa til jafngildis hinnar erlendu fjárhæðar í íslenskum krónum, en slíkt fái engu breytt um að skuldbindingin sem slík sé í erlendri mynt. Nánar tiltekið, þá svari lánsskuldbindingin í hinni erlendu mynt til tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum.
Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að greiða út fjárhæðina í hinni erlendu mynt hefði stefnandi óskað þess. Hins vegar, eins og stefnandi sjálfur segi, hafði hann enga þörf fyrir það. Þá bendir stefndi sömuleiðis sérstaklega á að í fyrrgreindri lánsumsókn, dags. sama dag og lánasamningurinn, hafi höfuðstóll hinnar erlendu lánsfjárhæðar sérstaklega verið tiltekinn, svo og á einstökum greiðsluseðlum/-kvittunum eftir stofnun lánsskuldbindingarinnar, enda þótt jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum sé jafnframt tiltekið. Þessi lánshluti sé því í grunninn í erlendri mynt. Vart þurfi að taka fram að hin undirritaða lánsumsókn, dagsett sama dag og lánasamningurinn, sé órjúfanlegur hluti hans. Nánar tiltekið sé lánsfjárhæðin, sem fyrr segir: USD 278.940; CHF 271.370; JPY 18.832.392; og EUR 349.918.
Stefndi telur jafnframt ljóst að önnur skjalleg gögn og framkvæmd samningsins bendi ótvírætt til þess að um lánsskuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða, að því er A-hluta hans varðar. Á upphafssíðu lánasamningsins sé t.d. sérstaklega tiltekið að um lán í erlendum gjaldmiðlum, sbr. A-hluta lánsins, og í íslenskum krónum, sbr. B-hluta lánsins, sé að ræða. Í upphafi lánasamningsins segi jafnframt að lánið skiptist í tvo lánshluta, „allt eftir vali lántaka, þ.e. lánshluta A, sem er lán í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum og lánshluta B, sem er verðtryggt lán í íslenskum krónum ...“. Í 3. mgr. 2. gr. lánasamningsins sé jafnframt sérstaklega kveðið á um að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af.
Í 3. gr. samningsins, þar sem kveðið er á um vexti, vaxtabreytingar og greiðslu vaxta, sé sérstaklega tiltekið að lánshlutar samkvæmt A-hluta lánsins í erlendum myntum öðrum en evrum skuli bera eins mánaðar LIBOR vexti samkvæmt nánari tilgreiningu, og að lánshluti í evrum samkvæmt A-hluta lánsins skuli bera eins mánaðar EURIBOR vexti samkvæmt nánari tilgreiningu.
Í 4. gr. lánasamningsins sé jafnframt kveðið á um sérstaka myntbreytingarheimild, þannig að eftirstöðvar þess lánshluta „miðist við aðra erlenda mynt ...“. Hvergi í lánasamningnum sé að finna neina tilvísun til gengistryggingar, sbr. t.d. hins vegar lánasamninga þá sem deilt var um í málum nr. 603 og 604/2010 sem dæmd hafi verið í Hæstarétti.
Af tilkynningum bankans til stefnanda um lánveitinguna og ekki síður lánsumsókninni frá 22. maí 2006 megi jafnframt ráða að lánið sé veitt í tilgreindum erlendum myntum, þ.e. USD, CHF, JPY og EUR. Því er jafnframt alfarið hafnað að þær séu til „málamynda“ svo sem stefnandi byggir á. Andvirði hinnar erlendu lánsfjárhæðar í íslenskum krónum hafi síðan verið lagt inn á reikning stefnanda, sem hafi verið í íslenskum krónum, enda, eins og stefnandi kveður sjálfur, hafði hann enga þörf fyrir erlenda gjaldmiðla. Ekkert hefði hins vegar verið því til fyrirstöðu að greiða út fjárhæðina í hinni erlendu mynt hefði stefnandi óskað þess. Lánið sem slíkt sé hins vegar veitt og í reynd greitt út í erlendri mynt, sbr. fyrrnefnda lánsumsókn,þótt andvirði þess í íslenskum krónum hafi síðan verið ráðstafað á reikning stefnanda. Aðalskylda stefnda hafi því í grunninn verið efnd í erlendri mynt.
Í reikningsyfirliti, sem stefnandi hafi lagt fram, megi jafnframt sjá að erlendi lánshlutinn sé ávallt tilgreindur, sbr. einnig sýnishorn af greiðsluseðlum/kvittunum sem stefndi hafi lagt fram. Enda þótt stefnandi hafi greitt stefnda íslenskar krónur á einstökum gjalddögum lánasamningsins, þá hafi sú fjárhæð svarað hverju sinni til andvirðis hinnar erlendu myntar. Í reynd, þ.e. í uppgjörslegu tilliti, hafi stefnandi á hverjum gjalddaga lánsins keypt erlendar myntir fyrir íslenskar krónur. Hvað sem þessu líði sé ljóst að lánsskuldbindingin sem slík sé eftir sem áður í erlendri mynt, en ekki í íslenskum krónum.
Þá mótmælir stefndi jafnframt sérstaklega sem röngum og ósönnuðum hvers konar málsástæðum stefnanda um að ákvæði lánasamningsins, sem bera þess ljóslega merki að um erlenda lánsskuldbindingu sé að ræða, sbr. að framan, séu til málamynda og til þess eins að klæða löggerninginn í þann búning að um erlent lán sé að ræða.
Um lagarök vísar stefndi einkum til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, auk meginreglna fjármunaréttar. Kröfu sína um málskostnaður styður stefndi við ákvæði 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV. Niðurstaða
Eins og fram hefur komið deila málsaðilar um hvort skuldbinding stefnanda samkvæmt A-hluta lánssamnings aðila sé, skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum, nánar tiltekið USD 278.940, CHF 271.370, JPY 18.832.392, og EUR 349.918, eins og stefndi heldur fram, eða skuldbinding íslenskum krónum, sem bundin sé gengi fyrrgreindra erlendra gjaldmiðla, eins og stefnandi heldur fram.
Við úrlausn málsins þarf m.ö.o. að leysa úr því hvort með samningi aðila frá 22. maí 2006 hafi stefnanda verið veittar að láni framangreindar erlendar myntir eða íslenskrar krónur tengdar við erlenda mynt. Við þá túlkun skiptir mestu máli efni samningsins auk þess sem líta ber til framkvæmdar hans. Verður nú vikið nánar að samningi aðila.
Á forsíðu samnings aðila er að finna yfirskriftina Lánssamningur (Lán í erlendum gjaldmiðlum og ísl. krónum, verðtryggt) en síðan segir í upphafi samningsins að um sé að ræða lán „að fjárhæð jafnvirði allt að ISK 120.000.000,00 “. Lánshluti A sé lán í erlendum myntum og/eða íslenskum krónum. Þá segir í 1. mgr. 1. gr. samningsins m.a. að lántaki lofi að taka að láni og lánveitandi að lána allt að umsamda lánsfjárhæð. Lágmarksfjárhæð hvers lánshluta sem greiddur sé út samkvæmt samningnum sé ISK 120.000.000,00 eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í öðrum gjaldmiðlum.
Samningnum fylgdi form að útborgunarbeiðni, sem viðauki 1, sem gert var ráð fyrir, samkvæmt 2. mgr. 1. gr. samningsins, að stefnandi myndi nota til að tilkynna stefnda, væri lán í erlendri mynt, í hvaða erlendu gjaldmiðlum hann myndi umbreyta lánsfjárhæðinni og í hvaða hlutföllum. Fjárhæð hvers gjaldmiðils fyrir sig skyldi þó ekki ákvarðast fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgun lánsins. Á því tímamarki yrðu fjárhæðirnar endanlegar og myndu ekki breytast innbyrðis þaðan í frá, þótt upphafleg hlutföll þeirra kynnu að breytast á lánstímanum. Lánið yrði þá eftirleiðis tilgreint með fjárhæð þeirra erlendu mynta, eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða í íslenskum krónum, samkvæmt heimildum 3. og 4. gr. samningsins.
Í lokamálsgrein 1. gr. samningsins er kveðið á um að lántaki hyggist nýta lánið til greiðslu á núverandi erl. rekstrarlánasamningi og sem innborgun á yfirdráttarheimild á reikningi 545-26-2249. Þá segir í 3. mgr. 2. mgr. samningsins að lánið beri að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem það samanstandi af en jafnframt í 7. mgr. sama ákvæði að lánveitandi hafi heimild, en ekki skyldu, til þess að skuldfæra reikning lánataka hjá lánveitanda, þ.e. 545-26-2249.
Samkvæmt gögnum málsins fyllti stefnandi ekki formið að útborgunarbeiðninni sem fylgdi samningnum en aðilar undirrituðu sama dag fyrrnefnt skjal er ber yfirskriftina „Lánsumsókn“ þar sem „upphæð“ er tilgreind „í íslenskum krónum: 80.000.000“. Þá er undir yfirskriftinni „Skipting í erlenda mynt“ fjárhæðinni skipt með svofelldum hætti í erlendu gjaldmiðlana USD, CHF, JPY og EUR:
% mynt Libor Viðmiðunar- Umsamið ISK Reikningsnúmer
gengi gengi
25,00 USD 278.940 5,14063 71,56 71,7 20.000.000 545-26-2249
20,00 CHF 271.370 1,36583 59 58,96 16.000.000 545-26-2249
15,00 JPY 18.832.392 0,14125 0,6341 0,6372 12.000.000 545-26-2249
40.00 EUR 349.918 2,83400 91 91,45 32.000.000 545-26-2249
Í samræmi við þetta og samkvæmt yfirlitum um lánveitingar og yfirliti reiknings nr. 525 26 2249, sem er íslenskur tékkareikningur, greiddi stefnandi lánið í íslenskum krónum inn á þennan reikning stefnanda, eða samtals 79.195.000 íslenskar krónur að frádreginni þóknun.
Á greiðsluseðlum stefnda til stefnanda var bæði höfuðstóll upphaflegrar fjárhæðar í íslenskum krónum og hinnar erlendu myntar tilgreindur og jafnframt tilgreind erlenda fjárhæðin sem var „Til greiðslu“ en neðanmáls undir yfirskriftinni „Útreikningur“ segir: „margfaldað er „Til greiðslu“ viðkomandi mynt á gjalddaga til að finna greiðslufjárhæð í íslenskum krónum.“ Þá hafa verið lagðar fram greiðslukvittanir frá Glitni vegna greiðslu á láninu, sem hafa að geyma upplýsingar um afborganir í fyrrgreindum erlendum myntum en jafnframt útreikning á andvirði afborgunar í íslenskum krónum, sem tekin var út af var fyrrgreindum reikningi stefnanda og óumdeilt er að stefnandi greiddi ávallt af láninu í íslenskum krónum.
Þegar litið er til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að lán stefnda til stefnanda samkvæmt A-hluta samnings aðila hafi í raun verið lán í íslenskum krónum enda liggur fyrir samkvæmt framangreindu að báðir aðilar efndu meginskyldur sínar samkvæmt lánssamningnum með greiðslum í íslenskum krónum og gerðu það í raun, sbr. fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011. Verður því fallist á það með stefnanda, þrátt fyrir fyrrgreint orðalag í yfirskrift samnings aðila; „Lán í erlendum gjaldmiðlum og ísl. krónum “, að hér sé um að ræða lán sem ákveðið hafi verið í íslenskum krónum en bundið við gengi erlendra gjaldmiðla og þar með í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. fordæmi Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, eins og áréttað var enn fremur í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Viðurkennt er að A hluti lánasamnings stefnanda, Umbúðamiðlunar ehf., og stefnda, Íslandsbanka hf., nr. 545-101960 (lánshlutar auðkenndir 852491, 852492, 852589, 852601 áður 12CU516653, 12CU516655, 12CU516656, 12CU516657), dags. 22. maí 2006, upphaflega milli stefnanda og Glitnis banka hf., er bundinn ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Stefndi greiði stefnanda 600.000 krónur í málskostnað.