Hæstiréttur íslands

Mál nr. 488/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 12. október 2010.

Nr. 488/2010.

Landsbanki Íslands hf.

(Eggert Páll Ólafsson hdl.)

gegn

Hafliða Þórssyni

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

L og H gerðu með sér framvirka samninga þar sem L skuldbatt sig til að selja H hlutabréf í nánar tilgreindum félögum á gjalddaga samninganna gegn því að H greiddi samningsfjárhæðirnar inn á reikning L. L höfðaði síðar mál og krafði H um efndir á samningunum. Samningar báru með sér að arður af hlutabréfunum, sem kynni að vera greiddur út á samningstímabilinu, hefði átt að koma í hlut L en leiða til lækkunar á framvirku gengi bréfanna og þar með á fjárhæðinni sem H bar að greiða L. Kröfugerð L í málinu byggðist á samtölu samningsfjárhæða eins og þær voru í öllum samningunum. Í stefnu var í engu vikið að því hvort og þá af hvaða bréfum hefði verið greiddur arður á samningstímabilinu eða eftir gjalddaga samninganna og hvort þær greiðslur hefðu áhrif á kröfugerð L í málinu. Talið var að L hefði borið að taka tillit til arðgreiðslna við framsetningu kröfugerðar sinnar í málinu, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ef L teldi að samkomulag hafi verið milli aðila um að arði af bréfunum skyldi ráðstafað með öðrum hætti en kveðið væri á um í samningnum hefði þurft að geta þess í stefnu samkvæmt e. lið sömu greinar. Engu breytti í því efni þótt aðilar hefðu ekki lýst gagnaöflun lokið. Í ljósi þessara annmarka á málatilbúnaði L var fallist á kröfu H um að málinu yrði vísað frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að samhliða máli þessu eru fyrir Hæstarétti rekin tvö önnur mál um samkynja ágreining aðilanna.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Landsbanki Íslands hf., greiði varnaraðila, Hafliða Þórssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6.  júlí 2010.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar mánudaginn 28. júní sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. október 2009 af Landsbanka Íslands hf., Austurstræti 16 í Reykjavík, gegn Hafliða Þórssyni, Brekkutúni 21 í Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 449.826 bandaríska dollara (USD) með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af USD 207.818 frá 7. ágúst 2008 til 22. ágúst 2008, af USD 289.206 frá 22. ágúst 2008 til 15. september 2008, af USD 352.817 frá 15. september 2008 til 19. september 2008, af USD 419.061 frá 19. september 2008 til 7. október 2008 og af USD 449.826 frá 7. október 2008 til greiðsludags gegn útgáfu afsals fyrir (i) 10.000,00 hlutum í Navios Maritime Holdings Inc, (ii) 1.000,00 hlutum í Giant Interactive Group-Adr, (iii) 2.0000,00 hlutum í Nordic American Tanker Shipping Limited, (iv) 2.000,00 hlutum í Diana Shipping Inc, (v) 1.000,00 hlutum í Syngenta AG SPON ADR, (vi) 1.500,00 hlutum í China Southern Air-sp Adr, og (vii) 10.000,00 hlutum í Decode Genetics. Þá krefst stefnandi vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður að svo stöddu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara krefst hann sýknu af öllum kröfum málsins en til þrautaþrautavara að krafan verði lækkuð og að hann verði sýknaður af vaxtakröfu. Í öllum tilvikum krefst hann aðallega málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi en til vara að málskostnaður falli niður.

Málið var flutt um frávísunarkröfu stefnda 28. júní s.l. og er sá ágreiningur hér til úrlausnar. Í þeim þætti málsins krefst stefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hafnað auk málskostnaðar.

II.

Málavextir

Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að á tímabilinu frá 7. maí 2008 til 26. ágúst 2008 gerðu aðilar málsins með sér átta framvirka samninga þar sem stefnandi skuldbatt sig að selja stefnda hlutabréf í sjö nánar tilgreindum félögum á gjalddaga samninganna gegn því að stefndi greiddi samningsfjárhæðirnar, sem voru í bandarískum dollurum, inn á reikning stefnanda. Áður hafði stefndi undirritað almenna skilmála fyrir markaðsviðskipti hjá stefnanda. Um eftirtalda samninga var að ræða:

      1) Samningur, dags. 7. maí 2008, með auðkenninu 11249-2 um kaup stefnda á 5.000 hlutum í Navios Maritime Holdings Inc. Viðmiðunargengi í upphafi var tilgreint 18,7438 (þar af 0% upphafsþóknun), vextir voru 2,900%+3,000% og framvirkt gengi 19,0264. Samningsfjárhæð var USD 95.132 og gjalddagi 7. ágúst 2008.

      2) Samningur, dags. 7. maí 2008 með auðkenninu 11265-2 um kaup stefnda 5.000 hlutum í Navios Maritime Holdings Inc. Viðmiðunargengi í upphafi var tilgreint 18,1940 (þar af 0% upphafsþóknun), vextir voru 2,900%+3,000% og framvirkt gengi 18,4683. Samningsfjárhæð var USD 92.342 og gjalddagi 7. ágúst 2008.

      3)   Samningur, dags. 7. maí 2008, með auðkenninu 11290-2 um kaup stefnda á 1.000 hlutum í Giant Interactive Group-Adr. Viðmiðunargengi í upphafi var tilgreint 20,0420 (þar af 0% upphafsþóknun), vextir voru 2,900%+3,000% og framvirkt gengi 20,3442. Samningsfjárhæð var USD 20.344 og gjalddagi 7. ágúst 2008.

      4) Samningur, dags. 19. maí 2008, með auðkenninu 12428-0 um kaup stefnda á 2.000 hlutum í Nordic American Tanker Shipping Limited. Viðmiðunargengi í upphafi var tilgreint 40,1099 (þar af 0,35% upphafsþóknun), vextir voru 2,700%+3,000% og framvirkt gengi 40,6942. Samningsfjárhæð var USD 81.388 og gjalddagi 22. ágúst 2008.

      5) Samningur, dags. 17. júní 2008, með auðkenninu 12533-0 um kaup stefnda á 1.000 hlutum í Syngenta AG SPON ADR. Viðmiðunargengi í upphafi var tilgreint 65,2871 (þar af 0,4% upphafsþóknun), vextir voru 2,800%+3,000% og framvirkt gengi 66,2443. Samningsfjárhæð var USD 66.244 og gjalddagi 19. september 2008.

      6) Samningur, dags. 7. ágúst 2008 með auðkenninu 5486-9 um kaup stefnda á 10.000 hlutum í Decode Genetics. Viðmiðunargengi í upphafi var tilgreint 1,5000 (þar af 0% upphafsþóknun), vextir voru 2,700%+3,750% og framvirkt gengi 1,5164. Samningsfjárhæð var USD 15.164 og gjalddagi 7. október 2008.

      7) Samningur, dags. 15. ágúst 2008, með auðkenninu 11444-3 um kaup stefnda á 2.000 hlutum í Diana Shipping Inc. Viðmiðunargengi í upphafi var tilgreint 31,6500 (þar af 0% upphafsþóknun), vextir voru 2,700%+3,000% og framvirkt gengi 31,8053. Samningsfjárhæð var USD 63.611 og gjalddagi 15. september 2008.

      8) Samningur, dags. 26. ágúst 2008, með auðkenninu 10935-3 um kaup stefnda á 1.500 hlutum í China Southern Air-sp Adr. Viðmiðunargengi í upphafi var tilgreint 10,3333 (þar af 0% upphafsþóknun), vextir voru 2,600%+3,000% og framvirkt gengi 10,4008. Samningsfjárhæð var USD 15.601 og gjalddagi 7. október 2008.

Í stefnu kemur fram að allir samningarnir átta hafi verið gerðir 14. ágúst 2008 sem stangast á við hvenær samningarnir eru dagsettir. Á sama tímabili gerðu aðilar með sér 17 aðra framvirka samninga um kaup stefnda á félögum þar sem samningsfjárhæðir voru í kanadískum dollurum og norskum og sænskum krónum. Um þá er fjallað í öðrum málum sem rekin eru samhliða þessu máli.

Óumdeilt er að stefndi stóð ekki skil á samningsfjárhæðum á gjalddögum samninganna. Af hálfu stefnda er því haldið fram að í ágúst 2008, þegar fyrstu samningarnir gjaldféllu, hafi staðið til að framlengja samningana eða gera nýja eins og tíðkast hafði milli aðila. Ekki hafi náðst að ganga frá neinum framlengingum áður en rekstur stefnanda var tekinn yfir af ríkinu í október 2008. Eftir það hafi engir nýir samningar verið gerði milli aðila.

Stefnandi sendi stefnda greiðsluáskorun 17. mars 2009 þar sem fram kemur að höfuðstóll skuldar stefnda við stefnanda út af framvirkum samningum aðila sé 54.655.092 íslenskar krónur auk áfallinna dráttarvaxta, sem voru 7.177.989 krónur, eða samtals 61.833.081 króna. Þar er vísað til allra 25 samninganna milli stefnanda og stefnda en ekki verður af gögnum málsins ráðið hvort þar sé tekið tillit til þeirra trygginga sem stefndi mun hafa lagt fram eða hvort reiknað sé með því að andvirði bréfanna renni til stefnanda eða hvort þau skuli afhent stefnda.

III.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi reisir kröfu sína á því að skuld stefnanda við hann samkvæmt þeim samningum sem um ræðir nemi 449.826 bandarískum dollurum. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi skuldbundið sig til að leggja kaupverð umræddra hluta í framangreindum átta félögum, þ.e. samningsfjárhæðir samkvæmt samningunum, inn á reikning stefnanda á gjalddaga samninganna. Byggir stefnandi á því að engin greiðsla hafi borist frá stefnda.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um efndir samninga og fjárskuldbindinga, varðandi dráttarvexti til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 28/2001, um vexti og verðtryggingu, og varðandi málskostnað til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá er krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður stefnda

Stefndi telur að stefnandi hafi vanmetið þau verðmæti sem hann eigi tilkall til á grundvelli hinna umdeildu viðskipta enda sé þar ekki tekið tillit til arðgreiðslna og kaupréttar. Vísar hann til þess að 3. maí 2010 hafi stefnandi talið að tryggingar stefnanda vegna þeirra krafna sem um er deilt í málunum, þar með talið bréfin samkvæmt hinum framvirku samningum í þessu máli, séu taldar vera um 180.000.000 krónur en heildarstaða krafna stefnanda samkvæmt framvirkum samningum sem málin varð taldar vera um 205.000.000 krónur. Telur stefndi að verðmæti sín hjá stefnanda nemi að lágmarki 195.000.000 króna sé litið til arðgreiðslna og kaupréttar. Þá liggi fyrir að tryggingar séu að hluta í íslenskum krónum og að verðmæti þeirra aukist með styrkingu krónunnar.

Fram kemur af hálfu stefnda að á síðustu vikunum fyrir hrun bankans og í marga mánuði eftir það hafi bankinn í raun verið óstarfhæfur og vanefnt allar skyldur sínar samkvæmt samningum aðila. Telur hann að fullkominn forsendubrestur hafi orðið fyrir kröfu um efndir samninganna af sinni hendi vegna vanefnda stefnanda enda liggi fyrir að ákvæði laga nr. 108/2007 hafi einfaldlega ekki virkað frá bankahruni um viðskipti og uppgjör skuldbindinga stefnda, honum til tjóns en ekki stefnanda. Er því haldið fram af hálfu stefnda að beiðnum um uppgjör og ný viðskipti hafi ekki verið sinnt af stefnanda eða beiðnum um sölu undirliggjandi eigna í samningunum. Þá hafi erlendar kauphallir lokað á viðskipti við stefnanda við hrunið sem gat þá ekki orðið við tilmælum um sölu eigna. Þetta ástand hafi verið viðvarandi í marga mánuði eða tæpt ár. Þá liggi ekkert fyrir um það hvort umrædd bréf hafi verið keypt á sínum tíma eða séu í eigu stefnanda og hafi verið það frá hruni. Eins og málið sé rekið sé því óljóst hvort stefnandi geti eða hafi nokkurn tíma getað efnt samninginn fyrir sitt leyti.

Séu umrædd bréf til hjá stefnanda þá liggi fyrir að hann, sem skráður eigandi þeirra, hafi móttekið arðgreiðslur sem samkvæmt ákvæðum samninganna áttu að falla til stefnda. Bankinn hafi haldið þessum greiðslum. Ekki liggi fyrir í málinu yfirlit um hverjar arðgreiðslurnar hafa verið eða hvenær þær hafi verið mótteknar en slíkar arðgreiðslur hafi áhrif á kröfugerð málsins. Þá heldur stefndi því fram að kaupréttir hafi fylgt hluta samninganna sem hægt hefði verið að innleysa með hagnaði eða selja fyrir peninga. Það hafi ekki verið gert og í þeim tilvikum sem stefndi óskaði eftir slíku hafi því ekki verið sinnt.

Stefndi kveðst hafa allt frá hruni leitað eftir uppgjöri á samningum sínum og réttum útreikningum sem hann hafi ekki fengið. Stefnandi hafi aldrei uppfyllt 7. gr. eigin viðskiptaskilmála um að senda stefnda yfirlit um stöðu samninga sinna innan fimmtán daga frá eindögum þeirra.

Jafnframt vísar stefndi til sjónarmiða um jafnræði og meginreglna kröfuréttar og telur þau sjónarmið leiða til þess að hann eigi rétt á uppgjöri samninga samkvæmt aðalefni þeirra eftir að fyrir liggur hver rétt skuld sé miðað við ráðstöfun undirliggjandi verðmæta og trygginga. Ljóst sé að við uppgjör á hverjum tíma verði að líta til raunverulegra skulda en það megi ekki fara þannig fram að aðalskuldari krefjist efnda samkvæmt gagnkvæmum samningi en haldi á sama tíma frá stefnda hagsmunum um eða yfir 90% af kröfum sínum sem stefndi eigi ekki aðgang að og hvorki undirliggjandi verðmætum samninga né tryggingum til að efna samninginn fyrir sitt leyti.

Um frávísunarkröfuna vísar stefndi til d-, e- og f-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 en hann telur að málatilbúnaður stefnanda uppfylli ekki skilyrði þessara stafliða. Sé málið svo vanreifað af hálfu stefnanda að því skuli vísað frá dómi. Vísar stefndi til alls ofanritaðs en bendir jafnframt á að engin gögn eru í málinu um að stefnandi hafi nokkurn tíma eignast þau bréf sem hinir framvirku samningar taki til. Ekki liggi því fyrir að stefnandi geti efnt kröfuna fyrir sitt leyti. Ef stefnandi sé eigandi bréfanna sé enn fremur ekki gerð grein fyrir arðgreiðslum inn á bréfin og hvernig þeim hafi verið ráðstafað eða um ráðstöfun mögulegra kauprétta. Þá sé í engu fjallað um ráðstöfun veða og trygginga sem séu í vörslu stefnanda út af sömu samningum. Málatilbúnaður stefnanda samrýmist því ekki ákvæðum laga nr. 91/1991 en gera verði kröfu til samræmis milli gagna málsins og kröfugerðar sem og að nauðsynleg sönnunargögn liggi fyrir um að stefnandi hafi staðið við samninga fyrir sitt leyti og sé og hafi verið eigandi þeirra hagsmuna sem samningarnir taka til. Þá sé vaxtakrafan vanreifuð og í ósamræmi við skjal sem lagt er fram um tölvupóstsamskipti stefnda við starfsmann stefnanda 23. apríl 2010.

Um varakröfu stefnda vísar hann til sömu málsástæðna og að framan greinir en áréttar að ekki liggi fyrir að stefnandi hafi eignast umrædd bréf. Þá hafi stefnandi ekki staðið við samningsskilmála um að afhenda stefnda réttan útreikning á kröfum sínum og að óupplýst sé um kauprétti og ráðstöfun arðs sem átti að falla til stefnda. Lokadagur samninganna sé því ekki kominn og því beri að sýkna stefnda að svo stöddu.

Þrautavarakrafa stefnda er reist á því að í kröfugerð stefnanda sé ekki tekið tillit til arðs og kaupréttar eins og að framan er getið. Skorar stefndi á stefnanda að upplýsa um þessi atriði. Þá hafi stefnandi vanefnt skyldur sínar gagnvart stefnanda samkvæmt lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Verði frávísun vaxtakröfu hafnað er sjónarmiðum stefnanda um vexti sérstaklega mótmælt og því hafnað að hann eigi rétt á dráttarvöxtum fyrr en í fyrsta lagi við dómsuppsögu, komi til áfalls í málinu, en til vara við þingfestingu málsins. Ljóst sé að bankinn hafi orðið óstarfhæfur við hrunið og hætt allri eðlilegri starfsemi en það hafi haft áhrif á mögulegt uppgjör. Þá vísar stefndi til þess að í apríl 2010 hafi verið viðurkennt af hálfu stefnanda að ekki liggi fyrir öll gögn til að unnt sé að gera upp málið milli aðila.

Um lagarök vísar stefndi til skriflegra og munnlegra samninga aðila og meginreglna kröfuréttar og samningaréttar. Vísað er til samningalaganna, nr. 7/1936, eftir því sem við á og sérstaklega til reglna um forsendubrest. Varðandi vexti er vísað til ákvæða vaxtalaga nr. 38/2001. Um frávísun, kröfugerð, málskostnað og sönnun er vísað til laga nr. 91/1991. Þá vísar stefndi til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Málsástæður stefnanda um frávísunarkröfu stefnda

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað enda sé stefnan í samræmi við skilyrði d-, e- og f-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Bendir hann á að samkvæmt e-lið greinarinnar skuli lýsing í stefnu á málsástæðum og öðrum málsatvikum og röksemdum vera gagnorð. Telur stefnandi að sú lýsing sem fram komi í stefnu gefi fullnægjandi mynd af sakarefninu þannig að stefndi geti tekið til varna í málinu. Þá lúti athugasemdir stefnda, þess efnis að gögn skorti um að stefnandi eigi umrædd bréf, ekki að formlegum grundvelli málsins heldur að því hvort stefnandi eigi þá kröfu sem málið snúist um. Um þetta atriði vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar frá 20. apríl 2010 í málum nr. 186/2010 og 187/2010. Þá telur stefnandi sig ekki hafa verið skylt að kaupa bréfin af sinni hálfu fyrr en við efndir samninganna. Enn fremur hyggist hann leggja fram í málinu gögn um eignarhald bréfanna eins og heimilt er að gera undir rekstri málsins.

Stefnandi tekur enn fremur fram að í málinu sé krafist efnda á framvirkum samningum aðila samkvæmt aðalefni samninganna. Hugsanlegar arðgreiðslur og kaupréttir hafi ekki áhrif á kröfugerðina og ekki hafi verið gengið að veðum eða tryggingum. Þá sé vaxtakrafa í samræmi við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Um arðgreiðslur vísar stefnandi til þess að stefndi eigi að geta nálgast upplýsingar um þann arð sem greiddur hafi verið og gert gagnkröfu í málinu þar sem um opinberar upplýsingar sé að ræða. Er því haldið fram af hálfu stefnanda að arður af bréfunum hafi verið greiddur inn á handveðsettan reikning, sem sé skráður á nafn stefnda, en samkomulag hafi verið gert milli aðila um að arðurinn yrði gerður upp með þeim hætti. Stefnandi hafi ekki gengið að hinum handveðsetta reikningi.

Stefnandi telur ekkert í málatilbúnaði hans gefa tilefni til frávísunar málsins. Vísar hann þar til fyrrgreindra dóma Hæstaréttar ásamt dómi Hæstaréttar 3. mars 2003 í máli nr. 57/2003 sem og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-12673/2009.

IV.

Niðurstaða

Í málinu krefur stefnandi stefnda um efndir á átta framvirkum samningum milli aðila um viðskipti með hluti í sjö félögum. Í öllum samningunum er fjallað með sama hætti um greiðslu arðs af hlutabréfunum á samningstímanum svo og um útgáfu jöfnunarhlutabréfa. Í 5. gr. samninganna segir að ef útgefandi hlutabréfanna ákveður að greiða arð á samningstímabilinu, þ.e. frá og með samningsdegi fram að gjalddaga, skuli framvirkt gengi lækka í samræmi við útgreiðslu arðsins. Síðan segir orðrétt: „Arðgreiðslur koma því í hlut seljanda og framanskráð framvirkt gengi er því lækkað með tilliti til útgreiðslu arðsins.“ Samningar aðila virðast því bera með sér að arður af hlutabréfunum, sem kynni að vera greiddur út á samningstímabilinu, hafi átt að koma í hlut stefnanda en leiða til lækkunar á framvirku gengi bréfanna og þar með á fjárhæðinni sem stefnda bar að greiða stefnanda.

Kröfugerð stefnanda byggist á samtölu samningsfjárhæða eins og þær voru í öllum samningunum átta sem um er deilt í málinu. Í stefnu er í engu vikið að því hvort og þá af hvaða bréfum hafi verið greiddur arður á samningstímabilinu eða eftir gjalddaga samninganna og hvort þær greiðslur hafi áhrif á kröfugerð stefnanda í málinu. Við munnlegan flutning málsins um frávísunarkröfu stefnda var því haldið fram af hálfu stefnanda að arðurinn hefði verið greiddur inn á reikning í nafni stefnda sem var handveðsettur stefnanda. Sú tilhögun er ekki í samræmi við hina framvirku samninga eða önnur gögn málsins og í engu vikið að þessu í stefnu. Af hálfu stefnda var því enn fremur mótmælt að samkomulag hafi verið milli aðila um að arði af hlutabréfunum yrði ráðstafað með þessum hætti.

Í stefnu verður samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að tilgreina málsástæður stefnanda og önnur atvik með gagnorðum hætti og svo skýrt að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Fyrirmæli g-liðar sömu greinar, sbr. 95. gr. laganna, miða enn fremur að því að tryggja að ljóst sé á frumstigi máls við hvaða gögn stefnandi hyggst styðja kröfur sínar. Þannig á stefnda að vera ljóst af lestri stefnu og fylgiganga með hvaða rökum stefnandi telur sig eiga þau réttindi sem hann krefur stefnda um og hvað sé umdeilt í málinu þannig að stefndi geti ákveðið hvort og þá á hvaða grundvelli hann grípi til varna.

Eins og fram hefur komið er í stefnunni ekki vikið að því hvaða áhrif arðgreiðslur á samningstímanum hafi á kröfugerð stefnanda. Samkvæmt samningnum áttu slíkar greiðslur að leiða til lækkunar á framvirku gengi bréfanna og má því ætla að stefnanda hafi borið að taka tillit til þeirra við framsetningu kröfugerðar sinnar í málinu, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ef stefnandi telur að samkomulag hafi verið milli aðila um að arði af bréfunum skyldi ráðstafað með öðrum hætti en kveðið er á um í samningnum hefði þurft að geta þess í stefnu samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Engu breytir í því efni þótt aðilar hafi ekki lýst gagnaöflun lokið. Í ljósi þessa annmarka á málatilbúnaði stefnanda verður fallist á kröfu stefnda um að málinu verði vísað frá dómi.

Með hliðsjón af úrslitum málsins og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Af hálfu stefnda flutti málið Halldór Þ. Birgisson hrl. Af hálfu stefnanda flutti málið Eggert Páll Ólason hdl. fyrir Sturlu Friðriksson hdl.

Úrskurðinn kveður upp Ásmundur Helgason héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Landsbanki Íslands hf., greiði stefnda, Hafliða Þórssyni 150.000 krónur í málskostnað.