Hæstiréttur íslands
Mál nr. 91/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 23. mars 2009. |
|
Nr. 91/2009. |
Jóhann Reynisson(Einar Gautur Steingrímsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Dómkvaðning matsmanna.
J gekkst undir örorkumat tveggja lækna í kjölfar umferðarslyss. Hann undi ekki matinu og fékk dómkvadda tvo matsmenn 22. febrúar 2008 til að meta tjón sitt. Með beiðni 3. desember 2008 leitaði V eftir því að dómkvaddir yrðu þrír yfirmatsmenn til að leggja mat á atriði, sem tilgreind voru í sjö liðum. Beiðni V var reist á ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991. Héraðsdómari tók beiðni V fyrir á dómþingi 9. janúar 2009 og þar kom fram að J hefði 12. desember 2008 höfðað mál á hendur V til heimtu skaðabóta vegna slyssins og hefði V fengið frest til að taka til varna með greinargerð í málinu. Matsbeiðnin sætti þó meðferð á þeim grundvelli, sem hún var borin fram. Í úrskurði héraðsdóms var fallist á beðni V um að leggja mat á nánar tiltekin atriði varðandi líkamstjón, sem J kvaðst hafa beðið af völdum umferðarslyssins. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að í XII. kafla laga nr. 91/1991 séu reglur um öflun sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað. Í 1. mgr. 77. gr. sé mælt fyrir um heimild handa aðila, sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, til að beiðast dómkvaðningar matsmanns, þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli, en það sé gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Talið var að V hefði ekki haft lögvarða hagsmuni, sem áskildir eru í greininni, af því að leitast við að hnekkja þessu sönnunargagni fyrr en sýnt yrði með málshöfðun að J byggði á því dómkröfu á hendur V. Þegar V setti fram beiðni sína hefði J ekki enn höfðað mál til heimtu skaðabóta á grundvelli matsgerðarinnar og af þeirri málsókn varð á hinn bóginn áður en beiðnin var tekin til meðferðar á dómþingi. Samkvæmt þessu var ekki talið að skilyrði 1. mgr. 77. gr. væri uppfyllt og var kröfu V því hafnað og hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2009, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að dómkvaddir yrðu menn til að leggja mat á nánar tiltekin atriði varðandi líkamstjón, sem sóknaraðili kveðst hafa beðið af völdum umferðarslyss. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til c. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess aðallega að „matsmálinu verði vísað frá héraðsdómi“, til vara að „öllum kröfum varnaraðila verði hafnað“, en að því frágengnu að lagt verði fyrir héraðsdóm að dómkveðja þrjá menn sem yfirmatsmenn til að svara sömu spurningum og lagðar voru fyrir matsmenn, sem sóknaraðili fékk dómkvadda 22. febrúar 2008. Til ítrustu vara krefst hann þess að dómkvaddir verði yfirmatsmenn til að leggja mat á þau atriði, sem greinir í 3., 4., 6. og 7. lið í matsbeiðni varnaraðila. Sóknaraðili krefst í öllum tilvikum málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins varð sóknaraðili fyrir slysi 26. september 2005 þegar hann ók eftir Suðurlandsvegi og missti stjórn á bifreið sinni. Bifreiðin hafnaði utan vegar og mun sóknaraðili hafa verið færður til aðhlynningar á sjúkrahús, þar sem talið var að hann hefði orðið fyrir tognun í hálsi. Í framhaldi af því mun sóknaraðili hafa farið að finna til verkja og annarra einkenna í baki, herðum og öxlum, sem ekki hafi fengist bót á. Fyrir liggur í málinu að sóknaraðili hafði verið óvinnufær um eins árs skeið þegar hann varð fyrir þessu slysi vegna meinsemda í hægri öxl, sem reynt hafi verið að komast fyrir með þremur aðgerðum á tímabilinu frá febrúar 2004 til sama mánaðar ári síðar.
Fram er komið að sóknaraðili gekkst undir örorkumat tveggja lækna, sem lokið var 17. september 2007. Þar varð niðurstaðan sú að slysið 26. september 2005 hafi ekki valdið sóknaraðila tímabundnu atvinnutjóni, tímabil þjáningabóta hafi staðið frá slysdegi þar til heilsufar hans hafi orðið stöðugt að liðnum þremur mánuðum, varanlegur miski vegna slyssins hafi verið 10% og varanleg örorka sú sama. Þessu mati undi sóknaraðili ekki og fékk hann eins og áður var getið dómkvadda tvo matsmenn 22. febrúar 2008. Þar leitaði sóknaraðili í fyrsta lagi álits matsmanna á því hverjar líklegar atvinnutekjur hans og atvinnuþátttaka hefði orðið ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu 26. september 2005, í öðru lagi hvernig háttað væri sömu atriðum með tilliti til þess að hann hafi orðið fyrir þessu slysi og í þriðja lagi hvert væri tímabil tímabundins atvinnutjóns hans vegna slyssins, hvenær heilsufar hans hafi orðið stöðugt og hver varanlegur miski hans og örorka væri af þessum sökum. Í ljósi ágreiningsefna í máli þessu er ástæðulaust að rekja niðurstöður matsmanna um fyrstu matsatriðin tvö, en í matsgerð þeirra 19. september 2008 var sóknaraðili talinn hafa tímabundið verið ófær til vinnu vegna slyssins frá 1. janúar til 25. mars 2006, heilsufar hans hafi orðið stöðugt síðastnefndan dag, en varanlegur miski af völdum slyssins væri 20% og varanleg örorka 40%.
Með beiðni 3. desember 2008 til Héraðsdóms Reykjavíkur leitaði varnaraðili eftir því að dómkvaddir yrðu þrír yfirmatsmenn til að leggja mat á atriði, sem tilgreind voru í sjö liðum. Í fyrsta liðnum óskaði varnaraðili eftir því að metið yrði hvort þau líkamseinkenni, sem sóknaraðili ætti við að etja, yrðu rakin til umferðarslyssins 26. september 2005, í öðru lagi hvenær tímabært hafi verið að meta afleiðingar þess slyss, í þriðja lagi hvenær heilsufar hans hafi orðið stöðugt vegna atriða, sem rekja mætti til slyssins, og í fjórða lagi hvort hann hafi orðið óvinnufær vegna þess og þá hversu lengi. Með fimmta liðnum leitaði varnaraðili mats á tímabili þjáninga af völdum slyssins, en í sjötta og sjöunda liðnum hvort sóknaraðili hafi hlotið varanlegan miska og varanlega örorku af slysinu og þá hversu mikla. Þessi beiðni varnaraðila var reist á ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991 og tók héraðsdómari hana fyrir á dómþingi 9. janúar 2009. Þar kom fram að sóknaraðili hafi 12. desember 2008 höfðað mál á hendur varnaraðila til heimtu skaðabóta vegna slyssins, sem hafi verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 18. sama mánaðar, og hafi varnaraðili fengið frest til að taka til varna með greinargerð í málinu. Matsbeiðnin sætti allt að einu meðferð á þeim grundvelli, sem hún var borin fram, og andmælti sóknaraðili að hún næði fram að ganga. Við meðferð þessa ágreinings breytti varnaraðili beiðni sinni í það horf að hann krefðist aðallega dómkvaðningar þriggja yfirmatsmanna til að láta í té svör um önnur áðurnefnd atriði en þau, sem annar og fimmti liður beiðninnar sneru að, en til vara að dómkvaddir yrðu tveir menn til að leggja mat á öll atriði samkvæmt beiðninni. Með hinum kærða úrskurði var þessi varakrafa varnaraðila tekin til greina og unir hann við þá niðurstöðu.
II
Að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar í hliðstæðum málum verður að líta svo á að kæruheimild sé hér fyrir hendi samkvæmt c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 og verður því aðalkröfu varnaraðila hafnað.
Í XII. kafla laga nr. 91/1991 eru reglur um öflun sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál hafi verið höfðað. Í upphafsákvæði þessa kafla laganna, 1. mgr. 77. gr. þeirra, er mælt fyrir um heimild handa aðila, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, til að beiðast dómkvaðningar matsmanns, þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli, ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni. Bersýnilegt er að þessi sérstaka heimild til að leita matsgerðar dómkvaddra manna hlýtur að vera bundin við þann, sem hefur í hyggju að höfða mál um kröfu, sem staðreyna þarf eða renna stoðum undir með slíku sönnunargagni. Þessarar heimildar neytti sóknaraðili þegar hann fékk dómkvadda matsmenn 22. febrúar 2008. Varnaraðili gat á hinn bóginn ekki haft lögvarða hagsmuni, sem áskildir eru í 1. mgr. 77. gr. laganna, af því að leitast við að hnekkja þessu sönnunargagni fyrr en sýnt yrði með málshöfðun að sóknaraðili byggði á því dómkröfu á hendur varnaraðila. Þegar varnaraðili setti fram beiðni sína, sem ágreiningur stendur hér um, hafði sóknaraðili ekki enn höfðað mál til heimtu skaðabóta á grundvelli matsgerðarinnar. Af þeirri málsókn varð á hinn bóginn áður en beiðnin var tekin til meðferðar á dómþingi, en allt að einu hélt varnaraðili til streitu að hún ætti stoð í ákvæðum XII. kafla laga nr. 91/1991, þótt honum væri í lófa lagið að hverfa frá því. Að þessu virtu og með því að ekki voru uppfyllt skilyrði 1. mgr. 77. gr. laganna til að verða við kröfu varnaraðila verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Varnaraðili, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði sóknaraðila, Jóhanni Reynissyni, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2009.
Með yfirmatsbeiðni móttekinni 5. desember sl. var þess farið á leit fyrir hönd matsbeiðanda, Vátryggingafélags Íslands hf., með vísan til 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, að dómkvaddir verði þrír sérfróðir og óvilhallir matsmenn, tveir læknar og einn lögfræðingur, til þess að meta hvort og þá að hvaða marki matsþoli, Jóhann Reynisson kt. 181065-7889, hafi orðið fyrir líkamstjóni sem rekja megi til umferðarslyss sem hann varð fyrir þann 26. september 2005.
.Við fyrirtöku málsins 9. janúar sl. var því mótmælt af hálfu matsþola að dómkvaðning næði fram að ganga þar sem matsspurningar í yfirmatsbeiðni væru ekki þær sömu og í undirmatsbeiðni. Málið var tekið til úrskurðar sama dag að afloknum málflutningi.
I
Með beiðni dagsettri 16. janúar 2008 krafðist Jóhann Reynisson, matsþoli þessa máls en þá matsbeiðandi, þess að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta afleiðingar umferðarslyss sem hann varð fyrir þann 26. september 2005. Á dómþingi 22. febrúar 2008 voru Kristinn Tómasson geðlæknir og Stefán Yngvason endurhæfingarlæknir dómkvaddir og þann 19. september sl. lá matsgerð þeirra fyrir.
Þær spurningar sem lagt var fyrir matsmenn að svara voru svohljóðandi:
„Þess er óskað að eftirfarandi verði metið skv. skaðabótalögum nr. 50/1993:
1. Líklegar atvinnutekjur og atvinnuþátttaka matsbeiðanda miðað við að slysið þ. 26.9.2005 hefði ekki átt sér stað.
2. Líklegar atvinnutekjur og atvinnuþátttaka matsbeiðanda miðað við núverandi aðstæður.
3. Tímabundin örorka matsbeiðanda vegna slyssins þ. 26.9.2005, stöðugleikapunktur, varanlegur miski og varanleg örorka.“
Þær spurningar sem yfirmatsbeiðandi hefur sett fram í yfirmatsbeiðni, 3. desember 2008, og yfirmatsþoli hefur mótmælt eru svohljóðandi:
„Nánar tiltekið er óskað eftir mati á eftirfarandi atriðum:
1. Óskað er eftir því að mat verði lagt á hvort þau líkamseinkenni, sem hrjá matsþola í dag skv. læknisfræðilegum gögnum séu sannanlega að rekja til umferðarslyssins þann 26. september 2005?
2. Hvenær var fyrst tímabært að meta afleiðingar umferðarslyssins þann 26. september 2005?
3. Hvenær var heilsufar matsþola orðið stöðugt vegna afleiðinga umferðarslyssins þann 26. september 2005, skv. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
4. Hvort matsþoli hafi verið óvinnufær vegna afleiðinga umferðarslyssins þann 26. september 2005, skv. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá hversu lengi?
5. Hvert var þjáningatímabil matsþola vegna afleiðinga umferðarslyssins þann 26. september 2005, skv. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?
6. Hvort matsþoli hafi orðið fyrir varanlegum miska vegna umferðarslyssins þann 26. september 2005, skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá hversu miklum?
7. Hvort umferðarslysið þann 26. september 2005 hafi orsakað varanlega örorku hjá matsþola skv. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þá hversu mikil sú örorka verður metin með tilliti til þeirra sjónarmiða sem ákvæðið byggir á?“
II.
Yfirmatsbeiðandi gerir aðallega þá kröfu að dómkvaddir verði þrír matsmenn í samræmi við yfirmatsbeiðni að því undanskildu að 2. og 5. spurning yfirmatsbeiðninnar verði felldar út.
Til vara krefst yfirmatsbeiðandi þess að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að vinna mat samkvæmt fyrirliggjandi matsbeiðni að 2. og 5. spurningu meðtalinni og að það mat yrði unnið skv. 61.-63. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Yfirmatsbeiðandi telur að þrátt fyrir að matsspurningar í yfirmatsbeiðni séu ekki eins orðaðar og í undirmatsbeiðni sé hann að biðja um yfirmat á þeim atriðum sem áður hafi verið metin sbr. skýrt orðalag 64 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvæðinu sé ekki gerð krafa um það að matsspurningar séu nákvæmlega þær sömu í beiðni um yfirmat og beiðni um undirmat heldur sé þar áskilið að þau atriði sem yfirmats sé krafist á hafi áður verið metin.
Séu spurningar í yfirmatsbeiðni og undirmatsbeiðni bornar saman megi sjá að í yfirmatsbeiðni sé einungis beðið um yfirmat á atriðum sem áður hafi verið metin. Þannig megi sjá að úrlausn á 1. og 2. spurningu undirmatsbeiðni feli í sér mat á sömu atriðum og óskað er mats á í 1. spurningu undirmatsbeiðni. Þetta komi fram í niðurstöðu matsmanna.
Í 3. spurningu yfirmatsbeiðni og 3. spurningu undirmatsbeiðni sé spurt um stöðugleikapunkt. Spurt sé um tímabundna örorku í 4. spurningu yfirmatsbeiðni og 3. spurningu undirmatsbeiðni. Spurt sé um varanlegan miska í 6. spurningu yfirmatsbeiðni og 3. spurningu undirmatsbeiðni. Spurt sé um varanlega örorku í 7. spurningu yfirmatsbeiðni og 3. spurningu undirmatsbeiðni. Öllum þessum atriðum sé svarað í undirmatsgerð og því uppfylli þessar spurningar þau skilyrði 64. gr. laga 91/1991 að óskað sé mats á atriðum sem áður hafi verið metin.
Verði fallist á dómkvaðningu þriggja yfirmatsmanna þá fellur yfirmatsbeiðandi frá 2. og 5. spurningu yfirmatsbeiðni.
Að mati yfirmatsbeiðanda skiptir orðalag þeirra spurninga sem lagt er fyrir matsmenn að svara máli enda sé ástæða þess að undirmatið sé gallað og ekki sé unnt að una niðurstöðu þess sú að gefið sé í skyn í spurningum í matsbeiðni dags. 16. janúar að ýmis atriði sem í raun þurfi að leggja mat á séu staðreyndir. Til dæmis sé ekki spurt að því hvort matsþoli hafi orðið fyrir varanlegri örorku heldur einungis hver sú örorka hafi verið. Í mati á því hver varanleg örorka sé felist vissulega hvort hún sé yfirleitt til staðar. Hinsvegar séu orsakatengslin gefin til kynna með orðalagi spurningar matsbeiðanda undirmats.
Verði ekki fallist á að dómkveðja þrjá matsmenn vegna yfirmats þá krefst yfirmatsbeiðandi þess að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að vinna matsgerð samkvæmt 61.-63. gr. laga nr. 91/1991 á grundvelli fyrirliggjandi matsbeiðni. Í því tilviki er ekki fallið frá 2. og 5. spurningu í yfirmatsbeiðni
III
Yfirmatsþoli gerir þær kröfur aðallega að synjað verði beiðni yfirmatsbeiðanda en til vara að úrskurðað verði að yfirmat skuli fara fram samkvæmt þeim spurningum sem settar voru fram í undirmatsbeiðni dags. 16. janúar 2008 og lagt var fyrir undirmatsmenn að svara með dómkvaðningu þeirra þann 22. febrúar 2008. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar fyrir þennan þátt málsins.
Yfirmatsþoli byggir aðallega á því að taka eigi afstöðu til framkominnar yfirmatsbeiðni við meðferð þess einkamáls sem hann hefur höfðað gegn yfirmatsbeiðanda. Þrátt fyrir að yfirmatsbeiðnin hafi réttilega verið lögð fram í dómi áður en málinu var stefnt inn eigi í einkamálinu að taka afstöðu til þess hvort sömu spurningar séu settar fram í undirmats- og yfirmatsbeiðni og hvort óskað sé mats á sömu matsatriðum.
Togstreita sé milli þessa sjónarmiðs og þess að unnt sé að ónýta yfirmatsbeiðni fyrir yfirmatsbeiðanda með því að stefna inn einkamáli eftir að yfirmatsbeiðni hafi verið lögð fram. Þar sem að það sé undantekning að matsmál sé rekið án þess að það sé hluti af einkamáli þá vegi fyrra sjónarmiðið þyngra.
Yfirmatsþoli byggir ennfremur á því að grundvelli matsins verði ekki breytt með umorðun í yfirmatsbeiðni. Málsgrunnurinn hafi verið markaður með res judicata-úrskurði í undirmati af sama dómstól. Þeim grundvelli verið ekki haggað í þessu yfirmatsmáli. Óánægja með matsspurningar í undirmati og þeirri staðhæfingu að þær séu gildishlaðnar verði ekki breytt með yfirmatsbeiðni.
Telji yfirmatsbeiðandi sig vera að biðja um mat á því sama og metið var í undirmati þá hafi ekki verið þörf á að breyta orðalagi spurninganna frá því sem var í undirmatsbeiðni. Þar að auki eigi dómari að leysa úr ágreiningi um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, svo sem hvort það hafi verið metið sem skyldi meta samkvæmt dómkvaðningu eða hvort matsgerð sé nægilega rökstudd, ef ágreiningur rís um kröfu um endurskoðun hennar eða endurmat samkvæmt 66. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Yfirmatsbeiðni var móttekin í héraðsdómi 5. desember 2008 en þann 18. desember sama ár þingfesti matsþoli, Jóhann Reynisson, einkamál gegn yfirmatsbeiðanda. Þrátt fyrir að einkamál milli málsaðila hafi nú verið höfðað er yfirmatsbeiðnin réttilega sett fram á grundvelli 77. gr. laga um meðferð einkamála um öflun matsgerðar án þess að mál hafi verið höfðað.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 á aðili rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem hann telur málstað sínum til framdráttar. Því verður ekki fallist á aðalkröfu yfirmatsþola að hafna dómkvaðningu matsmanna.
Þær spurningar sem settar eru fram í yfirmatsbeiðni taka að nokkru til atriða sem ekki var lagt mat á í undirmati. Jafnframt er orðalag þeirra annað en orðalag spurninga í undirmatsbeiðni. Þykir því rétt að hafna aðalkröfu yfirmatsbeiðanda um dómkvaðningu yfirmatsmanna.
Þrátt fyrir að orðalag spurninga í yfirmatsbeiðni sé annað en spurninga í undirmatsbeiðni er því ekki að neita að þær snúa að nokkru að mati á sömu atriðum og fjallað er um í matsgerð frá 19. september 2008. Þegar litið er til þess að í lögum nr. 91/1991 eru ekki lagðar sérstakar hömlur við því að dómkvaddur verði maður til að meta atriði, sem matsgerðar hefur þegar verið aflað um né heldur því að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar, sem taki að einhverju leyti til annarra atriða en sú fyrri eða sé ætlað að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefni en áður hafi fengist verður fallist á varakröfu yfirmatsbeiðanda að dómkvaddir verði tveir matsmenn til að leggja mat á þau atriði sem spurt er um í matsbeiðni dags. 3. desember 2008 og að það mat verði unnið samkvæmt 61.-63. gr. laga nr. 91/1991.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
Dómkveðja skal tvo matsmenn til að meta þau atriði sem greinir í matsbeiðni Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 3. desember 2008, skv. 61.-63. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.