Hæstiréttur íslands

Mál nr. 192/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Miðvikudaginn 11

 

Miðvikudaginn 11. maí 2005.

Nr.192/2005.

Íslenska ríkið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Friðbjörn Garðarsson hdl.)

 

Kærumál. Framsal sakamanns.

Þýsk yfirvöld kröfðust þess að íslenska ríkið framseldi X, sem var grunaður um stórfelld brot á þýskum lögum um ávana- og fíkniefni. Að virtum öllum gögnum málsins var talið fullnægt skilyrðum laga nr. 13/1984 fyrir framsali X.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2005, þar sem ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja varnaraðila til Þýskalands var staðfest. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti ákveðst svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2005.

I

Mál þetta var tekið til úrskurðar 4. maí 2005.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 27. apríl 2005 til Ríkissaksóknara tilkynnti ráðuneytið að fallist hafi verið á beiðni þýskra dómsmálayfirvalda um að framselja sóknaraðila, X til Þýskalands.  Var þeirri niðurstöðu ráðuneytisins komið á framfæri við sóknaraðila þann 28. apríl 2005 og krafðist hann þess að málið yrði borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur.  Ríkissaksóknari kom þeirri kröfu á framfæri við dóminn 2. maí 2005. 

Sóknaraðili hefur frá 10. mars 2005 sætt farbanni og var síðasti úrskurður þess efnis kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. apríl sl. um að sóknaraðili skyldi sæta farbanni til 18. maí n.k. kl. 16,00 og með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 25. apríl sl. var sá úrskurður staðfestur.

Dómkröfur sóknaraðila eru að fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 27. apríl 2005 verði felld úr gildi.  Þá er krafist málsvarnarlauna úr hendi ríkissjóðs.

Dómkröfur varnaraðila eru þær að staðfest verði fyrrgreind ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 27. apríl 2005.

II

Í bréfi Ríkissaksóknara til Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2005 kemur fram að þann 29. mars 2005 hafi dómsmálaráðuneytinu borist beiðni þýskra dómsmálayfirvalda um framsal sóknaraðila.  Hafi sóknaraðili verið handtekinn við komu til landsins með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar 7. mars 2005 þar sem nafn hans hafi komið fyrir í Schengen-upplýsingakerfinu á skrá yfir eftirlýsta menn.  Hafi sóknaraðili verið úrskurðaður í farbann daginn eftir í Héraðsdómi Austurlands og eins og rakið hefur verið hefur hann sætt farbanni síðan.

Þá er rakið í bréfi Ríkissaksóknara að af framsalsbeiðninni og gögnum sem henni hafi fylgt verði ráðið að sóknaraðila sé gefið að sök stórfellt brot á lögum um ávana- og fíkniefni samkvæmt 1. mgr. 30. gr. a þýskra laga um ávana- og fíkniefni, með því að hafa hinn 9. febrúar 2003, í félagi við nafngreinda menn, flutt um það bil 4 kg af amfetamíni í bifreið sem hann ók frá Litháen til Muggensturm í Þýskalandi.

Háttsemin sem um ræði myndi varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ríkissaksóknara hafi borist framsalsbeiðnin til meðferðar 29. mars 2005 sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um framsal sakamanna o.fl. nr. 13/1984.

Að beiðni ríkissaksóknara hafi lögreglan í Reykjavík kynnt sóknaraðila framsalskröfuna og hafi hann mótmælt kröfunni.

Eftir að hafa yfirfarið framsalsgögnin hafi ríkissaksóknari endursent gögnin ráðuneytinu með þeirri umsögn að ekki yrði annað séð en að uppfyllt væru skilyrði framsals samkvæmt lögum nr. 13/1984 og hafi sérstaklega verið vísað til skilyrða samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins til ríkissaksóknara  27. apríl 2005 hafi komið fram að ráðuneytið hafi ákveðið að verða við beiðni þýskra dómsmálayfirvalda um framsal.  Hafi sóknaraðila verið kynnt ákvörðun ráðuneytisins og hann óskað eftir því að leitað yrði úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi auk þess sem hann hafi óskað þess að honum skipaður verjandi vegna málsins.

III

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um framsal hans verði felld úr gildi.  Þá er krafist málsvarnarlauna verjanda úr hendi ríkissjóðs.

Af hálfu sóknaraðila var ekki lögð fram skrifleg greinargerð heldur gerð grein fyrir kröfum hans og málsástæðum munnlega. 

Sóknaraðili kveðst saklaus af þeim sakargiftum sem á hann séu bornar.  Hann kveðst kannast við að hafa verið í Þýskalandi á þeim tíma sem hér um ræðir og dvalið þar í vikutíma. Tilgangur ferðarinnar hafi verið að kaupa bifreið til að selja í Litháen. Í þessari ferð hafi hann búið í tvær nætur hjá manni að nafni R.  Þar hafi einnig búið vinur R, L.  Hafi L beðið sóknaraðila að taka fyrir sig 1000 evrur og koma þeim fjármunum til eiginkonu hans.

Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal eigi að koma í veg fyrir að hann verði framseldur þar sem gögn málsins styðji ekki að sóknaraðili sé undir rökstuddum grun um refsiverða háttsemi.  Bendi hann sérstaklega á framburð L þar sem haft sé eftir honum að hann gerði ráð fyrir því að sóknaraðili hafi verið notaður sem burðardýr fyrir fíkniefni og að hann hefði farið áður í slíkar ferðir til Þýskalands eftir því sem hann best vissi.  Þá sé í handtökuskipun slegið föstu að sóknaraðili hafi framið refsiverðan verknað.

Að mati sóknaraðila hefði frekar átt að tilkynna hið meinta brot til lögreglu í Litháen þar sem hið meinta brot hafi verið framið.

Af hálfu varnaraðila var ekki lögð fram skrifleg greinargerð heldur vísað bréfs Ríkissaksóknara til dómsins 2. maí 2005 og bréf Ríkissaksóknara til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 26. apríl 2005.

Varnaraðili vísar til þess að hinn meinti refsiverði verknaður sóknaraðila myndi varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Sóknaraðili sé erlendur ríkisborgari og hafi verið gefin út handtökuskipun á hann vegna hins meinta brots.  Þá staðfesti fyrirliggjandi gögn málsins að sóknaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið umrætt brot.  Sé því fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984.

IV

Í handtökuskipun Héraðsdóms Baden-Baden 16. apríl 2003 og framsalsbeiðni dómsmálaráðuneytis sambandslandsins Baden-Württemberg 29. mars 2005 kemur fram að sóknaraðili er grunaður um refsiverðan verknað og hefur verið tekin ákvörðun um handtöku hans. 

Í 1. gr. laga nr. 13/1984 segir að þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum.  Í 2. gr. segir að ekki megi framselja íslenska ríkisborgara.  1. mgr. 3. gr. laganna segir að framsal á manni sé aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum.  Í 2. mgr. segir að framsal til meðferðar máls sé einungis heimilt ef tekin hafi verið ákvörðun í erlenda ríkinu um að sá sem óskað sé framsals á skuli handtekinn eða fangelsaður fyrir viðkomandi verknað.

Brot það sem sóknaraðili er grunaður um að hafa framið er stórfellt brot á þýskum lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa í félagi við nafngreinda menn hinn 9. febrúar 2003 flutt um það bil 4 kg af amfetamíni í bifreið sem sóknaraðili ók frá Litháen til Muggensturm í Þýskalandi.  Sú háttsemi sem honum er þannig gefin að sök myndi varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að 12 ára fangelsi.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið eru uppfyllt skilyrði 1. gr. og 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal.  Þá er ljóst að sök er ekki fyrnd á hendur honum, sbr. 9. gr. laganna.

Í 5. mgr. 3. gr. laganna segir að ef rökstudd ástæða sé til að ætla að grunur um refsiverða háttsemi eða niðurstaða dóms, sem óskað er framsals vegna, þyki eigi fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, um refsiverða háttsemi, eða um lögfulla sönnun sakar í refsimálum sé framsal óheimilt.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að rökstudd ástæða sé til þess að ætla að grunur um refsiverða háttsemi sóknaraðila, sem staðfestur er í handtökuskipun héraðsdómara í Baden-Baden, fullnægi ekki grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun um refsiverða háttsemi sem leiði til þess að framsal sé óheimilt.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður krafa sóknaraðila um að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um framsal hans verði felld úr gildi, ekki tekin til greina.  Verður því tekin til greina krafa varnaraðila um staðfestingu ákvörðunarinnar.

Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila úr ríkissjóði og þykir hún hæfilega ákveðin 140.000 krónur.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 27. apríl 2005, um að framselja sóknaraðila, X, til Þýskalands, er staðfest. 

Þóknun verjanda sóknaraðila, Friðbjörns Garðarssonar hdl., 140.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.