Hæstiréttur íslands

Mál nr. 610/2011


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Hótanir
  • Ávana- og fíkniefni
  • Umferðarlagabrot
  • Skilorð


Fimmtudaginn 4. október 2012.

Nr. 610/2011.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Atla Má Geirssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Þjófnaður. Hótanir. Ávana- og fíkniefni. Umferðarlagabrot. Skilorð.

A var sakfelldur fyrir þjófnað og hótunarbrot, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Í málinu lá fyrir játning A vegna allra brotanna utan þess að hann neitaði að hafa haft í hótunum við B eins og honum var gefið að sök í ákæru. Í héraðsdómi var með vísan til framburðar vitna talið sannað að A hefði haft uppi orð um líflát og líkamsmeiðingar gagnvart B sem voru til þess fallin að vekja ótta hans um líf sitt og velferð. Staðfesti Hæstiréttur hinn áfrýjaða dóm með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. nóvember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði krefst sýknu af sakargiftum um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 samkvæmt I. kafla ákæru, en að öðru leyti að refsing verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Atli Már Geirsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 263.363 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2011.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 28. október 2011, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 13. september 2011 á hendur Atla Má Geirssyni, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2010 og 2011:

I.

Fyrir þjófnað og hótunarbrot, með því að hafa, þriðjudaginn 6. júlí 2010, í versluninni C í [...] í [...] stolið Diesel herrailmi að verðmæti 6.099 krónur, en ákærði var stöðvaður fyrir utan verslunina af öryggisverði, og í kjölfarið haft uppi hótanir um líflát og limlestingar við öryggisvörðinn B, kt. [...] og var þetta til þess fallið að vekja ótta hjá B um líf sitt og velferð.

Telst þetta varða við 244. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 2. júní 2011 ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna henni örugglega (amfetamín og tetrahýdrókannabínól í þvagi), vestur Eiðsgranda við Rekagranda í Reykjavík, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

III.

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, föstudaginn 26. nóvember 2010, að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 3,99 g af tóbaksblönduðu kannabis, sem fannst eftir leit lögreglu.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist að 3,99 g af tóbaksblönduðu kannabis verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Þá er krafist sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. 

Af hálfu C., kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð 6.099 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi 6. júlí 2010 en eftir það dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa. 

Ákæruliður I.

Miðvikudaginn 6. júlí 2010 var lögregla kvödd að versluninni C í [...] vegna þjófnaðarmáls. Er lögreglumenn komu á vettvang höfðu öryggisverðir mann í föstum tökum framan við afgreiðslukassa og reyndist þar vera um ákærða að ræða. Við leit á ákærða fannst glas með herrailmi, sem öryggisverðirnir kváðust hafa séð hann stinga í vasa sinn í versluninni. Hefðu þeir stöðvað för ákærða þegar hann gekk út úr versluninni. Ákærði hefði þá veitt mótspyrnu og hefði félagi hans, sem var með honum, reynt að frelsa hann úr greipum öryggisvarðanna. Hefðu orðið nokkur átök á milli öryggisvarðanna og mannanna tveggja og kvaðst annar öryggisvörðurinn, B, vilja leggja fram kæru vegna líkamsárásar, auk þess sem ákærði hefði hótað sér lífláti og limlestingum. Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöð, en hann kvaðst ekki vilja tjá sig um málið. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 22. sama mánaðar kvaðst ákærði hafa verið ósáttur við afskipti öryggisvarðanna í umrætt sinn og hefði hann verið með „einhvern kjaft“ við þá. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa viðhaft hótanir, en ef hann hefði sagt eitthvað sem hann myndi ekki eftir hefði það verið marklaust blaður. Hinn 28. sama mánaðar mætti B hjá lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna hótana í sinn garð. Í skýrslunni er eftirfarandi bókað eftir B: „(…) þá sagði þessi aðili m.a. við mig að hann myndi drepa mig, að ég ætti eftir að sjá eftir þessu, að hann ætlaði að stúta mér ef ég sleppti honum ekki.“

Við þingfestingu málsins játaði ákærði þjófnaðarbrot samkvæmt ákæru, en neitaði að hafa haft í hótunum við B, eins og honum er þar gefið að sök. Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið að ganga út úr versluninni í umrætt sinn, þegar öryggisverðir hefðu stöðvað för hans og beðið um að fá að líta í vasa hans. Hann hefði neitað því og lagt á flótta, en þeir náð honum og haldið honum niðri. Ákærði kvaðst hafa beðið þá um að sleppa sér. Hins vegar kannaðist hann ekki við að hafa verið með „einhvern kjaft“ við öryggisverðina eða að hafa ógnað þeim á nokkurn hátt. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa haft á orði að „stúta“ eða „ætla að drepa“ einhvern.

Vitnið B kvaðst hafa verið við vinnu sína sem öryggisvörður í versluninni þegar hann hefði séð til tveggja manna í snyrtivörudeildinni og stakk annar á sig vöru, losaði sig við umbúðir utan af henni og gekk út úr versluninni án þess að greiða fyrir. B kvaðst hafa ávarpað manninn þegar hann kom út úr versluninni og beðið hann að stöðva, en hann hefði ekki virt sig viðlits. Hann hefði svo ekki vitað fyrr en maðurinn setti undir sig höfuðið og rauk í hann. Hann hefði þó náð að halda manninum uns lögregla kom á vettvang. Meðan á því stóð hefði maðurinn hótað honum lífláti og líkamsmeiðingum. Ekki kvaðst vitnið muna nákvæmlega hvaða orð hann viðhafði, en það hefði verið eitthvað á borð við „þið eigið eftir að sjá eftir þessu“ og „ég drep ykkur“. Vitnið kvaðst hafa tekið þetta til sín þar sem hann lá ofan á manninum og hefði hann tekið þessar hótanir alvarlega þar sem maðurinn var í annarlegu ástandi. Honum hefði ekki staðið á sama þar sem maðurinn virtist vera í neyslu og dæmi væru um að setið hefði verið fyrir öryggisvörðum fyrir utan verslanir og þeir leiknir illa. Vitnið kvaðst hafa skrifað á minnismiða þau orð sem maðurinn viðhafði í umrætt sinn og haft miðann með sér í skýrslutöku hjá lögreglu. Það sem haft væri eftir honum í skýrslu lögreglu væru þau orð sem maðurinn hefði notað.

Vitnið D kvaðst hafa verið við vinnu sína sem öryggisvörður ásamt B. Hefði hann verið að fylgjast með öryggismyndavélum og séð ákærða stinga flösku með herrailmi í buxnavasa sinn. Hann hefði losað sig við umbúðir utan af vörunni annars staðar í versluninni. D kvaðst hafa hringt í B og hefðu þeir stöðvað ákærða og félaga hans við afgreiðslukassa. Ákærði hefði ekki brugðist vel við ósk þeirra um að koma með þeim. Hefði komið til stympinga milli B og ákærða, og þeir endað í gólfinu. D kvaðst þá hafa hringt til lögreglu. Meðan á þessu stóð hefði ákærði sagt við þá að þeir myndu sjá eftir þessu og hann myndi koma aftur. Hefði ákærði haft á orði að hann ætlaði að berja þá. Vitnið kvað ákærða fremur hafa beint þessum orðum til B en sín. Hann sagði að sér hefði verið brugðið við þetta, enda hefði hann starfað í versluninni sem sumarafleysingamaður og ekki verið vanur slíku. Hann kvaðst ekki muna orðaskipti nákvæmlega þar sem nokkuð væri liðið frá atvikinu, en taldi rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu þar sem eftirfarandi var bókað eftir honum: „Á meðan þeir lágu í jörðinni heyrði ég hvar þessi aðili hótaði B með því að ætla að drepa hann þegar hann slyppi, hann sagðist einnig ætla að stúta B og að B ætti eftir að sjá eftir þessu.“

Þá komu lögreglumennirnir Einar Guðmundur Guðjónsson og Sveinbjörn Ólafur Ragnarsson fyrir dóminn sem vitni og gerðu grein fyrir aðkomu sinni að málinu.

Niðurstaða.

Ákærði viðurkennir þjófnaðarbrot samkvæmt ákæru, en neitar að hafa hótað B eins og honum er gefið að sök. Við yfirheyrslu hjá lögreglu var haft eftir ákærða að hann kannaðist við að hafa verið með „einhvern kjaft“, en ekki að hafa viðhaft hótanir. Hann kvaðst hins vegar ekkert kannast við þetta fyrir dóminum. Vitnin B og D hafa lýst með áþekkum hætti ummælum sem ákærði viðhafði í umrætt sinn, þó að hvorugur þeirra hafi treyst sér til að hafa orðrétt eftir ákærða, enda nokkuð liðið frá atvikinu. Ber vitnunum saman um að í orðum ákærða hafi falist hótanir um líkamsmeiðingar og líflát og að hann hafi einkum beint orðum sínum að B. Báru vitnin einnig að þeim hefði verið brugðið við þetta, og kvaðst B hafa óttast að ákærði myndi koma aftur og láta verða af því sem hann hefði lýst yfir. Með vísan til framangreinds þykir, gegn neitun ákærða, sannað að ákærði hafi haft uppi orð um líflát og líkamsmeiðingar gagnvart B og var háttsemi hans til þess fallin að vekja ótta hjá B um líf sitt og velferð. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið og telst háttsemi hans varða við 244. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliðir II og III.

Ákærði hefur skýlaust játað brot sín samkvæmt þessum ákæruliðum. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

Viðurlög, sakarkostnaður og skaðabætur.

Ákærði er fæddur í [...] 1991. Hann var dæmdur 21. mars 2011 til greiðslu sektar fyrir brot gegn 1. mgr. 37. gr., 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Refsing ákærða verður ákveðin eftir reglum 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár.

Skaðabótakrafa C hf. fullnægir ekki skilyrðum 173. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og verður henni því vísað frá dómi.

Upptæk eru gerð 3,99 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, samkvæmt lagaákvæðum sem í ákæru greinir.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 112.950 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Ákærði greiði 113.510 í annan sakarkostnað.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Atli Már Geirsson, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 2 ár.

Skaðabótakröfu C hf., kt. [...], er vísað frá dómi.

Upptæk eru gerð 3,99 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 112.950 krónur. Ákærði greiði 113.510 krónur í annan sakarkostnað.