Hæstiréttur íslands

Mál nr. 301/2004


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Verðtrygging


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. janúar 2005.

Nr. 301/2004.

Ris ehf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Funa ehf.

(Halldór H. Backman hrl.)

 

Verksamningur. Verðtrygging.

Verktakinn F ehf. gerði verktakanum R ehf. tilboð í aprílmánuði 2001 í vinnu við loftræstikerfi vegna framkvæmda hins síðarnefnda við húsnæði S hf. Í útboðsgögnum R ehf. var tekið fram að tilboð skyldi miða við byggingarvísitölu í marsmánuði 2001. R ehf. samþykkti tilboð F ehf. sem vann að verkinu og gerði R ehf. reikninga vegna þess á tímabilinu frá apríl til júlí 2002. Talið var að R ehf. hafi hlotið að vera það ljóst á hvaða gögnum F ehf. byggði tilboð sitt. Hafi R ehf. verið skylt að ganga úr skugga um hvort F ehf. mætti ganga út frá því sem vísu að hann ætti rétt á verðbótum í samræmi við ákvæði þeirra. Var því fallist á R ehf. bæri að greiða F ehf. verðbætur af fjárhæðum framangreindra reikninga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júlí 2004. Hann krefst þess að sér verði aðeins gert að greiða stefnda 256.978 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. desember 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ris ehf., greiði stefnda, Funa ehf., 270.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. apríl 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. f.m., er höfðað 2. desember 2003.

Stefnandi er Funi ehf. Dalvegi 28, Kópavogi.         

Stefndi er Ris ehf., Skeiðarási 12, Garðabæ.

Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 4.930.704,00, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt vaxtalögum nr. 38/2001 af kr. 71.465,00 frá 22.05.2002 til 21.06.2002, af kr. 97.734,00 frá 21.06.2002 til 27.06.2002, af kr. 436.334,00 frá 27.06.2002 til 30.06.2002, af kr. 463.498,00 frá 30.06.2002 til 12.07.2002, af kr. 1.755.958,00 frá 12.07.2002 til 19.07.2002, af kr. 1.898.801,00 frá 19.07.2002 til 20.07.2002, af kr. 2.085.187,00 frá 20.07.2002 til 27.07.2002, af kr. 2.285.187,00 frá 27.07.2002 til 28.07.2002, af kr. 2.476.607,00 frá 28.07.2002 til 30.07.2002, af kr. 2.489.268,00 frá 30.07.2002 til 03.08.2002, af kr. 3.147.312,00 frá 03.08.2002 til 17.08.2002, af kr. 3.186.504,00 frá 17.08.2002 til 23.08.2002, af kr. 3.197.929,00 frá 23.08.2002 til 24.08.2002, af kr. 3.680.449,00 frá 24.08.2002 til 31.08.2002, af kr. 3.783.638,00 frá 31.08.2002 til 27.09.2002, af kr. 3.812.075,00 frá 27.09.2002 til 29.09.2002, af kr. 4.860.684,00 frá 29.09.2002 til 30.12.2002, af kr. 4.912.847,00 frá 30.12.2002 til 30.01.2003, af kr. 4.919.704,00 frá 30.01.2003 til 28.02.2003 og loks af kr. 4.930.704,00 frá 28.02.2003 til greiðsludags.

Frá skuldinni dragast alls kr. 3.928.277,00 vegna innborgana stefnda að fjárhæð kr. 3.841.979,00 og vegna kreditreiknings stefnanda dags. 22.10.2002 að fjárhæð kr. 86.298,00.  Innborganir stefnda voru greiddar þann 15.08.2002 kr. 1.500.000,00; þann 16.10.2002 kr. 1.924.122,00; þann 16.12.2002 kr. 150.000,00; þann 24.02.2003 kr. 6.857,00; þann 24.02.2003 kr. 11.000,00; og loks þann 09.05.2003 kr. 250.000,00.  Innborganir stefnda og kreditreikningur stefnanda dragast frá kröfunni miðað við stöðu skuldarinnar á innborgunardegi.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi hefur aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda gegn greiðslu á 256.978 krónum auk dráttarvaxta frá 2. desember 2003 til greiðsludags. Til vara krefst stefndi þess að honum verði gert að greiða dráttarvexti af sömu fjárhæð frá síðara tímamarki en um getur í stefnu.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.  

I.

Málið á rætur sínar að rekja til kröfu stefnanda um greiðslu tiltekinna reikninga á tímabilinu frá 22. apríl 2002 til og með janúar 2003. Ágreiningsefnið í málinu ef frá er talinn upphafstími dráttarvaxta tengist því eingöngu hvort stefnandi sem var undirverktaki stefnda við framkvæmdir við viðbyggingu við húsnæði Skýrr hf. að Ármúla 2 í Reykjavík eigi kröfu til verðbóta á tilboðsfjárhæð eða ekki. Um fjárhæðir eða útreikning þeirra er ekki deilt. Undirverktaka stefnanda sneri að liðum sem lutu að loftræstingu. Upphaf viðskiptanna á rót sína að rekja til þess að stefnandi gerði stefnda tilboð í gerð og uppsetningu loftræstikerfis í bygginguna. Því er haldið fram í stefnu að stefnanda hafi verið falið að bjóða í hina tilteknu verkliði aðalverksins og að hann hafi afhent stefnanda öll útboðsgögn aðalverkkaupa ásamt tilboðsskrá sem fylgdi útboðsgögnunum. Sagði fyrirsvarsmaður stefnanda, á þeim tíma, Kolviður Helgason fyrir dóminum að hann minnti að gögnin hefðu borist til stefnanda eins og annarra hliðstæðra fyritækja á þessu sviði enda hafi verið um auglýst verk að ræða sem allir stærri verktakar kynntu sér. Þá kom einnig fram í skýrslu hans og var ekki mótmælt að stefndi hafi verið búinn að fá tilboð frá honum er hann bauð í heildarverkið. Þannig er í ljós leitt að stefnandi gerði tilboðið á grundvelli útboðsgagna aðalverkkaupa og útfyllti tilboðsskrá sem fylgdi verklýsingu fyrir loftræstingu og skilaði tilboði sínu til stefnda þann 26. apríl 2001. Víst er að stefndi samþykkti tilboð stefnanda og er óumdeilt að þá hafi stofnast verksamningur milli stefnanda og stefnda. Hefur stefnandi lýst þessu með þeim orðum að stofnast hafi til samningsins á grundvelli þeirra útboðsskilmála og verklýsinga sem lagðar voru til grundvallar af hálfu aðalverkkaupa. Óumdeilt er að stefnandi gaf út reikninga í samræmi við framvindu verksins. Reikningar þeir sem kröfugerð stefnanda er reist á sundurliðast þannig:

 

Nr.  Útgáfudagur     Gjalddagi               Fjárhæð             Nr. Útgáfudagur      Gjalddagi               Fjárhæð

1.     22.04.2002          22.05.2002              71.465,00            13.   23.07.2002          23.08.2002                  5.237.00

2.     21.052002           21.06.2002              26.269,00            14.   23.07.2002          23.08.2002                  6.188,00

3.     27.05.2002          27.06.2002              388.600,00          15.   24.07.2000          24.08.2002              482.520,00

4.     31.05.2002          30.06.2002              27.164,00            16.   31.07.2002          31.08.2002                78.379,00

5.     12.06.2002          12.07.2002              1.292.460.00       17.   31.07.2002          31.08.2002                24.810,00

6.     19.06.2002          19.07.2002              142.843,00          18.   27.08.2002          27.09.2002                28.437,00

7.     20.06.2002          20.07.2002              186.386,00          19.   29.08.2002          29.09.2002              303.160,00

8.     27.06.2002          27.07.2002              200.000,00          20.   29.08.2002          29.09.2002              745.449,00

9.     28.06.2002          28.07.2002              191.420,00          21.   30.11.2002          30.12.2002                52.163,00

10.   30.06.2002          30.07.2002              12.661,00            22.   30.12.2003          30.01.2003                  6.857,00

11.   03.07.2002          03.08.2002              658.044,00          23.   31.01.2003          28.02.2003                11.000,00

12.   17.07.2002          17.08.2002              39.192,00

 

Fyrst um sinn voru greiðslur stefnda inntar réttilega af hendi að því leyti sem varðaði fjárhæð reikninga fyrir verkkaup. Síðan er það eftir að stefnandi hafði unnið við verkið í um það bil hálft ár að hann sendir stefnda reikning þann sem dagsettur er 29. ágúst 2002. Hljóðaði reikningur þessi sem var nr. 010588 upp á verðbætur að fjárhæð 745.449 krónur og fylgdi honum viðhengi með sundurliðun á útreikningi verðbóta. Þessi reikningur er þrætueplið í málinu en því er haldið fram af stefnda að stefnandi hafi ekki átt rétt á því að njóta verðbóta á verkþætti sína vegna þess að svo hafi ekki verið um samið. Skilningur stefnanda er á hinn bóginn sá að stefnandi eigi sambærilegan rétt til verðbóta og ráð er fyrir gert í útboðsskilmálunum. Í greinargerð stefnda segir að hann hafi tafarlaust haft samband við fyrirsvarsmann stefnanda er reikningurinn barst og sagt að ekki kæmi til greina að greiða honum verðbætur ofan á tilboðsfjárhæðina. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi fyrst með bréfi lögmanns stefnda dagsettu 8. ágúst 2003 fengið vitneskju um sérstök og formleg andmæli stefnda við kröfunni um verðbætur. Komið hefur fram að stefndi gerði samning við fleiri undirverktaka vegna viðbyggingar SKÝRR og að þeir samningar hafi ýmist verið með þeim hætti að undirverktakar fengu verðbætur eða hið gagnstæða. Þegar stefndi samdi sérstaklega við undirverktaka um verðbætur var þeim verktökum gert að reiða fram biðgreiðslu og setja verktryggingu. Stefnandi kveðst ekki hafa gert neitt slíkt enda hafi ekki verið farið fram á það við hann af stefnda. Kom fram í máli fyrirsvarsmanns stefnda að til þess að geta borið saman tilboð í verkþættina þyrfti að liggja fyrir hvort tilboðsgjafinn setti að skilyrði að hann fengi verðbætur eða ekki. Aðiljar eru sammála um að verðbætur hafi ekki komið til tals milli þeirra við samningsgerðina.

II.

Stefnandi byggir á því í greinargerð sinni að skilningur hans á efni samnings hans við stefnda sem um er deilt byggist á viðtekinni venju á sviði verksamninga um byggingarframkvæmdir og aðrar stærri framkvæmdir. Ekkert kom fram undir rekstri málsins sem styður þá staðhæfingu að þessi sé raunin. Kom fram í máli, Kristins Jörundsonar, fyrirsvarsmanns stefnda að hann hefði ekki vanist því í slíkum viðskiptum að verðbætur væru greiddar nema sérstaklega væri um þær samið. Fyrirsvarsmaður stefnanda á þeim tíma, Kolviður Helgason, sagði aftur á móti það heyrði til undantekninga að verðbætur væru ekki greiddar og þá væri það sérstaklega tekið fram og ætti einkum við þegar verkið spannaði skamman tíma. Kom fram í máli hans að þegar staðið væri að útboðum með þeim hætti eins og hér er til umræðu væri í raun verið að búa til hóp til þess að sinna verkefninu sameiginlega. Í þessu sambandi benti hann á að aðalverktakinn þyrfti að fá undirskrift undirverktaka á plagg þar sem hann tekur að sér að ábyrgjast alfarið gagnvart byggingafulltrúa þann verklið sem hann tekur að sér samkvæmt útboðsgögnunum. Auk þessa þurfi aðalverktakinn að tilkynna verkkaupa hverjir séu undirvertakar hans. Sagði Kolviður að Jóhann starfsmaður stefnda hafi komið til hans og eftir að hann hafði skrifað undir tilboðsblaðið og þeir handsalað að hann tæki verkið að sér auk þess sem hann skrifaði á yfirlýsingu til byggingarfulltrúa, þá hafi hann í leiðinni skrifað undir það að hann ábyrgðist verkið gagnvart verkkaupa og að hann ábyrgðist þennan verklið alfarið. Í öllu þessu ferli var gengið út frá því að útboðsgögn þau sem áður er lýst lægju til grundvallar. Kom fram í máli Kolviðs að allt hefði verið venju samkvæmt í samningsferlinu og að í sambærilegum tilfellum væri ekki venja og í raun algjör óþarfi að ganga frá sérstökum samningi milli aðal- og undirverktaka heldur væri byggt á útboðsgögnunum eins og gert var í þessu tilfelli. Beðið var um tölur á síður sem voru hluti útboðsgagna og stefnandi útfyllti þær og gekk að öllu leyti út frá því sem hann las í gögnunum, m.a. hafi hann veitt því sérstaka athygli að mælt var fyrir um verðbætur enda nánast útilokað að hafa annan hátt á þegar um svo langan verktíma er að ræða, m.a vegna þess að verð á aðföngum geti breyst, m.a. vegna gengisbreytinga. Kom fram í frásögn Kolviðs að stefnandi hafi haft rafverktaka sem undirverktaka við sinn verklið og að honum hafi verið greiddar verðbætur í samræmi við gögnin.

Fyrirsvarsmaður stefnda sem hefur að eigin sögn 13 ára reynslu af störfum í tengslum við byggingarframvæmdir lýsti fyrir dóminum þeirri skoðun sinni að til þess að undirverktaki ætti rétt á verðbótum yrði að semja um það sérstaklega en í umræddu tilfelli hefði hann ekki sett fram slíkt skilyrði og hefði því af hálfu stefnda verið gengið út frá því við samanburð á tilboðum að þessi tilboðsgjafi áskildi sér ekki verðbætur. Upplýsti hann að aðalverktakinn hefði fengið greiddar verðbætur á þann verklið sem um ræðir.

             Fram hefur komið að Kolviður og Kristinn hafa mikla reynslu af verktakastarfsemi. Hefur Kolviður starfað við greinina í 22 ár og Kristinn í 13 ár.

III.

Ekki þykir dómara vera neinn ágreiningur sem máli skiptir milli aðilja um hvernig staðið var að samningsgerðinni og ótvírætt að samningur hafi komist á milli aðilja. Engar umræður voru um verðbætur og stendur því eftir að leiða í ljós hvort stefnandi getur byggt rétt sinn til verðbóta á því að slíkt ákvæði var óumdeilanlega til staðar í útboðslýsingunni sem hann hafi undir höndum er hann gerði tilboð sitt. Er það álit dómsins að það hljóti að hafa verið skylda stefnda sem hlaut að vera ljóst á hvaða gögnum stefnandi byggði tilboð sitt að ganga úr skugga um áður en hann batt það fastmælum við stefnanda að hann tæki að sér verkið, hvort hann mætti ganga út frá því sem vísu að hann fengi verðbætur í samræmi við ákvæðið í útboðsgögnunum sem segir að tilboð skuli miða við byggingarvísitölu mars mánaðar 2001. Enginn ágreiningur er eins og áður segir um útreikninga. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið fólst því réttur stefnanda til verðbóta í samningi þeim sem komst á milli málsaðilja og leiddi til þess að stefnandi tók að sér undirverktöku hjá stefnda. Telur dómurinn að það veiki ekki réttarstöðu stefnanda að hann reiddi ekki fram, óumbeðinn, biðgreiðslu eða framkvæmdatryggingu eins og gert er ráð fyrir í útboðslýsingu og verði það að teljast í verkahring stefnda, sem aðalverktaka, að fara fram á slíkt. Sú staðreynd, sem ekki hefur verið í móti mælt, að aðrir undirverktakar sem ekki sömdu um verðbætur gerðu upp án þess að krefjast verðbóta hefur ekkert gildi í þessu máli enda liggur ekkert fyrir um það hvort þeir hafi átt rétt til þeirra. Auk þess sem nú hefur verið sagt og í ljósi þess að stefndi fékk sjálfur greiddar verðbætur á greiðslurnar verður að telja þessa niðurstöðu sanngjarna í garð beggja málsaðilja og því í samræmi við þá grundvallarreglu við túlkun samninga að leita sanngjarnrar niðurstöðu. Er því niðurstaða dómara að stefndi skuli greiða stefnanda verðbætur að fjárhæð 745.449 krónur auk dráttarvaxta sem dómari telur rétt að reikna frá 29.09. 2004 eins og stefnandi gerir kröfu um í stefnu. Að fenginni þessari niðurstöðu þykja ekki efni til að fjalla um aðrar málsástæður sem stefnandi hefur haft uppi og varða einkum það hvort stefndi hafi sýnt af sér tómlæti með því að mótmæla ekki umþrættum verðbótareikningi tafarlaust.

Stefndi hefur sjálfur viðurkennt að hann skuldi stefnanda 256.978 krónur vegna annarra viðskipta sem kröfugerð stefnanda tekur til og jafnframt að bókum stefnanda og stefnda beri saman að öðru leyti en varðar reikninginn vegna kröfunnar um verðbætur sem þegar hefur verið ályktað að honum beri að greiða. Stefnda ber því að greiða stefnanda 1.002.427 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði. Auk þess sem áður hefur verið sagt um dráttarvexti þá er fallist á að sú tilhögun stefnanda að krefjast dráttarvaxta að liðnum mánuði frá útgáfu hvers reiknings á það sem vantar upp á fullnaðargreiðslu sé réttmæt og í samræmi við 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.          Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Ris ehf., greiði  stefnanda, Funa ehf. skuld að fjárhæð 1.002.427,00 krónur ásamt dráttarvöxtum af kr. 71.465,00 frá 22.05.2002 til 21.06.2002, af kr. 97.734,00 frá þeim degi til 27.06.2002, af kr. 436.334,00 frá þeim degi til 30.06.2002, af kr. 463.498,00 frá þeim degi til 12.07.2002, af kr. 1.755.958,00 frá þeim degi til 19.07.2002, af kr. 1.898.801,00 frá þeim degi til 20.07.2002, af kr. 2.085.187,00 frá þeim degi til 27.07.2002, af kr. 2.285.187,00 frá þeim degi til 28.07.2002, af kr. 2.476.607,00 frá þeim degi til 30.07.2002, af kr. 2.489.268,00 frá þeim degi til 03.08.2002, af kr. 3.147.312,00 frá þeim degi til 15.08.2002, af kr. 1.647.312,00 frá þeim degi til 17.08.2002, af kr. 1.686.504,00 frá þeim degi til 23.08.2002, af kr. 1.697.929,00 frá þeim degi til 24.08.2002, af kr. 2.180.449,00 frá þeim degi til 31.08.2002, af kr. 2.283.638,00 frá þeim degi til 27.09.2002, af kr. 2.312.075,00 frá þeim degi til 29.09.2002, af kr. 3.360.684,00 frá þeim degi til 16.10.2002, af kr. 1.436.562,00 frá þeim degi til 22.10.2002, af kr. 1.350.264,00 frá þeim degi til 16.12.2002, af kr. 1.200.264,00 frá þeim degi til 30.12.2002, af kr. 1.252.427,00 frá þeim degi til 30.01.2003, af kr. 1.259.284,00 frá þeim degi til 24.02.2003, af kr. 1.241.427,00 frá þeim degi til 28.02.2003, af kr. 1.252.427,00 frá þeim degi til 09.05.2003 og loks af kr. 1.002.427,00 frá þeim degi til greiðsludags.

             Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.