Hæstiréttur íslands
Mál nr. 488/2008
Lykilorð
- Skaðabætur
- Fasteignasala
- Fasteignasali
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2009. |
|
Nr. 488/2008. |
Sigríður Inga Brandsdóttir og Oliver Steinn Bergsson (Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn Magnúsi Emilssyni og Hraunhamri ehf. (Helgi Birgisson hrl.) |
Skaðabætur. Fasteignakaup. Fasteignasala. Aðfinnslur.
S og O kröfðu M og H um skaðabætur vegna tjóns sem þau töldu sig hafa orðið fyrir við kaup á íbúð í fjöleignarhúsi sem þau keyptu af I með kaupsamningi 13. september 2004. Fasteignasalan H, í eigu löggilta fasteignasalans M, hafði milligöngu um kaupin. Töldu S og O að H og M hefðu brotið gegn starfsskyldum sínum í aðdraganda og við gerð kaupsamningsins með því að hafa ekki látið þess getið á söluyfirliti hins selda fasteignarhluta að fyrirhugaðar væru talsverðar framkvæmdir við húsið sem hefðu á endanum leitt til útgjalda fyrir S og O. Miðaðist krafa þeirra við þann kostnað sem þau báru af þessum sökum. Þá hefði texti sem að þessu laut í kaupsamningnum sjálfum verið ófullnægjandi. Talið var að með ákvæði því sem sett var í kaupsamninginn um eignina hefðu S og O fengið upplýsingar sem gáfu þeim nægilegt tilefni til að afla sjálf frekari upplýsinga um fyrirætlanir húsfélagsins um sprunguviðgerðir og klæðningu hússins ef þau töldu slíkar upplýsingar geta skipt sköpum um endanlega kaupsamningsgerð. Var þá jafnframt talið að M og H hefðu á fullnægjandi hátt uppfyllt starfsskyldur sínar samkvæmt þágildandi lögum nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu og reglugerðar nr. 93/1998 um samninga um söluþjónustu fasteignasala og söluyfirlit við kaupsamningsgerðina. Var því ekki fallist á að M og H gætu borið skaðabótaábyrgð á því tjóni sem S og O töldu sig hafa orðið fyrir vegna kostnaðar við nefndar viðgerðir á húsinu. Voru M og H sýknaðir af kröfum S og O.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. september 2008. Þau krefjast þess að stefndu verði dæmdir til að greiða þeim 2.558.964 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. desember 2005 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í máli þessu krefja áfrýjendur stefndu um skaðabætur vegna tjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir við kaup á íbúð í fjöleignarhúsi við Miðvang 2 í Hafnarfirði, en íbúðina keyptu þau af Ingunni Gyðu Hjelm með kaupsamningi 13. september 2004. Stefndi Hraunhamar ehf. er fasteignasala sem hafði milligöngu um kaupin og er stefndi Magnús Emilsson eigandi hennar en hann hefur réttindi sem löggiltur fasteignasali. Áfrýjendur telja stefndu hafa brotið gegn starfsskyldum sínum í aðdraganda og við gerð kaupsamningsins með því að hafa ekki látið þess getið á söluyfirliti hins selda fasteignarhluta, að fyrirhugaðar væru talsverðar framkvæmdir við húsið sem hefðu á endanum leitt til útgjalda fyrir áfrýjendur. Miðast krafa þeirra við þann kostnað sem þau báru af þessum sökum. Þá hafi texti sem að þessu laut í kaupsamningnum sjálfum verið ófullnægjandi. Er atvikum nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.
Áfrýjendur beindu upphaflega kröfu sinni að seljanda eignarinnar og héldu eftir af kaupverðinu vegna kröfunnar. Seljandinn höfðaði þá mál á hendur þeim til heimtu eftirstöðva kaupverðsins. Í því máli höfðuðu áfrýjendur gagnsök og höfðu uppi sömu kröfu og nú. Í gagnsökinni stefndu þau auk seljandans hinum stefndu í þessu máli en þeim þætti málsins var vísað frá dómi. Efnisdómur gekk síðan í málinu 13. nóvember 2006 með þeirri niðurstöðu að áfrýjendur voru dæmd til að greiða seljandanum eftirstöðvar kaupverðs fasteignarinnar en hann sýknaður af gagnkröfu þeirra. Eftir að hafa greitt dómskuldina áfrýjuðu þau héraðsdóminum. Með dómi 11. október 2007 í máli nr. 90/2007 var málinu vísað frá Hæstarétti á þeirri forsendu að réttur til áfrýjunar hefði glatast þegar áfrýjendur greiddu seljandanum dómskuldina án þess að gera fyrirvara um rétt til áfrýjunar.
II
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var sérstakt ákvæði sett í kaupsamninginn 13. september 2004, þar sem vikið var að fyrirætlunum húsfélagsins vegna sprunguviðgerða eða klæðningar hússins. Texti þess var svohljóðandi: „Meðfylgjandi samningi þessum er yfirlýsing frá húsfélaginu. Kaupanda er kunnugt um að rætt hefur verið um hjá húsfélaginu að láta gera úttekt á blokkinni vegna sprunguviðgerða og eða klæðningar blokkarinnar. Seljandi sér um að greiða kostnaðarhlutdeild íbúðarinnar vegna málningar glugga að utan.“ Málsaðilar eru sammála um að yfirlýsing húsfélagsins sem þarna er vísað til hafi verið dagsett 29. ágúst 2004. Hún er meðal málsgagna. Í hana er ekkert skráð í dálka fyrir yfirstandandi eða fyrirhugaðar framkvæmdir og heldur ekki í dálk fyrir „úttekt á vegum húsfélags“. Af hálfu stefnda Magnúsar hefur komið fram að upplýsingarnar í kaupsamningnum um viðgerðir á húsinu hafi verið frá seljandanum komnar. Meðal gagna málsins er svonefnt ástandsmat frá júlí 2003, þar sem nafngreind verkfræðistofa lýsir því ástandi hússins að utan sem síðar leiddi til þeirra viðgerða sem áfrýjendur báru kostnað af og krefja stefndu um í þessu máli. Hafa áfrýjendur talið að orð samningsins um að rætt hafi verið um hjá húsfélaginu að láta gera úttekt á blokkinni séu röng þar sem sú úttekt hefði þegar farið fram á árinu 2003.
Áfrýjendur byggja á því að stefndu hafi borið að gera sjálfstæða athugun hjá húsfélaginu á stöðu fyrirhugaðra viðgerða á húsinu. Hafi þeir brotið gegn skyldum sínum samkvæmt þágildandi lögum nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu og reglugerðar nr. 93/1998 um samninga um söluþjónustu fasteignasala og söluyfirlit, með því að láta þetta farast fyrir þannig að ekkert hafi verið að þessu vikið í söluyfirliti um eignina og ófullkomnar og að hluta rangar upplýsingar gefnar um þetta í hinu sérstaka ákvæði kaupsamningsins. Telja áfrýjendur engu skipta um kröfu sína að seljandi fasteignarinnar hafi verið sýknaður með endanlegum dómi af kröfu þeirra um skaðabætur vegna sama tjóns og þau krefja stefndu um bætur fyrir í þessu máli.
III
Fyrir liggur í málinu að stefndu öfluðu upplýsinga um eignina hjá seljanda hennar, þegar söluyfirlit var gert. Þar var tekið fram að engir gallar væru á eigninni sem starfsmönnum stefnda Hraunhamars ehf. væri kunnugt um. Við gerð kaupsamnings lá fyrir yfirlýsing frá húsfélaginu sem fyrr var getið auk þess sem framangreint ákvæði varðandi sprunguviðgerð og klæðningu hússins var sett í kaupsamninginn, en það byggðist á upplýsingum frá seljanda. Í 25. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús er kveðið á um upplýsingar sem seljanda eignar sem lögin ná til ber að kynna kaupanda áður en kaupsamningur er undirritaður. Meðal þeirra eru upplýsingar um stöðu húshlutans gagnvart húsfélagi og um yfirstandandi eða fyrirhugaðar framkvæmdir, viðgerðir eða endurbætur. Í 5. mgr. greinarinnar er kveðið svo á, að annist löggiltur fasteignasali sölu eignar í fjöleignarhúsi skuli hann sjá til þess að þau gögn og upplýsingar, sem um getur í greininni, liggi fyrir og séu rækilega kynnt kaupanda áður en kaupsamningur sé gerður og undirritaður. Talið verður að með ákvæði því sem sett var í kaupsamninginn um eignina og að framan er lýst hafi stefndu fengið upplýsingar sem gáfu þeim nægilegt tilefni til að afla sjálf frekari upplýsinga um fyrirætlanir húsfélagsins um sprunguviðgerðir og klæðningu hússins ef þau töldu slíkar upplýsingar geta skipt sköpum um endanlega kaupsamningsgerð. Verður þá jafnframt talið að stefndu hafi á fullnægjandi hátt uppfyllt fyrrgreindar starfsskyldur sínar við kaupsamningsgerðina og verður því ekki fallist á með áfrýjendum að stefndu geti borið skaðabótaábyrgð á því tjóni sem áfrýjendur telja sig hafa orðið fyrir vegna kostnaðar við nefndar viðgerðir á húsinu. Verður hinn áfrýjaði dómur þegar af þessari ástæðu staðfestur um sýknu stefndu af kröfum áfrýjenda og um málskostnað.
Áfrýjendur verða með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála dæmdir til að greiða stefndu málskostnað vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Það athugist að samning hins áfrýjaða dóms hefur ekki tekist sem skyldi, sbr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Almenn lýsing á sakarefninu er ómarkviss auk þess sem stefndu eru tvívegis í dóminum nefndir umbjóðendur dómarans. Þá er úrlausn ágreiningsefna málsaðila í lokakafla dómsins tengd lýsingu á málflutningi þeirra og endurtekin þannig að þrívegis er komist að sömu niðurstöðu um þau. Allt er þetta aðfinnsluvert.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjendur, Sigríður Inga Brandsdóttir og Oliver Steinn Bergsson, greiði óskipt stefndu, Magnúsi Emilssyni og Hraunhamri ehf., málskostnað fyrir Hæstarétti, 200.000 krónur hvorum.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2008.
Mál þetta sem dómtekið var þann 27. maí sl. að lokinni aðalmeðferð var höfðað með stefnu útgefinni 4. maí 2006 með ódagsettri áritun um birtingu og þingfestingu málsins þann 31. maí 2006.
Stefnendur eru Sigríður Inga Brandsdóttir og Oliver Steinn Bergsson, Miðvangi 2, Hafnarfirði.
Stefndu eru Magnús Emilsson, Þrastahrauni 6, Hafnarfirði og Hraunhamar fasteignasala, Bæjarhrauni 10, Hafnarfirði.
Stefnendur krefjast þess að stefndu verið gert að greiða stefnendum 2.558.964 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 13. september 2004 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Stefndu kröfðust þess aðallega í greinargerð að máli þessu yrði vísað frá dómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda. Undir rekstri málsins féllu stefndu frá frávísunarkröfu sinni en sýknukrafa og krafa um málskostnað úr hendi stefnenda standa óhaggaðar.
I.
Mál þetta á rót sína að rekja til kaupa stefnenda á íbúð Ingunnar Gyðu Hjelm á annarri hæð að Miðvangi 2 í Hafnarfirði samkvæmt kaupsamningi 13. september 2004. Var kaupverðið 18.500.000 krónur og áttu stefnendur að inna lokagreiðslu 5.300.000 krónur af hendi eigi síðar en 5. janúar 2005. Stefndi Hraunhamar fasteignasala ehf., annaðist sölu eignarinnar. Með bréfi stefnenda 5. janúar 2005 var því lýst yfir, að þau héldu eftir. 1.500.000 krónur af lokagreiðslu vegna rangra upplýsinga af hálfu seljenda varðandi klæðningu á húseigninni Miðvangi 2-8, Hafnarfirði. Seljandi hafnaði því að hafa gefið rangar upplýsingar um fyrirhugaða klæðningu húseignarinnar. Þvert á móti hafi hún upplýst um fyrirhugaðar framkvæmdir við samningsgerðina og af því tilefni var sett svohljóðandi yfirlýsing í kaupsamning:
"Kaupanda er kunnugt um að rætt hefur verið um hjá húsfélaginu að láta gera úttekt á blokkinni vegna sprunguviðgerða og eða klæðningar blokkarinnar.”
Stefndu útbjuggu söluyfirlit í samræmi við ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 93/1998 með þeim upplýsingum sem þeir þá höfðu og við undirritun kaupsamnings lá fyrir yfirlýsing húsfélags. Þar voru ekki upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir húsfélagsins vegna sprunguviðgerða og eða klæðningar, en þeirra var hins vegar getið í kaupsamningi, sem stefnendur undirrituðu eins og áður segir. Í söluyfirlitinu er tekið fram að engir gallar séu sem starfmönnum Hraunhamars sé kunnugt um og ekkert merkt í reitinn ,,Fyrirhugaðar endurbætur” Er söluyfirlit þetta undirritað af maka seljanda.
Kaupendur skoðuðu eignina nokkrum sinnum áður en gengið var til samninga og voru við skoðun upplýst um það að fyrirhugaðar væru framkvæmdir við glugga í sameigninni og að í hlut íbúðareiganda af þeim framkvæmdum kæmu nálægt 50.000 krónur sem seljandi tæki að sér að greiða.
Stefnendur og stefndu eru sammála um það að upplýsingar um að fyrirhugað hafi verið hjá húsfélaginu að láta gera úttekt á blokkinni vegna sprunguviðgerða og eða klæðningar á henni komu fyrst fyrir augu stefnenda við gerð kaupsamningsins.
Segja stefndu að á húsfundi 5. október 2004, tæpum mánuði eftir kaupsamning, var ákveðið að undirbúa að ráðast í framkvæmdir við húsið.
Með stefnu, þingfestri 1. júní 2005, krafði Ingunn Gyða Hjelm stefnendur um greiðslu eftirstöðva kaupverðs samkvæmt kaupsamningi aðila. Því svöruðu stefnendur með því að höfða gagnsakarmál á hendur Ingunni og umbjóðendum mínum, Magnúsi Emilssyni og fasteignasölunni Hraunhamar ehf., sameiginlega til greiðslu afsláttar eða skaðabóta vegna tjóns sem þau telja sig hafa orðið fyrir vegna rangra upplýsinga við sölu eignarinnar.
Að kröfu stefndu var gagnsök gagnaðila vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2006, þar sem ekki voru talin skilyrði gagnsakar á hendur þeim þar sem þau voru ekki stefnendur í aðalsök málsins. Þá voru gagnaðilar úrskurðaðir til að greiða umbj. mínum 75.000 krónur í málskostnað.
Gagnkrafa stefnenda á hendur Ingunni Gyðu Hjelm var ódæmd er stefndu skiluðu greinargerð sinni þann 6. september 2006 en upplýst var við aðalmeðferð þessa máls sem nú er fjallað um að dómur gekk um hana í Héraðsdómi Reykjaness þann 13. nóvember 2006. Var dómari í því máli sá sami og fer með mál það sem nú er til meðferðar. Var því máli skotið til Hæstaréttar sem vísaði því frá Hæstarétti með dómi þann 11. október 2007 vegna þess að áfrýjun þess var talin ósamrýmanleg greiðslu skuldarinnar samkvæmt dómsorði héraðsdómsins.
Málsástæður stefnenda og afstaða dómara til þeirra
Málsástæður stefnenda eru einkum þær að stefnendum hafi verið ókunnugt um fyrirhugaðar framkvæmdir sem þeir halda fram að samþykkt hafi verið að ráðast í og þau hafi mátt treysta því að engar framkvæmdir væru fyrirhugaðar sem þau vissu ekki af. Hafa stefnendur lagt megináherslu á ókunnugleika sinn um fyrirhugaðar framkvæmdir sem þau halda fram að hafi verið samþykktar fyrir sölu eignarinnar. Söluyfirlit fasteignasölunnar hafi ekki gefið réttar upplýsingar og við gerð kauptilboðs hafi stefnendum því verið ókunnugt um fyrirhugaðar framkvæmdir auk þess sem yfirlýsing húsfélags hafi verið ófullnægjandi bæði að formi og efni. Þá byggja stefnendur á því að stefndu hafi vísvitandi leynt þau upplýsingum um framkvæmdirnar sem fyrirhugaðar voru og þau halda fram að samþykktar hafi verið á aðalfundi húsfélagsins þann 29. apríl 2004.
Engar sönnur hafa verið færðar fyrir þessarri málsástæðu auk þess sem áðurnefndur fyrirvari í kaupsamningi sem hljóðaði svo: “Kaupanda er kunnugt um að rætt hefur verið um hjá húsfélaginu að láta gera úttekt á blokkinni vegna sprunguviðgerða og eða klæðningar blokkarinnar” bendir til hins gagnstæða. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 90/2007 er fjallað um þessa sömu deilu í héraðsdómi þeim sem var undir áfrýjun. Vísaði Hæstiréttur málinu frá Hæstarétti. Í hinum áfrýjaða dómi er fjallað um samþykkt húsfundar fyrir hinum umdeildu framkvæmdum og komist að þeirri niðurstöðu að þær hafi verið samþykktar á húsfélagsfundi þann 17. mars 2005. Vegna þess að dómi þessum var áfrýjað en málinu vísað frá Hæstarétti hefur hann því fullt sönnunargildi um þetta málsatvik sem og önnur sem í honum greinir þar til hið gagnstæða sannast sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Kemur þessi málsástæða stefnendum því að engu haldi í málinu.
Þó vissulega megi gagnrýna það að upplýsa ekki stefnendur um að umræddar framkvæmdir hefðu verið inni í umræðunni í húsfélaginu löngu fyrr og áður en ákvarðanir um að ráðast í þær voru teknar verður ekki fram hjá því litið að margnefndur fyrirvari var settur inn í kaupsamninginn í tæka tíð þannig að stefnendum mátti vera fullkunnugt um fyrirhugaðar framkvæmdir við húsið og gátu brugðist við í samræmi við það sem hugur þeirra stæði til eins og að hætta við kaupin vildu þau það.
Málsástæður stefndu
Kröfur sínar á hendur stefndu byggja stefnendur á meginreglum skaðabótaréttar. Stefndi Magnús og starfsmenn Hraunhamars ehf. hafi vanrækt skyldur sínar sem fasteignasalar og með því valdið stefnendum tjóni. Af hálfu stefndu er því alfarið mótmælt að þeir hafi nokkuð það aðhafst eða látið ógert sem varðar geti þá skaðabótaskyldu samkvæmt lögum nr. 54/1997 eða öðrum réttarreglum.
Krafa stefndu um sýknu er í fyrsta lagi á því byggð að ekki liggi fyrir tjón sem þeir geti borið skaðabótaábyrgð á. Áður er getið að í kaupsamningi um eignina segir: “Kaupanda er kunnugt um að rætt hefur verið um hjá húsfélaginu að láta gera úttekt á blokkinni vegna sprunguviðgerða og eða klæðingar blokkarinnar”. Af þessu er ljóst að stefnendum var fullkunnugt, ekki aðeins að viðhalds væri þörf heldur að fyrirhugaðar væru sprunguviðgerðir og eða klæðning hússins. Þetta átti stefnendum einnig að vera ljóst við eðlilega skoðun eignarinnar, en málning var víða farin að flagna af og þó nokkuð var af sprungum í veggjum. Þá voru víða útfellingar og múrhúð laus eða brotin. Hafi stefnendur ekki orðið þess vör að hún þarfnaðist viðhalds, hafa þau augljóslega ekki sinnt skoðunar- og aðgæsluskyldu sinni við kaupin. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að geta þess að stefnendur nutu aðstoðar Bergs Oliverssonar við kaupin, en hann er lögfræðingur og fyrrum fasteignasali.
Því er alfarið hafnað að um sök sé að ræða af hálfu stefnda, Magnúsar Emilssonar, sem löggilts fasteignasala eða annarra starfsmanna stefnda, Hraunhamars fasteignasölu ehf. Mótmæla stefndu því sérstaklega að þeir hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 54/1997, reglugerðar 93/1998 eða 5. mgr. 25. gr. laga nr. 26/1994 með þeim hætti að valdið hafi stefnendum tjóni. Það að viðhalds sé þörf á 34 ára gömlu húsi er ekki galli í skilningi laga og því eðlilega ekki um það getið í söluyfirliti. Þá lá ekki fyrir nein ákvörðun um endurbætur á húsinu, sem stefnendur vissu ekki um þegar kaupsamningur var gerður.
Þau gögn frá húsfélaginu Miðvangi 2-8, sem stefnendur kjósa að leggja fram í málinu, staðfesti að ekki var búið að samþykkja að ráðast í framkvæmdir þegar kaupsamningur var gerður.
Engin orsakatengsl séu á milli þess að fyrirhugaðra framkvæmda hafi ekki verið getið í söluyfirliti og yfirlýsingu húsfélags og þess viðhalds sem stefnendur gera kröfu um bætur vegna. Af kaupsamningi var stefnendum eins og áður sagði kunnugt að viðhalds væri þörf og ennfremur var það þess eðlis að gera mátti sér grein fyrir því við skoðun eignarinnar.
Á því er byggt að allan grundvöll fyrir kröfugerð stefnenda skorti. Þau hafa valið að afla ekki matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Ástandsmat verkfræðistofu og verktilboð geta ekki falið í sér neina sönnun á þeim göllum sem stefnendur segja vera á húseigninni og fjárhæðum. Þar sem sönnun skorti, bæði um grundvöll kröfu stefnenda og fjárhæðir, beri að sýkna stefndu af kröfum stefnenda.
Stefnendur verði að bera hallan af meintum misskilningi sínum á auðskildu ákvæði kaupsamningsins. Þá hafi bersýnilega ekki verið búið að samþykkja framkvæmdir áður en hann var undirritaður. Þá geta stefnendur ekki talist hafa orðið fyrir tjóni af framkvæmdunum vegna þeirrar verðmætisaukningar sem þeim fylgja.
Niðurstaða
Með vísan í þá umfjöllun dómara hér að framan um þær málsástæður sem stefnendur hafa uppi í málinu, mats dómara á því að kaupsamningur sá sem fjallað er um í málinu sé slíkt meginskjal í umræddum viðskiptum aðilja að þrátt fyrir að óumdeilt sé að upplýsingar þær sem fram koma í síðbúnum fyrirvara í kauspamningnum séu ekki í öðrum sölugögnum þá verða stefnendur við það að una að öllu kröfum þeirra sé hafnað og stefndu sýknaðir af öllum kröfum þeirra um skaðabætur. Eins og málinu var komið þá brást fasteignasalinn rétt við og kom inn í kaupsamninginn fyrir undirskrift hans þeim fyrirvara sem deilt er um í málinu. Er það mat dómara að fyrirvara þennan sé ekki hægt að misskilja og að í honum felist að hverju skuli stefnt en ekki að ákvörðun hafi verið tekin um tiltekna framkvæmd.
Að þessari niðurstöðu fenginni eru ekki efni til að fjalla um eða leggja á það dóm hvort gagnstefnendur hafi sýnt fram á hvort þeir hafi orðið fyrir tjóni í umræddum viðskiptum eða hvert það tjón kunni að vera sem þeir geti byggt skaðabóta eða afsláttarkröfu á.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er niðurstaða dómara á þá leið að kröfum stefnanda er hafnað og stefndu sýknaðir af öllum kröfum þeirra um skaðabætur.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnendur til greiðslu málskostnaðar. Við ákvörðun málskostnaðar hefur dómari hliðsjón af því að málsatvik og málsástæður hafa hlotið endalega umfjöllun í áfrýjuðum dómi sbr. dóm Hæstaréttar nr. 90/2007.
Þykir hæfilegt að stefnendur greiði stefndu 124.500 krónur í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari dæmir málið.
Dómsorð:
Stefndu, Magnús Emilsson og Hraunhamar fasteignasala ehf., eru sýkn af kröfum stefnenda, Sigríðar Ingu Brandsdóttur og Olivers Steins Bergssonar.
Stefnendur greiði stefndu 124.500 krónur í málskostnað.