Hæstiréttur íslands

Mál nr. 379/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Dómstóll
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. ágúst 2006.

Nr. 379/2006.

Rann ehf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Dómstólar. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

R krafðist þess að felld yrði úr gildi ákvörðun fjármálaráðuneytisins um að synja félaginu um veitingu leyfis til reksturs frísvæðis í vöruskemmu félagsins að S. R krafðist þess einnig að viðurkennt yrði með dómi að Í væri skylt að gefa út leyfi til félagsins til að reka frísvæði á fyrrgreindum stað. Þá krafðist félagið viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í vegna ólögmætrar synjunar á útgáfu umrædds leyfis. Í úrskurði héraðsdóms, sem var staðfestur með vísan til forsendna hans, var R ekki talið hafa sýnt fram á að félagið hefði lögvarða hagsmuni af því að synjunin yrði felld úr gildi. Þá var ekki talið að réttur R til að fá umrætt leyfi væri það ótvíræður að ákvörðun um skyldu Í til útgáfu leyfisins gæti heyrt undir dóminn. Loks var talið að krafa R um viðurkenningu á bótaskyldu Í fullnægði ekki skilyrðum e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað, þar sem lýsing á meintu tjóni R væri of óljós. Málinu var því vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2006, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Rann ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

                                                                                                                 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2006.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 13. júní sl., var höfðað 15. desember 2005 af Rann ehf., Skútuvogi 5, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, Sölvhólsgötu 7, Reykja­vík.

Af hálfu stefnanda er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun fjármálaráðu­neytisins 14. júlí 2005 um að synja stefnanda um veitingu leyfis til reksturs frísvæðis (tollfrjáls svæðis) í vöruskemmu félagsins að Skútuvogi 5 í Reykjavík. Einnig krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skylt að gefa út leyfi til stefnanda til að reka frísvæði (tollfrjálst svæði) í vöruskemmu félagsins að Skútuvogi 5 með þeim skilyrðum sem heimilt er að setja lögum samkvæmt. Þá krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna ólögmætrar synjunar á útgáfu leyfis til handa stefnanda til að reka frísvæði (tollfrjálst svæði) í vöruskemmu félagsins að Skútuvogi 5. Loks krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefnda en af hálfu stefnanda er þess krafist að frávísunarkröfunni verði hrundið. Báðir málsaðilar krefj­ast málskostnaðar í þessum þætti málsins en verði málinu ekki vísað frá dómi er þess krafist af hálfu stefnda til vara að málskostnaður verði ákveðinn við efnislega úr­lausn þess.

I.

Málsaðilar vísa til þess að upphaf málsins sé að rekja til umsóknar Karls K. Karlssonar ehf. til fjármálaráðherra 14. ágúst 2000 um leyfi til reksturs almennrar tollvörugeymslu  að Skútuvogi 5. Þessari beiðni var synjað með bréfi fjármálaráðu­neytisins 12. desember sama ár. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið hafi óskað eftir um­sögn ríkistollstjóra um umsóknina og var vísað til umsagnarinnar í rökstuðningi ráðu­neytis­ins fyrir synjuninni. Umsóknin var ítrekuð 9. september 2003 sem enn var synjað með bréfi ráðuneytisins 14. október sama ár. Rökin fyrir synjun ráðuneytisins voru meðal annars þau að ekki væri uppfyllt skilyrði 1. mgr. 73. gr. þágildandi tolla­laga nr. 55/1987 um almennan aðgang innflytjenda að tollvörugeymslunni.

Karl K. Karlsson ehf. lagði enn á ný inn umsókn um leyfi til rekstrar almennrar tollvörugeymslu að Skútuvogi 5 með bréfi 21. nóvember 2003. Í bréfi ráðuneytisins til fyrirtækisins 6. febrúar 2004 var vakin athygli á því að geymslan í Skútuvogi 5 væri rekin sem frísvæði af hálfu TVG Zimsen hf. Í framhaldi af þessu var umsókn Karls K. Karls­sonar ehf. afturkölluð 5. mars sama ár.

Í sama bréfi sótti stefnandi um leyfi til reksturs frísvæðis á sama stað með vísan til 90. gr., sbr. 73. gr. framangreindra tollalaga. Fram kemur í bréfinu að stefnandi sé eigandi húsnæðisins að Skútuvogi 5. Þá kemur þar enn fremur fram að rök stefnanda fyrir umsókninni væru þau sömu og fram hefðu komið í umsókn Karls K. Karlssonar ehf. Með bréfi fjármálaráðuneytisins 12. maí s.á. var beiðni stefnanda synjað. Af því tilefni leitaði stefnandi álits umboðsmanns Alþingis 20. ágúst s.á. og kvartaði yfir framangreindri ákvörðun fjármálaráðherra.

Niðurstaða í áliti umboðsmanns 10. maí 2005 var sú að umrædd ákvörðun um að synja umsókn stefnanda um rekstur frísvæðis hafi ekki verið byggð á réttum laga­grundvelli. Það sjónarmið sem byggt hefði verið á í ákvörðun ráðuneytisins um að félagið yrði við upphaf starfsemi að geta veitt hverjum þeim einstaklingi eða lögaðila sem stundaði viðskipti með vörur í atvinnuskyni eða iðnaðarframleiðslu þjónustu frísvæðis hafi ekki átt sér fullnægjandi stoð í tollalögum nr. 55/1987. Umboðsmaður Alþingis beindi þeim tilmælum til fjármálaráðu­neytisins að það tæki mál stefnanda til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis frá honum, og tæki þá mið af þeim sjónar­miðum sem rakin eru í álitinu. Með bréfi lögmanns stefnanda til fjármála­ráðu­neytisins 12. maí s.á. var vísað til álits umboðsmanns og þess krafist að ráðuneytið tæki umsókn stefnanda um rekstur frísvæðis enn á ný til afgreiðslu og að það tæki að því sinni tillit til þeirra lagasjónarmiða sem ítrekað hafi verið komið á framfæri við ráðuneytið. Erindið var ítrekað með bréfi lögmanns stefnanda 30. sama mánaðar en því var synjað með bréfi ráðuneytisins 14. júlí s.á. Stefnandi krefst þess í málinu að synjunin verði felld úr gildi.

II.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að bera ógildingarkröfuna undir dóminn. Það sé heldur ekki á valdi dómsins að leysa úr því hvort stefnda sé skylt að veita leyfi eins og stefnandi hafi sótt um. Þá sé krafa stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda vanreifuð. Af þessum ástæðum beri að vísa kröfum stefnanda frá dómi. 

Í rökstuðningi fyrir frávísunarkröfu stefnda kemur fram að hagsmunir af úrlausn um fyrstu kröfu stefnanda séu liðnir undir lok enda hafa tekið gildi ný tollalög nr. 88/2005 þar sem skilyrði til reksturs geymslusvæða fyrir ótollafgreiddar vörur séu verulega breytt frá því sem áður hafi gilt, sbr. 91. gr. laganna og annarra ákvæða þeirra í 88. til 108. gr. Bráðabirgðaákvæði hinna nýju laga, sem vísað sé til af hálfu stefnanda, geti ekki haft þýðingu, enda liggi fyrir að stefnandi hafi ekki fengið umbeðið leyfi í gildistíð eldri laga. Stefndi vísi um þetta til meginreglna einkamála­réttarfars um nauðsyn þess að lögvarðir hags­munir af úrlausn máls séu til staðar og virkir, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála. Ef fallist yrði á kröfu stefnanda um ógildingu hefði það engin réttaráhrif í sjálfu sér enda gæti stefndi ekki veitt leyfi á grundvelli eldri laga afturvirkt.

Um annan kröfulið stefnanda byggi stefndi á því að ekki eigi undir dómstóla að veita leyfi sem stjórnvöld veiti að lögum. Að sama skapi geti ekki átt undir dómstóla að fjalla um leyfi sem undir stjórnvöld heyri að ákveða hvort veitt verði en ekki hafi verið tekin afstaða til af þeirra hálfu á grundvelli gildandi laga. Sé því utan lögsögu dómstóla að taka kröfulið þennan til efnismeðferðar, sbr. 24. gr. laga um meðferð einkamála. Umsókn stefnanda virtist taka mið af eldri lögum sem hafi gilt þegar málið var höfðað en krafa stefnanda samræmdist ekki gildandi lögum og sé hún með tilliti til þeirra órökstudd. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni að hann upp­fylli skilyrði 91. gr. tollalaga nr. 88/2005, en þar segi að leyfi til reksturs tollvöru­geymslu skuli veitt þeim einum sem starfi í þeim tilgangi að veita öðrum þá þjónustu sem felist í rekstri tollvörugeymslu og leyfishöfum sjálfum sé óheimilt að geyma þar vörur eða stunda þar aðvinnslu á vörum, verslun, umboðssölu, heildsölu eða smásölu. Ekki komi til álita að veita stefnanda leyfi með afturvirkum hætti, þ.e. að viðurkenna með dómi að ráðuneytinu sé skylt að gefa út leyfi til stefnanda til að reka svokallað frísvæði að Skútuvogi 5. Um skilyrði starfsleyfis samkvæmt 91. gr. tollalaga sé kveðið á um ýmis formskilyrði og efnisskilyrði sem uppfylla þurfi, sem og upplýs­ingar og gögn sem fylgja eigi umsókn. Stefnandi hafi í engu gert grein fyrir þessum atriðum á þann hátt sem mælt sé fyrir um í lögum. Beri því einnig af þessum ástæðum að vísa kröfunni frá dómi.

Þriðji kröfuliður stefnanda sé um viðurkenningu á bótaskyldu vegna synjunar stefnda á útgáfu leyfis til handa stefnanda til reksturs frísvæðis. Krafan sé vanreifuð og byggðist aðeins á umsögn löggilts endurskoðanda en hvorki sé fyrir að fara út­reikn­­ingi né fjárkröfu og engum rökum stutt hvort tjón hafi leitt af synjun stefnda. Krafan sé því með öllu vanreifuð og beri að vísa henni frá dómi. Stefndi vísi um þetta til 25. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991. Bótakrafa stefnanda væri að þessu leyti háð sérstökum rökstuðningi og útreikningi studdum gögnum. Gætu augljóslega hlotist réttar­spjöll af því fyrir stefnda að geta ekki varist kröfunni með fullnægjandi hætti. Málatilbúnaður stefnanda varði að þessu leyti liðinn tíma og engin efni séu til að beita þeirri undan­tekningarreglu d-liðar 1. mgr. 80. gr. eða 25. gr. nefndra laga sem heimilað gæti viður­kenningarkröfu af þessu tagi. Verði ekki séð hver tormerki væru á því fyrir stefnanda að setja fram endanlega bótakröfu studda gögnum og rökstuðningi ef tjóni væri til að dreifa.

III.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um kröfur sínar í málinu. Ólögmætt hafi verið af hálfu stefnda að synja stefnanda um hið umbeðna leyfi til að reka tollfrjálst svæði. Synjun stefnda sé byggð á ólögmætum og ómálefnalegum sjónarmiðum en vísað hafi verið til þess að stefnandi gæti ekki veitt almennan aðgang að svæðinu. Rétturinn til að fá úr þessu skorið fyrir dómstólum sé ótvíræður samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár­innar. Engu breyti í þessu sambandi þótt ný tollalög hafi nú tekið gildi eins og stefndi vísi til varðandi frávísunarkröfuna. Um ólögmæti þess að synja stefnanda um leyfið fari að eldri lögum enda gildi þau um þessi lögskipti, en samkvæmt bráðabirgðaákvæði núgild­andi tollalaga nr. 88/2005 haldi þeir sem hafi leyfi til að reka tollfrjálst svæði leyfinu til ársloka 2006. Stefndi geti ekki skákað í því skjóli að 1. janúar 2006 hafi tekið gildi ný tollalög nr. 88/2005. Jafnvel þó þar séu að nokkru notuð önnur hugtök en í fyrri tollalögum og smávægileg breyting hafi verið gerð á skilyrðum fyrir rekstri frísvæðis í núgildandi tollalögum, þá sé það ekkert sem máli skipti, sbr. m.a. 105. gr. tollalaga nr. 88/2005. Hagsmunirnir sem hér um ræði hafi því ekki liðið undir lok.

Leyfi beri stefnda að veita stefnanda á grundvelli skilyrða og heimilda sem fram komi í lögunum. Leyfi til reksturs frísvæðis sé lögbundin stjórnsýsluathöfn, þ.e. skilyrði og forsendur fyrir veitingu leyfis séu nákvæmlega tilteknar í lögum og stjórn­sýslu­fyrir­mælum á sambærilegan hátt og t.d. veiting verslunarleyfis. Löggjöfin veiti ekki svigrúm til matskenndra sjónarmiða af því tagi sem getið sé í synjun ráðuneytis­ins. Stefnandi hafi uppfyllt hin lagalegu skilyrði og því sé stefnda skylt að veita leyfið.

Krafa um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda fullnægi öllum skilyrðum réttar­fars­laga til að fá efnislega umfjöllun dómsins. Stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni og lagt fram viðeigandi gögn því til staðfestu. Fjölmörg dómafor­dæmi séu fyrir því að heimilt sé að haga kröfugerð af því tagi sem stefnandi geri, að því skilyrði uppfylltu að sýnt sé fram á að fjártjón hafi orðið vegna hinnar bótaskyldu háttsemi. Stefnandi telji liggja í augum uppi að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna háttsemi stefnda en það sé út af fyrir sig staðhæfing sem ekki þurfi sérstaklega að sanna með vísan til 3. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Engu að síður hafi stefnandi lagt fram yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um að hann hafi orðið fyrir fjártjóni.

IV.

Af hálfu stefnanda hafa komið fram röksemdir fyrir því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá hina umdeildu synjun ráðuneytisins frá 14. júlí 2005 fellda úr gildi eins og hér að framan er lýst. Í meginreglu réttarfars um að aðili þurfi að hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn á tilteknu sakarefni felst að dómur um það hafi áhrif á stöðu hans að lögum. Þetta réttarfarsskilyrði takmarkar ekki rétt aðila til aðgangs að dómstólum á þann hátt að í bága fari við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eins og vísað er til af hálfu stefnanda. Verði fallist á umrædda kröfu stefnanda og synjunin sem hér um ræðir felld úr gildi vegna ólögmætis hennar hefði það ekki sjálfkrafa þau áhrif að veita yrði stefnanda hið umbeðna leyfi enda þyrfti að ganga úr skugga um það að hann uppfyllti lagaskilyrði sem um leyfisveitinguna gilda á hverjum tíma áður en leyfi yrði veitt. Afgreiðsla á öllum umsóknum um leyfi til að reka frí­svæði færi eftir fyrirmælum í núgildandi tollalögum nr. 88/2005 en samkvæmt 196. gr. þeirra tóku þau gildi 1. janúar 2006. Verður með vísan til þessa ekki fallist á að stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að synjunin verði felld úr gildi þar sem hagsmunir stefnanda af því að fá slíka úrlausn hafi ekki enn liðið undir lok eins og stefnandi heldur fram. Þrátt fyrir þetta verður að gera ráð fyrir því að hin meinta ólögmæta synjun geti haft þýðingu fyrir bótarétt sem stefnandi telur að hann eigi á hendur stefnda. Við úrlausn á bótakröfunni verður hins vegar ekki hjá því komist að taka afstöðu til þess hvort synjunin hafi verið ólögmæt, en sú máls­ástæða verður ekki gerð að sjálfstæðum kröfulið í málinu eins og stefnandi hefur hér gert með þessari viðurkenningarkröfu. Stefnandi hefur því enga lögvarða hagsmuni af sérstakri úrlausn á því hvort synjunin hafi verið ólögmæt enda væri með því eingöngu leyst úr því lögfræði­lega álitaefni án þess að það væri nauðsynlegt til úrlausnar á tiltekinni kröfu stefnanda sem heyrir undir dóminn að leysa úr. Samkvæmt þessu hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að umrædd synjun ráðuneytisins verði felld úr gildi og ber því samkvæmt 1. og 2.  mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála að vísa þeirri kröfu stefnanda frá dómi.

Viðurkenningarkrafa stefnanda um að stefnda sé skylt að gefa út umbeðið leyfi er studd þeim rökum að réttur stefnanda sé ótvíræður til að fá leyfið, enda liggi fyrir að hann uppfylli skilyrði laganna að öllu leyti til að fá það. Dómurinn getur ekki fallist á að réttur stefnanda sé nægilega ótvíræður þannig að ákvörðun um slíka skyldu stefnda geti af þeim sökum heyrt undir dóminn að leysa úr. Ber með vísan til þessa og 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála að vísa þessari kröfu stefnanda frá dómi.

Krafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda er byggð á því að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda samkvæmt almennu skaðabóta­reglunni vegna hinnar meintu ólögmætu synjunar. Í málatilbúnaði stefnanda koma fram þau rök að stefnandi hafi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna meintrar bóta­skyldrar háttsemi af hálfu stefnda. Til þess að slík viðurkenningarkrafa, eins og hér um ræðir, verði talin uppfylla skil­yrði réttarfarslaga um fullnægjandi málsreifun nægir ekki að vísa til þess að fyrir liggi gögn um að tjón hafi orðið heldur þarf að koma fram nægilega glögg lýsing á hinu meinta tjóni og í hverju stefnandi telji það fólgið. Í þessu sambandi vísar stefnandi til yfirlýsingar löggilts endur­skoð­anda 14. desember 2005, þar sem fram kemur að sambæri­leg starf­semi sé rekin af öðrum aðila í sama húsnæði, en það félag hafi meðal annars fastar tekjur af starf­sem­inni í húsnæðinu frá systur­félagi stefnanda, Karli K. Karlssyni ehf., sem reki umsvifamikla innflutnings- og heildverslun með ýmiss konar vörur, einkum matar- og drykkjarvörur. Í yfirlýsing­unni segir enn fremur að Karl K. Karlsson ehf. greiði þeim rekstraraðila, sem nú hafi með höndum rekstur hins tollfrjálsa svæðis, yfir tvær milljónir króna árlega. Þessa lýsingu, sem þannig kemur fram í málatilbúnaði stefnanda á hinu meinta tjóni, sem hann telur að stefndi beri bótaábyrgð á, verður að telja of óljósa til að hún geti talist full­nægja skilyrðum e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einka­mála um skýran og glöggan málatilbúnað. Verður því einnig að vísa þessari kröfu stefnanda frá dómi.

Samkvæmt þessu ber að vísa málinu frá dómi.

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.

Úrskurðinn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Rann ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í máls­kostnað.