Hæstiréttur íslands

Mál nr. 525/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


                                     

Mánudaginn 29. september 2008.

Nr. 525/2008.

B

(Jón Egilsson hdl.)

gegn

A

(enginn)

 

Kærumál. Lögræði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að B yrði sviptur sjálfræði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2008, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um að hann verði sviptur sjálfræði, til vara að sjálfræðissvipting standi í sex mánuði, en að því frágengnu í tólf mánuði. Þá krefst hann þess að skipuðum verjanda sínum verði ákveðin þóknun úr ríkissjóði vegna kærumáls þessa.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna meðferðar þessa kærumáls og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda sóknaraðila, B, að fjárhæð 124.500 krónur greiðist úr ríkissjóði.

 

                                     Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2008.

Með beiðni dagsettri 9. september sl. hefur A, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, krafist þess að sonur hennar, B, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, verði sviptur sjálfræði ótímabundið.

Varnaraðili mótmælir kröfunni. Til vara krefst hann þess að sviptingunni verði markaður tími, ekki lengur en til sex mánaða.

Í vottorði Ólafs Bjarnasonar sérfræðings í geðlækningum kemur fram að varnaraðili var greindur geðklofa árið 2001 og hefur strítt við þann sjúkdóm síðan. Jafnframt hefur hann átt við vímuefnavanda að stríða í mörg ár. Varnaraðili hefur verið lagður 29 sinnum inn á geðdeild Landspítala frá árinu 2001, en meðferð lauk iðulega með því að hann útskrifaði sig fyrr en læknar ráðlögðu honum. Hann hætti jafnan töku lyfja skömmu eftir útskrift og hlýddi engum ráðum um að hætta vímuefnaneyslu sinni. Varnaraðili var sviptur sjálfræði í eitt ár frá 22. október 2006 og gekk meðferð hans þá mjög vel. Á þessu tímabili fylgdi varnaraðili vel lyfjameðferð og atferlismótandi meðferð og geðrænt ástand hans batnaði afgerandi. Hann útskrifaðist af geðdeild og hóf vímuefnameðferð í kjölfarið. Varnaraðili varð sjálfráða á ný í október 2007 og fór þá fljótlega að síga á ógæfuhliðina. Hann hætti að taka geðlyf sín og hélt ekki meðferð að öðru leyti. Varnaraðili var lagður inn á geðdeild Landspítala þann 17. ágúst sl. Hann var þá haldinn ranghugmyndum með aðsóknar- og mikilmennskuinnihaldi. Varnaraðili var í kjölfarið nauðungarvistaður á deildinni og hefur dvalist þar síðan. Við geðskoðun 3. september sl. reyndist hann haldinn miklum ranghugmyndum með aðsóknarinnihaldi. Í niðurstöðum geðlæknisins kemur fram að varnaraðili sé haldinn erfiðum geðklofasjúkdómi og fjöllyfjafíkn, komi sér endurtekið undan bráðnauðsynlegri lyfjameðferð og haldi áfram vímuefnaneyslu ef ekki er nægjanlegt aðhald til staðar. Hann hafi ekkert sjúkdómsinnsæi. Fyrirsjáanlegt sé að hann falli fljótlega frá allri samvinnu um nauðsynlega lyfjameðferð og göngudeildareftirlit og fari í neyslu ef aðhaldi í formi sjálfræðissviptingar verði ekki beitt. Í ljósi langvarandi og einstaklega erfiðs sjúkdómsgangs sé lagt til að varnaraðili verði sviptur sjálfræði ótímabundið til að tryggja meðferðarheldni. Hefur geðlæknirinn ítrekað álit sitt að þessu leyti fyrir dóminum.

Með framangreindu vottorði Ólafs Bjarnasonar geðlæknis og vætti sérfræðingsins fyrir dómi er sýnt fram á það að varnaraðili er alls óhæfur að ráða persónulegum högum sínum. Hefur verið sýnt fram á nauðsyn þess að varnaraðili leiti lækninga við sjúkdómi sínum og er vilji hans sjálfs til þess ekki einbeittur. Er fullnægt skilyrðum a-liðar 4. gr. laga nr. 71/1997. Verður varnaraðili því sviptur sjálfræði svo að tryggja megi að hann njóti læknismeðferðar við sjúkdómi sínum. Í ljósi þess sem fram er komið um sjúkdómsferil varnaraðila og til að tryggja megi meðferð hans þykir nauðsynlegt að svipta hann sjálfræði ótímabundið.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða málskostnað, 200.200 krónur, úr ríkissjóði, þar með talið þóknun talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl. og verjanda, Jóns Egilssonar hdl., 74.700 krónur til hvors um sig. Þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, B, er sviptur sjálfræði.

Málskostnaður, 200.200 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talið þóknun talsmanns sóknaraðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl. og verjanda, Jóns Egilssonar hdl., 74.700 krónur til hvors um sig.