Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/2015


Lykilorð

  • Flutningssamningur
  • Farmskírteini
  • Vátrygging
  • Endurkrafa


                                     

Fimmtudaginn 18. júní 2015

Nr. 30/2015.

Jónar Transport hf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Flutningssamningur. Farmskírteini. Vátrygging. Endurkrafa.

S ehf. fékk greiddar bætur úr farmtryggingu hjá V hf. á grundvelli tjóns af völdum þess að kjötvara, sem J hf. flutti til landsins fyrir S ehf. á grundvelli flutningssamnings, var ekki geymd í kæligeymslu við komu hennar til landsins. V hf. höfðaði mál á hendur J hf. og krafðist greiðslu á grundvelli 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna þeirra bóta sem hann hefði innt af hendi til S ehf. vegna skemmda á kjötvörunni meðan hún var í vörslum J hf. V ehf. byggði á hlutlægri ábyrgðarreglu 1. mgr. 105. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, en talið var sú regla kæmi ekki til álita við úrlausn málsins þar sem óumdeilt var að tjónið hefði ekki átt sér stað við loftflutning. V hf. reisti kröfu sína einnig á því að tekja mætti tjónið til rangrar og ófullnægjandi geymslu í vöruhúsi J hf. umrætt sinn og því bæri J hf. skaðabótaábyrgð á tjóninu gagnvart V hf. eftir almennum reglum skaðabótaréttar og sérreglum um skyldur og ábyrgð geymslumanns. Talið var að J hf. hefði samkvæmt flutningssamningnum verið skylt að haga flutningi og geymslu kjötvörunnar þannig að hún yrði ekki fyrir skemmdum af völdum starfsmanna hans og að við meðferð vörunnar hafi J hf. fyrst og fremst borið að fara eftir því sem fram kom á farmbréfi. Ekki var talið að lýsing vörunnar í farmbréfi hefði verið nægileg til þess að J hf. hefði mátt gera sér ljóst að geyma yrði vöruna í kæli. Þá lægi ekki fyrir að hlutaðeigandi vörubretti hefði verið merkt þannig að varan sem á þeim væri skyldi sett í kæligeymslu. Loks var talið ósannað að meðferð J hf. á matvælunum hefði, að þessu gættu, falið í sér brot á lögum nr. 93/1995 um matvæli eða reglum settum samkvæmt þeim. Var J hf. því sýknað af kröfu V hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2015 og krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað sem verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Á grundvelli flutningasamnings 7. febrúar 2011 milli áfrýjanda og Sælkerans ehf. tók sá fyrrnefndi að sér fyrir þann síðarnefnda að flytja kjötvöru, sem komið hafði verið fyrir á fimm vörubrettum, með flugi frá Spáni hingað til lands í nóvember 2012. Á flugfarmbréfi kom fram að sendandi vörunnar væri spænskt félag, Embotits Calet S.L., en viðtakandi hennar Sælkerinn ehf. Var vörunni lýst þannig: „COLD MEATS (SERRANO HAM/CHORIZO) 3PX-120XBOX158 1P-120XBOX129 1P-120XBOX90CM? Vol: 6,6340 m³“, en upphafsorð vörulýsingarinnar hljóða þannig í íslenskri  þýðingu: „KALDAR KJÖTVÖRUR (SERRANO SKINKA/KRYDDPYLSA)“. Í viðeigandi reit á farmbréfinu þar sem gert var ráð fyrir upplýsingum um meðferð farmsins stóð: „EXW FREIGHT COLLECT AS AGREED“. Áfrýjandi heldur því fram að eitt af vörubrettunum hafi verið merkt þannig að vörunni skyldi komið fyrir í kæligeymslu, en stefndi mótmælir því að það bretti hafi sérstaklega verið merkt með þeim hætti. Í héraði lagði stefndi fram tvo merkimiða, sem hann segir að hafi verið á pökkum utan um kjötvöruna, en á öðrum miðanum stóð meðal annars í íslenskri þýðingu: „Geymist á köldum og þurrum stað“ og á hinum „Varðveisla: Soðið frá 0-5 ... C / Verkað á köldum og þurrum stað“.

Áfrýjandi sá um flutning vörunnar frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur til geymslu í vöruhúsi sínu 21. nóvember 2012. Kveðst hann hafa komið einu vörubrettinu, er hafi sérstaklega verið merkt sem kælivara, fyrir í kæligeymslu, en hinum fjórum í ókældu rými þar sem þau hafi ekki verið sérstaklega merkt. Þegar starfsmaður Sælkerans ehf. vitjaði vörunnar 26. sama mánaðar neitaði hann að taka við síðastnefndum fjórum vörubrettum sem ekki höfðu verið sett í kæligeymslu. Degi síðar fyllti starfsmaður áfrýjanda út tjónsskýrslu, sem send var stefnda, þar sem meðal annars sagði að varan á brettunum fjórum hefði verið „sett í rekka í vörugeymslu ekki á köldum stað“ og væri „ekki hægt að nota eða selja“ hana. Í skýrslunni var þess jafnframt getið að ekki hafi verið tekið fram „að þessi sending skyldi geymd á köldum stað.“ Í framhaldi af þessu mun áfrýjandi hafa látið farga vörunni undir eftirliti tollstjóra án þess að varan hafi nokkru sinni verið skoðuð til að kanna gæði hennar. Sælkerinn ehf. var með farmtryggingu hjá stefnda sem greiddi félaginu bætur vegna umrædds tjóns.

Áfrýjandi hefur lagt fram ný gögn hér fyrir dómi. Meðal þeirra eru upplýsingar sem hann kveðst hafa aflað frá framleiðanda vörunnar um sex af þeim níu vörutegundum sem hann hafi séð um að flytja hingað til lands fyrir Sælkerann ehf. umrætt sinn og ekki hafi verið geymdar í kæli. Í öllum þessum sex tilvikum er tekið fram að varan skuli flutt og geymd við hitastig á bilinu 18 til 22°. Þá hefur áfrýjandi lagt fram upplýsingar sem hann kveðst einnig hafa aflað frá framleiðandanum um eina af þeim tegundum, sem geymd hafi verið í kæli vegna áðurgreindra fyrirmæla þess efnis, en þar segir að varan skuli flutt og geymd við hitastig á bilinu 0 til 10°. Samkvæmt yfirliti yfir hitastig í vörugeymslu áfrýjanda dagana 21. til 26. nóvember 2012, sem hann hefur lagt fram, var það milli 15 og 20° þá daga.

II

Í máli þessu krefst stefndi, á grundvelli 1. mgr. 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, greiðslu úr hendi áfrýjanda á þeim bótum sem hann hefur innt af hendi til Sælkerans ehf. vegna skemmda á framangreindri kjötvöru meðan hún var í vörslum áfrýjanda. Reisir stefndi kröfu sína í fyrsta lagi á hlutlægri ábyrgðarreglu 1. mgr. 105. gr. loftferðalaga nr. 60/1998. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að sú regla komi ekki til álita við úrlausn málsins.

Í annan stað krefst stefndi greiðslu úr hendi áfrýjanda þar sem rekja megi tjón það sem orðið hafi á kjötvörunni til rangrar og ófullnægjandi geymslu í vöruhúsi hans dagana 21. til 26. nóvember 2012. Samkvæmt því beri áfrýjandi skaðabótaábyrgð á tjóninu gagnvart stefnda eftir almennum reglum skaðabótaréttar og sérreglum um skyldur og ábyrgð geymslumanns.

Í samræmi við áðurgreindan flutningasamning milli áfrýjanda og Sælkerans ehf. var þeim fyrrnefnda skylt að haga flutningi og geymslu á umræddri kjötvöru þannig að hún yrði ekki fyrir skemmdum af völdum starfsmanna hans. Við meðferð vörunnar bar áfrýjanda fyrst og fremst að fara eftir því sem fram kom á farmbréfi, en þar var vörunni sem fyrr greinir lýst sem kaldri kjötvöru án þess að tekið væri fram hvernig með hana ætti að fara, þar á meðal við hvaða hitastig skyldi geyma hana. Ekki verður talið að þessi tilgreining hafi verið nægileg til þess að áfrýjandi hafi mátt gera sér ljóst að geyma yrði vöruna í kæli. Þá liggur ekki fyrir að vörubrettin fjögur, sem komið var fyrir í ókældu rými í vörugeymslu áfrýjanda, hafi verið merkt þannig að varan sem á þeim var skyldi sett í kæligeymslu. Loks er ósannað að meðferð áfrýjanda á matvælunum hafi, að þessu gættu, falið í sér brot á ákvæðum laga nr. 93/1995 um matvæli eða reglum, settum samkvæmt þeim.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á báðum dómstigum eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Jónar Transport hf., er sýkn af kröfu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000  krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2014.

I.

         Mál þetta, sem var dómtekið 3. október sl., er höfðað 30. september 2013 af Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík, gegn Jónar Transport hf., Kjalarvogi 7 til 15 í Reykjavík.

         Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi greiði sér 1.726.360 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. 11. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. janúar 2013 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

         Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.

II.

         Málavextir eru þeir að 7. febrúar 2011 gerðu stefndi og Sælkerinn ehf. með sér sérstakan flutningasamning þar sem stefndi tók að sér að sjá um heildarflutningaþjónustu til og frá landinu á aðföngum og sölu- og framleiðsluvörum Sælkerans ehf. Í samningnum var meðal annars kveðið á um að Sælkerinn ehf. ábyrgðist að upplýsingar sem hann gæfi starfsmönnum stefnda væru réttar og sannar. Í samningnum sagði að flutningsgjöld og flutningsskilmálar miðuðust við „Incoterms 2010“, almenna flutningaskilmála sem fram kæmu í farmbréfum eða farmskírteinum og „skilmála flutningasviðs SVÞ (Samtök verslunar og þjónustu) nema þegar annað er tilgreint eins og við landflutninga eða aðra flutninga erlendis“.

         Í nóvember 2012 annaðist stefndi flutning á kjötvöru á fimm vörubrettum með flugi frá Barcelona á Spáni. Á flugfarmbréfi kemur fram að sendandinn sé spænskt félag, Embotits Calet S.L., og að móttakandi þeirra sé Sælkerinn ehf. Þar var vörunni lýst með eftirfarandi hætti: „COLD MEATS (SERRANO HAM/CHORIZO) 3PX-120X80X158 1P-120X80X129 1P-120X80X80CM? Vol: 6,6340 m³.“ Í reit þar sem gert var ráð fyrir að flutningsfyrirmæli (e. Handling information) væru skráð stendur í farmbréfinu: „EXW FREIGHT COLLECT AS AGREED“. Ágreiningur er milli aðila hvort og þá hvernig brettin hafi verið merkt, sérstaklega með tilliti til þess hvort þeim ætti að koma fyrir í kæligeymslu. Aðilar virðast þó sammála um að slík merking hafi verið á einu brettanna.

         Vörurnar voru fluttar með flugfrakt til Keflavíkurflugvallar. Stefndi annaðist flutning vörusendingarinnar frá flugvellinum og kom henni fyrir í geymslu í vöruhúsi stefnda í Reykjavík. Eitt bretti, sem virðist hafa verið sérstaklega merkt, mun hafa verið sett í kæligeymslu, en fjórum var komið fyrir á ókældum stað í vöruhúsinu.

         Stefndi sendi Sælkeranum ehf. tilkynningu um sendinguna 21. nóvember 2012 þar sem þess var getið að um væri að ræða „COLD MEATS“. Stefndi annaðist enn fremur gerð tollskýrslu, dags. 21. nóvember 2012, vegna innflutningsins. Þar var vörunni lýst sem „PARMASKIN“ og „SALAMI“ og vörurnar flokkaðar í tollflokka fyrir annars vegar beinlaust kjöt og hins vegar pylsur.

         Mánudaginn 26. nóvember 2012 mun starfsmaður Sælkerans ehf. hafa ætlað að sækja kjötið. Þar sem fjögur bretti höfðu ekki verið geymd í kæligeymslu neitaði starfsmaðurinn að taka við vörunum. Hinn 27. sama mánaðar fyllti starfsmaður stefnda út tjónaskýrslu (e. Damage, Loss or Pilferage Report). Þar kemur fram að vörurnar, sem ekki voru geymdar í kæligeymslu, væru ónothæfar (e. „CONTAIN ON THESE FOUR PLL CAN NOT BE USED OR SOLD“). Þess var jafnframt getið í skýrslunni að hvergi hafi komið fram að geyma ætti vörurnar á köldum stað. Tjónaskýrsla þessi mun hafa verið send stefnanda.

         Í framhaldi af þessu var óskað eftir því við tollstjóra að vörunum yrði fargað. Þar sem þær hefðu verið fluttar inn „á tollkvóta“ var jafnframt óskað eftir því að hann yrði notaður fyrir nýja sendingu sem væri á leiðinni. Stefndi mun hafa fargað vörunum undir eftirliti tollstjóra.

         Sælkerinn ehf. var með farmtryggingu hjá stefnanda. Stefnandi greiddi félaginu bætur 4. desember 2012 vegna tjónsins. Námu bæturnar „samkvæmt mati“ 1.776.360 krónum, en Sælkerinn ehf. var látinn bera 50.000 krónur í eigin áhættu. Greiddar skaðabætur námu því 1.726.360 krónum.

         Með bréfi 4. desember 2012 fór stefnandi fram á að stefndi greiddi honum þá fjárhæð sem félagið hafði greitt Sælkeranum ehf. í bætur. Þar var því haldið fram að varan hefði verið „mishöndluð og því geymd við rangt hitastig í vöruhúsi“ stefnda. Í ódagsettu svari stefnda var endurkröfunni hafnað þar sem hvergi hafi komið fram í gögnum frá sendanda að „um hitastýrða vöru“ væri að ræða, nema á einu bretti af fimm.

         Stefnandi áréttaði ætlaða endurkröfu sína með bréfi 31. janúar 2013 og rökstuddi kröfugerð sína. Í svarbréfi 15. febrúar sama ár kom fram að afstaða stefnda væri óbreytt. Lögmaður stefnanda ítrekaði kröfuna að nýju með bréfi 14. júní 2013. Kröfunni var hafnað með bréfi lögmanns stefnda 12. júlí 2013.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi byggir á því að félagið hafi greitt Sælkeranum ehf. bætur að fjárhæð 1.726.360 krónur vegna tjóns á kældu kjöti á grundvelli farmtryggingar félagsins hjá stefnanda samkvæmt vátryggingarskírteini nr. 4864756 frá 10. júní 2013. Samkvæmt 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 öðlist stefnandi rétt Sælkerans ehf. á hendur stefnda að svo miklu leyti sem hann hefur greitt félaginu bætur. Með vísan til þess telur stefnandi sig hafa öðlast endurkröfurétt á hendur stefnda vegna tjóns á kjötinu. Byggir stefnandi aðild sína að málinu á framangreindum atvikum.

         Stefnandi telur sannað að tjónið hafi átt sér stað meðan kjötið var í vörslu stefnda. Vísar hann þar til viðurkenningar stefnda á því að hann hafi geymt fjögur bretti með umræddu kjöti í hillum í vöruhúsi sínu án kælingar, eins og fram komi í tjónaskýrslu stefnda. Þá liggi fyrir mat stefnda í sömu skýrslu að ekki sé unnt að nota kjötvörur á þessum fjórum brettum og selja vörurnar. Það sé því viðurkennt og óumdeilt að kælda kjötið hafi ekki verið geymt við lögbundið hitastig í vöruhúsi stefnda og að það hafi orðið fyrir altjóni sökum þess.

         Af hálfu stefnanda er vísað til þess að samkvæmt almennum reglum um skyldur og ábyrgð geymslumanns beri honum að varðveita geymsluhlut á þann hátt að hann verði ekki fyrir tjóni. Miðað sé við að geymslumaður skuli varðveita geymsluhlut með sama eða með sambærilegum hætti og ætla megi að góður og gegn maður myndi gera í hans sporum. Í því felist m.a. að honum beri að haga geymslunni í samræmi við lög og venjur. Geymslumaður beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem rekja megi til saknæmrar vanrækslu hans eða manna sem hann beri ábyrgð á samkvæmt almennum reglum.

         Stefnandi vísar til 13. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 til stuðnings kröfu sinni, en þar segir að matvæli skuli geyma þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Geymsluskilyrði skuli vera í samræmi við ákvæði sem sett séu með reglugerðum um geymslu matvæla. Samkvæmt reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli skuli þau matvæli sem geyma á í kæli eða framreiða köld geymd við 0-4°C, þannig að hitastig þeirra haldist við 0-4°C.

         Stefnandi dregur þá ályktun af framangreindu að samkvæmt íslenskum lögum eigi að geyma öll kæld matvæli, þar með talið þau matvæli sem mál þetta snúist um, við 0-4°C. Að öðrum kosti sé hætta á því að sjúkdómsvaldandi örverur fjölgi sér eða myndist í matvælunum sem geti skapað heilbrigðisáhættu.

         Með vísan til framangreinds byggir stefnandi á því að stefnda hafi borið að geyma umrætt kjöt, sem hann hafi tekið að sér að flytja fyrir Sælkerann ehf., við 0-4°C án tillits til þess hvort einhver fyrirmæli fylgdu matvælunum um meðferð þeirra, enda hafi stefndi vitað eða mátt vita að um kæld matvæli var að ræða sem meðhöndla ætti í samræmi við framangreindar reglur.

         Í því sambandi vísar stefnandi til lýsingar á vörunni í flugfarmbréfi, tilkynningar frá stefnda til Sælkerans ehf. 21. nóvember 2012 og tollskýrslu sem stefndi hafi gert fyrir Sælkerann ehf. sem tollmiðlari, en í öllum þessum gögnum komi skýrt fram að um kælt kjöt sé að ræða (á ensku „COLD MEATS“) og þar af leiðandi matvöru sem háð sé geymslu við ákveðið lögbundið hitastig.

         Stefnandi vísar einnig til þess að stefndi sé sérfræðingur í geymslu matvæla. Því hafi félagið mátt vita hvernig geyma ætti kældar kjötvörur auk þess sem stefnandi vísar til venju í viðskiptum þessara aðila, en stefndi hafi margoft tekið að sér að flytja sambærilegar vörur fyrir Sælkerann ehf. áður en þetta tilvik hafi komið upp. Þá verði ekki horft fram hjá því að stefndi hafi tekið að sér að tollflokka kjötið, sem leiði til þess að hann vissi eða mátti vita um hvers konar matvæli væri að ræða.

         Með vísan til framangreinds er á því byggt af hálfu stefnanda að rekja megi tjónið á hinu kælda kjöti til rangrar og ófullnægjandi geymslu þess í vöruhúsi stefnda frá 21. til 26. nóvember 2012. Á þessu tjóni beri stefndi skaðabótaábyrgð eftir almennum reglum skaðabótaréttar og þeim sérreglum sem gildi í íslenskum rétti um skyldur og ábyrgð geymslumanns. Samkvæmt því krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 1.726.360 krónur í skaðabætur, en það sé sú fjárhæð sem stefnandi hafi greitt Sælkeranum ehf. í bætur vegna tjónsins.

         Sé ekki fallist á framangreinda málsástæðu byggir stefnandi á því að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóninu á grundvelli 105. gr., sbr. 118. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir, enda hafi stefndi tekið að sér sem samningsbundinn flytjandi að flytja matvælin með flugi frá Barcelona til Reykjavíkur og afhenda matvælin í vörumiðstöð sinni í Reykjavík. Í því sambandi sé vísað til ofan- og neðangreindra sjónarmiða stefnanda, eftir því sem við eigi.

         Stefnandi mótmælir þeim málsástæðum, sem stefndi hafi teflt fram í bréfaskiptum við stefnanda, sem röngum og ósönnuðum.

         Þannig mótmælir hann því að skylda hvíli á sendanda/framleiðanda matvæla að skrá sérstaklega með skýrum hætti flutningsfyrirmæli til handa flytjanda í flugfarmbréf, ef matvælin þurfa sérstaka meðhöndlun og að skortur á slíkum fyrirmælum leiði til þess að flytjandi losni undan þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem á honum hvíli samkvæmt lögum og reglum um meðferð og geymslu matvæla. Enga slíka reglu sé að finna í lögum nr. 60/1998 um loftferðir. Þvert á móti mæli loftferðalög fyrir um hlutlæga skaðabótaábyrgð flytjanda á farmi í 105. gr. laganna með nánar tilteknum fjórum undantekningum. Engin af þessum undantekningum eigi við í þessu máli. Stefnandi telur þetta leiða til þess að stefndi beri fulla ábyrgð á tjóninu.

         Stefnandi kveður það einnig rangt sem stefndi haldi fram að ekki hafi verið upplýst að vörusendingin innihéldi kældar matvörur. Þá verði allir þeir sem geymi matvæli að fara eftir ákvæðum laga nr. 93/1995 um matvæli og reglum sem sett séu á grundvelli þeirra laga, án tillits til þess hvort þeim hafi verið gefin einhver flutningsfyrirmæli eða hvernig þau séu merkt.

         Stefnandi áréttar að samkvæmt 13. gr. laga nr. 93/1995 skuli geyma matvæli þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt og að geymsluskilyrði skuli vera í samræmi við ákvæði sem sett séu með reglugerðum um geymslu matvæla. Þá segi þar enn fremur að eigandi eða umráðamaður flutningatækis sé ábyrgur fyrir því að tækið uppfylli þær kröfur sem settar séu um flutning matvæla. Af þessum ákvæðum verði ekki annað ráðið að mati stefnanda en að öllum þeim sem flytji og geymi matvæli í tengslum við flutning beri skylda til þess að fylgja þeim reglum sem í gildi séu hér á landi um meðferð og geymsluskilyrði matvæla.

         Í ljósi þess að stefndi hafi vitað eða mátt vita að um kældar matvörur væri að ræða telur stefnandi að honum hafi borið samkvæmt 13. gr. laga um matvæli að fara eftir fyrrgreindri reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, sbr. reglugerð nr. 506/2010. Undan þessari skyldu geti stefndi ekki losnað með því einu að vísa til þess að flytjandi hafi ekki fengið einhver óskilgreind flutningsfyrirmæli eða að varan hafi ekki verið merkt eða pökkuð á einhvern óskilgreindan hátt.

         Stefnandi mótmælir því alfarið sem ósönnuðu að hið kælda kjöt hafi ekki verið í viðeigandi umbúðum og að venja sé að nota einhverjar aðrar umbúðir utan um þessi matvæli.

         Þá bendir stefnandi á að stefndi gefi sig út fyrir að vera sérfræðingur í flutningum og geymslu, enda reki hann umfangsmikla flutninga- og geymslustarfsemi, þar með talið sérstaka kæligeymslu. Slíkur sérfræðingur eigi að vita að þegar hann tekur við matvælum sem séu merkt sem kælivara verði að meðhöndla þau í samræmi við gildandi lög og reglur.

         Í þessu sambandi leggur stefnandi áherslu á að stefndi hafi séð um að tollafgreiða kjötvörurnar sem tollmiðlari og þar með ákveðið hvaða tollflokkum þær tilheyrðu. Slík ákvörðun kalli eðli málsins samkvæmt á rannsókn á vörunni og þar af leiðandi innihaldi vörusendingarinnar. Stefndi hafi því vitað fullvel að um kælivöru væri að ræða sem geyma hafi átt við 0 til 4°C eins og lög og reglur mæli fyrir um.

         Af hálfu lögmanns stefnda hafi einnig komið fram að eitt bretti af fimm hafi verið merkt með litlum miða (kælivara) og hafi hann því reiknað með því að önnur bretti þyrftu enga sérstaka meðhöndlun. Stefandi kveður þessa fullyrðingu ekki studda neinum gögnum og mótmælir henni sem ósannaðri. Sé þetta hins vegar rétt telur stefnandi ljóst að ganga verði út frá því að einhver á vegum stefnda hafi merkt þetta eina bretti á þennan hátt, enda hafi enginn á vegum Sælkerans ehf. komið nálægt þessum fimm brettum meðan á flutningi þeirra stóð. Þá telur stefnandi óskiljanlegt hvernig stefndi hafi komist að þeirri niðurstöðu að hin brettin, sem merkt hafi verið „store in a cool and dry place“, hafi ekki átt að geyma á sama hátt og það bretti sem merkt hafi verið sem kælivara, sérstaklega þegar haft sé í huga að öll skjöl sem gefin hafi verið út vegna allra fimm brettanna hafi borið það með sér að kælt kjöt væri á öllum fimm brettunum. Að sjálfsögðu hefði það átt að leiða til þess að þau fengju öll sömu meðferð.

         Um stefnukröfuna segir í stefnu að á vörureikningi komi fram að altjón hafi orðið á matvörum sem lýst væri í átta fyrstu liðum reikningsins. Þá hafi orðið altjón á hluta vöru sem lýst sé í lið númer níu á reikningnum eða 38,83 kg af 68,83 kg. Um sé að ræða tjón á eftirtöldum vörum:

Tilvísun;

Magn;

Vörulýsing;

Þyngd/kg;

Kílóverð/EUR;

Kaupverð/EUR;

2212

45

Chorizo Ring 200g mild

180

5,20

936

2213

45

Chorizo Ring 200g spicy

180

5,20

936

2216

3

Chorizo straight 160g mild

9,60

5,88

56,45

2217

3

Chorizo straight 160g spicy

9,60

5,88

56,45

2415

50

Fuet Extra 160g w. pepper

160

7,50

1.200

2416

50

Fuet Extra 160g

160

5,56

889,60

2417

50

Fuet Extra 160g w. herbs

160

7,50

1.200

2418

50

Fuet Extra 160g w. paprika

160

7,50

1.200

3110

7

Cured Lon „lamb“ 1/1

38,83 (ónýtt)

9,61

373,16

Samtals

6.847,66

         Samkvæmt þessu sé verðmæti hinnar skemmdu vöru 6.847,66 evrur. Við uppgjör bóta til Sælkerans hafi verið miðað við gengi evru í reit 21 í tollskýrslu, þ.e. 235,8286 krónur auk 10% vegna hagnaðartaps eða nánar tiltekið: 6.847,66 EUR x gengi 235,8286 x 10% hagnaðartap = 1.776.361 kr.

         Eins og fram komi á tjónskvittun hafi verið miðað við að verðmæti vörunnar væri 1.776.360 krónur og að frádreginni eigin áhættu Sælkerans ehf. að fjárhæð 50.000 kr. hafi stefnandi greitt Sælkeranum ehf. 1.726.360 kr. í bætur vegna tjónsins. Stefnukrafan sé byggð á þeirri fjárhæð.

         Stefnandi kveður dráttarvaxtakröfu sína reista á 9. gr. og 1. mgr. 6. gr., sbr. 11. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Upphafstími dráttarvaxta, 4. janúar 2013, sé miðaður við mánuð eftir að upplýsingar um tjónsatvik og fjárhæð bóta hafi verið lagðar fram með bréfi 4. desember 2012. Þá sé krafa um málskostnað reist á 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi kveðst ekki mótmæla aðild stefnanda sem hafi greitt Sælkeranum ehf. hið meinta tjón. Stefndi tekur þó fram að sú vernd sem farmtryggingar tryggingarfélaga veiti viðskiptavinum þeirra sé almennt meiri en sú sem farmeigendur eigi gagnvart farmflytjanda. Tryggingarfélag öðlast eðlilega aldrei meiri rétt en sá sem félagið leiði rétt sinn frá.

         Stefndi reisir sýknukröfu sýna á því að hann hafi hagað meðferð farmsins að öllu leyti eðlilega meðan hann hafi verið í hans vörslum og að hann hafi sinnt geymslumannsábyrgð sinni í samræmi við samning aðila þar að lútandi. Þurfi vara einhverja sérstaka meðhöndlun hvíli að hans sögn sú skylda á sendanda/móttakanda hennar að upplýsa farmflytjanda um það, þ.e. að veita fullnægjandi fyrirmæli um geymslu vörunnar. Það eigi t.d. við ef varðveita á vöruna við ákveðið hitastig. Í þessu sambandi bendir stefndi á að það hafi verið sendanda sem framleiðanda ljóst sem og móttakanda sem kaupanda að vörusendingin yrði geymd í vöruhúsi stefnda.

         Stefndi byggir á því að þar sem stefnandi hafi ekki látið fylgja vörunni nein flutningsfyrirmæli verði hann sjálfur að bera ábyrgð á hinu meinta tjóni sínu. Umrædd vara hafi verið flutt og varðveitt með almennum og hefðbundnum hætti í vöruhúsi stefnda. Stefndi hafi margoft flutt sambærilegar vörur fyrir stefnda, en í fyrri tilvikum hafi verið rétt fyrirmæli á farmbréfi um meðhöndlun vörunnar.

         Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað, að þótt hann sé reyndur flutningsaðili með sérþekkingu á varðveislu vöru, eins og t.d. matvælum, þá hvíli einhver skylda á honum að kanna sérstaklega hvaða vörur viðskiptavinir hans flytji til og frá landinu, umfram það að fylgja fyrirmælum sendanda hverju sinni. Hafi stefndi allan rétt til, og í rauninni hvíli á honum sú skylda, að treysta á að þau fyrirmæli séu rétt og gild sem honum séu gefin við flutninginn. Engin frekari skylda hvíli á stefnda. Það standi farmsendanda/móttakanda nær að veita fullnægjandi upplýsingar um farminn, m.a. í því skyni að tryggja að hann hljóti rétta meðhöndlun við flutning og geymslu og verði þar af leiðandi ekki fyrir tjóni, enda sá aðili sem þekki vöruna best.

         Stefndi mótmælir því einnig að það sé viðurkennt og óumdeilt að varan hafi verið skemmd, eða að hún hafi skemmst í vöruhúsi hans. Stefndi mótmælir því einnig að varan hafi ekki verið geymd við lögbundið hitastig í vöruhúsi stefnda. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir þessum fullyrðingum sínum en stefndi kveður þá sönnun ekki hafa tekist. Stefnandi telur að hann hafi ekki lagt fram nein gögn til sönnunar þessum fullyrðingum sínum.

         Af hálfu stefnda er þó viðurkennt að umrædd vara hafi ekki verið sett í kæli þegar henni hafi verið komið fyrir í vöruhúsi stefnda. Því er hins vegar mótmælt að stefndi hafi metið ástand vörusendingarinnar á þann veg að ekki hafi verið unnt að nota vörurnar eða selja þær. Það hafi aaamið fyrir í vöruhúsi stefnda.r ki verið sett a hverju sinni.n gi t.d. við ef varðveita eigi vöruna við að sjálfsögðu verið mat stefnanda sjálfs sem hafi óskað eftir því að vörusendingunni yrði fargað þar sem henni hafi verið komið fyrir með almennum hætti í vöruhúsi stefnda. Stefndi kveðst einungis hafa farið að skýrum fyrirmælum stefnanda um förgun vörunnar enda ekki í verkahring stefnda að leggja mat á það hvort vara sé skemmd eða uppfylli kröfur stefnanda.

         Stefndi hafnar því alfarið að starfsemi hans falli undir ákvæði laga nr. 93/1995 um matvæli. Stefnandi vísi til þess að stefndi hafi gerst brotlegur við 13. gr. laganna er fjalli um geymslu matvæla. Stefndi tekur fram að ákvæðið leggi aðeins skyldu á framleiðanda eða eftir atvikum dreifanda vöru. Að mati stefnda sé ljóst af skýru orðalagi ákvæðisins að flutningsaðili sé ekki ábyrgur samkvæmt lögunum. Ábyrgð á geymslu vörunnar hvíli þvert á móti aðeins á framleiðanda eða dreifanda vörunnar.

         Stefndi tekur fram að í stefnu segi að stefnda hafi borið að geyma umræddan varning við 0 til 4 gráður með vísan til reglugerðar nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti. Þessu mótmælir stefndi, ekki síst með vísan til flugfarmbréfs milli sömu aðila um sams konar vöru, sem stefndi hafi lagt fram, en þar séu skýr fyrirmæli um að geyma eigi vöruna við 2 til 8 gráður. Stefndi vísar til þess að hér beri augljóslega mikið í milli.

         Stefndi byggir á því að Sælkerinn ehf., sem dreifandi vörunnar, hafi verið ábyrgur fyrir geymslu hennar, og á grundvelli þeirrar ábyrgðar hafi honum borið skylda til þess að veita stefnda, sem flutningsaðila, réttar upplýsingar um vöruna og geymsluskilyrði hennar. Stefnanda sé ekki stætt á því að flytja ábyrgð Sælkerans ehf. samkvæmt matvælalögum yfir á stefnda, enda eigi slíkt sér enga stoð í þeim lögum. Eina skyldan sem hvílt hafi á stefnda hafi verið að fylgja fyrirmælum um geymslu samkvæmt samningi aðila, sem hann og hafi gert. Með sama hætti hafnar stefndi alfarið tilvísun stefnanda til reglugerðar nr. 103/2010.

         Stefndi vísar til lýsingar á farminum í flugfarmbréfi þar sem orðrétt hafi sagt: „COLD MEATS (SERRANO HAM/CHORIZO) 3PX-120X80X158 1P-120X80X129 1P-120X80X90CM? Vol. 6,6340 m3.2.“ Stefndi fullyrðir að ekki skipti máli hvernig lýsingin á farminum sé í farmbréfinu, enda komi þar einfaldlega engin flutningsfyrirmæli fram. Í slíkum fyrirmælum þurfi að koma fram með nákvæmum hætti það hitastig sem eigi að geyma farminn við, sé um slíkt sé að ræða.

         Stefndi tekur fram að farmurinn hafi komið á fimm brettum sem hvert um sig hafi verið plastað þétt. Engar merkingar hafi verið sjáanlegar nema á einu brettanna, þar sem skýr fyrirmæli hafi verið gefin um geymslu farmsins. Hin fjögur brettin hafi ekki verið merkt með neinum hætti. Stefndi staðhæfir að umrædd merking með fyrirmælum á einu brettanna hafi komið þannig til stefnda, enda merki stefndi aldrei vörur.

         Stefndi mótmælir því að ljósmyndir, sem stefnandi hafi lagt fram, hafi eitthvert sönnunargildi, þar sem augljóslega sé um að ræða ljósrit af miða sem stækkaður hafi verið. Um það vísar stefndi til frumrits og ljósrits af sams konar miða sem stefndi hafi lagt fram. Einnig hafi mynd á bls. 2 á sama dómskjali stefnanda ekkert sönnunargildi og mótmælir stefndi því alfarið að umræddar myndir séu af þeim farmi sem hér um ræði.

         Stefndi hafnar því enn fremur alfarið að 105. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 eigi við í þessu máli. Því til stuðnings vísar stefndi til þess að það liggi fyrir að hið ætlaða tjón eigi að hafa orðið við geymslu vörunnar í vöruhúsi stefnda en ekki við flutning hennar. Samkvæmt orðalagi 1. og 2. mgr. 105. gr. laga nr. 60/1998 gildi ákvæðið þegar tjón verður meðan á loftflutningi stendur, eða ef flutningur á sér stað á landi, sjó eða skipgengum vatnaleiðum utan flugvallar, samkvæmt flutningssamningi, í þeim tilgangi að hlaða, afhenda eða áframsenda farm.

         Því er haldið fram af hálfu stefnda að almennir þjónustuskilmálar Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) gildi um varðveislu farmsins. Í 2. gr. þeirra komi fram að skilmálarnir gildi um hvers konar þjónustu sem aðildarfélag SVÞ eða dótturfélög þess taki að sér að því marki sem þessi þjónusta falli ekki undir flutning samkvæmt farmbréfum félagsins. Stefndi sé dótturfélag Samskipa, sem sé aðili að SVÞ, og því gildi skilmálarnir í lögskiptum aðila þessa máls, enda ljóst að ekki hafði verið samið um annað milli þeirra. Þá sé vísað til skilmálanna í samningi aðila 7. febrúar 2011.

         Stefndi vísar til þess að í grein 5.4 í framangreindum þjónustuskilmálum sé fjallað um ábyrgðarleysisástæður. Þar segi að félagið beri ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á neins konar tjóni sem rekja megi m.a. til (i) rangra eða ófullnægjandi upplýsinga frá viðskiptamanni eða mönnum á hans vegum eða (ii) ófullnægjandi eða gallaðra umbúða eða merkinga á vöru. Með vísan til þessara ákvæða krefst stefndi þegar sýknu af öllum kröfum stefnanda þar sem stefnandi hafi veitt ófullnægjandi upplýsingar um vöruna og að umbúðir þeirra hafi verið merktar með ófullnægjandi hætti.

         Stefndi kveður engin sérstök fyrirmæli hafa verið gefin um meðhöndlun vörunnar, hvorki af sendanda hennar né móttakanda. Stefnandi hafi haldið því fram að stefndi hafi átt að vita um eðli vörunnar og nauðsynleg geymsluskilyrði hennar með vísan til þess að stefndi hafi annast tollafgreiðslu vörunnar og hafi þar af leiðandi átt að vita að hana ætti að geyma í kæli. Stefndi sé reyndur flutningsaðili og felist starfsemi hans í flutningi á ýmiss konar varningi milli landa. Það sé hins vegar ekki þar með sagt að stefnda beri að geta sér til um það hvernig meðhöndla eigi vörur. Það standi farmsamningshafa nær að leiðbeina stefnda um það hvernig meðhöndla eigi vöru. Stefndi bendir á að það geti beinlínis verið skaðlegt og falið í sér brot gegn farmsamningi meðhöndli flutningsaðili vöru með öðrum hætti en fram komi í farmbréfi. Af þeim sökum séu allar vörur meðhöndlaðar með sama hætti, nema farmsamningshafi gefi sérstök fyrirmæli um annað. Stefndi tekur í þessu sambandi fram að sé vara t.d. flutt í sérstökum kælikössum eða með sérstökum kælibúnaði í umbúðum skemmist hún ef henni er komið fyrir í kæli.

         Stefndi byggir á því að tollskýrslugerð og flutningur séu aðskildir þættir í starfsemi stefnda og að starfsmenn ólíkra deilda sjái um þessi verkefni. Stefndi bendir sérstaklega á það að engin skylda hvíli á tolladeild til að sjá til þess að vörur séu geymdar á réttan hátt í vöruhúsi. Þess utan komi hvergi fram á þeim vörureikningum eða öðrum skjölum í tengslum við tollun vörunnar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu, að vörurnar ætti að geyma í kæli. Fullyrðingum þar að lútandi sé alfarið mótmælt af hálfu stefnda. Í öllu falli sé það ekki í verkahring tollafgreiðsludeildar að fylgjast með verkum flutningsdeildar, enda sé það almennt þannig að eigendur viðkvæms varnings setji sérstök fyrirmæli í farmbréf um varðveislu vörunnar. Varan hafi verið tollafgreidd í samræmi við fyrirmæli innflytjandans en stefndi getur þess að ekki komi fram á reikningunum að um kjötvöru sé að ræða eða að geyma þurfi vöruna við ákveðið hitastig.

         Stefndi mótmælir enn fremur tilvísun stefnanda til umræddrar vöru í stefnu sem hins „kalda kjöts“ sem villandi framsetningar.

         Stefndi tekur fram að í stefnu mótmæli stefnandi því sem ósönnuðu að vörur Sælkerans ehf. hafi ekki verið í viðeigandi umbúðum. Af þessu tilefni tekur stefndi fram að hann geri ekki athugasemdir við umbúðir varanna sem slíkar, heldur við það að merkingar hafi skort.

         Af hálfu stefnda er því mótmælt sem algerlega ósönnuðu að skýrt hafi komið fram á merkimiðum utan á vörunum að um kælivörur væri að ræða. Það eina sem komið hafi fram á þeim hafi verið merking á einu brettanna um að varan ætti að fara í kæli.

         Stefndi gerir að þessu tilefni sérstaka athugasemd við gagnaframlagningu stefnanda á dómskjali númer fjögur. Samkvæmt skjalaskrá stefnanda sé um að ræða „dæmi um merkingar á pökkum“. Stefnandi hafi í málatilbúnaði sínum vísað til þess að vörur Sælkerans ehf. hafi verið merktar „store in a cool and dry place“ (ísl. geymist á köldum og þurrum stað) og að þar af leiðandi hafi starfsmenn stefnda átt að koma farminum fyrir í kæligeymslu í vöruhúsi sínu.

         Stefndi bendir í fyrsta lagi á það að mynd sem sýni „dæmi um merkingar á pökkum“ nægi ekki sem sönnun fyrir því hvernig vörurnar hafi verið merktar í umrætt sinn. Ekkert bendi til þess að um hafi verið að ræða vörur úr þessari tilteknu sendingu, og raunar hafi stefnandi ekki haldið því fram. Þá virðist sem umræddur límmiði sé á einni hlið þeirra kassa sem voru utan um vörur stefnanda, en ekkert liggi fyrir um það hvernig þeim hafi verið staflað upp á þeim brettum sem skemmdust. Þar af leiðandi liggi ekkert fyrir um það hvort viðkomandi límmiðar hafi snúið út á brettunum og verið sjáanlegir.

         Þessu til frekari stuðnings bendir stefndi á að í tjónstilkynningu komi fram að vörurnar hafi verið vafðar í plast og að vörusendingunni hafi ekki fylgt nein fyrirmæli um að henni ætti að koma fyrir á köldum stað. Þá sé sú mynd sem lögð sé fram af hálfu stefnanda af merkingum afar villandi þar sem hún sýni ekki rétta stærð þeirra. Hið rétta sé að áletrunin um að vöruna eigi að geyma á köldum og þurrum stað sé skrifuð mjóum og smáum stöfum og sé lítt áberandi, auk þess sem stafirnir séu um það 1 til 1,5 millimetrar á hæð. Stefndi vekur enn fremur athygli á því að þegar kössum hafi verið staflað á vörubretti til flutnings, þá sé gengið frá þeim með því að þaulvefja plastfilmu utan um brettið til þess að kassarnir haldist á réttum stað meðan á flutningi stendur. Mjög erfitt, og í flestum tilvikum ómögulegt, sé að greina texta í gegnum plastið, sérstaklega þegar um svo fíngert og óskýrt letur sé að ræða, eins og í þessu tilviki. Að lokum heldur stefndi því fram að afgreiðslugeymsla stefnda myndi almennt geta talist kaldur og þurr staður.

         Stefndi reisir sýknukröfu sína enn fremur á því að stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess að stefndi eða starfsmenn hans hafi við flutning og meðhöndlun farmsins sýnt af sér saknæma háttsemi, sem sé grundvöllur skaðabótaábyrgðar samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Þvert á móti þyki einsýnt að starfsmenn stefnda hafi í einu og öllu fylgt þeim fyrirmælum sem gefin hafi verið um meðhöndlun farmsins. Ekkert sé komið fram í máli þessu sem sýni fram á hið gagnstæða. Þessu til stuðnings bendir stefndi á að brettið sem merkt hafi verið sérstaklega sem kælivara hafi verið geymt í kæli, sem sýni að starfsmenn stefnda hafi verið meðvitaðir um það að vörur merktar með leiðbeiningum um sérstaka meðhöndlun fengju hana. Aðdróttanir stefnanda um að það hafi verið starfsmenn stefnda sem hafi merkt þetta tiltekna bretti séu með öllu haldlausar, enda sé það ekki í verkahring starfsmanna stefnda að merkja vörur sem þeir flytji. Stefndi fullyrðir að umrædd merking hafi verið til staðar þegar hann hafi tekið á móti farminum frá sendanda hennar.

         Stefndi byggir á því að skylda starfsmanna hans nái ekki lengra en svo að fylgja þeim leiðbeiningum og merkingum sem settar séu, og hafi stefnandi ekki bent á neinar reglur því til stuðnings að starfsmenn stefnda hafi átt að hegða sér með öðrum hætti.

         Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið kveðst stefndi fara fram á sýknu af öllum kröfum stefnanda.

         Til vara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð verulega. Því til stuðnings vísar stefndi til greinar 5.1 í almennum þjónustuskilmálum SVÞ en þar komi fram að reikna skuli fjárhæð bóta vegna taps eða skemmda á vöru eftir verðmæti hennar samkvæmt vörureikningi. Stefnandi hafi lagt fram vörureikning. Samkvæmt honum hafi verðmæti vörunnar verið samtals 6.847,66 evrur. Stefnandi geri kröfu um að verðmæti farmsins í evrum verði umreiknað í íslenskar krónur samkvæmt tollverðsgengi vörunnar. Þeirri forsendu sé harðlega mótmælt af hálfu stefnda.

         Stefndi bendir á að á heimasíðu tollstjóra sé að finna leiðbeiningar um útfyllingu einstakra reita, dálka og lína aðflutningsskýrslu. Samkvæmt þeim sé tollverðsgengi fundið út með því að deila upphæð í reit 27 á tollskýrslu (tollverð) með upphæð í reit 22 á tollskýrslu (Fob-verð í erl. mynt). Með tollverði sé átt við samtölu fjárhæða í reitum 23 (Fob-verð í ísl. krónum), 24 (flutningskostnaður) og 26 (vátrygging). Fob-verð í erlendri mynt er heildarverð sendingarinnar í erlendri mynt, en Fob-verð í íslenskum krónum sé fundið út með því að margfalda hið erlenda verð við gengi í reit 18 (gengi) í tollskýrslu.

         Stefndi kveður hið rétta verðmæti vörunnar vera fundið út með því að margfalda verðmæti vörunnar í erlendum gjaldmiðli við gengi. Þeir þættir sem teknir séu með þegar tollverðsgengi vöru sé reiknað út, þ.e. flutnings- og vátryggingarkostnaður, falli ekki undir það að vera verðmæti vöru skv. vörureikningi. Stefnandi hafi væntanlega fengið það endurgreitt sem hann hafi innt af hendi til tollyfirvalda við förgun á vörunum.

         Sé tekið mið af miðgengi 21. nóvember 2013, þegar komutilkynning hafi verið send til móttakanda, telur stefndi rétta kröfufjárhæð vera: 6.847,66 x 162,45 = 1.112.402 krónur. Samkvæmt þessu sé Sælkerinn ehf. væntanlega búinn að fá hið ætlaða tjón ofbætt frá stefnanda málsins.

         Stefnandi geri enn fremur kröfu um bætur fyrir 10% hagnaðartap. Stefndi byggir á því að í grein 5.3 í almennum þjónustuskilmálum SVÞ komi fram að bótaábyrgð nái ekki undir neinum kringumstæðum yfir óbeint eða afleitt tap eða ágóðatap. Kröfu um bætur fyrir hagnaðartap sé því alfarið hafnað. Með vísan til framangreinds geti krafa stefnanda um bætur ekki orðið hærri en sem nemur 1.112.402 krónum.

         Að lokum hafnar stefndi kröfu stefnanda um dráttarvexti frá 4. janúar 2013 með öllu. Skýrt komi fram í grein 5.6 í almennum þjónustuskilmálum SVÞ að ekki skuli koma til greiðslu vaxta af kröfum á hendur félaginu fyrr en frá uppkvaðningu dóms. Stefndi byggir á því að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu séu frávíkjanleg. Fari svo ólíklega að dómurinn fallist ekki á gildi umrædds ákvæðis sé upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt þar sem krafan hafi ekki verið rökstudd með neinum hætti fyrr en í stefnu. Þar vísar stefndi til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

         Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar um sök, sönnun og sönnunarbyrði. Þá vísar hann til almennra reglna flutninga-, kröfu- og skaðabótaréttar eftir því sem við eigi og almennra þjónustuskilmála Samtaka verslunar og þjónustu. Stefndi vísar einnig til 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi kveður kröfu sína um málskostnað styðjast við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

         Eins og rakið hefur verið greiddi stefnandi Sælkeranum ehf. stefnufjárhæðina í skaðabætur vegna skemmda á vörusendingu til félagsins meðan hún var í vörslu stefnda. Stefnandi telur sig hafa öðlast við það rétt tjónþola á hendur stefnda með vísan til 22. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði þess að vátryggingafélag öðlist slíkan rétt er að tjónvaldur beri skaðabótaábyrgð á tjóni sem félagið hefur bætt.

         Í tjónaskýrslu 27. nóvember 2012, sem starfsmaður stefnda ritaði, er staðhæft að vörur á fjórum brettum af fimm séu ónothæfar eftir að þeim hafði verið komið fyrir í ókældri vörugeymslu stefnda. Stefndi fargaði síðan þessum vörum að beiðni stefnanda. Um var að ræða kjötvörur sem geyma þurfti í kæli til að þær héldu æskilegum gæðum í tilsettan tíma. Kjötið var ekki geymt í kæli í að minnsta kosti fimm sólarhringa. Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að eftir það hafi kjötvörurnar ekki lengur verið hæfar til almennrar sölu. Ber því að fallast á að um altjón hafi verið að ræða eins og stefnandi heldur fram.

         Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefnda í fyrsta lagi á hlutlægri ábyrgðarreglu í 105. gr. loftferðalaga nr. 60/1998, sbr. lög nr. 88/2004. Ákvæðið er í X. kafla laganna sem fjallar um loftflutninga. Ákvæði kaflans gilda um alla flutninga í loftfari á farþegum, farangri og farmi gegn greiðslu, sbr. 1. mgr. 86. gr. laganna. Í 1. mgr. 105. gr. kemur fram að flytjandi sé ábyrgur fyrir tjóni sem hlýst af því ef farmur eyðileggst, glatast eða skemmist meðan á loftflutningi stendur. Ábyrgðarregla þessi tekur ekki til flutnings á landi, á sjó eða eftir skipgengum vatnaleiðum sem eru utan flugvallar, sbr. 1. málslið 3. mgr. 105. gr. Í 3. mgr. er þó sett sérstök sönnunarregla vegna tjóns sem verður við flutning sem á sér stað samkvæmt flutningssamningi í þeim tilgangi að hlaða, afhenda eða áframsenda farm. Er þá tjónsatburður talinn hafa átt sér stað í loftflutningi nema annað sannist. Ágreiningslaust er að tjónið hafi ekki átt sér stað við loftflutning heldur við geymslu farmsins í vörugeymslu stefnda utan flugvallar. Sú hlutlæga ábyrgðarregla sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 105. gr. loftferðalaga kemur af þeim sökum ekki til álita.

         Eins og rakið hefur verið gilti samningur frá 7. febrúar 2011 um þjónustu stefnda við Sælkerann ehf. og lögskipti þeirra að öðru leyti. Vikið er að efni þessa samnings í kafla II hér að framan. Í samningnum er tekið fram að flutningsskilmálar eigi meðal annars að taka mið af Incoterms 2010 og „skilmála flutningasviðs SVÞ (Samtök verslunar og þjónustu)“. Aðilar hafa ekki borið fyrir sig ákvæði Incoterms 2010. Stefndi ber hins vegar fyrir sig skilmála sem bera yfirskriftina „SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu / Almennir þjónustuskilmálar“. Í upphafi skilmálanna segir eftirfarandi: „„Félagið“, sem er aðili að flutningasviði SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu býður viðskiptamönnum sínum upp á fjölþáttaflutning og flutning frá höfn til hafnar samkvæmt öllum skilmálum, skilyrðum og undanþágum sem fram koma í flutningsskilmálum félagsins, sem eru meðal annars að finna á farmbréfum þess. Jafnframt býður félagið upp á aðra þjónustu, sem ekki fellur innan fjölþáttaflutnings og flutnings frá höfn til hafnar, en um þá þjónustu skulu eftirfarandi almennir þjónustuskilmálar gilda.“ Af þessu má ráða að um er að ræða skilmála flutningssviðs Samtaka verslunar og þjónustu sem vísað er til í samningnum 7. febrúar 2011. Með fyrirvaralausri undirritun samningsins gengust samningsaðilar, sem báðir starfa á sviði verslunar og þjónustu, undir framangreinda skilmála sem ætlast mátti til að þeir kynntu sér við samningsgerðina.

         Í 1. gr. framangreindra skilmála eru ýmis hugtök skilgreind. Þar kemur fram að þjónusta samkvæmt skilmálunum taki meðal annars til vörugeymslu. Í 2. gr. skilmálanna, sem fjallar um gildissvið þeirra, segir að þeir skuli gilda um hvers konar þjónustu sem félagið eða dótturfélög þess taka að sér fyrir viðskiptamann að því marki sem slík þjónusta fellur ekki undir flutning samkvæmt farmbréfum félagsins, ófrávíkjanlegum lögum eða öðrum skilmálum félagsins sem sérstaklega hefur verið samið skriflega um að gilda skuli um réttarsamband aðila. Því hefur þegar verið hafnað að ábyrgðarregla loftferðalaga taki til tjónsins. Þá hefur því ekki verið borið við að aðrir skilmálar, sem hér er vísað til, gangi framar umræddum skilmálum. Ber því að ganga út frá því að þeir hafi gilt um geymslu stefnda á farminum uns Sælkerinn ehf. vitjaði hans.

         Vörurnar sem skemmdust meðan þær voru í vörslu stefnda voru matvæli. Um framleiðslu og dreifingu á matvælum er fjallað í lögum nr. 93/1995 um matvæli. Tilgangur laganna er að tryggja, eftir því sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla, sbr. 1. gr. laganna. Fram kemur í skilgreiningum í 4. gr. laganna að með dreifingu sé átt við hvers konar flutning, framboð og afhendingu, þar með talið innflutning, útflutning og sölu. Sérstaklega er tekið fram að hér sé einnig átt við geymslu og annað sem tengist dreifingu. Í 13. gr. laganna segir að matvæli skuli geyma þannig að þau verði ekki fyrir skemmdum eða spillist á annan hátt. Þá skuli geymsluskilyrði vera í samræmi við ákvæði sem sett eru með reglugerðum um geymslu matvæla. Þar kemur enn fremur fram að framleiðandi eða eftir atvikum dreifandi sé ábyrgur fyrir geymslu vörunnar. Þá er þar mælt fyrir um að eigandi eða umráðandi flutningatækis sé ábyrgur fyrir því að tækið uppfylli þær kröfur sem settar séu um flutning matvæla. Nánari fyrirmæli eru um geymslu matvæla í 2. gr. a í reglugerð nr. 103/2010, sbr. reglugerð nr. 506/2010. Þar segir að matvæli, sem geyma á í kæli eða framreiða köld, skuli kæla svo fljótt sem auðið er og geyma við 0 til 4°C, þannig að hitastig þeirra haldist á því bili.

         Sú skylda hvílir á matvælafyrirtæki, eins og Sælkeranum ehf., að veita farmflytjanda fullnægjandi upplýsingar um þau matvæli sem verið er að flytja svo farmflytjandanum sé unnt að haga flutningi og geymslu þeirra þannig að framangreindum kröfum sé fullnægt og að þau verði ekki fyrir skemmdum. Verði tjónið þannig rakið til ófullnægjandi upplýsinga frá Sælkeranum ehf. eða aðila á hans vegum um innihald sendingarinnar verður stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir því. Það er enn fremur í samræmi við grein 5.4 í fyrrgreindum skilmálum sem giltu milli Sælkerans ehf. og stefnda, en þar segir að „félagið“ beri „ekki undir neinum kringumstæðum ábyrgð á neins konar tjóni sem rekja má“ meðal annars til rangra eða ófullnægjandi upplýsinga frá viðskiptamanni eða mönnum á hans vegum eða ófullnægjandi eða gölluðum umbúðum eða merkingum á vöru. Stefndi telur að báðar þessar ábyrgðarleysisástæður eigi við í málinu og krefst sýknu á þeim grundvelli.

         Alkunna er að kjötvörur verður almennt að geyma í kæli til að koma í veg fyrir að þær skemmist. Á fyrirliggjandi farmbréfi stóð að um væri að ræða „COLD MEATS“ eða kalt kjöt. Dómurinn telur að þessar upplýsingar hafi verið nægjanlegar til þess að stefnda hafi mátt vera ljóst að í vörusendingunni væri kjötvörur sem nauðsynlegt væri að geyma í kæli. Hafi stefndi talið vafa leika á því áttu þessar upplýsingar að gefa honum tilefni til þess að leita fyrirmæla frá Sælkeranum ehf. um hvort farmurinn ætti að fara í kæli. Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að upplýsingar á farmbréfi ráði einkum því hvernig geymslu á farmi er hagað í vörugeymslu. Ekki skiptir því máli þó að merkingu á fjórum vörubrettum af fimm kunni að hafa verið ábótavant. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki fallist á það með stefnda að fyrrgreindar ábyrgðarleysisástæður eigi við.

         Af hálfu stefnda hefur því ekki verið borið við að sakarmat í lögskiptum aðila sé annað en leiðir af almennum reglum skaðabótaréttar. Geymsla farmsins hjá stefnda var ekki hagað í samræmi við kröfur 13. gr. laga 93/1995 og 2. gr. a í reglugerð nr. 103/2010. Þar sem viðhlítandi upplýsingar komu fram á farmbréfi um innihald farmsins, sem áttu að gefa stefnda tilefni til að álykta að nauðsynlegt væri að geyma farminn í kæli, sýndi stefndi af sér sök er leiðir til skaðabótaábyrgðar félagsins. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður á það fallist að stefnda beri að bæta stefnanda það tjón svo langt sem réttur tjónþola á hendur stefnda náði.

         Eins og fram hefur komið giltu almennir skilmálar flutningasviðs SVÞ um rétt tjónþola til skaðabóta úr hendi farmflytjanda. Í grein 5.1 í skilmálunum kemur fram að skaðabætur vegna skemmda á vöru skuli taka mið af verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi. Ágreiningslaust er að það verð, sem greitt hafði verið fyrir vörurnar sem skemmdust, hafi samkvæmt framlögðum vörureikningi numið 6.847,66 evrum. Stefnandi hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að miða beri við svonefnt tollverðsgengi þegar fjárhæðin er umreiknuð í íslenskar krónur. Af hálfu stefnda er í greinargerð talið að rétt sé að miða við miðgengi krónunnar gagnvart evru 21. nóvember 2013, er tilkynning var send tjónþola um komu vörunnar. Við munnlegan málflutning var því lýst yfir af hálfu stefnanda að fallist væri á að taka mið af skráðu miðgengi þennan dag ef ekki væri fallist á að miða við tollverðsgengi. Í ljósi þess sem hér er rakið verður gengið út frá framangreindu við útreikning á því fjártjóni sem stefnda ber að bæta. Miðgengi íslensku krónunnar gagnvart evru nam 162,45 krónum umræddan dag. Tjón miðað við verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi nam samkvæmt framansögðu 1.112.402 krónum.

         Í fyrrgreindum skilmálum er gert ráð fyrir því að farmflytjandi eigi ekki að greiða bætur fyrir óbeint eða afleitt tjón eða ágóðatap, sbr. grein 5.3. Stefnandi hefur heldur ekki sýnt fram á að tjón tjónþola hafi verið meira en sem nemur verðmæti vörunnar samkvæmt framansögðu. Stefnda verður því gert að greiða stefnanda 1.112.402 krónur.

         Í skilmálunum kemur fram að ekki skuli koma til greiðslu vaxta fyrr en frá uppkvaðningu dóms, sbr. grein 5.6. Stefnandi telur þetta ákvæði ekki geta átt við enda megi rekja tjónið til stórkostlegs gáleysis og verulegra vanefnda á samningi aðila. Um þetta vísar hann meðal annars til tveggja dóma Hæstaréttar í málunum nr. 503/2008 og nr. 61/1998. Báðir dómarnir lúta að tjóni við sjóflutninga. Í þeim gilda ýmsar ábyrgðartakmarkanir siglingalaga nr. 34/1985 ekki verði tjón rakið til stórkostlegs gáleysis farmflytjanda. Skilmálar þeir sem hér eru til umfjöllunar eru ekki hliðstæðir. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að leggja fyrrgreint samningsákvæði til grundvallar. Krafan ber því dráttarvexti frá og með dómsuppkvaðningardegi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 243/2001.

         Líta verður svo á að stefnandi hafi unnið málið í öllum aðalatriðum. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefndi því að greiða honum málskostnað. Í ljósi málavaxta þykir málskostnaðurinn hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

         Stefndi, Jónar Transport hf., greiði stefnanda, Vátryggingafélagi Íslands hf. 1.112.402 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2014 til greiðsludags.

         Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.