Hæstiréttur íslands

Mál nr. 397/2000


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur
  • Slysatrygging
  • Takmörkun ábyrgðar


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. mars 2001.

Nr. 397/2000.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ólafur Axelsson hrl.)

gegn

Pétri Einarssyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

             

Vátryggingarsamningar. Slysatrygging. Takmörkun ábyrgðar.

P krafði S um bætur úr slysatryggingu vegna líkamstjóns er hann varð fyrir þegar annar maður, PG, sló hann með glasi. S krafðist sýknu af kröfum P og bar því við að P hefði verið ölvaður í umrætt sinn og slysið orðið í kjölfar handalögmála milli P og PG. Ætti annað hvort eða hvort tveggja að leiða til brottfalls ábyrgðar S, enda væri kveðið á um það í vátryggingarskilmálum að tryggingin bætti ekki tjón sem yrði við framangreindar aðstæður. Ekki var fallist á að ábyrgð S skyldi falla brott vegna ölvunar P þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að hann hefði verið í „ölæði“ þegar slysið varð. Á hinn bóginn var talið að P hefði orðið fyrir líkamstjóni sínu í handalögmálum. Var fallist á að það leiddi til brottfalls ábyrgðar S, enda yrði tjón P rakið til þeirrar auknu áhættu sem af þátttöku hans í handalögmálunum leiddi. Var talið að ábyrgð S félli brott óháð því hvernig sök P hefði að öðru leyti verið farið þar sem hin umrædda ábyrgðartakmörkun vátryggingarskilmálanna væri hlutræn. Var S því sýknaður af kröfu P.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. október 2000. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti

I.

Stefndi varð fyrir alvarlegu líkamstjóni aðfaranótt 14. ágúst 1993. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi voru málsatvik þau að umrætt kvöld var stefndi staddur á Mímisbar á Hótel Sögu í Reykjavík. Var hann sleginn í andlitið af manni, er hann þekkti ekki fyrir. Hélt maður þessi, Pálmi Ragnars Guðmundsson, á glasi í þeirri hendi, sem hann sló stefnda með, og skaddaðist hinn síðarnefndi meðal annars á auga við höggið. Pálmi var með dómi Héraðsdóms Reyjavíkur 5. mars 1998 sakfelldur fyrir verknað þennan, en ákvörðun um refsingu frestað skilorðsbundið. Þegar atburður þessi gerðist var stefndi tryggður slysatryggingu hjá Ábyrgð hf. Er óumdeilt að áfrýjandi  hefur tekið við skuldbindingum Ábyrgðar hf. vegna slysatryggingar stefnda. Mál þetta er risið vegna ágreinings um hvort stefnda beri bætur úr umræddri tryggingu. 

Í skilmálum slysatryggingar Ábyrgðar hf. var svofellt ákvæði í 9. gr.: „Félagið bætir ekki ... Slys, er sá, sem tryggður er, verður fyrir í handalögmáli, við þátttöku í refsiverðum verknaði, undir áhrifum deyfi- og eiturlyfja eða í ölæði, nema sannað sé, að ekkert samband hafi verið milli ástands þessa og slyssins.“ Byggir áfrýjandi sýknukröfu sína á að tjón stefnda verði fyrst og fremst rakið til þess að hann hafi verið ölvaður og staðið fyrir handalögmálum. Eigi því framangreindar undantekningar varðandi ölæði og handalögmál við, báðar eða önnur, og  því  hafi stefndi firrt sig bótarétti.

II.

Í skýrslu hjá lögreglu 13. febrúar 1996 bar stefndi að hann hafi umrætt kvöld drukkið tvær vínblöndur áður en hann kom á Mímisbar og þar hafi hann verið búinn að drekka eina og verið að kaupa sér aðra  þegar fundum þeirra Pálma bar saman við barborðið. Kristján Nói Sæmundsson veitingastjóri, sem afgreiddi bæði stefnda og Pálma á Mímisbar umrætt kvöld, bar fyrir lögreglu 19. ágúst 1993 að honum hafi sýnst stefndi lítið ölvaður, en þó undir áhrifum áfengis. Á svipaða lund bar hann fyrir héraðsdómi 5. febrúar 1998 við aðalmeðferð máls ákæruvaldsins gegn Pálma. Fylkir Sævarsson, sem var yfirdyravörður á Hótel Sögu umrædda nótt, bar í lögregluskýrslu 20. ágúst 1993 að hann hafi veitt því athygli að stefndi var ölvaður, en ekkert hafi verið athugavert við framkomu hans fyrir atburðinn. Ólafur Páll Gunnarsson, mágur Pálma, sem sat við barinn næst vettvangi þess atburðar, sem mál þetta er risið af, bar fyrir lögreglu 19. ágúst 1993 að stefndi hafi verið áberandi ölvaður og nokkur fyrirferð í honum. Í skýrslu Gunnars Péturssonar lögreglumanns, sem kvaddur var á vettvang eftir atburðinn, kemur fram að stefndi hafi haft í hótunum við hann og að sjúkraflutningamenn hafi neitað að flytja hann á slysadeild í sjúkrabifreið vegna framkomu hans. Var framburður hans fyrir dómi í máli ákæruvaldsins gegn Pálma mjög á sömu lund og þar sagði hann aðspurður að stefndi hafi verið undir töluverðum áfengisáhrifum. Engin mæling fór fram á vínandamagni í blóði stefnda eftir atburðinn.  Þótt ljóst sé af gögnum málsins að stefndi var undir áhrifun áfengis er ósannað að hann hafi verið í ölæði er umræddur atburður átti sér stað, en af því ber áfrýjandi hallann. Verður áfrýjandi því ekki undanþeginn skyldu til að greiða stefnda bætur af þeim sökum.

III.

Flestum vitnum ber saman um að aðdragandi slyss stefnda hafi verið með þeim hætti að Pálmi Ragnars Guðmundsson, Ólafur Páll Gunnarsson og hálfbróðir Pálma, Sigurður Kolbeinsson hafi setið hlið við hlið við barborðið á Mímisbar. Hafi Pálmi brugðið sér frá, en stefndi á meðan komið í hans stað við barinn og pantað sér drykk. Þegar Pálmi kom til baka var stefndi því við hlið félaga hans við barinn og hafi Pálmi þurft að komast framhjá honum til að ná til drykkja, er hann átti á barborðinu. Í skýrslu hjá lögreglu bar stefndi að Pálmi hafi komið að barnum með miklum fyrirgangi og spurt hvað stefndi væri að gera í sínu stæði. Hafi hann síðan gerst dónalegur og meiðandi og æpt „sáuð þið hvernig ég tók hann í Pressunni í gær og sjáið þið hvernig ég tek hann núna.“ Í beinu framhaldi hafi verið eins og eitthvað springi í andlit stefnda og höggin hafi gengið yfir hann. Þessa frásögn endurtók stefndi efnislega fyrir dómi í máli ákæruvaldsins gegn Pálma og þar sagðist hann aðspurður ekki muna til þess að hann hafi slegið til Pálma. Sú skýring er fram komin í málinu að skömmu áður hafi vikublaðið Pressan birt frásögn þar sem sneitt var að stefnda og ögrun Pálma hafi vísað til.

Sem ákærður í fyrrgreindu opinberu máli bar Pálmi að stefndi hafi ítrekað hindrað sig í að ná til glasa sinna á barborðinu og hreytt í sig ónotum. Honum hafi þó tekist að teygja sig í glas á borðinu, en í þann mund fengið þungt högg á vinstra auga. Ólafur Páll Gunnarsson bar fyrir lögreglu að stefndi hafi brugðist illa við beiðni Pálma um að ná til glasa sinna á barborðinu. Pálmi hafi síðan teygt sig í glas og sagt um leið við sig þannig að stefndi heyrði: „Hann hefur greinilega verið að lesa Pressuna þessi.“ Strax eftir þetta hafi stefndi slegið Pálma í höfuðið og hafi höggið lent á auga hans. Pálmi hafi um leið svarað höggi stefnda og þá haldið á glasinu í hendinni. Eftir það hafi Pálmi slegið eitt eða tvö högg til stefnda. Var framburður hans fyrir dómi í fyrrgreindu opinberu máli mjög á sömu lund. Sigurður Snorri Kolbeinsson bar fyrir dómi í fyrrgreindu máli að stefndi hafi tekið illa beiðni Pálma um að færa sig. Í framhaldi af því hafi Pálmi sagt eitthvað fyndið við Ólaf og stefndi hafi síðan fyrirvaralaust slegið Pálma í andlitið. Pálmi hafi síðan bandað frá sér höndum. Kristján Nói Sæmundsson veitingastjóri var eins og að framan getur við afgreiðslu á Mímisbar í umrætt sinn. Hann bar fyrir lögreglu að Pálmi hafi sagt við stefnda að hann ætti glös á barborðinu. Hafi stefndi ekki hindrað hann í að ná til glasanna, en þó verið fyrir þannig að Pálmi komst ekki að borðinu. Hafi honum líkað það illa og snúið sér að félaga sínum og sagt eitthvað um það fólk, sem talað er um í Pressunni. Hafi greinilega fokið í stefnda við þessi ummæli því hann hafi gefið Pálma illt auga og rétt á eftir slegið hann talsvert þungt högg á gagnaugað. Pálmi hafi strax svarað högginu með því að slá stefnda í höfuðið og þá haldið á glasi í hendinni. Framburður hans fyrir dómi í fyrrgreindu opinberu máli var í öllum aðalatriðum á sömu lund. Tók hann þar fram að hann hafi verið í mjög góðri aðstöðu til að fylgjast með atburðum þar sem hann hafi staðið innan við barborðið beint á móts við mennina í innan við eins metra fjarlægð. Kristján gaf enn skýrslu fyrir héraðsdómi í máli þessu og er sá framburður í samræmi við fyrri frásagnir hans. Hann fullyrti að stefndi hafi reiðst ummælum Pálma og slegið til hans og þannig átt fyrsta höggið. Í vottorði Ágústs Kárasonar læknis, sem skoðaði Pálma við komuna á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur strax eftir framangreinda atburði, segir meðal annars: „Við skoðun á höfði er lítið mar yfir ytri augnkrók vinstra megin og smá fleiður á hornhimnu augans.“

Hilmar Sverrisson lék á píanó á Mímisbar umrætt kvöld. Hann bar fyrst um framangreinda atburði fyrir lögreglu 5. nóvember 1998 og síðan fyrir héraðsdómi í máli þessu. Hann bar að stefndi hafi setið á hornstól við barinn þegar að hafi komið fjórir til sex menn og hafi einn þeirra sest við hlið stefnda. Hafi sá maður farið eitthvað að ræða við stefnda um blaðagrein. Hafi stefndi þá ýtt við honum en hann slegið stefnda í andlitið með glas í hendinni. Kvaðst þetta vitni hafa setið við hljóðfærið í miðjum salnum á Mímisbar og séð vel til.

IV.

 Með hliðsjón af öllu framansögðu, einkum framburði Kristjáns, verður að telja í ljós leitt að Pálmi hafi í umrætt sinn ögrað stefnda með orðum og stefndi hafi í framhaldi af því greitt Pálma hnefahögg í höfuðið, sem Pálmi hafi síðan svarað með því að slá stefnda í andlitið með glas í hendi. Verður því að telja til handalögmála hafi komið milli þeirra og að stefndi hafi orðið fyrir slysinu í þeim handalögmálum.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að umrætt ákvæði í 9. gr. vátryggingarskilmálanna lúti varðandi alla þá þætti, sem þar eru tilgreindir, að hegðun stefnda, þar á meðal undanþágan varðandi handalögmál. Ákvæðið varði því í raun  hugræn skilyrði bótaábyrgðar og þar með sök þess vátryggða. Það verði því að skýra með hliðsjón af 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, en þar sé heimild félagsins til að semja sig undan bótaábyrgð að þessu leyti settar þröngar skorður. Á þetta verður ekki fallist. Samningsfrelsi ríkir varðandi það til hvaða sviðs vátrygging nær. Er aðilum því frjálst að semja um að vátryggingin gildi ekki við tilteknar aðstæður. Verður að telja framangreint ákvæði um að félagið bæti ekki slys, er tryggður verður fyrir í handalögmálum, til slíkra hlutrænna ábyrgðartakmarkana, enda er undanþágan óháð því hvort vangá hins tryggða er um að kenna ef slys verður í handalögmálum.

Undanþáguákvæðið gildir samkvæmt orðalagi sínu um öll slys, sem verða í handalögmálum, án tillits til þess hvort bein orsakatengsl eru milli slyssins og handalögmálanna. Þrátt fyrir framangreint orðalag skilmálanna verður að skilja þá þannig að ákvæðið eigi því aðeins við að slys verði rakið til þeirrar auknu áhættu, sem handalögmálum fylgir.  Verður að telja  að högg það, er Pálmi veitti stefnda aðfaranótt 14. ágúst 1993 og olli tjóni hans, verði beinlínis rakið til þess sem á undan gekk og þá einkum höfuðhöggs þess, er stefndi veitti Pálma, enda þótt viðbrögð Pálma hafi verið hættulegri en stefndi mátti búast við. Verður umrætt ákvæði því talið eiga við og verður ekki komist hjá að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda í máli þessu.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfu stefnda, Péturs Einarssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2000.

   Mál þetta, sem dómtekið 7. september sl., er höfðað með stefnu þingfestri 3. janúar sl. af Pétri Einarssyni, Aðalgötu 12, Sauðárkróki, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur

   Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda 2.212.099 krónur með vanskilavöxtum samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga, af 1.726.233 krónum frá stefnubirtingardegi til greiðsludags en af 485.866 krónum frá 7. september 2000 til greiðsludags.  Krafist er málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikn­ingi eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

   Stefndi gerir þær kröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu.

Málavextir               

Málavextir eru þeir að þann 14. ágúst 1993 var stefnandi staddur á Mímisbar á Hótel Sögu í Reykjavík.  Var hann þar sleginn með glasi í andlitið af ókunnugum manni, Pálma Ragnari Guðmundssyni.  Við höggið hlaut stefnandi skaða á hægra auga, sem samkvæmt álitsgerð örorkunefndar leiddi til 35% miska.  Pálmi var ákærður fyrir verknaðinn en með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 5. mars 1998, var ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í 2 ár frá uppsögu dómsins að telja og skyldi refsingin falla niður að þeim tíma liðnum héldi ákærði almennt skilorð 57. gr laga 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Stefnandi var tryggður slysatryggingu hjá stefnda og krefur nú stefnda um bætur samkvæmt þeirri tryggingu.   

Málsástæður stefnanda og lagarök.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að nefndur Pálmi hafi veist að honum og hafi farið að áreita hann og rætt um grein í Pressunni sem fjallaði um stefnanda og hafi talað m.a. um hvernig hann hafi jarðað hann.  Stefnandi hafi ýtt í öxl mannsins með flötum lófanum og beðið hann að hætta þessu.  Hafi þá engum togum skipt að maðurinn, sem var að drekka bjór úr þunnu, háu glasi, hafi slegið stefnanda í andlitið með þeirri hendi sem glasið var í.  Stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna vitrænnar skerðingar á höfði, sbr. framlagt taugasálfræðilegt mat, og alvarlegu tjóni á auga.  Vísar stefnandi sérstaklega til örorkumats Björns Önundarsonar, læknis, sem þann 2. maí 1995 mat varanlegan miska stefnanda 25% af völdum slyssins.

Dómur í máli ákæruvaldsins á hendur Pálma Ragnari Guðmundssyni hafi verið kveðinn upp samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og hafi ákærði þar notið alls vafa.  Dómurinn taki ekki á því hvort fullsannað sé að stefnandi hafi slegið til Pálma að fyrra bragði, sökum áreitis hans, en láti ákærða njóta vafans með orðalaginu "ráða má af framburði ákærða og þriggja fyrstgreindu vitnanna að Pétur Einarsson sló fyrst til ákærða, en þeir þekkjast ekkert."  Eitt vitnið hafi verið mágur hins ákærða og annað hálfbróðir hans en þriðja vitnið, barþjónn, hafi talið stefnanda hafa slegið til ákærða.  Þessum framburði hafi nú verið hnekkt með lögregluskýrslu sem tekin hafi verið þann 5. nóv. 1998 af Hilmari Sverrissyni, kt. 281156-5009, sem kveðst hafa séð nákvæmlega það sem gerðist.  Samkvæmt hans frásögn hafi ákærði ýtt við stefnanda með flötum lófa og beðið hann um "að hætta þessu".  Af framburði þessum virðist ekki meira hafa gerst og því ekkert tilefni gefið til þess sem á eftir hafi komið.  Um aðdraganda þess að vitnið kom til sögunnar er vísað til framlagðs bréfs Einars Gauts Steingrímssonar hdl. til lögreglunnar á Sauðárkróki frá 21. október 1998. Með vísan til þessa sé ljóst að stefnandi hafi engan slíkan hlut átt að árásinni að virða megi honum til sakar.  Það sé með öllu ósannað í einkamáli þessu að nokkurt atvik sé fyrir hendi er leyst geti stefnda undan greiðsluskyldu en óumdeilt sé að vátryggingar­samningur sé í gildi sem taki til kröfu þessarar.

Þann 31. janúar 1996 hafi stefndi greitt 200.000 krónur án viðurkenningar á bótaskyldu.  Stefnandi hafi aldrei samþykkt þessa greiðslu sem lokauppgjör, sbr. það að eftir þetta hafi málið verið til umfjöllunar hjá tjónanefnd og úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum og hafi stefndi aldrei haldið því fram að fullnaðaruppgjör hafi átt sér stað. 

Krafa stefnanda byggist á framlögðu vátryggingar­skírteini en stefnandi hafi keypt vátryggingu hjá Ábyrgð hf.  Ábyrgð hf. hafi sameinast stefnda og sé enginn ágreiningur um aðild hans að málinu.

Krafan sundurliðist þannig:

Fjárhæð í vátryggingarskírteini

miðað við slysdag 14. 8.1993                                                                     16.606 kr.

Bætur 35% af vátryggingarfjárhæð, sbr. álitsgerð

örorkunefndar                                2.315.812 kr.

Þegar greitt                                - 200.000 kr.

                   2.115.812 kr.

Hækkun vísitölu neysluverðs frá ágúst 1993

(169,2 stig) til ágúst 1996 (176,9 stig)                 96.286 kr.

Samtals     2.212.099 kr.

Með vísan til framangreinds sé ljóst að stefnandi hafi verið slysatryggður á slysdegi. Stefndi hefur ekki sannað nein atvik sem leyst geti hann undan greiðsluskyldu, hvorki það að slysið megi rekja til ölæðis stefnanda né þátttöku hans í handalögmálum.  Lögð sé áhersla á að það sé stefndi sem beri sönnunarbyrðina um það að til staðar hafi verið atvik er leyst geti hann undan ábyrgð en allt aðrar sönnunarkröfur séu gerðar í opinberu máli á hendur tjónvaldi þar sem hann njóti alls vafa.  Hvað sem öðru líði gætu rök stefnda aðeins leitt til lækkunar bóta, sbr. 18. gr. vátryggingarsamningalaga nr. 20/1954.

Um lagarök er vísað til meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga og laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, m.a. 20. gr.

Um málskostnað er vísað til XXI. kafla 1. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr.  Tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda byggir á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til greiðslu vátryggingabóta úr nefndri slysatryggingu með vísan til 9. gr. b) liðar vátryggingar­skilmála en samkvæmt þeim hafi félagið undanþegið sig bótaskyldu ef tjónið verði rakið til handalögmála eða ölæðis hins vátryggða.

Á því er byggt af hálfu stefnda að þessar undantekningar eigi við, báðar eða önnur hvor, sem leiði til þess að greiðsluskyldan falli niður eins og áður segði.

Af gögnum málsins, vitnisburðum í lögregluskýrslum, sé í ljós leitt að tjón stefnanda verði fyrst og fremst rakið til þess að stefnandi hafi verið ölvaður og hafi staðið fyrir handalögmálum sem leitt hafi til áverkans.

Kristján Sæmundsson þjónn beri að stefnandi hafi slegið Pálma að fyrra bragði þungt högg á vinstra gagnauga, sbr. lögregluskýrslu á dskj. nr. 5, og jafnframt að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis.

Sama lýsing á atburðarásinni komi fram í framburði Ólafs Páls Gunnarssonar í lögregluskýrslu á dskj. nr. 4.

Höfðað hafi verið opinbert mál á hendur þeim sem tjóninu hafi valdið, Pálma Guðmundssyni, en í dóminum segi m.a.  "Eins og atburðum hefur verið lýst þá verður ekki annað séð en Pétur Einarsson hafi slegið ákærða af tilefnislausu eða fyrir misskilning og haldið ákærða hafa viðhaft um sig niðrandi ummæli..."

Fram komi í lögregluskýrslu á dskj. nr. 3 að sjúkraflutningamenn hafi ekki treyst sér til að flytja stefnanda í sjúkrabifreiðinni vegna ölvunar hans og framkomu.

Bæði hjá tjónanefnd vátryggingafélaganna og úrskurðarnefnd í vátryggingar­málum hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti ekki rétt til bóta úr tryggingunni vegna framangreindra atvika.

Stefnandi boði í stefnu komu nýs vitnis sem muni að hans mati hnekkja framburði annarra vitna.  Þessi vitnisburður eins aðila, sem gefinn sé fjórum árum eftir atburðinn, geti að mati stefnda ekki hnekkt framburði annarra vitna, sem hafi gefið skýrslu um atburðinn strax í kjölfar hans.

Þá er einnig á því byggt að með móttöku á 200.000 krónum hafi stefnandi fallið frá öllum meintum kröfum og með þeirri greiðslu hafi verið gert upp við hann en tekið skuli fram að eins og kvittunin beri með sér hafi hún verið greidd umfram skyldu og um hafi verið að ræða fullnaðargreiðslu.

Niðurstaða

Óumdeilt er að milli málsaðila var í gildi vátryggingasamningur sem tekur til tjóns stefnanda.  Af hálfu stefnda er því hins vegar borið við að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til vátryggingabóta úr slysatryggingunni þar sem slysið verði rakið til handalögmáls og ölæðis stefnanda. Er í þessu sambandi vísað til 9. gr. b) liðar vátryggingaskilmálanna en þar segir:  “Slys, er sá, sem tryggður er, verður fyrir í handalögmáli, við þátttöku í refsiverðum verknaði, undir áhrifum deyfi- og eiturlyfja eða í ölæði, nema sannað sé, að ekkert samband hafi verið milli ástands þessa og slyssins.”  Telja verður að nefnt undanþáguákvæði verði að túlka með hliðsjón af 20. gr. laga nr. 20/1954 en þar segir:  “Eigi verður, svo gilt sé, samið svo um, að félagið skuli laust úr ábyrgð, er því, að vátryggingaratburðurinn gerðist, hefur verið valdið af vangá, er ekki verður talin stórkostleg.  Ákvæði þetta er því þó eigi til fyrirstöðu, að samið sé um það, bæði að félagið skuli leyst úr ábyrgð, er vátryggður hefur valdið vátryggingaratburðinum í ölæði er honum verður sjálfum gefin sök á, og að félagið megi draga allt að 5% frá bótunum, er vátryggingaratburðurinn stafar frá vangá, sem eigi verður talin stórkostleg.”

Ekki er í raun deilt um málsatvik en um það er deilt hvor hafi átt upptök að ryskingunum, stefnandi eða Pálmi Guðmundsson.    

Tvö vitni hafa komið fyrir dóminn til skýrslugjafar, Kristján Nói Sæmundsson veitingastjóri og Hilmar Sverrisson tónlistarmaður, en þeir urðu báðir vitni að þeim atburðum sem um er deilt í máli þessu.

Kristján Nói bar m.a. fyrir dómi að þegar umræddur atburður varð hafi ekki verið mikið að gera á barnum þar sem hann vann.  Þrír menn hafi komið og pantað bjór og snaps.  Einn þeirra hafi brugðið sér frá og þá hafi stefnandi komið þar að.  Stefnandi hafi pantað glas og þegar hann hafi verið um það bil að borga hafi maðurinn komið aftur.  Hann hafi komið aftan að stefnanda hægra megin og hafi reynt að nálgast glasið sitt.  Maðurinn hafi viljað komast að barborðinu.  Þá hafi einhver í hópnum farið að tala um eitthvert mál sem fjallað hafi verið um í blaðinu Pressunni og snerti stefnanda. Stefnandi hafi snúið sér snöggt við til hægri og rekið manninum, sem var aftan við og til hliðar við hann, högg.  Þá hafi sá verið búinn að ná í glasið sitt sem var þunnt, fínlegt bjórglas og hafi hann svarað í sömu mynt með það sama og hafi glasið farið beint í augabrúnina á stefnanda en hann hafi blindast þar sem mikið blæddi.  Dyravörður hafi síðan komið og leitt stefnanda fram á gang og hringt hafi verið á sjúkrabíl og lögreglu.  Þegar atburðurinn gerðist kveðst Kristján Nói hafa verið fyrir innan barinn og hafi stefnandi og hinn maðurinn staðið beint á móti honum.  Kvaðst hann vera viss um að stefnandi hefði gefið manninum högg áður en hann sló stefnanda.

Sérstaklega aðspurður kvað Kristján Nói stefnanda ekki hafa ýtt við manninum heldur farið með hnefann í andlit hans.

Vitnið, Hilmar Sverrisson, kvaðst hafa verið að leika á píanó þetta kvöld á Mímisbar.  Fáir hafi verið á staðnum.  Hann kveðst hafa kannast við stefnanda úr fjölmiðlum.  Hann hafi setið við horn barsins beint á móti Hilmari.  Hljóðfærið hafi verið staðsett í miðjum salnum.  Hilmar kvað nokkra menn hafa komið þar að og einn sest við hlið Péturs.  Hann kveðst hafa séð manninn tala óbeint við Pétur þannig að hinir heyrðu, en hann hafi talað um grein í blaði.  Hilmar kveðst ekki hafa verið að leika á hljóðfærið þegar þetta gerðist.  Á endanum hafi stefnandi ýtt við manninum, eins og í uppgjöf, og beðið hann um að hætta þessu en þá hafi maðurinn slegið stefnanda með hendinni.  Hann hafi haldið á glasi í hendinni sem brotnað hafi á andliti stefnanda.  Hilmar kveðst ekki hafa verið spurður neitt út í þetta þegar atburðinn gerðist.  Hann hafi hins vegar hitt stefnanda fyrir tveimur árum og farið að spyrja hann um augað á honum.  Telur Hilmar sig hafa séð vel hvað gerðist.

Telja verður fram komið í málinu að stefnandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar umræddur atburður átti sér stað.  Hins vegar liggur ekkert fyrir um áfengisástand hans og telst með öllu ósannað að ölvunarástand hans hafi verið á svo háu stigi að flokkist undir ölæði.

Fyrir liggur í málinu lögregluskýrsla er tekin var af Kristjáni Sæmundssyni 19. ágúst 1993 og er hún í samræmi við framburð hans hér fyrir dómi.  Lögregluskýrsla var ekki tekin af vitninu, Hilmari Sverrissyni, fyrr en 5. nóvember 1998 eða fimm árum eftir umræddan atburð, sem dregur úr gildi framburðar hans.  Vitnið, Kristján Nói, var staddur nær stefnanda og Pálma en Hilmar, sem var í miðjum salnum.  Fylgdist Kristján með stefnanda, Pálma og öðrum yfir barborðið en Kristján var að vinna fyrir innan barinn og var að afgreiða þá.  Með hliðsjón af framansögðu þykir verða að leggja framburð Kristjáns til grundvallar um málsatvik enda á hann stoð í gögnum málsins, lögregluskýrslum og vitnisburðum vitna í máli ákæruvaldsins á hendur Pálma Guðmundssyni.

Telja verður samkvæmt því sem fram hefur komið að stefnandi hafi átt upptökin að þeim ryskingum sem áttu sér stað milli hans og Pálma Guðmundssonar.  Hins vegar verður að telja að sú háttsemi stefnda að veita Pálma högg í andlit hafi ekki gefið tilefni til þeirrar fólskulegu árásar er stefnandi varð fyrir og sem hann hlaut mikla áverka af.  Með hliðsjón af áðurnefndri 20. gr. laga nr. 20/1954 verður því ekki talið að ákvæði 9. gr. b) liðar í tyggingaskilmálum takmarki ábyrgð stefnda eins og hér á stendur.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefndi hafi þegar greitt stefnanda fullnaðargreiðslu, 200.000 krónur, vegna tjónsins.  Með móttöku þeirrar greiðslu hafi stefnandi fallið frá öllum frekari kröfum.  Þessu er mótmælt af hálfu stefnanda.

Í málinu hefur verið lögð fram skaðabótakvittun þar sem segir: samkomulagsbætur, án viðurkenningar á bótaskyldu.  Þar sem gert er ráð fyrir undirskrift viðtakanda stendur:  “áv. send.”  Stefnandi kvittar ekki fyrir móttöku á þessari greiðslu og er með öllu ósannað að stefnandi hafi, gagnvart stefnda, afsalað sér rétti til frekari bótagreiðslna.

Samkvæmt framansögðu ber því að taka til greina kröfur stefnanda í málinu enda er ekki ágreiningur um stefnufjárhæð.

Ber stefnda samkvæmt þessari niðurtöðu að greiða stefnanda málskostnað sem greiðist í ríkissjóð og ákveðst  403.250 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 403.250 krónur, þar af útlagður kostnaður, 53.250 krónur, og þóknun lögmanns stefnanda, Þóreyjar S. Þórðardóttur hdl., 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Pétri Einarssyni, 2.212.099 krónur með vanskilavöxtum samkvæmt 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga, af 1.726.233 krónum frá 30. desember 1999 til greiðsludags og af 485.866 krónum frá 7. september 2000 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 403.250 krónur í málskostnað sem greiðist í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 403.250 krónur, þar af útlagður kostnaður 53.250 krónur og þóknun lögmanns stefnanda, Þóreyjar S. Þórðardóttur hdl., 350.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.