Hæstiréttur íslands
Mál nr. 555/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 25. ágúst 2015. |
|
Nr. 555/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Eva Hrönn Jónsdóttir hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. ágúst 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 28. ágúst 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að vægari úrræðum verði beitt, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, fæddur [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 28. ágúst n.k. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú ætlað brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Upphaf málsins megi rekja til tilkynningar sem lögreglu hafi borist þann 19. ágúst sl. frá [...] um að reynt hafi verið að panta fartölvu í gegnum netverslun verslunarinnar á nafnið [...] þar sem gefin hafi verið upp kennitala sem ekki hafi staðið. Varan hafi því ekki verið send. Í pöntuninni hafi komið fram að vöruna ætti að senda að [...] hér í borg.
Í kjölfarið hafi lögregla leitað upplýsinga frá færsluhirðafyrirtækjum og orðið þess vísari að fleiri pantanir hefðu verið gerðar í netfyrirtækjum hérlendis sem sendast ættu á sama heimilisfang. Þann 20. ágúst sl. hafi lögregla fengið tilkynningu um að vara hafi verið pöntuð á sama nafn og heimilisfang í gegnum netverslun [...] og greitt hafi verið fyrir hana með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Þar sem grunur hafi leikið á fjársvikum hafi lögregla látið sendingaraðila afhenda annan pakka og í kjölfar viðtöku hans að [...] þann 21. ágúst sl. hafi sakborningur þar verið handtekinn ásamt tveimur öðrum mönnum og hafi þeir allir stöðu sakborninga í málinu.
Í kjölfarið, að fengnu samþykki, hafi verið framkvæmd húsleit á vettvangi. Við hana hafi fundist ýmsar vörur, óuppteknar í umbúðum sem búið hafi verið að pakka ofan í ferðatösku, sbr. munaskýrslu, og fartölvur sem talið sé að tilheyri sakborningum, allt sem lögregla hafi haldlagt. [...] sé leiguhúsnæði á vegum vefsíðunnar [...] og enginn sakborninga því búsettur þar. Við leit í húsnæðinu hafi það borið þess merki að einungis 3 menn dveldust þar og sömu upplýsingar hafi fengist frá leigusalanum auk þess sem lögregla hefði fylgst með húsnæðinu áður en til handtöku hafi komið og ekki orðið vör við að fleiri dveldust í húsnæðinu.
Þegar lögreglumenn hafi fyrst haft afskipti af sakborningum hafi þeir sagt að með þeim hefði verið fjórði maðurinn en ekki getað gefið upplýsingar um hann.
Í framburðarskýrslum hjá lögreglu í kjölfar handtöku sakborninga hafi komið fram misræmi varðandi veru þessa fjórða manns sem lögregla telji, ásamt öðru, að bendi til þess að sé tilbúningur og vísist nánar til gagna málsins. Aðspurðir um vörurnar, sem lögreglu gruni að hafi verið pantaðar í gegnum netverslanir og greitt fyrir með stolnum greiðslukortaupplýsingum, sagðist enginn sakborninga kannast við þær né á hvers vegum þær væru. Einnig hafi verið ósamræmi í framburði þeirra er lúti að greiðslu fyrir ferðalag þeirra hingað til lands. Meti því lögregla framburð þeirra almennt ótrúverðugan.
Með vísan til framangreinds og gagna málsins sé það mat lögreglu að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningur eigi þátt í því broti sem til rannsóknar er.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Miðað við það sem fram hafi komið í málinu sem hér sé til skoðunar og hvernig það sé framkvæmt telji lögregla líklegt að um sé að ræða lið í skipulagðri brotastarfsemi sem teygi anga sína til fleiri landa. Liggi fyrir að skoða þurfi fjölda gagna þ.á.m. rekja slóð þeirra muna sem lögregla haldlagði að [...] og rannsaka greiðslur þeirra sem og þær greiðslukortaupplýsingar sem lögregla hafi þegar undir höndum sem og rannsaka innihald rafrænna gagna í haldlögðum tölvum sakborninga. Muni lögregla þurfa leita aðstoðar erlendra löggæslustofnanna og eftir atvikum greiðsluþjónustufyrirtækja til að upplýsa málið og til að hafa uppi á hugsanlegum samverkamönnum sakborninga.
Megi ætla að ef sakborningur verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband við aðra sakborninga í málinu og ætlaða samverkamenn erlendis og jafnframt eyða gögnum sem vistuð séu á rafrænu formi.
Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að staðreyna umfang brotsins, reyna að hafa uppi á mögulegum samverkamönnum og til að koma í veg fyrir að sakborningur geti spillt rannsókn málsins. Enginn sakborninga sé búsettur hér á landi og hafi engin sérstök tengsl við landið og telji því lögregla einnig að gangi þeir lausir muni þeir reyna að komast úr landi til að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar. Af framangreindum ástæðum sé einnig farið fram á að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Meint sakarefni séu fjársvik sbr. 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við því broti liggi allt að 6 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a. og b. -liða 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til 2. mgr. 98. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Niðurstaða:
Með vísan framangreindrar atvikalýsingar og gagna málsins er fallist á það með lögreglustjóra að sakborningur sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Ætluð brot sakbornings varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot samkvæmt þeirri grein getur varðað allt að sex ára fangelsi. Eru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi.
Rannsókn málsins er á frumstigi og er jafnframt fallist á það mat lögreglustjóra að rannsóknarhagmunir standi til þess að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi enda verður að telja líklegt að hann muni reyna að torvelda rannsókn málsins, s.s. með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á framburð annarra sakborninga eða vitna, haldi hann óskertu frelsi sínu. Sakborningur er erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við landið. Hann hefur dvalið um skamma hríð í húsnæði sem leigt er í gegnum leigumiðlunarvef og kveðst vera hér í fríi. Því má ætla að sakborningur reyni að komast úr landi eða með öðrum hætti koma sér undan málssókn eða fullnustu refsingar. Er þannig fullnægt skilyrðum bæði a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með hliðsjón af stöðu rannsóknar málsins og í ljósi þess að tveir aðrir menn eru grunaðir um að vera samverkamenn sakbornings, en allir neiti aðild að málinu, er fallist á að nauðsynlegt sé að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Með framangreindum rökstuðningi er fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu svo sem greinir í úrskurðarorði.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, fæddur [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 28. ágúst n.k. kl. 16:00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.