Hæstiréttur íslands
Mál nr. 584/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 6. september 2012. |
|
Nr. 584/2012.
|
Ákæruvaldið (Stefán Eiríksson lögreglustjóri) gegn X og (Guðmundur St. Ragnarsson) Y (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Skjöl. Sératkvæði.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum verjenda X og Y þess efnis að þeir fengju afrit af mynd- og hljóðdiskum með skýrslutökum yfir öllum ákærðu og vitnum. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest, enda töldust diskarnir ekki til skjala í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Engu breytti þótt einn meðákærðu X og Y og verjandi hans hefðu fyrir mistök fengið diskana afhenta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 3. september 2012 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2012, þar sem hafnað var kröfum varnaraðila um afhendingu mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af ákærðu og vitnum í málinu. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að sóknaraðila verði gert skylt að afhenda þeim alla mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af sakborningum og vitnum í málinu. Þá gerir varnaraðilinn X kröfu um kærumálskostnað.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með dómum Hæstaréttar í málum nr. 495/2009, 496/2009 og 497/2009, sem kveðnir voru upp 21. september 2009, var komist að þeirri niðurstöðu að hljóð- eða mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslu lögreglu af sakborningum og vitnum, teljist ekki til skjala í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Af þeim sökum var synjað um afhendingu þeirra á rannsóknarstigi máls. Þá leiðir af dómi Hæstaréttar 1. nóvember 2010 í máli nr. 614/2010, þar sem fjallað var um synjum lögreglu á afhendingu gagna samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, að sama gildir um aðgang verjanda sakaðra manna að slíkum upptökum eftir að mál hefur verið höfðað.
Samkvæmt fyrri málslið 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. eiga verjandi og sakborningur rétt á að hlýða eða horfa á upptöku lögregluyfirheyrslu. Eðli máls samkvæmt gildir það sama eftir að sakamál hefur verið höfðað, enda er slíkur aðgangur að gögnum nauðsynlegur svo varnaraðilar geti undirbúið vörn sína í málinu. Þá er komið fram að skýrslur af ákærðu og vitnum hafa annað hvort verið skráðar sem samantekt, byggð á upptökunni, eða því sem næst orðrétt, samhliða upptöku, sbr. a. og c. liðir 12. gr. reglugerðarinnar, og hafa þessi gögn verið lögð fram í málinu og afhent verjendum. Þá verður fallist á það með héraðsdómi að engu breyti um kröfu varnaraðila þótt einum hinna ákærðu í málinu og verjanda hans hafi fyrir mistök verið afhentir mynd- og hljóðdiskar af skýrslutökum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er kveðið svo á að verjandi skuli jafnskjótt og unnt er fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Lögregla geti þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Talið verður að sama regla gildi um aðgang verjanda að gögnum eftir að mál hefur verið höfðað, sbr. dóma Hæstaréttar 1. nóvember 2010 í máli nr. 614/2010 og 12. apríl 2012 í máli nr. 205/2012.
Niðurstaða hins kærða úrskurðar er byggð á skýringu á orðinu skjal í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Er þar talið með vísan til dóma Hæstaréttar 21. september 2009 í málum nr. 495/2009, 496/2009 og 497/2009 að hljóð- eða mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslur lögreglu af sakborningum og vitnum, teljist ekki til skjala í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Leiðir þetta til þeirrar niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að ekki þurfi að afhenda verjendum önnur gögn sakamáls en þau sem séu á skjölum jafnvel þó að hægt sé að afrita þau eins og þau gögn sem varnaraðilar krefjast að verði afhent verjendum sínum. Var kröfum þeirra því hafnað.
Í 66. gr. laga nr. 88/2008 er gert ráð fyrir að framburðarskýrslur við rannsókn sakamála séu hljóðritaðar eða teknar upp á myndband eða mynddisk. Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laganna um afhendingu rannsóknargagna til verjanda eiga að tryggja réttaröryggi sakbornings og möguleika til málsvarnar. Öll sömu sjónarmið sem að þessu lúta eiga við, þó að rannsakandi hafi í samræmi við 1. mgr. 66. gr. laganna hljóðritað skýrslur eða tekið þær upp á mynddisk í stað þess að skrá þær á pappír. Við skýringu á lagaákvæði sem ætlað er að tryggja réttaröryggi sakaðra manna verður að mínum dómi að beita þeim skýringarkosti sem tryggir það markmið best. Kveða þurfi í settum lögum skýrt á um undantekningu frá þeim rétti til þess að hún teljist gild. Sé 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 skýrð með þeim hætti, sem gert var í fyrrgreindum dómsmálum og meirihluti réttarins heldur sig við í þessu máli, leiðir það til þess að sá sem rannsakar sakamál hefur í hendi sinni að takmarka aðgang verjanda að framburðarskýrslu með því að velja tækni við skráningu hennar sem undanþegin er heimild verjandans til að fá afrit afhent samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Þetta er að mínum dómi ótæk lögskýring. Með vísan til alls þessa tel ég að túlka beri ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 þannig að því verði beitt um afrit hljóðrita og mynddiska. Samkvæmt þessu ber verjanda réttur til að fá slík gögn afhent nema þau séu sérstaklega undanþegin með öðrum ákvæðum laganna svo sem til dæmis er gert í 3. mgr. 37. gr. Svo er ekki í þessu máli. Tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi og fallast á kröfur varnaraðila.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2012.
Með ákæru ríkissaksóknara frá 3. maí 2012 eru ákærðu, Y og X sakaðir um sérstaklega hættulega líkamsárás í félagi við aðra.
Dóminum bárust í dag kröfur verjenda þeirra um afhendingu mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum og vitnum í máli Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-406/2012 sbr. mál Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 007-2012-665 að kröfu Y, [...], og málum sama nr. 007-2012-665, 007-2012-13402 og 007-2012-14588 að kröfu X kt. [...].
Verjandi X, Guðmundur St. Ragnarsson hdl., krefst þess til vara að honum sem skipuðum verjanda sé sköpuð aðstaða til þess að kynna sér umrædda mynd- og hljóðdiska. Í tölvuskeyti til dómara frá 17. ágúst 2012 sem liggur fyrir í málinu kemur fram að verjandanum stendur til boða nú þegar það sem hann gerir kröfu um til vara.
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að kröfum varnaraðila verið hafnað að frátalinni varakröfu X.
Við fyrirtöku í máli Héraðsdóms Reykjaness nr. S-314/2012, 16. ágúst 2012, gerðu verjendur allra ákærðu, að undanskildum verjanda Z, kröfu um að fá hljóð- og mynddiska með öllum skýrslutökum af sakborningum og vitnum í málinu afhenta. Með tölvuskeyti, dags. 17. ágúst 2012, synjaði sóknaraðili verjendunum um afhendingu diskanna.
Verða því allir sakborningar að Z undanskildum taldir varnaraðilar í þeim ágreiningi sem hér er til úrskurðar.
Áður höfðu verjendur X og Z sett fram sambærilega kröfu skriflega við sóknaraðila. Verjanda X, Guðmundi St. Ragnarssyni hdl., var synjað um afhendingu diskanna með tölvuskeyti frá sóknaraðila, dags. 10. ágúst 2012. Með bréfi sóknaraðila, dags. 14. ágúst 2012, var verjanda Z, Inga Frey Ágústssyni hdl., boðsendir 5 mynd- og hljóðdiskar úr málinu og samhliða var hann upplýstur um að sóknaraðili hefði áður afhent ákærða Z 26 mynd- og hljóðdiska úr málinu.
Fyrir liggur að sóknaraðili boðsendi ákærða Z framangreinda 26 mynd- og hljóðdiska á Litla Hraun í lok júlí eða byrjun ágúst 2012 ásamt fartölvu. Ákærði Z fékk bæði fartölvuna og diskana afhenta í fangaklefa og var honum því í lófa lagið að taka afrit af diskunum sem hann gerði. Þann 14. eða 15. ágúst 2012 voru síðan verjanda Z afhentir þeir 26 diskar sem verið höfðu í vörslum Z og var verjandinn þá kominn með alla hljóð- og mynddiska með skýrslutökum af sakborningum og vitnum í sínar vörslur.
Ekki er um það deilt að í dag eru bæði ákærði Z og verjandi hans Ingi Freyr Ágústsson hdl. með afrit af öllum hljóð- og mynddiskum í málinu í vörslum sínum sem þeir hafa ekki fengist til þess að skila þrátt fyrir beiðni lögreglu
Í greinargerð Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl. segir að hvað sem líði dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 495-497/2009, 614/2010 og 205/2012 geri varnaraðili kröfu um að sóknaraðila verði gert með úrskurði dómsins að afhenda varnaraðila alla mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af sakborningum og vitnum sem munu alls vera 31 talsins. Segir þar að miðað við það fyrirkomulag sem var á afhendingu diskana til ákærða Z og verjanda og samkvæmt bréfi sóknaraðila dags. 14. ágúst hafi þeir farið með vörslur diskanna en ekki einungis fengið aðstöðu til þess að kynna sér efni diskanna sbr. síðari hluta 1. ml. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Sóknaraðili eigi ekki val um það hverjum ákærðu og verjendum þeirra hann afhendir málsgögn. Sóknaraðili sé í störfum sínum sem handhafi opinbers valds bundinn af lögmætisreglunni, 65. og 70. gr. stjórnarskrár og ákvæðum MSE um réttláta málsmeðferð og jafnfræði borgaranna. Sóknaraðili geti því ekki eftir eigin geðþótta í sama sakamálinu ákveðið að afhenda ákærða Z og verjanda hans tiltekin málsgögn en synjað öðrum ákærðu og verjendum þeirra um afhendingu þessara sömu gagna. Orðrétt endurrit af skýrslutökum liggja ekki fyrir í málinu. Þá eigi tillit til einkahagsmuna ekki við þar sem diskarnir hafa þegar verið afhentir og afrit þeirra eru í vörslum eins ákærða og verjanda hans. Því beri að taka kröfu varnaraðila til greina.
Um lagarök til stuðnings kröfunni er vísað til 37. gr. laga nr. 88/2008 og 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009, sbr. 181. gr. og c. lið 1. mgr. 192. gr. sömu laga.
Í málflutningi sóknaraðila kom fram að samkvæmt 37. gr. laga um meðferð sakamála beri lögreglu að afhenda verjanda og skjólstæðingi hans afrit af öllum skjölum máls jafnskjótt og unnt er. Það liggi hins vegar fyrir skýr dómafordæmi Hæstaréttar Íslands um að hljóð- og mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslur lögreglu af sakborningum og vitnum, teljist ekki til skjala eða annarra gagna í skilningi ákvæðis 37. gr. og þar af leiðandi sé lögreglu ekki skylt að afhenda þessa diska, hvorki á rannsóknarstigi né eftir að ákæra hefur verið gefin út. Vísar sóknaraðili til dóma Hæstaréttar nr. 495/2009, 496/2009, 497/2009, 614/2010 og svo 205/2012. Með tölvubréfi 17. ágúst sl., sem lagt hefur verið fram í dóminum, var beiðni verjanda í máli þessu um afhendingu umræddra mynddiska hafnað. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að þeim stæði til boða aðstaða til að kynna sér efni diskanna. Því liggur fyrir í málinu að verjendum er heimill aðgangur að þessum upptökum, sem er í samræmi við fyrri málslið 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Þá liggi og fyrir í máli þessu að framburðir hjá lögreglu af ákærðu og vitnum hafi verið skráðir niður í samræmi við 12. gr. umræddrar reglugerðar. Í flestum tilvikum hafi verið rituð nánast orðrétt skýrsla samhliða upptökunni, sem vitni og ákærðu og eftir atvikum verjendur hafi undirritað í lok skýrslutöku. Er sú tilhögun í samræmi við c. lið 12. gr. reglugerðarinnar. Í öðrum tilvikum hafi verið útbúin sérstök samantekt sem byggði á upptökunni í samræmi við a. lið ákvæðisins. Þessar skýrslur og samantektir liggja fyrir í málinu og verjendur hafa fengið afrit af þeim.
Í ljósi þessara atriða, þ.e.a.s. að mynddiskarnir teljist ekki til gagna í skilningi 37. gr. sakamálalaganna og framburðirnir hafi verið skráðir niður í samræmi við 12. gr. umræddrar reglugerðar, verði að mati sóknaraðila ekki hjá því komist að hafna beiðni verjanda um afhendingu diskanna. Engu máli skipti í þessu samhengi að einn verjanda, þ.e. verjandi Z, hafi fyrir mistök, fengið umrædda diska í hendur.
Þá segir í röksemdarfærslu sóknaraðila að með tölvubréfi dagsettu 4. júní sl. hafi verjandi Z óskað eftir öllum hljóð- og mynddiskum málsins. Með tölvubréfi lögreglu sama dag hafi þeirri beiðni verið hafnað og verjandanum boðin aðstaða til að horfa á diskana. Þessi tölvubréf séu meðal gagna málsins og dómari hafi þau undir höndum. Þannig hafi afstaða lögreglu um að afhenda ekki diskana legið fyrir strax í upphafi.
Hins vegar hafi það gerst með bréfi lögreglu, 14. ágúst sl., að verjanda Z hafi verið sendir fimm hljóð- og mynddiskar sem höfðu að geyma upptökur af yfirheyrslum hjá lögreglu. Af bréfinu megi glögglega sjá að bréfritari, starfsmaður lögreglu, hafi staðið í þeirri trú að lögregla væri þegar búin að afhenda Z 27 diska,en svo hafi ekki verið. Búið hafi verið að koma upp aðstöðu á Litla-hrauni, þar sem Z hafi getað hlýtt á þessa diska, sem verið hafi í vörslu fangavarða.
Fangaverðirnir hafi svo afhent verjandanum þessa 27 diska með leyfi umrædds starfsmanns lögreglu. Þar hafi átt sér stað mannleg mistök hjá lögreglu sem leitt hafi til þess að verjandinn hafi komist yfir diskana. Því geti verjendur annarra sakborninga ekki byggt rétt sakborninga til þessara gagna á mistökum lögreglu. Ekki sé unnt að halda því fram að lögregla sé að mismuna verjendum og sakborningum. Lögregla hafi gert mistök og reyni hún allt hvað hún geti til að leiðrétta þau. Þessi mistök lögreglu geti ekki réttlætt það að gerð verði önnur mistök, það er að afhenda umbeðin gögn.
Niðurstaða:
Dómari telur ekki ástæðu til að vantreysta lýsingu sóknaraðila á samskiptum hans við Z varðandi afhendingu umræddra diska.
Það er mat héraðsdómara að dómur Hæstaréttar í máli nr. 205/2012 feli í sér svo afdráttarlaust dómafordæmi að fram hjá því verði ekki litið í máli þessu. Verjendum sakaðra manna verður ekki veittur aðgangur að sambærilegum upptökum og hér er deilt um með afhendingu hljóð- eða mynddiska sem hafa að geyma skýrslur lögreglu af sakborningum og vitnum eftir að mál hefur verið höfðað eins og segir í dómi Hæstaréttar þar sem vitnað er í dóm réttarins frá 1. nóvember 2010 í máli 614/2010 sem tekur í þessu efni af öll tvímæli. Í nefndum dómi er einnig vitnað til þess að í dómum Hæstaréttar nr. 495, 496 og 497 /2009 að hljóð- eða mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslur lögreglu af sakborningum og vitnum, teljist ekki til skjala eða annarra gagna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008. Þau rök að vegna mistaka lögreglu hafi einn verjanda komist yfir diskana og afritað þá verði allir verjendur að sitja við sama borð eru að mati dómara haldlaus. Í flestum tilvikum var rituð nánast orðrétt skýrsla samhliða upptökunni, sem vitni og ákærðu og eftir atvikum verjendur undirrituðu í lok skýrslutöku. Er sú tilhögun í samræmi við c. lið 12. gr. reglugerðarinnar nr. 651/2009. Í öðrum tilvikum var útbúin sérstök samantekt sem byggði á upptökunni í samræmi við a. lið ákvæðisins. Þessar skýrslur og samantektir liggja fyrir í málinu og hafa verjendur fengið afrit af þeim. Ekki er neitt að mati dómara sem af þessari tilhögun leiðir sem ætti að leiða til þess að varnaraðilar fái ekki réttláta málsmeðferð. Þeim stendur til boða að grandskoða úrvinnslu efnis af umþrættum hljóð- og mynddiskum og sýna í dóminum telji þeir að réttur hafi verið brotinn á skjólstæðingum þeirra.
Gildi dómafordæma verður ekki ýtt út af borðinu með mistökum og þau notuð sem rök til þess að réttlæta niðurstöðu sem gengur gegn skýrri dómvenju. Fyrir liggur eins og áður segir að verjendum er heimill aðgangur að umræddum upptökum á skýrslum sem er að finna á þeim diskum sem krafist er afhendingar á. Ekki er tilefni til þess að fjalla frekar um varakröfu verjanda X vegna þess að fyrir liggur óumdeilt að honum hefur staðið og stendur til boða það sem hann gerir þar kröfu um enda hefur hann enga lögvarða hagsmuni af úrskurði þar um. Verður henni því vísað frá dómi.
Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið er kröfum varnaraðila hafnað.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn. Málið var tekið til úrskurðar þann 27. þ.m.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfum varnaraðila um afhendingu mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af ákærðu og vitnum í máli Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-406/2012 er hafnað.
Varakröfu X er vísað frá dómi.