Hæstiréttur íslands

Mál nr. 353/2001


Lykilorð

  • Húsaleiga
  • Lausafjárkaup
  • Samningur
  • Skuldajafnaðarkrafa


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002.

Nr. 353/2001.

Lykilhótel hf.

(Jón Gunnar Zoëga hrl.)

gegn

Norðlensku framtaki ehf.

Marinó Sveinssyni

Jóni Vídalín Ólafssyni og

Jóni Hauki Stefánssyni

(Gunnar Sólnes hrl.)

 

Húsaleiga. Lausafjárkaup. Samningur. Skuldajafnaðarkrafa.

L leigði stefndu húsnæði til veitingareksturs á Akureyri og keypti mat af N fyrir hótelgesti sína á leigutímanum. Tímabundinn leigusamningur aðila rann út 1. febrúar 1999. L sagði samningnum upp 31. október 1998 og ítrekaði uppsögnina 30. nóvember 1999 og skoraði á stefndu að rýma húsnæðið. Viðræður fóru fram milli aðila um hækkun leigunnar og L sendi N reikninga fyrir hækkaðri mánaðarleigu allt til ágústloka 2000 er N fór úr húsnæðinu. Ómótmælt var að reikningarnir voru endursendir jafnóðum. Samningaviðræður báru ekki árangur. Engu að síður hélt L áfram að þiggja þjónustu N og höfðu starfsmenn L kvittað fyrir móttöku alls þess matar sem N krafðist greiðslu fyrir í málinu. Var talið rétt að líta svo á að samningurinn hefði í raun verið framlengdur óbreyttur og staðið þannig allt þar til stefndu fóru úr húsnæðinu. Ósannað þótti að nokkuð hefði verið kvartað undan þjónustu N fyrr en í framburði fyrirsvarsmanns L fyrir héraðsdómi. Voru þær kvartanir taldar í ósamræmi við framburð hótelstýru L á staðnum. Með þeirri athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur og kröfur stefndu um greiðslu L á umræddum matarreikningum að frádregnu leigugjaldi samkvæmt leigusamningnum, teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 18. september 2001. Hann krefst þess að kröfur hins stefnda fyrirtækis verði lækkaðar og skuldajafnað við kröfu sína á hendur því og auk þess krefst hann sjálfstæðs dóms um það af kröfu sinni sem umfram er. Krafa hans er um leigu að fjárhæð 6.602.949 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af greindum fjárhæðum frá tilgreindum dögum til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðir reikningar, sem áfrýjandi kveðst hafa sent hinu stefnda fyrirtæki um leigu hvers mánaðanna febrúar 1999 til ágúst 2000 að báðum meðtöldum. Stefndi hefur ekki gert athugasemdir við framlagningu þessara reikninga.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Tímabundinn leigusamningur aðila rann út 1. febrúar 1999. Áfrýjandi sagði samningnum upp 31. október 1998 og ítrekaði uppsögnina 30. nóvember 1999 og skoraði á stefndu að rýma húsnæðið. Viðræður fóru fram milli aðila um hækkun leigunnar og sendi áfrýjandi hinu stefnda fyrirtæki reikninga fyrir hækkaðri mánaðarleigu allt til ágústloka 2000 er það fór úr húsnæðinu. Ómótmælt er að reikningarnir voru endursendir jafnóðum. Samningaviðræður báru ekki árangur. Engu að síður hélt áfrýjandi áfram að þiggja þjónustu fyrirtækisins og verður að líta svo á að samningurinn hafi í raun verið framlengdur óbreyttur og staðið þannig allt þar til stefndu fóru úr húsnæðinu. Hafa starfsmenn áfrýjanda kvittað fyrir móttöku alls þess matar sem hið stefnda fyrirtæki krefst greiðslu fyrir. Ósannað er að nokkuð hafi verið kvartað undan þjónustu þess fyrr en í framburði fyrirsvarsmanns áfrýjanda í héraðsdómi. Eru þær kvartanir í ósamræmi við framburð hótelstýru áfrýjanda á staðnum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt þessum úrslitum ber áfrýjanda að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að dráttarvextir sæta breytingu samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.

Áfrýjandi, Lykilhótel hf., greiði stefndu, Norðlensku framtaki ehf., Marinó Sveinssyni, Jóni Vídalín Ólafssyni og Jóni Hauki Stefánssyni, sameiginlega 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 3. júlí 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 16. maí s.l., hefur Norðlenskt Framtak ehf., kt. 650194-2419, Geislagötu 7, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn Lykilhótelum hf., kt. 590169-6339, Seljugerði 12, Reykjavík, með stefnu birtri þann 21. desember 2000.  Með stefnu birtri þann 15. febrúar 2001 höfðuðu Lykilhótel hf. gagnsakarmál gegn Norðlensku Framtaki ehf., Marinó Sveinssyni, kt. 110971-5759, Hafnarstræti 82, Akureyri, Jóni Vidalín Ólafssyni, kt. 190265-5019, Huldugili 54, Akureyri og Jóni Hauki Stefánssyni, kt. 050173-5349, Breiðabóli, Svalbarðsstrandarhreppi, Akureyri.

Dómkröfur stefnanda í aðalsök, eru þær að aðalstefnda verði dæmt til að greiða aðalstefnanda skuld að fjárhæð kr. 2.380.129,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá 31. ágúst 2000 til greiðsludags.  Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi

Aðalstefnda krefst þess, að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og að heimilaður verði skuldajöfnuður við kröfu aðalstefnanda að viðbættum dráttarvöxtum skv. 10. gr., sbr. 12. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1. október 2000.

Dómkröfur stefnanda í gagnsök eru þær, að gagnstefndu verði dæmdir til að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð kr. 6.602.949,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af kr. 251.302,- frá 14. janúar 1999 til 5. febrúar 1999 þá af kr. 551.302,- frá þ.d. til 2. mars 1999 en þá af kr. 851.302,- frá þ.d. til 9. apríl 1999 en þá af kr. 1.152.275,- frá þ.d. til 6. maí 1999 þá af kr. 1.454.871,- frá þ.d. til 29. júlí 1999 þá af kr. 2.372.642,- frá þ.d. til 30. nóvember 1999 þá af kr. 3.620.334,- frá þ.d. til 1. janúar 2000 þá af kr. 3.736.873,- frá þ.d. til 31. janúar 2000 þá af kr. 4.051.798,- frá þ.d. til 29. febrúar 2000 þá af kr. 4.369.158,- frá þ.d. til 31. mars 2000 þá af kr. 4.685.544,- frá þ.d. til 30. apríl 2000 þá af kr. 5.004.363,- frá þ.d. til 31. maí 2000 þá af kr. 5.325.129,- frá þ.d. til 30. júní 2000 þá af kr. 5.647.194,- frá þ.d. til 31. júlí 2000 þá af kr. 5.970.395,- frá þ.d. til 31. ágúst 2000 þá af kr. 6.295.212,- frá þ.d. til 30. september 2000 þá af kr. 6.602.949,- frá þ.d. til greiðsludags.  Allt að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð kr. 1.366.976,-.  Jafnframt krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefndu samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndu í gagnsök gera þær dómkröfur, að þeir verði með öllu sýknaðir af kröfum gagnstefnanda.  Jafnframt krefjast gagnstefndu þess, að gagnstefnandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins.

Aðalstefnandi sem og gagnstefndu allir hafa lýst málsatvikum svo, að hin umdeildu viðskipti málsaðila hafi verið með þeim hætti, að gagnstefndu Marinó, Jón Vídalín og Jón Haukur, hafi leigt af aðalstefnda húsnæði til veitingareksturs.  Jafnframt hafi aðalstefndi keypt mat af aðalstefnanda fyrir hótelgesti á leigutímanum.  Upphaf leigutíma hafi verið 1. febrúar 1994 en lok 1. febrúar 1999.  Fyrir lok leigutíma hafi leigusamningnum verið sagt upp og í framhaldinu hafi hafist viðræður milli aðila um framlengingu og/eða gerð nýs leigusamnings.  Ýmsar tillögur hafi gengið milli aðila um breytingar á leigusamningi, en ekki hafi náðst samkomulag um neina.  Meðan á þessu samningaþófi hafi staðið hafi aðalstefnandi haft afnot hins leigða húsnæðis á grundvelli upphaflegs leigusamnings og jafnframt hafi haldið áfram matarsala félagsins til aðalstefnda.  Þar sem ekki hafi náðst samkomulag um gerð nýs leigusamnings eða framlengingu á eldri leigusamningi hafi verið um það samið, að aðalstefnandi rýmdi hið leigða húsnæði fyrir 1. september 2000.

Í árslok 1998 hafi aðalstefnda skuldað aðalstefnanda kr. 388.318,- vegna matarsölunnar.  Engar greiðslur hafi átt sér stað milli málsaðila á tímabilinu 1999 til 2000 utan þess, að aðalstefnandi greiddi aðalstefnda kr. 250.000,- í maí 1999 vegna húsaleiguskuldar.  Við lok leigutímans þann 31. ágúst 2000 hafi skuld aðalstefnda við aðalstefnanda hins vegar staðið í kr. 2.380.129,-, sem sé stefnufjárhæð málsins.

Aðalstefnda kveður málsatvik hins vegar vera þau, að aðalstefnandi hafi leigt af félaginu húsnæðið að Geislagötu 7, Akureyri, frá 1. febrúar 1994 til 1. febrúar 1999 samkvæmt leigusamningi dags. 1. febrúar 1994.  Leigufjárhæðin fyrir hvern mánuð hafi verið kr. 150.000,- en skyldi breytast til samræmis við breytingar á vísitölu húsnæðiskostnaðar.  Leigutaka hafi ekki verið heimilt að framleigja húsnæðið nema með samþykki leigusala.  Leigutökum, gagnstefndu Marinó, Jóni Vídalín og Jóni Hauki, hafi verið heimilt að stofna fyrirtæki um reksturinn, aðalstefnanda, en leigutakar hafi samt sem áður samkvæmt leigusamningnum átt að bera persónulega og solidaríska ábyrgð á öllum leigugreiðslum og efndum samningsins.

Hið leigða húsnæði hafi verið leigt út til veitingareksturs og hafi þar verið rekinn pítsastaður.  Hafi reksturinn verið í sama húsi og Hótel Norðurland, sem aðalstefndi reki.

Þann 31. október 1998 hafi leigusamningnum verið sagt upp af hálfu aðalstefnda.  Þann 29. nóvember 1999 hafi aðastefnandi sent bréf til aðalstefnda og óskað eftir áframhaldandi leiguafnotum á grunni hins gamla samnings, en leigufjárhæð skyldi vera kr. 225.000,- á mánuði.  Aðalstefndi hafi hins vegar viljað fá kr. 350.000,- á mánuði í leigu.  Hafi aðalstefnandi þá verið búinn að vera í húsnæðinu án þess að greiða leigu frá 14. janúar 1999.

Þann 30. nóvember 1999 hafi uppsögn leigusamningsins verið ítrekuð með símskeyti og skorað á aðalstefnanda að rýma húsnæðið, en aðalstefnandi hafði þá verið í húsnæðinu í óþökk aðalstefnda og ekki greitt neina leigu frá 14. janúar 1999.  Símskeytinu hafi verið svarað þann 2. desember 1999 og í því komið fram sá skilningur aðalstefnanda, að með aðilum hefði tekist óformlegt samkomulag um áframhaldandi leigu, þrátt fyrir að ágreiningur hefði verið um leigugjald.  Í framhaldinu hafi aðalstefnandi sent aðalstefnda tillögu dags. 15. mars 2000  um nýjan leigusamning.  Aðalstefndi hafi verið sáttur við þá tillögu að undanskyldum lið D í tillögunni og hafi því ekki orðið af undirritun nýs leigusamnings.  Í tillögu aðalstefnanda frá 15. mars 2000 hafi verið sátt með aðilum um kr. 300.000,- í leigu á mánuði.  Stefnandi hafi síðan verið í leiguhúsnæðinu út september 2000 án þess að greiða leigu.

Kröfur sínar í aðalsök kveður stefnandi vera byggðar á reikningsyfirliti dags. 31. ágúst 2000 að fjárhæð kr. 2.380.129,- vegna matarkaupa að frádreginni húsaleigu og hitaveitu fyrir tímabilið janúar 1999 til ágúst 2000.  Skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og aðalstefnanda hafi því verið nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Til stuðnings kröfum sínum í aðalsök kveðst aðalstefnandi vísa til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup.  Um gjalddaga vísist einkum til meginreglu 12. gr. sömu laga.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti kveðst aðalstefnandi styðja við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 með síðari breytingum.  Þá styðjist krafa um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Kröfur sínar í aðalsök byggir stefnda á því, að aðalstefnandi hafi ekki greitt húsaleigu frá 14. janúar 1999 og fram til 1. október 2000 og sé skuldastaðan nú þannig, að aðalstefnandi skuldi aðalstefnda kr. 6.259.971,- í húsaleigu miðað við  kr. 350.000,- í leigugjald á mánuði.  Ef hins vegar sé reiknað með kr. 300.000,- í húsaleigu þá sé skuldastaða aðalstefnanda við aðalstefnda ívið lægri en þó töluvert hærri en sem nemi stefnukröfum í aðalsök.

Það hafi verið hluti af samkomulagi aðila, að aðalstefnandi sæi um mat fyrir gesti Hótels Norðurlands.  Hafi sá matur verið útbúinn á pítsastað félagsins.  Eftir 1. febrúar 1999 hafi matarreikningar aðalstefnanda farið að keyra úr hófi fram og aðalstefnda því aldrei samþykkt þá.  Í kjölfarið hafi félagið flutt viðskipti sín yfir til Fiðlarans um mitt ár 2000, en sá staður sé dýrasti veitingastaður Akureyrar með allt fyrsta flokks, bæði í aðbúnaði, mat og þjónustu.  Verð á hvern gest þar hafi verið u.þ.b. kr. 400,- lægra en hjá aðalstefnanda, þrátt fyrir að það hafi notað veitingasal hótels aðalstefnda.  Þar sem aðalstefnda hafi ekki viljað samþykkja reikninga aðalstefnanda vegna matarsölunnar hafi ekki farið fram skuldajöfnuður vegna þeirra eins og ávallt áður vegna viðskipta aðila.

Kröfu um skuldajöfnuð kveðst aðalstefnda byggja á því, að með aðilum hafi tekist óformlegt leigusamband frá 1. febrúar 1999 fram til 30. september 2000, en þá hafi aðalstefnandi farið úr húsnæðinu að Geislagötu 7, Akureyri.  Ekki hafi tekist sátt með aðilum um leigufjárhæð fyrr en 15. mars 2000 og þá um kr. 300.000,- fyrir hvern mánuð, en aðalstefnda hafi viljað fá kr. 350.000,- í leigu fyrir hvern mánuð frá 1. febrúar 1999.  Félagið sé þó tilbúið að sættast á kr. 300.000,- á mánuði frá síðastnefndum degi.  Heldur aðalstefnda því fram, að nefndar leigufjárhæðir eigi að skuldajafnast á móti eðlilegum matarreikningum aðalstefnanda, en leiguskuld þess sé hærri en sem nemi stefnufjárhæð.

Aðalstefnda kveðst styðja kröfur sínar við almennar reglur kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga.  Vísað sé til ákvæða laga nr. 7, 1936.  Krafa um málskostnað sé studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Krafa um vexti eigi sér stoð í III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 með síðari breytingum.  Þá vísist um heimild til skuldajafnaðar til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91, 1991.

Kröfur sínar í gagnsök kveðst stefnandi reisa á leigusamningi milli aðila um Geislagötu 7, Akureyri frá 5. febrúar 1999 til 30. september 2000, en gagnstefndu skuldi gagnstefnanda leigugjald fyrir framangreindan leigutíma.  Aðilar málsins hafi upphaflega gert með sér leigusamning frá 1. febrúar 1994 til 1. febrúar 1999 um leigu á húsnæðinu á Geislagötu 7, Akureyri.  Sátt hafi orðið með aðilum þann 15. mars 2000 þess efnis, að leigugjald yrði kr. 300.000,- á mánuði og hafi leigusamningurinn verið framlengdur frá 1. febrúar 1999 þangað til í september 2000, er leigutakar hafi farið úr húsnæðinu.

Gagnstefndu hafi ekkert leigugjald greitt frá janúar 1999 utan eina innborgun þann 17. maí 1999 kr. 250.000,-, til þess tíma að gagnstefndu fóru úr húsnæðinu í september 2000.

Gagnstefnandi kveður kröfur sínar vera byggðar á framlengdum leigusamningi á grunni hins fyrri samkvæmt samkomulagi aðila frá 15. mars 2000 og jafnframt á þeirri staðreynd, að gagnstefndu voru í leiguhúsnæðinu allt seinna leigutímabilið.  Leigugjald kr. 300.000,- hafi verið ákveðið af hálfu gagnstefndu, sem miðist við allt seinna leigutímabilið frá febrúar 1999 til og með september 2000.

Til stuðnings kröfum sínum hefur gagnstefnandi vísað til meginreglu kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup.  Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga.  Vísað sé til 28. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála um gagnkröfur.  Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti styðjist við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 með síðari breytingum.  Þá styðjist krafa um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Gagnstefndu Marinó, Jón Vídalín og Jón Haukur kveðast byggja sýknukröfu sína á aðildarskorti.  Þeir hafi ekki átt aðild að máli Norðlensks Framtaks ehf. á hendur Lykilhótelum hf. í aðalsök og þar af leiðandi geti þeir ekki átt aðild að máli, sem höfðað sé í gagnsök milli sömu aðila.

Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli aðildarskorts kveðast gagnstefndu Marinó, Jón Vídalín og Jón Haukur byggja sýknukröfuna á því, að ekki sé um skuld að ræða við gagnstefnanda, Lykilhótel hf., þar sem leigugjald til gagnstefnanda hafi verið að fullu greitt með matarúttekt.  Að öðru leyti kveðast gagnstefndu Marinó, Jón Vídalín og Jón Haukur vísa til rökstuðnings fyrir sýknukröfu gagnstefnda Norðlensks Framtaks ehf.

Gagnstefnda Norðlenskt Framtak ehf. kveðst byggja sýknukröfu á því, að félagið sé ekki í skuld við gagnstefnanda heldur sé gagnstefnandi í skuld við félagið, sem nemi kr. 2.380.129,-.  Svo virðist sem gagnstefnandi byggi kröfur sínar á hendur félaginu á tillögum að nýjum og/eða breyttum leigusamningi, sem hvorki hafi verið samþykktar af gagnstefnanda, Lykilhótelum hf., né gagnstefnda, Norðlensku Framtaki ehf.  Aðeins einn leigusamningur hafi verið í gildi á þeim tíma, sem gagnstefnda Norðlenskt Framtak ehf. hafði umrætt húsnæði á leigu og það sé samningurinn frá febrúar 1994.  Eins og framlögð skjöl beri með sér hafi hins vegar aldrei náðst samkomulag um breytingar á leigusamningnum.  Gagnstefnandi hafi viljað hækka leigu úr kr. 150.000,- í kr. 350.000,- sem gagnstefnda Norðlenskt Framtak ehf. hafi ekki viljað fallast á, þar sem leigutími hafi átt að vera skammur.  Gagnstefnda Norðlenskt Framtak ehf. hafi hins vegar boðið verulega hækkun á leigu með því skilyrði, að leigutími yrði langur.  Samkvæmt framangreindu hafi því hvorki orðið af breytingu á upphaflegum leigusamningi, né gerður nýr leigusamningur. 

Kveður gagnstefnda Norðlenskt Framtak ehf., að leigan hafi verið greidd með matarúttekt gagnstefnanda hjá félaginu.  Í greinargerð stefnda í aðalsök komi fram, að hluti samkomulags málsaðila hafi verið í því fólgið, að aðalstefnandi ætti að sjá um mat fyrir hótelgesti á Hótel Norðurlandi og sé það í samræmi við málsástæður gagnstefnda Norðlensks Framtaks ehf.  Félagið kannist hins vegar ekki við að hafa fengið athugasemdir frá gagnstefnanda varðandi matarreikningana og því síður að þeir hafi ekki verið samþykktir af félaginu.  Eins og framlögð dómskjöl beri með sér hafi gagnstefnandi fengið afhentan mat hjá gagnstefnda Norðlensku Framtaki ehf. samkvæmt beiðni starfsfólks gagnstefnanda hverju sinni allt til loka leigutímans og jafnframt hafi allri reikningarnir verið samþykktir af starfsfólki hans.

Skýrslur fyrir dómi gáfu gagnstefndu Marinó Sveinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri aðalstefnanda, og Jón Vídalín Ólafsson, stjórnarformaður aðalstefnanda, Jón Ó. Ragnarsson, framkvæmdastjóri aðalstefnda og Ragna Ragnarsdóttir, bókari.

Málsaðila í aðalsök greinir ekki á um, að stefnda hafi móttekið allan þann mat, sem reikningar stefnanda byggja á.  Þá greinir hins vegar á um hvert endurgjaldið fyrir hann eigi að vera, en fyrir dómi bar framkvæmdastjóri aðalstefnda, að ekki hafi verið samið sérstaklega um verð þess matar, sem aðalstefnandi seldi félaginu.

Í 5. gr. laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup segir, að séu kaup gerð, en ekkert fastákveðið um hæð kaupverðsins, beri kaupanda að greiða það verð, sem seljandi heimti, ef eigi verði að telja það ósanngjarnt.  Er það álit dómsins, að fallast verði á kröfu aðalstefnanda með vísan til nefndrar greinar, enda hefur aðalstefnda á engan hátt tekist að sanna, að hið umkrafða verð sé ósanngjarnt.

Gagnstefnandi byggir málsaðild gagnstefndu Marinós, Jóns Vídalíns og Jóns Hauks á 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Þar sem nefndir aðilar geta skýrlega átt samlagsaðild í gagnsökinni með gagnstefnda Norðlensku framtaki ehf., sbr. 19. gr. nefndra laga, telst þeim réttilega hafa verið stefnt inn í málið.  Verða þeir því ekki sýknaðir með vísan til aðildarskorts.

Gögn málsins bera með sér, að samkomulag náðist aldrei um áframhaldandi leigu á húsnæði gagnstefnanda við Geislagötu á Akureyri, að liðnum þeim samningstíma, sem tilgreindur var í leigusamningnum frá febrúar 1994.  Óundirritaður leigusamningur dags. 15. mars 2000, getur ekki, gegn eindregnum mótmælum gagnstefndu, talist sönnun þess að samkomulag hafi náðst.  Umrædd fullyrðing gagnstefnanda telst því með öllu ósönnuð og verður ekki á henni byggt í málinu.

Eins og áður hefur verið rakið kveðst gagnstefnandi byggja kröfur sínar á framlengdum leigusamningi á grunni hins fyrri.  Að þessu athuguðu og að fenginni ofangreindri niðurstöðu hvað  varðar hinn óundirritaða leigusamning frá 15. mars 2000, er það niðurstaða dómsins, að ekki verði við annað miðað við ákvörðun endurgjalds gagnstefndu fyrir leiguafnotin af Geislagötu 7, en það endurgjald sem fram kemur í samningnum frá 1994.

Kröfugerð stefnanda í aðalsök ber það skýrlega með sér, að í henni hefur verið tekið tillit til krafna stefnanda í gagnsök, að svo miklu leyti sem dómurinn hefur fallist á þær hér að framan.  Þykir því, eins og kröfugerð í málinu er háttað, verða að sýkna gagnstefndu af öllum kröfum gagnstefnanda.

Með vísan til framangreinds þykir verða að fallast á kröfur stefnanda í aðalsök og dæma stefnda til að greiða félaginu kr. 2.380.129,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá 6. desember 2000 til greiðsludags.

Í ljósi niðurstöðu dómsins hér að framan og að atvikum máls athuguðum, þykir rétt að ákvarða málskostnað í aðalsök og gagnsök í einu lagi.  Skal gagnstefnandi greiða gagnstefndu óskipt kr. 400.000,- í málskostnað og er virðisaukaskattur innifalinn í þeirri fjárhæð.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Aðalstefnda, Lykilhótel hf., greiði aðalstefnanda, Norðlensku Framtaki ehf., kr. 2.380.129,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá 6. desember 2000 til greiðsludags.

Gagnstefndu, Norðlenskt Framtak ehf., Marinó Sveinsson, Jón Vídalín Ólafsson og Jón Haukur Stefánsson, skulu sýkn af öllum kröfum stefnanda í gagnsök, Lykilhótela hf.

Gagnstefnandi greiði gagnstefndu óskipt kr. 400.000,- í málskostnað.