Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-177

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Stefáni Þorvaldi Tómassyni (Bjarni Hauksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Umferðarlagabrot
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Ökutæki
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 16. júní 2021 leitar Stefán Þorvaldur Tómasson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. maí sama ár í málinu nr. 603/2019: Ákæruvaldið gegn Stefáni Þorvaldi Tómassyni á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála en dómurinn var birtur honum 19. sama mánaðar. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ýmsum ákvæðum umferðarlaga með því að hafa ekið bifreið án nægjanlegrar aðgæslu og varúðar og án þess að virða umferðarforgang gangandi vegfaranda á gangbraut þar sem umferð var stjórnað með umferðarljósum og þannig ekið á brotaþola með nánar tilgreindum afleiðingum. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í 30 daga en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem ekki hafi verið sannað að hann hafi sýnt af sér gáleysi enda hafi ekki legið fyrir að hann hafi sýnt af sér óvarkárni eða ekki gætt nægrar varúðar. Leyfisbeiðandi vísar til þess að sönnunarbyrði í sakamálum hvíli á ákæruvaldi og skynsamlegan vafa beri að skýra sakborningi í hag. Sömu kröfur verði að gera til sönnunar þó að gáleysi nægi til sakfellingar. Í dómi Landsréttar kunni að hafa verið ranglega blandað saman mati á saknæmi og sönnun með þeim afleiðingum að ábyrgð leyfisbeiðanda hafi verið metin með hlutlægum hætti eða byggð á líkindum. Þá telur leyfisbeiðandi að úrlausn Hæstaréttar muni hafa verulega almenna þýðingu um mat á sönnun á saknæmi.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.