Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2007
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Fyrning
- Gjafsókn
|
|
Þriðjudaginn 18. mars 2008. |
|
Nr. 449/2007. |
Hulda Jónsdóttir(Halldór H. Backman hrl.) gegn Stefaníu Ragnheiði Pálsdóttur og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Líkamstjón. Skaðabætur. Fyrning. Gjafsókn.
H krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu S og V vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í umferðarslysi 1995. Árið 2005 var af hálfu H leitað álits tveggja dómkvaddra matsmanna á örorku og miska hennar, sem rekja mætti til slyssins. Þar kom fram að heilsufar H hafi orðið stöðugt 1. janúar 1999. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að eins og atvikum var háttað væru ekki efni til annars en að líta svo á að H hefði átt að vera kunnugt um kröfu sína á árinu 1999 og getað hafist handa við að leita fullnustu hennar þá. Yrði því að miða við að fyrningartími kröfu H eftir ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 hefði byrjað að líða 31. desember 1999. Var fyrningarfrestur því liðinn þegar málið var höfðað. Voru S og V sýknuð af kröfu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. ágúst 2007. Hún krefst að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna líkamstjóns, sem hún varð fyrir sem ökumaður bifreiðarinnar X 1215 í umferðarslysi 31. ágúst 1995. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, lést Árni Gunnar Pálsson, sem stefnt var í héraði ásamt Vátryggingafélagi Íslands hf., 23. desember 2006. Einkaerfingi hans, Stefanía Ragnheiður Pálsdóttir, lauk einkaskiptum á dánarbúinu 10. janúar 2007 og hefur hún tekið við aðild að málinu.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi var áfrýjandi ökumaður bifreiðarinnar X 1215, sem lenti 31. ágúst 1995 í árekstri við bifreiðina ZM 287 í eigu Árna Gunnars Pálssonar. Óumdeilt er að Árni, sem var ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar, hafi átt sök á slysinu og beri stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. bótaskyldu vegna tjóns, sem af því hlaust. Áfrýjandi hlaut nokkra áverka í slysinu og fékk greiddar frá félaginu samtals 8.573 krónur vegna lækniskostnaðar 21. og 28. nóvember 1995. Þá fékk hún þar jafnframt greiddar 45.000 krónur í þjáningabætur 13. febrúar 1997 og 4.970 krónur vegna læknis- og ferðakostnaðar 29. september sama ár. Á árinu 1996 eða 1997 mun hún hafa farið að finna fyrir ofsakvíða, einkum í tengslum við ferðir í bifreiðum, og frá 1998 tók að gæta verkja í baki, herðum og mjaðmagrind, en þessi mein taldi hún mega rekja til umferðarslyssins 1995. Á árinu 2003 hófst lögmaður hennar handa við að afla frekari gagna um þetta, en að ósk hans innti vátryggingafélagið af hendi í þrennu lagi í október og nóvember 2004 samtals 40.608 krónur til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna læknisvottorða og skattframtala. Að fengnum þessum gögnum urðu sammæli með áfrýjanda og félaginu í febrúar 2005 um að leita mats tveggja nafngreindra lækna á örorku hennar og miska, sem rekja mætti til slyssins. Af hendi félagsins var sérstaklega tekið fram við undirritun beiðni um þetta mat að óskað væri eftir rökstuddu áliti á því hvenær fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins, auk þess sem það áskildi sér rétt til að bera fyrir sig ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í örorkumati 22. júní 2005 var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi átt við þjáningar að etja í þrjá mánuði eftir slysið án þess að hafa verið rúmliggjandi, varanleg örorka hennar af völdum þess væri 40%, varanlegur miski 25% og heilsufar hennar hafi orðið stöðugt eftir slysið 1. september 1997. Með bréfi 28. júlí 2005 krafði áfrýjandi vátryggingafélagið um skaðabætur á grundvelli þessa mats að fjárhæð samtals 6.154.776 krónur auk innheimtukostnaðar. Félagið hafnaði þeirri kröfu 3. ágúst sama ár á þeim grundvelli að hún væri fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga. Áfrýjandi höfðaði í framhaldi af því mál þetta 31. ágúst 2005. Undir rekstri þess fyrir héraðsdómi fékk hún dómkvadda menn 6. apríl 2006 til að leggja mat á hvenær heilsufar hennar hafi orðið stöðugt vegna afleiðinga slyssins. Í matsgerð hinna dómkvöddu manna 24. október sama ár var komist að þeirri niðurstöðu að það hafi verið 1. janúar 1999.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga fyrnast allar bótakröfur samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laganna, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar, þó aldrei síðar en tíu árum frá tjónsatburði. Eins og greinir að framan töldu dómkvaddir matsmenn heilsufar áfrýjanda hafa orðið stöðugt eftir slysið 1. janúar 1999, en áfrýjandi leitaði ekki jafnframt sérstaklega mats á því hvenær tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins. Í því ljósi og eins og atvikum er hér annars háttað eru ekki efni til annars en að líta svo á að áfrýjanda hafi átt að vera kunnugt um kröfu sína á því ári og getað hafist handa við að leita fullnustu hennar, en í því sambandi er þess að gæta að á því tímabili mun áfrýjandi hafa látið af atvinnuþátttöku og örorka hennar jafnframt metin 75% hjá Tryggingastofnun ríkisins. Verður því við það að miða að fyrningartími kröfunnar eftir ákvæði 99. gr. umferðarlaga hafi byrjað að líða 31. desember 1999. Þegar málið var höfðað voru meira en fjögur ár liðin frá þeim degi.
Áðurnefndar greiðslur stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. vegna lækniskostnaðar áfrýjanda og á þjáningabótum til hennar á árunum 1995 og 1997 voru inntar af hendi áður en fyrningartími kröfunnar hófst og geta þær því engin áhrif haft í þessum efnum. Samkvæmt greinargerðum stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti endurgreiddi félagið áfrýjanda í október og nóvember 2004 útlagðan kostnað af læknisvottorðum og skattframtölum sem lið í undirbúningi að öflun örorkumats, sem það hafi síðan fyrir sitt leyti beðið um með fyrirvara um fyrningu kröfunnar. Með því örorkumati var meðal annars leitað svara við atriðum, sem ráðið gátu niðurstöðu um hvenær fyrningartími skaðabótakröfu áfrýjanda gæti hafa byrjað að líða, en að því gættu geta þessar endurgreiðslur ekki talist hafa falið í sér viðurkenningu kröfunnar þannig að fyrning hennar hafi verið rofin samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Því hefur ekki verið borið við að önnur atvik geti hafa leitt til fyrningarslita. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest, þar með talin ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjanda.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Huldu Jónsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2007.
Mál þetta, sem höfðað var 31. ágúst 2005, var dómtekið 30. mars sl.
Stefnandi er Hulda Jónsdóttir, Arnarsmára 12, Kópavogi.
Stefndu eru Árni Gunnar Pálsson, Heiðarvegi 1, Selfossi, og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi gerir þær kröfur í málinu að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefndu vegna líkamstjóns þess sem stefnandi varð fyrir sem ökumaður bifreiðarinnar X-1215 þann 31. ágúst 1995. Jafnframt gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefndu, að skaðlausu, að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru að þeir verði sýknaðir af dómkröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.
Málavextir
Stefnandi starfaði sem bílstjóri lítillar sendibifreiðar, X-1215, við dreifingu á brauði og kökum. Eigandi bifreiðarinnar var Kökugerð HP á Selfossi. Þann 31. ágúst 1995 lenti stefnandi í árekstri á Vesturlandsvegi, nánar tiltekið í Ártúnsbrekku í Reykjavík. Atvik voru þau að stefnandi ók austur Vesturlandsveginn á hægri akrein er stefndi Árnii ók bifreið sinni út af athafnasvæði Esso með ætlaða akstursstefnu vestur Vesturlandsveg. Ók stefnandi Árni í veg fyrir bifreið stefnanda með þeira afleiðingum að árekstur varð með bifreiðunum.
Ágreiningslaust
er í málinu að stefndi Árni beri ábyrgð á slysinu og var sök felld á hann. Hafði hann keypt lögboðnar tryggingar
ökutækis hjá tryggingafélaginu Skandia en bifreið sú ![]()
sem stefnandi ók var
tryggð hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., sem keypti síðar allan
rekstur Skandia og tók yfir skuldbindingar þess félags. Bótaskylda vegna
slyssins hvíldi því að lögum hjá tryggingafélaginu Skandia og nú stefnda, Vátryggingafélagi
Íslands hf.
Hinn 12. október 1995 tilkynnti stefnandi hinu stefnda félagi um slysið. Í kjölfarið aflaði félagið áverkavottorðs og á tímabilinu frá 21. nóvember 1995 til 29. september 1997 innti stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., af hendi nokkrar greiðslur til stefnanda vegna lækniskostnaðar, þjáningabóta og ferðakostnaðar, samtals 58.543 krónur.
Stefnandi kveðst við slysið hafa hlotið bæði líkamlega áverka og andlegan skaða. Er áverkum stefnanda lýst í læknisfræðilegum gögnum.
Beiðni um örorkumat var lögð fram af hálfu stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., sbr. matsbeiðni dags. 2. mars 2005. Í matsbeiðni setur stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., fram þann fyrirvara að þrátt fyrir aðild félagsins að matsbeiðninni áskilji það sér rétt til að bera fyrir sig fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Örorkumatið var framkvæmt af læknunum Atla Þór Ólasyni og Ragnari Jónssyni. Niðurstaða matsins var m.a. sú að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins væri 40% og varanlegur miski 25%. Þá var talið að stöðugleikapunkti hefði verið náð 1. september 1997.
Með bréfi, dags. 28. júlí 2005, var stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., send bótakrafa stefnanda. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafnaði bótaskyldu í bréfi, dags. 3. ágúst 2005, með vísan til þess að krafan væri fyrnd samkvæmt 99. gr umferðarlaga.
Stefnandi kveðst ekki reiðubúin að fallast á afstöðu stefnda til fyrningar kröfunnar og í bréfi, dags. 9. ágúst 2005, skoraði stefnandi á stefnda að endurskoða afstöðu sína. Á það var bent af hálfu stefnanda að greitt hefði verið a.m.k. í þrígang inn á tjónið án nokkurs áskilnaðar eða fyrirvara vegna fyrningar. Bréfi þessu var ekki svarað. Lítur stefnandi svo á að afstaða stefndu sé óbreytt og hefur hún því höfðað mál þetta.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Stefnandi heldur því fram að krafa hennar í málinu sé ekki fyrnd. Bendir stefnandi á að henni hafi verið greiddar bætur að hluta allt fram á árið 1997 og með þessum greiðslum hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., viðurkennt bótaskyldu sína allt frá upphafi. Með tilkynningu um tjónið hafi fyrningu verið slitið í skilningi 99. gr. umferðarlaga. Stefnda hafi frá þeim degi mátt vera kunnugt um kröfuna. Hafi stefndi ekki haft neinar forsendur til þess að ætla að endanleg krafa kæmi ekki fram síðar. Byggir stefnandi á því að í versta falli falli krafa hennar undir almennar fyrningarreglur.
Fallist dómurinn ekki á framangreind sjónamið er á því byggt að ekki sé fyrirliggjandi á hvaða tímapunkti stefnanda var fyrst gerlegt að hafa uppi bótakröfu í málinu. Niðurstaða matslækna um stöðugleikatímapunkt sé ekki raunhæf að mati stefnanda þar sem slíkt mat verði ekki lagt í hendur lækna eingöngu, þar sem í raun sé um lögfræðilega spurningu sé að ræða. Þar að auki liggi fyrir í matsgerð Kristins Tómassonar að andlegur skaði stefnanda fór versnandi allt fram á árið 2004. Telur stefnandi ljóst að ekki sé hægt að telja ástand hennar stöðugt í skilningi skaðabótalaga meðan einkenni hennar fari versnandi. Sama hljóti að eiga við um það tímamark þegar stefnanda var fyrst gerlegt að hafa uppi endanlega kröfu á hendur félaginu í skilningi 99. gr. umferðarlaga.
Í þriðja lagi og óháð fyrri málsástæðum telur stefnandi að hafi krafa hennar á einhverju tímamarki verið fyrnd þá hafi slíkri fyrningu verið slitið með innborgun af hálfu Vátryggingafélags Íslands hf. Fyrirliggjandi sé að félagið hafi greitt ýmsar bætur og aðra tjónsliði á árunum frá 1995 til 1997. Enn fremur skipti hér máli að félagið hafi þrívegis greitt inn á málið í október og nóvember 2004, sbr. dskj. nr. 7 - 11. Þær greiðslur félagsins hafi verið inntar af hendi án alls fyrirvara eða áskilnaðar um fyrningu. Ljóst sé að greiðslur félagsins hefðu ekki komið til nema fyrir hendi væri bótaskylda, enda teljist útlagður kostnaður til tjóns með sama hætti og aðrir bótaliðir. Engar sérreglur gildi um greiðslur tryggingafélaga á útlögðum kostnaði sérstaklega og því séu þessar greiðslur byggðar á sömu bótaskyldu og aðrar greiðslur sem til komi vegna bótaskylds slyss. Byggi stefnandi á því að með téðum greiðslum á útlögðum kostnaði hafi stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., viðurkennt tilvist og réttmæti kröfunnar jafnframt því að falla frá kröfu um fyrningu. Raunar byggi stefnandi á því að greiðslurnar hafi slitið fyrningu sérstaklega í samræmi við meginreglu 6. gr. laga um fyrningu nr. 14/1905. Í samræmi við það hafi fyrningarfrestur bótakröfu stefnanda því í raun endurnýjast, síðast þann 11. nóvember 2004, sbr. greiðsluyfirlit frá stefnda á dskj. nr. 11. Það sé því af og frá að bótakrafa stefnanda nú sé fyrnd. Byggi stefnandi á því að engu breyti um þetta þó stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi áskilið sér einhliða þann rétt að bera fyrir sig fyrningu er matsbeiðni var undirrituð af hálfu félagsins þann 2. mars 2005, löngu eftir að fyrri innborganir félagsins á tjónið höfðu verið inntar af hendi og fyrningu slitið.
Hvergi í 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eða í fyrirmynd þess ákvæðis, þ.e. 29. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954, sé vikið að því að sérstakar reglur gildi um slit fyrningar. Byggi stefnandi á því að strangari kröfur verði ekki gerðar um slit fyrningar á grundvelli 99. gr. umferðarlaga en almennt gerist, fremur að um vægari reglur sé í raun að ræða. Í versta falli hljóti þó sömu reglur að gilda um slit fyrningar í skilningi umferðarlaga og gilda um slit fyrningar almennt. Meginregla 6. gr. laga um fyrningu nr. 14/1905 hafi gilt og henni verið beitt í u.þ.b. hundrað ár. Feli hún í sér almenna reglu sem gildi um fyrningu krafna. Sérreglur, eða ákvæði sérlaga, s.s. téð 99. gr. umferðarlaga, verði ekki skýrð rýmkandi að mati stefnanda. Af því leiði að þar sem beinu efni hennar sleppi hljóti almennar reglur og almenn viðmið um fyrningu og slit fyrningar að gilda fullum fetum. Telur stefnandi fráleitan þann skilning að löggjafinn hafi ætlast til þess að fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga yrði yfir höfuð ekki slitið, slík túlkun yrði að auki í hæsta máta óeðlileg og ósanngjörn í raun. Þvert á móti hljóti að verða að fallast á það með stefnanda að reglur 6. gr. laga um fyrningu gildi hér. Innborganir stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., síðast í nóvember 2004, hafi því slitið fyrningu bótakröfunnar. Enda hafi félaginu verið í lófa lagið að hafna greiðslu á útlögðum kostnaði eða setja fram sérstakan áskilnað áður en greiðslurnar voru inntar af hendi. Það hafi ekki verið gert.
Stefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum skaðabótaréttar og reglum um ábyrgð án sakar. Jafnframt er byggt á reglum umferðarlaga nr. 50/1987, svo og ákvæðum laga nr. 14/1905, laga nr. 20/1954 og laga nr. 50/1993. Um málskostnað byggir stefnandi á ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum XXI. kafla þeirra laga. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggist á ákvæðum laga nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
Málsástæður stefndu og lagarök
Sýknukröfu sína byggja stefndu einkum á því að hugsanleg bótakrafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðalaga nr. 50/1987 og samkvæmt skýrri og nýlegri dómaframkvæmd Hæstaréttar í samskonar málum.
Í ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segi að allar bótakröfur, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi (stefnandi) fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.
Að mati matsmanna hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins rétt rúmlega tveimur árum eftir slysið, eða 1. september 1997. Samkvæmt ákvæði 99. gr. umferðarlaga og dómaframkvæmd Hæstaréttar byrjaði fyrningarfresturinn að líða í lok árs 1997. Þar sem fyrningarfrestur er fjögur ár, samkvæmt ótvíræðum ákvæðum 99. gr. umferðalaga, hafi krafa stefnanda fyrnst 1. janúar 2001, eða fyrir rúmlega 4 árum síðan. Sé ekkert í málinu sem réttlætt geti drátt stefnanda að leita fullnustu kröfu sinnar. Vísað sé til skýrrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar þar sem rétturinn hafi slegið því föstu að samkvæmt 99. gr. umferðarlaga byrji fyrningarfrestur að líða í lok þess almanaksárs, þar sem að mati matsmanna sé tímabært að meta slysið. Stefnandi hafi ekki reynt að hnekkja því mati matsmanna í þessu máli að stöðugleikapunktur hafi verið 1. september 1997 og standi það því óhaggað.
Stefndu mótmæli því að krafa stefnanda fyrnist á 10 árum. Sú fullyrðing stefnanda, að lög nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annara kröfuréttinda, eigi við um kröfu stefnanda, er mótmælt. Ákvæði um fyrningarfresti í lögum nr. 14/1905 eigi ekki við um kröfur eftir XIII. kafla umferðarlaga, enda séu sérákvæði 99. gr. umferðarlaga um fyrningu krafna samkvæmt XIII. kafla laganna ótvíræð.
Þeirri fullyrðingu stefnanda, að ekki sé fyrirliggjandi á hvaða tímapunkti honum var fyrst gerlegt að hafa uppi bótakröfu í málinu, sé mótmælt. Dómaframkvæmd Hæstaréttar sé skýr varðandi þetta atriði, en eins og áður segi hafi rétturinn slegið því föstu að fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umferðalaga byrji að líða í lok þess almanaksárs, sem tímabært sé, að mati matsmanna, að meta slysið. Stefnandi hafi ekki reynt að hnekkja því mati matsmanna að stöðugleikapunktur hafi verið 1. september 1997 og beri að miða við þá dagsetningu. Með hliðsjón af því sé ljóst að krafa stefnanda hafi fyrnst 1. janúar 2001.
Því sé mótmælt að með tilkynningu um tjónið hafi fyrningu verið slitið í skilningi sérreglu 99. gr. umferðalaga eins og stefnandi haldi fram í stefnu sinni. Um slit fyrningar bótakrafna samkvæmt umferðarlögum fari eftir almennum reglum laga nr. 14/1905, enda séu engin sérstök ákvæði um það efni í umferðarlögum. Fyrningu sé almennt slitið á tvennan hátt. Annars vegar með málssókn og hins vegar með því að skuldunautur viðurkenni skuld sína við kröfueiganda. Það að stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., var tilkynnt um tjónið, hafi ekki slitið fyrningu.
Stefndi mótmælir því að greiðslur hans á útlögðum kostnaði stefnanda á árunum 1995, 1997 og 2004, svo sem lækniskostnaði o.þ.h., feli í sér viðurkenningu á skyldu til að greiða einhverjar aðrar og frekari kröfur stefnanda vegna slyssins. Stefndi hafi aldrei viðurkennt greiðsluskyldu á öðru og meiru en hann hafi þegar greitt og aldrei fallið frá rétti sínum til að bera fyrir sig fyrningu á öðrum kröfum stefnanda, heldur þvert á móti, sbr. fyrirvarinn sem settur var fram í matsbeiðninni. Greiðslur stefnda breyti heldur engu um upphaf fjögurra ára fyrningarfrestsins né teljist geta rofið hann. Í ákvæði 6. gr. laga nr. 14/1905 segi að viðurkenni skuldunautur skuld sína við kröfueiganda, annað hvort með berum orðum eða á annan hátt, t.d. með því að lofa borgun eða greiða vexti, þá hefjist nýr fyrningarfrestur frá þeim degi er viðurkenningin átti sér stað. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi hvorugt gert. Stefndi hafi aldrei með berum orðum viðurkennt greiðsluskyldu sína né greitt vexti. Greiðslur stefnda á læknisvottorðum sé eðlilegur þáttur í málum af því tagi sem hér sé fjallað um. Læknisvottorð séu m.a. liður í því ferli að undirbúa gerð örorkumats sem ávallt fari fram þegar um líkamstjón sé að ræða. Þegar stefnandi loks hafi hlutast til um að láta framkvæma örorkumat, þann 2. mars 2005, eða tæpum 10 árum eftir tjónsatburð, hafi stefndu haft uppi þá vörn við hugsanlegum bótakröfum, að þær væru fyrndar, sbr. fyrrgreindur fyrirvari á matsbeiðninni. Sé því mótmælt að stefndi hafi með nokkrum hætti rofið fyrningu með greiðslum á útlögðum lækniskostnaði stefnanda.
Niðurstaða
Dómkrafa stefnanda á rætur að rekja til umferðarslyss sem varð 31. ágúst 1995 þegar bifreið, sem stefnandi ók, lenti í árekstri við aðra bifreið Er því haldið fram af hálfu stefnanda að hún hafi í slysinu hlotið bæði líkamlega áverka og andlegan skaða. Ágreiningslaust er að stefndi Árni Gunnar Pálsson bar ábyrgð á árekstrinum. Hann hafði keypt lögboðnar tryggingar fyrir bifreið sína hjá tryggingafélagi og er einnig óumdeilt að bótaskylda hvíli á því tryggingafélagi, sem er stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf.
Samkvæmt matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar, dags. 22. júní 2005, var sá skaði sem stefnandi hlaut við slysið 25% varanlegur miski og 40% varanleg örorka.
Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, sem fjallar um fébætur og vátryggingu, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber á slysi og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Á grundvelli þessa ákvæðis hafa stefndu hafnað greiðslu bóta en þeir halda því fram að krafa stefnanda sé fyrnd.
Samkvæmt matsgerð Atla Ólasonar og Ragnars Jónssonar telja þeir stöðugleikatímapunkt vera 1. september 1997. Segir að við mat á þessu atriði sé tekið mið af því hvenær einkenni stefnanda voru fram komin.
Hinn 6. apríl 2006 voru læknarnir Guðjón Baldursson og Sigurður Örn Hektorsson dómkvaddir, að beiðni stefnanda, til þess að meta stöðugleikapunkt stefnanda vegna umferðarslyssins, þ.e. að meta hvenær ástand stefnanda hafi verið orðið stöðugt í skilningi skaðabótalaga. Niðurstaða þeirra er sú að stöðugleikapunktur hafi verið 1. janúar 1999. Þá hafi öll hennar núverandi einkenni verið komin fram og ekki hafi orðið neinar breytingar á heilsufari stefnanda eftir það sem máli skipti við mat á varanlegum afleiðingum slyssins. Hefur þessu mati ekki verið hnekkt.
Telja verður, sé miðað við þetta síðara tímamark, að stefnandi hafi í janúarbyrjun 2000 fyrst átt þess kost að leita fullnustu á skaðabótakröfu sinni vegna slyssins, sbr. 99. gr. umferðarlaga. Er því ljóst að hugsanleg bótakrafa stefnanda var fyrnd er mál þetta var höfðað hinn 31. ágúst 2005.
Stefnandi byggir einnig á því í málinu að fyrning hafi verið rofin með því að stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiddi á árunum 1996 til 1997 útlagðan kostnað stefnanda vegna læknisaðstoðar og ferðakostnaðar. Þá liggur fyrir að 45.000 krónur voru greiddar í þjáningabætur. Er ekki fallist á með stefnanda að þessar greiðslur og aðild stefnanda að öflun matsgerðar til þess að staðreyna tjón stefnanda vegna slyssins hafi rofið fyrningu á hugsanlegri kröfu stefnanda um skaðabætur vegna líkamstjóns, enda skýrt tekið fram í sameiginlegri matsbeiðni stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., að félagið áskilur sér rétt til þess að bera fyrir sig fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umferðarlaga.
Þegar framanritað er virt þykir ljóst að krafa, sem stefnandi kann að hafa átt á hendur stefndu vegna líkamstjóns er hún hlaut í slysinu, var fyrnd þegar mál þetta var höfðað 31. ágúst 2005 og ber því að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfu stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda., 870.000 krónur, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Halldórs H. Backman hrl., 550.000 krónur og útlagður kostnaður vegna matsgerðar, 320.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málfutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Árni Gunnar Pálsson og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Huldu Jónsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda., 870.000 krónur, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Halldórs H. Backman hrl., 550.000 krónur og útlagður kostnaður vegna matsgerðar, 320.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.