Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Lögmaður
- Frávísun frá Hæstarétti
|
Fimmtudaginn 17. mars 2011. |
|
|
Nr. 141/2011. |
K (Þyrí Steingrímsdóttir hdl.) gegn M (enginn) |
Kærumál. Kæruheimild. Lögmenn. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem M var heimilað að leggja fram greinargerð í forsjármáli K á hendur honum. Útivist varð af hálfu M við þingfestingu málsins í héraði en fært til bókar að málið færi til dómstjóra til úthlutunar. Er dómari boðaði aðila til þinghalds var sótt þing af hálfu beggja. Krafðist M þess að fá að leggja fram greinargerð í málinu sem var mótmælt af hálfu K þar sem ekki hefði verið sótt þing af hálfu M við þingfestingu málsins. Dómari féllst á kröfu M með úrskurði. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að M hafi ekki gert kröfu um að málinu yrði frestað heldur eingöngu að honum yrði heimilað að leggja fram í því greinargerð. Með úrskurði héraðsdóms hafi eingöngu verið tekin afstaða til þeirrar kröfu en einskis getið um frestun málsins. Brast kæruheimild í málinu en tekið fram að af því leiddi jafnframt að héraðsdómur hefði ekki átt að taka afstöðu til ágreinings aðilanna í úrskurði heldur með ákvörðun. Var málinu því af sjálfsdáðum vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2011, þar sem kveðið var á um að varnaraðila væri „heimilað að leggja fram greinargerð“ í máli sóknaraðila á hendur honum. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 38. gr. barnalaga nr. 76/2003 og h. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess að „kveðið verði á um að varnaraðili fái ekki frest til að leggja fram greinargerð og hafa uppi kröfur“ við meðferð málsins í héraði. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Af hálfu varnaraðila hefur Leifur Runólfsson héraðsdómslögmaður lagt fram greinargerð fyrir Hæstarétti. Með því að lögmaður þessi hefur ekki réttindi til málflutnings hér fyrir dómi verður að líta svo á að varnaraðili hafi ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðila með stefnu 1. nóvember 2010 og krafðist þess að sér yrði dæmd forsjá nafngreinds sonar þeirra. Í stefnunni sagði að varnaraðili ætti lögheimili að [...] í Reykjavík, en dvalarstaður hans væri ókunnur. Samkvæmt vottorði stefnuvotts var stefnan birt 3. nóvember 2010 að [...] fyrir nafngreindum manni, sem „var þar staddur“. Við þingfestingu málsins 16. sama mánaðar var ekki mætt af hálfu varnaraðila, en allt að einu fært til bókar að málið færi „til dómstjóra til úthlutunar.“ Dómari, sem þessu til samræmis fékk málið til meðferðar, mun hafa boðað aðilana til þinghalds 11. febrúar 2011 og var þá sótt þing af hálfu beggja. Þar var fært til bókar að sóknaraðili mótmælti að varnaraðili „geti komið að kröfum í máli þessu þar sem ekki var sótt þing af hans hálfu við þingfestingu málsins“, en þessu hafi varnaraðili andmælt og krafist „þess að leggja fram greinargerð.“ Að þessu búnu gaf dómari aðilunum kost á að tjá sig um ágreiningsefnið og tók sér síðan frest til að leysa úr því „með úrskurði eða ákvörðun“. Í hinum kærða úrskurði var sem fyrr segir kveðið á um að varnaraðila væri heimilað að leggja fram greinargerð í málinu.
Samkvæmt hljóðan hins kærða úrskurðar og fyrrgreindrar bókunar í þinghaldi 11. febrúar 2011 gerði varnaraðili ekki kröfu um að málinu yrði frestað, heldur eingöngu að sér yrði heimilað að leggja fram greinargerð í því. Með úrskurði héraðsdóms var aðeins tekin afstaða til þeirrar kröfu, en einskis getið um frestun málsins. Af þessum sökum verður heimild til að kæra úrskurðinn ekki sótt í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Hvorki er í þeirri lagagrein né 38. gr. barnalaga, sem sóknaraðili vísar sem áður segir einnig til, að finna heimild til að kæra úrskurð um það efni, sem hér um ræðir. Brestur því kæruheimild í málinu, en af því leiðir jafnframt að héraðsdómur hefði ekki átt að taka afstöðu til ágreinings aðilanna í úrskurði, heldur með ákvörðun, sbr. síðari málslið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður málinu af sjálfsdáðum vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2011.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 11. febrúar sl. Málið, sem er forsjármál, var þingfest 16. nóvember 2010. Af hálfu stefnda var ekki sótt þing við þingfestingu og fór málið til dómstjóra til úthlutunar. Undirritaður dómari fékk málinu úthlutað í byrjun desember s.á.
Í stefnu er stefndi sagður með lögheimili að E, Reykjavík en dvalarstaður sagður ókunnur. Stefna var birt að E, Reykjavík fyrir A sem þar var staddur hinn 3. nóvember 2010. Er kom að því að boða til fyrirtöku í málinu kom í ljós að skráð lögheimili stefnda þá var að F, [...].
Aðilar voru báðir boðaðir til þinghalds í málinu 11. febrúar sl. og var sótt þing af beggja hálfu. Stefndi lýsti því yfir að hann hefði ekki fengið stefnuna í hendur. Lögmaður stefnanda lagði fram vottorð frá Þjóðskrá Íslands. Í vottorðinu segir að staðfest sé að stefndi hafi tilkynnt Þjóðskrá um flutning á lögheimili sínu frá E að F, [...] miðað við 24. ágúst 2010. Tilkynning stefnda um breytt lögheimili var móttekin af Þjóðskrá 2. desember 2010 og breytingin skráð í tölvukerfi Þjóðskrár 8. desember 2010. Birting stefnu fór því fram á skráðu lögheimili stefnda á þeim tíma.
Lögmaður stefnda krafðist þess að fá að leggja fram greinargerð í málinu. Lögmaður stefnanda mótmælti því að stefndi fengið komið að kröfum í málinu þar sem ekki hafi verið sótt þing af hálfu stefnda við þingfestingu málsins. Var vísað í því sambandi til 41. gr. barnalaga nr. 76/2003. Lögmönnum aðila var gefinn kostur á að tjá sig um ágreiningsefnið og málið síðan tekið til úrskurðar.
Samkvæmt því sem rakið er verður að telja að birting stefnu í málinu hafi verið lögmæt, sbr. 2. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991. Líta verður svo á, sbr. vottorð Þjóðskrár, að stefnandi hafi verið fluttur frá E þegar stefnubirtingin fór fram og styður það fullyrðingu stefnda um að hann hafi ekki fengið stefnuna í hendur og því ekki getað sótt þing við þingfestingu málsins.
Stefnandi vísar til 41. gr. barnalaga en þar segir að aðilar geti borið fram nýjar málsástæður og haft uppi ný andmæli allt þar til mál er dómtekið. Verður að túlka ákvæðið svo að aðili geti ekki komið fram með nýjar kröfur allt til dómtöku máls. Stefndi hefur hins vegar ekki komið að neinum kröfum í málinu þar sem honum var ekki kunnugt um málssóknina.
Samkvæmt framansögðu ber því að fallast á þá kröfu stefnda að leggja fram greinargerð í málinu.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Stefnda er heimilað að leggja fram greinargerð í málinu.