Hæstiréttur íslands
Mál nr. 472/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Varnarþing
|
|
Fimmtudaginn 15. janúar 2004. |
|
Nr. 472/2003. |
Sigurður Pétur Harðarson (Jón Einar Jakobsson hdl.) gegn Lindu Guðbjörgu Samúelsdóttur (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Varnarþing.
S var heimilt að höfða mál gegn L til heimtu skuldar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem meirihluti þeirrar þjónustu sem hann lét L í té var unnin á starfstöð S í umdæmi fyrrnefnds dómstóls.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Til vara er þess krafist að málskostnaður á báðum dómstigum verði felldur niður verði niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Í héraðsdómsstefnu kemur fram að sóknaraðili sé útvarpsmaður og hafi í mörg ár starfað við þáttagerð í ljósvakamiðlum, meðal annars tónlistarþátta. Hann hafi vegna þessa tekið að sér að afla og velja tónlist til flutnings á veitingastað varnaraðila, Skessubrunni, sem hún var að opna að Tungu í Hvalfjarðarstrandahreppi. Samkvæmt yfirliti, sem fylgdi reikningi sóknaraðila 18. júní 2002, sé annars vegar um að ræða „öflun tónlistar, val og afritun á 4797 mb af íslenskri tónlist 1605 lög og hleðsla á þeim inn í tölvukerfi.“ Þessi vinna hafi tekið 139 klukkustundir og fyrir hana krefst sóknaraðili 347.500 króna. Hins vegar er reikningur hans fyrir vinnu vegna kaupa á hljóðkerfi og tölvubúnaði í Reykjavík og uppsetningu á þessum tækjum hjá varnaraðila í áðurnefndum veitingastað hennar og ýmsa aðra vinnu. Þessi vinna hafi tekið 59 klukkustundir og fyrir þann þátt krefst hann 147.500 króna Samtals er reikningur sóknaraðila með virðisaukaskatti að fjárhæð 616.275 krónur, en af því telur hann samtals 50.000 krónur greiddar með peningum, mat og veitingum. Umrædd vinna hafi farið fram í maí og júní 2002. Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort sóknaraðila hafi verið heimilt að höfða málið gegn varnaraðila til heimtu skuldar samkvæmt framangreindum reikningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt hinni sérstöku varnarþingsreglu í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991. Heldur sóknaraðili því fram að skilyrði ákvæðisins sé uppfyllt þar sem hann hafi bæði átt lögheimili og fasta starfstöð að Túngötu 32 í Reykjavík þegar málið var höfðað 18. júní 2003. Verði ekki á það fallist að úrslitum ráði hvar hann átti fasta starfstöð þegar málið var höfðað hafi hann hvað sem því líður átt fasta starfstöð að Túngötu 32 þegar verkið var unnið. Meiri hluti verksins hafi verið unninn í umræddri starfstöð sóknaraðila en auk þess í veitingahúsi varnaraðila í Hvalfjarðarstrandarhreppi. Hafi honum því verið heimilt að höfða mál í umdæmi þess héraðsdómsstóls þar sem starfstöðin er.
II.
Þegar verkið var unnið átti sóknaraðili lögheimili utan umdæmis Héraðsdóms Reykjavíkur. Samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands hefur hann átt lögheimili að Túngötu 32 í Reykjavík frá 1. september 2002.
Reikningur sóknaraðila er eins og fram er komið dagsettur 18. júní 2002. Á honum er póstfang sóknaraðila tiltekið pósthólf á Seltjarnarnesi. Heldur sóknaraðili því fram að hann hafi leigt umrætt pósthólf þar sem staðsetning þess hafi verið næst fastri starfstöð hans að Túngötu. Þá hefur sóknaraðili lagt fyrir Hæstarétt staðfestingu skattstjórans í Reykjavík 4. nóvember 2003 á skráningu sóknaraðila sem virðisaukaskattskylds aðila. Kemur þar fram að starfsstaður sóknaraðila sé að Túngötu 32 í Reykjavík en „byrjunardagsetning“ starfsemi sóknaraðila hafi verið 16. maí 2002.
Ekki verður fallist á með sóknaraðila að úrslitum geti ráðið hvar föst starfstöð hans var þegar málið var höfðað. Að virtu því sem að framan er rakið verður hins vegar að telja að föst starfstöð sóknaraðila í skilningi 1. mgr. 36. gr. laga nr. 91/1991 hafi verið að Túngötu 32 í Reykjavík þegar hann lét varnaraðila umrædda þjónustu í té, sem að meiri hluta var unnin í starfstöðinni. Honum var því heimilt að stefna varnaraðila fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur enda ekkert komið fram sem styður hið gagnstæða. Breytir engu í þessu sambandi að sóknaraðili átti ekki lögheimili á Túngötu 32 á þeim tíma, sem þjónustan var innt af hendi. Með vísan til þessa verður úrskurður héraðsdóms ómerktur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er ómerktur. Lagt er fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Linda Guðbjörg Samúelsdóttir, greiði sóknaraðila, Sigurði Pétri Harðarsyni, samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2003.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 17. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 18. júní 2002 af Sigurði Pétri Harðarsyni, Túngötu 32, Reykjavík, á hendur Lindu G. Samúelsdóttur, Tungu 1, Svínavatnshreppi.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 566.275 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af stefnufjárhæð frá 18. júní 2002 til greiðsludags og málskostnað að skaðlausu að mati dómsins eða eftir framlögðum reikningi.
Stefnda krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hún sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara stórfelldrar lækkunar á stefnukröfum. Stefnda krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfu stefndu. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hrundið og að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað vegna þessa þáttar málsins við endanlega úrlausn þess.
Mál þetta hefur stefnandi höfðað til innheimtu reiknings, að fjárhæð 566.275 krónur, vegna vinnu stefnanda fyrri hluta sumars 2002 við veitingahús stefndu, Skessubrunn að Tungu 1 í Svínavatnshreppi. Í málatilbúnaði stefnanda kemur fram að hann sé útvarps- og kunnáttumaður um þáttagerð í ljósvakamiðlum, en hann hafi starfað við þá iðju um margra ára skeið, meðal annars gerð tónlistarþátta. Stefnda hafi því ráðið stefnanda til að undirbúa opnun veitingastaðar síns, m.a. til að afla og velja tónlist til flutnings á staðnum. Stefnandi lýsi verki sínu og sundurliði það þannig:
Samtals vinna við tónlist, 139 klst. x 2.500 krónur 347.500 krónur
Samtals vinna við annað en tónlist 59 klst. á 2.500 krónur 147.500 “
Virðisaukaskattur 24,5% 121.275 “
Samtals 616.275 “
28/5 2002 inngreitt í peningum - 20.000 “
13/6-17/6 2002 frádráttur v. matarkaupa og veitinga - 30.000 “
Samtals eftirstöðvar 18/6 2002 566.275 krónur.
Vinna við tónlist hafi verið öflun tónlistar, val og afritun á 4797 mb af íslenskri tónlist; 1605 lög og hleðsla á þeim inn í tölvukerfi. Vinna við annað en tónlist hafi verið val, öflun tilboða og kaup á hljóðkerfi og tölvubúnaði í Reykjavík fyrir Skessubrunn, tölvuvinna við gerð á “lógói” Skessubrunns, sendiferðir í Reykjavík, loftnet, fánar, hleðsla á bíl fyrir tæki o.fl., fjórar ferðir að Tungu á Hvalfjarðarströnd vegna hljóð- og tölvukerfis, vinna við ýmsar lagnir og uppsetningu hátalara og ýmiss undirbúningur fyrir opnun veitingastaðarins.
Frávísunarkrafa stefndu er reist á því að málið sé ekki höfðað á réttu varnarþingi. Stefnda vísar til meginreglunnar um að skuldara beri að sækja á heimilisvarnarþingi. Stefnandi hafi hvort átt lögheimili né haft fasta starfsstöð í Reykjavík á þeim tíma sem umrædd viðskipti fóru fram. Mótmælt er að stefnandi hafi haft fasta starfsstöð á Seltjarnarnesi, enda hafi ekki komið fram hvar hún hafi verið nema að því leyti til að á reikningi stefnanda sé tilgreint númer pósthólfs. Þjónustan hafi í öllu falli ekki verið veitt á starfsstöð stefnanda í umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur. Samkvæmt þessu verði málssókninni ekki beint gegn stefndu í annarri þinghá en fyrir Héraðsdómi Vesturlands.
Stefnandi vísar til þess að hann hafi nú fasta starfsstöð í Reykjavík en hann hafi áður haft starfsstöð á Seltjarnarnesi. Stefnanda sé því heimilt að sækja málið á starfsstöðvarvarnarþingi samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Samkvæmt meginreglunni, sem fram kemur í 1. mgr. 32. gr. laga um meðferð einkamála, verður maður sóttur fyrir dómi í þinghá þar sem hann á lögheimili eða hefur fasta búsetu. Heimild til málssóknar samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sömu laga er háð því að þjónusta hafi verið fengin eða þegin í verslun eða fastri starfsstöð skuldareigandans. Stefnandi hefur ýmist vísað til þess að hann hafi nú fasta starfsstöð í Reykjavík eða að hin fasta starfstöð hans hafi verið á Seltjarnarnesi. Í vottorði Hagstofu, dagsettu 2. október sl., kemur fram að stefnandi hafi verið skráður með lögheimili að Túngötu 32 í Reykjavík frá 1. september 2002, en þá hafi hann flutt frá Dalshrauni 13 í Hafnarfirði. Stefnandi hefur ekki tilgreint hvar á Seltjarnarnesi hin meinta fasta starfsstöð hans þar hafi verið, en í gögnum málsins er aðeins tilgreint númer pósthólfs, meðal annars á hinum umdeilda reikningi. Með vísan til þessa hefur stefnandi ekki sýnt fram á að stefnda hafi þegið þjónustuna, sem stefnandi veitti henni fyrri hluta sumars 2002, í fastri starfsstöð hans í umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur. Eru því ekki skilyrði til að höfða málið fyrir dómi hér samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um meðferð einkamála. Ber af þeim sökum að vísa málinu frá dómi.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. sömu laga ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 45.000 krónur.
Úrskurðinn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Sigurður Pétur Harðarson, greiði stefndu, Lindu G. Samúelsdóttur, 45.000 krónur í málskostnað.