Hæstiréttur íslands

Mál nr. 227/2017

Ákæruvaldið (enginn)
gegn
X (Bjarni Hauksson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Brotaþoli
  • Réttargæslumaður

Reifun

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var kröfu A um að honum yrði skipaður réttargæslumaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Þorgeir Ingi Njálsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2017, þar sem brotaþola var skipaður réttargæslumaður. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Hvorki sóknaraðili né brotaþoli hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 er lögreglu skylt eftir ósk brotaþola að tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti á XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og ætla má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins. Jafnframt er það skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns að brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu. Eftir að mál hefur verið höfðað og skilyrði eru til þess að tilnefna réttargæslumann samkvæmt framansögðu skipar dómari brotaþola réttargæslumann, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 88/2008.

Héraðsdómari hefur metið það svo að brotaþoli hafi ekki orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði umrætt sinn, enda sé ætlað brot ákærða talið varða við 217. gr. almennra hegningarlaga. Á þetta mat dómsins hafa ekki verið bornar brigður. Þegar af þeirri ástæðu er ekki fullnægt lagaskilyrðum til skipunar réttargæslumanns. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2017.

                Ákærði er ákærður fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi með því að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða er hann hugðist flytja brotaþola fyrir dómara eins og nánar er gerð grein fyrir í ákæru. Við þingfestingu sótti lögmaður brotaþola þing fyrir hans hönd og óskaði eftir skipun sem réttargæslumaður. Varð dómarinn við því og skipaði lögmanninn réttargæslumann brotaþola. Verjandi ákærða mótmælti skipuninni og krafðist þess að úrskurðað yrði um hana. Sækjandinn gerði ekki athugasemdir við að réttargæslumaður yrði skipaður.

                Í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 eru tilgreind skilyrði fyrir því að brotaþola verði skipaður réttargæslumaður. Það er skilyrði fyrir skipun að ætla megi að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði af völdum brotsins. Þá er það skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.

                Í ákæru er því ekki haldið fram að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði, enda er ætlað brot hans talið varða við 217. gr. almennra hegningarlaga. Dómarinn metur hins vegar aðstöðumun brotaþola og ákærða á þann veg að brotaþoli hafi þörf fyrir sérstaka aðstoð réttargæslumanns til að gæta hagsmuna sinna í málinu. Samkvæmt þessu verður honum skipaður réttargæslumaður eins og í úrskurðarorði segir.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð

                Stefán Karl Kristjánsson hrl. er skipaður réttargæslumaður brotaþola A.