Hæstiréttur íslands

Mál nr. 309/2000


Lykilorð

  • Leigusamningur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001.

Nr. 309/2000.

Helgi Rúnar Auðunsson

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

Sigurði Thorarensen

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

og gagnsök

                                                   

Leigusamningur.

Deilt var um hvort stofnast hefði samningur um afnot H af aðstöðu, sem S hafði hjá flutningaþjónustunni T. Jafnframt var deilt um efni samningsins, einkum um tímalengd hans og það endurgjald sem S hefði borið fyrir afnot H af aðstöðunni. Ekki var fallist á kröfu H um sýknu vegna aðildarskorts, enda hefði hann ekki sýnt fram á að S hefði mátt ætla að H kæmi fram í nafni einkahlutafélags sem hann ætti ásamt eiginkonu sinni. Með hliðsjón af gögnum sem fram voru lögð í málinu og vörðuðu m.a. afnot H af umræddri aðstöðu var fallist á að til samningsins hefði stofnast. Þar sem ósannað var að H hefði tilkynnt S um slit samningsins var samningstíminn talinn hafa verið sá sem S hélt fram. Var H gert að greiða S fyrir afnotin og miðaðist fjárhæð þess við matsgerð dómkvadds matsmanns sem S hafði aflað um það hvað telja bæri hæfilegt endurgjald.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2000. Krefst hann aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að fjárhæðin, sem gagnáfrýjanda var dæmd í héraði, verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 25. október 2000. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að aðaláfrýjanda verði gert að greiða dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 560.250 krónum frá 15. júní 1997 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

I.

Í máli þessu deila aðilar um hvort stofnast hafi samningur með þeim um afnot aðaláfrýjanda af aðstöðu, sem gagnáfrýjandi hafði hjá flutningaþjónustu TVG-Zimsen hf. í Reykjavík, en þaðan kveðst sá síðarnefndi hafa sinnt vöruflutningum á sunnanverða Vestfirði frá árinu 1993. Þeir deila einnig um hvert hafi verið efni slíks samnings, einkum að því er varðar tímalengd hans og það endurgjald, sem aðaláfrýjandi skyldi greiða fyrir afnotin. Málið var höfðað í héraði af gagnáfrýjanda til heimtu leigugjalds úr hendi aðaláfrýjanda vegna afnotanna. Aðaláfrýjandi höfðaði gagnsök í héraði, þar sem hann krafðist greiðslu skuldar vegna þjónustu við vöruafgreiðslu á Patreksfirði fyrir gagnáfrýjanda. Aðilar una héraðsdómi um gagnsökina og er hún ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Bú gagnáfrýjanda var tekið til gjaldþrotskipta 9. júlí 1999. Hann hélt sjálfur áfram rekstri málsins fyrir héraðsdómi í þágu þrotabúsins með heimild í 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skiptum á búinu lauk 29. mars 2000 og hefur gagnáfrýjandi tekið á ný við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

II.

Fallist er á með héraðsdómi að aðaláfrýjandi hafi ekki sýnt fram á að gagnáfrýjanda hafi mátt vera ljóst í viðskiptum þeirra að aðaláfrýjandi taldi sig koma þar fram í nafni einkahlutafélags, Vöruafgreiðslunnar, sem hann kveðst eiga og reka ásamt eiginkonu sinni. Verður aðaláfrýjandi því ekki sýknaður vegna aðildarskorts.

Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvað aðaláfrýjandi samkomulag hafa orðið um að hann og gagnáfrýjandi sinntu frá hausti 1996 sameiginlega flutningaþjónustu þeirri, er gagnáfrýjandi hafði haft með höndum. Fyrir héraðsdómi voru lögð fram þrjú bréf forstjóra TVG-Zimsen hf., þar sem hann staðfesti að gagnáfrýjandi hafi haft til umráða aðstöðu fyrir vöruflutninga hjá fyrirtækinu til 1. júní 1997 og að aðaláfrýjandi hafi haft aðgang að og nýtt sér þessa aðstöðu á tímabilinu 15. október 1996 til 1. júní 1997. Sér hafi ekki verið kunnugt um hvort aðaláfrýjandi hafi gert þetta í eigin nafni eða í nafni framangreinds einkahlutafélags. Með vísan til þessa og röksemda héraðsdómara um þennan þátt málsins verður að leggja til grundvallar að stofnast hafi samningur um not aðaláfrýjanda af aðstöðu þeirri, er gagnáfrýjandi hafði og hér um ræðir. Er þá einnig litið til þess að aðaláfrýjandi viðurkenndi í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi að hafa nýtt sér aðstöðu þessa, en kvað það þó ekki hafa verið lengur en um tveggja mánaða skeið.

Ósannað er að aðaláfrýjandi hafi tilkynnt gagnáfrýjanda um slit á samningi þeim, sem samkvæmt framansögðu stofnaðist með þeim. Verður því að miða við að samningstíminn hafi verið sá, sem gagnáfrýjandi heldur fram, eða frá 15. október 1996 til 1. júní 1997.

Aðilar sömdu ekki um endurgjald úr hendi aðaláfrýjanda fyrir afnotin. Krafði gagnáfrýjandi fyrst um 1.634.063 krónur og var málið höfðað í héraði til heimtu þeirrar fjárhæðar. Í greinargerð fyrir héraðsdómi andmælti aðaláfrýjandi ekki þessari fjárhæð sem ósanngjarnri og hafði ekki uppi málsástæður um það efni. Hann gerði þó kröfu um lækkun stefnukröfunnar án þess að rökstyðja hana sérstaklega. Þrátt fyrir þetta aflaði gagnáfrýjandi matsgerðar dómkvadds manns, þar sem hann óskaði eftir mati á því hvað telja bæri sanngjarna leigu fyrir þá hagsmuni, sem aðaláfrýjandi hafði not af. Niðurstaða matsmannsins var sú að hæfilegt endurgjald að meðtöldum virðisaukaskatti væri 560.250 krónur og gerði gagnáfrýjandi varakröfu um þá fjárhæð við aðalmeðferð málsins í héraði. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem hér verður beitt með lögjöfnun, ber kaupanda, þegar kaup eru gerð en ekkert er samið um kaupverðið, að greiða það, sem seljandi heimtar, ef eigi verður að telja það ósanngjarnt. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að það sé kaupandi, sem hefur sönnunarbyrði um hvort kaupverð það, sem seljandi heimtar, sé ósanngjarnt. Þótt aðaláfrýjandi hafi ekki fært fram sannanir um að endurgjald það, sem gagnáfrýjandi krafðist í öndverðu, sé ósanngjarnt verður niðurstaða hins dómkvadda matsmanns um hvað sé hæfilegt endurgjald lögð til grundvallar, enda hefur mati hans ekki verið hnekkt og gagnáfrýjandi unir við niðurstöðu héraðsdómara um það efni. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um skyldu aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda 560.250 krónur. Málið var höfðað með birtingu stefnu 2. október 1997. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga verða gagnáfrýjanda dæmdir dráttarvextir á kröfuna frá þeim degi.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Helgi Rúnar Auðunsson, greiði gagnáfrýjanda, Sigurði Thorarensen, 560.250 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. október 1997 til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 12. maí 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 22. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi, hefur Sigurður Thorarensen, kt. 050444-4659, Miðhúsum, Snæfellsbæ, höfðað hér fyrir dómi þann 2. október 1997, með stefnu á hendur Helga R. Auðunssyni, kt. 300761-2599, Urðargötu 19, Patreksfirði.

Gagnsök er höfðuð með stefnu þann 22. febrúar 1998.

Kröfu aðalstefnanda um frávísun gagnsakar var hrundið með úrskurði þann 14. maí 1998.

Þann 30. júní 1998 var matsmaður dómkvaddur að kröfu aðalstefnanda.  Úrskurður um gagnaöflun var kveðinn upp þann 4. mars 1999.  Matsgerð er dagsett 25. október 1999. 

Bú aðalstefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta þann 9. júlí 1999.  Þrotabúið hefur ekki látið málið til sín taka.  Gagnstefnandi krefst þess að dómur í gagnsök gangi á hendur bæði þrotamanni og þrotabúi hans.  Aðalstefnandi tilkynnti skiptastjóra með bréfi 9. desember sl., að þrotamaður héldi áfram málarekstrinum á grundvelli 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991.  Kröfu gagn­stefnanda um dómtöku gagnsakar á hendur þrotabúinu var synjað með úrskurði þann 10. desember sl.  Samdægurs var aðalstefnanda gert að setja tryggingu fyrir hugsanlegum málskostnaði, að kröfu gagnstefnanda.  Trygging var sett þann 30. desember sl.

Dómkröfur aðalstefnanda í aðalsök eru þær aðallega að gagnstefnandi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð kr. 1.634.063, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 15. júní 1997 til greiðsludags, en til vara er krafist dóms um skuld að fjárhæð kr. 560.250 ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 15. júní 1997 til greiðsludags og í báðum tilvikum málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi.

Gagnstefnandi krefst sýknu af dómkröfum aðalstefnanda í aðalsök og að aðalstefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu að ákvörðun dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti, en til vara er þess krafist að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður falli niður.

Gagnstefnandi krefst þess í gagnsök að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða kr. 2.788.800, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af kr. 697.200 frá 1.1. 1995 til 1.1.1996, af kr. 1.892.400 frá þeim degi til 1.1.1997, en af kr. 2.788.800 frá þeim degi til greiðsludags.  Jafnframt er þess krafist að dæmd gagnkröfufjárhæð gangi með dómi til skuldajafnaðar við þá fjárhæð sem kunni að verða dæmd úr hendi gagnstefnanda í aðalsök, ef kröfur aðalstefnanda verði teknar þar til greina, en annars sjálfstæðs dóms fyrir allri kröfunni eða því sem umfram kunni að vera af gagnsakarfjárhæð.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að ákvörðun dómsins, að viðbættum virðisauka­skatti.

Dómkröfur aðalstefnanda í gagnsök eru þær aðallega að hann verði sýknaður, en til vara að kröfur gagnstefnanda verði stórlega lækkaðar.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilar skýrslu fyrir dómi, og matsmað­ur­inn, Sigurður P. Sigurðsson, viðskiptafræðingur og lögg. endur­skoð­andi kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína.

Aðalstefnandi kveðst byggja kröfur í aðalsök á munnlegum samningi um leigu til gagnstefnanda á stöðvarleyfi, aðstöðu og viðskiptavild hjá TVG-Zimsen flutningaþjónustu.  Hafi hann haft einkaleyfi þess fyrirtækis frá árinu 1993 til júní 1997 til að aka með vöru á sunnanverða Vestfirði.  Hafi hann, frá því að hann hóf þennan akstur og þar til hann leigði gagnstefnanda reksturinn, byggt upp þjónustu og viðskiptavild á þessu sviði við Vestfirði, viðskipti sem stöðugt hefðu aukist.  Hefði gagnstefnandi gengið beint inn í þennan rekstur og leigt hann af stefnanda frá 15.10.96 til 1.06.97.  Ekki hefði verið samið um leigufjárhæð.  Aðalkrafan er byggð á reikningi sem aðalstefnandi gerði gagnstefnanda fyrir þessari leigu þann 1. júní 1997, en varakrafan er byggð á niðurstöðu dómkvadds matsmanns.  Vísar aðalstefnandi til meginreglu kröfu­réttarins um efndir fjár­skuld­bindinga, sem fái stoð í 5., 6., og 28. gr. laga nr. 39/1922.

Gagnstefnandi segist vera forsvarsmaður Vöruafgreiðslunnar ehf. á Pat­reks­firði.  Hafi það fyrirtæki séð um vöruafgreiðslu og flutningastarfsemi til Patreksfjarðar.  Vöruafgreiðslan ehf. og aðalstefnandi hafi ætlað að efna til sam­starfs um vöruflutninga, en af því hafi ekki orðið vegna fjárhagsörðugleika þess síðarnefnda auk bilana á bifreið hans.  Rangt sé því að gagnstefnandi hafi á einhvern hátt gengið inn í rekstur aðal­stefnanda.  Gagnstefnandi hafi ekki átt í neinum viðskiptum við aðal­stefn­anda og kröfur sem hann hafi uppi séu gagn­stefnanda óviðkomandi.  Vísar gagn­stefn­andi til reglna um afleiðingar aðildar­skorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Gagnstefnandi lýsir málavöxtum og málsástæðum í gagnsök svo, að Vöruafgreiðslan ehf. hafi verið með þjónustu fyrir aðalstefnanda á árunum 1994-1996, sem hafi verið fólgin í fermingu, losun, vörslu og afgreiðslu á vörum.  Hafi aðalstefnandi ekki greitt fyrir þessa þjónustu og hafi gagnstefnandi fengið kröfur samkvæmt þremur reikningum fyrir hana framseldar til sín.  Vísar hann um dómkröfur samkvæmt þeim til ákvæða kröfu- og samningaréttar, sbr. 5., 6., og 28. gr. laga nr. 39/1922.

Aðalstefnandi kveður rangt að hann skuldi þær fjárhæðir sem gagn­stefnandi gerir kröfur um í gagnsök.  Hafi hann fengið greitt fyrir fermingu, losun, vörslu og afhendingu vöru á sama hátt og allar aðrar vöruafgreiðslur í landinu, með því að hann hafi fengið 10% þóknun af flutningsgjöldum.  Telji gagnstefnandi að hann hafi átt að fá greiðslur umfram þessa þóknun þá hvíli sönnunar­byrðin á honum um það, auk þess sem honum beri að sanna að gjaldtakan sé sanngjörn, sbr. 5. gr. laga nr. 39/1922.  Kveðst aðalstefnandi telja gjaldtökuna ósanngjarna og raunar fráleita, auk þess sem hann telji engan fót vera fyrir kröfunni.  Reikningar gagnstefnanda, sem aðalstefnandi hafi aldrei heyrt af fyrr en við höfðun gagnsakar, séu gefnir út á árinu 1998 og ódagsettir, ó­sund­ur­liðaðir og virðist vera um hreinar áætlanir og tilbúning að ræða.  Með hverri einustu vörusendingu sé fylgibréf, þar sem fram komi flutningsgjaldið, og sé það grundvöllur þóknunar gagnstefnanda, en ekkert slíkt hafi verið lagt fram.  Þá hafi gagnstefnandi sýnt af sér einstakt tómlæti ef einhver fótur væri fyrir þessum reikningum, því að þeir virðist vera komnir til vegna áranna 1994-1996. 

Til vara byggir aðalstefnandi sýknukröfu í gagnsök á því að gagn­stefnandi sé ekki lögmætur eigandi kröfunnar, þar sem hann skorti fullnægjandi skilríki fyrir henni í skilningi meginreglna kröfuréttarins um framsal kröfu.  Jafnframt sé krafan ekki tæk til skuldajafnaðar.  Reikningar þeir sem byggt sé á séu án dagsetninga, utan þess að fram komi að þeir séu gefnir út árið 1998.  Geti þeir því fyrst gjaldfallið við dómsuppsögu, sbr. 12. gr. laga nr. 39/1922 um gjalddaga kröfu.  Sé krafa gagnstefnanda því ekki komin í gjalddaga og uppfylli hún því ekki eitt meginskilyrði reglna kröfuréttar um skuldajöfnuð.  Sé hún samkvæmt þessu ekki tæk til skuldajafnaðar og beri að sýkna aðalstefnanda af henni þó ekki væri nema af þeirri ástæðu einni.

Aðalstefnandi lagði við þingfestingu málsins fram reikning, dags. 1. júní 1997.  Er hann stílaður á gagnstefnanda, og er í tveimur liðum.  Sá fyrri hljóðar um: „Stöðvargjöld frá 15. okt. til 31. okt. 1996, @ 87.500, upphæð 87.500.“  Sá síðari hljóðar um: „Stöðvargjöld frá 1. nóv. 1996 til 31. maí 1997 @ 175.000, upphæð 1.225.000.  Virðisaukaskattur er reiknaður kr. 321.562,50 og heildar­fjárhæð reikningsins kr. 1.634.062,50.  Þá lagði aðalstefnandi fram tvær yfir­lýsingar, undirritaðar af Árna Pétri Jónssyni sem forstjóra Toll­vöru­geymsl­unnar-Zimsen hf.  Í hinni fyrri, sem dagsett er þann 20. júní 1997 er staðfest að aðalstefnandi hafi „haft til umráða aðstöðu hjá Tollvörugeymslunni Zimsen hf. að Héðinsgötu 1-3 fyrir vöruflutninga á sunnanverða Vestfirði“ samkvæmt samningi til 1. júní 1997.  Í hinni síðari, sem dagsett er þann 23. september 1997 er staðfest „að Helgi Auðunsson hafði aðgang að og nýtti aðstöðu Sigurðar Thorarensen hjá Tollvörugeymslan Zimsen hf. til aksturs á sunnanverða Vestfirði á tímabilinu 15. 10. 1996 til 01.06. 1997.“

Á dskj. 17 er að finna þriðju yfirlýsinguna frá sama manni, en þar er um að ræða símbréf, dagsett 23. febrúar 1998, til lögmanns gagnstefnanda, þar sem segir að „vegna samtals okkar fyrr í dag og með tilvísun í bréf dagsett 23.09. 1997 þar sem ég lýsi því yfir að Helgi Auðunsson hafi haft aðgang að vörudreifingarmiðstöð okkar í samvinnu við Sigurð Thorarensen, vil ég taka fram að mér er ekki kunnugt um hvort sú samvinna hafi verið í nafni Helga sjálfs eða fyrirtækisins Vöruafgreiðslan ehf.“

Árni Pétur Jónsson kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins, en með því að hvorugur aðila hefur mótmælt efni ofangreindra yfirlýsinga eins og það er í heild, þykir mega leggja þær til grundvallar.  Við aðalmeðferð málsins lagði gagnstefnandi fram skriflega yfirlýsingu í ljósriti, sem gefin er í Vest­manna­eyjum þann 28. febrúar sl. af Henry A. Erlendssyni f.h. H.S.H. flutninga ehf., þar sem staðfest er f.h. þess fyrirtækis að Vöruafgreiðslan ehf. á Patreksfirði hafi leigt aðstöðu á afgreiðslu þess að Héðinsgötu 1-3 í húsnæði TVG-Zimsen Reykjavík frá 01.12.96 til 01.06.98.  Efni þessarar yfirlýsingar var mótmælt af hálfu aðalstefnanda sem óstaðfestu og með vísan til þess og þess hve seint hún er fram komin þykir ekki unnt að leggja hana til grundvallar.

Við það verður því að miða, samkvæmt ofangreindum yfirlýsingum, að aðalstefnandi hafi haft yfir að ráða aðstöðu hjá TVG-Zimsen hf., sem gagn­stefnandi eða Vöruafgreiðslan ehf. hafi nýtt í skjóli hans á greindu tímabili.  Hefur ekki verið sýnt fram á að gagnstefnanda hafi verið rétt að ætla að sú nýting ætti að vera án endurgjalds, en sönnunarbyrði um það verður að leggja á herðar gagnstefnanda.  Varnir gagnstefnanda í aðalsök eru reistar á aðildarskorti og kemur það nægilega glöggt fram í greinargerð hans til þess að ekki verður fallist á það með aðalstefnanda, svo sem hann hélt fram við aðalmeðferð málsins, að sú málsástæða sé of seint fram komin.

Gagnstefnandi kveðst eiga Vöruafgreiðsluna ehf. með eiginkonu sinni og vera fyrirsvarsmaður fyrirtækisins.  Er ekki umdeilt að hann hafi komið fram gagn­vart aðalstefnanda í samskiptum þeirra, þótt þeir séu ósammála um hvers efnis hafi verið. Þáttur í þeim var  að gagnstefnandi nýtti aðstöðu aðalstefnanda hjá Tollvörugeymslunni-Zimsen hf., eins og fram kemur í ofangreindri yfir­lýsingu fyrirsvarsmanns þess fyrirtækis, þótt þeim fyrirsvarsmanni hafi ekki verið ljóst hvort gagnstefnandi nýtti þessa aðstöðu í eigin þágu, eða fyrirtækis síns.

Gagnstefnandi hefur ekki leitt að því haldbærar líkur að hann hafi í þessum samskiptum við aðalstefnanda gert honum það ljóst, eða að aðalstefnanda hafi mátt vera það ljóst, að gagnstefnandi kæmi fram gagnvart aðalstefnanda í þágu Vöruafgreiðslunar ehf., en ekki í eigin þágu.  Verður að leggja hallann af þessu á gagnstefnanda.  Samkvæmt því er ekki unnt að taka til greina sýknukröfu hans á grundvelli aðildarskorts.  Verður því að dæma hann til að greiða aðal­stefn­anda endurgjald fyrir þessa nýtingu. 

Í matsbeiðni var þess óskað að matsmaður kynnti sér gögn hjá matsþola eða hjá TVG-Zimsen er sönnuðu magn það sem matsþoli hefði flutt frá Reykjavík til Patreksfjarðar umrætt tímabil.  Þess var einnig óskað að matsmaður léti í té skriflegt og rökstutt álit um hvað væri sanngjarnt endurgjald fyrir leigu á rekstri matsbeiðanda, sem hafi samanstaðið af stöðvarleyfi hjá TVG-Zimsen flutningaþjónustu og viðskiptavild, tímabilið frá 15.10.1996 til 01.06.1997.

Samkvæmt matsgerð fengust hvorki gögn úr hendi matsþola né TVG-Zimsen um magn fluttrar vöru frá Reykjavík til Patreksfjarðar á umræddu tímabili.  Liggur því ekkert fyrir um magn fluttrar vöru.  Í niðurstöðum sínum um sanngjarnt endurgjald segir matsmaður: „Í viðskiptum matsbeiðanda og mats­þola er ekki verið að kaupa tiltekna eign eða fyrirtæki, heldur virðist matsþoli nýta þá aðstöðu og þjónustu tímabundið sem matsbeiðandi hafði gert stöðvar­samning um og greiddi fyrir hjá TVG-Zimsen í formi stöðvargjalda.  Sú við­skipta­vild sem meta á samkvæmt matsbeiðni virðist því vera hugsuð sem mögulegt hagræði matsþola af því að fá beinan aðgang að vörudreifingarmiðstöð TVG-Zimsen, fyrir vöruflutninga frá Reykjavík til suður Vestfjarða fyrir þá við­skiptavini sem þangað leita.  Ekkert liggur fyrir um rekstrarafkomu mats­beiðanda eða matsþola vegna flutninga frá Reykjavík til suður Vestfjarða á því tímabili sem samningur við TVG-Zimsen var í gildi.  Samkvæmt ofangreindu er því ekki hægt að meta neina viðskiptavild umfram það sem talið er sanngjarnt verð fyrir stöðvarleyfi og aðstöðu.“

„Leiga á rekstri matsbeiðanda sem samanstóð af stöðvarleyfi og aðstöðu hjá TVG-Zimsen og viðskiptavild eins og segir í matsbeiðni, verður því skilin sem svo að matsþoli hafi tekið að sér þá flutninga á þeirri flutningaleið, sem matsbeiðandi hafi samið um við TVG-Zimsen samkvæmt stöðvarsamningi og notið allrar þeirrar aðstöðu og þjónustu sem TVG-Zimsen veitti samningsaðilum sínum.  Formlega séð hafi matsbeiðandi verið samningsbundinn TVG-Zimsen og það fyrirtæki gert matsbeiðanda reikning fyrir mánaðarlegum stöðvargjöldum út samningstímann.  Eins og áður er getið liggur ekkert fyrir um rekstrarárangur af þessari flutningastarfsemi, hvorki hjá matsbeiðanda né matsþola eftir að hann yfirtók flutningana á umræddri leið.  Mánaðarleg stöðvargjöld frá TVG-Zimsen, benda ekki til þess að geymslu- eða afgreiðsluaðstaða hafi aukist á þessari flutningaleið, frá því sem upphaflega var áætlað og var grundvöllur fastra mánaðarlegra stöðvargjalda.  Í greinargerð stefnda og í gagnstefnu heldur stefndi (matsþoli) því fram að af samstarfi aðila á árinu 1996 hafi ekki orðið vegna mikilla fjárhagsörðugleika matsbeiðanda.“

„Í ljósi framangreindra atriða verður að telja að sanngjarnt endurgjald sem matsþoli á að greiða fyrir „leigu á rekstri matsbeiðanda“ tímabilið 15.10.1996-01.06.1997, sé beinn kostnaður matsbeiðanda á umsömdum stöðvargjöldum til TVG-Zimsen umrætt tímabil, að viðbættu álagi sem telst hæfilegt 30.000 kr. á mánuði án virðisaukaskatts.  Fyrir matsbeiðanda er álagið hugsað sem þátttaka í föstum skrifstofu- og stjórnunarkostnaði hans.  Fyrir matsþola er álagið hugsað sem aukagjald fyrir það hagræði að ganga beint inn í vörudreifingamiðstöð TVG-Zimsen án formlegs stöðvarsamnings.  Samkvæmt þessu verður endurgjaldið talið hæfilegt 60.000 kr. á mánuði án virðisaukaskatts, eða sem næst tvöföldum föstum stöðvargjöldum á viðkomandi flutningaleið.  Fyrir það tímabil sem um ræðir og er sjö og hálfur mánuður, telst endurgjaldið hæfilegt samtals 450.000 kr. án virðisaukaskatts.“

Í ljósi niðurstöðu matsmanns verður ekki lagt til grundvallar að krafa aðalstefnanda samkvæmt upphaflegum reikningi sé sanngjörn.  Verður gagn­stefn­andi dæmdur til þess á grundvelli matsins að greiða þá fjárhæð, sem varakrafa aðalstefnanda hljóðar um, en það er niðurstaða matsmannsins að virðis­aukaskatti viðbættum, eða kr. 560.250.  Rétt þykir að sú fjárhæð beri dráttarvexti frá dómsuppsögudegi til greiðsludags. 

Aðalstefnandi rekur mál þetta í eigin nafni, en þrotabúi sínu til hagsbóta, samkvæmt  2. mgr., sbr. 1. mgr., 130. gr. laga nr. 21/1991.  Samkvæmt því ber að greiða dæmda fjárhæð til þrotabúsins.

Gagnsakarkrafan er studd þremur ódagsettum reikningum frá Vöru­afgreiðslunni ehf., ársettum 1998.  Allir eru þeir vegna húsaleigu og lyft­ara­leigu, sem ekki er nánar tilgreind, en reiknuð kr. 80.000 á mánuði sem við bætist virðisaukaskattur, allt tímabilið frá 1. júní 1994 til 1. október 1996.  Er gerður einn reikningur vegna hvers almanaksárs og nemur samtala þeirra stefnufjárhæð í gagnsök.

Aðalstefnandi hefur lagt fram í málinu blað með ódagsettum útreikningi, sem ber yfirskriftina Sig. Thor. og eru þar lagðir saman tveir liðir: „Gr. í Rvk.“ og „Gr. á Pat.“  Við samtölu liðanna er bætt liðnum vsk. og af heildarfjárhæðinni reiknuð „10% umbl.“  Ekkert kemur fram um það vegna hvaða tímabils þessi útreikningur er gerður, en gagnstefnandi kannast við það að þessi útreikningur stafi frá Vöruafgreiðslunni ehf.  Segir hann að reikningarnir þrír sem gagnsök hljóðar um séu vegna annarrar þjónustu við aðalstefnanda, en umboðslaun sem þessi hafi tekið til.

Reikningar þessir eru engum gögnum studdir og ritaðir löngu eftir að því tímabili sem þeir varða lauk og verður ekki séð að þeim hafi verið framvísað fyrr en við þingfestingu gagnsakar.  Gegn mótmælum aðal­stefnanda hefur gagn­stefn­andi ekki fært neinar haldbærar sönnur á að Vöru­af­greiðslan ehf. hafi látið aðalstefnanda í té afnot af húsnæði og lyftara sem þeir hljóða um, sem átt hafi að greiða fyrir til viðbótar þeim 10% umboðslaunum sem hún virðist hafa innheimt af aðalstefnanda samkvæmt því sem að ofan greinir.   Þegar af þessari ástæðu ber að sýkna aðalstefnanda og þrotabú hans þar með af öllum kröfum í gagnsök.

Eins og atvikum öllum er háttað þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af þessum málarekstri, bæði í aðalsök og gagnsök.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.  Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans við önnur embættisstörf.  Lögmenn aðila og dómari töldu óþarft að endurflytja málið.

 

Dómsorð:

Gagnstefnandi, Helgi R. Auðunsson, greiði kr. 560.250 til þrotabús aðal­stefnanda, Sigurðar R. Thorarensen, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá deginum í dag að telja til greiðsludags.

Aðalstefnandi og þrotabú hans eru sýkn af dómkröfum gagnstefnanda í gagnsök.

Málskostnaður í aðalsök og gagnsök fellur niður.