Hæstiréttur íslands
Mál nr. 97/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Res Judicata
- Málsástæða
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn18. febrúar 2015. |
|
Nr. 97/2015.
|
Steinunn Rósborg Sigurðardóttir (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Arion banka hf. (Hjördís Halldórsdóttir hrl.) |
Kærumál. Res judicata. Málsástæður. Frávísunarúrskurður staðfestur.
S höfðaði mál gegn A hf. til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningargerðar sem beinst hafði að eiginmanni hennar, E. S hafði áður höfðað mál á hendur A hf. til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna sömu kyrrsetningar. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að sú krafa sem S gerði nú væri hærri en í fyrra málinu en kröfuliðir sambærilegir þeim sem þá hefðu verið hafðir uppi. Var því talið að S hefði borið nauðsyn til þess að gera með skýrum hætti grein fyrir því að hvaða leyti krafan, sem S hefði uppi nú, væri frábrugðin þeirri sem áður hefði verið dæmt um. Það hefði S hins vegar ekki gert. Með vísan til 2. mgr. sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og meginreglu 5. mgr. 101. gr. sömu laga var því hinn kærði úrskurður staðfestur um að vísa málinu frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2015, þar sem kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Forsaga máls þessa er sú að varnaraðili fór fram á kyrrsetningu í eignastýringarsafni eiginmanns sóknaraðila 12. ágúst 2009, en hann hafði gert samning um eignastýringu við varnaraðila. Mótmælti eiginmaðurinn því að gerðin næði fram að ganga þar sem sóknaraðili ætti helming safnsins. Sýslumaður ákvað engu að síður að gerðin færi fram 18. ágúst 2009 og höfðaði varnaraðili mál á hendur eiginmanni sóknaraðila með stefnu 21. sama mánaðar til staðfestingar gerðinni. Dómur í því máli féll í héraði 14. júlí 2010, þar sem kyrrsetning var staðfest, en þó einvörðungu í helmingi eignasafnsins. Áfrýjuðu báðir aðilar málinu til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 17. nóvember 2011 í máli nr. 470/2010 var því vísað frá héraðsdómi.
Á meðan framangreint mál var rekið fyrir héraðsdómi höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila, þar sem hún krafðist þess að honum yrði gert að greiða sér sem næmi helmingi andvirðis inneignar á fyrrgreindu eignasafni er væri hjúskapareign sín. Hélt sóknaraðili því fram í málinu að kyrrsetningin tæki einungis til hluta eiginmanns síns í safninu. Með héraðsdómi 23. mars 2010 var krafa sóknaraðila tekin til greina. Undi varnaraðili dóminum og 2. september sama ár greiddi hann sóknaraðila 56.653.421 krónu. Var greiðslan sundurliðuð þannig að höfuðstóll var 49.179.500 krónur, dráttarvextir af þeirri fjárhæð frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags voru 9.075.313 krónur, 854.933 krónur voru málskostnaður að viðbættum dráttarvöxtum á hann og 110.000 krónur kostnaður vegna fjárnámsbeiðni og móts, en frá dróst yfirdráttarskuld að fjárhæð 2.566.325 krónur.
Varnaraðili höfðaði mál að nýju 23. nóvember 2011 til staðfestingar kyrrsetningarinnar sem gerð var hjá eiginmanni sóknaraðila 18. ágúst 2009 og var með héraðsdómi 24. júlí 2013 fallist á kröfu varnaraðila um staðfestingu gerðarinnar. Með dómi Hæstaréttar 15. maí 2014 í máli nr. 672/2013 var máli varnaraðila vísað frá héraðsdómi að því er varðaði kröfu varnaraðila um staðfestingu gerðarinnar. Sagði í forsendum dómsins að kyrrsetningin væri endanlega fallin niður með dóminum, sbr. 3. málslið 3. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.
Eftir að héraðsdómur féll í fyrra kyrrsetningarmálinu 14. júlí 2010 höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðila 12. október 2010 til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna fyrrgreindrar kyrrsetningargerðar. Sóknaraðili reisti kröfu sína á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr. laga nr. 31/1990 og sundurliðaði hana í bætur fyrir tjón vegna tapaðs ávinnings við leigu og sölu á aflaheimildum, bætur fyrir tjón í útgerð vegna tapaðra viðskiptahagsmuna og spjalla á lánstrausti auk miskabóta. Dómur féll í málinu í héraði 22. desember 2011 þar sem sóknaraðila voru dæmdar bætur að álitum. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2012. Fyrir Hæstarétti skýrði sóknaraðili kröfu sína þannig að hún væri vegna ,,tjóns á töpuðum viðskiptum með aflaheimildir“, „vegna tjóns í útgerð vegna tapaðra viðskiptahagsmuna o.fl.” og miska. Í dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 158/2012 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að matsgerð sem lögð hafi verið fram væri ekki reist á viðhlítandi forsendum og yrði ekki lögð til grundvallar skaðabótum í málinu. Sóknaraðila hafi því ekki tekist að sanna að hún hafi orðið fyrir tjóni við að verða af viðskiptum með aflaheimildir. Þá hafi hún engin haldbær rök fært fram um að hún hafi vegna kyrrsetningarinnar orðið fyrir tjóni í útgerð vegna tapaðra viðskiptahagsmuna. Forsenda þess að heimilt væri að dæma bætur að álitum samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 væri að gerðarþoli hafi gert líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni sem ekki hafi þegar verið bætt. Hafi sóknaraðili ekki gert líklegt að hún hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem þegar hefði verið bætt með greiðslu dráttarvaxta vegna þess tíma sem hún hafi orðið af því að geta nýtt þann hluta eignasafnsins sem talinn var hennar eign með héraðsdóminum 23. mars 2010. Henni voru hins vegar dæmdar 400.000 krónur í miskabætur
II
Sóknaraðili krefst í máli þessu, ásamt eiginmanni sínum, skaðabóta vegna kyrrsetningar í eignastýringarsafni 18. ágúst 2009 sem beindist að honum. Kröfu sína í málinu styður hún við 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 en til vara við almennu sakarregluna og reglur um skaðabætur innan samninga.
Um málsástæður fyrir kröfu sinni vísar sóknaraðili til þess að hún hafi orðið fyrir umfangsmiklu og alvarlegu fjártjóni. Hafi afleitt tjón helst komið fram í spjöllum á lánstrausti og viðskiptahagsmunum, rekstrarstöðvun fyrirtækja í hennar eigu og missi hagnaðar. Kyrrsetningargerðin hafi að auki valdið sér andlegu, líkamlegu og fjárhagslegu tjóni. Sóknaraðili gerir í fyrsta lagi kröfu um bætur vegna fjárhagslegs tjóns sem nemi 115.100.000 krónum vegna lögmannskostnaðar, tjóns af rekstrarstöðvun, missis hagnaðar og spjalla á lánstrausti og viðskiptahagsmunum. Þá krefst hún í öðru lagi miskabóta að fjárhæð 20.000.000 krónur.
Með héraðsdómi 23. mars 2010 var sem áður segir tekin til greina krafa sóknaraðila um að hún væri eigandi að helmingi eignasafnsins sem kyrrsett hafði verið. Varnaraðili undi dóminum og greiddi sóknaraðila andvirði helmings safnsins 2. september 2010. Með því var kyrrsetningu létt af þeim hluta safnsins sem var í eigu hennar. Í kjölfarið höfðaði sóknaraðili sem fyrr er rakið mál þar sem hún krafðist skaðabóta vegna kyrrsetningarinnar og var endanlega leyst úr því með dómi Hæstaréttar í máli nr. 158/2012.
Sú krafa sem sóknaraðili gerir nú er hærri en í síðastgreindu máli en kröfuliðir sambærilegir þeim sem þá voru hafðir uppi. Í greinargerð sóknaraðila hér fyrir dómi segir að krafan sé ,,aðeins að hluta fundin vegna sömu viðskiptahagsmuna og áður, þ.e. varðandi útgerðina Hlíð ehf.”, en ekki hafi verið höfð upp í hinu fyrra máli krafa ,,um glataða viðskiptahagsmuni og missi hagnaðar vegna lausafjárþurrðar félagsins Hraunás ehf.” sem mun vera fasteignafélag.
Kröfu sem áður hefur verið dæmd að efni til verður vísað frá dómi samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Bar sóknaraðila því sérstök nauðsyn til að gera með skýrum hætti grein fyrir því að hvaða leyti krafan, sem hún hefur uppi nú, sé frábrugðin þeirri sem áður hefur verið dæmt um. Það hefur sóknaraðili ekki gert. Verði málatilbúnaður sóknaraðila skýrður svo að hún beri við öðrum málsástæðum en í hinu fyrra máli girðir meginregla 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 jafnframt fyrir að hún geti byggt málatilbúnað sinn á þeim í þessu máli, þar sem kyrrsetningu hafði verið aflétt af eignum hennar þegar hún höfðaði fyrra málið. Samkvæmt öllu framangreindu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Steinunn Rósborg Sigurðardóttir, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2015.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. desember sl., var höfðað með stefnu útgefinni 14. ágúst 2014 af Einari Þór Einarssyni, Mýrarkoti 6, 225 Álftanesi, og Steinunni Rósborg Sigurðardóttur, sama stað, á hendur Arion banka hf., Borgartúni 19, 105 Reykjavík.
I.
Stefndu krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum skaðabætur að fjárhæð 215.100.000 kr. með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. ágúst 2010 til 14. september 2010, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar, stefnendum að skaðlausu skv. framlögðum reikningi eða að mati dóms, auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Stefndi krefst þess aðallega að kröfum stefnanda, Steinunnar Rósborgar Sigurðardóttur, á hendur stefnda verði vísað frá héraðsdómi og að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Einars Þórs Einarssonar.
Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda.
Til þrautavara krefst stefndi þess að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega.
Í öllum tilvikum krefst stefndi þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda að mati dómsins eða samkvæmt síðar fram lögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.
II.
Málsatvik
Þann 4. júní 2004 gerði stefnandi Einar Þór samning um eignastýringu við forvera stefnda, Kaupþing Búnaðarbanka hf., en eignastýringarsafnið samkvæmt samningnum fékk númarið 470500. Um var að ræða samning um þjónustu sem fól í sér að taka við fjármunum til fjárfestingar í fjármálagerningum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning viðskiptavinar. Í 11. gr. samningsins er kveðið á um það að viðskiptavinur bankans geti hvenær sem er sagt samningnum upp og bankinn með 4 vikna fyrirvara. Með handveðssamningi, dags. 15. apríl 2005, handveðsetti stefnandi Einar Þór bankanum öll vermæti á fjárvörslureikningi eignastýringarsafnsins til tryggingar á greiðslu yfirdráttarskuldar á tékkareikningi stefnanda Einars Þórs nr. 763.
Þann 15. desember 2006 gaf stefnandi Einar Þór út skuldabréf til Kaupþings banka hf. að fjárhæð 147.000.000 króna, en skuldabréfið bar númerið 6222. Í skuldabréfinu var kveðið á um að fjárhæð skuldar yrði bundin vísitölu neysluverðs með tiltekinni grunnvísitölu og að stefnandi skyldi greiða af skuldinni breytilega kjörvexti með 0,75% álagi. Þá var kveðið á um að á fyrsta gjalddaga, þann 1. janúar 2008, skyldi stefnandi greiða 130.000.000 króna af höfuðstól skuldarinnar auk vaxta og verðbóta, en upp frá því eftirstöðvar skuldarinnar ásamt vöxtum með 48 mánaðarlegum afborgunum. Samkvæmt handveðssamningi, dags. 5. maí 2006, stóð inneign stefnanda Einars Þórs á innlánsreikningi nr. 300926 hjá bankanum til tryggingar á greiðslum á öllum skuldbindingum hans við Kaupþing banka hf., þ. á m. til tryggingar á skuld samkvæmt skuldabréfinu.
Á tímabilinu 10. janúar 2007 til 18. október 2007 voru greiddar samtals 105.853.094 krónur inn á framangreinda skuld en ekki hafði verið gert ráð fyrir þeim greiðslum í skuldabréfinu.
Þann 29. janúar 2008 undirrituðu aðilar skilmálabreytingu á skuldabréfinu sem fól í sér myntbreytingu úr íslenskum krónum í erlendar myntir og samkvæmt breytingunni urðu skilmálar bréfsins þannig að lánstíminn varð tólf mánuðir, vextir áttu að reiknast frá 30. janúar 2008 og gjalddagi höfuðstóls var einn, þann 10. febrúar 2009, en gjalddagar vaxta tólf, í fyrsta sinn 10. febrúar 2008. Grunnvextir voru ákveðnir 4,35% að viðbættu 1,1% vaxtaálagi. Þá var tekið fram að skuldabréfið yrði í eftirtöldum erlendum myntum: USD 33%, CHF 34% og JPY 33% og að höfuðstóll lánsins á myntbreytingardegi væri að jafnvirði 53.869.038 króna. Við skilmálabreytinguna fékk skuldabréfið númerið 7015.
Fjármálaeftirlitið neytti, þann 9. október 2008, heimildar samkvæmt 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Þann 21. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið síðan ákvörðun um ráðstöfun tiltekinna eigna og skuldbindinga Kaupþings banka hf. til stefnda. Með þeirri ákvörðun eignaðist stefndi framangreint skuldabréf.
Þann 13. mars 2009 óskaði stefnandi Einar Þór eftir því að inneign hans á fyrrgreindum innlánsreikningi yrði flutt á framangreint eignastýringarsafn hans númer 470500. Þessi millifærsla var samþykkt af viðskiptabankasviði stefnda
Þann 31. mars 2009 undirrituðu aðilar aðra breytingu á greiðsluskilmálum skuldabréfsins. Í skilmálabreytingunni kemur fram að eftirstöðvar þann 12. janúar 2009 hafi verið að jafnvirði 105.700.979 krónur og að framreiknaðar eftirstöður væru að jafnvirði 94.265.063 krónur. Skilmálunum var breytt með þeim hætti að lánstíminn var ákveðinn fjórir mánuðir, að vextir skyldu reiknast frá 12. janúar 2009 og að gjalddagi höfuðstóls væri 10. maí 2009. Þá var mælt fyrir um að vextir yrðu óbreyttir og að gjalddagar vaxta yrðu þrír, sá fyrsti 10. febrúar 2009 og lokagjalddagi þann 10. maí 2009. Aðilar gerðu aftur skilmálabreytingu á skuldabréfinu þann 4. júní 2009, en samkvæmt henni voru eftirstöðvar bréfsins þann 20. maí 2009 að jafnvirði 108.267.576 króna. Mælt var fyrir um að gjalddagi höfuðstóls skyldi vera þann 1. september 2009, að vextir skyldu verða óbreyttir og að gjalddagar þeirra skyldu verða fjórir, sá fyrsti þann 1. maí 2009.
Stefnandi var einn skráður fyrir framangreindum eignarstýringarsamningi og með bréfi stefnenda, dagsettu og mótteknu af stefnda þann 20. júlí 2009, fóru þau þess á leit að eignarhaldi að eignasafni nr. 470500, samkvæmt samningi dags. 4. júní 2004, yrði breytt og stefnandi Steinunn yrði skráð ásamt stefnda Einari Þór eigandi þar sem eignasafnið væri hjúskapareign þeirra. Stefndi varð ekki við þessum fyrirmælum.
Með bréfi, dags. 31. júlí 2009, sem barst stefnda þann 6. ágúst 2009, sögðu stefnendur síðan upp eignastýringarsamningnum og óskuðu eftir að andvirði safnsins yrði lagt inn á tiltekinn reikning í eigu stefnanda Steinunnar. Ekki varð hins vegar af þessari millifærslu.
Fram kemur að þann 1. ágúst 2009 taldi stefndi að eftirstöðvar skuldabréfsins væru JPY 29.036.436, CHF 306.518,94 og USD 270.989,83, en umreiknað í íslenskar krónur næmi skuldin í íslenskum krónum samtals 109.798.450 krónum. Á sama tíma stóðu eftirstöðvar eignastýringarsafnsins í 98.359.001 krónu.
Lögmaður stefnenda ítrekaði kröfu þeirra frá fyrrnefndu bréfi, dags. 31. júlí 2009, með bréfi til bankastjóra stefnda, dags. 17. ágúst 2009.
Stefndi krafðist síðan, með beiðni til sýslumannsins í Hafnarfirði dags. 12. ágúst 2009, kyrrsetningar á fjármunum á eignastýringarsafninu til tryggingar á greiðslu kröfu samkvæmt skuldabréfinu. Fallist var á beiðnina þann 18. ágúst 2009. Réttarstefna var síðan gefin út af Héraðsdómi Reykjaness í staðfestingarmáli vegna kyrrsetningarinnar þann 21. ágúst 2009.
Á meðan framangreint staðfestingarmál var rekið fyrir héraðsdómi höfðaði stefnandi Steinunn mál á hendur stefnda og krafðist þess að honum yrði gert að greiða samtals 49.179.500 krónur með dráttarvöxtum frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags auk málskostnaðar. Um var að ræða kröfu um helming andvirðis inneignar á fyrrnefndu eignastýringarsafni. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. mars 2009 í máli nr. E-12679/2009 var krafa hennar tekin til greina. Dómi héraðsdóms var ekki áfrýjað. Stefndi greiddi kröfu samkvæmt þessum dómi þann 2. september 2010, samtals 56.653.421 krónur að meðtöldum dráttarvöxtum og kostnaði.
Dómur gekk síðan í héraði í framangreindu staðfestingarmáli stefnda gegn stefnanda Einari Þór þann 14. júlí 2010, en með honum var kyrrsetningin staðfest að hluta. Stefnandi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar og með dómi réttarins 17. nóvember 2011 í máli nr. 470/2010 var því vísað frá héraðsdómi. Með dómi Hæstaréttar var stefndi dæmdur til að greiða stefnanda Einari Þór 2.000.000 króna í málskostnað. Þann 25. nóvember 2011 lýsti stefndi yfir skuldajöfnuði á kröfu sinni samkvæmt framangreindu skuldabréfi gegn málskostnaðinum. Stefnandi Einar Þór krafðist hins vegar fjárnáms hjá stefnda fyrir málskostnaðinum. Þeirri kröfu var hafnað af sýslumanni og sú niðurstaða staðfest af Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. Y-1/2012. Sú niðurstaða var kærð til Hæstaréttar, en áður en dómur réttarins lá fyrir, eða þann 23. maí 2012, greiddi stefndi kröfu stefnanda.
Rúmu ári áður, eða þann 12. október 2010, hafði stefnandi Steinunn höfðað mál á hendur stefnda og krafðist skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningargerðarinnar sem beinst hafði að stefnanda Einari Þór. Stefnandi Steinunn gerði kröfu um að stefnda yrði gert að greiða 60.000.000 króna fyrir tjón vegna tapaðra viðskipta með aflaheimildir, 20.000.000 króna fyrir tjón í útgerð vegna tapaðra viðskiptahagsmuna o.fl. og 10.000.000 króna í miskabætur. Kröfur sínar byggði hún á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Í héraði voru skaðabætur dæmdar að álitum og þóttu hæfilega ákvarðaðar 5.000.000 króna. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og með dómi réttarins frá 29. nóvember 2012 í máli nr. 158/2012 var talið að stefnanda Steinunni hefði ekki tekist að sanna fjártjón sitt. Þá var ekki fallist á bætur að álitum þar sem stefndi hafði þann 2. september 2010 greitt stefnanda Steinunni dráttarvexti vegna þess tíma sem hún hafi ekki getað nýtt sér sinn hluta eignasafnsins vegna kyrrsetningarinnar. Tekið var fram að dráttarvextir væru lögákveðnar meðalhófsbætur vegna vanefnda á greiðslu skuldar og að stefnandi hefði ekki sýnt fram á tjón umfram það. Var stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda um skaðabætur. Hins vegar var fallist á að stefnda bæri að greiða henni miskabætur vegna óþæginda og þóttu þær hæfilega ákveðnar 400.000 krónur.
Að gengnum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 470/2010 fékk stefndi að nýju gefna út réttarstefnu af Héraðsdómi Reykjaness þann 23. nóvember 2011 og krafðist hann þess að stefnanda Einari Þór yrði gert að greiða honum 62.069.465 krónur ásamt dráttarvöxtum ásamt því að gerð var krafa um að kyrrsetningin frá 18. ágúst yrði staðfest. Stefnandi höfðaði gagnsök á hendur stefnda 10. janúar 2012 þar sem hann krafðist þess að stefnda yrði gert að greiða honum 52.967.388 krónur með dráttarvöxtum frá 10. nóvember 2008 til greiðsludags. Krafa stefnanda samanstóð af tveim þáttum, annars vegar 49.179.500 krónum, sem eftir stóðu af andvirði fyrrnefnds eignastýringarsafns, og hins vegar samtölu 11 greiðslna, sem bárust inn á kröfu samkvæmt framangreindu skuldabréfi á tímabilinu 10. nóvember 2008 til 4. ágúst 2009. Í héraði var fallist á fjárkröfu stefnda og kyrrsetning staðfest, en stefndi sýknaður af kröfu stefnanda Einars Þórs. Í dómi Hæstaréttar frá 15. maí 2014 í máli nr. 672/2013 var hins vegar vísað til þess að ekki væri hægt að sjá af málatilbúnaði stefnda í héraðsdómsstefnu hvernig hann teldi að finna mætti fjárhæð skuldar stefnanda með tilliti til upphaflegs höfuðstóls hennar samkvæmt skuldabréfinu frá 15. desember 2006, verðbóta, vaxta og innborgana og vísaði kröfum stefnda frá héraðsdómi. Í dómi réttarins var hins vegar fallist á að krafa samkvæmt skuldabréfinu hefði færst yfir í hendur stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þann 21. október 2008 og var því kröfum vegna 11 greiðslna af skuldabréfinu hafnað, en fallist var á kröfu stefnanda um þá fjárhæð sem varð gjaldkræf eftir uppsögn eignastýringarsamningsins.
Hér hafa aðeins verið raktir helstu málavextir er skipta máli varðandi frávísunarkröfu í málinu.
III.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur styðja kröfur sínar fyrst og fremst við ákvæði 4. mgr. 42. gr. laga um kyrrsetningu, og sú skaðabótaábyrgð sé hlutlæg. Ákvæði 42. gr. heimili að skaðabætur séu dæmdar að álitum og slaki á sönnunarkröfum til umfangs tjóns.
Stefnendur styðja kröfur sínar enn fremur og til vara við almennu sakarregluna og reglur skaðabótaréttarins um skaðabætur innan samninga.
Stefnendur vísa til þess að þau hafi sumarið 2009 stofnað útgerðarfélagið Hlíð útgerð ehf. Þau hafi haft reynslu af útgerð en þau höfðu áður gert út bátinn Birtu ÍS-551, sem þau hafi selt 29. ágúst 2008. Í febrúar 2009 hafi þau keypt fiskiskipið m/b Glað IS-221, sem þau hafi selt inn í nýja félagið Hlíð útgerð ehf. á 6.850.000 kr. og hafi skipið verið veðbandalaust, en án aflaheimilda. Stefnda hafi verið kunnugt um þessa fyrirætlan enda hafi stefndi þjónustað stefnendur um árabil. Áform stefnenda hafi verið að hefja fiskveiðar á nýju fiskveiðiári frá 1. september 2009. Fyrir milligöngu kvótamiðlara hafi stefnendur ráðgert kaup á leigukvóta á mjög hagstæðu verði fyrir fiskveiðiárið 2009-2010. Um hafi verið að ræða 300 tonn af þorski á 150 kr. pr. kg, 270 tonn af ýsu á 50 kr. pr. kg. og 30 tonn af skötusel á 130 kr. pr. kg, samtals 62.400.000 kr. Ætlun stefnenda hafi verið að leggja fram fjármuni til greiðslu kaupverðs af inneign þeirra í eignastýringu. Af þeim sökum hafi þau sagt upp samningi um eignastýringu þann 6. ágúst 2009 til að fullnusta kaupin, en með því að báturinn hafi verið veðbandslaus hafi stefnendum verið auðvelt að nýta sér hann sem „kvótabanka“ og færa á hann og af honum veiðiheimildir. Stefnandi Steinunn hafi aflað sér mats undir rekstri héraðsdómsmáls nr. E-2381/2010 til að staðreyna tjón sitt, en héraðsdómur hafi talið að matið væri ekki reist á viðhlítandi forsendum og að stefnandi hafi ekki haft fjárhagslegt bolmagn til kaupanna og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu í máli nr. 158/2012. Áskilja stefnendur sér að fá matið endurskoðað með tilliti til þessara ágalla, og/eða að afla nýs mats. Niðurstöður dóms Hæstaréttar í máli 672/2013 staðfesti óyggjandi, að stefnendur hafi átt nægjanlega fjármuni til að efna kaup. Ólögmætar aðgerðir stefnda hafi leitt til þess að forsendur stefnenda fyrir útgerðinni hafi brostið og stefnendur orðið að selja skipið.
Á þessum tíma hafi stefnendur átt og rekið fasteignafélagið Hraunás ehf., sem stofnað hafi verið 15. janúar 2006, og hafi haft með fasteignarekstur að gera. Félagið hafi átt fasteignir og bifreiðar að verðmæti 303.500.000 kr., sbr. eignaskrá með ársreikningi árið 2008. Rekstrartekjur hafi á því ári verið 22.108.358 kr. Til að mæta erfiðleikum í rekstri, sem fylgdu hækkun gengistryggðra lána, þá hafi félagið selt fasteignir árið 2009 og lækkað rekstrarkostnað. Félagið héldi enn eftir aðaleignum sínum, sem voru Hringbraut 121, og Refsholt 17. Þá hafi félagið enn átt tvær bifreiðar, en stofnverð þeirra hafi verið samtals 14.000.000 kr. Svo hafi farið að aðgengi félagsins að lausafé hafi lokast, enda hafi stefndi fært stefnendur á vanskilaskrá og að endingu hafi eignir félagsins verið seldar nauðungarsölu til uppgreiðslu á skuldum við lánardrottna. Stefndi hafi ekki aðeins girt fyrir aðgengi stefnanda að eigin fjármunum, heldur urðu aðgerðir stefnda til þess að eyðileggja lánstraust stefnenda og aðgengi þeirra að lánamörkuðum. Stefnendur áskilja sér rétt til að láta meta umfang þess afleidda tjóns sem orðið hafi vegna aðgerða stefnda.
Stefnendur vísa til þess að stefndi hafi frá upphafi viðhaft saknæma og ólögmæta háttsemi og leitast við að valda stefnendum óhagræði og tjóni. Stefnendur ætli að háttsemi stefnda sé refsivert gertæki og eigi undir ákvæði 260. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, fyrst árið 2009, þegar stefndi hafi ekki orðið við kröfu um að greiða út fjármuni og hélt þeim fyrir stefnendum með ólögmætum þar til þeir fengu þá kyrrsetta, síðan árið 2014 með því að neita að greiða út peninga úr eignastýringasafni þrátt fyrir að kyrrsetning hafi verið fallin niður vegna frávísunar. Áskilja stefnendur sér rétt til að höfða refsimál vegna þessa gegn stjórnendum stefnda sem og einstaka starfsmönnum.
Stefnendur vísa til þess að ákvæði laga um kyrrsetningu leggi þá skyldu á hvern sem krefjist kyrrsetningar á eignum annars að hann bæti, að tilgreindum skilyrðum uppfylltum, allt það fjártjón og miska sem af gerðinni hljótist, og þar á meðal spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum. Stefndi sé bankastofnun með yfirburðarstöðu. Um starfsemi stefnda gildi ákvæði laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þau leggi enn ríkari skyldur á stefnda til eðlilegra og heilbrigðra viðskiptahátta, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Stefnda beri því að gæta að þeim skyldum þegar hann ráðist í aðgerðir eins og þær sem að framan greinir. Skoða verði sakarmat stefnda í því ljósi. Stefndi hafi farið offari með aðgerðum sínum og enn í dag hafi stefndi hvorki getað sýnt fram á að hann eigi kröfu á hendur stefnendum né sýnt fram á fjárhæð hennar, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnenda eins og ráðið verði af dómum Hæstaréttar.
Stefnendur byggja á því að þau hafi orðið fyrir umfangsmiklu og alvarlegu fjártjóni sem leitt hafi beint af aðgerðum bankans sem séu langt frá því að verða bætt með höfuðstólsfærðum dráttarvöxtum þeirra dóma sem fallið hafa. Orsakasamband á milli aðgerða stefnda og tjóns stefnanda sé hafið yfir allan vafa. Tjónið leiði beint af því að fjármunum stefnenda, hundrað milljónum króna, hafi verið haldið frá þeim og það ónýtt getu þeirra til athafna. Afleitt tjón stefnenda hafi helst komið fram í spjöllum á lánstrausti og viðskiptahagsmunum, rekstrarstöðvun fyrirtækja í þeirra eigu og missi hagnaðar, en ógerlegt sé að gera því tæmandi skil. Stefnandi, Einar Þór, sé enn í dag á vanskilaskrá fyrir tilstuðlan stefnda.
Stefnendur áskilja sér rétt til að dómkveðja matsmenn í því skyni að leita sönnunar um umfang tjóns eða leiða líkur að því eins og næst verði komist. Heimilt sé að dæma skaðabætur að álitum þegar svo hagi til sem hér. Heimildin sé lögfest í lögum um kyrrsetningu og eigi sér stoð í dómaframkvæmd og meginreglum skaðabótaréttar.
Bráðabirgðagerð sú, er stefndi réðst í, hafi staðið frá 18. ágúst 2009 til 15. maí síðastliðinn, eða í tæplega fimm ár, og hafi hún valdið stefnendum alvarlegu tjóni, andlegu, líkamlegu og fjárhagslegu. Á því tímabili, og í skjóli gerðarinnar, hafi stefndi farið offari gagnvart báðum stefnendum. Stefndi hafi í öllum sínum aðgerðum sýnt ófyrirleitni, verið í vondri trú (mala fide), og misbeitt gerðinni. Stefnendur krefjast miskabóta með vísan til 42. gr. laga um kyrrsetningu sem og með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnendur áskilja sér jafnframt rétt til að dómkveðja matsmenn til þess að meta miska með vísan til 4. gr. skaðabótalaga.
Þar sem stefndi hafi ekki fengist til þess að viðurkenna og bæta tjón stefnenda sé þeim nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu bóta.
Stefnendur krefjast skaðabóta samtals að fjárhæð 215.100.000 króna og eru kröfur stefnenda reistar á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr., kyrrsetningalaga nr. 31/1990 og meginreglum íslensks skaðabótaréttar. Krafan sundurliðast þannig:
|
1)Bætur vegna fjárhagslegs tjóns |
115.100.000 kr. |
|
a. lögmannskostnaður |
25.100.000 kr. |
|
b. tjón af rekstrarstöðvun |
60.000.000 kr. |
|
c. missir hagnaðar |
60.000.000 kr. |
|
d. spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum |
30.000,000 kr. |
|
2) Miskabætur v. Steinunnar R. Sigurðardóttur |
20.000.000 kr. |
|
3) Miskabætur v. Einar Þórs Einarssonar |
20.000.000 kr. |
|
Samtals |
215.100.000 kr. |
Stefnendur áskilja sér rétt til þess að afla matsgerðar dómkvaddra matsmanna til sönnunar á tjóni og hafa niðurstöður þess uppi til stuðnings kröfum og að breyta dómkröfum í samræmi við það. Enn fremur að hafa uppi kröfur vegna alls kostnaðar af öflun matsgerða.
Við aðalmeðferð var af hálfu stefnanda Steinunnar mótmælt kröfu stefnda um frávísun og á því byggt að það væri misskilningur stefnda að um sama sakarefni væri að ræða í máli þessu og í dómi Hæstaréttar Íslands frá 29. nóvember 2012 í máli nr. 158/2012. Um sé að ræða sambærilegt sakarefni en aðra fjármuni stefnanda og dráttarvextir sem vísað sé til í dómi Hæstaréttar Íslands bæti ekki tjón stefnanda.
Að öðru leyti var vísað af hálfu stefnanda til málsástæðna í stefnu.
Varðandi lagarök þá vísa stefnendur um réttarfar til laga nr. 91/1991. Krafan um dráttarvexti styðst við 6. gr. III. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001. Krafa stefnenda um málskostnað er reist á ákvæðum laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
Grundvöll skaðabóta reisa stefnendur á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr. kyrrsetningarlaga nr. 31/1990. Enn fremur byggja þeir á sakarreglu íslensks skaðabótaréttar og reglum um skaðabætur innan samninga, meginreglum samningaréttar og kröfuréttar sem og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993. Um sakarmat vísa stefnendur sérstaklega til sérfræðiábyrgðar og ákv. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Stefnendur kveðast munu leggja fyrir dóminn hagsmunatengdan málskostnaðarreikning sem tekur mið af þeim hagsmunum sem málið geymir. Málskostnaðarkrafan sé þannig fram sett og taki mið af skaðleysi stefnenda.
Málsástæður og lagarök stefnda varðandi frávísunarkröfu
Stefndi bendir á að lýsing á málsatvikum í stefnu sé í mörgum atriðum röng eða í það minnsta villandi og mótmælir henni að svo miklu leyti sem hún gengur gegn málatilbúnaði stefnda. Stefndi mótmælir því sérstaklega að hann hafi látið setja stefnanda Steinunni eða félög í eigu stefnenda á vanskilaskrá, líkt og fullyrt sé í stefnu.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því að kröfur stefnanda Steinunnar hafi þegar verið dæmdar að efni til í skilningi 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins verður dæmd krafa ekki borin að nýju undir dómstóla og skuli nýju máli um slíka kröfu vísað frá dómi.
Krafa stefnanda hafi verið dæmd efnislega með dómi Hæstaréttar frá 29. nóvember 2012 í máli nr. 158/2012 þar sem stefnandi
hafi gert kröfu um að stefnda yrði gert að greiða sér 90.000.000 króna með dráttarvöxtum frá 18. ágúst 2009. Í forsendum Hæstaréttar sé kröfu hennar lýst þannig að hún hafi falið í sér kröfu um bætur vegna fjártjóns og miska sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningargerðarinnar 18. ágúst 2009, sem beint hafi verið að eiginmanni hennar, stefnanda Einari Þór. Krafan hafi verið byggð á því að hún hafi orðið af því að gera hagfelld kaup á aflaheimildum í ágúst 2009. Tekið hafi verið fram að hún byggði kröfu sína á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr., laga nr. 31/1990. Þá komi fram að stefnandi hafi sundurliðað kröfu sína fyrir Hæstarétti þannig að 60.000.000 króna hafi verið vegna tapaðra viðskipta með aflaheimildir, 20.000.000 króna vegna tjóns í útgerð vegna tapaðra viðskiptahagsmuna o.fl. og 10.000.000 króna vegna miska. Eins og áður hafi verið rakið hafi Hæstiréttur sýknað stefnda af kröfum stefnanda um skaðabætur en dæmt stefnanda miskabætur vegna óþæginda og þóttu þær hæfilega ákveðnar 400.000 krónur.
Þegar litið sé til málatilbúnaðar stefnenda í þessu máli, eins og honum sé lýst í stefnu, sé ljóst að um sömu kröfu sé að ræða og dæmd hafi verið að efni til með framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands. Fram komi í stefnu að hún sé höfð uppi vegna fjártjóns og miska sem stefnendur telja sig hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningargerðarinnar 18. ágúst 2009. Þannig sé byggt á því að stefnendur hafi orðið af því að gera hagfelld kaup á leigukvóta fyrir upphaf fiskveiðitímabilsins þann 1. september 2009. Tekið sé fram að krafan sé fyrst og fremst byggð á 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990, en til vara sé byggt á almennu sakarreglunni og reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur innan samninga. Krafa stefnanda sé sundurliðuð í tjón vegna lögmannskostnaðar, tjóns af rekstrarstöðvun, missis hagnaðar og spjöllum á lánstrausti og viðskiptahagsmunum. Þá sé gerð krafa um miskabætur. Þrátt fyrir að sundurliðun kröfunnar sé ekki að öllu leyti með sama hætti og í framangreindu máli sé ljóst af umfjöllun stefnanda um málsástæður að skaðabótakrafan er byggð á tjóni sem stefnendur telja sig hafa orðið fyrir vegna tjóns á töpuðum viðskiptum með leigukvóta og vegna tapaðra viðskiptahagsmuna. Jafnframt sé ljóst að krafa um bætur vegna miska sé vegna sömu atvika og í framangreindu máli. Kröfur stefnanda Steinunnar hafa því verið dæmdar að efni til og því ber að vísa þeim frá dómi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991.
Um málskostnað vísar stefndi til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um kröfu stefnda um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísast til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.
IV.
Niðurstaða
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að kröfur stefnanda Steinunnar hafi þegar verið dæmdar að efni til í skilningi 116. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að fjártjón hennar og miski verði fyrst og fremst rakið til kyrrsetningargerðarinnar 18. ágúst 2009 og málsmeðferðar stefnda. Þetta hafi leitt til þess að hún hafi orðið af möguleikum á að nýta sér viðskiptatækifæri, svo sem að gera hagstæð kaup á aflaheimildum. Aðgerðir stefnda hafi leitt til þess að aðgengi fasteignafélags, Hraunáss ehf., sem stefndu áttu og höfðu rekið frá því árið 2006, að lánsfé hafi lokast og að lokum hafi eignir félagsins verið seldar nauðungarsölu. Aðgerðir stefnda hafi því ekki aðeins girt fyrir aðgengi stefnenda að eigin fjármunum, heldur jafnframt eyðilagt lánstraust stefnenda og aðgengi að lánamörkuðum.
Í forsendum dóms Hæstaréttar Íslands frá 29. nóvember 2012 í máli nr. 158/2012, en í því máli krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi sér 90.000 millj. króna með dráttarvöxtum frá 18. ágúst 2009, kemur fram að krafa stefnda sé vegna fjártjóns og miska sem hún hafi talið sig hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningargerðarinnar 18. ágúst 2009, sem beint var að eiginmanni hennar, meðstefnanda í máli þessu. Kröfur sínar í máli þessu byggir stefnandi einkum á 4. mgr. 42. gr. laga um nr. 31/1990, en til vara á almennu sakarreglunni og reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga. Sundurliðun kröfu stefnanda er með nokkrum leyti með sama hætti og í téðum dómi Hæstaréttar Íslands, en í málsástæðum kemur skýrt fram að skaðabótakrafa sé byggð á töpuðum viðskipum með leigukvóta og vegna tapaðra viðskiptahagsmuna. Þá eru bætur vegna miska vegna sömu atvika og í framangreindu máli. Varðandi þá málsástæðu að stefndi hafi komið stefnanda á vanskilaskrá þá er því mótmælt af stefnda og engin gögn hafi verið lögð fram af hálfu stefnanda sem sýna fram á þá fullyrðingu og kemur hún því ekki til álita hér. Fyrir liggur hins vegar í málinu útprentun úr vanskilaskrá CREDITINFO þar sem fram kemur að meðstefndi Einar Þór sé ekki með færslur á vanskilaskrá.
Kröfur stefnanda Steinunnar hafa verið dæmdar að efni til með dómi Hæstaréttar Íslands frá 29. nóvember 2012 í máli nr. 18/2012 og ber því að vísa þeim frá dómi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda Steinunni Rósborgu Sigurðardóttur að greiða stefnda málskostnað eins og kveðið er á um í úrskurðarorði.
Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning úrskurðar dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar og dómari telja ekki þörf á endurflutningi.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Úrskurðarorð:
Kröfum stefnanda, Steinunnar Rósborgar Sigurðardóttur, á hendur stefnda, Arion banka hf., er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda 300.000 kr. í málskostnað.