Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-63

Hönnunarhúsið ehf. (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Keili útgáfufélagi ehf. (Jón Auðunn Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skuldamál
  • Fyrning
  • Tómlæti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 7. febrúar 2019 leitar Hönnunarhúsið ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. janúar sama ár í málinu nr. 539/2018: Keilir útgáfufélag ehf. gegn Hönnunarhúsinu ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Keilir útgáfufélag ehf. leggst gegn beiðninni.

Málið höfðaði leyfisbeiðandi til heimtu skuldar að fjárhæð 10.680.075 krónur á grundvelli munnlegs samnings aðilanna um útgáfu og ritstjórn leyfisbeiðanda á vikulegu bæjarblaði á vegum gagnaðila. Deildu aðilar um hvort gagnaðili hafi innt af hendi fullnægjandi greiðslur til leyfisbeiðanda vegna þjónustu hans. Héraðsdómur tók kröfu leyfisbeiðanda til greina en Landsréttur sýknaði á hinn bóginn gagnaðila á þeim grundvelli að leyfisbeiðandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við að halda fram rétti sínum að krafa hans væri niður fallin.  

Leyfisbeiðandi telur að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 til að veita áfrýjunarleyfi. Þannig hafi málið mikla almenna þýðingu, enda lúti niðurstaða þess meðal annars að því hvar mörk liggi milli reglna um fyrningu og tómlæti, en ætla megi að slík álitaefni geti komið upp í fjölda tilvika í viðvarandi samningssamböndum. Einnig telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng og setji varasamt fordæmi fái hún að standa óbreytt. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína, enda skipti það sig miklu að tapa kröfu að þeirri fjárhæð sem um ræði.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.