Hæstiréttur íslands
Mál nr. 495/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Hlutafé
- Tryggingarbréf
- Veðréttindi
- Réttindaröð
|
|
Mánudaginn 18. nóvember 2002. |
|
Nr. 495/2002. |
Þrotabú TL-Rúllna ehf. (Helgi V. Jónsson hrl.) gegn TV-Fjárfestingarfélaginu ehf. (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Hlutafjárhækkun. Tryggingarbréf. Veðréttindi. Réttindaröð.
Við gjaldþrotaskipti á þrotabúi TL ehf. var deilt um það hvort líta bæri á fjárframlag að fjárhæð 20.000.000 krónur, sem eigandi félagsins lagði til þess skömmu áður en það var tekið til gjaldþrotaskipta, sem hlutafé eða lánsfé. Jafnframt var deilt um hvort kröfu sem eigandinn lýsti í búið skyldi skipað í réttindaröð sem almennri kröfu eða veðkröfu. Var krafan sundurliðuð þannig að 20.000.000 krónur ættu rætur að rekja til skuldaviðurkenningar félagsins, en samtals 22.689.930 krónur væru vegna greiðslna á skuldum samkvæmt skuldabréfum, sem eigandinn var í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Taldi eigandinn að hann nyti veðréttar fyrir þessari kröfu samkvæmt tryggingarbréfi, sem félagið gaf út til hans. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þau gögn ásamt öðru, sem þrotabú TL ehf. hafi fært fram, nægi ekki til að sýna fram á að umrætt fjárframlag hafi í raun verið greiðsla vegna hlutafjáraukningar, sem ekki hafi verið tilkynnt hlutafélagaskrá. Aftur á móti séu engin skilyrði til að taka til greina kröfu eigandans um að fjárkröfu hans á hendur þrotabúinu verði skipað í réttindaröð sem veðkröfu, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Beri því að telja hana meðal almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að krafa hans að fjárhæð 39.189.930 krónur verði viðurkennd við gjaldþrotaskipti sóknaraðila og njóti þar stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að krafa varnaraðila verði aðeins viðurkennd að því er varðar 19.189.930 krónur og henni skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins hófust um mitt ár 1996 viðræður milli varnaraðila, sem þá hét Timburvinnslan ehf., og hluthafa í Teppalandi hf. um kaup þess fyrrnefnda á hlutum í síðarnefnda félaginu. Munu þessar viðræður hafa leitt til þess að varnaraðili keypti alla hluti í Teppalandi hf. í september á því ári. Í tengslum við það lagði varnaraðili félaginu til samtals 20.000.000 krónur í þremur áföngum eða nánar tiltekið 10.000.000 krónur 26. september 1996, 5.000.000 krónur 30. sama mánaðar og 5.000.000 krónur 5. október sama árs. Hluti af þessum greiðslum gekk inn á bankareikning Teppalands hf., en að öðru leyti greiddi varnaraðili með þessu tilteknar skuldir félagsins við lánardrottna. Fyrir þessu samanlögðu gaf Teppaland hf. út 5. október 1996 skuldaviðurkenningu, þar sem fram kom að félagið viðurkenndi að skulda varnaraðila 20.000.000 krónur „vegna lána sem Teppaland hf. hefur tekið hjá Timburvinnslunni ehf.“, en þessa fjárhæð hafi varnaraðili greitt félaginu í þrennu lagi. Hét Teppaland hf. því að greiða af skuldinni meðalvexti, eins og þeir væru ákveðnir hverju sinni af Seðlabanka Íslands af óverðtryggðum skuldabréfum. Þá sagði að miðað væri við að lánið yrði greitt upp innan þriggja ára og yrði það „að fullu gjaldkræft“ 5. október 1999. Loks voru ákvæði um heimild varnaraðila til að gjaldfella lánið ef vanskil yrðu eða bú Teppalands hf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Í málinu liggur fyrir að varnaraðili hafi auk þess, sem að framan greinir, gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum Teppalands hf. við Íslandsbanka hf. samkvæmt fjórum skuldabréfum. Tvö þessara skuldabréfa munu hafa verið gefin út 8. nóvember 1996 og annað þeirra verið að fjárhæð 10.000.000 krónur, en hitt fyrir nánar tilgreindum fjárhæðum í fimm erlendum gjaldmiðlum. Þriðja skuldabréfið mun hafa verið á sama hátt fyrir fjárhæðum í erlendri mynt og gefið út 12. febrúar 1997. Fjórða skuldabréfið mun hafa verið gefið út 14. sama mánaðar og fjárhæð þess 7.500.000 krónur.
Teppaland hf. gaf út 25. september 1996 tryggingarbréf fyrir greiðslu á öllum skuldum sínum við varnaraðila að fjárhæð allt að 40.000.000 krónur. Setti félagið varnaraðila að veði með fyrsta veðrétti „allt lausafé samkvæmt meðfylgjandi lista sem staðsett eru í húsnæði Teppalands hf. að Mörkinni 4 Reykjavík, en um er að ræða lausafé samtals að verðmati kr. 21.200.000 skv. listanum. Einnig er veðsettur allur vörulager sem staðsettur er að Mörkinni 4 eins og hann er á hverjum tíma.“ Á umræddum lista var í 19 liðum greint frá samtals 31 hlut undir fyrirsögninni „skrifstofuáhöld og tæki“, í 5 liðum var getið 9 hluta, sem voru flokkaðir sem „ljós og kastarar“, í 6 liðum var rætt um 9 hluti, sem teldust „hillur og hillukerfi“, og loks voru undir fyrirsögninni „lyftarar, vélar og önnur áhöld“ taldir upp í 13 liðum samtals 34 hlutir. Verðmat var tilgreint fyrir hvern lið og nam það samanlagt áðurgreindum 21.200.000 krónum. Þessu til viðbótar fylgdi tryggingarbréfinu önnur skrá um lausafjármuni, sem nefndir voru „teppa- og dúkastandar og innréttingar“. Var þar í 30 liðum nefndur samtals 81 hlutur og andvirði þeirra, sem sundurliðað var á sama hátt og í áðurnefndum lista, sagt vera alls 7.450.500 krónur. Af tryggingarbréfinu, sem var þinglýst 27. september 1996, verður ekki séð hvernig síðastnefnd skrá kann að hafa tengst veðsetningunni, sem þar um ræddi.
Af gögnum málsins verður ráðið að Teppaland hf. hafi haldið áfram rekstri eftir framangreindar ráðstafanir og fram í maí 1997, en á einhverju stigi hafi nafni félagsins verið breytt í TL-Rúllur ehf. áður en stjórn þess leitaði 18. mars 1998 eftir því að bú þess yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við þeirri beiðni var orðið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 1998. Við gjaldþrotaskiptin lýsti varnaraðili 19. júní 1998 kröfu fyrir skiptastjóra að fjárhæð samtals 42.689.930,11 krónur. Krafan var þar sundurliðuð þannig að 20.000.000 krónur ættu rætur að rekja til fyrrnefndrar skuldaviðurkenningar frá 5. október 1996, en samtals 22.689.930,11 krónur væru vegna greiðslna varnaraðila á skuldum samkvæmt áðurgreindum fjórum skuldabréfum frá nóvember 1996 og febrúar 1997, sem hann var í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Varnaraðili krafðist þess jafnframt að hann nyti veðréttar fyrir þessari kröfu samkvæmt tryggingarbréfinu, sem Teppaland hf. gaf út til hans 25. september 1996. Með bréfi 29. júní 1998 greindi skiptastjóri varnaraðila frá þeirri afstöðu sinni að kröfu þessari væri „hafnað að svo stöddu“, þar sem kanna þyrfti bókhald félagsins til að leiða í ljós stöðuna í viðskiptum þess við varnaraðila. Var þetta í samræmi við það, sem fram kom í skrá skiptastjórans um lýstar kröfur í þrotabúið, en hún var lögð fram á skiptafundi 7. júlí 1998. Skiptastjóri tilkynnti síðan varnaraðila með bréfi 17. nóvember 2000 um þá afstöðu sína að hafna framangreindri kröfu með öllu og var þar greint frá röksemdum fyrir því. Varnaraðili mótmælti þessari afstöðu 12. desember 2000 og óskaði þá eftir að ágreiningur sinn við þrotabúið yrði útkljáður „eftir formlega réttum leiðum“. Skiptafundur var loks haldinn í þrotabúinu 25. október 2001 til að fjalla meðal annars um framangreinda afstöðu skiptastjóra til kröfu varnaraðila. Virðist mega ráða af fundargerð skiptastjórans að hann hafi þar fallist á að viðurkenna þann hluta af kröfu varnaraðila, sem átti rætur að rekja til greiðslna hans á kröfum Íslandsbanka hf. samkvæmt fyrrnefndum fjórum skuldabréfum, eða 22.689.930 krónur. Til frádráttar þessu virðast hins vegar hafa átt að koma 3.500.000 krónur vegna skuldajafnaðar á kröfu Teppalands hf. á hendur varnaraðila samkvæmt kaupsamningi 16. janúar 1997, en í framlögðu fylgiskjali úr bókhaldi varnaraðila kemur fram að þessi krafa hafi komið til vegna kaupa hans á vörumerki. Verður þannig ekki annað ráðið af gögnum málsins en að krafa varnaraðila hafi verið viðurkennd með fjárhæðinni 19.189.930 krónur og skiptastjóri talið að skipa ætti henni meðal almennra krafna.
Varnaraðili andmælti framangreindri niðurstöðu skiptastjóra um viðurkenningu á kröfu hans. Beindi skiptastjóri ágreiningi aðilanna til Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2001 og var mál þetta þingfest af því tilefni 25. janúar 2002. Eins og kröfugerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti ber með sér viðurkennir hann að varnaraðili eigi almenna kröfu í þrotabúið að fjárhæð 19.189.930 krónur. Með málskoti þessu leitast sóknaraðili á hinn bóginn við að fá hrundið þeirri niðurstöðu hins kærða úrskurðar að varnaraðili eigi þessu til viðbótar kröfu á hendur honum að fjárhæð 20.000.000 krónur á grundvelli fyrrnefndrar skuldaviðurkenningar frá 5. október 1996, svo og að þessar fjárhæðir samanlagðar verði viðurkenndar sem veðkrafa með stoð í tryggingarbréfinu frá 25. september 1996.
II.
Óumdeilt er að varnaraðili lét Teppalandi hf. í té samtals 20.000.000 krónur á fyrrgreindan hátt í september og október 1996. Fyrir þessari fjárhæð gaf félagið út skjalið, sem áður er lýst og bar yfirskriftina „skuldaviðurkenning“. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing 2. nóvember 2000 frá löggiltum endurskoðanda, sem annaðist reikningsskil fyrir Teppaland hf., en þar staðfestir hann að í bókum félagsins hafi þessi fjárhæð verið færð sem skuld við varnaraðila. Af ýmsum gögnum, sem sóknaraðili hefur lagt fram og stafa einkum frá árinu 1996, verður ráðið að til umræðu hafi verið að varnaraðili stæði að því að auka hlutafé í félaginu um þessa fjárhæð. Þau gögn ásamt öðru, sem sóknaraðili hefur fært fram í því sambandi, nægja honum þó ekki til að sýna fram á að umrætt fjárframlag varnaraðila hafi, þrátt fyrir heiti og efni skuldaviðurkenningar Teppalands hf. 5. október 1996 og færslur um þessar ráðstafanir í bókhaldi félagsins, í raun verið greiðsla vegna hlutafjáraukningar, sem ekki hafi verið tilkynnt hlutafélagaskrá. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdómara um að viðurkennd verði krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila að fjárhæð samtals 39.189.930 krónur.
Í tryggingarbréfinu, sem Teppaland hf. gaf út til varnaraðila 25. september 1996, var sem fyrr segir meðal annars settur að veði „vörulager sem staðsettur er að Mörkinni 4 eins og hann er á hverjum tíma.“ Slíkt sjálfsvörsluveð var í andstöðu við meginreglu 2. mgr. 4. gr. þágildandi laga nr. 18/1887 um veð. Eins og áður greinir lýsti félagið því að öðru leyti yfir með tryggingarbréfinu að það setti að veði til varnaraðila lausafjármuni að andvirði 21.200.000 krónur, sem væru staðsettir í húsnæði þess að Mörkinni 4 í Reykjavík og tilgreindir á lista, sem fylgdi bréfinu. Á þessum lista, sem að nokkru er áður lýst, voru munir einkenndir með almennu heiti, eftir atvikum nokkrir eða margir saman, án þess að fram kæmi nein frekari lýsing þeirra, sem stuðlað gæti að aðgreiningu þeirra frá öðrum samkynja munum. Í kröfulýsingu varnaraðila 19. júní 1998 var með almennum orðum krafist viðurkenningar á veðrétti hans á grundvelli tryggingarbréfsins, en þess þó í engu getið í hvaða munum hann teldi sig njóta þess réttar, hvort þeir væru í vörslum sóknaraðila eða hvar þeir væru annars niður komnir. Úr þessu hefur varnaraðili ekki bætt á síðari stigum svo viðhlítandi sé. Auk þessa virðast aðilarnir eins og greinir í hinum kærða úrskurði vera á einu máli um að mununum, sem veðsetningin átti að ná til, hafi að verulegu leyti verið ráðstafað eða þeir rýrnað eða farið forgörðum eftir að Teppaland hf. hætti rekstri. Þegar alls þessa er gætt eru engin skilyrði til að taka til greina kröfu varnaraðila um að fyrrgreindri fjárkröfu hans á hendur sóknaraðila verði skipað í réttindaröð sem veðkröfu, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991. Ber því að telja hana meðal almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga.
Að öllu virtu er rétt að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Við gjaldþrotaskipti sóknaraðila, þrotabús TL-Rúllna ehf., er viðurkennd krafa varnaraðila, TV-Fjárfestingarfestingarfélagsins ehf., að fjárhæð 39.189.930 krónur og er henni skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 25. janúar 2002.
Sóknaraðili er TV fjárfestingafélagið ehf., kt. 610765-0179, Ásholti 2, Reykjavík.
Varnaraðili er þrotabú TL-Rúllna ehf., kt. 681091-1069.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að krafa hans að fjárhæð 39.189.930 krónur, eða lægri upphæð að mati réttarins, verði viðurkennd sem veðkrafa skv. 111. gr. laga nr. 21/1991 í þrotabú varnaraðila.
Til vara er þess krafist að krafa sóknaraðila að fjárhæð 39.189.930 krónur, eða lægri upphæð að mati réttarins, verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 í sama þrotabú.
Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðila verði tildæmdur málskostnaður úr hendi varnaraðila samkvæmt mati réttarins.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að aðalkröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að henni verði hafnað.
Þess er krafist að kröfu sóknaraðila í þrotabú varnaraðila að fjárhæð 20.000.000 króna á grundvelli svokallaðrar skuldarviðurkenningar verði hafnað.
Af hálfu varnaraðila er fallist á að sóknaraðili eigi almenna kröfu í þrotabú varnaraðila á grundvelli tilgreindra skuldabréfa, samtals að fjárhæð 19.189.930 krónur, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þess er krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt mati dómsins samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 1. október sl.
I
Málsatvik
Varnaraðili er þrotabú og var úrskurður um skiptin kveðinn upp 8. apríl 1998. Á kröfulýsingarfresti bárust 26 kröfur samtals að fjárhæð 86.999.795 kr., þar af nam lýst veðkrafa sóknaraðila 42.689.930 kr. Með bréfi, dags. 29. júní 1998, tilkynnti skiptastjóri að hann hygðist hafna kröfunni að svo stöddu, sbr. 117. og 119. gr. laga nr. 21/1991, en til stæði að kanna bókhald hins gjaldþrota félags með tilliti til viðskipta þessara aðila. Með bréfi sóknaraðila, dags. 30. júní 1998, var þessari afstöðu mótmælt.
Á skiptafundi 7. júlí 1998 var m.a. bókað að þeir sem mótmælt höfðu afstöðu skiptastjóra fengju frest til 15. ágúst til að koma að frekari gögnum. Jafnframt var tekið fram að þrotabúið hygðist líta fram hjá svonefndum veðsamningi við sóknaraðila sem hefði verið ólöglegur að mati skiptastjóra.
Ekki var tekin formleg afstaða til kröfu sóknaraðila að svo komnu af hálfu skiptastjóra, en leitast var við að afla gagna sem þurfti til að staðreyna fullyrðingar um kröfu hans. Með bréfi sóknaraðila, dags. 25. september 2000, var þess krafist að skiptastjóri tæki formlega afstöðu til kröfunnar. Með bréfi skiptastjóra, dags. 18. október 2000, var sóknaraðila gefinn kostur á að koma að fleiri gögnum til stuðnings lýstri kröfu. Með bréfi sóknaraðila, dags. 25. október 2000, voru skiptastjóra send gögn til stuðnings kröfu um lánveitingu samkvæmt 1. lið kröfulýsingar.
Á skiptafundi 3. nóvember 2000 tók skiptastjóri sér tveggja vikna frest til að fara yfir gögnin og taka endanlega afstöðu til kröfunnar. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2000, var sóknaraðila kynnt sú afstaða skiptastjóra að hafna lýstum kröfum sóknaraðila. Þeirri afstöðu mótmælti sóknaraðili með símbréfi 27. nóvember 2000 og lagði til að ágreiningsefninu yrði vísað til héraðsdóms í samræmi við ákvæði 2. mgr. 120. gr. nr. 21/1991. Þau mótmæli voru ítrekuð 12. desember 2000. Það var svo ekki fyrr en á skiptafundi sem haldinn var 25. október 2001 sem tekin var endanleg afstaða til lýstrar kröfu sóknaraðila. Kröfu um endurgreiðslu að fjárhæð 20.000.000 kr. var hafnað með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram voru sett í bréfi skiptastjóra, dags. 17. nóvember 2000. Viðurkennd var krafa vegna skuldabréfa sem almenn krafa að fjárhæð 19.189.930 kr. Með bréfi sóknaraðila, dags. 26. október 2001, voru settar fram athugasemdir við afgreiðslu kröfulýsingarinnar í meðförum skiptastjóra.
Með beiðni, dags. 13. desember 2001, var ágreiningsefnið um kröfulýsingu sóknaraðila sent héraðsdómi til úrlausnar.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Krafa sóknaraðila sé samkvæmt kröfulýsingu frá 19. júní 1998 og eins og þar sé lýst sé hún tilkomin, annars vegar vegna skuldaviðurkenningar frá 5. október 1996, og hins vegar vegna fjögurra skuldabréfa sem séu öll útgefin á tímabilinu nóvember 1996 til febrúar 1997. Samtals nemi höfuðstóll kröfunnar 42.689.930 krónur en á skiptafundi þann 3. nóvember 2000 hafi höfuðstóll kröfunnar verið lækkaður um 3.500.000 krónur vegna skuldajöfnunar sem fram hafi farið þann 16. janúar 1997. Krafa sóknaraðila samkvæmt kröfulýsingunni sé því nú 39.189.930 krónur.
Varnaraðili hafi samþykkt skuldajöfnuðinn.
Krafa á grundvelli skuldaviðurkenningar:
Krafa sóknaraðila á grundvelli skuldaviðurkenningar frá 5. október 1996 sé vegna lána sóknaraðila til hins gjaldþrota félags.
Með bréfi sínu þann 17. nóvember 2000 hafi skiptastjóri loks tekið formlega afstöðu til kröfu sóknaraðila á grundvelli umræddrar skuldaviðurkenningar og hafnað henni. Í bréfinu komist hann að þeirri niðurstöðu framlag að fjárhæð 20.000.000 króna, sem ekki væri lengur hægt að draga í efa að hafi verið innt af hendi, hafi verið hlutafé en ekki lán. Sóknaraðili hafi mótmælt afstöðunni þann 27. nóvember s.á. og hafi lagt til að ágreiningsefnið yrði útkljáð í samræmi við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga. Mótmælin hafi verið ítrekuð þann 12. desember s.á. Ekkert hafi þó gerst í málinu fyrr en á skiptafundi þann 25. október 2001 þar sem skiptastjóri hafi endurtekið fyrri afstöðu sína um höfnun.
Skiptastjórinn kveðst í rökstuðningi sínum vísa einkum til ummæla stjórnarmanns hins gjaldþrota félags. Afstöðu skiptastjóra um höfnun kröfunnar sé mótmælt og enn fremur sé málflutningi varnaraðila sem fram komi í umræddu bréfi harðlega mótmælt sem röngum og villandi, og vísist um það til eftirfarandi atriða:
Viðurkennt sé að sóknaraðili greiddi 20.000.000 króna til varnaraðila á tímabilinu 26. september 1996 til 3. október 1996. Af því tilefni hafi verið útbúin skuldaviðurkenning þann 5. október 1996 og tryggingarbréf þann 25. september 1996 sem varnaraðili hafi ekki hnekkt og séu því í fullu gildi.
Endurskoðandi sóknaraðila, sem sé jafnframt fyrrverandi endurskoðandi varnaraðila, hafi staðfest í yfirlýsingu sinni þann 2. nóvember 2000 að um lán hafi verið um að ræða. Um þetta er vísað til framlagðra skjala úr bókhaldi hins gjaldþrota félags sem hafi verið aðgengilegt fyrir varnaraðila frá upphafi skipta.
Framangreind skjöl, sem fylgdu greindri yfirlýsingu, sýni og sanni að umrætt lán hafi verið veitt og efni skuldaviðurkenningarinnar réttmætt.
Rétt sé að benda á að á þeim tíma sem yfirlýsingin hafi verið gefin út hafi aðeins verið ágreiningur á milli aðila um hvort að fjármunirnir hefðu verið greiddir til varnaraðila eður ei, sbr. fundargerð skiptafundar þann 3. nóvember 2000, en ekki hvort um lán eða hlutafé hafi verið um að ræða.
Lánið sé fært til bókar í ársreikningum hins gjaldþrota félags, sbr. fyrrnefnda yfirlýsingu endurskoðandans.
Í skýrslutöku þann 22. apríl 1998 hafi stjórnarmaðurinn Smári Hilmarsson komist þannig að orði: "Við yfirtöku félagsins lagði kaupandinn, Timburvinnslan (nú TV fjárfestingar ehf.) fram fé og fékk veð í vörulager til tryggingar skilvísri endurgreiðslu á inngreiddu fé. Hlutafé var ekki hækkað í þessu sambandi heldur var um að ræða lán til félagsins til að unnt væri að halda rekstri áfram". Skýrslutaka þessi sé ekki lögð fram af hálfu varnaraðila, sem sé ekki í samræmi við 171. gr. laga nr. 21/1991. Ummæli í kröfu sama aðila um gjaldþrotaskipti frá 18. mars 1998 beri að skýra í ljósi þessarar yfirlýsingar.
Í skýrslutöku þann 18. nóvember 1998 endurtaki stjórnarmaðurinn mál sitt varðandi umrædda fjármuni, þar segi hann: "Mætti telur að þetta hafi ekki verið nýtt hlutafé og þess vegna ekki tilkynnt sem slíkt".
Síðari ummæli hans á sömu blaðsíðu í sömu skýrslu, þau sem varnaraðili byggi aðallega á, verði að túlka í réttu samhengi. Á þessu stigi skýrslutökunnar sé búið að fjalla um skuldaviðurkenninguna og komið að því að fjalla um önnur lán sem hið gjaldþrota félag hafi tekið og Húsasmiðjan hf. og sóknaraðili gengist í ábyrgð fyrir. Það séu þau fjögur lán sem séu upptalin í kröfulýsingu sóknaraðila. Svar mætta við sjöttu spurningu skiptastjórans sé um að hið gjaldþrota félag hafi ekki tekið önnur lán hjá Húsasmiðjunni hf. eða sóknaraðila. Að halda öðru fram sé augljóslega útúrsnúningur miðað við fyrri yfirlýsingar stjórnarmannsins og upplýsingar sem hann hafði veitt skiptastjóra varnaraðila á þessum tíma. Skiptastjórinn sjái ekki ástæðu til þess að spyrja stjórnarmanninn frekar út í þetta við skýrslutökuna sem bendi til þess að hann hafi þá skilið málið á sama veg og sóknaraðili. Það sé ekki fyrr en með bréfi sínu þann 17. nóvember 2000 sem núverandi skilningur hans komi fram.
Ummæli stjórnarmannsins um að "Í raun megi segja að peningarnir hafi farið inn í því skyni að efla traust birgja og nauðsynlegt að koma félaginu á lappir," séu í samræmi við tilgang lánsins.
Engu breyti hér um þó að ekki hafi verið skráður tilgangur sóknaraðila í samþykktum félagsins að lána fé. Slík ákvæði í samþykktum lúti eingöngu að réttindum hluthafa og breyti ekki gildi eða eðli umræddra löggerninga. Réttir aðilar hafi komið fram fyrir hönd beggja aðila þegar lánin hafi verið veitt, því séu löggerningarnir gildir. Til samræmis við umrædd lán hafi tilgangi sóknaraðila verið breytt í nóvember 1996.
Að framansögðu sé gerð krafa um að krafa sóknaraðila, sem byggi á umræddri skuldaviðurkenningu, verði tekin til greina við gjaldþrotaskiptin. Um frekari rökstuðning fyrir eðli og réttarstöðu kröfunnar sé vísað til umfjöllunar hér á eftir sem sé jafnframt rökstuðningur fyrir því að krafa sóknaraðila vegna fjögurra skuldabréfa skuli viðurkennd sem veðkrafa.
Krafa vegna fjögurra skuldabréfa:
Krafan sé að höfuðstól 22.689.930 krónur og byggi á fjórum skuldabréfum sem sé lýst í kröfulýsingu sóknaraðila, dags. 19. júní 1998.
Skiptastjóri varnaraðila hafi ekki tekið endanlega afstöðu til kröfunnar fyrr en með bréfi þann 17. nóvember 2000, þar sem kröfunni hafi verið hafnað. Sóknaraðili hafi mótmælt afstöðunni þann 27. nóvember s.á. og hafi lagt til að ágreiningsefnið yrði útkljáð í samræmi við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga. Mótmælin hafi verið ítrekuð þann 12. desember s.á. Ekkert hafi þó gerst í málinu fyrr en á skiptafundi þann 25. október 2001 þar sem skiptastjóri hafi breytt afstöðu sinni á þann veg að hann hafi samþykkt kröfuna sem almenna kröfu en hafi hafnað henni sem veðkröfu.
Fundargerð skiptastjóra og bréf skiptastjóra frá 17. nóvember 2000 hafi að geyma skýringar skiptastjóra fyrir því að hafna alfarið kröfunni í byrjun en samþykkja hana síðan sem almenna kröfu. Sóknaraðili hafi lítinn skilning á þeim útlistunum en hafi þó ávallt talið fráleitt að hafna skuldabréfakröfu þar sem lögð séu fram frumrit bréfa ásamt sönnunargögnum um greiðslu þeirra. Það skipti e.t.v. ekki máli lengur, skiptastjórinn hafi samþykkt kröfu sóknaraðila að upphæð 19.189.903 krónur sem almenna kröfu.
Um veðréttindi:
Sóknaraðili kveðst hafa lýst kröfu sinni sem veðkröfu skv. 111. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 og krefst þess að hún verði viðurkennd sem slík. Sóknaraðili byggi veðréttindi sín á veðtryggingarbréfi sem hafi verið gefið út þann 25. september 1996.
Af bréfi skiptastjóra þann 17. nóvember 2000 megi ráða að skiptastjóri telji sig hafa hafnað veðréttindum sóknaraðila á skiptafundi þann 7. júlí 1998. Þessu sé alfarið hafnað af hálfu sóknaraðila. Í fundargerð skiptafundarins standi orðrétt: "Skiptastjóri kynnti þá ákvörðun sína um að tilkynna TV-fjárfestingum hf. að þrotabúið hygðist líta framhjá svonefnum veðsamningi en sá samningur hefði að mati skiptastjóra verið ólöglegur þegar til hans var stofnað. Engar athugasemdir komu fram vegna þessarar ákvörðunar ".
Samkvæmt orðanna hljóðan þýði þessi bókun ekki að skiptastjóri hafi tilkynnt sóknaraðila eitt eða neitt á fundinum heldur að hann hafi tekið ákvörðun um að gera það. Enginn tilkynning hafi hins vegar borist sóknaraðila þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hans til varnaraðila að taka formlega afstöðu til kröfunnar.
Í bréfi sínu frá 17. nóvember 2000 víki varnaraðili frá réttu orðalagi úr bókun skiptafundar. Þar segist hann hafa "kynnt þá afstöðu sína að litið yrði fram hjá veðsamningi þar sem hann hafi verið ólöglegur þegar til hans var stofnað". Þá haldi varnaraðili því einnig fram í bréfinu að afstaðan hafi verið "sérstaklega kynnt" umboðsmanni sóknaraðila.
Hér sé um rangfærslur að ræða og sé þessum málatilbúnaði alfarið hafnað af hálfu sóknaraðila. Eins og áður sagði hafi skiptastjóri kynnt varnaraðila einungis fyrir fundarmönnum þá ákvörðun sína að hann ætlaði að senda sóknaraðila tilkynningu ákveðins efnis. Umboðsmaður sóknaraðila, sem hafi verið viðstaddur fundinn, hafi ekki talið nein rök til þess að mótmæla slíkum áformum enda hafði hann fyrir skiptafundinn mótmælt með skýrum hætti afstöðu skiptastjórans um að hafna kröfunni að svo stöddu.
Útilokað sé að álykta að framangreind fundargerð hafi í för með sér réttindaafsal fyrir sóknaraðila eða fráhvarf hans frá fyrri mótmælum hans, sem hafi verið skýr.
Þess utan hafi orðalagið "að líta framhjá veðsamningi" mjög óljósa merkingu og tæpast neina lögfræðilega. Lagaheimild fyrir skiptastjóra eða aðra um að "líta framhjá veðsetningum" sé ekki fyrir hendi þannig að bindandi áhrif geti haft. Engin lög banni veðsetningu þá sem hér um ræði og að mati sóknaraðila sé um lögmætan gerning að ræða. Það megi e.t.v. deila um hvort tilgreining hafi verið nægjanleg varðandi veðsettan vörulager en að því er varði annað lausafé hafi hún verið mjög nákvæm. Í öllu falli sé það ekki á valdi varnaraðila að sniðganga löggerninginn heldur verði hann að bera málið undir dómstóla. Varnaraðili hafi ekki gert neinn reka að því að rifta eða ógilda umræddan veðsamning og þess vegna sé hann gildur.
Ef skiptastjóri varnaraðila telji að hann hafi afgreitt veðkröfu sóknaraðila á skiptafundinum þann 7. júlí 1998 þá sé sú afgreiðsla alls ekki í samræmi við ákvæði gjaldþrotaskiptalaga, sbr. einkum 119. gr. laga. nr. 21/1991, og því ólögmæt í eðli sínu. Kröfulýsing TV fjárfestingafélagsins ehf. hafi byggt á gildum veðrétti og lögformlegum gögnum. Það sé lágmarkskrafa að skiptastjóri taki afstöðu til kröfulýsinga í samræmi við skýlaus lagaákvæði og geri það með nægjanlega skýrum hætti og innan eðlilegra tímamarka.
Varakrafa
Ef veðréttindi sóknaraðila verði af einhverjum ástæðum ekki talin gild gagnvart varnaraðila sé gerð krafa um að kröfur sóknaraðila verði viðurkenndar sem almennar kröfur, samkvæmt 113. gr. gjaldþrotaskiptalaga, í þrotabúið. Um rökstuðning fyrir því sé vísað til umfjöllunar hér að framan.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili kveðst byggja frávísunarkröfu sína á því að sóknaraðili tilgreini ekki þær eignir sem hann telji standa til tryggingar meintum kröfum sínum. Sé það ekki nema von því að varnaraðili eigi engar eignir. Þær eignir sem sóknaraðili hafi viljað tryggja sig með á sínum tíma hafi farið forgörðum gagnvart varnaraðila með því að sóknaraðili sjálfur og Húsasmiðjan hf., systurfélag sóknaraðila, hafi slegið eign sinni á öll verðmæti. Sóknaraðila hafi verið ljós afstaða skiptastjóra frá 18. nóvember 1998 og hafi því verið sérstakt tilefni til þess í greinargerð að geta um þær eignir sem veðrétturinn hafi átt að ná til. Varnaraðili byggi á því að ógerlegt sé að dæma um veðrétt í eignum sem ekki séu til staðar og því beri að vísa þessum kröfulið frá dómi. Til vara sé þess krafist að þessi sjónarmið leiði til sýknu um réttarstöðu kröfunnar.
Varnaraðili hafi fallist á að sóknaraðili eigi almenna kröfu í þrotabú varnaraðila vegna þess fjár sem sóknaraðili hafi þurft að inna af hendi vegna ábyrgða sinna á skuldabréfum hjá Íslandsbanka hf.
Um aðrar kröfur sóknaraðila sé það hins vegar mat varnaraðila að hér hafi ekki verið um lán að ræða, eins og sóknaraðili haldi ítrekað fram, heldur hafi framlag sóknaraðila verið í formi áhættufjár sem borið hafi að fara með samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög sem innborgað hlutafé en hafi ekki getað fengið lýsta réttarstöðu í samræmi við kröfur sóknaraðila. Sé byggt á því að það hafi verið yfirlýstur tilgangur með fjárframlaginu að leggja fjármuni til varnaraðila með það að leiðarljósi að rétta við hag hans. Þá hafi framlagt fé verið lagt fram til að efla traust birgja en lántaka hafi ekki getað uppfyllt þessi sjónarmið, hefði reyndar mátt kalla það fjársvik ef svo hefði verið. Þá sé byggt á því að sóknaraðili hafði það ekki samkvæmt skráðum tilgangi að lána fé og hafi honum því ekki verið það heimilt, sbr. meginreglur félagaréttarins þar um. Að lokum sé vísað til þess að framlagt fé hafi ekki gengið til hagsbóta fyrir varnaraðila heldur fyrir sóknaraðila og systurfélag hans, Húsasmiðjuna hf. Sé um þessi sjónarmið vísað til bréfs skiptastjóra til sóknaraðila, dags. 17. nóvember 2000.
Til stuðnings þessum sjónarmiðum sé vísað til nýrra gagna sem skiptastjóri hafi nýlega fengið í hendur. Þar komi fram sjónarmið Jóns Snorrasonar, sem staðið hafi að kaupum sóknaraðila á hlutabréfum í varnaraðila, um hvað þyrfti ef af kaupum yrði. Þá hafi reyndar verið fjallað um kaup á hlut í varnaraðila en samningar hafi endað með því að sóknaraðili hafi keypt alla hluti í varnaraðila og hafi hann því notið stöðu dótturfélags sóknaraðila. Jón hafi talið að auka þyrfti hlutafé í varnaraðila og það hafi sóknaraðili gert undir heitinu "skuldarviðurkenning".
Ljóst sé að með þessu framlagi og þeirri fyrirætlan að veðsetja allar eigur félagsins hafi ekki annað staðið til en að hirða allar eigur félagsins yfir til sóknaraðila eða Húsasmiðjunnar hf. Varnaraðili byggi kröfur sínar á því að líta verði fram hjá heiti slíkra gerninga og leggja til grundvallar hvað raunverulega hafi átt sér stað.
Að gefnu tilefni sé rétt að víkja að starfsskyldum skiptastjóra í þrotabúum. Þannig beri skiptastjóra tafarlaust að gera skrá um framkomnar kröfur, sbr. 119. gr. laga nr. 21/1991, þar sem hann láti í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu um sig. Skiptastjóra sé þó óskylt að taka afstöðu tiI kröfu ef telja megi fullvíst að ekki geti komið til greiðslu hennar að neinu leyti við skiptin.
Það hafi verið mat varnaraðila að meðan bókhaldsrannsókn hafi ekki leitt í ljós með óyggjandi hætti að til væru eignir í þrotabúinu í formi krafna á hendur sóknaraðila og Húsasmiðjunni hf. væri út af fyrir sig ekki tilefni til að stofna til kostnaðar vegna þess ágreinings sem hér sé til umfjöllunar. Á haustdögum 2000 hafi svo verið komið að skiptastjóri hafi talið verulegar líkur á að eignir yrðu í búinu og því hafi hann hafist handa við að koma ágreiningi um kröfu sóknaraðila í réttan farveg. Hann hafi afráðið hins vegar í upphafi árs 2001 að bíða lokaskýrslu endurskoðanda um þetta efni en hún hafi legið fyrir í apríl 2001. Í greinargerð sóknaraðila sé vikið að þessum drætti en óljóst sé hvaða þýðingu hann eigi að hafa.
Um málsástæður sé að öðru leyti vísað til áður framkominna sjónarmiða varnaraðila, einkum í bréfi, dags. 17. nóvember 2000.
IV
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti skal skiptastjóri beina ágreiningi um viðurkenningu lýstrar kröfu, sem ekki hefur tekist að leysa á skiptafundi, til héraðsdóms eftir 171. gr. laganna. Það gerði skiptastjóri í þb. varnaraðila með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 10. nóvember sl. Um málsmeðferð fyrir héraðsdómi fer eftir ákvæðum XXIV. kafla laga 21/1991. Komi fram krafa af hendi varnaraðila um frávísun málsins skal með hana farið eftir almennum reglum um meðferð einkamála.
Varnaraðili krefst þess að aðalkröfu sóknaraðila um viðurkenningu á veðkröfu að fjárhæð 39.189.930 kr. verði vísað frá dómi. Er sú krafa á því byggð að sóknaraðili tilgreini ekki þær eignir sem hann telji standa til tryggingar kröfum sínum. Í framlögðu veðtryggingarbréfi, dags. 25. september 1996, sem sóknaraðili byggir veðkröfu sína á, er um allsherjarveð að ræða þar sem veðsett er með 1. veðrétti tilgreint lausafé samkvæmt meðfylgjandi lista, svo og allur vörulager félagsins. Sóknaraðili á rétt á því að fá úr því skorið efnislega hvort krafa hans verði viðurkennd sem veðkrafa í búinu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Verður því að hafna kröfu varnaraðila um frávísun þeirrar kröfu.
Varnaraðili krefst þess til vara að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað. Er sú krafa byggð á sömu sjónarmiðum og fyrr getur um frávísun hennar. Við úrlausn þar um kemur fyrst til álita réttmæti umdeildrar kröfu sóknaraðila að fjárhæð 20.000.000 kr. Óumdeilt er að sóknaraðili hafi lagt varnaraðila til þá fjárhæð, en deilt er um hvort það hafi verið lánveiting eða hlutafjárframlag. Fyrir liggur í málinu skuldaviðurkenning þeirrar kröfu, dags. 5. október 1996. Þá hefur stjórnarformaður TL-rúllna ehf., Smári Hilmarsson, greint frá því í skýrslutöku hjá skiptastjóra að hlutafé félagsins hafi ekki verið hækkað vegna þessa, heldur hafi verið um að ræða lán til félagsins til að unnt væri að halda rekstri áfram. Þá hefur Sigurður M. Jónsson löggiltur endurskoðandi staðfest með yfirlýsingu, dags. 2. nóvember 2000, að um lánveitingu hafi verið að ræða og að lánið hafi verið fært til bókar í bókhaldi Teppalands ehf. og komi fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 1996. Varnaraðili þykir ekki hafa sýnt fram á eða gert sennilegt að um framlag í formi hlutafjár hafi verið að ræða. Ber því að viðurkenna kröfu sóknaraðila að fjárhæð 20.000.000 kr. samkvæmt skuldaviðurkenningu dags. 5. október 1996. Þá liggur fyrir að viðurkennd hefur verið krafa sóknaraðila að fjárhæð 19.189.930 kr. sem almenn krafa í þrotabú varnaraðila.
Sóknaraðili gerir kröfu til þess að heildarkrafa hans í þrotabú varnaraðila að fjárhæð 39.189.930 kr. verði viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hefur andmælt því og vísar til þeirrar afstöðu skiptastjóra á skiptafundi 7. júlí 1998 að litið yrði fram hjá veðsamningi þar sem hann hefði verið ólöglegur frá upphafi. Engin rök voru bókuð fyrir þessari afstöðu skiptastjóra á fundinum og af hálfu sóknaraðila var ekki litið svo á að þar með hefði í eitt skipti fyrir öll verið kveðið á um réttarstöðu lýstrar kröfu. Hefur sóknaraðili og oft síðar andmælt þessari afgreiðslu um stöðu kröfunnar. Verður því talið að þegar endanleg afstaða til lýstrar kröfu sóknaraðila lá fyrir á skiptafundi 25. október 2001 hafi einnig verið óútkljáð hvort um veðkröfu eða almenna kröfu væri að ræða.
Sóknaraðili byggir veðkröfu sína á framlögðu veðtryggingarbréfi að höfuðstólsfjárhæð 40.000.000 kr., dags. 25. september 1996, þar sem veðsett er með 1. veðrétti tilgreint lausafé samkvæmt meðfylgjandi lista að verðmati kr. 21.200.000, sem staðsett er í húsnæði Teppalands hf. að Mörkinni 4, Reykjavík, svo og allur vörulager félagsins að Mörkinni 4, eins og hann er á hverjum tíma. Fyrir liggur samkvæmt gögnum máls að hinu veðsetta hefur að verulegu leyti verið ráðstafað, það hefur rýrnað eða farið forgörðum eftir að rekstri Teppalands hf. var hætt á árinu 1997. Þegar krafa um gjaldþrotaskipti félagsins var sett fram í mars 1998 var tekið fram að áætlað verðmæti vörulagers væri að fjárhæð 3.000.000 kr. og að lagerinn væri veðsettur. Samkvæmt kröfulýsingu Húsasmiðjunnar hf., dags. 13. desember 2000, vegna geymslu á lagervörum þrotabúsins var verðmæti lagers áætlað 1.340.000 til 1.370.000 kr. Verður því að telja að einhver verðmæti kunni enn að vera til staðar sem veðréttur sóknaraðila samkvæmt greindu veðtryggingarbréfi tekur til. Verður því fallist á að um veðkröfu sé að ræða.
Samkvæmt framansögðu er viðurkennd krafa sóknaraðila að fjárhæð 39.189.930 krónur sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 í þrotabú varnaraðila.
Varnaraðili skal greiða sóknaraðila 180.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Hafnað er kröfu varnaraðila um frávísun aðalkröfu sóknaraðila.
Viðurkennd er krafa sóknaraðila, TV fjárfestingafélagsins ehf., að fjárhæð 39.189.930 krónur sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þrotabús TL-rúllna ehf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 180.000 krónur í málskostnað.