Hæstiréttur íslands
Mál nr. 138/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Svipting ökuréttar
- Ölvunarakstur
- Dómvenja
|
|
Fimmtudaginn 30. maí 2002. |
|
Nr. 138/2002. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Steina Þorvaldssyni (Sigurður Jónsson hrl.) |
Bifreiðir. Svipting ökuréttar. Ölvunarakstur. Dómvenja.
S var ákærður fyrir ölvunarakstur eftir að lögregla hafði stöðvað hann við akstur með 2,24 áfengismagn í blóði. Af hálfu ákæruvalds var honum gefinn kostur á að ljúka málinu með viðurlagaákvörðun samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara til allra lögreglustjóra um sáttaboð ákærenda við viðurlagaákvarðanir í ölvunarakstursmálum. S hafnaði því boði og taldi viðurlög samkvæmt því of þung og í ósamræmi við langa dómvenju um sviptingu ökuréttar vegna sambærilegra brota. Héraðsdómur dæmdi S til ökuleyfissviptingar í eitt ár, í samræmi við dómvenju. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu í því skyni að freista þess að fá þessari dómvenju breytt. Hæstiréttur taldi að ekki kæmi fram í lögum nr. 57/1997 um breytingu á umferðarlögum, eða lögskýringargögnum með þeim, að mat löggjafans varðandi sviptingu ökuréttar vegna ölvunarakstursbrota hafi breyst. Dómstólar hafi miðað við lágmarks ökuréttarsviptingu, eitt ár, í tilvikum sem þeim er um ræddi í málinu, þ.e. þegar um sé að ræða fyrsta brot ökumanns, vínandamagn í blóði sé yfir 1,20 og ekki brotin önnur ákvæði laga eða aðstæður að öðru leyti sérstaklega alvarlegar. Hafi þá ekki skipt máli hversu mikið yfir mörkunum vínandamagnið hafi verið. Löggjafinn hafi hins vegar tengt lengri sviptingu ökuréttar ítrekuðum brotum og komið hafi til frekari ökuréttarsviptingar við endurtekin brot. Þótti ríkissaksóknari ekki hafa sýnt fram á að efni væru til þess að óbreyttum lögum að hverfa frá fordæmum um ökuréttarsviptingu, sem farið hafi verið eftir frá setningu umferðarlaga 1987 og lengur. Var því niðurstaða héraðsdóms um eins árs ökuréttarsviptingu staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 18. mars 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi 15. sama mánaðar. Ákæruvaldið krefst þess að sviptingartími ökuréttar ákærða verði lengdur frá því sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
I.
Atvik málsins eru þau að föstudaginn 31. ágúst 2001, klukkan 22.48, stöðvuðu lögreglumenn við eftirlitsstörf akstur ákærða í Hraunbæ við Bæjarbraut. Ákærði var að koma úr Kópavogi og var einn í bifreiðinni. Hann framvísaði ökuskírteini að ósk lögreglumanna, en þar sem mikinn áfengisþef lagði frá vitum hans var hann handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Hefur hann játað sekt sína og er ekki um það deilt að brot hans sé réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru. Áfengismagn í blóði hans mældist 2,24.
Ákærði er fæddur í nóvember 1948 og hefur ekki sætt refsingu utan sektar vegna umferðalagabrots árið 1967, sem ekki skiptir hér máli. Af hálfu ákæruvalds var honum gefinn kostur á að ljúka málinu með viðurlagaákvörðun samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara til allra lögreglustjóra frá 5. nóvember 2001 um sáttaboð ákærenda við viðurlagaákvarðanir í ölvunarakstursmálum. Var honum boðið að greiða 130.000 króna sekt í ríkissjóð og sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár. Ákærði hafnaði þessu boði og taldi viðurlög samkvæmt því of þung. Sakarferill hans gæfi ekki tilefni til þeirra og einnig væru þau í ósamræmi við langa dómvenju um sviptingu ökuréttar vegna sambærilegra brota. Héraðsdómur er reistur á því að dómvenja sé að svipta mann ökuleyfi í eitt ár fyrir brot sem þetta. Eru brigður ekki á það bornar af ríkissaksóknara. Með málskoti hans til Hæstaréttar freistar hann þess að fá þessari dómvenju breytt.
II.
Með lögum nr. 57/1997 var umferðarlögum nr. 50/1987 breytt á þann hátt, að við 100. gr. þeirra var bætt þremur nýjum málsgreinum, sem urðu 4. 6. mgr. hennar. Að auki var bætt nýrri málsgrein í 101. gr., er laut að sviptingu ökuréttar samkvæmt svonefndu punktakerfi vegna ítrekaðra brota á umferðarlögum. Punktakerfið átti að tengja ökuferilsskrá og í athugasemdum með lögunum var sagt að tilgangur þessa nýja ákvæðis væri sá að heimila sviptingu ökuréttar við síendurtekin brot þótt þau teldust ekki stórfelld. Hins vegar var ekki hróflað við 1. mgr. 101. gr. eða 103. gr. laganna, sem lúta að sviptingu ökuréttar, eða hefur það verið gert síðar svo að hér skipti máli.
Í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga er dómsmálaráðherra, eftir áðurgreindar breytingar, heimilað að fengum tillögum ríkissaksóknara að ákveða í reglugerð sektir allt að 100.000 krónum. Gildir nú um þetta efni reglugerð nr. 575/2001 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim. Reglugerðinni fylgir viðauki, sem er skrá yfir sektir og önnur viðurlög. Kemur slík skrá í staðinn fyrir leiðbeiningar ríkissaksóknara, sem lögregluyfirvöld fóru áður eftir við beitingu heimilda sinna til ákvörðunar sekta og annarra viðurlaga samkvæmt 115. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skrá þessi hefur meðal annars að geyma töflu yfir stighækkandi sektir og ökuleyfissviptingu eftir vínandamagni vegna brota á 1., sbr. 2. mgr., 45. gr. umferðarlaga, sem á við sé vínandamagn í blóði ökumanns 0,50 1,20, en þá telst hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega. Erlendar vísindarannsóknir, sem ríkissaksóknari hefur lagt fram, benda til þess að eftir að vínandamagn ökumanns í blóði hefur náð 0,50 markinu aukist hættan á því að hann valdi slysum margfalt með auknu áfengismagni í blóði ökumanns í að minnsta kosti 1,50. Eftir að því marki er náð eru ekki samkvæmt þessum gögnum fyrir hendi nægar rannsóknir á þessu, svo að óyggjandi niðurstöður verði á þeim byggðar. Samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga telst sá ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki, sem hefur 1,20 vínandamagn í blóði eða meira.
Ríkissaksóknari sendi samkvæmt heimild í 2. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála bréf til allra lögreglustjóra 5. nóvember 2001 um sáttaboð ákærenda samkvæmt 1. mgr. 124. gr. sömu laga við viðurlagaákvarðanir í ölvunarakstursmálum. Í bréfinu segir að það sé ritað í tilefni breytinga, sem felist í reglugerð nr. 575/2001, hækkun sekta og takmörkun á heimild til að ljúka málum með lögreglustjórasátt. Fram kemur að sakborningi skuli gefinn kostur á að ljúka máli varðandi fyrsta brot sé vínandamagn í blóði hans 1,51 - 2 með 130.000 króna sekt og 18 mánaða ökuréttarsviptingu. Sé vínandamagn í blóði hans 2,01 eða meira skuli bjóða sömu sekt og ökuréttarsviptingu í 2 ár, en svo hagaði til með ákærða eins og áður er rakið.
III.
Í héraðsdómi er getið um mikinn fjölda umferðarlagabrota, þar á meðal ölvunarakstursbrota, og þá miklu hættu sem er þessum brotum samfara, sérstaklega þeim síðast töldu. Þar er einnig nefnd sú þörf sem hefur skapast til þess að staðla þau viðurlög sem beitt er við slík brot. Eðlilegt verður að telja þegar svona háttar til að ákæruvald og lögregla vinni samkvæmt föstum og stöðluðum skrám til að gæta samræmis og jafnræðis við ákvarðanir sínar, enda samrýmist þær umferðarlögum. Hins vegar leiðir það af ákvæði 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að dómstólar verða ekki bundnir við þannig skrár og ber þeim, þegar málum af þessu tagi er skotið til þeirra, að meta viðurlög sjálfstætt á grundvelli umferðarlaga, og má þá meðal annars líta til ákvarðana lögregluyfirvalda á þessu sviði og leiðbeininga ríkissaksóknara.
Í lögum nr. 57/1997, athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga eða öðrum lögskýringargögnum kemur ekki fram að mat löggjafans varðandi sviptingu ökuréttar vegna ölvunarakstursbrota hafi breyst, að því er hér skiptir máli, frá setningu umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laganna var lágmarks ökuréttarsvipting þá ákveðin eitt ár væri brotið gegn 1., sbr. 3. mgr., 45. gr. þeirra, en undir það ákvæði heyrir akstur sé vínandamagn í blóði ökumanns 1,20 eða meira og telst hann þá óhæfur til að stjórna ökutæki, svo sem að framan greinir. Hafa dómstólar miðað ökuréttarsviptingu við þetta lágmark sé um að ræða fyrsta brot ökumanns, vínandamagn í blóði yfir þessum mörkum og ekki brotin önnur ákvæði laga eða aðstæður að öðru leyti sérstaklega alvarlegar. Hefur þá ekki skipt máli hversu mikið yfir mörkunum vínandamagnið hefur verið. Löggjafinn hefur hins vegar, sbr. 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga, tengt lengri sviptingu ökuréttar ítrekuðum brotum og breytingin á 101. gr. laganna 1997 laut einnig að slíkri tengingu. Hefur því komið til frekari ökuréttarsviptingar við endurtekin brot.
Ákærði átti að baki margra ára áfallalausan feril sem ökumaður, þegar hann framdi brot sitt. Það eitt og sér var vissulega alvarlegt og hann skapaði með því mikla hættu. Þegar litið er til alls framanskráðs, og þess að ekki var um önnur brot á lögum að ræða, þykir ríkissaksóknari hins vegar ekki hafa sýnt fram á að efni séu til að óbreyttum lögum að hverfa frá fordæmum um ökuréttarsviptingu, sem farið hefur verið eftir frá setningu umferðarlaga 1987 og lengur. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sviptingu ökuréttar.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um greiðslu sakarkostnaðar, en áfrýjunarkostnaður skal greiðast úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkisjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Sigurðar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 175.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 24. september 2001 á hendur ákærða Steina Þorvaldssyni, kt. 021148-3699, Vallargerði 4, Kópavogi, fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni DS-975, að kvöldi föstudagsins 31. ágúst 2001, undir áhrifum áfengis frá Hallarmúla í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn í Hraunbæ, við Bæjarbraut.
Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.
Af hálfu ákærða er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru. Áfengismagn í blóði hans mældist 2.24.
Ákærði, sem er fæddur í nóvember 1948, hefur ekki sætt refsingu utan sektar vegna umferðarlagabrots árið 1967.
Af hálfu ákæruvalds var ákærða gefinn kostur á að ljúka málinu með viðurlagaákvörðun, í samræmi við fyrirmæli ríkissaksóknara til allra lögreglustjóra um sáttaboð ákærenda við viðurlagaákvarðanir í ölvunarakstursmálum frá 5. nóvember sl., með því að greiða 130.000 króna sekt í ríkissjóð, og sæta sviptingu ökuréttar í tvö ár frá deginum í dag að telja.
Ákærði hefur hafnað þessu boði þar sem hann telur refsingu of þunga og að sakarferill hans gefi ekki tilefni til hennar, hún sé einnig í ósamræmi við langa dómvenju um sviptingu ökuréttar vegna sambærilegra brota, þá vísar ákærði til þess að ákvörðunarvald um refsingu liggi hjá dómstólum og eigi ekki að lúta fyrirmælum ríkissaksóknara.
Sú hætta sem er samfara ölvunarakstursbrotum og öðrum umferðarlagabrotum og mikill fjöldi slíkra brota hefur leitt til þess að nær enginn sveigjanleiki er við mat dómstóla á refsingum fyrir slík brot, eru þær samræmdar og staðlaðar. Að því er refsingar fyrir ölvunarakstur varðar hefur lengi verið miðað við svokölluð efri og neðri mörk, þ.e. við það hvort vínandamagn í blóði er undir eða yfir 1.20. Í fyrra tilvikinu er mál talið varða við 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, en í því síðara við 3. mgr. sömu greinar. Í fyrra tilvikinu hefur sviptingartími við fyrsta brot verið breytilegur í samræmi við áfengismagn í blóði. Í síðara tilvikinu hefur sviptingartími verið eitt ár við fyrsta brot burtséð frá áfengismagni, sem er sú lágmarkssvipting sem lög mæla fyrir um, sbr. 2. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Hafa dómstólar miðað við þetta lágmarksákvæði, allt frá setningu umferðarlaga árið 1987, án tillits til áfengismagns, nema í undantekningartilvikum þegar brot hefur verið sérstaklega alvarlegt eða slys hlotist af akstri. Ljóst má vera að sú hætta sem fylgir ölvunarakstri eykst í hlutfalli við magn áfengis í blóði ökumanns og má færa rök fyrir því að tillaga ríkissaksóknara um að taka mið af því í auknum mæli við ákvörðun refsingar sé eðlileg og skynsamleg. Þrátt fyrir það þykir, í ljósi mótmæla ákærða og vegnar langrar dómvenju, ekki rétt að þyngja svo mjög refsingar fyrir þessi brot án fyrirmæla í lögum eða að undangengnum dómi Hæstaréttar, enda eru hin refsitengdu viðurlög, ökuleyfissviptingin, sá hluti refsingarinnar sem oft reynist dómþola erfiðust.
Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 130.000 króna sekt í ríkissjóð, sem greiða skal innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en ella skal ákærði sæta fangelsi í 24 daga. Þá skal ákærði sæta sviptingu ökuréttar í eitt ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Steini Þorvaldsson, greiði 130.000 króna sekt í ríkissjóð, innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í 24 daga.
Ákærði skal sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað.