Hæstiréttur íslands
Mál nr. 196/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 31. maí 2005. |
|
Nr. 196/2005. |
Sæsmíð ehf. og Guðjón Bjarnason (Baldvin Hafsteinsson hrl.) gegn KB rafverktökum ehf. (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Vitni.
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að K væri heimilt að leiða tvö nafngreind vitni við aðalmeðferð í máli sem K hafði höfðað gegn S og G.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. maí 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2005, þar sem fallist var á að varnaraðila væri heimilt að leiða tvö nafngreind vitni við aðalmeðferð í máli sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðilum. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og synjað verði um heimild varnaraðila til að leiða umrædd vitni fyrir dóm. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sæsmíð ehf. og Guðjón Bjarnason, greiði varnaraðila, KB rafverktökum ehf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2005.
Stefnandi, KB rafverktakar ehf., Dalvegi 26, Kópavogi, höfðaði málið 6. janúar sl. á hendur stefndu, Sæsmíð ehf., Grandagarði 8, og Guðjóni Bjarnasyni, Mýrargötu 26, báðum í Reykjavík, til innheimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi.
Stefnandi byggir málsókn sína á kröfu samkvæmt skuldabréfi sem stefnandi hafði áður framselt Sparisjóði Kópavogs til innheimtu. Samkvæmt skuldabréfinu sé greiðandi þess stefndi Sæsmíð ehf. og stefndi Guðjón Bjarnason beri sjálfskuldarábyrgð. Með framsalinu hafi stefnandi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð og þegar bréfið hafi ekki fengist greitt af stefndu hafi stefnandi leyst það til sín. Stefnandi rekur málið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála
Af hálfu stefndu er því haldið fram að skuldin samkvæmt skuldabréfinu hafi verið gerð upp að fullu eins og fram komi í áritun á það. Skuldabréfið verði því ekki notað sem heimildarskjal til heimtu á kröfu á hendur stefndu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi fengið kröfu á hendur stefndu sérstaklega framselda sér. Stefndu vísi til meginreglna kröfuréttarins um viðskipta- og skuldabréf og framsal kröfuréttinda og 3. mgr. 46. gr. og 17. kafla laga um meðferð einkamála.
Í þinghaldi 18. mars sl. óskaði stefnandi eftir að fá að leiða vitnin Jón Eiríksson og Lilju Guðmundsdóttur fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Því var mótmælt af hálfu stefndu, þar sem það hefði enga þýðingu fyrir málið að leiða vitni að atvikum sem ekki verði leidd af því sem komi fram á viðskiptabréfinu sem stefnandi vísi til.
Stefndi krafðist úrskurðar dómsins um þann ágreining. Úrskurðurinn er kveðinn upp af því tilefni. Báðir málsaðilar krefjast málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Eins og málið liggur fyrir verður að líta svo á að stefnandi hafi í hyggju að leiða framangreind vitni fyrir dóminn í því skyni að færa fram sönnun fyrir því að hann eigi þá kröfu sem málatilbúnaður hans byggir á að hann eigi á hendur stefndu. Í réttarfarslögum koma ekki fram fyrirmæli um takmarkanir sem geta átt við um slíka sönnunarfærslu enda liggur ekki fyrir að hún sé tilgangslaus eða skipti ekki máli fyrir sakarefnið. Reglur um viðskiptabréf, sem vísað er til af hálfu stefndu, leiða heldur ekki til að vitnaleiðslan verði við þessar aðstæður talin bersýnilega óþörf. Verður með vísan til þessa að fallast á kröfu stefnanda þess efnis að hann fái að leiða vitnin fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.
Ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins verður tekin við endanlega úrlausn þess.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Stefnanda, KB rafverktökum ehf., er heimilt að leiða vitnin Jón Eiríksson og Lilju Guðmundsdóttur fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.