Hæstiréttur íslands

Mál nr. 609/2017

Guðrún Valdís Ingimarsdóttir og Raffy Artine Torossian (Lára V. Júlíusdóttir hrl.)
gegn
handhafa veðskuldabréfs (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Ógildingarkrafa
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli sóknaraðila gegn handhafa veðskuldabréfs, til ógildingar á veðskuldabréfinu á grundvelli XVIII. kafla laga nr. 91/1991, var vísað frá dómi án kröfu. Í úrskurði sínum tók héraðsdómur fram að ekki yrði annað ráðið af afriti veðskuldabréfsins en að skuldin samkvæmt því væri enn ógreidd. Þá yrði ekki séð að sóknaraðilar ættu rétt á að fá frumrit bréfsins afhent. Taldi héraðsdómur að ekki stoðaði fyrir sóknaraðila í þeim efnum að vísa til þess að þeir vissu ekki hver handhafi veðskuldabréfsins væri, enda viti skuldari eðli máls samkvæmt ekki hver sé kröfuhafi slíks bréfs nema hann gefi sig fram við skuldara á gjalddaga og sanni handhöfn sína. Hvað aðrar málsástæður og kröfur sóknaraðila varðaði taldi héraðsdómur að þær kæmust ekki að í ógildingarmáli sem rekið væri eftir XVIII. kafla laga nr. 91/1991. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur handhafa veðskuldabréfs var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eðli máls samkvæmt verður kærumálskostnaður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2017.

Þetta mál, sem var dómtekið 5. september sl., er höfðað af Guðrúnu Valdísi Ingimarsdóttur, kt. [...] og Raffy Artine Torossian, kt. [...], báðum til heimilis að Austurströnd 12, Seltjarnarnesi, með stefnu birtri í Lögbirtingablaðinu 1. ágúst sl. til ógildingar á veðskuldabréfi.

Dómkröfur: Stefnandi krefst þess aðallega að ógilt verði með dómi veðskuldabréf, útgefið í Reykjavík 2. ágúst 2016 af Sigurði Hilmari Ólafssyni, kt. [...], f.h. Raffy Artine Torossian, kt. [...], til handhafa, með gjalddaga 1. afborgunar 1. júní 2017, upphaflega að verðmæti 45.000.000 krónur en með föstum 6% ársvöxtum auk vísitölu, tryggt með 1. veðrétti í fasteigninni Austurströnd 12, Seltjarnarnesi, merkt 02-0802 03-B23, fnr. 206-6989, og að stefnendum sé þar með heimilað að ráðstafa því sem skjalið hljóðar um eins og þau hefðu skjalið undir höndum.

Til vara krefjast stefnendur þess að fyrrgreindur 1. veðréttur og uppfærsluréttur í fasteigninni samkvæmt greindu veðskuldabréfi verði ógiltur með dómi og lagt verði fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að aflýsa veðskuldabréfinu úr þinglýsingabók.

Málsatvik: Stefnendur vísa til þess að þau séu eigendur fasteignarinnar að Austurströnd 12, Seltjarnarnesi, en eignin sé skráð á nafn mannsins. Þau hafi nýlega uppgötvað að á fasteigninni, sem þau hafi hingað til talið veðbandalausa, hvíli veðband, nánar tiltekið veðskuldabréf tryggt með 1. veðrétti í fasteigninni, gefið út til handhafa að upphæð 45.000.000 krónur.

Við skoðun á þinglýstum skjölum hafi komið í ljós að Sigurður Hilmar Ólason, kt. 170855-3969, hafi undirritað veðskuldabréfið fyrir hönd stefnanda Raffy þann 2. ágúst 2016. Veðskuldabréfið sé vottað af Eggert H. Garðarssyni og Steinunni Frímannsdóttur. Jafnframt hafi verið þinglýst umboði sem stefnandi Raffy hafi veitt Sigurði 18. september 2015. Umboðið, sem hafi verið á ensku, hafi verið veitt í tengslum við fasteignaviðskipti vegna eigna í London og hafi samkvæmt efni sínu aðeins náð til viðskipta í Bretlandi. Umboðið hafi verið veitt í Bretlandi og samkvæmt breskum rétti en afturkallað með formlegum hætti þann 20. júlí 2016. Hins vegar virðist stefnendum sem að Sigurður hafi, í stað þess að láta af umboðsmennsku sinni, látið þýða umboðið á íslensku og þinglýst því með veðskuldabréfinu.

Lögmaður stefnenda hafi haft samband við fulltrúa í þinglýsingardeild sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og spurst fyrir um hvernig á því stæði að skuldabréfinu hafi verið þinglýst án athugasemda, með vísan til annmarka sem væru bæði á veðskuldabréfi og umboði. Fulltrúi sýslumanns hafi svarað því til að álag á þinglýsingarfulltrúa hafi verið mikið og undirritunin hefði verið með sérstökum hætti. Með bréfi, dags. 25. júlí 2017, hafi stefnendur krafist þess að sýslumaður leiðrétti færslu í fasteignabók fasteignarinnar, með þeim hætti að athugasemd yrði skráð í þinglýsingabók um annmarka á umræddu veðskuldabréfi. Kröfu um leiðréttingu hafi síðan verið þinglýst sama dag.

Málsástæður: Stefnendur byggja kröfur sínar um ógildingu á veðskuldabréfinu í fyrsta lagi á því að það sé glatað eða horfið, í öðru lagi á því að það hafi verið gefið út án heimildar eða umboðs veðhafa en í þriðja lagi á því að veðsetningin hafi verið án skriflegs samþykkis maka, sem þó hafi verið nauðsynlegt þar sem um var að ræða bústað fjölskyldunnar, sbr. 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Stefnendur hafi engar upplýsingar um afdrif skuldabréfsins. Þau viti ekki hver sé handhafi skuldabréfsins þar sem þau hafi aldrei fengið senda greiðsluseðla eða kröfu samkvæmt bréfinu. Sjálft bréfið hafi þau aldrei séð en það stafi augljóslega ekki frá stefnanda Raffy, sbr. t.d. það að nafnið hans sé vitlaust stafsett á skuldabréfinu. Tilraunir þeirra til að fá bréfinu aflýst af fasteign þeirra hafi engan árangur borið. Þar sem ekki sé mögulegt að fá veðskuldabréfið afmáð af fasteign þeirri sem það hvílir á án frumrits þess eða ógildingardóms sé þeim nauðsynlegt að fá bréfið ógilt með dómi. Því sé þeim nauðugur sá kostur að höfða málið á hendur ótilgreindum handhafa skuldabréfsins.

Sigurður Hilmar Ólason hafi ekki haft umboð til að þinglýsa veðskuldabréfi á fasteign stefnenda. Umboð, sem þinglýst sé á fasteignina, nái efni sínu samkvæmt aðeins til eigna í Bretlandi, sbr. orðalag og frágang þess. Stefnendur bendi í fyrsta lagi á umboðið, sem gert sé á ensku, sé ekki vottað með fullnægjandi hætti að íslenskum rétti, sbr. m.a. 22. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, þar sem hún sé ekki vottuð af tveimur óvilhöllum vottum heldur aðeins einum. Þá sé umboðið takmarkað við Bretland skv. efni sínu, sbr. orðalagið „In Respect of My Land“, sem útleggist „Varðandi land mitt“ í íslenskri útgáfu. Með þessu sé umboðið takmarkað við heimaland umbjóðanda, sem sé Bretland, og löggerninga sem þar fari fram. Þá segi í umboðinu að umboðsmaður megi eigna sér og stjórna öllum „freehold and leasehold property“, en þetta hafi verið íslenskað sem „sjálfsréttareignir og leigueignir“. Umboðið nái hins vegar ekki til að þinglýsa veðskuldabréfi á heimili stefnanda Raffy. Loks hafi umboðið verið afturkallað með vottuðum löggerningi í viðurvist lögmanns þann 20. júlí 2016, u.þ.b. tveimur vikum áður en veðskuldabréfið hafi verið fært inn til þinglýsingar. Nefndur Sigurður Hilmar hafi því unnið gerninginn í umboðsleysi.

Stefnandi Guðrún Valdís byggi kröfu um ógildingu skuldabréfsins jafnframt á því að um sé að ræða löggerning sem gerður hafi verið án samþykkis hennar, þótt þess hafi verið þörf. Hún hafi átt lögheimili í hinni veðsettu fasteign þegar skuldabréfið var gefið út. Því geti hún fengið löggerningnum hrundið fyrir dómi, sbr. 60. gr. hjúskaparlaga. Ákvæðið mæli fyrir um að öðru hjóna sé óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda eða veðsetja fasteign sína, þar á meðal sumarbústað, leigja hana eða byggja, ef hún er ætluð til bústaðar fyrir fjölskylduna eða er notuð við atvinnurekstur beggja hjóna eða hins. Stefnandi hafi ekki vitað af veðböndum á fasteigninni fyrr en í júlí 2017, en skjalið var fært til þinglýsingar 5. ágúst 2016. Málshöfðunarfrestur 2. mgr. 65. gr. hjúskaparlaga sé því ekki runninn út.

Framangreinda annmarkar á umboði og veðskuldabréfi hafi átt að leiða til þess að sýslumaður vísaði skjalinu frá þinglýsingu, sbr. 7. gr. þinglýsingalaga. Ljóst hafi verið að útgefanda vottorðsins hafi brostið heimild til þinglýsingar með vísan til þess að umboð hans hafi verið ófullnægjandi og að samþykki maka umbjóðanda hafi skort til þinglýsingar á skuldabréfinu. Þar sem skuldabréfinu hafi allt að einu verið þinglýst sé þeim nauðsynlegt að höfða ógildingarmál þetta til að fá umrætt veðskuldabréf ógilt með dómi, en til vara að fá 1. veðrétt og uppfærslurétt í fasteigninni skv. greindu veðskuldabréfi ógiltan með dómi.

Um sóknaraðild kveðjast stefnendur vísa til reglna um samlagsaðild, sbr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnaraðild kveðjast stefnendur vísa til 120. gr. og 121. gr. sömu laga, en að þeim sé nauðsynlegt að höfða málið með þessum hætti þar sem þeim sé ekki kunnugt um handhafa skuldabréfsins. Um stefnufrest vísa stefnendur til 3. mgr. 91. gr. sömu laga.

                Lagarök: Stefnandi vísar til þess að málið sé höfðað með heimild í 120. og 121. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísar stefnandi til 2. málsl. 2. mgr. 120. gr. sömu laga.

Niðurstaða: Stefna þessa máls var birt í Lögbirtingablaðinu 1. ágúst sl., eða rúmum mánuði fyrir þingfestingardag. Við þingfestingu málsins 5. september sl. mætti enginn sem gerði tilkall til fram­an­greinds veðskuldabréfs eða mótmælti annars ógildingu þess. Samkvæmt 4. mgr. 121. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal þá kveðinn upp ógildingardómur, nema gallar á málatilbúnaði leiði til frávísunar máls.

Stefnendur hafa lagt fram ljósrit veðskuldabréfsins. Ljósritið er ein blaðsíða, en í texta veðskuldabréfsins er þó tekið fram að það sé tvær blaðsíður. Ljósritið ber með sér að veðskuldabréfið sé gefið út af stefnanda Raffy Artine til handhafa, en Sigurður Hilmar Ólason ritar undir bréfið fyrir hönd skuldara. Veðskuldabréfið er að fjárhæð 45 milljónir króna og er lánstími 25 ár og skal greiða eina afborgun á ári 1. júní ár hvert, í fyrsta skipti 1. júní 2017. Veðskuldabréfið er bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við grunnvísitölu 433,7 stig og ber fasta 6% ársvexti sem reiknast frá 1. júní 2016. Engin undirritun er á þeim stað bréfsins þar sem gert er ráð fyrir að maki þinglýsts eiganda undirriti bréfið um samþykki sitt við veðsetningu. Tveir nafngreindir vottar undirrita bréfið og er tekið fram í texta bréfsins að þeir votti rétta dagsetningu, undirritun og yfirlýsingu aðila um fjárræði.

Stefnendur byggja í fyrsta lagi á því að umrætt veðskuldabréf sé glatað og vísa þar til þess að þau hafi aldrei séð bréfið, viti ekki hver sé handhafi þess og hafi aldrei fengið kröfu um greiðslu samkvæmt bréfinu. Það leiðir af almennum reglum um viðskiptabréf að kröfuhafi veðskuldabréfs á einn rétt á því að hafa frumrit bréfsins undir höndum, en ekki skuldari, meðan skuld samkvæmt bréfinu er enn ógreidd, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Ekki verður annað ráðið af veðskuldabréfinu en að skuld samkvæmt því sé enn ekki greidd. Verður því ekki séð að stefnendur eigi nú rétt á að fá frumrit þess afhent, eftir atvikum áritað um fullnaðargreiðslu. Ekki stoðir að vísa til þess að stefnendur viti ekki hver sé handhafi veðskuldabréfsins og hafi ekki fengið kröfu um greiðslu. Eðli málsins samkvæmt veit skuldari handhafaskuldabréfs ekki hver sé kröfuhafi þess nema hann gefi sig fram við skuldarann á gjalddaga og sanni handhöfn sína á bréfinu. Geri kröfuhafi það ekki felur það í sér viðtökudrátt af hans hálfu. Verður aðalkrafa stefnenda því ekki tekin til greina á þessum grundvelli.

Að öðru leyti byggja stefnendur aðalkröfu sína á því að þinglýsingarstjóri hefði með réttu átt að vísa umræddu veðskuldabréfi frá þinglýsingu vegna ófullnægjandi umboðs Sigurðar Hilmars Ólasonar og vegna þess að stefnandi Guðrún Valdís undirritaði ekki bréfið um samþykki sitt við veðsetningu. Slíkar málsástæður komast ekki að í máli sem er rekið eftir XVIII. kafla laga nr. 91/1991, enda er heimild til ógildingar skuldabréfs samkvæmt 1. mgr. 120. gr. laganna bundin við þau tilvik þegar skuldabréf er glatað eða horfið. Verður aðalkröfu stefnenda því vísað frá dómi.

Varakrafa stefnenda er um að 1. veðréttur og uppfærsluréttur í fasteigninni samkvæmt greindu veðskuldabréfi verði ógiltur með dómi og lagt verði fyrir sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að aflýsa veðskuldabréfinu úr þinglýsingabók. Slík krafa kemst ekki að í máli sem er rekið eftir XVIII. kafla laga nr. 91/1991. Verður varakröfu stefnenda því einnig vísað frá dómi.

Ásbjörn Jónasson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu.