Hæstiréttur íslands

Mál nr. 589/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Aðfinnslur


                                                        

Föstudaginn 7. nóvember 2008.

Nr. 589/2008.

Ásgeir Elíasson

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Gunnillu H. Skaptason

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur. Aðfinnslur.

Á höfðaði mál á hendur G til greiðslu bóta vegna meintra mistaka við tannlæknisverk. Með málshöfðuninni freistaði Á þess í þriðja sinn að fá efnisdóm fyrir kröfum sínum á hendur G, en í málinu lágu fyrir m.a. tvær matsgerðir, auk álitsgerðar landlæknis. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms, sem vísaði kröfu Á frá dómi, þar sem málatilbúnaði hans og kröfum var þannig háttað að þau uppfylltu ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um skýrleika, og málið þannig úr garði gert að það væri ótækt til efnisdóms.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess aðallega að varnaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað, en til vara að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Það athugast að sóknaraðili höfðaði mál þetta með birtingu héraðsdómsstefnu 23. nóvember 2006 og var það þingfest 25. janúar 2007. Í framhaldi af því var málinu frestað á reglulegu dómþingi í sextán skipti þar til varnaraðili tók loks til varna með greinargerð, sem lögð var fram 28. febrúar 2008. Þessi ítrekaða frestun málsins, sem var í brýnni andstöðu við ákvæði 1. og 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, hefur í engu verið réttlætt í gögnum þess.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ásgeir Elíasson, greiði varnaraðila, Gunnillu H. Skaptason, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2008.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar miðvikudaginn 17. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ásgeiri Elíassyni, kt. 190663-4859, Hófgerði 28, Kópavogi, með stefnu og framhaldsstefnu, birtum 23. nóvember 2006 og 12. desember 2007, á hendur Gunillu Skaptason, kt. 290147-3529, Barmahlíð 19, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda í aðalsök og framhaldssök eru þær, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda samtals kr. 1.475.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. 1.000.000 frá 25. febrúar 2007 til 13. janúar 2008, en af kr. 1.475.000 frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess í framhaldssök, að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda kr. 175.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af kr. frá 25. febrúar 2007 til greiðsludags.  Enn fremur krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu að mati réttarins.

Dómkröfur stefndu eru þær í aðalsök og framhaldssök, aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, til vara að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til þrautavara krefst stefnda sýknu gegn greiðslu á kr. 340.387.  Í öllum framangreindum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda, að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

II

Málavextir

Stefnandi leitaði til stefndu í september 1995 með lausa brú í neðri góm, sem tannlæknir í Bolungarvík hafði gert.  Gekkst stefnandi undir margþætta tannlæknameðferð hjá stefndu, bæði í efri og neðri góm, allt til hausts 1999, þegar stefnandi hætti meðferð hjá stefndu, án þess að tannviðgerðum væri endanlega lokið.  Kveður stefnda alla tannhirðu stefnanda hafa verið í hörmulegu ástandi í upphafi meðferðar, og hafi þau mál ekki komizt í þokkalegt ástand fyrr en á árinu 1999.  Enn fremur hafi stefnandi verið svokallaður „tanngnístari“, og hafi hann af þeim sökum fengið hlífðarskinnu, sem stefnandi telur hann þó aldrei hafa notað.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um gerð brúa í neðri góm stefnanda, sem var ástæða þess, að hann leitaði upphaflega til stefndu.  Stefnda festi þá brú, sem laus var í upphafi meðferðar, en hún losnaði aftur, vegna ónógrar festingar í fremri stoðtönn, sem stefnda bætti úr með stiftisfestingu þar í.  Kveður stefnandi þessar brýr hafa ítrekað losnað og dottið úr, þrátt fyrir tilraunir stefndu til að festa þær.

Í upphafi árs 2000, þegar stefnandi hafði hætt í meðferð hjá stefndu, óskaði hann eftir áliti landlæknis á því, hvort viðgerðir teldust viðunandi.  Í álitsgerð landlæknis, sem er dagsett 12. marz 2001, segir m.a, að brýr, sem stefnda gerði í neðri góm stefnanda, hafi verið festar endanlega í janúar 1996.  Hafi hún talið sig hafa unnið verkefnið eftir bestu getu og fengið meðal annars rótarfyllingarsérfræðing til þess að rótfylla tvær stoðtennur.  Stefnda telji, að deila megi um, hvort betra hefði verið að setja stifti til styrktar í tönnum 47 og 46 (rótarfylltar), en mat stefndu á þeim tíma hafi verið það, að uppbyggingar væru nægilega sterkar og vísi hún til módels. 

Þá kemur fram í álitsgerðinni, að stefnandi hafi, að beiðni Landlæknisembættisins, verið skoðaður af sérfræðingi í munn- og tanngervalækningum, án þess að nafns Gunillu Skaptason væri getið.  Álitsgerð sérfræðingsins, sem dagsett er 23.11.99, varði gerð tveggja jaxlabrúa, sem staðsettar eru sitt hvoru megin gómbogans í neðri góm.  Í ályktunarorðum sérfræðingsins segir:  „Sú staða sem sjúklingur er í núna er slæm og má um kenna slælegum vinnubrögðum við endurfestingu brúanna (sic), fremur en að á vandamálinu sjálfu hafi verið tekið.“

Í bréfi stefndu til Landlæknisembættisins, dags. 06.11. 2000, mótmælir hún því, að um slæleg vinnubrögð hafi verið að ræða og að hún hafi ekki tekið á vandamálinu sjálfu.  Kveður hún það hafa átt sinn þátt í því að brúin hafi losnað, að tönn 34 hafði „resorberast“, auk þess sem hún kveður stoðtönn 34 ekki hafa þolað álagið af tannagnístri, auk þess sem hún hafi trúlega verið undir of miklu álagi frá brú í efri góm.  Þá hafi léleg tannhirða einnig haft áhrif þar á. Krefst hún þess jafnframt í bréfinu, að annar sérfræðingur skoði málið.  Málinu var þá vísað til kennara Tannlæknastofnunar við Tannlæknadeild Háskóla Íslands, þar sem stefnandi var skoðaður af tveimur kennurum, sem skiluðu landlækni greinargerð, sem liggur fyrir óundirrituð í málinu.  Þar segir svo m.a.:

Af klínískri skoðun verður lítið ráðið, þar sem tennur 47 og 46 hafa verið fjarlægðar og í stað þeirra komnir tannstólpar (implönt) í svæði 46, 44 ásamt brú milli þeirra.  Vinstra megin hefur verið gerð enduruppbygging á 34 og 36 ásamt brú 33, 34, 35, 36.  Brýr beggja megin í neðri góm hafa sem sagt verið endurbyggðar og orthopan röntgen sem tekið var 17.01.2001 sýnir ekkert annað en eðlilegt ástand.

Frásögnum sjúklings og Gunillu Skaptason tannlæknis ber í megin dráttum saman og ekki verður stuðst við annað en þær og gögn sem fyrir liggja frá NN (ofangreindur sérfræðingur á vegum embættisins).  Af þeim má ráða að festa fyrir brýrnar hafa verið of lítil miðað við annars vegar brúarlengd og hins vegar þær aðferðir, sem beitt hefur verið til þess að vinna þeim festu.  Röntgenmynd af 35 og 36, tekin 17.11.1999, staðfestir að naumast hafa verið gerðar nægilegar undirbyggingar í tennur, tilslípun á þeim báðum hafi verið og afslepp (convergence) og stautar of stuttir.  Þá sýnir röntgenmynd frá sama tíma “radiolucent” eyðu undir krónu á 47 og 46, sem bendir til karies (tannskemmda).  Það skýrir væntanlega að þær voru fjarlægðar og tannstólpar settir í staðinn. 

Af afsteypu frá NN [tannlækni], má ráða að tannskurður af 47, 46 hafi einnig verið of afsleppur miðað við krónulengd, tannlaust bil og festingaraðferð.

Við erum sammála um að ofangreind meðferð hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru við Tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Er niðurstaða landlæknisembættisins þessi:

Með tilvísan til ofangreindrar greinargerðar er það álit Landlæknisembættisins að ekki hafi verið tilhlýðilega staðið að meðferð Gunillu Skaptason tannlæknis í munni Ásgeirs Elíassonar þegar brýr voru settar í neðri góm.

Stefndu var sent bréf dags. 25. júní 2001, þar sem óskað var eftir afstöðu til bótaskyldu stefndu.  Stefnda vísaði á réttargæzlustefnda, þar sem hún hafi haft gilda ábyrgðartryggingu á þeim tíma, sem á tannlæknameðferðinni stóð.  Kveður stefnandi réttargæzlustefnda hafa verið sent kröfubréf í júlí 2001, þar sem jafnframt hafi verið óskað eftir afstöðu félagsins til bótaskyldu stefndu.  Í október 2001 hafi borizt frá réttargæslustefnda, þar sem fram komi, að óskað hafi verið eftir áliti stefndu á málinu.  Það álit hafi ekki borizt, og hafi stefnandi því ekki séð annan kost en að leita til dómstóla með kröfur sínar.  Stefna var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 27. júní 2002.  Því máli var vísað frá dómi með úrskurði, uppkveðnum 8. marz 2004.

Með matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 29.04.2005 var farið fram á dómkvaðningu matsmanns og honum falið að meta eftirfarandi:

1.     Til hvaða aðgerða var nauðsynlegt að grípa til að bæta úr því misheppnaða tannlæknaverki, sem fram fór á stofu hjá stefnda og fólst í óvandaðri vinnu og ófullnægjandi aðferðum við að koma fyrir tveimur jaxlabrúm í neðri gómi stefnanda, til bráðabirgða í september 1995 og endanlega í janúar 1996.

2.     Farið er fram á að matsmaður meti það sjálfstætt hver sé eðlilegur kostnaður við úrbætur vegna þessa misheppnaða tannlæknaverks.

3.     Annað það sem matsmaður telur að skipti máli í samhengi við matsbeiðni þessa, við skoðun eða eftir ábendingum aðila.

Til að meta hið umbeðna var dómkvaddur til verksins Ríkharður Pálsson tannlæknir.  Er matsgerð hans dagsett 17. október 2005.   Þegar matsgerðin lá fyrir, höfðaði stefnandi á ný mál á hendur stefndu með stefnu áritaðri um birtingu hinn 28. nóvember 2005.  Því máli var vísað frá dómi með úrskurði, uppkveðnum 24. maí 2006 og til þess vísað m.a., að matsgerðin varpaði ekki ljósi á, í hverju hin meintu, bótaskyldu mistök fælust, eða til hvaða tjóns þau leiddu fyrir stefnanda.

Aðalsök í máli þessu var síðan höfðuð, eins og að framan greinir, með stefnu, birtri 23. nóvember 2006, og er matsgerð Ríkharðs Pálssonar tannlæknis meðal gagna málsins. 

Áður en stefna í aðalsök var birt, óskaði stefnandi eftir því, með matsbeiðni, dags. 15. september 2006, að dómkvaddur yrði matsmaður að nýju til að skila álitsgerð um eftirfarandi spurningar:

1.     Hvert er raunverulegt tjón matsbeiðanda sem með beinum hætti má rekja til tannlæknaverka matsþola [stefndu], þ.e.a.s. að hve miklu leyti skaðaðist matsbeiðandi vegna þess að tannlæknaverkið, sem var undirbygging og festing tveggja jaxlabrúa í neðri góm, var ekki unnið með viðhlítandi hætti þannig að brýrnar losnuðu ítrekað?  Hér þarf matsmaður að afmarka skýrt hvaða verk matsþola var ætlað að framkvæma og unnið var á hennar stofu eða unnið fyrir hennar atbeina af öðrum og aðgreina þannig þau verk frá tannlæknaverkum óviðkomandi matsþola, sem síðar voru framkvæmd af Elínu Sigurgeirsdóttur tannlækni eða fyrir hennar atbeina eftir að matsbeiðandi hætti meðferð hjá matsþola.  Við mat á tjóni matsþola verður til lækkunar að taka tillit til þess hluta tannlæknaverka matsþola sem hugsanlega nýttust við síðari úrbætur á hinu misheppnaða tannlæknaverki.

2.     Matsþoli kom til matsþola til að láta festa tvær bráðabirgða jaxlabrýr í neðri gómi.  Óskað er eftir mati á því til hvaða aðgerða matsþola hefði borið að grípa svo jaxlabrýrnar mættu fá varanlega festu í munnholi matsbeiðanda, allt með hliðsjón af ástandi tanna matsbeiðanda þegar hann fyrst leitaði til matsþola?

3.     Hver er eðlilegur núvirðiskostnaður við að framkvæma það tannlæknaverk sem matsþola var falið, sem var að undirbyggja og festa varanlega tvær jaxlabrýr í neðri gómi, miðað við ástand tanna matsbeiðanda þegar hann fyrst leitaði til matsþola.  Hér skal aðeins litið til þess verks sem unnið var eða hefði átt að vinna á tannlæknastofu matsþola svo að viðhlítandi lækning fengist?

4.     Annað það sem matsmaður telur að skipti máli í samhengi við matsbeiðni þessa, við skoðun eða eftir ábendingum aðila.

Hinn 17. nóvember 2006 var dómkvaddur í Héraðsdómi Reykjavíkur Atli Geir Zoëga tannlæknir til að framkvæma hið umbeðna mat.  Lá matsgerð hans fyrir hinn 19. október 2007.  Þar svarar hann ofangreindum matsspurningum með eftirfarandi hætti.

1.     Sú leið sem matsmaður ætlar að fara við svar á þessum lið er að finna verðgildi þess verks sem unnið var með hjálp meðfylgjandi gagna, sérstaklega frá TFÍ og nota vísitölubreytingu frá 1995 til 2007 til að uppfæra þann kostnað.  Síðan verður reiknað út það verð sem sú aðgerð sem matsmaður telur að framkvæma hefði kostað á verðlagi haustmánuða 2007. (sic í matsgerð)

Kostnaður vegna brúarsmíða Gunillu 1995-99 samkvæmt gögnum TFÍ var kr. 340.387.-.  Þar eru rótfyllingar ekki innifaldar.  Reiknað á núvirði samkvæmt vísitölu tannlækninga frá Hagstofunni sem í mars 1995 var 79,9 en í ágúst 2007 var 141,8 er verðgildið nú um kr. 550.000.-.

Ekki er umdeilt að allt það verk sem Gunilla vann á árunum 1995 til 1999 er horfið úr munni Ásgeirs í dag.  Því mætti segja að tjón hans sé kr. 550.000.- auk þess kostnaðar sem hlaust af vinnu rótfyllingarsérfræðings í sambandi við stoðtennur brúnna sem nú eru farnar.

Þar sem tennur 48, 47 og 34 hafa tapast í þessu ferli öllu, er eðlilegt að líta á það tjón sem af því hlaust líka.

Til að bæta tjón vegna missis 48 og 47 þurfti að setja títanígræðslur í kjálka Ásgeirs og byggja postulínsbrú þar á.  Því mætti segja að tjón vegna tannmissis 48 og 47 sé verð á tveimur títanígræðslum en það gæti verið um kr. 180.000.-.

Til að bæta tjón vegna taps á tönn 34 þurfti að gera nýja brú sem spannar 5 tannbil og er kostnaður við slíka brú um kr. 350.000.-.

Samtals gæti því tjón á núvirði verið um kr. 1.080.000.- auk kostnaðar á rótfyllingum á tönnum 48, 47 og 34.  (því þær eru horfnar) það verð hef ég ekki.  (þ.e. það verð sem greitt var til Gunillu auk kostnaðar vegna tanntaps).  Áætlað verð á rótfyllingum á núvirði hjá rótfyllingarsérfræðingi á tönnum 48, 47 og 34 er um kr. 145.000.-.  Því gæti heildartjón verið á núvirði um kr. 1.225.000.-.

Tekið skal fram að ódýrari leiðir eru til en þær sem hér eru notaðar til útreikninga.  (t.d. að gera lausan tannpart) en að mínum mati eru þær ekki sambærilegar að gæðum.  Einnig skal áréttað að verð á tannlækningum er frjálst og háð samkeppnislögum.

2.     Það verk sem Gunilla vann er ekki rangt í sjálfum sér.  Samkvæmt þeim greinargerðum sem með málinu liggja frá THÍ er helst út á að að setja að festa tanngervanna (brú 48, 47 ... 43 og brú 34, 35 ... 37) var ekki fullnægjandi.  Tennur 48 og 47 hefðu þurft í upphafi að fá rótarstifti og hafa hærri uppbyggingar en gerðar voru.  Óvíst er hvort tönn 48 var í upphafi nógu góð tönn til að vera hluti af brú en með þeim gögnum sem til eru verður ekki fullyrt um það.

Hvað brú í vinstri hlið snertir er ekki alveg ljóst í mínum huga hvað þar fór úrskeiðis.  Brúin þar var aðeins yfir mjög stutt tannbil og festa við tennur 34 og 35 sæmileg.  Festa á tönn 37 er þó tæp og getur það kannski helst skýrt að stifti það sem var í tönn 34 hafi losnað vegna vogarafls og í kjölfar þess komið sú mikla “eyðing” sem varð til þess að þá tönn þurfti að fjarlægja.  Um þetta get ég þó ekki fullyrt.

Ég tel að þær brýr sem gerðar voru hefðu getað heppnast ef betur hefði verið staðið að uppbyggingu og festingum á stoðtönnum, sérstaklega tönnum 48, 47 og 37.

Gunilla útvegaði Ásgeiri bithlíf samhliða afhendingu brúnna því hún hafði áhyggjur af tanngnístri Ásgeirs.  Það hefur verið gert til að minnka álag á þær í svefni og þar með minnka hættu á losi.  Hún hefur því verið meðvituð um það álag sem þessar brýr kæmu til með að þola.

3.     Algengt verð á hverja tönn í föstum tanngervum í dag er um kr. 70.000.-.  Því má áætla að brú hægra megin sem tók yfir 5 tannbil gæti kostað um kr. 350.000 og brú vinstra megin sem tók yfir 3 til 4 tannbil kosti um kr. 280.000.-.  Til viðbótar skal telja kostnað við rótfyllingar og rótarstifti auk uppbyggingar:  Rótarfyllingar í tennur 48, 47 og 34, 35, 37 hjá almennum tannlækni gætu kostað um kr. 165.000.-.

Rótarstifti og uppbyggingar í tennur 48, 47, 37, 35 og 34 kosta gróft reiknað um kr. 25.000.- á tönn, þannig væri kostnaður á þessar 5 tennur um kr. 130.000.-.

Samtals væri þá kostnaður í dag um kr. 925.000.- hjá almennum tannlækni á því tannlæknaverki sem matsbeiðandi hefði þurft.  Áréttað skal að verð á tannlækningum er frjálst og háð samkeppnislögum.

Meðferð vegna tannholdsbólgu í munni matsbeiðanda er ekki inni í þessum kostnaðartölum vegna þess hve erfitt er að áætla ástand það sem var í munni hans í upphafi meðferðar og hvernig sú meðferð hefði gengið.

4.     Ég vil taka fram í sambandi við ofangert mat að margir óvissuþættir eru til staðar og þau gögn sem ég hef undir höndum gefa vísbendingar en ekki allan sannleikann.  Erfitt er til dæmis að fullyrða að brýr gerðar 1995 með betri festingum (rótarstiftum og uppbyggingum) hefðu endst betur þó líkum sé að því leitt.  Aðstæður (sic í matsgerð) í munni Ásgeirs 1995 hefur Gunilla lýst sem slæmum;  og þá helst vegna tannholdsbólgu og blæðinga sem voru þrálátar.  Að smíða dýr verk við slíkar aðstæður getur orkað tvímælis og hefði verið betra að ná niður bólgum í munni áður en hafist var handa við smíðar.  Kannski var það gert en samkvæmt þeim gögnum sem með málinu liggja er það óljóst.  Gunilla tjáði mér á fundi okkar á tannlæknastofu minni að hún hafi ekki haft kost á að gera úrbætur sem hún taldi duga því Ásgeir hafi leitað annað til að fá úrlausn sinna mála.  Hún telur að nýta hefði mátt hluta af þeirri vinnu sem hún hafði gert til að minnka kostnað við endurbætur þær sem gera þurfti.

Þegar framangreind niðurstaða matsmanns lá fyrir, höfðaði stefnandi framhaldssök í máli þessu til að auka við dómkröfur stefnanda, þar sem metið tjón er nokkru meira en krafizt er í aðalsök. 

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því í aðalsök, að hann hafi orðið fyrir fjártjóni og miska vegna ótilhlýðilegrar tannlæknameðferðar hjá stefndu.  Meðferðin hafi hafizt í september 1995.  Brýr, sem stefnda hafi látið smíða í neðri góm, hafi verið festar í janúar 1996, en stefnandi hafi síðan verið í meðferð hjá stefndu allt til september 1999, þar sem m.a. hafi verið reynt að bæta úr hinu misheppnaða tannlæknaverki.

Stefnda hafi ekki staðið tilhlýðilega að tannlæknismeðferðinni.  Undir það hafi m.a. landlæknir tekið í álitsgerð, dags. 12. marz 2001.  Á þeirri háttsemi beri stefnda bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. 

Stefnandi hafi leitað til stefndu til að láta festa tvær neðrigóms jaxlabrýr í stað bráðabirgðabrúa, sem settar höfðu verið upp í hann af tannlækni á Bolungarvík.  Stefnda hafi þannig upphaflega komið fyrir tveimur varanlegum jaxlabrúm í neðri gómi stefnanda.  Brýrnar hafi losnað aftur, þar sem festa í tanngómi hafi ekki verið nægjanleg vegna brúalengda. 

Aðferðir þær, sem stefnda beitti til að vinna brúnum festu, hafi ekki verið fullnægjandi.  Þær tennur, sem hafi átt að mynda brúarfestur í neðri gómi stefnanda, hafi verið of veikar til að geta borið uppi brýrnar; hald í þeim hafi verið lítið og tannstautar of stuttir miðað við lengd brúa.  Þannig hafi átt að byggja betur undir brýrnar með stiftum eða implöntum til styrktar þeim tönnum, sem ætlað hafi verið að bera brýnar uppi.  Þetta hafi stefnda ekki gert.  Í hægri hlið neðra góms hefði átt að setja stifti til styrktar tönnum 47 og 46.  Þetta hafi stefnda ekki gert.  Eins hefði stefnda mátt gera ráð fyrir því, að rótarfylling þessara tanna hafi dregið úr styrk þeirra til að halda brúnni uppi.  Í vinstri hlið neðra góms hafi stefnda naumast gert nægjanlegar undirbyggingar fyrir brúna, þar sem festa hafi ekki verið nægjanleg í tönnum 35. 36 og 37, en sú síðast talda hafði verið rótarfyllt.  Á röntgenmynd, sem tekin hafi verið 17.11. 1999, áður en Elín Sigurgeirsdóttir tannlæknir tók að sér að undirbyggja og festa brýrnar varanlega, komi fram, að mikil tannáta (karies) hafi verið komin í tönn 47 undir brúnni og mesial í tönn 46.  Þessa hafi stefnda ekki gætt.  Því hafi þurft að fjarlægja þessar tennur og setja tannstólpa í staðinn.  Í þessu felist m.a. hin bótaskylda háttsemi stefndu.

Vinna stefndu hafi verið ótilhlýðileg og af því hafi hlotizt tjón fyrir stefnanda, sem krafizt sé bóta fyrir.  Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að stofna til verulegra útgjalda, svo lagfæra mætti það, sem úrskeiðis hafi farið vegna meðferðarinnar hjá stefndu.  Dómkvaddur hafi verið matsmaður til að meta fjártjón stefnanda, sem og þann kostnað, sem stefnanda hafi verið nauðsynlegt að leggja út í til að bæta úr misheppnuðu tannlæknaverki stefndu. 

Þá hafi stefnandi hafi veruleg óþægindi og ama af háttsemi stefndu, á meðan verið var að reyna úrbætur svo árum skipti, án þess að nokkur leið væri að bæta úr því, sem úrskeiðis hafði farið, án þess að taka verkið allt upp og hefja vinnu við það að nýju frá grunni, eins og loks hafi verið gert af öðrum tannlækni á árinu 2000.  Allan þann tíma hafi stefnandi gengið um með lausar brýr, sem hafi haft í för með sér vanlíðan.  Stefnandi hafi þannig einnig orðið fyrir miska vegna ólögmætrar meingerðar af hálfu stefndu.  Krafizt sé miskabóta vegna þess tjóns, með vísan til 26. gr. skbl. nr. 50/1993.

Í framhaldssök kveðst stefnandi byggja kröfur sínar um bætur fyrir tjónið á matsgerð dómkvadds matsmanns, Geirs Atla Zoëga tannlæknis, frá 19.10. 2007, sem þyki staðfesta, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, sem nemi kr. 1.225.000 vegna óforsvaranlegs tannlæknaverks stefndu.  Í aðalsök málsins, sem þingfest hafi verið þann 25. janúar 2007, sé stefnda krafin um bætur fyrir hluta þess tjóns, sem matsgerðin greini, að stefnandi hafi orðið fyrir.  Þá hafi matsgerð hins dómkvadda matsmanns, Geirs Atla Zoëga, ekki legið fyrir.  Með framhaldsstefnu sé stefnda nú krafin um það, sem vanti upp á heildarbætur, eða aðallega kr. 475.000, en til vara kr. 175.000.

Í framhaldssök vísar stefnandi til framangreindrar matsgerðar, og kveður verk stefndu ekki hafa verið fullnægjandi, þar sem ekki hafi verið nægjanlega vel staðið að uppbyggingu og festingu á stoðtönnum, sem brýr voru festar við.  Af þeim sökum hafi brýrnar losnað og með því hafi allt tannlæknaverk, sem stefnda hafði unnið á tönnum stefnanda, ónýtzt, og tennur 48, 47 og 34 tapazt.  Þær brýr, sem gerðar voru, hefðu getað heppnazt betur, hefði verið staðið að uppbyggingu og festingum á stoðtönnum 48, 47 og 37.  Beri stefnda bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar á því, að sú undirbygging hafi ekki verið sem skyldi.  Stefnda hafi verið meðvituð um það álag, sem þessar tannbrýr kæmu til með að verða fyrir, og því hefði þurft að vanda til uppbyggingar þeirra.  Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að stofna til verulegra útgjalda, svo lagfæra mætti það, sem úrskeiðis hafði farið vegna meðferðarinnar hjá stefndu.

Heildartjón stefnanda nemi kr. 1.225.000 (til vara kr. 925.000) vegna ótilhlýðilegrar tannlæknameðferðar hjá stefndu, en nánar sundurliðist tjónið þannig samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns, Geirs Atla Zoëga:

Kostnaður vegna brúarsmíði án rótfyllinga.

kr.    550.000

Tjón vegna missis tanna 48 og 47.

kr.    180.000

Tjón vegna missis tannar 34, nauðsynleg ný brú.

kr.    350.000

Rótfyllingar hjá sérfræðingi á tönnum 48, 47 og 34.

kr.    145.000

Heildartjón á núvirði.

kr. 1.225.000

Dómkvaddur matsmaður hafi einnig metið núvirðiskostnað, kr. 925.000, við að framkvæma það tannlæknaverk, sem stefndu hafði verið falið, þ.e. að undirbyggja og festa varanlegar jaxlabrýr í neðri gómi stefnanda, en sá kostnaður sundurliðist nánar þannig, samkvæmt matsgerð:

Brú hægra megin sem tekur yfir 5 tannbil.

kr.    350.000

Brú vinstra megin sem tekur yfir 3 til 4 tannbil.

kr.    280.000

Rótfyllingar í tennur 48, 47 og 37, 35 og 34.

kr.    165.000

Rótarstifti og uppbyggingar á tönnum 48, 47, 37, 35 og 34.

kr.    130.000

Heildartjón á núvirði.

kr.    925.000

Til vara sé með framhaldsstefnu þessari aukið við kröfur stefnanda um bætur, að fjárhæð kr. 175.000, sem jafngildi mismuni á metnum núvirðiskostnaði við að framkvæma hið umbeðna tannlæknaverk samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns og kröfum um bætur í aðalsök.

Sundurliðun bótakrafna stefnanda hér að ofan sé fyrir utan kröfuna um bætur fyrir miska, en miskabótakrafan sé að fjárhæð kr. 250.000 og sé óbreytt frá aðalsök.

Dráttarvaxta sé krafizt af stefnufjárhæðinni frá 13. janúar 2008 til greiðsludags, eða þegar mánuður er liðinn frá þingfestingu málsins, sbr. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 2. mgr. 16. gr. skbl.

Í aðalsök og framhaldssök kveðst stefnandi byggja á almennum, ólögfestum reglum íslenzks skaðabótaréttar um bótaskyldu þess, sem valdi öðrum tjóni með saknæmum hætti.  Kröfur stefnanda um bætur vegna miska séu reistar á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Varðandi dráttarvexti sé vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Stefnandi styðji kröfur um málskostnað við lög nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr.  Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað sé reist á lögum nr. 50/1988, sbr. og reglugerð nr. 562/1989.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur, og sé honum því nauðsyn að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefndu.

Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni af hinni ótilhlýðilegu meðferð stefndu.  Bótakrafan í aðalsök nemi kr. 750.000.  Þá sé stefnda krafin um miskabætur að fjárhæð kr. 250.000, samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Undir rekstri málsins var bókað eftir lögmanni stefnanda, að álitsgerð landlæknis og matsgerð Ríkharðs Pálssonar séu hliðsjónargögn í málinu, en bótagrundvöllur málsins og bótafjárhæðir séu fyrst og fremst byggð á matsgerð Geirs Atla Zoëga.

Málsástæður stefndu

Aðalkrafa stefndu er sú, að málinu verði vísað frá dómi, og er sá þáttur málsins einungis hér til umfjöllunar.

Frávísunarkröfu sína byggir stefnda á því, að málið sé algjörlega vanreifað af stefnanda hálfu, bæði hvað varðar aðal- og varakröfu hans.  Vegna algjörs skorts á efnislegum grundvelli kröfu sinnar í fyrri málunum tveimur, hafi stefnandi látið dómkveðja á ný matsmann til að freista þess að renna stoðum undir meinta kröfu sína.  Það hafi honum ekki tekizt.  Matsgerð hins dómkvadda matsmanns varpi engu ljósi á meint, raunverulegt tjón stefnanda, og sé hún því marklaus og að engu hafandi.  Dómkröfur stefnanda, sem byggist alfarið á tölulegum niðurstöðum matsgerðarinnar, séu því að sama skapi vanreifaðar og ódómtækar.  Eigi þetta bæði við um aðal- og varakröfur stefnanda.  Niðurstöður matsmanns á meintu, fjárhagslegu tjóni stefnanda séu alfarið byggðar á getgátum og áætlunum, en ekki staðreyndum.  Sem dæmi megi nefna, að matsmaður telji, að heildartjón stefnanda „gæti verið á núvirði um kr. 1.225.000.“  Á þessum matslið byggi stefnandi aðalkröfu sína.  Með þessu sé matsmaður hins vegar engan veginn að slá því föstu, hvert meint, fjárhagslegt tjón stefnanda sé, heldur virðist hann gizka á, að tjónið „geti verið“ kr. 1.225.000.  Þá taki matsmaður jafnframt fram, að ódýrari leiðir við tannlæknaverkið standi til boða, án þess þó að hann tiltaki sérstaklega, hverjar þær séu, eða hvað þær muni koma til með að kosta.  Við þetta megi bæta, að matsmaður núvirðisreikni hluta af meintu tjóni stefnanda miðað við vísitölu tannlækninga frá Hagstofu Íslands frá því í marz 1995 fram til ágústmánaðar 2007.  Eigi þetta við um þann kostnað, sem stefnandi hafi þurft að greiða stefndu vegna tannlæknaverksins á árunum 1995-1999.  Stefnda geri verulegar athugsemdir við þennan útreikning matsmanns, sem stefnandi geri að sínum í framhaldsstefnu sinni á dsk. nr. 34.  Í fyrsta lagi hafi mælingar á vísitölu tannlækninga ekki hafizt fyrr en í marzmánuði 2002, samkvæmt upplýsingum, sem stefnda hafi fengið hjá Hagstofu Íslands.  Geti stefnda því ómögulega séð, hvernig matsmaður fari að því að framreikna kostnaðinn með þessum hætti.  Í öðru lagi miði matsmaður í útreikningi sínum við „vísitölu“ marzmánaðar 1995, en stefnandi hafi þegið þjónustu stefndu á tímabilinu september 1995 til september 1999.  Stefnda geti því ekki séð, hvernig matsmaður og stefnandi telji rétt að framreikna hina meintu bótakröfu frá því tímabili, sem stefnandi hafi ekki einu sinni hafið viðskipti við stefndu.  Blasi því við, að útreikningur dómkröfu stefndu sé með öllu vanreifaður og rangur.

Þessu til viðbótar bendi stefnda á, að matsmaður láti eftirfarandi fyrirvara fylgja með í lok matsgerðar sinnar:

Ég vil taka fram í sambandi við ofangert mat að margir óvissuþættir eru til staðar og þau gögn sem ég hef undir höndum gefa vísbendingu en ekki allan sannleikann.  Erfitt er til dæmis að fullyrða að brýr gerðar 1995 með betri festingum (rótarstiftum og uppbyggingum) hefðu enzt betur þó líkum sé að því leitt.

Af framangreindu sé ljóst, að matsgerðin taki engan veginn á því, hvert sé raunverulegt tjón stefnanda, sem rekja megi til starfa stefndu.  Eigi þetta sérstaklega við um varakröfu stefnanda, sem reist sé á þeim einkennilega grundvelli, að stefndu beri að greiða stefnanda bætur í samræmi við þann núvirðiskostnað, sem hlotizt hefði af umbeðnu tannlæknaverki, ef stefnda hefði unnið verkið með tilhlýðilegum hætti.  Slíkt mat geti eðli málsins samkvæmt aldrei falið í sér raunverulegt tjón stefnanda vegna meints, misheppnaðs tannlæknaverks stefndu.  Fyrir liggi í málinu, að stefnda hafi ekki unnið verkið með þeim hætti, sem matsmaður leggi til, og hafi hún því ekki krafið stefnanda um greiðslur samkvæmt niðurstöðu matsmanns.  Í matsgerðinni sé þannig engan veginn tekið á því, hvert sé raunverulegt tjón stefnanda, sem rekja megi með beinum hætti til starfa stefndu. Þegar af þessari ástæðu sé varakrafa stefnanda með öllu vanreifuð og beri að vísa henni frá dómi.

Í málinu í heild liggi ekki fyrir neitt mat eða önnur efnislega útlistun á því meinta fjárhagslega tjóni, sem stefnandi telji, að stefnda hafi valdið sér, en eins og áður segi, reisi stefnandi fjárkröfur sínar á hendur stefndu alfarið á niðurstöðum matsgerðarinnar, sem séu fjórum sinnum hærri en sú fjárhæð, sem stefnandi hafi nokkurn tíma greitt stefndu í heild vegna umræddrar brúargerðar.

Þá sé grundvöllur bótaskyldu lítið reifaður efnislega, og ekki sé útskýrt, með fullnægjandi hætti, í hverju hin bótaskyldu mistök hafi falizt eða til hvers þau hafi leitt sérstaklega.  Þess í stað sé tekið upp í heild efni bréfs landlæknisembættisins á dskj. nr. 5 og vísað til almennra, ólögfestra reglna íslenzks skaðabótaréttar.  Stefnandi hafi kosið að óska ekki eftir sérstöku mati hins dómkvadda matsmanns á meintum mistökum stefndu, heldur eingöngu þeim kostnaði, sem meint mistök hafi leitt af sér.  Þess í stað byggi stefndi á marklausu mati landlæknis í málinu.  Engin grein sé fyrir því gerð, hvort kröfur á hendur stefndu byggist á skaðabótaskyldu innan eða utan samninga o.s.frv.  Á svo vanreifaðar dómkröfur verði efnisdómur ekki lagður, sbr. meginreglur einkamálaréttarfars, sbr. m.a. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og beri því, þegar af þeirri ástæðu, að vísa máli þessu frá dómi.

IV

Forsendur og niðurstaða

Með málshöfðun þessari freistar stefnandi þess nú í þriðja sinn að fá efnisdóm fyrir kröfum sínum á hendur stefndu vegna meintra mistaka við tannlæknisverk.  Í málinu liggja m.a. fyrir tvær matsgerðir, auk álitsgerðar landlæknis. 

Af málatilbúnaði stefnanda í stefnu í aðalsök verður ráðið, að stefnandi byggi bótaskyldu stefndu á því, að hún hafi beitt röngum aðferðum við að styrkja tennur 47 og 46, svo þær gætu haldið uppi tannbrúm, auk þess sem stefnda hafi ekki gætt að tannátu í sömu tönnum, sem leitt hafi til þess, að fjarlægja þurfti nefndar tennur og gera viðeigandi ráðstafanir í staðinn.  Krefst stefnandi bóta vegna fjártjóns af þeim sökum, auk miskabóta vegna óþæginda.  Í framhaldssök byggir stefnandi enn fremur á því, að vegna ófullnægjandi uppbyggingar og festingar á stoðtönnum hafi brýrnar losnað og með því hafi allt tannlæknaverk, sem stefnda hafði unnið á tönnum stefnanda, ónýtzt, og tennur 48, 47 og 34 tapazt.  Þær brýr, sem gerðar voru, hefðu getað heppnazt, hefði betur verið staðið að uppbyggingu og festingum á stoðtönnum 48, 47 og 37.  Beri stefnda bótaábyrgð samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar á því, að sú undirbygging hafi ekki verið sem skyldi.  Stefnda hafi verið meðvituð um það álag, sem þessar tannbrýr kæmu til með að verða fyrir, og því hefði þurft að vanda til uppbyggingar þeirra.  Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að stofna til verulegra útgjalda, svo lagfæra mætti það, sem úrskeiðis hafði farið vegna meðferðarinnar hjá stefndu.

 Héraðsdómur hefur þegar úrskurðað í fyrri málssóknum stefnanda, að álitsgerð landlæknis og matsgerð Ríkharðar Pálssonar tannlæknis séu ekki til þess fallnar að skýra bótagrundvöll stefnanda og var málunum vísað frá dómi.  Af því tilefni aflaði stefnandi nýrrar matsgerðar, Geirs Atla Zoëga, sem hann lagði fram með framhaldstefnu í máli þessu, og eru endanlegar kröfur hans reistar á þeirri matsgerð.

Í matsgerð Geirs Atla Zoëga kemur m.a. fram, að tennur 48, 47 og 34 hafi tapazt, en tannar 46 er að engu getið.  Matsmaðurinn reiknar út til núvirðis kostnað stefnanda af tannviðgerðum stefndu, og kveður óumdeilt, að allt verk hennar sé horfið úr munni stefnanda í dag.  Metur hann þann kostnað allan til tjóns.  Ekki er tekið mið af greiðsludagsetningum við núvirðisútreikning matsmannsins.  Í matsgerðinni kemur m.a. fram, að verk það, sem stefnda vann, hafi ekki verið rangt í sjálfu sér, auk þess sem tekið er fram, að margir óvissuþættir séu til staðar, og gögn sem matsmaður hafi undir höndum gefi vísbendingar, en ekki allan sannleikann.  Eins og matsgerðin er úr garði gerð, þykir hún ekki til þess fallin að varpa ljósi á þann bótagrundvöll, sem stefnandi reisir kröfur sínar á, fremur en fyrri matsgerð.  Þá verður ekki af matsgerð ráðið, hvert tjón stefnanda er, sem rekja má til meintra mistaka, en ekki kemur fram skýr sundurgreining á kostnaði þeim, sem gera má ráð fyrir, að stefnandi hefði þurft að bera, eins og staðan var, þegar hann leitaði fyrst til stefndu, til að fá tennur sínar í viðunandi ástand, og þess umframkostnaðar, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna meintra mistaka.

Eins og kröfum stefnanda og málatilbúnaði er háttað uppfyllir hann ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. l. nr. 91/1991 um skýrleika, og er málið, þannig úr garði gert, ótækt til efnisdóms.  Verður því ekki hjá því komizt að vísa því frá dómi.  Með vísan til þessarar niðurstöðu ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 250.000, en ekki hefur verið litið til virðisaukaskatts, þar sem stefnda hefur ekki gert grein fyrir virðisaukaskattskyldu sinni.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málinu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Ásgeir Elíasson, greiði stefndu, Gunillu Skaptason, kr. 250.000 í málskostnað.