Hæstiréttur íslands
Mál nr. 17/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Þriðjudaginn 16. janúar 2007. |
|
Nr. 17/2007. |
Ingólfur Flygenring(Jónas Þór Guðmundsson hdl.) gegn fjármálaeftirlitinu (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Úrskurður héraðsdóms var staðfestur um að F væri heimilt að leiða nafngreind vitni fyrir dóm í máli F gegn I.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. janúar 2007. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2006 að því er varðar leyfi til þess að leidd verði fyrir dóminn við aðalmeðferð máls, sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila, vitni sem nafngreind eru í úrskurðarorði. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamál. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði synjað um að leiða þessi vitni fyrir dóminn. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ingólfur Flygenring, greiði varnaraðila, fjármálaeftirlitinu, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. desember 2006.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 29. fyrra mánaðar, var höfðað 20. október 2006.
Stefnandi er Fjármálaeftirlitið, Suðurlandsbraut 32, Reykjavík.
Stefndi er Ingólfur Flygenring Fagrahvammi 10, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 frá 9. október 2006 í málinu nr. 10/2006. Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst þess að kröfu stefnanda verði hafnað og stefndi sýknaður af málskostnaðarkröfu stefnanda. Stefndi kefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í þeim þætti málsins, sem nú er til úrlausnar, krefst stefndi þess annars vegar að stefnanda verði synjað að leggja fram dskj. nr. 36-98, sem hann hugðist leggja fram í síðasta þinghaldi og hins vegar að stefnanda verði synjað að leiða fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og taka skýrslur af þeim vitnum sem stefnandi tilgreinir á vitnalista stefnanda á dskj. nr. 100.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að framangreindum kröfum stefnda verði hafnað og að framlagning umræddra skjala verði heimiluð og að vitni þau sem tilgreind eru á vitnalista á dskj. nr. 100 fái að koma fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gefa skýrslu en þau eru: Þór Gunnarsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar, Björn Ingi Sveinsson, fyrum sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar, Stefán Hilmarsson, Ragnar Z. Guðjónsson, Margrét Halldórsdóttir, Bragi Guðmundsson, Valgerður Guðmundsdóttir, Ágúst Böðvarsson, Sveinn Guðbjartsson, Trausti Lárusson, Páll Pálsson, Magnús Ægir Magnússon, núverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Þórarinn Þorgeirsson, starfsmaður stefnanda.
I.
Í máli þessu krefst stefnandi þess að felldur verði úr gildi úrskurður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 frá 9. október 2006 í málinu nr. 10/2006.
Forsaga málsins er sú, að með bréfi stefnanda 16. maí 2006 var stefnda tilkynnt það álit stefnanda um að stefndi teldist aðili að óbeinum, virkum eignarhlut sem myndast hefði í Sparisjóði Hafnarfjarðar án þess að skilyrða 1. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002 hafi verið gætt, sbr. 2. mgr. 70. gr. laganna. Var stefnda jafnframt tilkynnt um þá ákvörðun stefnanda að stefndi ásamt tilgreindum hópi einstaklinga færi sameiginlega ekki með meira en 5% atkvæðisréttar í Sparisjóði Hafnarfjarðar, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002.
Stefndi skaut ákvörðun stefnanda til kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi með kæru sem barst nefndinni þann 25. júlí 2006. Með úrskurði nefndarinnar 9. október 2006 í kærumáli nr. 10/2006 voru ákvarðanir stefnanda felldar úr gildi. Stefnandi undi þeim málalokum ekki og höfðaði hann því mál þetta með heimild í bráðabirgðaákvæði 10. gr. laga nr. 67/2006 um breytingar á lagaákvæðum um fjármálaeftirlit.
Af hálfu stefnda er krafa hans um að stefnanda verði synjað um að leggja fram í málinu dómskjöl nr. 36-98 byggð á því að skjölin séu allt of seint fram komin og að þau séu þýðingarlaus fyrir málið. Lög um meðferð einkamála byggi á því að með stefnu skuli stefnandi leggja fram öll skjöl er hann byggi kröfur sínar á og eigi því ekki að koma til framlagningar frekari gagna nema varnir stefnda gefi tilefni til þess. Þetta leiði af málsforræðisreglunni og reglum um jafnræði aðila fyrir dómi. Vísar lögmaður stefnda í þessu sambandi til g-liðar 80. gr., 1. og 2. mgr. 95. gr., 5. mgr. 101. gr. og 1. mgr. 124. gr. laga nr. 91/1991. Væri undirliggjandi í öllum framangreindum ákvæðum að málatilbúnaður stefnanda eigi að liggja fyrir í stefnu. Byggir stefndi á því að ekkert í vörnum stefnda, greinargerð hans né framlögðum gögnum af hans hálfu gefi tilefni til framlagningar dskj. 36-98. Verði ekki fallist á að umrædd skjöl séu of seint fram komin sé byggt á því að skjölin séu tilgangslaus í málinu og því beri að synja framlagningu þeirra. Vísar stefndi í því sambandi til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefndi byggir á því að málatilbúnaður í máli þessu fyrir dómi eigi að snúast um það hvort reglum stjórnsýslu hafi verið rétt beitt og hvort ákvörðun hafi verið tekin á réttum grundvelli. Stefndi byggir á því að skjöl þau er stefnandi hyggist leggja fram séu tilgangslaus vegna efnis þeirra sjálfra. Ekkert skjalanna stafi frá stefnda eða séu stíluð á stefnda og þá viti stefndi ekkert um þau viðskipti sem fram komi í skjölunum.
Af hálfu stefnda er krafa um að stefnanda verði synjað að leiða fyrir dóm þau vitni sem tilgreind eru á dskj. nr. 100 í veigamiklum atriðum byggð á sömu rökum og krafa hans um að synjað verði um framlagningu gagna sem rakin er að framan. Engar skýrslur þessara vitna hafi legið fyrir á stjórnsýslustigi málsins. Þá geti vitni þessi ekki borið efnislega um neitt til sönnunar varðandi sakarefni máls þessa., sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Þau geti aðeins borið um eigin viðskipti.
Stefnandi telur ágreining aðila í þessum þætti málsins snúast um það hvort umrædd dskj. nr.36-98 varði sakarefni málsins og hvort vitni þau er stefnandi hyggst leiða geti borið um sakarefnið. Sakarefni málsins sé takmörkun atkvæðisréttar í Sparisjóði Hafnarfjarðar og hvort stefnandi hafi lagt rétt mat á málið. Í málinu reyni m. a. á 2. mgr. 70. gr. laga um eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Stefnandi hafi skoðað allan bakgrunninn og tekið ákvarðanir. Það sé aðalatriði í máli þessu. Málið snúist um það hvort stefnanda hafi tekist að sýna fram á þetta samráð í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Í málinu sé byggt á því að stefndi hafi verið aðili að þessu samráði. Kærunefnd hafi talið stefnanda brjóta málsmeðferðarreglur. Um það snúist málið einnig. Stefndi hafi verið í stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar og tekið við greiðslu. Telji stefnandi því að öll skjölin á dskj. nr. 36-98 hafi þýðingu í málinu. Stefnandi kveður ekkert ákvæði í lögum um meðferð einkamála kveða á um að það þurfi að leggja öll skjöl fram þegar við þingfestingu. Þá viti stefnandi máls ekki fyrirfram hvað fram kemur í vörnum stefnda. Stefnandi byggir á því að umrædd gögn muni varpa ljósi á málið og ekki skipti máli að skjölin varði ekki stefnda. Þessi skjöl hafi stefnandi haft undir höndum er hann tók ákvarðanir þær er mál þetta stafar af og byggt á þeim.
Stefnandi byggir á því að engar takmarkanir séu á því að leiða vitni í málum er varða stjórnsýslu þótt viðkomandi vitni hafi ekki gefið skýrslu hjá stjórnvaldi. Vitnin þurfi á hinn bóginn að geta af eigin raun borið um málsatvik sem varða sakarefnið, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991. Sakarefni þessa máls sé hið víðtæka mat stefnanda á myndun virks eignarhluta í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Fyrirfram sé ekki hægt að fullyrða að vitnaleiðsla þessara tilteknu manna sé þarflaus eða þýðingarlaus fyrir sakarefni málsins.
II.
Öflun sýnilegra sönnunargagna hafði ekki verið lýst lokið er stefnandi lagði fram skjölin á dskj. nr. 36-98, sem hann gerði í fyrsta þinghaldi eftir að stefndi lagði fram sína greinargerð. Er ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að umrædd skjöl séu of seint fram komin, enda er heimilt samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að veita aðilum máls frest til framlagningar frekari gagna efir að stefndi hefur lagt fram greinargerð sína.
Öll þau skjöl sem stefnandi lagði fram á dskj. nr. 36-98 varða viðskipti með stofnfjárbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar, en mál þetta varðar slík viðskipti og ætlaða myndun virks eignarhluta í sparisjóðnum. Þótt skjölin varði stefnda ekki persónulega, varða þau þó sakarefnið óbeint og er fyrirfram er ekki unnt að útiloka að skjölin geti haft þýðingu í málinu. Ber því að heimila framlagningu skjalanna þrátt fyrir mótmæli stefnda.
Stefnandi hefur boðað að hann muni leiða fyrir dóminn til skýrslugjafar við aðalmeðferð málsins þau vitni sem tilgreind eru á vitnalista stefnanda á dskj. nr. 100. Með vitnisburði þessara vitna hyggst stefnandi reyna að freista þess að varpa frekara ljósi á málið í heild sinni. Ekki er unnt að útiloka fyrirfram að greind vitni geti borið um málsatvik, en meðal vitna þessara eru fyrrverandi og núverandi sparisjóðsstjórar Sparisjóðs Hafnarffjarðar, núverandi og fyrrverandi stofnfjáreigendur, fyrrum stjórnarmenn í Sparisjóði Hafnarfjarðar, fyrirsvarsmaður A-Holding sem stefnandi kveður hafa fjármagnað kaup á stofnfjárhlutum og starfsmaður Sparisjóðs vélstjóra, kaupanda. Ber því að heimila stefnanda að leiða fyrir dóm við aðalmeðferð málsins öll þau vitni sem hann tilgreinir á vitnalista sínum á dskj. nr. 100 og nafngreind eru í úrskurðarorði.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Stefnanda, Fjármálaeftirlitinu, skal vera heimilt að leggja fram í máli þessu dómskjöl þingmerkt nr. 36-98.
Stefnanda, Fjármálaeftirlitinu, skal vera heimilt að leiða fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins þau vitni sem tilgreind eru á vitnalista stefnanda á dskj. nr. 100, en þau eru: Þór Gunnarsson, Björn Ingi Sveinsson, Stefán Hilmarsson, Ragnar Z. Guðjónsson, Margrét Halldórsdóttir, Bragi Guðmundsson, Valgerður Guðmundsdóttir, Ágúst Böðvarsson, Sveinn Guðbjartsson, Trausti Lárusson, Páll Pálsson, Magnús Ægir Magnússon og Þórarinn Þorgeirsson.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.