Hæstiréttur íslands

Mál nr. 288/2017

Sigurður Eiríksson (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
Samskipum hf. (Lúðvík Örn Steinarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Fölsun
  • Ábyrgð
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Ómerkingarkröfu hafnað

Reifun

S hf. höfðaði mál á hendur A ehf. og SE til heimtu skuldar að nánar tilgreindri fjárhæð. Vegna greiðsluerfiðleika A ehf. var gefin út sjálfskuldarábyrgð til S hf. og var nafn SE ritað í reit sjálfskuldarábyrgðaraðila. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að A ehf. og SE bæru sameiginlega að greiða S hf. áðurnefnda skuld. SE áfrýjaði dóminum fyrir sitt leyti og krafðist aðallega að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Þá krafðist hann sýknu meðal annars á þeim grundvelli að undirritun sem fram kæmi á sjálfskuldarábyrgðinni líktist hans, en að hann hefði ekki undirritað hana, og að sjálfskuldarábyrgðin hefði ekki verið í þágu atvinnurekstrar hans eða honum til fjárhagslegs ávinnings. Í dómi Hæstaréttar kom fram að engin haldbær rök hefðu verið færð fram hvorki fyrir frávísun málsins né ómerkingu þess og var þeim kröfum því hafnað. Að því er varðaði kröfu SE um sýknu kom fram að SE hefði verið eigandi helmings hlutafjár í A ehf., stjórnarformaður félagsins og ritaði firma þess. Leiddi það líkum að því að með sjálfskuldarábyrgð þeirri sem um hefði verið deilt í málinu hefði áfrýjandi umrætt sinn undirgengist ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar og hefði ekki hnekkt þeim líkum. Að þessu gættu staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Ásmundur Helgason landsréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. maí 2017. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu krefst hann sýknu af kröfum stefnda. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Svo sem greinir í héraðsdómi höfðaði stefndi mál á hendur  Atlantic bio diesel ehf. og áfrýjanda til greiðslu  skuldar að fjárhæð 2.482.746 krónur. Áfrýjandi var stofnandi félagsins ásamt tveimur öðrum einstaklingum og sat um tíma í stjórn þess. Hann fór einn með prókúru félagsins, ritaði firma þess og kom fram sem fyrirsvarsmaður félagsins gagnvart stefnda. Áfrýjandi lagði félaginu í upphafi til helming hlutafjár þess um 250.000 krónur en félagið var úrskurðað gjaldþrota 25. febrúar 2016. Vegna greiðsluerfiðleika félagsins var gefin út sjálfskuldarábyrgð 20. júní 2013 til stefnda og var nafn áfrýjanda ritað í reit sjálfskuldarábyrgðaraðila.

Eins og að framan greinir er aðalkrafa áfrýjanda sú að málinu verði vísað frá dómi. Þá kröfu hafði hann einnig uppi í héraði en henni hafnaði dómurinn með úrskurði 11. júní 2015. Frávísunarkröfuna styður áfrýjandi þeim rökum að enginn fyrirsvarsmaður stefnda sé tilgreindur í stefnu, sbr. b-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þetta hafði engin áhrif á getu áfrýjanda til að halda uppi vörnum, en samkvæmt gögnum málsins lagði stefndi fram útskrift úr hlutafélagaskrá með upplýsingum um fyrirsvarsmann stefnda  21. maí 2015. Veldur þessi ágalli ekki frávísun málsins.

Áfrýjandi  byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að við meðferð málsins í héraði hafi verið brotið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar. Með því að endurupptaka málið eftir dómtöku þess með vísan til 104. gr. laga nr. 91/1991 og gefa aðilum færi á að leggja fram frekari gögn hafi verið brotið gegn meginreglu einkamálaréttarfars um málsforræði, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Við endurupptöku málsins bar þess að gæta að fyllsta jafnræðis væri gætt. Báðum aðilum var gefinn kostur á að afla frekari gagna, fyrst og fremst matsgerðar til að ganga úr skugga um falsleysi undirritunar á sjálfskuldarábyrgðinni, fundargerða félagsins og eftir atvikum annarra gagna sem þeir teldu ástæðu til að leggja fram.

Varakröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms styður áfrýjandi sömu málsástæðum  sem færðar eru fram til stuðnings aðalkröfunni. Samkvæmt því sem að framan greinir hafa engin haldbær rök verið færð fram hvorki fyrir frávísun málsins né ómerkingu þess og verður þeim kröfum því hafnað.

Eins og áður greinir var áfrýjandi eigandi helmings hlutafjár í Atlantic bio diesel ehf., stjórnarformaður félagsins og ritaði firma þess. Leiðir það líkum að því að með sjálfskuldarábyrgð þeirri sem um er deilt í málinu hafi áfrýjandi umrætt sinn undirgengist ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar. Áfrýjandi hefur ekki hnekkt þeim líkum. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um greiðsluskyldu áfrýjanda gagnvart stefnda með dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði enda hefur upphafstíma þeirra ekki verið andmælt.

Í ljósi niðurstöðu málsins ber áfrýjanda að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um greiðsluskyldu áfrýjanda, Sigurðar Eiríkssonar, gagnvart stefnda, Samskipum hf.

Áfrýjandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2017.

I.

   Mál þetta var höfðað 27. febrúar 2015 og dómtekið 28. apríl 2017.

   Stefnandi er Samskip ehf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík, en stefndu eru Atlantic bio diesel ehf., Auðbrekku 6, Kópavogi og Sigurður Eiríksson, til heimilis að Breiðbraut 669, Reykjanesbæ.

   Stefnandi krefst þess að stefndu, Atlantic bio diesel ehf. og Sigurður Eiríksson, verði dæmdir sameiginlega til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.482.746 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 397.751 krónu frá 12. apríl 2013 til 1. júní 2013, af 1.509.648 krónum frá 1. júní 2013 til 25. júní 2013, af 1.835.490 krónum frá 25. júní 2013 til 26. júní 2013, af 1.864.024 krónum frá 26. júní 2013 til 30. júní 2013, af 2.049.458 krónum frá 30. júní 2013 til 31. júlí 2013, af 2.254.760 krónum frá 31. júlí 2013 til 31. ágúst 2013, af 2.454.810 krónum frá 31. ágúst 2013 til 1. febrúar 2014, af 2.482.746 krónum frá 1. febrúar 2014 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

   Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

II.

Í máli þessu er deilt um greiðslu á 11 reikningum, samtals að fjárhæð 2.084.995 krónur, sem stefnandi gaf út á hendur stefnda Atlantic bio diesel ehf. á tímabilinu 12. apríl 2013 til 1. febrúar 2014, vegna reikningsviðskipta stefnda Atlantic bio diesel ehf. hjá stefnanda. Annaðist stefnandi, m.a. flutning á eldsneyti o.fl. vörum fyrir hið stefnda félag.

   Tilgangur Atlantic bio diesel ehf. var framleiðsla á olíu og eldsneyti. Félagið hefur verið tekið gjaldþrotaskipta.

   Stefndi Sigurður var hluthafi og stjórnarformaður stefnda Atlantic bio diesel ehf. á þeim tíma sem ritað var undir sjálfskuldarábyrgðina. Hann fór einn með prókúru félagsins og ritaði firma þess ásamt framkvæmdastjóra.

   Vegna greiðsluerfiðleika stefnda, Atlantic bio diesel ehf. gagnvart stefnanda, var gefin út sjálfskuldarábyrgð, dags. 20. júní 2013, til stefnanda og er nafn stefnda Sigurðar Eiríkssonar ritað í reit sjálfskuldarábyrgðaraðila. Einnig er nafn Sigurðar ritað undir sem prókúruhafi stefnda Atlantic bio diesel ehf. Hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar nam 3.000.000 króna.

   Aðrir reitir sjálfskuldarábyrgðarinnar eru fylltir út með prentskrift, m.a. nafn Sigurðar Eiríkssonar, Lundabrekku 4, og Atlantic bio diesel ehf.

   Sjálfskuldarábyrgðin er vottuð af tveimur vottum. Annar þeirra er innheimtustjóri stefnanda, Björk Ágústsdóttir. Hinn votturinn er Hróar Örn Jónsson. Hann var starfsmaður stefnanda á þeim tíma sem hann vottaði skjalið.

   Stefnandi sendi stefndu innheimtubréf í pósthólf stefnda Atlantic bio diesel ehf. og á heimili stefnda Sigurðar Eiríkssonar, dags. 10. september 2014 og 17. desember 2014.

   Með matsbeiðni, dags. 1. apríl 2016, fór lögmaður stefnanda fram á að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur maður til þess að skoða, rannsaka og meta undirskrift á sjálfskuldarábyrgðinni og segja til um hvort „nafnritun neðarlega á skjalinu, þar sem stendur „undirritun sjálfskuldarábyrgðaraðila“ [sé] gjörð af matsþola“.

   Í þinghaldi, 3. júní 2016, var Lúðvík Emil Kaaber, hdl. og rithandarsérfræðingur, dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Haldnir voru tveir matsfundir. Matsmaður aflaði rithandarsýna hjá stefnda Sigurði Einarssyni til samanburðar við hina vefengdu nafnritun á sjálfskuldarábyrgðinni. Einnig hafði matsmaður til hliðsjónar tvö útrunnin greiðslukort Sigurðar og atvinnuskírteini skipstjórnarmanna útgefið til hans, þar sem nafnritun hans kom fram. Matsmaður tekur fram að hann hafi einkum stuðst við sýni af nafnritun stefnda Sigurðar sem voru látin í té á matsfundi 28. september 2016.

   Matsmaður telur að hin vefengda nafnritun á sjálfskuldarábyrgðinni sé „útfærð og sýnir ekki merki stælingar eða eftirgerðar. Um handskrift er að ræða en ekki teikningu, en það sé forsenda þess að sýnið megi bera saman við B.“

   Í niðurlagi matsgerðarinnar, dags. 7. nóvember 2016, segir svo: „Það er mitt mat og álit, að samræmi sé milli hinnar vefengdu nafnritunar og þeirra óvefengdu sýna sem athuguð hafa verið. Sé þar um að ræða einkenni sem benda til sameiginlegs uppruna beggja, og atriði skorti, sem eigi rætur að rekja til mismunandi uppruna.“

   Er það niðurstaða matsmanns að „undirritun sjálfskuldarábyrgðaraðila á dómsskjali nr. 4, … og nafnritanir á fskj. 1 með matsgerð þessari, séu verk sama manns, með öðrum orðum, að Sigurður Eiríksson hafi ritað nafnritun sína á umræddan stað á dómsskjalinu eigin hendi“.

   Við aðalmeðferð málsins lagði stefndi Sigurður fram upplýsingar úr hlutafélagaskrá, sem miðuðust við 20. júní 2013 og ljósrit af þágildandi samþykktum fyrir Atlantic bio diesel ehf., dags. 7. desember 2012. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í hlutafélagaskránni var stefndi Sigurður stjórnarformaður félagsins 7. desember 2012 og með prókúruumboð, en framkvæmdastjórn var í höndum Lars Ingemar Sund. Þar kemur einnig fram að á þessum tíma hafi, formaður stjórnar ásamt framkvæmdastjóra ritað firmað.

   Við aðalmeðferð málsins lagði, stefndi Sigurður einnig fram samþykktir fyrir Atlantic bio diesel ehf. sem voru í gildi á þeim tíma þegar sjálfskuldarábyrgðin var undirrituð. Samkvæmt þeim þurfti undirskrift formanns stjórnar og framkvæmdastjóra stjórnar til að skuldbinda félagið.

   Skýrslur fyrir dóminum gáfu Sigurður Eiríksson, Björk Ágústsdóttir, Hróar Örn Jónsson og Lúðvík Emil Kaaber. 

   Stefndi Sigurður Eiríksson tók m.a. fram að hann hefði ekki fengið neinar greiðslur frá Atlantic bio diesel ehf. Hann hafi seinna selt hlut sinni í félaginu og það hafi síðar farið í gjaldþrot. Stefndi kvað Atlantic bio diesel ehf. hafa flutt inn olíu með Samskipum hf. Hann kvaðst hafa verið mikið í samskiptum við Samskip hf. Það hafi aldrei staðið til að hann tæki á sig ábyrgð á skuldbindingum félagsins. Kvaðst hann ekki hafa undirritað sjálfskuldarábyrgðina. Undirritunin líktist mjög undirritun hans en hann hafi ekki undirritað skjalið. Nafnið á skjalinu sé skrifað eins og hann hafi gert það. Tók hann fram að hann hafi ekki skrifað undir skjalið í votta viðurvist eins og haldið hafi verið fram. Um prentskriftina sem fram komi á sjálfskuldarábyrgðinni tók stefndi fram að hann hefði ekki fyllt út þann reit. Hann kvaðst ekki geta svarað því hvort prentskriftin sem þar kæmi fram væri lík hans eigin prentskrift.

   Björk Ágústsdóttir, innheimtustjóri hjá Samskipum hf., kvaðst hafa verið í samskiptum við stefnda Sigurð. Félagið hafi verið komið í vanskil og því hafi ekki verið heimilt að afhenda vörur sem félagið pantaði. Sigurði hafi því verið boðin sjálfskuldarábyrgð. Hann hafi komið og skrifað undir ábyrgðina á skrifstofu hennar. Kvað hún Sigurð hafa komið fram sem fyrirsvarsmaður Atlantic bio diesel ehf. gagnvart henni. Hann hafi einnig skrifað undir fyrir hönd Atlantic bio diesel ehf. Vitnið kvaðst hafa óskað eftir því við vitnið Hróar að hann vottaði sjálfskuldarábyrgðina eftir að Sigurður var farinn. Hún telur að Hróar hafi séð Sigurð skrifa undir í gegnum glervegg á skrifstofu hennar.

   Vitnið Hróar Örn Jónasson vann á þessum tíma hjá Samskipum en lét af störfum fyrir þremur og hálfu ári. Hann starfaði á þessum tíma í innheimtudeild með vitninu Björk Ágústsdóttur. Hann tók fram að stefndi Sigurður væri mágur móður hans. Hann kvaðst muna vel þegar Sigurður kom til þess að skrifa undir sjálfskuldarábyrgðina. Hann kvaðst ekki hafa séð Sigurð skrifa undir skjalið með eigin hendi og hann hafi vottað skjalið í beinu framhaldi af því að stefndi Sigurður hafði verið á skrifstofu Bjarkar. Þá kvaðst hann hafa þekkt málið og vitað af skuldinni. Hann hafi verið búinn að hringja í Sigurð áður og senda honum smáskilaboð. Samskiptin hafi farið fram í gegnum Sigurð.

   Lúðvík Emil Kaaber, dómkvaddur matsmaður, kvaðst hafa haft frumrit ábyrgðarskuldbindingarinnar undir höndum. Hann hafi fengið rithandarsýnishorn hjá Sigurði og borið það saman við rithönd sem fram komi á sjálfskuldarábyrgðinni. Hann kvaðst ekki hafa skoðað prentskriftina á sjálfskuldarábyrgðinni. Hann gæti ekki sagt til um hvort Sigurður ætti prentskriftina sem þar væri.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefndu á ógreiddum reikningum vegna reikningsviðskipta stefnda, Atlantic bio diesel ehf., hjá stefnanda. Stefndi Sigurður Eiríksson hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna viðskipta Atlantic bio diesel ehf. Stefnandi hafi ekki fengið skuld sína greidda þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé honum nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

   Við aðalmeðferð málsins mótmælti stefnandi þeim málsástæðum stefnda Sigurðar að hann hafi, samkvæmt samþykktum félagsins sem lagðar voru fram við aðalmeðferð málsins, ekki haft heimildir til að skuldabinda Atlantic bio diesel ehf. sem of seint fram komnum.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda Sigurðar Eiríkssonar

Stefndi reisir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á þeim grundvelli að hann kannist ekki við að hafa undirritað sjálfskuldarábyrgðina. Hann kannist þó við að stefnandi hafi ítrekað reynt að fá hann til að undirrita ábyrgð á skuld meðstefnda, en því hafi hann hafnað. Stefndi telur útilokað að þeir vottar sem riti undir skjalið geti borið áreiðanlegt vitni um að hann hafi skrifað undir skjalið. Annar votturinn, Björg Ágústsdóttir, sé innheimtustjóri stefnanda. Hinn vottinn, Hróar Örn Jónsson, hafi stefndi aldrei hitt. Þar sem stefndi kannist ekki við undirskrift sína á skjalinu geti skjalið ekki bundið hann samkvæmt efni sínu. Því beri að sýkna hann af kröfu stefnanda.

   Í öðru lagi reisir stefndi kröfu sýna um sýknu á því að meint ábyrgð sé ógild, þar sem ekki hafi verið gætt fyrirmæla laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 við stofnun hennar. Vísar stefndi til 4., 5. og 7. gr. laganna.

   Stefndi tekur fram að ábyrgðin hafi ekki verið í þágu atvinnurekstrar hans eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Um aðkomu hans að Atlantic bio diesel ehf. tekur stefndi fram að hann hafi lagt félaginu til stofnfé árið 2012. Hann hafi ekki þegið laun frá félaginu. Hann hafi ekki starfað hjá félaginu en hafi gegnt trúnaðarstörfum tímabundið. Starf hans fyrir félagið hafi falist í því að útvega félaginu fjármagn.

   Bendir stefndi á að samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn sé heimilað að víkja ábyrgð til hliðar í heild á grundvelli 36. gr. samningalaga. Þar sem stefndi hafi ekki farið eftir skilyrðum laga nr. 32/2009 beri að fella ábyrgð stefnda niður á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera ábyrgðina fyrir sig undir slíkum kringumstæðum.

   Stefndi telur einnig að ákvæði 36. gr. a-d í samningalögum eigi við. Um sé að ræða staðlaða ábyrgðarskilmála í starfsemi stefnanda. Efni þeirra hafi í engu verið tilkynnt stefnda. Ábyrgðinni beri því að víkja til hliðar verði talið að hún sé til staðar.

   Við aðalmeðferð málsins bar stefndi því einnig við að hann teldi með vísan til samþykkta félagsins, sem hann lagði fram við upphaf aðalmeðferðar og voru í gildi á þeim tíma sem sjálfskuldarábyrgðin var undirrituð, að hann sem stjórnarformaður félagsins, hafi ekki getað skuldbundið félagið einn þar sem hvort tveggja stjórnarformann og framkvæmdastjóra hafi þurft til þess að skuldbinda það. Stefndi hafi ekki verið framkvæmdastjóri félagsins. Hvorki félagið né stefndi séu því bundnir við ábyrgðina.

IV.

Niðurstaða

Mál þetta er höfðað til innheimtu á skuld stefnda, Atlantic bio diesel ehf. vegna reikningsviðskipta félagsins hjá stefnanda á tímabilinu 12. apríl 2013 til 1. febrúar 2014.

   Félagið hefur ekki tekið til varna í málinu. Er ágreiningslaust að félagið ber sem viðskiptamaður stefnanda ábyrgð á greiðslu skuldarinnar. Verður krafa stefnanda á hendur félaginu því tekin til greina eins og hún er sett fram.

   Stefnandi reisir kröfu sína á hendur stefnda, Sigurði Eiríkssyni, á því að hann beri sjálfskuldarábyrgð vegna viðskipta Atlantic bio diesel ehf. Því til stuðnings vísar stefnandi til yfirlýsingar stefnda um sjálfskuldarábyrgð til trygginga á öllum skuldum félagsins við stefnanda, dags. 20. júní 2013. Er hámarksfjárhæð sjálfskuldarábyrgðarinnar tilgreind 3.000.000 króna.

   Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að hann hafi ekki ritað nafn sitt undir sjálfskuldarábyrgðina. Bar stefndi fyrir dóminum að undirritun sem fram kæmi í yfirlýsingunni líktist hans, en hann hefði ekki undirritað hana. Einnig telur stefndi að hin meinta ábyrgð sé ógild þar sem ekki hafi verið gætt að lögum nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, en hún hafi ekki verið í þágu atvinnurekstrar hans eða honum til fjárhagslegs ávinnings. Einnig byggir stefndi sýknukröfu sína á 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks bar stefndi því við þegar aðalmeðferð málsins fór fram að hann hefði ekki getað skuldbundið félagið einn þar sem stjórnarformann og framkvæmdastjóra hafi þurft til að rita firma félagsins.

   Fallast verður á það með stefnanda málsins að þeirri málsástæðu stefnda sem fyrst var borin upp við aðalmeðferð málsins, að hvort tveggja stjórnarformann og framkvæmdastjóra hafi þurft til þess að skuldbinda félagið, sé of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kemur hún því ekki til frekari skoðunar.

   Sjálfskuldarábyrgðin er vottuð af Björk Ágústsdóttur, innheimtustjóra stefnanda, og Hróari Erni Jónassyni, þáverandi starfsmanni stefnanda. Kveður Björk stefnda hafa ritað nafn sitt undir sjálfskuldarábyrgðina á skrifstofu hennar að henni viðstaddri. Það hafi verið forsenda þess að Atlantic bio diesel ehf. fengi vörur innleystar að stefndi ritaði undir sjálfskuldarábyrgðina. Hróar kvaðst hafa vottað ábyrgðina í beinu framhaldi af því að stefndi ritaði undir hana. Vitnið kvaðst ekki hafa séð stefnda rita undir ábyrgðina með eigin hendi, en hann hafi séð stefnda koma til að skrifa undir hana.

   Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, Lúðvíks Emils Kaaber. Er það niðurstaða matsmanns, með vísan til rithandarsýna sem matsmaður aflaði hjá stefnda á matsfundi til samanburðar við hina vefengdu nafnritun sem fram kemur á ábyrgðaryfirlýsingunni, að stefndi Sigurður Eiríksson hafi ritað nafn sitt á sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsinguna.

   Samkvæmt framansögðu og að virtum gögnum málsins og skýrslum vitna fyrir dóminum telur dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómsmanni, sannað að stefndi Sigurður Eiríksson hafi ritað með eigin hendi undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á öllum skuldum félagsins við stefnanda, dags. 20. júní 2013. Er þeirri málsástæðu stefnda því hafnað að hann hafi ekki ritað nafn sitt undir sjálfskuldarábyrgðina.

   Víkur þá að þeim málsástæðum stefnda um að ábyrgð hans sé ógild þar sem ekki hafi verið gætt laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn.

   Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 taka lögin til þess þegar einstaklingur gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans.

   Stefndi, Sigurður Eiríksson, var einn af þremur hluthöfum félagsins og var samkvæmt upplýsingum í hlutafélagaskrá, stjórnarformaður og prókúruhafi og fór með heimild til að rita firma, Atlantic bio diesel ehf., þegar hann gekkst í persónulega ábyrgð fyrir efndum félagsins. Gagnvart stefnanda kom hann fram í samræmi við opinbera skráningu í hlutafélagaskrá og ekkert bendir til annars en að stefndi hafi verið að taka á sig ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar þegar hann gekkst í ábyrgð vegna allra skulda félagsins sem hann var í fyrirsvari fyrir. Ekki er því unnt að fallast á að stefndi geti borið fyrir sig, eftir að hafa stofnað til ábyrgðarskuldbindingar á þessum forsendum, að ábyrgðin hafi ekki verið í þágu atvinnurekstrar hans og að af þeim sökum hafi stefnandi átt að fylgja fyrirmælum laga nr. 32/2009. Því ber að hafna þessari málsástæðu stefnda.

   Stefndi reisir málsókn sína einnig á því að heimilt sé að víkja ábyrgðinni til hliðar í heild á grundvelli 36. gr. samningalaga, sbr. ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 32/2009, og 36. gr. samningalaga, stafliða a-d.

   Samkvæmt greindu bráðabirgðaákvæði með lögum nr. 32/2009 er heimilt að víkja ábyrgð til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og að teknu tilliti til þeirra atvika er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði ofl. nr. 125/2008. Telur stefndi að þar sem stefnandi hafi ekki gætt ákvæða laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, sé ljóst að fella beri ábyrgð hans niður á grundvelli 36. gr. samningalaga auk þess sem ákvæði 36. gr. a-d í samningalögum gildi einnig um lögskipti málsaðila þar sem um sé að ræða staðlaða ábyrgðarskilmála í starfsemi stefnanda og lið í atvinnurekstri hans.

   Umrætt bráðabirgðaákvæði tekur til laga 32/2009, um ábyrgðarmenn. Áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að þau lög hafi ekki gilt um stefnda. Ábyrgð stefnda verður því ekki felld niður á grundvelli þess ákvæðis.

   Yfirlýsing stefnda um sjálfskuldarábyrgð hans var vegna starfsemi félags sem hann var í fyrirsvari fyrir. Stefndi var stjórnarmaður félagsins, hluthafi, fór með prókúru þess og ritaði firma. Er því ljóst að stefnda var kunnugt um þær skuldbindingar sem hann gekkst undir með yfirlýsingu sinni og þýðingu þeirra.

   Við mat á því hvort samningi skuli vikið til hliðar í heild eða að hluta með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936, vegna þess að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, skal samkvæmt 2. mgr. greinarinnar líta til nokkurra þátta sem þar eru nánar tilgreindir. Efni umrædds samnings og staða aðila við samningsgerð hafa verið rædd hér að framan. Hvorki þessi atriði né önnur atvik við samningsgerð þykja gefa nægjanlegt tilefni til að beita umræddu ákvæði.

   Varðandi þá málsástæðu stefnda að víkja beri ábyrgð hans til hliðar með vísan til 36. gr., a-d-liða, í lögum nr. 7/1936 verður ekki séð að stefndi geti talist neytandi í skilningi ákvæðanna. Af því leiðir að ekki verður talið að stefnanda hafi borið að kynna honum sérstaklega ábyrgðarskilmálana eða að greind ákvæði eigi við að öðru leyti um ábyrgð stefnda. Þessari málsástæðu stefnda er því hafnað.

   Dómkröfur stefnanda á hendur stefndu eru því teknar til greina með þeirri fjárhæð sem í stefnu greinir.

   Stefnandi krefst dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni frá gjalddaga hinna umstefndu reikninga. Ber að fallast á þá kröfu með vísan til 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, á þann hátt sem greinir í dómsorði.

   Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 650.000 krónur. 

   Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan, ásamt meðdómsmönnunum Pétri Dam Leifssyni, settum héraðsdómara og Haraldi Árnasyni, rithandarsérfræðingi.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Atlantic bio diesel ehf. og Sigurði Eiríkssyni, ber sameiginlega að greiða stefnanda, Samskipum hf. skuld að fjárhæð 2.482.746 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 397.751 krónu frá 12. apríl 2013 til 1. júní 2013, af 1.509.648 krónum frá 1. júní 2013 til 25. júní 2013, af 1.835.490 krónum frá 25. júní 2013 til 26. júní 2013, af 1.864.024 krónum frá 26. júní 2013 til 30. júní 2013, af 2.049.458 krónum frá 30. júní 2013 til 31. júlí 2013, af 2.254.760 krónum frá 31. júlí 2013 til 31. ágúst 2013, af 2.454.810 krónum frá 31. ágúst 2013 til 1. febrúar 2014, af 2.482.746 krónum frá 1. febrúar 2014 til greiðsludags.

Stefndu ber sameiginlega að greiða stefnanda 650.000 krónur í málskostnað.