Hæstiréttur íslands

Mál nr. 131/2002


Lykilorð

  • Skuldamál
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. október 2002.

Nr. 131/2002.

Kjötumboðið hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Þorleifi Hjaltasyni

(Jón Hjaltason hrl.)

 

Skuldamál. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Þ hafði höfðað mál þetta til innheimtu skuldar samkvæmt tveimur afreikningum. Í greinargerð K sem lögð var fram í héraði kom meðal annars fram að hann hafi rekið sláturhús og kjötvinnslu og keypt sláturafurðir af Þ. Hafi aðilarnir átt með sér viðskipti um nokkra hríð og væru þeir tveir afreikningar, sem Þ krafðist greiðslu á, aðeins hluti þeirra viðskipta. Þ gat fyrri viðskipta aðilanna í engu er hann höfðaði málið til innheimtu afreikninganna tveggja, sem tóku þó aðeins til hluta viðskiptanna. Staðhæfing K um stöðu viðskiptanna var ekki studd viðhlítandi gögnum þegar málið var tekið til dóms í héraði. Þótt nokkuð hafi verið úr þessu bætt fyrir Hæstarétti skorti enn á að staðhæfingar hans í þeim efnum væru studdar fullnægjandi gögnum og skýringum. Þ hafði á engu stigi málsins tekið afstöðu til stöðu reikningsviðskipta aðilanna í heild eða fært að því rök að hann mætti heimta greiðslur úr hendi K vegna fyrrgreindra tveggja afreikninga án tillits til stöðu viðskiptareiknings þeirra. Þegar alls þessa var gætt var málið svo vanreifað af hálfu Þ að óhjákvæmilegt var að vísa því af þeim sökum sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2002. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að því verði vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að krafa stefnda á hendur sér verði lækkuð um 427.518 krónur vegna skuldajafnaðar og verði hann þannig dæmdur til að greiða stefnda 232.375 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. ágúst 2001 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi höfðaði mál þetta 29. ágúst 2001. Krafðist hann þess að áfrýjandi  greiddi sér skuld samkvæmt tveimur afreikningum, sem sá síðarnefndi hefði gefið út, samtals að fjárhæð 659.893 krónur ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Er þessu nánar lýst svo í stefnu að um sé að ræða skuld samkvæmt tveimur afreikningum, öðrum dagsettum 17. maí 2001 að fjárhæð 242.692 krónur en hinum dagsettum 5. apríl sama árs að fjárhæð 417.201 króna. Samtals nemi fjárhæð þessara afreikninga 659.893 krónum, sem myndi stefnukröfuna. Þar sem innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur sé málið höfðað.

Áfrýjandi lagði fram greinargerð í héraði 16. október 2001. Þar kom meðal annars fram að hann hafi rekið sláturhús og kjötvinnslu undanfarin misseri og keypt sláturafurðir af stefnda. Hafi aðilarnir átt með sér viðskipti um nokkra hríð og séu þeir tveir afreikningar, sem stefnukröfuna mynda, aðeins hluti þeirra viðskipta. Taldi áfrýjandi sig standa í skuld við stefnda um 232.375 krónur þegar viðskipti aðilanna væru metin í heild sinni.

Eins og ráðið verður af framansögðu tók stefndi ekkert tillit til fyrri viðskipta aðilanna og gat þeirra í engu þegar hann höfðaði mál þetta til innheimtu afreikninganna tveggja, sem tóku þó aðeins til hluta viðskiptanna. Staðhæfing áfrýjanda um stöðu viðskiptanna var ekki studd viðhlítandi gögnum þegar málið var tekið til dóms í héraði. Þótt nokkuð hafi verið úr þessu bætt fyrir Hæstarétti skortir enn á að staðhæfingar hans í þeim efnum séu studdar fullnægjandi gögnum og skýringum. Hvað sem því líður hefur stefndi á engu stigi málsins tekið afstöðu til stöðu reikningsviðskipta aðilanna í heild eða fært að því rök að hann megi heimta greiðslur úr hendi áfrýjanda vegna fyrrgreindra tveggja afreikninga án tillits til stöðu viðskiptareiknings þeirra.

Þegar alls þessa er gætt er málið svo vanreifað af hálfu stefnda að óhjákvæmilegt er að vísa því af þeim sökum sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2001.

Mál þetta var höfðað 29. ágúst 2001 og dómtekið 17. þ.m.

Stefnandi er Þorleifur Hjaltason, kt. 231030-3019, Hólum, Hornafirði.

Stefndi er Kjötumboðið hf. (áður Goði hf.), Kirkjusandi, Reykjavík. 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 659.893 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. apríl 2001 af 417.201 krónu til 17. maí s.á. en af 659.893 krónum frá þeim degi til greiðsludags auk máls­kostnaðar.

Stefndi krefst þess að krafa stefnanda á hendur stefnda verði lækkuð um 427.518 krónur þannig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 232.375 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. ágúst 2001 til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Upphaflegri aðalkröfu stefnda um frávísun málsins var hafnað með úrskurði 10. þ.m.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda innheimtubréf 17. ágúst 2001.

Stefndi hefur rekið sláturhús og kjötvinnslu og keypt sláturafurðir af stefnanda.  Hann fékk í lok júlí 2001 heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til greiðslustöðvunar sem var framlengd til 20. nóvember og hefur eftir það fengið leyfi til að leita nauða­samninga.

Stefnandi kveður umstefnda skuld vera samkvæmt tveimur afreikningum, öðrum nr. 011779, dags. 5. apríl 2001 að upphæð 417.201 króna og hinum nr. 011516, dags. 17. maí 2001 að upphæð 242.692 krónur.  Hann vísar til reglna kröfuréttar og samningsréttar, 36. gr. 1. mgr. laga nr. 91/1991  og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.

Umstefndir reikningar liggja frammi og er réttmæti þeirra ekki andmælt af hálfu stefnda.  Á reikning, dags. 5. apríl 2001 að upphæð 417.201 króna, er skráð að hann skuli greiðast að fullu 20. ágúst 2001.  Á reikning, dags. 17. maí 2001 að upphæð 242.692 krónur, er skráð að hann skuli greiðast að fullu 20. júlí 2001.

Stefndi hefur lagt fram skjal sem sýnir inneign stefnanda hjá honum 30. júní 2001 að upphæð 232.375 krónur og hann kveður vera reikningsyfirlit pr. 30. júní 2001.  Krafa stefnda um lækkun á kröfu stefnanda er reist á skuldajafnaðarkröfu að upphæð 427.518 krónur á grundvelli þess.  Skjal þetta ber ekki með sér frá hverjum það stafar, það hefur enga undirskrift, er ekki stutt neinum gögnum og ekki verður séð að stefnanda hafi verið sent afrit þess eða yfirlit um stöðu miðað við áramót.  Krafan er samkvæmt því svo óljós að eigi er unnt að fallast á  skuldajöfnun.

Samkvæmt framangreindu er niðurstaða málsins sú að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda 659.893 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 242.692 krónum frá 20. júlí 2001 til 20. ágúst s.á. en af 659.893 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Stefndi greiði stefnanda. 150.000 krónur í málskostnað.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, Kjötumboðið hf., greiði stefnanda, Þorleifi Hjaltasyni, 659.893 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 242.692 krónum frá 20. júlí 2001 til 20. ágúst s.á. en af 659.893 krónum frá þeim degi til greiðsludags. 

Stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.